föstudagur, mars 28, 2003

Grease

Verkmenntaskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólanum 28. mars 2003.

Höfundar: Jim Jacobs og Warren Casey
Leikstjóri: Þorsteinn Bachmann
Tónlistarstjóri: Arnór Vilbergsson.

Gúmmítöffarar

GREASE hverfist um samdrátt ofurtöffarans Danny Zuko og sakleysingjans Sandy Dumbrowsky, en dvelur ótrúlega lítið við þetta aðalefni sitt. Miklu meiri tíma er varið í að lýsa töffaraklíku Dannys og stúlknagerinu í kringum það, dansa og syngja - að miklu leyti án þátttöku Sandyar. Einkennilega upp byggður söngleikur en skemmtileg rokktónlistin og kostulegar týpurnar bæta það upp. Parið er vel leikið og sungið af Sigursveini Þór Árnasyni og Rósu Björg Ásgeirsdóttur. Sigursveinn fær úr öllu meiru að moða og nýtir sér það svikalaust, dansar til dæmis sérlega vel. Þá er Sunna Valgerðardóttir verulega góð sem Rizzo, og nánast sú eina sem skilar söngtextum svo hvert orð skilst.

Sýning Verkmenntaskólans er kraftmikil og fjörug, tónlist og dans ágætlega leyst. Svo skemmtilega vill til að þétt og vel spilandi hljómsveitin er að mestu skipuð kennurum, en slík þátttaka kennara í leiklistarstarfi skólans er að ég held einsdæmi en vissulega til fyrirmyndar.

Það sem einna helst stendur í vegi fyrir því að sýningin verði eins áhrifamikil og hún gæti verið er sú leið sem leikstjórinn hefur valið. Hann lætur leikarana, sérstaklega strákana, ýkja töffarastælana upp úr öllu valdi. Það skilar nokkrum hlátrarsköllum í byrjun en verður síðan afar hvimleitt og stendur í vegi fyrir persónusköpun og samkennd okkar með persónunum. Einnig gegnir furðu sviðsetning hans á eina tveggja manna atriði Sandy og Danny, en hann lætur þau snúa baki í áhorfendur, við sjáum einungis skuggamynd af þeim og þau tala í hljóðnema. Eina tækifærið sem við höfum til að fylgjast með sambandi þeirra fer því fyrir lítið.

Þrátt fyrir þessa annmarka er vel hægt að hafa gaman af sýningunni, sérstaklega tónlistinni og skemmtilegum hópatriðunum. Söngleikjahefðin er á réttri leið í Verkmenntaskólanum og gaman verður að fylgjast með frekari framgangi hennar.

fimmtudagur, mars 27, 2003

Chicago

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
Samkomuhúsinu á Akureyri 27. mars 2003.

Höfundar: Fred Ebb, John Kander og Bob Fosse
Þýðandi: Flosi Ólafsson
Leikstjóri: Laufey Brá Jónsdóttir
Tónlistarstjórn: Björn Þórarinsson og Helgi Vilberg Helgason
Lýsing: Róbert Lee Evensen.

Skítapakk

ÞAÐ er heldur hráslagalegur heimur sem birtist okkur í Chicago. Þegar Roxie Hart myrðir elskhuga sinn og mistekst að koma sökinni á vitgrannan eiginmanninn leitar hún til Billy Flynn, lögfræðings sem telur frægðina fremur en lagaklæki vera leiðina undan snörunni. Þetta er frumlegur söngleikur að forminu til, engin eiginleg sviðsmynd en leikhópur og hljómsveit sameinast um að segja söguna. Verulega skemmtilegt verk þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á skapandi hátt. Tónlistin grípandi og þýðing Flosa er frábær, að mínu mati hans besta. Eins gott að söngtextar komust vel til skila að þessu sinni.

Sýning LMA er hreint afbragð. Laufey Brá og hennar fólk hefur komist ótrúlega langt með að gera öllum þáttum þessa krefjandi verks skil. Tónlist er fantavel flutt bæði af hljómsveit og söngvurum, sviðsetningin er hugmyndarík og lifandi, leikur kraftmikill og sjálfsöruggur og þó öryggið í snjöllum dansatriðunum sé ekki alveg jafn mikið breytir það engu því verkið er skemmtilegt og persónurnar áhugaverðar þó fráhrindandi séu. Þar er athyglin, eins og vera ber.

Aðalhlutverkin, Roxie og Billy eru í góðum höndum hjá Unni Birnu Björnsdóttur og Ævari Þór Benediktssyni. Andri Már Sigurðsson er kostulegur eiginmaður og margir eiga fyndnar innkomur í smáhlutverkum, þar sem ýkjur eru dagskipunin.

En sýningin í heild er sigur hópsins. Einhver sterkasta, og áreiðanlega skemmtilegasta, söngleikjasýning framhaldsskólaleikfélags í vetur.

Cicago

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
Samkomuhúsinu á Akureyri 27. mars 2003

Höfundar: Fred Ebb, John Kander og Bob Fosse
Þýðandi: Flosi Ólafsson
Leikstjóri: Laufey Brá Jónsdóttir
Tónlistarstjórn: Björn Þórarinsson og Helgi Vilberg Helgason
Lýsing: Róbert Lee Evensen.

Skítapakk og gúmmítöffarar

ÞAÐ er heldur hráslagalegur heimur sem birtist okkur í Chicago. Þegar Roxie Hart myrðir elskhuga sinn og mistekst að koma sökinni á vitgrannan eiginmanninn leitar hún til Billy Flynn, lögfræðings sem telur frægðina fremur en lagaklæki vera leiðina undan snörunni. Þetta er frumlegur söngleikur að forminu til, engin eiginleg sviðsmynd en leikhópur og hljómsveit sameinast um að segja söguna. Verulega skemmtilegt verk þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á skapandi hátt. Tónlistin grípandi og þýðing Flosa er frábær, að mínu mati hans besta. Eins gott að söngtextar komust vel til skila að þessu sinni.

Sýning LMA er hreint afbragð. Laufey Brá og hennar fólk hefur komist ótrúlega langt með að gera öllum þáttum þessa krefjandi verks skil. Tónlist er fantavel flutt bæði af hljómsveit og söngvurum, sviðsetningin er hugmyndarík og lifandi, leikur kraftmikill og sjálfsöruggur og þó öryggið í snjöllum dansatriðunum sé ekki alveg jafn mikið breytir það engu því verkið er skemmtilegt og persónurnar áhugaverðar þó fráhrindandi séu. Þar er athyglin, eins og vera ber.

Aðalhlutverkin, Roxie og Billy eru í góðum höndum hjá Unni Birnu Björnsdóttur og Ævari Þór Benediktssyni. Andri Már Sigurðsson er kostulegur eiginmaður og margir eiga fyndnar innkomur í smáhlutverkum, þar sem ýkjur eru dagskipunin.

En sýningin í heild er sigur hópsins. Einhver sterkasta, og áreiðanlega skemmtilegasta, söngleikjasýning framhaldsskólaleikfélags í vetur.

þriðjudagur, mars 25, 2003

Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt!

Sauðkindin, Leikfélag Menntaskólans í Kópavogi
Loftkastalanum 25. mars 2003

Höfundur: Davíð Þór Jónsson, leikstjóri: Steinn Ármann Magnússon

Af hverju?

EINHVERNTÍMAN var til hljómsveit sem hét “Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur”, eða eitthvað álíka. Nú hefur Kópavogssauðkindin hrakist úr heimahögum vegna húsnæðisskorts og jarmar alsæl vestast í Vesturbænum, heimabæ sínum til háðungar. Er virkilega ekki til neitt athvarf fyrir svona starfsemi í næststærsta bæjarfélagi landsins?

Reyndar ganga háðsglósur í allar áttir hjá kindinni að þessu sinni. Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt! er nokkurskonar Grænjaxlar tíunda áratugarins, samdir af Davíð Þór í samvinnu við unglingadeild Leikfélags Hafnarfjarðar. Hér er stiklað á stóru í uppvexti Lillu, vísitölubarns úr vísitölufjölskyldu, frá getnaði til stúdentsprófs. Lilla er með þeim ósköpum gerð að spyrja sífellt “af hverju?” þegar foreldrar hennar og aðrir uppeldisaðilar vildu miklu frekar að hún þegði og hlýddi. Þessi núningur er driffjöðurin í þessu lausbeislaða en skemmtilega leikriti, sem hefur úrelst sorglega lítið.

Uppfærsla hins Radíusbróðurins er líka lausbeisluð og skemmtileg. Steinn Ármann hefur greinilega lag á því að nýta hæfileika hvers og eins og allir ná að skína einhversstaðar. Sýningin er full af góðum hugmyndum og hrár einfaldleikinn í leikmyndinni virkar ágætlega. Af leikurum munar mest um frammistöðu Ingu Valgerðar Henriksen í aðalhlutverkinu. Hún er jafnvíg á ungbarnahjal og unglingaveiki, greinilega hæfileikarík leikkona hér á ferð.

Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt! er skemmtileg skopmynd af íslensku fjölskyldulífi, ágætlega skilað af kraftmiklum leikhópi. Við Reykvíkingar þökkum kindinni fyrir kaupstaðarferðina.

sunnudagur, mars 23, 2003

Söngvaseiður

Litli leikklúbburinn og Tónlistarskóli Ísafjarðar
Ísafirði 23.3.2003

Höfundar: Richard Rodgers, Oscar Hammerstein II, Howard Lindsay og Russell Crouse
Þýðing: Flosi Ólafsson
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir
Útsetningar: Hákon Leifsson
Tónlistarstjóri: Beáta Joó
Hljómsveitarstjóri: Janusz Frach
Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir
Lýsing: Sveinbjörn Björnsson.

Þrekvirki

TIL að skila verki af sauðahúsi Söngvaseiðs vel duga engin vettlingatök. Fyrir utan tónlist, sem allir heyra samstundis ef ekki er lýtalaust flutt, þarf verkið sannfærandi umgjörð til að skila tíðaranda og rómantík, stóran leikhóp með mikla útgeislun og líflega sviðsetningu til að halda spennu og hreyfingu í sýningunni. Á öllum þessum sviðum tekst aðstandendum sýningarinnar á Ísafirði mætavel upp, raunar framar öllum eðlilegum væntingum. Árangurinn er heillandi sýning, fáguð og fagmannleg.

Þórhildur þorleifsdóttir hefur látið hafa það eftir sér í viðtölum að hún sé trúlega eini Íslendingurinn sem ekki hefur séð kvikmyndagerð Söngvaseiðs, svo ég er þá ekkert að rekja söguþráðinn. En það er reyndar eins ástatt fyrir mér og Þórhildi hvað þetta varðar, auk þess sem ég hef heldur ekki séð verkið á sviði og þekkti það í raun ekki neitt þegar ég settist niður á sýningunni á sunnudaginn. Ekki get ég sagt að verkið sjálft hafi hrifið mig verulega. Framvindan er bæði hæg og ómarkviss, samtöl sum dálítið hallærisleg, endirinn snubbóttur. Það er tvennt sem heldur Söngvaseið á floti, og vel það reyndar: falleg tónlist og börnin. Fyrir utan Maríu barnfóstru er fullorðna fólkið hinsvegar óttalega flatneskjulegar smíðar.

Þó brotalamir séu í verkinu er ekki þar með sagt að sýning á því sé ekki ómaksins verð og hér hefur verið unnið af fádæma krafti á öllum sviðum. Hvergi hefur verið veittur afsláttur af kröfum. Leikmynd er snjöll og falleg, búningar réttir, dans og sviðshreyfingar áhrifaríkar, sviðsetning Þórhildar öll frábærlega markviss, söngur og tónlistarflutningur sannfærandi þó hljómburður sé með erfiðasta móti.

Lífið og sálin í sýningunni er Guðrún Jónsdóttir, en það geislar af henni í hlutverki Maríu, hinnar óstýrlátu ungnunnu. Fylgihnettir hennar, Trapp-börnin, lyfta sálinni í hvert skipti sem þau birtast. Þau Herdís Anna Jónasdóttir, Helgi Þór Arason, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Elma Sturludóttir, Anna Marzellíusardóttir, Þorgeir Jónsson og Agnes Ósk Marzellíusardóttir eru hvert öðru skemmtilegra og ná samtímis að vera lífleg og ábyrgðarfull. Samvinna þeirra við leikstjórann greinilega verið báðum til sóma. Fleiri eiga góðan leik, og það hefur augljóslega verið mikið lagt upp úr góðum heildarsvip og aga hvað leikræn tilþrif varðar.

Söngvaseiður er verkefni af þeirri stærðargráðu að í raun er það allt bæjarfélagið sem stendur að baki sýningarinnar. Það er því allra Ísfirðinga að gleðjast yfir því hve gott verk hefur verið unnið, hve mikil aðlúð, virðing og metnaður verið lagður í það. Sýningin er veisla fyrir augu og eyru, Vestfirðingar ættu að streyma í leikhúsið til að taka þátt í henni og samfagna.

laugardagur, mars 22, 2003

Gengið á hælinu

Leikfélag Dalvíkur
Ungó 22. mars 2003.

Höfundur og leikstjóri: Júlíus Júlíusson,
Leikmynd: Guðmundur Guðlaugsson, Júlíus Júlíusson og Lárus Heiðar Sveinsson
Lýsing: Pétur Skarphéðinsson.

Heimabrennt í Eyjafirði

JÚLÍUS Júlíusson lætur sig ekki muna um að frumsýna nú sitt annað leikrit í fullri lengd á þessu leikári, sem höfundur og leikstjóri. Að þessu sinni er hann með leikhóp samansettan af reynsluboltum og nýgræðingum og helsti styrkur sýningarinnar er einmitt hið skrautlega persónugallerí.

Eins og nafnið bendir til lýsir verkið lífinu á hæli, vistmönnum og starfsfólki. Þetta er lítil stofnun með allskyns skjólstæðinga, kölkuð gamalmenni, dópista og aðra sem lent hafa út af sporinu í lífinu. Óvænt ógn steðjar að jafnvæginu í sambýlinu þegar húseigandinn vill selja húsið og loka. Vistmenn reyna af vanmætti að bjarga málunum en óvæntur lokahnykkur leiðir verkið síðan til lykta.

Leikarar gera margir vel, til að mynda Dana Jóna Sveinsdóttir sem skarexin Fröken M. Hjörleifur Halldórsson var heillandi gamall bóndi með báða fætur í fortíðinni og nærvera Jóns Hreggviðs Helgasonar í hlutverki mállausa mannsins var sterk. Guðmundur Aðalsteinn Pálmason og Sigurbjörn Hjörleifsson voru sannfærandi sem fíklar og fjandvinir.

Sterkasti þáttur leikritsins eru mannlýsingarnar eins og áður segir. Veikasti hlekkurinn er hins vegar fléttan, sem er bæði of bláþráðótt og langdregin. Senur þar sem við kynnumst fólkinu og þau kynni eru dýpkuð án þess að reynt sé að fleyta fram sögunni eru bestu hlutar verksins og vöktu mikla kátínu. Sýningin er snyrtilega sviðsett, en vantaði nokkuð á snerpu auk þess sem textakunnátta var ekki alveg í höfn. Það stendur örugglega til bóta og eins held ég að leikendum sé alveg óhætt að sleppa meira fram af sér beislinu - þetta eru jú örlagaríkir tímar. Gengið á hælinu er ágætis félagsskapur eina kvöldstund og um að gera fyrir það að fara á kostum fyrir gestina.

föstudagur, mars 21, 2003

Káinn

Heimabrennt í Eyjafirði
Freyvangi 21. mars 2003.

Freyvangsleikhúsið
Höfundur: Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Saga Jónsdóttir
Tónlist: Hannes Örn Blandon, Eiríkur Bóasson, Jóhann Jóhannsson og Hulda Svanhildur Björnsdóttir
Leikmynd: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Ingvar Björnsson.

EINS mikið og hefur verið skrifað bókakyns um vesturferðirnar undanfarin ár gegnir furðu að enginn hafi ómakað sig fyrr við að færa eitthvað af þeim óviðjafnanlegu örlagasögum upp á leiksvið. En nú er semsagt Hannes Blandon búinn að rjúfa þá þögnina með þessu fjöruga og skrautlega leikverki um skopskáldið Káinn og samferðamenn hans.

Það er margt gott um þetta leikverk að segja. Úr penna Hannesar drýpur einatt safaríkt mál og hann er húmoristi góður. Margar senur eru afar skemmtilegar. Það sem helst vantar upp á er að illa hefur gengið að skipa efninu í sterka leikræna heild, og sá sem helst líður fyrir það er titilpersónan sjálf. Káinn hverfur dálítið í skuggann af litríku mannlífinu í kringum hann og örlög hans verða áhorfendanum hvorki skýr né hugleikin. Kannski er saga Káins svo ódramatísk að höfundur þarf sífellt að snúa sér að öðru til að hafa eitthvað skemmtilegt að skrifa um. Því það gerir hann, og gerir vel.

Uppfærslan og umgjörð hennar er frábærlega af hendi leyst hjá leikstjóra og útlitshöfundum. Það, og jafngóður leikurinn gerir Káinn að fagmannlegustu og áferðarfallegustu sýningu sem undirritaður hefur séð hjá áhugaleikfélögunum í vetur. Auðvitað ná samt nokkrir leikarar að fara á kostum, annars væri þetta varla Freyvangsleikhúsið. Höfundurinn er afbragð sem Káinn eldri, Leifur Guðmundsson algerlega sannfærandi Stephan G., Stefán Guðlaugsson óborganlegur Jón vinnumaður og Hjördís Pálmadóttir kostulegur niðursetningur. Tónlistin er létt og skemmtileg og á sinn þátt í að gera heimsókn í Freyvang að góðum kosti til að létta geð.

miðvikudagur, mars 19, 2003

Jónatan

Halaleikhópurinn
Halinn i Hátúni. Sunnudagurinn 19. mars 2003

Höfundur og leikstjóri: Edda V. Guðmundsdóttir
Söngtextar: Unnur María Sólmundardóttir

Úti að aka

EDDU V. Guðmundsdóttur hefur með Jónatan tekist aðdáanlega að virkja hvern leikara Halaleikhópsins. Allir fá eitthvað að glíma við, veikleikum er snúið í styrkleika og útkoman er sýning sem rennur áfram af öryggi og krafti. Það er vel til fundið að búa til frásagnarleikhús þar sem hópurinn hefur það sameiginlega verkefni að miðla sögu í tali, leik og tónum. stuttar senurnar flæða hver inn í aðra og útkoman er lifandi og skemmtileg.

En þó Eddu hafi tekist að finna heppilegt form þykir mér henni hafa heppnast síður að skrifa gott leikrit.

Jónatan er vel stæður maður á besta aldri sem býður skipbrot þegar hann lendir í slysi og lamast. Verkið segir frá glímu hans við eftirköst slyssins og tilraunir til að lifa lífinu þrátt fyrir þann þröskuld sem fötlunin setur honum.

Eða hvað? Þetta er yfirlýst áform leikhópsins, eða “húsandanna” sem segja söguna. Þeir tala um reiði Jónatans, þunglyndi og og erfiðleika við að sætta sig við orðinn hlut. En sá Jónatan sem birtist okkur er hins vegar í ágætis jafnvægi, kannski dálítið daufur í dálkinn, en hreint ekki reiður eða bitur, lætur meira að segja fordóma umhverfisins hafa harla lítil áhrif á sig. Þessi togstreita á milli þess sem sögumenn segja og þess sem er leikgert á sviðinu er undarleg og ruglar áhorfandann í ríminu. Þá er framvindan heldur losaraleg. Eftir ágætan inngang um Jónatan og vini hans kemur kafli um tilraun Jónatans til að komast í partí hjá vinkonu sinni. Erfiðleikum í samgöngumálum tekur Jónatan með jafnaðargeði en þá skiptir verkið algerlega um stefnu, partíferðin virðist gleymd og Jónatan hittir skuggalegan mann sem vill fá hann til að vinna óþverraleg störf og skýla sér bak við fötlun sína. Og þar með er verkinu lokið, hópurinn syngur lokasöng og spyr hver sé sjúkur, öryrkinn eða eiturlyfjasalinn, spurning sem snýst fremur um orðsifjar og tvíræðni heilbrigðishugtaksins en raunverulega þjóðfélagsstöðu öryrkja og dópsala.

Eins og áður er sagt er sýningin skemmtileg þrátt fyrir brotalamir verksins og leikhópurinn fyllilega fær um að halda athygli áhorfandans við efnið og skemmta honum um leið. Mest mæðir á Jóni Stefánssyni, Jónatan. Hann skilaði sínu vel og ekki við hann að sakast þó áhorfandinn vænti einatt annarra viðbragða en þeirra sem Jónatan sýndi. Þá voru þeir Árni Salómonsson og Jón Þór Ólason skemmtilegir í sínum fjölmörgu rullum.

Tónlist er í stóru hlutverki í sýningunni. Hljómsveitin var prýðilega þétt og söngtextar Unnar Maríu Sólmundardóttur víða hnyttnir, ekki síst söngurinn um flæðið, sem var mikið glæsinúmer í meðförum Kristínar R. Magnúsdóttur eða Kolbrúnar D. Kristjánsdóttur (þær skipta með sér hlutverkinu og ég veit ekki hvora ég sá).

Sýning Halaleikhópsins sýnir svo ekki verður um villst að þar fer harðsnúinn leikhópur sem er ýmislegt til lista lagt. Formið hentar hópnum vel og ef sagan væri skýrar mótuð væri hreint ekki yfir neinu að kvarta og það er til marks um kraftinn í hópnum hvað sýningin er skemmtileg þrátt fyrir annmarka verksins.

laugardagur, mars 15, 2003

Gauragangur

Leikfélag Vestmannaeyja, í samvinnu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum
Leikhúsinu Vestmannaeyjum 15. mars 2003

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Tónlist: Ný dönsk
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson.

Gauragangur og undirföt

VAXTAVERKIR hins sjálfskipaða upprennandi snillings Orms Óðinssonar er ekki síður vinsælt viðfangsefni en raunir kynóðu geimverunnar hr. Further. Nú er það leikfélag Vestmannaeyja með liðsauka úr Framhaldsskólanum sem segja þessa sögu og tekst dável upp.

Agnar Jón Egilsson er skemmtilegur og hugmyndaríkur leikstjóri og nýtast þeir hæfileikar vel hér. Sýningin er mjög fjörug og fyndin, en alvarlegri þættir verksins skila sér verr, verða nánast undir í baráttunni við galgopaskapinn og grínið. En það fyrirgefst að mestu af því grínið er svo gott. Ber það ekki síst að þakka Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni í aðalhlutverkinu. Hann er mjög sannfærandi sem Ormur, hvílir vel í hlutverkinu og skilar fyndnum textanum frábærlega. Guðmundur átti í dálitlum brösum með sönginn á köflum en er þegar á heildina er litið besti Ormur sem ég hef séð. Það hefði verið gaman að sjá hann glíma af meiri alvöru við þroskann sem Ormur neyðist til að taka út í verkinu, en túlkun leikstjórans stendur í vegi fyrir því, ekki síst sú sérkennilega ráðstöfun að sleppa óléttu og fóstureyðingu Lindu og viðbrögðum Orms víð því.

Af öðrum leikurum verður að nefna Sindra Ragnarsson sem er kostulegur Ranúr og Ernu Björk Einarsdóttur með frumlega og skemmtilega túlkun á draumastúlkunni Lindu,

Gauragangur Agnars Jóns og Eyjamanna er mikil skemmtun, vel sviðsett og vaðandi í snjöllum lausnum og skemmtilegheitum. Tónlist er að mestu leyti ágætlega flutt og dansatriðin skila sínu þó ekki séu allir jafn langt komnir í þeirri mennt. Umfram allt er hér vel unnin leiksýning sem skilar áhorfendum út með bros á vör.

föstudagur, mars 14, 2003

Fuglinn minn heitir Fótógen

Leikfélag Fjölbrautaskóla suðurlands
Leikhúsinu við Sigtún, Selfossi 14. mars 2003.

Spunaverk eftir leikhópinn og Sigrúnu Sól Ólafsdóttur
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttur
Búningar: Elín Harpa Valgeirsdóttir og Þórunn Gróa Magnúsdóttir
Tónlistarval: Birkir Kúld Pétursson
Lýsing: Guðmundur Finnbogason og Sævar Öfjörð Magnússon.

Lítill söngfugl flýgur hátt

LISTRÆN áhætta er ekki í tísku hjá leikfélögum framhaldsskólanna þessi árin, heldur róið á stjórsjóin með áherslu á fagmennsku og markaðssetningu. Á þessu eru nokkrar undantekningar og spunaverkið Fuglinn minn heitir Fótógen er besta dæmið um slíkt sem ég hef séð í vetur. Fádæma sterk sýning hvernig sem á er litið.

Verkið er unnið í kringum persónur og aðstæður tveggja Tsékhov-leikrita, Máfsins og þriggja systra. Hér eru lífsleiðir og sjálfhverfir dreifbýlingar Rússans færðir inn í íslenskt þorp og gengur sú tilfærsla algerlega upp. Verkið hverfist um heimkomu frægustu dóttur þorpsins, stórleikkonunnar Birgittu Rósar. Með henni í för er kvikmyndagerðarmaðuinn Skúli Friðjón sem hefst þegar handa við að eltast við ungpíur þorpsins, meðan sonur Birgittu reynir að vekja athygli hennar með framúrstefnulegum listgjörningi. Margt fleira fólk kemur hér við sögu, en ekki er ástæða til að rekja hana frekar. Sýningin byggist frekar upp af sterkum senum og vandaðri leikaravinnu en framvindu, sem þó er til staðar og raunar ótrúlega sterk miðað við hvernig til sýningarinnar er stofnað. Hún er kannski dáliítið lengi að enda, en ekki myndi ég treysta mér til að velja hvaða senur mættu missa sín.

Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og slíku öryggi að sveiflur á milli ótrúlegs groddaskapar og fínlegustu ljóðrænu takast fullkomlega. Sigrún Sól leysir úr læðingi bæði yfirgengilegan lágkúruhúmor og algera einlægni sem virðist ekki vefjast fyrir neinum að skila og fyrir vikið sveiflast áhorfendur með. Hópurinn sem heild hjálpast að við að drífa sýninguna áfram og flæðið virkar samtímis agað og stjórnlaust. Vel valin tónlist og áhrifamikil lýsing setja síðan punktinn yfir i-ið.

Leikhópurinn sem heild er stjarna sýningarinnar en samt er nauðsynlegt að geta nokkurra sérstaklega. Árni Grétar Jóhannsson var óborganlegur sem fyllibyttan faðir þriggja systra. Nærvera Önnu Hansen sem hin hljóðláta yngsta systir var afar sterk og söngurinn fallegur. Kristín Hrefna Halldórsdóttir var réttilega óþolandi, enda persónan byggð á andstyggilegustu persónu Tsékhovs. Bjartmar St. Steinarsson var síðan ekkert minna en magnaður í báðum sínum hlutverkum. Sem Skúli Friðjón var hann eins og Friðrik Þór í líkama Hrafns Gunnlaugssonar og í hlutverki einfeldningsins Einars var hann hjarta sýningarinnar í blóðrauðri Nóatúnspeysunni.

Fótógen er frábær skemmtun, fyndinn og sár, hágvær og hljóðlát, groddafengin og fínleg. Allir á Selfoss.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Rocky Horror Show

Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ
Á sal fjölbrautaskólans 13. mars 2003.

Höfundur: Richard O’Brien
Þýðendur: Björn Jörundur Jónsson, Davíð Þór Jónsson og Veturliði Guðnason
Leikstjóri: Ari Matthíasson
Danshöfundar: Guðfinna og Selma Björnsdætur
Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Lýsing: Magnús Helgi Kristjánsson.

Gauragangur og undirföt

FJÖLBRAUTASKÓLINN í Garðabæ blandar sér í söngleikjasamkeppnina annað árið í röð, nú með hinn sívinsæla rokksöngleik Rocky Horror. Menntaskólaleikfélög laðast mjög að þessu verki, sem er kannski ekkert skrítið, flott músík, paródískur söguþráður og persónur og tækifæri til að bregða á leik í dónalegum undirfötum. Þetta síðarnefnda reynist reyndar oftar en ekki verða sýningunum fjötur um fót, því sjaldnast ráða unglingarnir við að njóta sín fyllilega fáklædd og frygðarleg á sviðinu. En það er ein af forsendum þess að sýning á Rocky Horror takist.

Garðbæingar standast þetta próf ekki alveg, þó kynferðislegum þáttum sýningarinnar sé gert hátt undir höfði. Reyndar er Pétur Rúnar Heimisson eins og fiskur í vatni í sínu korseletti í hlutverki Frank N’Further. Hann syngur líka forkunnarvel en skortir aðeins leikreynslu og kannski ekki síst dansreynslu til að njóta sín til fulls. Þá eru Elísa Arnarsdóttir og Einir Guðlaugsson alveg stórfín sem púkalega parið sem lendir í klóm hinnar gröðu geimveru. En kórinn hvílir ekki alveg nógu rólegur í netsokkunum til að við trúum því að þeim líði vel.

Eins og við mátti búast er dans og tónlistarflutningur næsta lýtalaus og sviðsetning Ara Matthíassonar flæðir vel. Þó saknaði ég þess að meira væri dvalið við tvö lykilatriði: uppvakningu Rockys og afhjúpun líks Eddies. Það síðarnefnda hef ég ekki séð gert áður eins og hér var, en því miður var farið of hratt yfir sögu og þessi snjalla hugmynd missti marks, kannski var frumsýningarskjálftinn að verki. Allavega, býsna góð sýning sem kemst langleiðina með þetta lúmskt erfiða verk.

miðvikudagur, mars 12, 2003

Lýsistrata

Fúría, leikfélag Kvennaskólans
Austurbæ 12. mars 2003.

Höfundur: Aristófanes
Þýðandi: Kristján Árnason
Leikstjóri: Stefán Jónsson
Tónlistarstjórn: Gísli Galdur.

Lifandi Lýsistrata

Fúría glímir nú í annað sinn við lífseigasta og nútímalegasta gamanleik heimsins, hina 2500 ára gömlu Lýsiströtu. Í byrjun fannst mér eins og sýninguna vantaði skýra stefnu, múslimskum gerfum Spörtukvennanna var ekki fylgt eftir á neinn hátt, en þetta lagaðist strax og hin óborganlega saga var komin af stað. Stefán Jónsson leikstjóri náði fljótlega vopnum sínum, beislaði kraftinn í krökkunum og leysti úr læðingi ófáan gamanleikarann. Það gengur mikið á, en samt var textameðferð upp til hópa til fyrirmyndar. Síðari hlutinn, þar sem kynlífsverkfall kvennanna er farið að setja verulegt mark á þær bæði og karlana, var frábær. Það sam má segja um tónlistina, umsköpun þeirra gömlu lumma sem snilldarþýðing Kristjáns Árnasonar styðst við var verulega vel heppnuð hjá Gísla Galdri.

Hrósa ber skörulegri framgöngu Gunnhildar Árnadóttur í titilhlutverkinu og hinum aumkunarverða Kinesiasi Steins Stefánssonar. Samt er það kannski leikhópurinn sem heild sem á mest hrós skilið. Engin feilspor, fítonskraftur og kómískt blik í auga. Endirinn, þar sem friðarbæn Johns Lennon er blönduð tómhyggjulegu pönki og öðrum bölmóði, var sterkur og minnti á að þó svo manni virðist Aristófanes hafa fundið upp patentlausn á stríðsbrölti hefur varla verið ýkja friðvænlegt síðan og síst nú. En leikritið hans er hrein dásemd og sýningin góð.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Bullets over Broadway

Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni
Menningarsal Suðurlands 11. mars 2003.

Höfundur: Woody Allen
Þýðendur: Ármann Guðmundsson og Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson.

Stríð og söngur

ÞAÐ var landnemabragur yfir sýningu Leikfélags Menntaskólans að Laugarvatni í hinum skammarlega hálfkaraða Menningarsal Suðurlands. Nístingskuldi, lýsing í lágmarki og hljómburður eins og í tómri tunnu. En þau börðust hetjulega við að koma til skila dásamlegri sögu Woody Allen um metnaðargjarna leikskáldið hæfileikalausa og undrabarnið siðblinda sem dregur hann að landi með leikritið hans. Hér er á ferðinni sviðsgerð af kvikmyndahandriti, en því miður hefur ekki verið gengið nógu langt í því að laga efnið að nýjum miðli og til að bæta gráu ofan á svart hefur leikstjórinn valið þá leið að myrkva sviðið og breyta sviðsmyndinn í hverri einustu skiptingu. Það er alger nauðsyn fyrir svona verk að finna einfalda leið til að láta örstuttar senurnar taka við hverja af annari án nokkurs hlés, en þessi leið hefur þær afleiðingar að sýningin nær aldrei að flæða og verður aukinheldur of löng. Þá hefur “sjóveikin” gripið Laugvetninga eins og fleiri framhaldsskólaleikfélög og nokkrum tónlistaratriðum verið bætt við, algerlega án sýnilegs tilgangs, þó ágætlega væri sungið.

Leikhópurinn kemst ágætlega frá sínu, ekki síst þeir félagar Sveinn Óskar Ásbjörnsson og Loftur Þ. Guðmundsson sem leikskáldið og séníið. Skemmtilegust allra er samt Hildur Magnúsdóttir sem hin óbærilega Olive Neal, hin hæfileikalausa lagskona mafíósans sem borgar fyrir uppfærsluna með því skilyrði að hún fái hlutverk. Í heildina ræður leikhópurinn þó varla við annmarkana, augljóst kvikmyndaeðli handritsins og furðulega leið leikstjórans.