þriðjudagur, janúar 17, 2017

Gísli á Uppsölum

Eftir Elfar Loga Hannesson og Þröst Leó Gunnarsson. Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Tónlist: Svavar Knútur Kristinsson. Útlit: Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Búningur: þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Kómedíuleikhúsið frumsýndi í Selárdal 25. september 2016 og hefur sýnt víða um land á haustmánuðum. Rýnt í sýningu í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu 15. janúar 2017.

Síðasti gæinn í dalnum


Það er ekki á hverjum degi sem okkur menningarrýnum í einangruninni hér í „fjölsinninu“ gefst færi að á sjá til listamanna landsbyggðarinnar. Þess vegna er ómögulegt annað en að byrja á að tala aðeins um Elfar Loga Hannesson.

Eins og kemur fram í fallegri og efnisríkri leikskrá er Gísli á Uppsölum fertugasta sýning Kómedíuleikhússins sem Elfar Logi stofnaði 1997, þá nýútskrifaður úr The Commedia School í Kaupmannahöfn. Einleikurinn er grunnform Kómedíuleikhússins og Vestfirðir varnarþing þess. Það sama má segja um annað hugarfóstur Elfars Loga, einleikjahátíðina Act Alone, langlífustu atvinnumannaleiklistarhátíð Íslandssögunnar. Þá er Elfar Logi auðvitað nærtækur fyrir áhugaleikfélög Vestfjarðakjálkans þegar finna þarf leikstjóra eða námskeiðshaldara. Hann er höfundur kennslubókar í leiklist, sögu hins gamla og merka leikfélags á Bíldudal, auk fjölmargra leikhandrita. Framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar er næsta einstakt og verðskuldar alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er.

Nafntogaðir Vestfirðingar eru áberandi rauður þráður í verkefnavali Kómedíuleikhússins og Gísli Oktavíus Gíslason er verðug viðbót við þann fríða flokk. Einbúinn sérlundaði sem varð heimilisvinur þjóðarinnar jólin 1981 fyrir milligöngu Ómars Ragnarssonar hreyfir við svo mörgum stöðvum í tilfinningalífinu. Þrautseigja og nægjusemi. Innsýn í lifnaðarhætti forfeðranna. Yfirvegun andspænis grimmu hlutskipti. Stríðnin og eineltið, sem seinna varð opinbert að væri ein af rótum örlaga Gísla, hefur sennilega dregið úr ástundun þeirrar íþróttar að herma eftir talanda sjálfsþurftarbóndans í Selárdal. En um tíma var hann sennilega einungis eftirbátur Nóbelsskáldsins sem viðfang þess alþýðusports.

Við getum byrjað á talandanum. Það er nú aldeilis listræn áskorun. Þetta höfuðeinkenni Gísla (ásamt hattinum reyndar, sem er hér í öllu sínu veldi) verður að fá sitt pláss í sviðsljósinu. Það er líka ljóst að við nútímamenn höfum ekki þolrif til að brjótast inn í talandann, svo ekki þýðir að segja söguna með hreinræktaðri stælingu. Leið Elfars Loga og Þrastar Leós Gunnarssonar, leikstjóra og meðhöfundar, er að láta sérkennin birtast og hverfa í takt við umræðuefnið og innri tíma verksins. Í upphafi og enda sýningar heyrum við hreinræktaða og vel útfærða eftirlíkingu, sem annars heyrist hvað skýrast í snjöllum (og launfyndnum) samleiksatriðum við upptökur af rödd Ómars Ragnarssonar úr Stiklum. Annars eru einkennin víkjandi og hverfa nánast alveg í atriðum þar sem Gísli er nálægt því að láta drauma sína rætast. Þetta heppnast fullkomlega; við fáum aðgang að sögunni og erum þess jafnframt fullviss að það er einmitt sá Gísli sem við þekkjum sem sagan fjallar um.

Annað sem rétt er að staldra við er yfirvegaður og úthugsaður samleikur Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni. Textinn sjálfur dregur aftur á móti fram biturð og vonbrigði skýrar en flest annað aðgengilegt efni um Gísla á Uppsölum. Undanskildir eru kaflar þar sem móðir hans kemur við sögu, og aftur er það ekki síst samleikur hans við myndina af henni sem gefur tilfinningalegu dýptina. Það má spyrja sig hvers vegna myndin ratar ekki ofan í ferðatöskuna sem Gísli er að pakka í fyrir sína hinstu ferð á sjúkrahúsið á Patreksfirði, en slíkt er öryggið í leikmunavinnunni að áhorfandinn gefur sér að þar liggi meining að baki frekar en yfirsjón.

Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Texti sýningarinnar er sagður vera að langmestu leyti orðréttur eða því sem næst upp úr skrifum Gísla sjálfs. Bernskur, afvopnandi, blátt áfram og bætir upp með einlægni það sem skortir á í skáldlegum tilþrifum eða greinandi dýpt. Reyndar vakti þessi einfaldi texti, einsemdin, endurtekningin, kyrrstaðan, örvæntingin undir, bjástrið, og svo hin næstum súrrealísku samtöl við segulbandið, upp hugrenningatengsl við Samuel Beckett. Leiðirnar að dýptinni eru margvíslegar.

Leikmynd er einföld en þénug og leikmunir sannfærandi og vel valdir. Búningur Gísla sérlega fallegur og réttur. Tónlistin er viðeigandi og áhrifarík hjá Svavari Knúti, sérstaklega for- og eftirspilið á harmóníum, hljóðfæri söguhetjunnar.

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera.

Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.

þriðjudagur, janúar 10, 2017

Gott fólk

Eftir Val Grettisson. Leikgerð unnu Símon Birgisson og Valur Grettisson í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson og Magnús Arnar Sigurðarson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Myndbandshönnun: Roland Hamilton og Eva Signý Berger. Myndefni: Guðmundur Erlingsson og Roland Hamilton. Leikarar: Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson og Birgitta Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 6. janúar 2017, en rýnt í sýninguna 7. janúar 2017.

Skömm skilað


Ung kona og ungur maður, Sara og Sölvi, sofa saman og taka í framhaldinu upp samband sem kannski er hægt að kalla ástarsamband. Fljótlega verður ljóst að þau hafa nokkuð ólíkar hugmyndir um hvað í því felst. Eða kannski öllu heldur: tilfinningalíf Sölva er hugmyndadrifið og heimspeki hans réttlætir framkomu við Söru sem smám saman tekur á sig dekkri og dekkri myndir þar sem Sölvi neytir andlegs, og áður en yfir lýkur líkamlegs, aflsmunar. Rúmu ári síðar er hún farin. Nokkru eftir það er barið á dyrnar hjá Sölva og fyrir utan stendur kunningi hans með bréf frá Söru. Þar hefst Gott fólk, leikgerð samnefndrar bókar Vals Grettissonar sem kom út í hittiðfyrra.

Kunninginn setur af stað svokallað ábyrgðarferli, róttæka aðferð til að koma á réttlæti og leiða til lykta ofbeldismál milli náins fólks, sem þolendur telja að muni ekki fá framgang í hinu opinbera réttarkerfi. Sölvi er efins um bæði ferlið og ekki síður eigin sekt, en fellst að lokum á að taka þátt. Hans bíður það erfiða verkefni að gera sér grein fyrir hvað gerðist, hvað hann gerði og ná þeim tökum á sjálfum sér að slíkt gerist ekki aftur.
Sölvi gengur ekki heilshugar til verks og fljótlega beinist athygli bæði Sölva og sýningarinnar frá ferlinu og sjálfsskoðuninni að fárviðri fjöl- og samfélagsmiðlaumfjöllunar sem fer í gang þegar vakin er athygli á málinu, getgátur um nöfn málsaðila byrja og Sölvi stígur fram á Facebook sem maðurinn sem um ræðir.

Una Þorleifsdóttir leggur upp með einfaldleika og skýra framsetningu innihaldsins í sýningunni. Autt svið og þrír hvítir stólar eru vettvangur leikhópsins, myndband á bakvegg skapar hófstilltan bakgrunn sem hjálpar til við að staðsetja atburði og lýsing hjálpar okkur að vita hvort við erum stödd í megintímaþræði verksins eða í endurlitum þar sem sambandi Söru og Sölva eru gerð skil. Allt er þetta fagmannlega unnið og rétt að hrósa Evu Signýju Berger og Roland Hamilton sérstaklega fyrir smekklega unnið myndbandsefni sem er aldrei of eða van.

Ég er ekki eins viss um búninga Evu Signýjar. Allir leikarar klæðast samskonar fötum: svörtum alklæðnaði og uppháum skóm, sem vekja hugrenningatengsl við einkennisbúninga, hermennsku, bardagalistir, jafnvel fasisma og gengjaofbeldi. Það er líkt og hér þurfi að gæta hlutleysis, salurinn í hlutverki hinnar blindu réttvísi. Allir eru jafnir fyrir áhorfendum. Jafn grunsamlegir, liggur mér við að segja. Þessi sterka sögn búninganna er meira truflandi en gagnleg og einsleitnin gerir leikurunum enn erfiðara fyrir en ella að blása lífi í persónurnar.

Það bagalegasta við þessa einkennisbúningastefnu og naumhyggjulegu leikmynd er hvað hún takmarkar möguleika leikhópsins á að vinna með status og vald, sem er eitt af miðlægustu viðfangsefnunum. Ágætt dæmi er heimsókn Sölva til annarrar fyrrverandi kærustu sem hann vill að segi sér frá ástæðum sambandsslitanna. Þetta er ágætlega skrifað samtal sem Birgitta Birgisdóttir og Stefán Hallur Stefánsson skiluðu prýðilega en án stuðnings af umhverfi, búningum og öðrum hjálpartækjum persónusköpunar höfðu þau eiginlega úr engu að moða öðru en staðsetningum í rýminu. Hér er leiktextanum og vinnu með hann mikið til treyst til að miðla þessu, en það traust verðskuldar hann ekki fyllilega. Höfundarnir eru ekki Pinter. En hver er það svo sem?

Að frátöldum Sölva, og að vissu marki Söru, eru persónurnar fyrst og fremst peð í dramatísku tafli sýningarinnar. Þau Birgitta, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson skiluðu þeim alveg ásættanlega, en höfðu úr litlu að spila. Athyglin er einarðlega á Sölva.

Bókin er fyrstu persónu frásögn hans, þannig að mynd bókarinnar af Söru er líka mynd Sölva af henni. Í leikgerðinni hefur ekki verið komið á jafnvægi þar á milli, aðalverkefni Söru er að varpa ljósi á Sölva og hans vegferð. Langstærsti hluti hlutverks hennar er endurlitssenurnar, svipmyndir úr hinu ógnvekjandi sambandi. Vigdís Hrefna Pálsdóttir skilaði þessu krefjandi og nærgöngula hlutverki ákaflega vel innan þeirra takmarkana sem persónusköpun handritsins býður upp á og aðferð sýningarinnar leyfir.

En hiti og þungi sýningar hvílir á Stefáni Halli Stefánssyni. Stefán Hallur hefur hina hættulegu nærveru stórleikarans, sem nýtist honum svo sannarlega vel í þessu hlutverki. Sölvi er þrúgandi á sviðinu, drottnar yfir því og loftið fyllist af spennu. Hvernig bregst hann við? Hvað gerir hann næst? Stefáni Halli hættir til að skeyta ekki um framsögnina þegar talað er lágt og hratt, að öðru leyti afburðamaður.

Bókinni, og að vissu leyti sýningunni líka, er hægt að lýsa sem „afhjúpandi varnarræðu“ Sölva. Það er líka hægt að sjá í sýningunni þróunarsögu ofbeldissambands, reyndar á fremur yfirborðkenndan hátt. Annar breiður þráður er afleiðingar símiðlunar samtímans. Og svo er þarna hið nýstárlega ábyrgðarferli. Því miður verður það hálfutanveltu í verkinu. Þetta orsakast af hinum einbeitta fókus á Sölva, að sjónarhornið er hans. Fyrir vikið vitum við næsta lítið um hvernig ferlið virkar, hvaða hvatir standa að baki þess að beita því og fólkið sem það gerir verður aldrei nema stuðpúðar, tæki til að hreyfa við aðalpersónunni. Þetta er stærsti tæknilegi galli verksins, tækifærið sem ekki var gripið til að segja eitthvað nýtt og forvitnilegt.

Þess vegna verður að setja spurningarmerki við verkefnavalið.

Það var ekki farið í grafgötur með það þegar bókin kom út að hún var innblásin af sönnum, nýlegum atburðum og fylgdi gangi þess máls nokkuð nákvæmlega og auðþekkjanlega fyrir þá sem lásu það sem birtist opinberlega um málið. Jafnframt var ljóst að höfundurinn vann verkið án samráðs við hlutaðeigandi, og að því er virðist í algerri óþökk þeirra. Ekki þarf að efast um frelsi Vals til að skrifa bókina eða Bjarts að gefa hana út. Hitt finnst mér blasa við að þetta er skammarleg framkoma við fólk í sárum.

Eitt er nú að ungur rithöfundur finni hjá sér knýjandi þörf til að skrifa það sem honum kemur í hug. Öllu einkennilegri þykir mér sú ákvörðun Þjóðleikhússins að setja þessa leikgerð á svið, og láta jafnframt (að mér skilst) undir höfuð leggjast að bera þá ákvörðun undir þá sem málið varðar. Setja sig t.d. í spor þolandans.

Það ætti að vera hægur vandi að nálgast leikefni sem lýsir ofbeldissamböndum, rýnir í sálarástand og hvatir bæði þolenda og gerenda, á dýpri og beittari hátt en þetta verk, verk sem hefur það helst við sig að tæpa á forvitnilegri og róttækri úrvinnsluleið en gerir henni tæpast verðug skil. Það hefði líka verið hægur vandi að fá höfund til liðs til að skrifa slíkt verk, úr samhengi við einstök mál raunverulegs fólks. Samt er það Gott fólk sem við fáum. Fyrir þá sem hafa meðvitund um málið sem liggur til grundvallar er ógerningur að slíta það úr samhengi við það sem fram fer á sviðinu. Álíka vonlaust og að sjá ekki fyrir sér fíl ef manni er sagt að hugsa ekki um fíl. Tilfinningin er að hér sé verið að sníkja sér far með óhamingju fólks.

Og það er skammarlegt.


föstudagur, janúar 06, 2017

Journey to the Center of the Earth

Eftir Kára Viðarsson og leikhópinn, en handritið er innblásið af bók Jules Verne, Voyage au centre de la Terre. Leikstjórn: Árni Kristjánsson. Leikmynd og búningar: Francesca Lombardi. Dansar: Jordine Cornish. Hljóðmynd: Ragnar Ingi Hrafnkelsson. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson. Myndband: Rhys Votano Tónlistarútsetningar: Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Tæknimaður: Lucas Rastoll. Leikarar: Halldóra Unnarsdóttir, Kári Viðarsson, Smári Gunnarsson, Stephanie Lewis, Anja Jóhannsdóttir, Birgitta Sveinsdóttir, Björn Óli Snorrason, Dagny Gunnsteinsdóttir, Davíð Hafþórsson, Eir Fannarsdóttir, Jóhanna Guðjónsdóttir, Hanna Guðnadóttir, Helena Hafþórsdóttir, Hjörtur Sigurðsson, Lena Örvardóttir, Lovísa Traustadóttir, Margrét Gísladóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Selma Emilsdóttir, Stefanía Jóhannsdóttir og Sylvía Scheving. Frumsýning á Rifi 30. desember 2016, en rýnt í sýningu 3. janúar 2017.

Að leiðarlokum

„Samkvæmt vísindakenningum?“ svaraði prófessorinn og varð sposkur á svipinn. „Æ! Árans kenningarnar! Mikið eiga þær eftir að trufla okkur, blessaðar kenningarnar!“

Afstaða prófessors Lidenbrock, annarrar aðalpersónu Ferðarinnar að miðju jarðar, til vísindanna er að sönnu aðdáunarverð. Reyndar er ást hans á mistökum og skilningur á nauðsyn opins huga grunnafstaða vísindamannsins þó dagsdaglega mæti okkur oftar státin vissa hefðarinnar og þrautprófaðra kenninga sem hefur steingerst í tækni með tilheyrandi hroka. En Lidenbrock er hvergi smeykur við hina frjálsu leit að sannleikanum. Persóna hans er ásamt ólíkindalegum söguþræðinum það besta við bók Jules Verne.

Það er freistandi að tengja þrjóska víðsýni og hugrakka forvitni prófessorsins við nálgun leiðtogans Kára Viðarssonar og leikstjórans Árna Kristjánssonar á þessa gömlu sögu. Hér tekur fáliðað og tæknilega frumstætt leikhús utan alfaraleiðar til meðferðar efni sem við fyrstu sýn virðist betur komið í höndum sterkefnaðra brellumeistara kvikmyndaiðnaðarins. En eins og hinir reynslulausu þýsku bókaormar Vernes leika Kári og liðsmenn hans á örlögin og komast á leiðarenda, ná tökum á áhorfendum sínum og fara með þá þangað sem þá lystir.

Til þess er öllum brögðum beitt. Hugkvæmni fátæka leikhússins er hér á fullri ferð, með stólkollum, skjávörpum, vatnsbyssum, hoppuköstulum og hlaupabrettum. Álpappír, svampi og bylgjupappa. Áhorfendur eru meira að segja hálf-gabbaðir til að afþakka konfetti-sprengjur í útsmoginni atkvæðagreiðslu áður en sýningin hefst. Svo þegar ein veimiltítuleg bomba springur samt undir lokin er eins og okkur hafi verið gefin gjöf.

Þannig virkar reyndar öll sýningin. Þar skiptir miklu návist barnahópsins sem kemur til liðs við Frystiklefafólkið af öllu nesinu; leikur, dansar og syngur af öryggi og fagmennsku, eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Fátæka leikhúsið á Rifi þykist líka vera fátækt í anda. Leikstíll og nálgun öll er örugglega úthugsuð til að slá vopn úr höndum þeirra sem vilja verjast töfrunum, sem ætti að vera fremur auðvelt ef áhorfendur eru ekki með í leiknum. En hinn bernski stíll, sem minnir ýmist á skólaleikrit, teiknimyndir eða ódýrustu B-myndir að hætti Ed Wood, dregur áhorfandann inn. Þar leikur líka hlutverk sú ákvörðun að leika sýninguna á ensku. Auðvitað orkar það að ýmsu leyti tvímælis í íslenskri sýningu upp úr franskri sögu af tveimur Þjóðverjum. Hægðarleikur hefði verið fyrir Kára og Smára Gunnarsson, sem fara með bróðurpart textans, að leika á sínu móðurmáli, en enskan býr til skemmtilega fjarlægð, vissan stirðleika sem vinnur með annarri aðferðafræði sýningarinnar.

Fyrir utan að undirstrika að þetta er þrátt fyrir allt ekki barnasýning. Óstytt og óbrengluð þýðing upprunalegu sögunnar frá 1864 kom loksins út á íslensku 2013 og er heldur ekki höfð í barnadeildum bókasafnanna innan um eldri gerðir og aðrar bækur höfundar. Of mikil jarðfræði sennilega. Hún er blessunarlega ekki með í leikhandriti Kára. Þaðan hefur hann fyrst og fremst beinagrind atburðarásarinnar og svo aðalpersónurnar tvær, prófessorinn og Alex, hinn unga frænda hans, sem deilir alls ekki ævintýraþrá þess gamla, en hefur heldur ekki bein í nefinu til að segja stopp.

Frændinn er sögumaður bókarinnar og hverfur þar fyrir vikið nokkuð í skugga Lidenbrocks og ólíkinda atburðarásarinnar. Hér fær hann heldur betur uppreisn æru. Smári skapar aðlaðandi kómíska persónu, virkar á áhorfandann eins og þessi elskulegi en óheppni klaufabárður lifandi kominn. Kári er síðan orkustöð sýningarinnar sem prófessorinn. Hægt væri að hugsa sér meira afgerandi persónusköpun, meiri sérkenni eða sérvisku. En sem „primus motor“ jafnast enginn á við Kára. Þriðja aðalhjól vagnsins er síðan Stephanie Lewis sem bregður sér í ýmis hlutverk, þar á meðal sjálfrar Anitu Briem, og gerir það vel. Enn verður að nefna Halldóru Unnarsdóttur í þöglu hlutverki íslenska leiðsögumannsins, sem minnti einna helst á neyðarkall Landsbjargar í útliti og stóð vaktina af trúmennsku.

Umgjörð sýningarinnar er hugkvæm. Hún er verk hinnar ítölsku Fransescu Lombardi sem er greinilega bæði hugmyndarík og handlagin. Sérstaka ánægju vöktu fagrir og óvenjulegir smíðisgripir úr bylgjupappa í upphafi sýningarinnar. Önnur umgjörð; hreyfimyndir, tónlist og ljós, þjónar öll sínum úthugsaða tilgangi. Þetta er úthugsuð sýning þó óreiðan sé þó nokkur og sundurgerð í útliti og aðferðum einkenni hana.

Journey to the Center of the Earth verður síðasta sýning Kára Viðarssonar í Frystiklefanum á Rifi ef marka má yfirlýsingar. Það er sjónarsviptir að þessari einstöku orkustöð undir Jökli. En öllum leiðöngrum lýkur. Þessum lýkur með hvelli. Blessaðar kenningarnar hafa verið afsannaðar. Enn einu sinni. Allt er hægt.

þriðjudagur, janúar 03, 2017

Salka Valka

Eftir Halldór Laxness í leikgerð Yönu Ross og Sölku Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Yana Ross. Leikmynd: Michał Korchowiec. Búningar: Filippía Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Dramatúrg: Salka Guðmundsdóttir. Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon. Myndbandshönnun: Algirdas Gradauskas. Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir. Leikarar: Auður Aradóttir, Björn Stefánsson, Guðni Kolbeinsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Júlía Guðrún L. Henje, Sigrún Edda Björnsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 30. desember 2016.

Sjálfstætt fólk


„Hér er verkfall!“

Ætli einhver hafi látið þessi orð flakka í frystihúsinu á Þingeyri milli jóla og nýárs? Þar sem útgerðarmenn, sem „eiga bara allan fisk hér í firðinum og öll skip“ eins og Bogesen, þrátefla við sjómenn í verkfalli sem bitnar ekki síst á hinum láglaunuðu landverkamönnum. Jafnvel réttlát stríð heimta saklaus fórnarlömb.

Það er skoðunarefni af hverju Salka Valka hefur ekki orðið jafn fjölnota útgangspunktur og stefnuviti í sjálfsmyndarskoðun þjóðarinnar og nágranni hennar úr sveitinni í höfundarverki Laxness. Vafalaust leikur kynferði hetjunnar þar hlutverk. Og svo á sjávarþorpslífið, sem hér er sett undir óviðjafnanlegt smásjárgler og miskunnarlausan spéspegil Halldórs, öllu lágværari lofgjörðarkór, færri nærsýna og rómantíska aðdáendur en sveitamenningin sem fær viðlíka trakteringar í Sjálfstæðu fólki.

Hitt er ljóst að á Íslandi nútímans er endurómur Sölku í Mararbúð enn sterkari en Bjarts í Sumarhúsum. Að frumlesa Sölku Völku í dag skilur mann eftir með þá tilfinningu að þarna fari brýnasta, og alveg mögulega besta, skáldsaga Gljúfrasteinsjöfursins.

Leikgerðir eru ekki það sem þær voru. Við að fletta gömlum leiklistarskrifum verða fljótt fyrir manni nokkuð óþreyjufullar óskir um að höfundar leikgerða (bæði leiktexta og sýninga) sýni meiri djörfung og sjálfstæði í vinnu sinni. Hætti að fletta bókum og reyna að troða eins miklu af efni þeirra og hægt er í þá 2–3 tíma sem til ráðstöfunar eru, eins og leiksýning sé einhverskonar listræn gæsalifur.

Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjir sem hafa tjáð slíkar hugmyndir hugsi hið fornkveðna; að gott sé að fara varlega með óskir sínar, þegar þeir horfa á Sölku Völku þeirra Yönu Ross og Sölku Guðmundsdóttur í Borgarleikhúsinu. Þær sækja það í efnisbrunn bókarinnar sem þær telja að eigi erindi við okkur hér, og láta táknmyndir, atburði og fyrirbæri í nútímanum tala við efni sögunnar þannig að allt varpi ljósi hliðstæðna og andstæðna hvað á annað. Láta söguþráð og samhengi sér nokkuð í léttu rúmi liggja. Vinnubrögðin eru afsprengi hinnar ólínulegu dagskrár.

Tekst þetta? Já, eiginlega. Að því gefnu að „heildstæð“ hafi ekki verið ofarlega á áformalista aðstandendanna. Því hér ægir öllu saman: Hér er saga Salvarar Valgerðar og móður hennar í fortíðinni. Og kannski líka stundum í nútíðinni. Hvernig kaupin gerast á eyrinni við Axlarfjörð í saltfiski fyrir stríð og túrisma eftir hrun. Hvernig ástin og valdið stíga sinn dans hvort sem grimmur kapítalismi, bláeygur kommúnismi eða harður valdapíramídi kvikmyndasettsins er dagskipunin. Vel hefði verið hægt að ímynda sér sýningu sem léti sér nægja að flytja söguna í heilu lagi til nútímans og vinna úr henni þar. Eða þá að halda sig alfarið við rammann með kvikmyndagerðarfólkið að gera mynd upp úr bókinni. Þessar leiðir hefðu hvor um sig alveg virkað. Það er svo afgerandi listræn ákvörðun að fara báðar og hvoruga.

Það er líka sundurgerðarbragur á sviðsetningu og leikmáta. Groddaleg og barnaleg skopfærsla er látin í næstu koju við nostursamlegan raunsæisblæ. Og að hætti nútímaleikhússins fáum við líka að sjá leikarana fella allar grímur og mæta okkur sem þeir sjálfir.

Það er kannski ekki alveg satt að segja þetta allt koma heim og saman, en þegar upp er staðið er sýningin áhrifaríkt margflata listaverk sem hreyfir við viðtakandanum og feilskotin gleymast hratt.

Því auðvitað eru feilskot. Það er líka talsverður fórnarkostnaður í nálguninni. Kannski einna helst möguleikar leikendanna á að skapa trúverðugar, þrívíðar persónur með sálrænni rökvísi og samkvæmni, eins og þær sem verða til í huga lesandans við lestur bókarinnar. Þannig þarf Þuríður Blær Jóhannsdóttir að seilast í klisjuskúffuna til að sýna okkur hina þvermóðskufullu ungu Sölku fyrri hlutans, með ygglibrún og hendur á mjöðm sem einu tækin. Þeim mun er afrekið meira þegar leikkonunni tekst að gera Sölku að heilsteyptri og tilfinningadjúpri konu eitt augnablik, í makalausu skilnaðaratriði hennar og Arnaldar inni í vörugámi/búningageymslu undir lok verks. Þar nær Hilmar Guðjónsson líka vopnum sínum eftir að hafa verið næsta óskýr Arnaldur fram að því, fórnarlamb aðferðarinnar.

Sigurlína hennar Halldóru Geirharðsdóttur er heldur ekki sérlega fullskapaður karakter, enda lunginn af hennar harmsögu um garð genginn þegar sýningin hefst. Hún er hinsvegar frábær í skopfærðum þríleik sínum með Jukka og Steinþóri. Og Halldóra er framúrskarandi í rammahlutverki sínu, kvikmyndaleikstjóranum. Leikhópurinn í heild sinni var öryggið uppmálað í spunakenndum stíl þeirra uppbrotsatriða.

Hilmir Snær verður líka nokkuð fjölþreifinn við staðlaðar aðferðir við að sýna yfirgangssamar fyllibyttur í fyrri hlutanum. Vel gert sem slíkt auðvitað, en einhver þarf bráðum að biðja Hilmi að fara varlega í daðrið við hljóðvillur í raddbeitingu sinni, þessir letilegu sérhljóðar eru meira truflandi en áheyrilegir. Ein áhættusamasta hugmynd sýningarinnar er dýraleikir kjarnafjölskyldunnar, og vel gæti ég trúað að heitustu aðdáendur bókarinnar eigi erfitt með að kyngja henni. Ég sannfærðist á endanum og samleikur Hilmis og Júlíu Guðrúnar L. Henje sem Sölku yngri í upphafi var afar fallegur. Barnaleikir eru ein fjölmargra hugmynda sem ganga gegnum sýninguna og ein sú snjallasta.

Júlía Guðrún skilaði sínu krefjandi verkefni stórvel og það hvernig nærvera barnsins fléttast um alla sýninguna var áhrifaríkt og vel útfært. Skilur áhorfandann reyndar eftir með mesta hroll og gæsahúð leikársins áður en yfir lýkur.

Utan fjölskylduhringsins og stóru hlutverkanna er óhjákvæmilegt að grípa til breiðu penslanna og leyfa sér viðteknar brellur. Þar flaug hæst samband Steinunnar í Mararbúð og Jóhanns Bogesen sem Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson fóru fallega með. Bogesenbörnin voru skýr en lítið eftirminnileg hjá Birni Stefánssyni og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur og sama má segja um Jukka Halldórs Gylfasonar. Í hefðbundnum sýningum eru litríkar aukapersónur Laxness litlir konfektmolar fyrir flinka karakterleikara. Þetta er ekki hefðbundin sýning.
Ótalinn er Guðni Kolbeinsson, sem gegnir sögumannsskyldum í hljóðbúri á sviðinu, að sjálfsögðu óaðfinnanlega. Þessu vopni er lengst af beitt af skapandi skynsemi, en undir lokin er honum falið of augljóslega að stoppa í framvindugötin; kynna Beintein í Króknum til sögunnar og gefa ágrip af verslunarsviptingum á Óseyri, og töfrarnir glatast. Hljóðbúrið sjálft er skemmtilegur hluti leikmyndarinnar. Hús skáldsins. Og undir lokin hús Steinþórs.

Leikmynd Michałs Korchowiec er meira snjöll en falleg, eins og við á. Járnaruslið, sem lengi vel var eins og hvert annað óskiljanlegt brak sem einatt safnast fyrir í kringum athafnasvæði í fjöruborðinu, fékk smám saman á sig mynd Leifsstöðvar. Og mikið gladdi hún mig, flaskan sem öðru hverju rúllaði á gólfinu í hljóðmynd Baldvins Þórs Magnússonar, minnti á brennivínsmenninguna og hina völtu veröld. Tónlistarvalið gladdi mig, þessir amerísku verkalýðssöngvar, banjó og sakleysi. Litapallettan í búningum Filippíu Elísdóttur skapaði heildarsvip í sundurgerð tímarammanna, og væntanlega var það ekki hennar ákvörðun að sniðganga svona blákalt buxnabrúkun Sölku meðan hún er til umræðu en klæða hana svo í buxnadragt undir lokin. Hér leynist einhver meining sem kristallast ekki fyrir mér, en ég neita að láta trufla mig að ráði. Lýsing Björns Bergsveins Guðmundssonar sýndist mér skila sínu þjónustuhlutverki með sóma.

Eitt eftirminnilegasta atriðið – kannski lykilatriðið – er um miðjan seinni hlutann. Þá kastar leikhópurinn hlutverkahamnum og fer að ræða málin um persónur sínar, einkum Bogesen og Sölku. Leikarar eru orðnir fjári góðir í þessari brellu, einni af klisjum samtímaleikhússins. Hér á t.d. Hilmir Snær sína bestu stund í sýningunni, að skopast með stórleikarahlutverkið svo minnti helst á gömul Fóstbræðraafrek (og hvað er samtímalegra en það?). Niðurstaða spjallsins er að Salka sé ekki eins og neinn, verði ekki sett í neitt hólf. Of einstök, of almenn, of fullsköpuð, of mikið hún sjálf.

Nákvæmlega!

Í stað þess að eyða orku sinni í að fanga og endurskapa þessa heildstæðu persónumynd, þessa rökvísu þroskasögu í öllum sínum mótsagnakennda margbreytileika, hafa Yana, Salka og listamannahópurinn allur ákveðið að deila með okkur hinum ólíkustu hugrenningum sem hún kveikir, með þeim aðferðum sem best miðla hverri og einni. Útkoman hreyfir við vitsmunum, tilfinningalífi, gæsahúðkirtlum og jafnvel augnkrókunum. Sýningin kemur ekki í stað bókarinnar og kærir sig ekki um það. Hér er sjálfstætt listafólk að störfum.