laugardagur, apríl 29, 2023

Don Pasquale

Tenórar og tálbeitur


Ópera Donizettis, Don Pasquale var frumflutt í janúar 1843 við mikinn fögnuð. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, til dæmis margt skánað í samskiptum kynjanna. Stúlkum á Vesturlöndum er ekki lengur haldið fáfróðum í klausturskólum og svo látnar giftast gömlum ríkum köllum án þess að ráðahagurinn sé borinn undir þær fyrst. Kannski ætti að byrja að fara yfir söguþráðinn í helstu perlum gamanóperuhefðarinnar og snúa sér síðan að þeim stöðum í bókum Roald Dahl þar sem persónur eru sagðar feitar og ljótar.
Það stendur samt ekkert til. Reyndar virðist óperuheimurinn og unnendur hans hafa ótrúlegt umburðarlyndi fyrir almennu glóruleysi í boðskap, persónusköpun og skorti á rökvísi í framvindu. 
Þetta afhjúpast auðvitað afgerandi í nánd Þjóðleikhúskjallarans hjá þeim Ragnari Pétri Jóhannsyni (bassi, Don Pasquale), Ásláki Invarssyni (barítón Malatesta), Þórhalli Auði Helgasyni (tenór, Ernesto) og Sólveigu Sigurðardóttur (sópran, Norina) með píanistann Sigurði Helga sem virkan þátttakanda umfram að kitla fílabeinið. Og það er ekki bara hin rúmfræðilega nálægð sem um ræðir, heldur ekki síður sú að svipta tónlistina glansgalla hljómsveitarútsetningarinnar. Að ógleymdu máli málanna: að opinbera sjálft innihaldið með því að syngja á íslensku.
Skiptir þetta máli? Já, vissulega reynist sagan frekar ógeðfelld, tónlistin engin sérstök snilld svona nakin, og í hita leiksins taka söngvararnir ungu ekkert sérstakt tillit til aðstæðna og nálægðar þegar þau þenja sig fortissimo. En á móti kemur frábær færnin í flutningnum, lipur og hnyttin þýðing Sólveigar og áreynslulaust flæðandi sviðssetning Tómasar Helga Baldurssonar. Já og leikgleðin og sannfæring hjá þessum unga hópi sem kallar sig Sviðslistahópinn Óð. Það má hafa sig allan við að viðhalda efasemdum sínum um það það sé þess virði að viðra þetta verk, að halda lífi í þessu formi, þegar kraftur og útgeislun hópsins skellur á manni og maður stendur sig að því að hlæja að fúlustu bröndurum aftan úr grárri og grimmri forneskju. 
Það er alveg ljóst að eigi óperulistin – óperuarfurinn – að lifa áfram verður hún að þola þessa nálægð, þennan einfaldleika. Hún verður að þrífast í fátæka leikhúsinu. Ungu hæfileikabúntin í Sviðslistahópnum Óði trúa því og boða þá trú af öllum lífs- og sálarkröftum. Það er gaman, hvað sem öðru líður.