föstudagur, janúar 06, 2023

Ellen B.

Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Benedict Andrews. Leikmynd og búningar: Nina Wetzel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hjóðhönnun: Gísli Galdur Þorgeirsson og Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Benedikt Erlingsson, Ebba Katrín Finnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins mánudaginn 26. desember 2022.

Prófsvindl í skóla lífsins

„það gerist ekkert slæmt“ segir enskukennarinn Astrid við Klöru, sambýliskonu sína og fyrrum nemanda, þegar von er á skólastjóranum Úlfi í óvænt spjall og vínglas heima hjá þeim. Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Meyenburg sækir áhrif sín að mestu leyti í „hina spenntu bið eftir endinum“ sem Sigurði Pálssyni varð svo tíðrætt um í leikritunarfyrirlestrum sínum, svo áhorfandanum er umsvifalaust ljóst að þarna reynist Astrid ekki sannspá. 
Í hönd fer lúmsk og stundum nakin og grimm barátta um yfirráð, framgang og sjálfan sannleikann. Glíma um þá mynd sem við þurfum að gefa af okkur til að fá að lifa í friði og snýr bæði að umheiminum, okkar nánustu og jafnvel okkur sjálfum. Mynd sem endurspeglar raunveruleikann stundum hættulega illa, stundum hættulega vel. Veitist ýmsum betur þá tvo tíma sem sýningin tekur og heimsókn skólastjórans spannaði á frumsýningu.
Glöggir lesendur munu átta sig á að síðasta efnisgrein lýsir bærilega eldsneytinu í næstum öllu drama. Ekki bara tilvistarharmleikjum á borð við Ödipús konung heldur líka svefnherbergisförsum Ray Cooney og fjöldaframleiddum Netflix-tryllum. Kannski einna síst í formtilraunaverkum tuttugustu aldarinnar og póstdramatískum uppátækjum þeirrar tuttugustu og fyrstu. Sigurði heitnum þótti hin spennta bið heldur ódýr brella, en ekkert bendir til þess að leiklistarunnendur fái nokkru sinni nóg af henni.
Ellen B. er semsagt nokkuð hefðbundið spennuleikrit, drifið áfram af afhjúpunum og vendingum í valdatafli fárra persóna í rauntíma. Fólk sem sá Kæru Jelenu eftir Ljúdmílu Rasúmovskæju mun kannast við sig í stofunni hjá  þessari kennslukonu þó hún fái sennilega betur borgað og hafi nútímalegri innanhússhönnuð á sínum snærum. 
Efnistök höfundar eru að þessu sinni strang-raunsæisleg. Ólík t.d. Stertabendu og Bæng! sem eru hin verkin sem ég hef séð úr smiðju Meyenburg í íslensku leikhúsi. Að þessu sinni sé ég hann fyrir mér grúfa sig yfir verk Davids Mamet og glósa. Bjarni Jónsson réttur maður til að miðla textanum á íslensku. Díalógurinn geislar af krafti og uppbyggingin er snjöll. Litlum sprengjum með löngum kveikiþráðum plantað snemma og áhorfandinn er næstum búinn að gleyma þeim þegar allt fer í háaloft. Þetta er verk þar sem umsögn getur ekki leyft sér að rekja efnisþráð svo nokkru nemi, og verður það látið ógert hér eins og hægt er.
Ég er ekki sannfærður um að þessi byrjunarreitur boðaðs þríleiks sé verulega bitastætt eða umhugsunarvert innlegg í málefni samtímans. Ekki umfram það sem allar vel sagðar sögur geta verið upphafsreitur vangaveltna um hversvegna allt fór eins og það fór og hvernig það hefði getað farið öðruvísi. Og að sjálfsögðu hvort við hin séum endilega eitthvað skárri. Í viðtölum og öðru kynningarefni verksins hefur verið lögð rík áhersla á mikilvægt og tímabært erindi Ellenar B., sem ég held að sé misráðin og jafnvel villandi. Þetta er fyrst og fremst æsandi kvöldstund þar sem nútímaleikhús gerir það sem það hefur gert best frá því Ibsen var á dögum: Loka breyskt fólk inni í kassa og sjá það berjast fyrir lífi sínu.
Þetta tekst að mestu framúrskarandi vel. Umgjörðin til dæmis: ofursmört og naumhyggjuleg leikmynd Ninu Wetzel, lýst eins og sýningargluggi eða skurðstofa af Birni Bergsteini Guðmundssyni með áhrifaríkri hjartsláttarhljóðmynd Gísla Galdurs Þorgeirssonar til að magna spennuna eftir þörfum. Búningar Ninu fyrir Astrid og Klöru ríma við annað útlit, smartir og einfaldir, svo elegant að rauðu rendurnar á íþróttasokkum Klöru fanga strax athyglina. Á þessu heimili slappar aldrei neinn af. Úlfur er öllu hversdagslegri. Gervi hans er einkennisbúningur einmana og hæfilega hirðulauss skólamanns, sem sækir myndugleik sinn í hefðina fyrir að einmitt svona kallar skilgreini heiminn og stýri honum. Þurfa ekki að vera elegant, það er hlustað þegar þeir tala og ef það er af þeim vond lykt þá er það vandamál annars fólks.
Þessi skarpi munur getur þvælst fyrir áhrifamættinum. Það er svolítið eins og hér mætist ekki bara tvö valdakerfi, tveir reynsluheimar innan verksins heldur tvenns konar leikhúsfagurfræði sem ögrar raunsæisstemmingunni sem annars ríkir. Manni finnst eins og í sköpun Úlfs hafi Meyenburg og ekki síður Benedikt Erlingsson rifjað upp alla skrítnu kennarana með óþægilegu nærveruna og leyft sér að nálgast skopstælingu með blöndu af nostslgíu og skítaglotti. Þetta er vitaskuld ómótstæðilegt og nákvæmlega það sem færir heim sanninn um hvað leikarans Benedikts hefur verið saknað og hvað hann gerir best.
Persónusköpun kvennanna hefur ekki þessar raunsæisrætur, og fyrir vikið verða þær Astrid og Klara þokukenndari, jafnvel eins og þær séu úr annarri leikhúshefð eins og minnst var á hér að framan. Það kemur verr út fyrir Astrid, sem þarf að vera þungamiðjan í dauðadansinum. Það er erfitt að finna fyrir hinum ástríðufulla kennara sem er gagntekinn af nemendum sínum, og ummerkin um hann sem textinn vísar til sjást hvorki í leikmynd, búningum né í fasi Unnar Aspar Stefánsdóttur í hlutverkinu. Á móti skilar hún skýrt útsmognu ólíkindatólinu og það hvað Astrid verður mikil ráðgáta í túlkun Unnar þjónar heildaráhrifum sýningarinnar ágætlega. 
Klara er augljóst þriðja hjól í þessu tafli, og líkt og með Astrid gefur búningur og lögn lítið upp um hvernig lífii hennar er háttað í heiminum utan heimilisins, eða ef því er að skipta í heimilislífinu með sambýliskonunni. Ebba Katrín Finnsdóttir heldur engu að síður áfram að festa sig í sessi sem fremst meðal jafnaldra sinna í leikaraliðinu. Heldur vel í við kanónurnar og reynsluboltana sem deila sviðinu með henni og langt eintal Klöru um vaknandi kynhneigðarmeðvitund og samdrátt þeirra Astridar er glæsilegur virtúósahápuntur sýningarinnar.
Frá því ég sá fyrst til verka Benedicts Andrews hefur mér þótt hann afburðamaður í listinni að sviðsetja. Að láta stöður og hreyfingar leikaranna í rýminu þjóna spennu og frásögn. Það reynir öðruvísi á það hér í þessu kammerverki en í epískum stórvirkjum Shakespeares, og á sinn þátt í að magna andrúmsloftið. Ég hef vissar efasemdir um tíða notkun leikstjórans á áhorfendasalnum sem hluta leikrýmisins, sem getur verið áhrifaríkt uppbrot en tókst ekki að sannfæra mig um notagildið hér.
Ellen B. er kraftmikil, spennandi sýning. Verk skrifað af kunnáttu og öryggi, túlkað af sannfæringu um erindi þess, flutt af fimi og innlifun. Vekur hlátur, andköf og umhugsun. Verðskuldar hið besta gengi meðal fólks sem ann leikhúsinu að gera það sem það gerir best.