Fíflið
Eftir Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir: Tónlist: Eyvindur Karlsson. Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefásson. Hár og förðun: Ninna Karla Katrínardóttir. Grímur: Elín Sigríður Gísladóttir og Agustino Dessi. Leikendur: Bjarni Thor Kristinsson (rödd), Eyvindur Karlsson og Karl Ágúst Úlfsson. Frumsýnt í Tjarnarbíói 3. september 2022, rýnir sá sýningu 4. september.
Forréttindafífl
„Your All-Licenced Fool“ kallar Goneril fífl föður síns í Lé konungi, og Þórarinn Eldjárn þýðir snyrtilega sem „forréttindafífl“. Nær samt ekki alveg tilfinningunni fyrir að fíflið megi segja allt, gera hvað sem er, sem er svo skýrt í frumtexta Shakespeares. Skilar hinsvegar vel hvað Goneril er illa við þessa skipan mála, enda er forréttindatíð fíflsins og húsbónda þess senn á enda þegar hún hreytir þessu í karlinn.
Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort hlutverk fíflsins, sem má – og kannski ekki síður á – að veita valdinu aðhald með sannleikanum í skopbúningi, sé réttnefnd „forréttindi“. Kannski er þetta ekki svo snjöll þýðing þegar allt kemur til alls. Þetta er eitt viðfangsefni Fíflsins, kveðju- og uppgjörssýningar Karls Ágústs Úlfssonar við feril sins á sviði og skjá. Hvað það hefur einatt kostað fíflin mikið að segja það sem þau segja. Sem þau vissulega eiga að segja, en ekki er alltaf vinsælt að heyra.
Hinir fjölbreyttu en einatt vel samverkandi hæfileikar og fagkunnátta Karls Ágústs koma glæsilega saman í Fíflinu. Hann er með háskólagráðu í leikritun og Fíflið er sérlega vel formað á heildina, flæði milli atriða og grunnhugsun skýr og beitt. Velta má fyrir sér hvort hinn ysti rammi sé beinlínis nauðsynlegur: að Karl sé mættur í leikhúsið til að sækja um vinnu. Sú hugsun rennur svolítið út í sandinn þegar gamanið fer í gang, víkur fyrir upprifjun á ýmsum sögum af nafnkunnum fíflum sögunnar og bókmenntanna, og samskiptum þeirra við yfirmenn sína.
Ramminn stangast líka svolítið á við þann yfirlýsta tilgang sýningarinnar að marka starfslok stjörnunnar.
En á hinn bóginn er það kannski einmitt viðeigandi að áhorfendur séu ávarpaðir sem mögulegir vinnuveitendur fíflsins. Í okkar lýðræðislega nútímasamfélagi eru það jú við, almenningur, áhorfendur, sem förum með hið endanlega vald sem áður var í hendi konungs, í umboði Guðs almáttugs. Er það ekki annars?
Karl er vel menntað leikskáld, en hann er líka, kannski fyrst og fremst, einn afkastamesti sketsasmiður íslenskrar menningarsögu. Fundvís á hárréttar nálganir á hvert viðfangsefni, orðheppinn og beittur. Blygðunarlaus beitandi fimmaurabrandara þegar þeir gefa kost á sér, en svo sannarlega ekki upp á þá kominn. Hér eru dregnar upp ófáar skýrar smámyndir. Samspil fortíðarmyndanna af hirðfíflum úr grárri forneskju við umfjöllunarefni sem einatt tengjast samtímakýlum sem stinga þarf á eru oftar en ekki eitursnjöll.
Leikskáld, sketsasmiður, og þriðja vopn höfundarins Karls Ágústs er síðan frábært vald hans á bundnu máli. Hér eru bráðhnyttnir söngtextar mikilvægur þráður í vefnum, vel og smekklega tónsettir af Eyvindi syni hans, sem jafnframt er verðugur og flinkur mótleikari þegar á þarf að halda. Tónlistin í lokanúmerinu reyndar fengin að láni. Frábær hugmynd, snjall texti og óhjákvæmilegur lokahnykkur, finnst manni þegar maður áttar sig á hvað það er. En það þarf auðvitað að láta sér detta það í hug.
Annar mótleikari hljómar síðan af bandi, Bjarni Thor Kristinsson setur ofan í við fíflið af himnum ofan og rifjar upp eina „fegurstu“ stund Spaugstofunnar sem stungumenn samfélagskýla.
Það er samt ekki höfundurinn sem er að kveðja, heldur leikarinn Karl Ágúst. Flytjandinn. Einnig þar á hann góðan dag. Ætli nokkur núlifandi íslenskur leikari hafi flutt eins mikið af eigin texta? Týpugerðarmaðurinn er í essinu sínu á þessum endaspretti, þar sem raddblær, líkamshollning og málsnið rennur saman í skýra og eftirminnilega skyndimynd. Þær eru ófáar hér. Sviðsetning Ágústu Skúladóttur lipur og öll samþætting hennar á hinum fjölbreyttu meðölum sem beitt er. Umgjörð Guðrúnar Öyahals (leikmynd og búningar), Ólafs Ágústs Stefánssonar (lýsing) og Ninnu Körlu Katrínardóttur (hár og förðun) og Elínar Sigríðar Gísladóttur og Agustino Dessi (grímur) er smekkleg, svipmikil og skilar sínu til heildaráhrifanna.
Fíflið virkar á öllum plönum. Frjó hugvekja um hlutverk þess sem bregður upp spéspeglinum, fyndið dæmasafn úr sögunni, hvöss ádeila á misbresti samtímans. Og að lokum ljúfsár kveðjustund – ef við ætlum að virkilega að trúa því að þessum frjóa og flinka listamanni sé alvara með því að leggja rauða nefið loksins á hilluna. Það verðar teljast frekar fúl alvara.
En er þessum fíflum nokkurn tíman alvara?
<< Home