Ein komst undan
eftir Caryl Churchill. Íslensk þýðing: Kristín Eiríksdóttir. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson og Móeiður Helgadóttir. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Tónlist: Garðar Borgþórsson. Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir. Aðstoðarleikstjóri: Halla Káradóttir. Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Margrét Ákadóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 4. febrúar 2022.
Hverfanda hvel
Fálæti þeirra sem stýrt hafa verkefnavali íslenskra leikhúsa undanfarna áratugi gagnvart verkum Caryl Churchill virðist loks á enda. Bæði stofnanaleikhúsin eru með verk úr hennar smiðju á efnisskrá sinni. Vonum seinna, mætti segja. Það þarf ekki mikla djörfung til að fullyrða að Churchill sé merkasta enska leikskáld síðari hluta tuttugustu aldar, ásamt með Harold Pinter. Enginn stendur henni á sporði sem könnuður möguleika leiksviðsins til að rannsaka samfélag og sálarlíf. Varpa ljósi á óréttlæti og grimmd, pólitíska jafnt sem persónulega, og halda jafnframt á lofti möguleikum ástar, samhygðar og hamingju. Tilraunagleðin virðist endalaus, glóðin er jafn heit í nýjustu verkunum, skrifuðum þegar skáldkonan er komin yfir sjötugt, og leikritunum sem komu henni á kortið á fyrri hluta áttunda áratugs síðustu aldar.
Innblástur Churchill fyrir Ein komst undan var að hennar sögn í formála útgefins leiktexta „að hafa eitt sinn séð nokkrar konur í bakgarði í gegnum girðingarhlið“, en hún tekur þó fram að „eitthvað meira búi auðvitað að baki“. Þessi óræða lýsing gefur reyndar ágætis grunnmynd af því sem mætir áhorfendum. Þrjár eldri konur sitja og spjalla þegar sú fjórða, frú Jarrett, opnar hlið og bætist í hópinn. Hún virðist ekki vera þeim hinum með öllu ókunnug, en þó ekki beinlínis tilheyra hópnum. Þannig þekkir hún ekki dramstískustu söguna sem smám saman er rakin, rifjuð upp og afhjúpuð: hvernig stóð á því að ein af vinkonunum þremur hafnaði í fangelsi fyrir margt löngu. Auk þess stígur frú Jarrett reglulega út fyrir heim verksins og flytur áhorfendum hrollvekjandi, ljóðræna og myndríka texta um mögulega heimsenda, þar sem náttúran og dýrslegt eðli mannsins taka höndum saman í tortímingunni, á sífellt hugkvæmari vegu.
Þar fyrir utan ríkir algert raunsæi í textanum. Smásmyglislegt raunsæi af því tagi sem fær á sig blæ fáránleikans og skáldlegrar ljóðrænu í höndum meistara. Raunsæi byggt á djúpu innsæi og þrautþjálfuðum tökum á listinni að skrifa leiktexta. Vinkonurnar rifja upp gamla tíma, barnagælur og popplög, harma hlutinn sinn, tala kjark hver í aðra, kýta smávegis, tala í kross, botna hugsanir hverrar annarrar. Velta fyrir sér hverju því sem kemur upp: skammtafræði, töluorðum, fuglum, sjónvarpsþáttaröðinni sem þær allar eru að hámhorfa en komnar mislangt með. Stíll verksins gerir miklar kröfur til leikendanna. Samleikur þarf að vera hárfínn til að allar hinar hálfkláruðu setningar, óvæntu vendingar og rökvísin í samfléttaðri tilveru Lenu, Sallyar og Vi virki, en hefji sig jafnframt yfir að vera einber tækniæfing.
Það lukkast svo sannarlega í meðförum leikkvennanna fjögurra. Mjúk og lífræn snerpa, djúp innlifun og ekki síst kyrrð og hlustun einkennir framgöngu hópsins alls. Sprenghlægilegur kjánagangur víkur á andartaki fyrir innsýn í sáran æviharm. Okkur finnst kattafælni hinnar annars sjálfsöruggu Sallyar pínu spaugileg fyrst, en þegar Margrét Ákadóttir hefur lokið við að útlista hvað fælnin kostar hana skiljum við sálræna byrðina. Það sama gerist þegar Margrét Guðmundsdóttir opnar okkur leið inn í þunglyndi Lenu, milli þess sem hún smellhittir húmorinn í tilsvörunum. Og þó Vi beri sig tignarlega í meðförum Kristbjargar Kjeld skellur nistandi sorgin í eintalinu um kostnaðinn við voðaverkið, sem hún kannski varð að vinna, á áhorfendum eins og hápunktur í klassískum harmleik.
Og Sólveig Arnarsdóttir fylgist með sem frú Jarrett. Leggur sitt til málanna og teiknar upp magnaðar myndir af súrrealískum endalokum með sinni sterku nærveru og kröftugri textatúlkun. Meðan hópurinn horfir til baka lítur hún til myrkrar framtíðar þar sem leifar mannkynsins tórir neðanjarðar, krabbamein grasserar jafnt í fingurgómum og fartölvum og raunveruleikasjónvarpsþættir sjá um að útdeila þeim litla mat sem er til skiptanna. Frábær hugmynd að kalla Kristínu Eiríksdóttur til verks til að þýða verkið, hún miðlar bæði skáldlegu fluginu og nákvæmu raunsæinu óaðfinnanlega.
Leikmynd Egils Ingibergssonar og Móeiðar Helgadóttur hefur bæði raunsæisblæ og táknrænan merkingarauka. Þessi lúni steynsteypti bakgarður með blómakerjum þar sem ekkert þrífst nema rusl, og náttúrulega vinkvennahópurinn. Veggflekarnir tóku fallega við stemmingsríkri lýsingu Egils og Móeiðar. Litsterkir búningar Stefaníu Adólfsdóttur eru öllu meira augnayndi, en vega einnig fallega salt milli raun- og táknsæis, líkt og leikmyndin og verkið sjálft. Á tveimur stöðum er leikmyndin látin blanda sér í atburðarásina. Hvorugt tilvikið á sér stoð í textanum og bætir hvorugt neinu markverðu við upplifun eða skilning. Tónlist Garðars Borgþórssonar og hljóðmynd Þorbjörns Steingrímssonar vinna vel með stemmingunni í umgjörðinni og sýningunni.
Vinna Kristínar Jóhannesdóttur með leikkonum sínum hér er eitt af hennar áhrifaríkustu verkum fyrir leiksvið. Allt sem við heyrum og sjáum sækir mátt sinn og merkingu í texta frábærs og frumlegs leikskálds sem vakinn er til lífs af framúrskarandi og örlátu listafólki. Ómótstæðileg mynd af heimi á hverfanda hveli. Fegurð hans, vonbrigði, örvænting, gleði og reisn í túlkun fjögurra framúrskarandi leikkvenna með algert vald á list sinni. Ein komst undan er listrænn sigur sem hver leikhúsunnandi ætti að gæta þess að missa ekki af.
<< Home