miðvikudagur, september 15, 2021

Rómeó og Júlía

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarsson. Leikstjórn og leikgerð: Þorleifur Örn Arnarsson. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Anna Rún Tryggvadóttir og Urður Hákonardóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Myndband: Nanna MBS og Signý Rós Ólafsdóttir. Tónlist og söngtextar: Salka Valsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Auður og Bríet Ísis Elfar. Tónlistarstjórn: Salka Valsdóttir. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Danshöfundar: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebecca Hidalgo. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Salka Valsdóttir, Rebecca Hidalgo, Atli Rafn Sigurðarson, Hilmar Guðjónsson, Bríet Ísis Elfar, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Arnar Jónsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Jónmundur Grétarsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 4. og 5. september 2021.

Þú og ég við erum svo ...

Þrjú leikritanna sem Shakespeare skrifaði á árunum 1595–6 mætti sem best kalla „feðraveldisþríleikinn“. Rómeó og Júlía, Draumur á Jónsmessunótt og Kaupmaðurinn í Feneyjum sækja öll hreyfiafl í tilraunir feðra til að stýra makavali dætra sinna. Grimmilegast birtist þetta í Draumnum, sem þó er hreinræktaðasti gleðileikurinn af þessum þremur. Shakespeare er nefnilega háll sem áll þegar kemur að því að greina hann, flokka, kryfja – og sviðsetja. 
Hálkan er bölvun og blessun. Hún er atvinnuskapandi fyrir fræðimenn og á örugglega sinn þátt í vinsældum helstu verkanna í leikhúsum allra tíma og allra þjóða. 
Síðarnefndu verkin tvö eru samkvæmt hefðinni flokkuð með gamanleikjum, sem væri kannski réttara að kalla „giftingarleiki“. Hjónaband er niðurstaða þeirra, það skiptir minna máli hvort þau veki hlátur. Reyndar er vel hægt hlæja meira að fyndnari harmleikjunum, svo sem Hamlet, en brúnaþyngri gamanleikjunum.
Rómeó og Júlía fellur snyrtilega á milli gamans og harms. Fyrri hlutinn greinir sig á engan hátt frá gamanleikjunum, en ógæfan sem hefst með dauða Tíbalts og útlegð Rómeós er harmrænan holdi klædd. Túlkun Þorleifs Arnar Arnarssonar og samstarfsfólks hans undirstrikar þessar tvær hliðar á mjög afgerandi hátt, sem kemur upplifuninni á ýmsan hátt til góða, en kostar á öðrum sviðum. Shakespeare er háll sem áll.

Best tekst það sem mestu varðar: að sýna okkur sannfærandi ástfangna unglinga, sannfærandi fyrstu sönnu ást. Þar leggst ansi margt á eitt. Hæfileikar, útgeislun og sviðsþokki Sigurbjarts Sturlu Atlasonar og Ebbu Katrínar Finnsdóttur vegur þar þyngst. Bæði leyfa okkur líka að sjá inn fyrir æskusjarmann, sem gefur þeim vídd og dýpt. Rómeó og Júlía eru nefnilega ekki bara skotin hvort í öðru, þau eru ekki síður sjálfselsk og sjálfsupptekin. Þau eru unglingar. 
Tónlistarnotkunin undirstrikar þetta. Hér eru kallaðar til liðs stjörnur úr yngri deild íslenska poppsins; Bríet, Auður og Salka Valsdóttir, auk aðalleikaranna tveggja, sem skila heilt yfir frábæru verki. Ég verð illa vikinn ef gullfallegur upphafs- og lokasöngurinn verður ekki á dagskrá þegar Klassíkin okkar kíkir aftur á leikhústónlistina eftir svona þrjátíu ár. Enn mikilvægara fyrir sýninguna er hve poppnærveran undirstrikar eðli ástarinnar sem hér stýrir örlögum: þetta er nefnilega poppást: Stundarhrifning fyrstu kynna, ást milli fólks sem þekkist ekki einu sinni þegar örlög þess ráðast á einu andartaki. Ástin sem sungið er um. Hið stórkostlega svalaatriði (sem hér er snúið skemmtilega á haus) undirstrikar þetta. Ást Rómeós og Júlíu er full af gáska, hita, gleði og kjánaskap. Hún er náttúruafl. Er hún djúp? Það mun enginn nokkurntíman fá að vita. 
Þýðing Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Jóns Magnúsar Arnarssonar vinnur með þessari kæti. Sennilega mun enginn ábyrgur kennari eða bókavörður ota henni að fólki sem langar að lesa Rómeó og Júlíu, allavega ekki ef Helgi eða Matthías eru hendi nær. En hún þjónar markmiðum þessarar sýningar ljómandi vel. Og er ákaflega trú anda frumtextans þó formið sé rofið og vikið frá bókstaflegu innihaldinu þegar henta þykir. Hrærigrautur nútímamáls og vísana í lífið hér og nú, saman við upphafna lýrík og viðtekið skáldlegt orðfæri, og smá neðanþindardónaskap þegar á þarf að halda, eru jú höfuðeinkenni höfuðskáldsins.
Þegar dimmir yfir, þegar eitruð karlmennskan brýst fram í ögrunum og mannvígum og yfirráðaréttur föðurins yfir dóttur sinni er ítrekaður með vel þekktum afleiðingum, missir sýningin flugið. Eins vel og stílsmáta og nálgun Þorleifs og félaga lætur að nota tækni, liti, óreiðu og ofgnótt til að skapa stemmingu þá nýtist hún verr þegar efniviðurinn kallar á nákvæman fókus á atburðakeðju, þegar tilfinningarnar verða djúpar og sárar. Bardaginn sem breytir leiknum er hér hálfkjánaleg leðjuglíma sem engin leið er að greina hvert stefnir. það sem verra er: fjörið og sjóið reynist hafa haldið okkur frá aðalpersónunum svo við fylgjum þeim síður tilfinningalega eftir ofan í táradalinn. Verst er samt að það er engu líkara en það sé ekki ætlast til að við förum í þann leiðangur. Þreyttir brandarar draga reglulega athygli okkar að því að við séum reyndar bara stödd í leikhúsi og þegar hæst stendur í undirbyggingu lokakaflans, í miðri dramatíkinni, kviknar á neonskilti á stóra skjánum á bakveggnum: „intense“. Spennan slaknar í taugaveikluðum hlátrinum yfir þessari kaldhæðni. Og við missum af harmleikjalestinni. Dramað verður aldrei dramatískt.

Endastöðin er reyndar önnur en í verkinu sem sýningin byggir á. Leikrit Shakespeares er um ástfangin ungmenni sem horfa á ástvin sinn dáinn og kjósa frekar dauðan en að lifa áfram án hans/hennar. Það þarf smá plottbrellu til að þau geti bæði staðið frammi fyrir þessu vali, og nútímaleikhúsið hefur ekki mikla trú á svoleiðis. Svo þessi sýning er um ástfangin ungmenni sem kjósa í sameiningu að svipta sig lífi þegar ógnir steðja að samvistum þeirra. Það er ekki sama saga og ekki auðvelt að sjá hversvegna hún þótti betri en hin. Kannski vegna þess að hún er það ekki. 
Að öðru leyti eru helstu breytingar á gangverki verksins vel hugsaðar og sumar ágætlega heppnaðar. Það er lítil eftirsjá til dæmis af prinsinum og ekki stórvægileg af foreldrum Rómeós, og þó samsláttur Merkútíós og föður Lárens geri Atla Rafni Sigurðarsyni enga greiða í að skapa sannfærandi persónu þá reyndist það minna mál en mig grunaði þegar ég sá í hvað stemmdi. Atli fór vel með fræga textaaríuna um draumadrottninguna Möbbu, en „dauðastríðið“ hvarf í óreiðunni. 
Fyrir utan titilhlutverkin er lítið svigrúm fyrir leikhópinn að glansa þó allir hafi í nógu að snúast við að halda boltum á lofti, og hlaupa um sviðið ef ekki vill betur til. Það má velta því fyrir sér hvort boðskapnum um kerfisvillu feðraveldisins hefði ekki verið betur þjónað ef Kapúlett Arnars Jónssonar væri ekki svona mikið ógeð. Á hinn bóginn var gott að Hallgrímur Ólafsson og leikstjórinn stillu sig um að láta París greifa vera alveg óhugsandi elskhuga, eins og stundum er gert. Þessi París ætti alveg séns ef Rómeó hefði sleppt því að svindla sér inn á ballið. En mikið var Ebba Katrín fyndin þegar hún sleppti sér yfir óhugsanleikanum við að elska þennan mann. 
Þó fyrri hlutinn sé almennt betri en sá síðari náðu Nína Dögg Filippusdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir nær kjarna persónanna sinna undir lokin. Þá sá maður loksins glitta í harminn sem frú Kapúlett hefur borið alla ævi, og virðist munu endurtaka sig hjá dótturinni. Og eftir að fóstran þarf ekki lengur að vera fyndin varð Ólafía sönn. Auðvitað voru Örn Árnason og Sigurður Sigurjónsson sniðugir, þó erfitt sé að skilja hvað svona utanveltukarakterar vilja upp á dekk. Hilmar Guðjónsson er flestum betri í að vita ekkert hvað er í gangi svo úr verði fynd og það nýtist ágætlega í Benvólíó. Jónmundur Grétarsson var flottur Týbalt. Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Salka Valsdóttir, Bríet Ísis Elfar og Rebecca Hidalgo góð í sínu. Tónlistarflutningurinn hreint afbragð.
Búningar Önnu Rúnar Tryggvadóttur og Urðar Hákonardóttur eru mikið sjónarspil. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur smart  og ljósbeiting Björns Bergsteins Guðmundssonar örugg og áhrifarík. Þessir hefðbundu umgjarðarþættir eru um margt yfirskyggðir af skjánotkun sem er beitt af miklu öryggi, oft á áhrifaríkan hátt til að víkka út atburðarýmið, en líka til að færa okkur nær persónunum með nærmyndum. Þar gæti leikhúsið verið að pissa í skóinn sinn: áberandi hve orkustigið hrapar þegar slökkt er á skjávarpanum og óuppmagnaður leikari þarf að fylla rýmið á eigin spýtur.
Næst þegar Shakespeare gerði ástina að viðfangsefni, einum fimm árum síðar, voru feður og kúgunarafl þeirra víðs fjarri. Í As You Like It og Twelfth Night eru það vitrar og sjálfum sér ráðandi ungar stúlkur sem ráðast í það verkefni að breyta ástsjúkum vonbiðlum sínum í mannsefni sem á vetur eru setjandi. Við fáum aldrei að vita hvernig hitinn í ást Rómeós og Júlíu hefði hegðað sér undir svoleiðis þrýstingi. Uppfærsla Þjóðleikhússins að þessu sinni skorar hátt í tjáningu sinni á hinni trylltu órökvísi tilfinninganna en leiðir söguna ekki sannfærandi til lykta. Ungir aðalleikararnir ljóma. Það er ljómandi.
Og það er löngu kominn tími á að við fáum Kaupmanninn í Feneyjum á svið. Þar er nú aldeilis svigrúm fyrir róttæka sviðslistamenn.