Sýnt í tvo heimana
Pólverjar á Íslandi eru að bestu manna yfirsýn að minnsta kosti jafn margir og íbúar Akureyrar. Það er allnokkuð, og ekki að undra þó smám saman sé að verða til menningarlíf í þessu samfélagi sem „utanbæjarmenn“ verða líka varir við. Bíó Paradís hefur um skeið sýnt pólskar bíómyndir reglulega, og þá ekki einungis hámenningarlega útflutningsvöru. Það var einmitt við sýningu á pólskri glæpamynd sem hugmyndin að Co za poroniony pomysł kviknaði. „Úff hvað þetta er slæm hugmynd“ ku nafnið þýða, sem er auðvitað alrangt, og í góðum takti við létt-íróníska nálgun þeirra Jakubs Ziemann, Aleksöndru Skołożyńska og Ólafs Ásgeirssonar.
Leikhús um og fyrir pólska samfélagið hefur verið áberandi undanfarna mánuði, svona ef „áberandi“ er rétta orðið yfir leikhúslífið almennt. Vel má kalla eftir að fleiri listgreinar taki sér tak líka. Væri ekki t.d. ekki ráð að þýða meira af pólskum bókmenntum? Þau eiga t.d. nýlega bakaðan Nóbelshöfund, Olgu Tokarczuk. Og það kæmi verulega á óvart ef þessi fjörutíu milljón manna þjóð lumaði ekki á jafngóðum krimmum og hver önnur.
En aftur í Tjarnarbíó. Þar er í gangi ansi sniðug sýning sem er trúlega fyrst og fremst ætluð Pólverjum á Íslandi þó þessi Húsvíkingur sem hér skrifar hafi haft umtalsvert gaman af. Í anda lausbeislaðra samsköpunarsýninga nútímans vinna þátttakendur úr eigin reynslu, tveir sem ungir pólverjar að leita lífshamingju og framtíðar á framandi slóðum og einn Íslendingur sem ákveður líka kynna sér annan heim.
„I feel like I have a superpower!“ hrópar Óli upp yfir sig þegar hann hefur náð þannig tökum á pólsku með hjálp Duolingo-appsins að hann er farinn að skilja Pólverja á förnum vegi, úti í búð og í heita pottinum. Nýr heimur opnast. Þá er næsta skref að eignast vini í nýja heiminum og kynna sér menninguna.
Upphefst þá mjög forvitnilegt sjónarspil, ekki síst frá sjónarhóli Íslendingsins. Þau Óli og vinir hans, Kuba og Ola velta upp hverri staðalmyndinni á fætur annarri af pólska samfélaginu og Pólverjum almennt. Vodka og pierogi-hveitibollur eru þar í aðalhlutverki. Séríslenskir þættir á borð við veðrið, óskiljanlega sunnudagslokun Vínbúðarinnar og hina hjálpsömu Agnieszku hjá Landsbankanum sem greiðir götu landa sinna um refilstigu íslenska fjármálaumhverfisins milli þess sem hún stundar sjósund með vinkonum sínum ber einnig á góma, allt við góðar undirtektir innvígðra áhorfenda. Og sjarmi sýningarinnar hrífur okkur utanbæjarmennina með, þó hún sé lausbeisluð, ekki sérlega dramatísk og leikhópurinn augljóslega vanur að fást við aðra hluti en standa á sviði og deila lífi sínu með ókunnugum. Það kemur á óvart hvað skuggahliðar sambúðarinnar fá lítið pláss; útlendingaandúð, launamisrétti og hunsun. Varla nema beitt ljóðlína frá Olu, þess efnis að Íslendingar elski þegar Pólverjar vinni vinnuna sína almennilega. Annars er létt yfir þessari slæmu hugmynd.
Co za poroniony pomysł er skemmtilegur gluggi inn í óþarflega ósýnilegan menningarkima mitt á meðal okkar, um leið og hann skemmtir og gleður greinilega þeim sem eru þar öllum hnútum kunnugir. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er leikstjóri sýningarinnar, leikmynd og búninga gerði Þórdís Erla Zoëga og ljósin eru hönnuð af Kjartani Darra Kristjánssyni. Nina Słowińska aðstoðaði við þýðingu, en sýningin fer fram á þremur tungumálum og þýðingu á hin málin varpað jafnóðum upp á skjá svo allir geti verið með í gamninu.
<< Home