Útsending
Eftir Lee Hall, byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson. Leikmynd: Egill Eðvarðsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tæknihönnun: Björn Helgason. Tónlist: Eðvarð Egilsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristján Sigmundur Einarsson og Eðvarð Egilsson. Myndbönd og grafík: Ólöf Erla Einarsdóttir. Leikarar: Arnar Jónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hallgrímur Ólafsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson og Örn Árnason. Aðrir þátttakendur í sýningunni: Alexander John George Hatfield, Eysteinn Aron Halldórsson, Sigurlaug Knudsen Stefánsdóttir, Snæfríður Jóhannsdóttir og Sturla Skúlason Holm. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 21. febrúar 2020.
Hvort sem það var einhver af kanónum breska Þjóðleikhússins, handritshöfundurinn Lee Hall eða leikstjóri frumuppfærslunnar, Hollendingurinn Ivo van Hove, nokkurskonar sendifulltrúi fagurfræði meginlandsleiklistar í bresku stofnanaleikhúsi, sem fékk hugmyndina, þá á viðkomandi hrós skilið. Það er ekkert sjálfgefið að 45 ára gamlar næstum gleymdar amerískar bíómyndir eigi alvöru erindi við okkur, hvað þá erindi upp á leiksvið, en það reyndist vera tilfellið með Network.
Grunnsagan er ekki flókin: Sjónvarpsfréttamaðurinn Howard Beale brotnar saman í beinni útsendingu þegar honum er sagt upp störfum á hnignandi sjónvarpsstöð í eigu gráðugrar samsteypu. Niðurbrotsræðan fær gríðarlegt áhorf og snjöll dagskrárgerðarkona sér möguleikana. Howard Beale verður stjarna, spámaður hinna reiðu og valdalausu. Á vegum hinna yfirveguðu og valdamiklu. Og þar með er mótsagna- og vendingasagan ekki sögð.
Og þarna leynist skýrt – en alls ekki einfeldningslegt – erindi við samtímann. Tíma falsfrétta sem næra öfgar. Veröld þar sem skilin milli afþreyingar og upplýsingar dofna jafnt og þétt. Heim þar sem upp er sprottin bæði iðnaður og pólitískar hreyfingar sem byggja á því að greina og virkja óskilgreinda reiði, veita henni farveg og kynda bálið undir henni. Peningar og völd eru í húfi og þar sem peningar og völd eru í boði er fólk fljótlega tilbúið að sýna sínar verstu hliðar. Þannig er það í dag og þannig var það líka á áttunda áratugnum eins og sjá má íÚtsendingu .
Það er merkilegt að sýningin reynist jafn áhrifarík og raun ber vitni, svo mörgum og ólíkum vopnum sem hún beitir. Þessi óstöðugi og að miklu leyti ósamhristi kokteill af margradda amerísku bíóraunsæi, brechtískri dæmisögu og klassískum persónulegum harmleik ætti ekki að virka. En gerir það samt. Það má alveg velta fyrir sér hvort hún væri áhrifaríkari ef við fengjum að kynnast sálfræðilegum forsendum fyrir ákvörðunum Howards. Að við sæjum hann meira í samskiptum við fólk, en ekki næstum eingöngu í ham fyrir framan myndavélarnar. Í einhverjum skilningi eru sinnaskipti hans eftir fund með æðsta yfirmanni samsteypunnar, sem er upphafið að endinum, óundirbyggð og ófullnægjandi sem drama í strangasta skilningi. Eins má spyrja hvort ástarsamband metnaðarfullu, ungu dagskrárgerðarkonunnar og miðaldra deldarstjórans skipti máli sem réttlætir plássið sem það tekur. En á endanum heldur sýningin athygli bæði heila og hjarta – við kaupum hana, svo gripið sé til málsniðs markaðarins, eins og hlýtur að teljast við hæfi.
Stóran hluta heiðursins á leikstjórinn. Guðjón Davíð Karlsson nær að láta þetta feikiflókna sjónarspil virka saman. Minna verður úr möguleikum sem þó eru þarna til að skapa áhugaverðar og raunsætt trúverðugar persónur. Raunsæisþátturinn í leiktextanum er líka pínu viðkvæmur fyrir textaóöryggi sem var bæði of áberandi og útbreitt á frumsýningunni. Á hinn bóginn er ótrúlegt öryggi í öllu gangverkinu, bæði skiptingum í hinni síhreyfilegu og snjöllu leikmynd Egils Eðvarðssonar og lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar en þó aðallega í fyrirferðarmikilli notkun á myndavélum og skjám sem er lygilega hnökralaus og oft hreinlega heillandi í sjálfu sér. Myndvörpunarblæti nútímaleikhússins á það til að fara í taugarnar á þeim sem hér skrifar en að þessu sinni eru græjurnar á heimavelli. Reyndar umtalsvert nútímalegri en rétt væri, en að öðru leyti eru tímabilinu gerð nostursamleg skil, bæði í myndefni og hönnun Ólafar Erlu Einarsdóttur og þó kannski allra helst í búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Ef ekki væri fyrir hið augljósa erindi þá mætti vel njóta sýningarinnar með fortíðarþrána eina að leiðarvísi. Fyrir utan útlit leikaranna er hún ríkulega skreytt auglýsingaefni og tónlistarmyndböndum. Fólk með óþol fyrir kalifornísku gullaldarpopprokki ætti að hugsa sig um tvisvar.
Það er fjölmenni á stóra sviðinu í þessari sýningu. Auk sextán leikara með próf eru fimm tæknimenn, búningafólk, sminkur og aðrir að störfum á sviðinu, hluti af upplifun okkar. Mörg hlutverkana eru ofursmá, nánast þögul en næstum alltaf til staðar engu að síður.
Mest mæðir vitaskuld á Pálma Gestssyni í hlutverki Howards Beale. Til að byrja með var ég ekki alveg sannfærður um hann í hlutverkinu, fannst vanta kraft og myndugleika. En þar skipti sennilega mestu máli skorturinn á undirbyggingu fyrir ákvarðanir og athafnir persónunnar í verkinu sjálfur. Og áður en upp var staðið var Pálmi kominn með heljartök á verkefninu, kröftugur og öruggur en um leið berskjaldaður.
Birgitta Birgisdóttir naut sín greinilega vel í hlutverki hinnar metnaðargjörnu Díönu, sem veit hvert hún stefnir og hikar aldrei. Þröstur Leó Gunnarsson fannst mér á hinn bóginn ekki alveg finna sig í hlutverki ástmannsins, og kannski er sá þáttur verksins líka full-vannærður frá höfundarins hendi þó hann taki sitt pláss í leiktíma. Það var oft gaman að þeim stressaða hrokagikk sem Atli Rafn Sigurðarson skóp úr nýráðnum yfirmanni stöðvarinnar og það er alltaf til bóta þegar Ólafía Hrönn Jónsdóttir tekur dansspor og lætur áhorfendur éta úr lófa sínum. Af fólkinu í bakgrunninum fangaði Hallgrímur Ólafsson oftast athyglina.
Útsending er óvenjuleg sýning um margt. Þetta er tæknilega flókið, stíllega brotakennt og pólitískt hlaðið verk sem spyr flókinna spurninga, sakfellir engan, eða kannski okkur öll. Þessu er vel skilað í sýningu Þjóðleikhússins. Það er magnað að í þessari gömlu bíómynd hafi fundist leið til að segja svona glúrinn og mótsagnakenndan sannleika um fjölmiðla, múgmennsku, kapítalisma og nútímamenningu, og hina nagandi vissu um að eitthvað sé rotið í því Danaveldi sem heimurinn var orðinn þá og er enn. Þótt hér sé verið að sækja verk sem hefur „sannað sig“ í erlendu leikhúsi sanna dæmin að það kál er ekki alltaf sopið þó í íslensku ausuna sé komið. Hér bragðast það hið besta, og er sennilega meinhollt að auki.
Kapítalisminn étur börnin sín
Hvort sem það var einhver af kanónum breska Þjóðleikhússins, handritshöfundurinn Lee Hall eða leikstjóri frumuppfærslunnar, Hollendingurinn Ivo van Hove, nokkurskonar sendifulltrúi fagurfræði meginlandsleiklistar í bresku stofnanaleikhúsi, sem fékk hugmyndina, þá á viðkomandi hrós skilið. Það er ekkert sjálfgefið að 45 ára gamlar næstum gleymdar amerískar bíómyndir eigi alvöru erindi við okkur, hvað þá erindi upp á leiksvið, en það reyndist vera tilfellið með Network.
Grunnsagan er ekki flókin: Sjónvarpsfréttamaðurinn Howard Beale brotnar saman í beinni útsendingu þegar honum er sagt upp störfum á hnignandi sjónvarpsstöð í eigu gráðugrar samsteypu. Niðurbrotsræðan fær gríðarlegt áhorf og snjöll dagskrárgerðarkona sér möguleikana. Howard Beale verður stjarna, spámaður hinna reiðu og valdalausu. Á vegum hinna yfirveguðu og valdamiklu. Og þar með er mótsagna- og vendingasagan ekki sögð.
Og þarna leynist skýrt – en alls ekki einfeldningslegt – erindi við samtímann. Tíma falsfrétta sem næra öfgar. Veröld þar sem skilin milli afþreyingar og upplýsingar dofna jafnt og þétt. Heim þar sem upp er sprottin bæði iðnaður og pólitískar hreyfingar sem byggja á því að greina og virkja óskilgreinda reiði, veita henni farveg og kynda bálið undir henni. Peningar og völd eru í húfi og þar sem peningar og völd eru í boði er fólk fljótlega tilbúið að sýna sínar verstu hliðar. Þannig er það í dag og þannig var það líka á áttunda áratugnum eins og sjá má íÚtsendingu .
Það er merkilegt að sýningin reynist jafn áhrifarík og raun ber vitni, svo mörgum og ólíkum vopnum sem hún beitir. Þessi óstöðugi og að miklu leyti ósamhristi kokteill af margradda amerísku bíóraunsæi, brechtískri dæmisögu og klassískum persónulegum harmleik ætti ekki að virka. En gerir það samt. Það má alveg velta fyrir sér hvort hún væri áhrifaríkari ef við fengjum að kynnast sálfræðilegum forsendum fyrir ákvörðunum Howards. Að við sæjum hann meira í samskiptum við fólk, en ekki næstum eingöngu í ham fyrir framan myndavélarnar. Í einhverjum skilningi eru sinnaskipti hans eftir fund með æðsta yfirmanni samsteypunnar, sem er upphafið að endinum, óundirbyggð og ófullnægjandi sem drama í strangasta skilningi. Eins má spyrja hvort ástarsamband metnaðarfullu, ungu dagskrárgerðarkonunnar og miðaldra deldarstjórans skipti máli sem réttlætir plássið sem það tekur. En á endanum heldur sýningin athygli bæði heila og hjarta – við kaupum hana, svo gripið sé til málsniðs markaðarins, eins og hlýtur að teljast við hæfi.
Stóran hluta heiðursins á leikstjórinn. Guðjón Davíð Karlsson nær að láta þetta feikiflókna sjónarspil virka saman. Minna verður úr möguleikum sem þó eru þarna til að skapa áhugaverðar og raunsætt trúverðugar persónur. Raunsæisþátturinn í leiktextanum er líka pínu viðkvæmur fyrir textaóöryggi sem var bæði of áberandi og útbreitt á frumsýningunni. Á hinn bóginn er ótrúlegt öryggi í öllu gangverkinu, bæði skiptingum í hinni síhreyfilegu og snjöllu leikmynd Egils Eðvarðssonar og lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar en þó aðallega í fyrirferðarmikilli notkun á myndavélum og skjám sem er lygilega hnökralaus og oft hreinlega heillandi í sjálfu sér. Myndvörpunarblæti nútímaleikhússins á það til að fara í taugarnar á þeim sem hér skrifar en að þessu sinni eru græjurnar á heimavelli. Reyndar umtalsvert nútímalegri en rétt væri, en að öðru leyti eru tímabilinu gerð nostursamleg skil, bæði í myndefni og hönnun Ólafar Erlu Einarsdóttur og þó kannski allra helst í búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Ef ekki væri fyrir hið augljósa erindi þá mætti vel njóta sýningarinnar með fortíðarþrána eina að leiðarvísi. Fyrir utan útlit leikaranna er hún ríkulega skreytt auglýsingaefni og tónlistarmyndböndum. Fólk með óþol fyrir kalifornísku gullaldarpopprokki ætti að hugsa sig um tvisvar.
Það er fjölmenni á stóra sviðinu í þessari sýningu. Auk sextán leikara með próf eru fimm tæknimenn, búningafólk, sminkur og aðrir að störfum á sviðinu, hluti af upplifun okkar. Mörg hlutverkana eru ofursmá, nánast þögul en næstum alltaf til staðar engu að síður.
Mest mæðir vitaskuld á Pálma Gestssyni í hlutverki Howards Beale. Til að byrja með var ég ekki alveg sannfærður um hann í hlutverkinu, fannst vanta kraft og myndugleika. En þar skipti sennilega mestu máli skorturinn á undirbyggingu fyrir ákvarðanir og athafnir persónunnar í verkinu sjálfur. Og áður en upp var staðið var Pálmi kominn með heljartök á verkefninu, kröftugur og öruggur en um leið berskjaldaður.
Birgitta Birgisdóttir naut sín greinilega vel í hlutverki hinnar metnaðargjörnu Díönu, sem veit hvert hún stefnir og hikar aldrei. Þröstur Leó Gunnarsson fannst mér á hinn bóginn ekki alveg finna sig í hlutverki ástmannsins, og kannski er sá þáttur verksins líka full-vannærður frá höfundarins hendi þó hann taki sitt pláss í leiktíma. Það var oft gaman að þeim stressaða hrokagikk sem Atli Rafn Sigurðarson skóp úr nýráðnum yfirmanni stöðvarinnar og það er alltaf til bóta þegar Ólafía Hrönn Jónsdóttir tekur dansspor og lætur áhorfendur éta úr lófa sínum. Af fólkinu í bakgrunninum fangaði Hallgrímur Ólafsson oftast athyglina.
Útsending er óvenjuleg sýning um margt. Þetta er tæknilega flókið, stíllega brotakennt og pólitískt hlaðið verk sem spyr flókinna spurninga, sakfellir engan, eða kannski okkur öll. Þessu er vel skilað í sýningu Þjóðleikhússins. Það er magnað að í þessari gömlu bíómynd hafi fundist leið til að segja svona glúrinn og mótsagnakenndan sannleika um fjölmiðla, múgmennsku, kapítalisma og nútímamenningu, og hina nagandi vissu um að eitthvað sé rotið í því Danaveldi sem heimurinn var orðinn þá og er enn. Þótt hér sé verið að sækja verk sem hefur „sannað sig“ í erlendu leikhúsi sanna dæmin að það kál er ekki alltaf sopið þó í íslensku ausuna sé komið. Hér bragðast það hið besta, og er sennilega meinhollt að auki.
<< Home