þriðjudagur, september 17, 2019

Independent Party People

Höfundar og flytjendur: Davíð Þór Katrínarson, Jónmundur Grétarsson, Nína Hjálmarsdóttir og Selma Reynisdóttir. Sviðsmynd: Katerina Blahutová. Dramatúrgísk aðstoð: Brogan Davison og Pétur Ármannsson. Tónlist: Sigrún Jónsdóttir. Ljós: Aron Martin Ásgerðarson og Magnús Thorlacius. Búningar: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir. Sviðslistahópurinn Sálufélagar frumsýndi í Tjarnarbíói 21. ágúst 2019.

Sjálfstæða selskapsfólkið

Hvernig er að vera Íslendingur? Hvernig er að vera Íslendingur fyrir þau okkar sem við fyrstu sýn gætu virst ekki tilheyra þeim hópi? Einhvern veginn þannig gætu rannsóknarspurningar Nínu Hjálmarsdóttur og Selmu Reynisdóttur hafa hljómað, og hluti af sjarma – og vanköntum – sýningarinnar Independent Party People er hve auðveldlega þær afvegaleiðast í leit sinni að svörum.

Fjótlega sjá þær að þótt þær séu að eigin sögn með afbrigðum meðvitaðar og fyrir vikið á mörkum þess að teljast fyllilega hvítar þurfi þær liðsauka til að vinna verkefnið og niðurstaðan verður að kalla til þá Davíð Þór Katrínarson og Jónmund Grétarsson til liðs, tvo unga menn með reynslu af sviðslistum og því að vera brúnir Íslendingar. „Brúnn“ er að sögn Davíðs Þórs ásættanleg niðurstaða um hvaða orð yfir litaraft þeirra félaga er minnst stuðandi. Og þá er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við að búa til sýningu.

Samt ekki. Því vinnan strandar í sífellu á vandræðagangi og óþægindum, sem oftar en ekki stafa af ýktri tillitsemi að hætti ungs meðvitaðs nútímafólks. Allur sá vandræðagangur er spaugilegur. Afslöppun, jafnvel kæruleysi, er grunntónn í sýningunni, ásamt með kaldhæðinni fjarlægð á kýlin sem á að stinga á, en líka á ofurmeðvitaða afstöðuna sem á að tryggja að samskiptin gangi smurt og stuði engan. Þegar og hvernig það fer úrskeiðis eru dramatískir hápunktar sýningarinnar. Hvernig Nína slær sjálfa sig út af laginu í langri þulu um dásemdir íslenskrar náttúru þegar hún missir út úr sér orðið „skepna“ um kindina sem Jónmundur er að túlka. Má nokkuð kalla brúnan mann skepnu? Er nokkur ástæða til að hlusta á hann reyna að sannfæra næstum-ekki-hvítu forréttindastúlkurnar í kringum sig um að þetta sé allt í lagi?

Þetta eru flókin mál með anga í allar áttir og það verður að segjast eins og er að sýning fereykisins nær ekki alveg utan um þau. Eitt er að hún er einfaldlega of stutt til að gera öllum efnum sínum skil. Annað er að vinnuaðferð samsköpunar tekur sjálf of mikið pláss í henni. Að hengja sýninguna saman með því að „endurgera“ vinnuna við að búa hana til er alveg gild aðferð en hér nær hún dálítið völdum á kostnað innihalds.

Verst er þó að tvö veigamestu efnin eiga sér eiginlega ekki nothæfa snertipunkta. Annars vegar hlutskipti brúnu Íslendinganna og hins vegar klisjuleg ímynd Íslands eins og hún birtist í markaðssetningu landsins í víðasta skilningi þess orðs. Þessi síðarnefndi þráður er fyrirferðarmestur í sýningunni. Það er miður, enda hafa klisjurnar margsinnis verið hafðar að verðskulduðu háði og spotti, fyrir utan að liggja sérlega vel við höggi. Hið fyrrnefnda fær fyrir vikið ekki fyllilega það pláss sem ætla mætti að hafi staðið til. Óneitanlega er vandræðagangurinn við þau mál samt mesta skemmtipúður sýningarinnar og gaman að sjá fjórmenningana beina spjótunum svona hressilega að sjálfum sér og sinni prúðu en taugaveikluðu og kannski dálítið sjálfhverfu góðmennsku.

Þótt Sálufélagar séu örugglega ekki ríkt leikhús frekar en aðrir sjálfstæðir leikhópar er talsvert mikið lagt í útlit sýningarinnar, ef ekki af efnum þá af hugsun og vinnu. Í sviðsmynd Katerinu Blahutová gefur að líta hvíta heyrúllu, eina af táknmyndum íslensku sveitarinnar, ásamt með klassískum togarakössum sem koma sjávarútveginum að. Í einum þeirra leynist meira að segja bústinn eldislax sem stelur senunni og afvegaleiðir verkið undir lokin. Búningarnir eru líka greinilega þaulhugsaðir og nostursamlega útfærðir af Tönju Huld Levý Guðmundsdóttur. Í þeim fléttast saman, hugmyndalega og bókstaflega, hin klassíska (ef svo mætti segja) lopapeysa og sportgallar níunda áratugarins svo nokkuð sé nefnt. Snjallt, en líka dálítið afvegaleiðandi eins og svo margt í þessari sundurleitu sýningu.

Þær ímyndir og þjóðernishugmyndir sem hópurinn skoðar virka ekki eins og þær séu þeirra eigin, heldur viðteknar klisjur sem enginn skrifar lengur upp á og hefur jafnvel aldrei gert. Trúir einhver ímyndarauglýsingum ferðaþjónustunnar eða gerir sjálfsmynd þeirra að sinni? Það er vissulega sjokkerandi að heyra hið glaðhlakkalega barnalag „tíu litla negrastráka“ með þá Jónmund og Davíð Þór fyrir augunum, en hvenær heyrði einhver það lag síðast öðruvísi en sem vandræðalegt dæmi um úreltar hugmyndir?

Best er sýningin þegar eigin hugmyndir, fordómar, áhyggjur og heimssýn þátttakenda eru skoðuð með kaldhæðinni einlægninni sem er grunntónn hennar. Þá njóta þau Davíð Þór, Jónmundur, Nína og Selma sín best í afslöppuðum sviðssjarma. Þegar athyglin beinist að öðru minnkar slagkrafturinn. Það gerist of oft á þessum stutta tíma.