fimmtudagur, maí 02, 2019

Bæng!



Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Hafliði Arngrímsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Kjartan Þórisson. Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson. Myndband: Ingi Bekk. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Sýningarstjóri: Christopher Ian Astridge. Leikarar: Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, Halldór Gylfason, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins 26. apríl 2019.

Skrímslafræði fyrir
byrjendur

Viðbrögð við kjöri Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta hafa verið margvísleg. Í þeim kimum heimsins sem flokkast sem frjálslyndir og lýðræðissinnaðir, eða bara rétt vinstra megin við fasisma, hafa tveir þræðir verið mest áberandi: furðublandin skelfing og dálítið óöruggur hæðnishlátur. Sjónvarpsgrínistar í Bandaríkjunum eru flestir hverjir algerlega helteknir af að sýna, greina og hæða nokkurn veginn allt sem forsetinn segir og gerir. Leikhúsin fengu endurnýjaðan áhuga á harmleik Shakespeares um uppgang harðstjórans Júlíusar Sesars, sem sum þeirra settu hreinlega í blá jakkaföt, of langt rautt hálsbindi og hæpna ljósa hárkollu. En auðvitað er svoleiðis leikur að hliðstæðum dæmdur til að missa marks að miklu leyti. Shakespeare var ekki að skrifa um Donald Trump. Hann var varla einu sinni að skrifa um Júlíus Sesar. Hvað getur „alvöru“ leikhús lagt til málanna?

Svar Mariusar von Mayenburg var Bæng!, sem frumsýnt var á Schaubühne í Berlín fyrir tveimur árum, og höfundurinn lýsir sem „ofnæmisviðbrögðum“ eftir þessa óvæntu en mögulega fyrirsjáanlegu vendingu í alþjóðastjórnmálum. Þar er sagt frá uppvexti og framgangi skrímslisins Hrólfs Bæng, frá því hann sprettur nánast alskapaður og vel tenntur úr móðurkviði eftir að hafa kyrkt tvíburasystur sína ófædda, hvernig hann elst upp í skjóli velmeinandi, frjálslyndra og ofurmeðvitaðra millistéttarforeldra og ræktar allar sínar illu eðlisgáfur og siðblindu í skjóli hins nytsama sakleysis sem ríkir á þeim bænum. Von Mayenburg sýnir okkur líka hvað hinn siðmenntaði og friðelskandi lífsmáti herra og frú Bæng er þunn himna utan um dýrslegt eðlið, sem býr bæði í blóðugri nánustu fortíð fjölskyldunnar og velþóknun þeirra hjóna yfir baráttuvilja ungbarnsins á leikvellinum. Að því leyti er sögn verksins á svipuðu róli og réttlætingarræður Hrólfs sjálfs fyrir framferði sínu: svona erum við. Í þeim er líka að finna bitastæðasta innlegg von Mayenburg til greiningarvinnunnar varðandi stöðu mála í heiminum og vegferðina fram undan: hvað óþol okkar fyrir leiðindum og kyrrstöðu er mikilvægur og vanmetinn drifkraftur í mannlífinu. Nokkuð sem birtist í óseðjandi lyst okkar á blóðugum morðsögum og fréttum af viðbjóðslegu ofbeldi gegn börnum. Líka t.d. í einbeittum vilja fjölmiðlafólks til að fá vísindamenn til að spá eldgosum og öðrum hamförum. Og svo auðvitað í kjörþokka fólks á borð við Bolsonaro, Duterte og Trump.

Fyrir utan þessa forvitnilegu þanka verður að segjast að rannsókn höfundar og framsetning efnisins í verkinu nær ekki að varpa miklu eða nýstárlegu ljósi á viðfangsefnið. Von Mayenburg er vissulega flinkur höfundur, öruggur í því lausbeislaða formi sem handritaskrif fyrir listrænt þenkjandi leikhús nútímans gerir ráð fyrir. Gréta Kristín Ómarsdóttir er líka á heimavelli í þessari hefð. Þannig eru bæði samskipti við áhorfendur, ferðalög í tíma og rúmi og stökk leikaranna út úr hlutverkum sínum og inn í raunheiminn lipur, eðlileg og þjóna tilgangi sínum. En frumleg og ögrandi eru þessi stílbrögð ekki lengur, frekar en notkun míkrófóna og kvikmyndavéla. Fyrir fastagesti leikhúsanna undanfarin ár er þetta orðið næsta fyrirsjáanlegt.

En þrátt fyrir færni höfundar og þokkalega skemmtun lengst af (lopinn er teygður til hins ýtrasta þessa tvo og hálfan tíma) er Bæng! ófullnægjandi sýning. Hún sannfærði allavega ekki þann sem þetta skrifar um gagnsemi þess að skoða pólitískar ógnir samtímans með einföldunaraðferðum dæmisögunnar og frumlitakassa barnaleikritanna að vopni. Það að velmeinandi veimiltítur í Prenzlauer Berg veiti fórnarlömbum heimilisofbeldis skjól í kjallaranum hjá sér, og fasíska frumsjálfið sem þau ala við brjóst sér vilji þau burt, varpar engu ljósi á flóttamannavandann eða uppgang útlendingaandúðar í Evrópu, sem virðist vera hliðstæðan sem von Mayenburg er að draga fram. Hálftíma könnunarleiðangur um athugasemdakerfin er mun gagnlegri.

Björn Thors er Hrólfur Bæng. Það eru gleðitíðindi að nú virðist Björn vera búinn að leggja Kenneth Mána endanlega til hvílu, hvort sem það voru nú leiktaktar hans eða ofvirkt leikhúsminni mitt sem héldu svona lengi í honum lífinu. Björn er oft og iðulega bráðfyndinn hér, aldrei beinlínis ógnvekjandi samt. Sá kækur hans að þagna í miðjum setningum dró mjög úr slagkrafti textans, hvort sem um var að kenna óöryggi eða misráðinni tilraun til að gefa honum raunsæislegra yfirbragð. Sem er engin ástæða til, svo mjög sem stílbrögð textans benda í aðrar áttir. Þeirra fremst hinar löngu og bráðfyndnu stuðluðu romsur sem faðirinn datt inn í þegar hann komst í geðshræringu. Vel útfærðar hjá þýðandanum Hafliða Arngrímssyni og leika Hirti Jóhanni Jónssyni á tungu.

Þau Brynhildur Guðjónsdóttir eru bráðskemmtileg sem foreldrarnir lánlausu. Hjörtur fyndnastur þegar þolgæði mjúka mannsins er ögrað og Brynhildur í afbrýðiseminni út í hina kynæsandi barnfóstru. Sú er túlkuð af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, ein af fjórum konum sem hún smíðar í sýningunni og hafa allar skýrt svipmót, eftirminnilegust sennilega hin kúgaða Ússí í næsta húsi. Eiginmaður hennar, ofbeldishrottinn Reynir, er síðan ein af rullum Halldórs Gylfasonar sem einnig fá allar afgerandi svip, eru hver annarri sannari og fyndnari hjá þessum flinka týpusmið. Það kemur svo í hlut Davíðs Þórs Katrínarsonar að vera hinn frekar sviplausi kamerumaður og verða svolítið utanveltu í stuðinu, en gerir sitt vel. Einkum í dálítið sjokkerandi atriði þar sem hann og frú Bæng hyggjast fá Ússí til að „stíga fram“ og afhjúpa ummerki heimilisofbeldisins, sem reynast vandræðalega lítilfjörleg í það sinnið.

Christopher Ian Astridge sýningarstjóri er síðan sýnilegur og ósýnilegur eftir þörfum, og stelur senunni smá með fiðluleik þegar mikið liggur við. Tónlistarval og útfærsla Garðars Borgþórssonar er með ágætum. Eva Signý Berger gerir búninga sem eru meira og minna hárréttir á natúralískum forsendum og hjálpa við að jarðtengja galskapinn. Leikmynd Barkar Jónssonar er smart verk með ótal möguleikum sem eru vel nýttir í flæðandi og lipurri sviðsetningu Grétu Kristínar. Lýsing Kjartans Þórissonar fín.

Vandi sýningarinnar liggur fyrst og fremst í verkinu, eða kannski í þunglamalegu eðli leikhússins sjálfs, og viðbragðssnerpu þess. Sem innlegg í umræðu um kjör Trumps, uppgang andverðleikastjórnmála og lýðskrum úr öfgahægriáttinni er það hvorki nógu snjallt né fyndið. Það býður heldur ekki upp á óvænta, spennandi eða gagnlega greiningu. Það má auðvitað hafa dálítið gaman af yfirgengileika Hrólfs Bæng og hlæja kuldahlátri að vanmætti velmeinandi en villuráfandi nærsamfélagsins. En það er brandari sem allir eru búnir að vera að segja, oft betur, í síbyljunni frá því Marius von Mayenburg ýtti öðru til hliðar til að skoða ástand heimsins síðla árs 2016.

x