Einræðisherrann
Eftir Charlie Chaplin. Íslensk þýðing: Magnea J. Matthíasdóttir. Leikgerð og leikstjórn: Nikolaj Cederholm. Meðleikstjóri: Malene Begtrup. Leikmynd: Kim Witzel. Búningar: Line Bech. Tónlistarstjórn, píanóleikur og leikhljóð: Karl Olgeirsson. Sviðshreyfingar: Anja Gaardbo. Slapstick (skrípalæti, hlátraskellur): Kasper Ravnhøj. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 26. desember 2018.
Besta hugmynd sviðsgerðar Nikolajs Cederholms á Einræðisherra Chaplins, sú hugmynd þar sem leikhúsið blómstrar best á eigin forsendum í samspili sviðs og salar, er lokaaugnablik sýningarinnar. Hér verður ekki ljóstrað upp hvernig það er en látið nægja að segja að það sé töluvert brilljant og var jafnvel enn snjallara á frumsýningu en það verður eftirleiðis, þökk sé forseta vorum, sem átti stórleik. Að öðru leyti fylgir Cederholm atriðakeðju myndarinnar af mikilli trúmennsku, sennilega of mikilli, en leyfir sér á hinn bóginn að breyta texta og endurstilla persónugalleríið til að skapa verkinu meiri trúverðugleika og skýrara nútímaerindi. Sem er alltaf hættuspil, jafnvel þegar efniviðurinn er ekki meira meistarastykki en þessi djarfa en dálítið sundurlausa og þegar upp er staðið ekki fyllilega heppnaða tilraun Chaplins.
Í stuttu máli þá vindur tveimur sögum fram í Einræðisherranum. Annars vegar fylgjumst við með valdsmanninum og gyðingahataranum Hynkel búa sig undir landvinningastríð en á hinn bóginn kynnumst við hlutskipti gyðinga borgarinnar í gegnum augu minnislauss rakara sem fellur fyrir fátækri og blóðheitri stúlku í hverfinu og býr að hetjudáð úr fyrra stríði þar sem hann bjargaði lífi flugmanns sem komist hefur til metorða í vígvél harðstjórans. Dramatísk grunnhugmynd verksins er síðan sú að sami leikari fer með hlutverk Hynkels og rakarans, sem á endanum er tekinn í misgripum fyrir einræðisherrann og fær tækifæri til að ávarpa herinn, almenning og áhorfendur og boða frið og farsæld á þröskuldi stríðsins sem við vitum núna að varð heimsstyrjöld nr. 2.
Það hefur þurft ómælda einurð fyrir skærustu kvikmyndastjörnu heimsins, mann sem augu allra beindust að, að undirbúa þessa árás á ímynd voldugs leiðtoga sem yfirvöld í heimalandi stjörnunnar höfðu engan áhuga á að styggja, meðan óveðursskýin hrönnuðust upp fyrir austan haf 1938-39. Sem greining á ógnum og gangverki nasismans býr hún vitaskuld við takmarkanir formsins og er auk þess „barn síns tíma“ í bókstaflegum skilningi: þó að Chaplin hefði aðgang að sögum flóttamanna frá þriðja ríkinu um gyðingaofsóknir og ógnarstjórn nasista var helvíti stríðsins að mestu í framtíðinni, sem og „lokalausnin“, útrýmingarherferðin sem yfirskyggir með réttu allt annað í eftirmælum Hitlers og hugmyndafræði hans. Sjálfur sagði Chaplin síðar að hefði hann vitað hvað í vændum var hefði hann látið Einræðisherrann ógerðan.
Afstaða Cederholms til hráefnisins er marglaga, ef ekki hreinlega mótsagnakennd. Ugglaust telur hann erindi Einræðisherrans ótvírætt sem innlegg í umræðu nútímans um alræðishættu og ómennsku, annars væri til lítils af stað farið. Á sama tíma sér hann þörf á að nútímavæða boðskapinn að nokkru marki, einkum með því að breyta lokaræðunni frægu og gera hana að umhverfis- og dýraverndunarákalli í stað framfaratrúaðs húmanisma Chaplins. Gott og blessað sem erindi, en algerlega snertipunktalaust við allt sem á undan er gengið, fyrir utan flatneskju nýja textans í samanburði við meitlaða mælskulist fyrirmyndarinnar. Öllu verra er að skilja atlögur að því að styrkja tengsl skopstælingarinnar við fyrirmyndina; tala um Berlín sem höfuðstað Tómaníu, nota þýsk ávörp og vitna í ræður Hitlers. Hin einfalda, allt að því bernska nálgun Chaplins stendur alls ekki undir því að gera uppgang nasista og tak Hitlers á þýsku þjóðinni skiljanleg þrátt fyrir þessar áherslubreytingar, sem eru tilgangur þeirra samkvæmt ummælum Cederholms í fjölmiðlum. Enn undarlegri er sú ákvörðun að láta samskipti Hynkels og Napolinis fara fram á ensku í opinberri heimsókn þess síðarnefnda.
En vitaskuld er samfélagslegt erindi ekki nema hluti þess sem kallar fólk að Einræðisherranum. Varla einu sinni stærsti hlutinn. Þetta er ekki síst skrípó. Fólk að detta á rassinn og berja hvað annað í höfuðið með búsáhöldum. Eltingaleikir. Chaplin. Það verður að segjast að leikhópurinn nær ekki alveg ballett-líkum léttleikanum og áreynsluleysinu sem einkennir meistarann, en birtist líka í framgöngu mótleikara hans, þökk sé vægðarlausri fullkomnunaráráttu mannsins. Stundum ná þau í skottið á flæðinu, sérstaklega í samfelldum eltingaleiks- og slagsmálaatriðum, vel studd af bráðsnjallri leikmynd Kim Witzel og meistaralegri framgöngu Karls Olgeirssonar, hljóðmyndarsmiðs og áhrifshljóðstjóra. Aldrei verður flugið samt algert, hvort sem það má skrifast á reikning slapstick-stjórans Kaspers Ravnhøjs eða óvana leikhópsins. Svo glímir gleðin við grafalvarlegan bakgrunninn sem kæfir hláturinn alltaf þegar hann vill brjótast fram. Er í alvörunni hlæjandi að þessu?
Þó svo slapstickið sé ekki alltaf upp á tíu nýtast kómískir hæfileikar einstakra leikara ágætlega. Það er óhætt að segja að Sigurður Sigurjónsson beri sýninguna á herðum sér í aðalhlutverkunum báðum. Hynkel er óneitanlega bitastæðari persóna og þar nýtast týpusmíðahæfleikar og kómískar tímasetningar Sigurðar best, sérstaklega í samleiknum við undirsátana tvo; illyrmislegan Gubbels Guðjóns Davíðs Karlssonar og Boring flugmarskálk sem var kostulegur í meðförum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur. Ilmur Kristjánsdóttir þótti mér ekki ná að gera hina eintóna Hönnu áhugaverða, en persónur Hönnu og rakarans, og samband þeirra eru veikir punktar frá hendi höfundar myndarinnar. Þröstur Leó Gunnarsson glímir við gyðinginn Jaeckel, sem Cederholm hefur reynt að ljá bitastæðari persónuleika en í myndinni án þess að það hafi nokkur áhrif á gang mála, en Þröstur leysir verkefnið snurðulaust en tilþrifalítið. Sama má segja um Hallgrím Ólafsson og heldur litlausa hetjuna Schultz. Napolini er dæmigerður sviðs-Ítali hjá Pálma Gestssyni, og þær senur ná ekki flugi, frekar en í myndinni. Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson hlaupa milli smáhlutverka og leysa allt vel, og ef einhver ætti að fá stjörnu fyrir slapstick-fimi þá væri það Sigurður Þór.
Leikmyndin er í stóru hlutverki eins og fyrr segir, prýðilega lýst af Ólafi Ágústi Stefánssyni. Búningar Line Bech eru hinir ágætustu, þó að velta megi fyrir sér hvort betur hefði farið á að fjarlægjast einkennisbúninga nasismans meira, en það lýtur aftur að grundvallarnálgun leikstjórans sem ég hef efasemdir um eins og fram hefur komið.
Kvikmynd Chaplins er langt í frá gallalaust verk. Vera má að Nikolaj Cederholm deili ekki þeirri skoðun minni. Allavega eltir hann bláþráðótta og stefnulausa atburðakeðjuna af mikilli trúmennsku og sviðsetur jafnvel atriði sem engan veginn njóta sín á sviði (t.d. móttöku Napolinis á lestarstöðinni, sem er mislukkuð í myndinni og afleit hér). Aftur á móti leitast hann við að skýra og uppfæra boðskapinn, sem ekki verður alltaf í takti við verkið. Skemmtigildi sýningarinnar líður dálítið fyrir þessa áherslu og lítið græðist af samfélagslegu erindi.
Að auki standa tveir senuþjófar í sviðsvængjunum. Charlie Chaplin með sína snilligáfu sem skyggir á jafnvel hæfileikaríkasta fólk, og svo Adolf Hitler sem kæfir hverja hláturroku í fæðingu með alkunnri illsku sinni.
Er hlæjandi að þessu?
Besta hugmynd sviðsgerðar Nikolajs Cederholms á Einræðisherra Chaplins, sú hugmynd þar sem leikhúsið blómstrar best á eigin forsendum í samspili sviðs og salar, er lokaaugnablik sýningarinnar. Hér verður ekki ljóstrað upp hvernig það er en látið nægja að segja að það sé töluvert brilljant og var jafnvel enn snjallara á frumsýningu en það verður eftirleiðis, þökk sé forseta vorum, sem átti stórleik. Að öðru leyti fylgir Cederholm atriðakeðju myndarinnar af mikilli trúmennsku, sennilega of mikilli, en leyfir sér á hinn bóginn að breyta texta og endurstilla persónugalleríið til að skapa verkinu meiri trúverðugleika og skýrara nútímaerindi. Sem er alltaf hættuspil, jafnvel þegar efniviðurinn er ekki meira meistarastykki en þessi djarfa en dálítið sundurlausa og þegar upp er staðið ekki fyllilega heppnaða tilraun Chaplins.
Í stuttu máli þá vindur tveimur sögum fram í Einræðisherranum. Annars vegar fylgjumst við með valdsmanninum og gyðingahataranum Hynkel búa sig undir landvinningastríð en á hinn bóginn kynnumst við hlutskipti gyðinga borgarinnar í gegnum augu minnislauss rakara sem fellur fyrir fátækri og blóðheitri stúlku í hverfinu og býr að hetjudáð úr fyrra stríði þar sem hann bjargaði lífi flugmanns sem komist hefur til metorða í vígvél harðstjórans. Dramatísk grunnhugmynd verksins er síðan sú að sami leikari fer með hlutverk Hynkels og rakarans, sem á endanum er tekinn í misgripum fyrir einræðisherrann og fær tækifæri til að ávarpa herinn, almenning og áhorfendur og boða frið og farsæld á þröskuldi stríðsins sem við vitum núna að varð heimsstyrjöld nr. 2.
Það hefur þurft ómælda einurð fyrir skærustu kvikmyndastjörnu heimsins, mann sem augu allra beindust að, að undirbúa þessa árás á ímynd voldugs leiðtoga sem yfirvöld í heimalandi stjörnunnar höfðu engan áhuga á að styggja, meðan óveðursskýin hrönnuðust upp fyrir austan haf 1938-39. Sem greining á ógnum og gangverki nasismans býr hún vitaskuld við takmarkanir formsins og er auk þess „barn síns tíma“ í bókstaflegum skilningi: þó að Chaplin hefði aðgang að sögum flóttamanna frá þriðja ríkinu um gyðingaofsóknir og ógnarstjórn nasista var helvíti stríðsins að mestu í framtíðinni, sem og „lokalausnin“, útrýmingarherferðin sem yfirskyggir með réttu allt annað í eftirmælum Hitlers og hugmyndafræði hans. Sjálfur sagði Chaplin síðar að hefði hann vitað hvað í vændum var hefði hann látið Einræðisherrann ógerðan.
Afstaða Cederholms til hráefnisins er marglaga, ef ekki hreinlega mótsagnakennd. Ugglaust telur hann erindi Einræðisherrans ótvírætt sem innlegg í umræðu nútímans um alræðishættu og ómennsku, annars væri til lítils af stað farið. Á sama tíma sér hann þörf á að nútímavæða boðskapinn að nokkru marki, einkum með því að breyta lokaræðunni frægu og gera hana að umhverfis- og dýraverndunarákalli í stað framfaratrúaðs húmanisma Chaplins. Gott og blessað sem erindi, en algerlega snertipunktalaust við allt sem á undan er gengið, fyrir utan flatneskju nýja textans í samanburði við meitlaða mælskulist fyrirmyndarinnar. Öllu verra er að skilja atlögur að því að styrkja tengsl skopstælingarinnar við fyrirmyndina; tala um Berlín sem höfuðstað Tómaníu, nota þýsk ávörp og vitna í ræður Hitlers. Hin einfalda, allt að því bernska nálgun Chaplins stendur alls ekki undir því að gera uppgang nasista og tak Hitlers á þýsku þjóðinni skiljanleg þrátt fyrir þessar áherslubreytingar, sem eru tilgangur þeirra samkvæmt ummælum Cederholms í fjölmiðlum. Enn undarlegri er sú ákvörðun að láta samskipti Hynkels og Napolinis fara fram á ensku í opinberri heimsókn þess síðarnefnda.
En vitaskuld er samfélagslegt erindi ekki nema hluti þess sem kallar fólk að Einræðisherranum. Varla einu sinni stærsti hlutinn. Þetta er ekki síst skrípó. Fólk að detta á rassinn og berja hvað annað í höfuðið með búsáhöldum. Eltingaleikir. Chaplin. Það verður að segjast að leikhópurinn nær ekki alveg ballett-líkum léttleikanum og áreynsluleysinu sem einkennir meistarann, en birtist líka í framgöngu mótleikara hans, þökk sé vægðarlausri fullkomnunaráráttu mannsins. Stundum ná þau í skottið á flæðinu, sérstaklega í samfelldum eltingaleiks- og slagsmálaatriðum, vel studd af bráðsnjallri leikmynd Kim Witzel og meistaralegri framgöngu Karls Olgeirssonar, hljóðmyndarsmiðs og áhrifshljóðstjóra. Aldrei verður flugið samt algert, hvort sem það má skrifast á reikning slapstick-stjórans Kaspers Ravnhøjs eða óvana leikhópsins. Svo glímir gleðin við grafalvarlegan bakgrunninn sem kæfir hláturinn alltaf þegar hann vill brjótast fram. Er í alvörunni hlæjandi að þessu?
Þó svo slapstickið sé ekki alltaf upp á tíu nýtast kómískir hæfileikar einstakra leikara ágætlega. Það er óhætt að segja að Sigurður Sigurjónsson beri sýninguna á herðum sér í aðalhlutverkunum báðum. Hynkel er óneitanlega bitastæðari persóna og þar nýtast týpusmíðahæfleikar og kómískar tímasetningar Sigurðar best, sérstaklega í samleiknum við undirsátana tvo; illyrmislegan Gubbels Guðjóns Davíðs Karlssonar og Boring flugmarskálk sem var kostulegur í meðförum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur. Ilmur Kristjánsdóttir þótti mér ekki ná að gera hina eintóna Hönnu áhugaverða, en persónur Hönnu og rakarans, og samband þeirra eru veikir punktar frá hendi höfundar myndarinnar. Þröstur Leó Gunnarsson glímir við gyðinginn Jaeckel, sem Cederholm hefur reynt að ljá bitastæðari persónuleika en í myndinni án þess að það hafi nokkur áhrif á gang mála, en Þröstur leysir verkefnið snurðulaust en tilþrifalítið. Sama má segja um Hallgrím Ólafsson og heldur litlausa hetjuna Schultz. Napolini er dæmigerður sviðs-Ítali hjá Pálma Gestssyni, og þær senur ná ekki flugi, frekar en í myndinni. Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson hlaupa milli smáhlutverka og leysa allt vel, og ef einhver ætti að fá stjörnu fyrir slapstick-fimi þá væri það Sigurður Þór.
Leikmyndin er í stóru hlutverki eins og fyrr segir, prýðilega lýst af Ólafi Ágústi Stefánssyni. Búningar Line Bech eru hinir ágætustu, þó að velta megi fyrir sér hvort betur hefði farið á að fjarlægjast einkennisbúninga nasismans meira, en það lýtur aftur að grundvallarnálgun leikstjórans sem ég hef efasemdir um eins og fram hefur komið.
Kvikmynd Chaplins er langt í frá gallalaust verk. Vera má að Nikolaj Cederholm deili ekki þeirri skoðun minni. Allavega eltir hann bláþráðótta og stefnulausa atburðakeðjuna af mikilli trúmennsku og sviðsetur jafnvel atriði sem engan veginn njóta sín á sviði (t.d. móttöku Napolinis á lestarstöðinni, sem er mislukkuð í myndinni og afleit hér). Aftur á móti leitast hann við að skýra og uppfæra boðskapinn, sem ekki verður alltaf í takti við verkið. Skemmtigildi sýningarinnar líður dálítið fyrir þessa áherslu og lítið græðist af samfélagslegu erindi.
Að auki standa tveir senuþjófar í sviðsvængjunum. Charlie Chaplin með sína snilligáfu sem skyggir á jafnvel hæfileikaríkasta fólk, og svo Adolf Hitler sem kæfir hverja hláturroku í fæðingu með alkunnri illsku sinni.
<< Home