Lóaboratoríum
Eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Valdimar Jóhannsson. Sviðshreyfingar: Ásrún Magnúsdóttir. Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Friðrikka Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Sokkabandið frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins 26. janúar 2018.
Hvað eigum við að kalla mannlífsvinkil Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur sem birtist í teikningum hennar í blöðum, vefjum og bókum, og er nú kominn á svið? Fyrir utan „fyndinn“ og „nauðsynlegan“ auðvitað. Mér dettur í hug orðin „martraðarraunsæi“ og „hvunndagsgróteska“ yfir þessar gráthlægilegu myndir af fólki – aðallega konum – að mistakast sú list að hafa betur gagnvart áreiti og kröfum umhverfisins. Að reyna án árangurs að skapa sér einhverskonar vettvang eða griðastað til að líða sæmilega í þessum tryllta sirkus sem samtíminn er. Langoftast hittir Lóa í mark, er morðfyndin og sannsögul um það ástand sem hún lýsir. Auðvitað er freistandi að gefa svona efnivið frekara líf á fjölum leikhússins.
Vandasamt er það samt. Það er bæði kostur og galli að í listheimi Lóu, rannsóknarstofunni Lóaboratoríum, er engin framvinda, engir fastagestir með nafn og kennitölu, hvað þá forsögu. Límið felst í afstöðu höfundar, persónueinkennum sem ganga manna – aðallega kvenna – á milli. Hendur leikskáldsins Lóu eru því óbundnar hvað þetta varðar, en um leið færra að halda sér í. Eins þarf að ákveða að hve miklu leyti handritið á að taka mark á kröfum og hefðum leikhússins. Leikhúsgestir nútímans eru orðnir öllu vanir hvað þetta snertir og að sumu leyti gengst Lóa meira inn á leikreglurnar en bráðnauðsynlegt getur talist.
Tvær íbúðir í Reykjavík. Eða eiginlega lítil einbýlishús, ef skemmtileg umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er tekin á raunsæisorðinu. Í öðru þeirra býr hinn rauðvínslegni bókaútgefandi Stella, og þegar verkið hefst er Anna, stillingarljósið dóttir hennar, að flytja inn eftir að hafa heykst á lokahnykknum í mastersnáminu sínu. Handan götunnar (girðingarinnar?) býr geðhvarfasjúka YouTube-stjarnan Inga í húsi foreldra þeirra Brynju, hvataferðafararstjórans sem leitar heim eftir ástarlífsskipbrot.
Þarna er komin hæfileg rannsóknarstofa fyrir Lóu og upphefst mikið, beitt og á köflum alveg óborganlegt grín þar sem útlit, hagsmunir, lífsviðhorf, matarsmekkur, stíll, farsæld og árangur í hamingjukapphlaupinu mynda einhverskonar sjöþraut sem konurnar fjórar keppa í af mismiklu harðfylgi og ójöfnum árangri, öllum þó frekar dapurlegum og eftir því hlægilegum. Orkan í handritinu tekur dálitlar dýfur þegar reynt er að búa til framvindu, tengja saman atriði, gangast undir formkröfur leikritunar. Reyndar er ruglingurinn með pizzusendingarnar fjári skemmtilegur, eins einfaldur og hann þó er, ekki síst vegna tilhugsunarinnar um að einhver panti sér Hawaii-pizzu með engum ananas. Stórkostlega sér-Lóu-leg hugmynd og synd að forseti lýðveldisins var ekki á þessari frumsýningu til að verða vitni að þessu. Önnur element sem eiga að skapa framvinduspennu, svo sem æskuminningar og áhugi Brynju á að koma húsi þeirra systra í verð, verður meira til trafala. Annars er best og skemmtilegast þegar replikkutennisinn fær að ganga ótruflaður og nokkurn veginn stefnulaust.
Sokkabandskonur njóta sín vel í þessum efnivið og Kolfinna Nikulásdóttir stýrir þeim af skilningi og smekkvísi. Stella, þessi drafandi og uppgerðarsjálfsörugga subba, varð ljóslifandi og morðfyndin hjá Arndísi Hrönn Egilsdóttur. Brynja er mögulega sú „venjulegasta“ í galleríinu, en þá kemur sér vel hvað Maríu Hebu Þorkelsdóttur lætur vel að lýsa óöryggi. Það er vandasamt að halda uppi orkunni í senum þar sem persóna mótleikarans er nánast óstarfhæf af þunglyndi, en það tekst Maríu Hebu og þegar Elma Lísa Gunnarsdóttir skríður loksins undan sænginni eins og pallíettufiðrildi og svífur á djammið á vængjum maníunnar er það líka listavel gert og fjári vel skrifað.
Þær þrjár hafa lengi verið nokkuð áberandi í sýningum í leikhópageiranum og það nýtist þeim í týpuleikhúsi eins og hér er á ferð. Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir er nær því að vera óskrifað blað og það er kannski meðal annars þess vegna sem það er í persónu Önnu sem mér fannst ég fá hreinustu myndina af hinum teiknaða heimi Lóu. Mér þótti Jóhanna Friðrika til dæmis hreyfa sig eins og ég ímynda mér að þessar persónur myndu gera. Svona myndu þær ganga, einmitt svona myndu þær spritta á sér hendurnar, svona væri að sjá þær hekla. Og auðvitað myndu þær hekla. Fínlega unnin persóna og viss furða að hún skili sér til áhorfenda í gegnum brussuganginn allt í kring. Ekki fylgir sögunni í leikskrá hvað drengurinn heitir sem færir þeim pizzurnar en hann skilaði sínu óaðfinnanlega. Nema pizzunum reyndar.
Þó umbúnaður sé hvorki ríkulegur né fágaður þá er hann áhrifaríkur. Leikmyndin þénug og sannfærandi og mikil prýði, ef það er rétta orðið, að draslinu hjá þeim systrum Ingu og Brynju. Búningar Sigríðar Sunnu meira og minna nákvæmlega jafn ósmekklegir og þörf er á. Vídeóin sniðug og „rétt“ og tónlistin vel valin og unnin hjá Árna Rúnari Hlöðverssyni. Gaman að dansútgáfunni af hringitóninum og dansuppbrotin öll skemmtileg, en Ásrún Magnúsdóttir á heiðurinn af sviðshreyfingum.
Litla svið Borgarleikhússins hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir rannsóknir á þjóðarsálarástandinu í vetur. Kartöfluætur Tyrfings Tyrfingssonar og nú Lóaboratoríum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur eru tvær vel heppnaðar atlögur að því að skoða persónur á jaðrinum takast á við samtímann. Í báðum er boðið upp á frumlega nálgun og húmor af súrara og svartara taginu. Lóaboratóríum hefði grætt á meira sjálfsöryggi gagnvart forminu, að efniviðnum sjálfum hefði verið treyst betur. Eða þá ef stigin hefðu verið fleiri og markvissari skref í átt að rétt formuðu leikriti. Eða jafnvel söngleik, ég heyri hann alveg fyrir mér. Engu að síður stendur það sem Sokkabandið ber á borð algerlega fyrir sínu og mun vekja hlátur og skapa hroll hjá öllum þeim sem voga sér inn á tilraunastofuna.
Við lifandi komin
Hvað eigum við að kalla mannlífsvinkil Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur sem birtist í teikningum hennar í blöðum, vefjum og bókum, og er nú kominn á svið? Fyrir utan „fyndinn“ og „nauðsynlegan“ auðvitað. Mér dettur í hug orðin „martraðarraunsæi“ og „hvunndagsgróteska“ yfir þessar gráthlægilegu myndir af fólki – aðallega konum – að mistakast sú list að hafa betur gagnvart áreiti og kröfum umhverfisins. Að reyna án árangurs að skapa sér einhverskonar vettvang eða griðastað til að líða sæmilega í þessum tryllta sirkus sem samtíminn er. Langoftast hittir Lóa í mark, er morðfyndin og sannsögul um það ástand sem hún lýsir. Auðvitað er freistandi að gefa svona efnivið frekara líf á fjölum leikhússins.
Vandasamt er það samt. Það er bæði kostur og galli að í listheimi Lóu, rannsóknarstofunni Lóaboratoríum, er engin framvinda, engir fastagestir með nafn og kennitölu, hvað þá forsögu. Límið felst í afstöðu höfundar, persónueinkennum sem ganga manna – aðallega kvenna – á milli. Hendur leikskáldsins Lóu eru því óbundnar hvað þetta varðar, en um leið færra að halda sér í. Eins þarf að ákveða að hve miklu leyti handritið á að taka mark á kröfum og hefðum leikhússins. Leikhúsgestir nútímans eru orðnir öllu vanir hvað þetta snertir og að sumu leyti gengst Lóa meira inn á leikreglurnar en bráðnauðsynlegt getur talist.
Tvær íbúðir í Reykjavík. Eða eiginlega lítil einbýlishús, ef skemmtileg umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er tekin á raunsæisorðinu. Í öðru þeirra býr hinn rauðvínslegni bókaútgefandi Stella, og þegar verkið hefst er Anna, stillingarljósið dóttir hennar, að flytja inn eftir að hafa heykst á lokahnykknum í mastersnáminu sínu. Handan götunnar (girðingarinnar?) býr geðhvarfasjúka YouTube-stjarnan Inga í húsi foreldra þeirra Brynju, hvataferðafararstjórans sem leitar heim eftir ástarlífsskipbrot.
Þarna er komin hæfileg rannsóknarstofa fyrir Lóu og upphefst mikið, beitt og á köflum alveg óborganlegt grín þar sem útlit, hagsmunir, lífsviðhorf, matarsmekkur, stíll, farsæld og árangur í hamingjukapphlaupinu mynda einhverskonar sjöþraut sem konurnar fjórar keppa í af mismiklu harðfylgi og ójöfnum árangri, öllum þó frekar dapurlegum og eftir því hlægilegum. Orkan í handritinu tekur dálitlar dýfur þegar reynt er að búa til framvindu, tengja saman atriði, gangast undir formkröfur leikritunar. Reyndar er ruglingurinn með pizzusendingarnar fjári skemmtilegur, eins einfaldur og hann þó er, ekki síst vegna tilhugsunarinnar um að einhver panti sér Hawaii-pizzu með engum ananas. Stórkostlega sér-Lóu-leg hugmynd og synd að forseti lýðveldisins var ekki á þessari frumsýningu til að verða vitni að þessu. Önnur element sem eiga að skapa framvinduspennu, svo sem æskuminningar og áhugi Brynju á að koma húsi þeirra systra í verð, verður meira til trafala. Annars er best og skemmtilegast þegar replikkutennisinn fær að ganga ótruflaður og nokkurn veginn stefnulaust.
Sokkabandskonur njóta sín vel í þessum efnivið og Kolfinna Nikulásdóttir stýrir þeim af skilningi og smekkvísi. Stella, þessi drafandi og uppgerðarsjálfsörugga subba, varð ljóslifandi og morðfyndin hjá Arndísi Hrönn Egilsdóttur. Brynja er mögulega sú „venjulegasta“ í galleríinu, en þá kemur sér vel hvað Maríu Hebu Þorkelsdóttur lætur vel að lýsa óöryggi. Það er vandasamt að halda uppi orkunni í senum þar sem persóna mótleikarans er nánast óstarfhæf af þunglyndi, en það tekst Maríu Hebu og þegar Elma Lísa Gunnarsdóttir skríður loksins undan sænginni eins og pallíettufiðrildi og svífur á djammið á vængjum maníunnar er það líka listavel gert og fjári vel skrifað.
Þær þrjár hafa lengi verið nokkuð áberandi í sýningum í leikhópageiranum og það nýtist þeim í týpuleikhúsi eins og hér er á ferð. Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir er nær því að vera óskrifað blað og það er kannski meðal annars þess vegna sem það er í persónu Önnu sem mér fannst ég fá hreinustu myndina af hinum teiknaða heimi Lóu. Mér þótti Jóhanna Friðrika til dæmis hreyfa sig eins og ég ímynda mér að þessar persónur myndu gera. Svona myndu þær ganga, einmitt svona myndu þær spritta á sér hendurnar, svona væri að sjá þær hekla. Og auðvitað myndu þær hekla. Fínlega unnin persóna og viss furða að hún skili sér til áhorfenda í gegnum brussuganginn allt í kring. Ekki fylgir sögunni í leikskrá hvað drengurinn heitir sem færir þeim pizzurnar en hann skilaði sínu óaðfinnanlega. Nema pizzunum reyndar.
Þó umbúnaður sé hvorki ríkulegur né fágaður þá er hann áhrifaríkur. Leikmyndin þénug og sannfærandi og mikil prýði, ef það er rétta orðið, að draslinu hjá þeim systrum Ingu og Brynju. Búningar Sigríðar Sunnu meira og minna nákvæmlega jafn ósmekklegir og þörf er á. Vídeóin sniðug og „rétt“ og tónlistin vel valin og unnin hjá Árna Rúnari Hlöðverssyni. Gaman að dansútgáfunni af hringitóninum og dansuppbrotin öll skemmtileg, en Ásrún Magnúsdóttir á heiðurinn af sviðshreyfingum.
Litla svið Borgarleikhússins hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir rannsóknir á þjóðarsálarástandinu í vetur. Kartöfluætur Tyrfings Tyrfingssonar og nú Lóaboratoríum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur eru tvær vel heppnaðar atlögur að því að skoða persónur á jaðrinum takast á við samtímann. Í báðum er boðið upp á frumlega nálgun og húmor af súrara og svartara taginu. Lóaboratóríum hefði grætt á meira sjálfsöryggi gagnvart forminu, að efniviðnum sjálfum hefði verið treyst betur. Eða þá ef stigin hefðu verið fleiri og markvissari skref í átt að rétt formuðu leikriti. Eða jafnvel söngleik, ég heyri hann alveg fyrir mér. Engu að síður stendur það sem Sokkabandið ber á borð algerlega fyrir sínu og mun vekja hlátur og skapa hroll hjá öllum þeim sem voga sér inn á tilraunastofuna.
x
<< Home