þriðjudagur, maí 16, 2017

RVKDTR – THE SHOW

Eftir Kolfinnu Nikulásdóttur, Jóhönnu Rakel Jónasdóttur, Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur, Steinunni Jónsdóttur, Þuru Stínu, Solveigu Pálsdóttur, Steineyju Skúladóttur, Sölku Valsdóttur og Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. Leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir. Leikmynd og búningar: Jóhanna Rakel Jónasdóttir. Hljóðmynd og tónlistarstjórar: Salka Valsdóttir og Baldvin Magnússon. Sviðshreyfingar: Kolfinna Nikulásdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Jóhanna Rakel Jónasdóttir. Ljósahönnun: Juliette Louste. Myndbandsgerð: Elmar Þórarinsson. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 11. maí 2017.

Á útivelli

Leið íslenska rappsins af jaðrinum inn í meginstrauminn hefur verið glannalega hröð síðustu misseri. Svo hröð reyndar að það hefur verið umtalsvert djarfari ákvörðun hjá Kristínu Eysteinsdóttur að rétta Reykjavíkurdætum hljóðnema og skilyrðislaus afnot af Litla sviðinu þegar hún var tekin, en núna þegar afraksturinn er borinn fram.

Margt mælir með að rapp eigi heima í vopnabúri leikhússins. Leikhúsið á að vera vettvangur orðsins, en sá hluti genamengis þess hefur verið bældur og jaðarsettur undanfarna áratugi, leynt og ljóst. Kannski er hægt að smygla skáldskapnum aftur inn á sviðsmiðjuna með þessari flaumkenndu og litskrúðugu rímnalist, nú þegar sífellt fleiri eru læsir á fagurfræði hennar. Margir horfa vonaraugum vestur um haf, þar sem slegist er um miðana á hiphop-söngleikinn Hamilton á Broadway. Í Bretlandi er The Hip Hop Shakespeare Company átta ára gamalt batterí.

Það er hugsað öllu smærra í Borgarleikhúsinu, sem vonlegt er. Raunar finnst mér að það hefði þurft mun nánari samgang milli rappsins, laganna sem dæturnar flytja í sýningunni og annars efnis sýningarinnar. Einhverskonar sambræðslu, tilraun til að nýta hinn mjög svo leikræna efnivið tónlistarinnar á forsendum leikhússins. Að opna dyr. Kannski var þetta reynt en niðurstaðan orðið þessi. Að hafa skilin skýr, að láta skiptast á tónlist og talað mál og láta innihaldið kallast á gegnum lokaðar dyrnar.

Það skapast hratt skemmtileg spenna milli þessara sviða. Ýkt og yfirgengilegt sjálfsöryggi er innbyggt í rappið. Hetjulegri tónlist hefur ekki heyrst síðan hár-metal féll úr tísku. Sumarliði hans Bjartmars Guðlaugssonar hefði líka fundið sig í afstöðunni. Sá/sú sem hefur orðið liggur sjaldnast á þeirri skoðun sinni að hann/hún sé mest og best í listinni og lífinu en ekki síður í því að njóta lífsins og hrifsa til sín það sem þarf til þess. Rappari tekur sitt pláss í heiminum með tilþrifum.

Merking þess að konur taki sér slíka stöðu er þrátt fyrir allt enn gerólík þeirri sem verður til þegar karlar byrja að tala um eigið ágæti, velgengni og greddu. Í þessa staðreynd sækja Reykjavíkurdætur slagkraft sinn. Og fá allan sinn mótbyr. Sem verður mikilvægur hluti af sama slagkrafti. Mótbyrinn er síðan í stóru hlutverki milli laga. Bæði vandinn við að gera sig gildandi og njóta sannmælis í karlstýrðum heimum rapps, tónlistar og menningar, en líka hið almenna og sjálfsmyndarslítandi álag sem fylgir nútímalífi ungra kvenna. Konur eru á útivelli í rappinu. Rapparar í leikhúsinu.

Þessar andstæður eru ágætt eldsneyti. Atriðin eru hinsvegar missterk og vilja svolítið fölna við hliðina á kröftugu og ágengu rappinu. Áberandi bestur er fyrsti hlutinn, þar sem dæturnar sviðsetja spjallþátt og bjóða í hann valdakörlum menningar- og fjölmiðlalífsins, sem gengur misvel að dylja þá löngun sína að halda sínu og verja dyr kallaklúbbsins. Aldeilis myljandi snjallar skopmyndir (frekar en beinlínis eftirhermur) af leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarssyni og Unnsteini Manúel í Retro Stefson, sem í meðförum sýningarinnar eru vissulega allir af vilja gerðir til að „gefa“ konum tækifæri, en... það er alltaf eitthvað en. Fleiri áberandi karlar gera sig svo líka breiða og atriðinu lýkur með ákaflega táknrænni og morðfyndinni gæðastund drengjanna.

Hin hliðin á þeim peningi var svo innlit Borgarleikhússtýrunnar, Kristínar Eysteinsdóttur, í lokin, þar sem hún eys lofi yfir sýninguna og frammistöðu stúlknanna. Þar lekur smá af yfirgengilegu sjálfsáliti rapparans loksins undir dyrnar inn í vanmetakenndarherbergið baksviðs. Sem er gott og skemmtilegt.
Önnur atriði flugu ekki eins hátt. Játningar um öryggisleysi, erfiðleika við að tengjast öðrum, áhyggjur af hvert stefnir, óþol gagnvart mótsagnakenndum kröfum heimsins – allt eru þetta efni sem liggja beint við og þurfa snjallari útfærsluhugmyndir, heildstæðari hugsun eða dýpri meðferð til að hreyfa við áhorfandanum, sem er alveg örugglega ekki að heyra þessar fréttir í fyrsta sinn. Einlægnin og nálægðin er sterk, en það þarf meira. Sérstaklega þar sem krafturinn í tónlistaratriðunum og orðavefnaði rímnanna skapar mótvægi sem nánast drekkir leikatriðunum.

Dæturnar eru allar sannfærandi á sviði og ná áreynsluleysinu sem þarf til að vera sannfærandi í einlægninni og búa yfir sannfæringu og krafti fyrir tónlistaratriðin. Sýningin er lipurlega sviðsett af Kolfinnu Nikulásdóttur, með hæfilega afslappaðri umferðarstjórn sem er alveg við það að verða að óreiðu í rappatriðunum en skýr og nákvæm þess á milli. Viðtalsatriðin eru líka vel útfærð og hæfilega langt gengið í að „ná“ viðmælendum þáttastjórnandans án þess að detta inn í klisjur eftirhermulistarinnar.

Útlit sýningarinnar er vel heppnað hjá Jóhönnu Rakel Jónasdóttur. Hvíti liturinn allsráðandi í leikmynd og búningum og glitrandi gerviglys vísar smekklega í rapparaklisju „blingsins“. Ég er almennt ekki hlynntur því að leikmyndir taki sér forystuhlutverk í að miðla merkingu leiksýninga en trommusettið sem trónir stolt á Litla sviðinu var frábær hugmynd.

Ég hefði verið til í meiri ögrun í þessari sýningu. Meiri listræna áhættu, fjölbreyttari aðkomu rappsins. Það sem fyrir áhorfendur er borið er alveg ágætt, sumt vel það. Annað dálítið bragðdauft, sem kom á óvart.