þriðjudagur, mars 14, 2017

Húsið

Eftir Guðmund Steinsson. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlistarumsjón: Davíð Þór Jónsson. Hljóðmynd: Davíð Þór Jónsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Leikgervi: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir og Ingibjörg G. Huldarsdóttir. Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Arnmundur Ernst Backman, Þröstur Leó Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Aldís Amah Hamilton, Baldur Trausti Hreinsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Emil Adrian Devaney, Kolbeinn Daði Stefánsson, Emil Björn Kárason, Þorsteinn Stefánsson, Jón Stefán Sigurðsson, Juan Camilo Roman Estrada, Muhammad Alzurqan, Luis Lucas, Juan Carlos Peregrina Guarneros, Sheba Wanjiku, Marwa Abuzaid, Charlie Jose Falagan Gibbon, Olivia Andrea Barrios Schrader, Maya Moubarak, Javier Fernandez Valiño, Monika Kiburyte, Jozef Pali, Maria Beatriz Garcia og Cheick Ahmed Tidiane Bangoura. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 10. mars 2017.

Flottasta villan í Feigðarósi

Hvað skyldi hafa valdið því að Húsið fékkst ekki sýnt um 1970, þegar það var ferskt úr penna Guðmundar Steinssonar og talaði beint inn í samtíð sína? Samband Guðmundar og Þjóðleikhússins var þá vissulega ekki orðið jafn þétt og það varð fljótlega upp úr þessu, og ljóst er að umfang verksins kallar á tækni og mannafla sem fáir aðrir höfðu á valdi sínu. Kannski hefur Þrándurinn í götunni verið mannfjöldinn sem verkið kallar á undir lokin. Slíkar senur eru eitur í beinum hagsýnna atvinnuleikhússtjóra og kalla á hug- og hagkvæmar lausnir.

Alla vega er ekki hægt að koma auga á neina þannig listræna eða tæknilega ágalla að hefðu átt að kalla á neitun verkefnavalsnefnda af þeim sökum. Þetta er snjallt verk, stílað í anda samtíma síns, skáldlegt í sviðshugsun og stórt í sniðum. Erindi þess hefur auðvitað verið skýrara á ritunartímanum. Margt í afhjúpandi samtölum hinna nýríku hjóna, innbyrðis, við fjölskyldu, vini og óboðna gesti, hefur þá haft yfirbragð hversdagslífs leikhúsgestanna, í stað þess að uppskera aðhlátur fyrir gamaldags fávisku.

Engu að síður er Húsið kærkomið á svið, þó að seint sé. Því margt sem það hefur að segja hittir illu heilli enn í mark hjá börnum og barnabörnum Páls og Ingu.

Virðing Þjóðleikhússins og listamanna fyrir þessu gamla hússkáldi sínu er falleg. Það er vægast sagt óvenjulegt að sjá svona gömul ósýnd verk sótt í handritasafnið og látið á þau reyna. Reyndar eru jafnvel vinsælustu og frægustu leikrit íslenskrar fortíðar fáséð á sviðinu, enda í mörg horn að líta og fáir mánuðir í leikárinu. Tíminn flýgur hratt.

Í Húsinu segir af ungum hjónum á uppleið, þeim Páli og Ingu. Þau búa þröngt með drengjunum sínum þremur og móður Páls. En það stendur til bóta, verið er að leggja lokahönd á stórhýsi fyrir fjölskylduna. Ekki alla reyndar, amman er á leið á elliheimili, ekki er gert ráð fyrir henni í hinni fögru og nýtískulegu höll sem Páll er að reisa sínu fólki. Fljótlega eftir að þau flytja inn fara að birtast þar óboðnir gestir, meðfram þeim sem boðið er til að dást að hinni fögru byggingu og mannlífinu þar. Aðsóknin ágerist þar til öllu er lokið.

Páll og Inga eru gott fólk. Þeim er í mun að innprenta sonum sínum hin kristnu gildi sem Vesturlönd byggja líf sitt og siðferði á. Bjarni, sá elsti, er samt kominn í uppreisnarham, enda er ekki erfitt að sjá að lífshættir hússins eru dauðanum merktir. Þess er vandlega gætt að gildin raski ekki velsældinni, trufli ekki veisluna en gjaldþrot er óumflýjanlegt. Það er ekki síst sú tilfinning sem gerir Húsið tímabært og áhrifaríkt í dag.

Leikhúsfólki verður tíðrætt um „dýptina“ í verkum Guðmundar. Hvað mikið búi að baki orðum og æði persónanna. Ég er ekki sannfærður um að það sé heppilegt orð, jafnvel einfaldlega ekki rétt lýsing. Ég myndi frekar tala um „svigrúm“ sem afhjúpandi innihaldsleysið í samræðunum gefur. Þessu svigrúmi deila túlkendur (leikstjóri, hönnuðir og leikarar) með áhorfendum. Því meira afgerandi sem sýn leikhúsfólksins er, því þrengra verður um ímyndunarafl leikhúsgesta, skilningsleiðum fækkar.

Lengst af tekur uppfærsla Benedikts Erlingssonar verkið „á orðinu“ ef svo mætti segja. Nálgast það bókstaflega, leyfir því að tala fyrir sig. Sú ákvörðun að gera ritunartíma verksins áberandi í útliti sýningarinnar skiptir hér miklu máli og er hreint frábærlega útfærð af hönnuðum búninga (Filippíu I. Elísdóttur), leikmyndar (Snorra Frey Hilmarssyni), lýsingar (Halldóri Erni Óskarssyni) og tónlistar (Davíð Þór Jónssyni). Án þess að hafa rannsakað það sérstaklega grunar mig að ekki hafi verið hnikað til orði í textanum. Sem hefði svo sem alveg borgað sig, ankannalegar eru „útvarpslegar“ staðhæfingar persónanna um það sem fyrir augu ber („þú sest í stólinn!“).

Ein róttæk nýtúlkunarhugmynd er þó útfærð í sýningunni. Undir lokin leggur hópur ókunnugs ungs fólks undir sig hús fjölskyldunnar. Nærtækast er að sjá þau sem hippa/anarkista/róttæklinga sem hafna þeim gildum sem hjónin boða og játa á yfirborðinu, þó að ekki séu nákvæm fyrirmæli um slíkt í handriti Guðmundar. Í sýningu Þjóðleikhússins er kosið að láta þennan lokakafla verksins tala beint við eitt brýnasta viðfangsefni samtímans: fólksflutninga frá stríðsþjáðum og efnahagslega aðþrengdum heimshlutum. Í hlutverkum unga fólksins eru leikarar af erlendum uppruna, úr leikhópi nýrra Íslendinga, og búnaður þeirra gefur sterklega til kynna stöðu nýbúans, flóttamannsins, hælisleitandans. Þessi túlkunarleið þrengir áðurnefnt svigrúm en skapar um leið sitt eigið, kallar beinlínis á meðvitaða úrvinnslu áhorfenda. Því hvað er það sem gerist? Hópur fólks leggur undir sig heimili, að mestu umyrðalaust. Borðar matinn, drekkur vínið, elskast í sérhönnuðum húsgögnunum. Brennir listaverkin. Merking þessa er öll önnur ef æskuhreyfingum sjöunda áratugarins er skipt út fyrir neyðarástand nútímans og má vart á milli sjá hvort hér sé á ferðinni listræn dirfska eða hreinlega einfeldningslegt og óábyrgt innlegg í umræðu sem er svo sannarlega nógu eldfim fyrir.

Strípaður texti og útlínukennd persónusköpun Guðmundar Steinssonar virðist mér ættuð úr absúrdleikhúsinu og gerir miklar kröfur til leikendanna, en jafnframt spennandi tækifæri. Það var gaman að sjá nýja hlið á Guðjóni Davíð Karlssyni sem er hér ekki hláturvekjandi æringi eins og svo oft, heldur hið mynduga og sjálfumglaða höfuð fjölskyldunnar. Hláturrokurnar sem oft fóru um salinn voru ekki sóttar þangað með brögðum gamanleikarans heldur kviknuðu af afhjúpandi orðaskiptum persónanna. Guðjón er sannfærandi í hlutverki Páls en betur hefði þurft að vinna gegn vissri einhæfni í raddbeitingu og mótun tilsvara. Það sama á við um Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur sem einnig var að öðru leyti sannfærandi sem hin ófullnægða en yfirborðssæla húsmóðir. Kristbjörg Kjeld var svo ekki í neinum vandræðum með að ljá línum sínum áreynslulausa og náttúrulega fjölbreytni og ömmunni fullkomlega eðlilegt líf. Frábærlega gert.

Túlkun Bjarna, elsta sonarins, líður nokkuð fyrir tvísæi sýningarinnar, inn í ritunartímann og núið. Ekki má gefa of mikið upp um drifkrafta Bjarna svo Arnmundi varð ekki mikið úr hlutverkinu. Yngri drengirnir voru á frumsýningu leiknir af Emil Adrian Devaney og Þorsteini Stefánssyni sem fóru vel með þau. Þröstur Leó Gunnarsson var kannski óþarflega látlaus útigangsmaður, en þeim mun spaugilegri sem dularfullur mælingamaður seinna í verkinu.

Smáhlutverk veislugesta voru í öruggum höndum og allt það partí bráðskemmtilegt. Leikhópur Juan Camilo Roman Estrada átti sterka innkomu og þó óvani við að standa á sviði og fara með íslenskan leiktexta væri sýnilegur þá bætti hann í raun einu merkingarlagi ofan á þessa lykilsenu sýningarinnar, frekar en að vera til vansa.

Mér hefur lengi þótt verk af sauðahúsi Hússins vera úrelt börn síns tíma. Absúrdisminn og afleggjarar hans hafa að mínu viti reynst blindgata og þeir fáu höfundar og verk sem hafa staðist tímans tönn úr þeim „skóla“ þrífist þrátt fyrir en ekki vegna efnistakanna og viðfangsefnanna. En tímarnir breytast. Þær ógnir og óvissa sem samtíminn er gegnsýrður af hefur gert óræða upplausn og skáldlegar ógnir slíkra verka gilda aðferð á ný. Húsið reynist verðugt viðfangsefni og sýning Benedikts Erlingssonar þjónar því að mestu af trúmennsku og alltaf af dirfsku.