Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti
Eftir Rodrigó García. Þýðing: Stefán Hallur Stefánsson og Una Þorleifsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikari: Stefán Hallur Stefánsson Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Leikmynd og búningur: Stefán Hallur Stefánsson og Una Þorleifsdóttir. Leikhópurinn ST/una setur upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Frumsýning í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 15. október 2016.
Það er viðeigandi að tveimur dögum eftir að Bob Dylan eru veitt bókmenntaverðlaun Nóbels sé frumsýnt í Þjóðleikhúsinu þetta kröftuga sviðsverk sem sækir safa sinn að miklu leyti í spennuna milli há- og lágmenningar, eða kannski í örvæntinguna yfir hvað sú spenna er orðin lítil á þessari póstmódernísku skeggöld neyslu og nándarskorts.
Maður á besta aldri ákveður að sólunda fátæklegum ævisparnaðinum í sukkferð til Madridar með tveimur ungum sonum sínum. Áfengi, eiturlyf, skyndimatur og félagsskapur þýsks heimspekings er greiddur fullu verði, en hápunkturinn verður samt að brjótast inn í Prado og eyða nótt með svörtu myndum Goya. Drengirnir vilja reyndar heldur fara í Disneyland í París, lái þeim hver sem vill. Þetta virðast vera merkilega klárir strákar. En þetta er ekki þeirra ævisparnaður. Karlinn ræður.
Það er mikil orka og hæfileg óreiða í texta Rodrigó García. Bræðin út í öngstræti neyslusamfélagsins og almennt glóruleysi nútímans er einlæg, en framsetningin kannski ekki ýkja frumleg. Grunnhugmyndin – framvindan, ef svo mætti segja, er þó snjöll og heldur vélinni vel gangandi þann tæpa klukkutíma sem sýningin tekur. Og vissulega er stundum sagt eitthvað forvitnilegt og afhjúpandi. Pælingarnar um sálfræði og jarðfræði þóttu mér til að mynda spennandi. Ógnvekjandi ræða um kjarna kynlífsins var einnig öflug og eftirminnileg. Og svo þarf maður víst að fara að skoða verk Peter Sloterdijks sem þeir feðgar leigja sér eins og hverja aðra hóru til að tala við sig um heimspeki meðan þeir rúnta um Madrid og háma í sig samlokur áður en hápunktinum, Prado-heimsókninni, er náð. Áhrifaríkust er þó afstaða persónunnar til sona sinna, sex og ellefu ára. Hún er fyrir neðan allar hellur ef horft er með raunsæisgleraugum á verkið, en góðu heilli dregur García upp þannig mynd af þroska drengjanna að það er óhugsandi að lesa í verkið á þann hátt.
Leikstjóri og leikari hafa tekið djarfa ákvörðun um hvernig þau vildu vinna úr þessum efnivið. Óreiðan, ofbeldishugsunin, ólíkindaleg bræðin virðist við fyrsta lestur bjóða upp á trylling. Fullt af leikmunum, mat, myndbönd; öll vinsælu hjálpartækin í dótakassa samtímaleikhússins. Í enskri uppfærslu fóru grísir með hlutverk sonanna tveggja.
Ekki hér. Einangraður í reyk á auðu sviði fer Stefán Hallur Stefánsson með textann, segir okkur þessa sögu. Í hljóðnema úr dótakassanum reyndar, en aðallega erum við ein með manninum og orðunum.
Þessi dirfska borgar sig ríkulega. Stefán Hallur sýnir hér á sér hliðar sem hafa ekki verið áberandi í þeim verkefnum sem leikhúsið hefur falið honum undanfarið. Orkunni og ógninni sem hann á svo auðvelt með að miðla er ýtt til hliðar, pakkað niður. Lágmæltur, hikandi leggur hann upp í þessa Madridarferð. Hér er unnið af stakri fagmennsku á móti textanum, og þannig tekst að miðla merkingu hans á ferskan og óvæntan hátt.
Þetta er frábærlega gert. Stefáni og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra hefur tekist sérlega vel upp með greiningu og framsetningu textans. Ögrandi innihaldið, grimmdin og glóruleysi persónunnar, hugmyndalegt erindi textans, er svolítið látið sjá um sig sjálft. Ekki látið taka ráðin af listamanninum. Hann segir okkur bara söguna, tjáir okkur hvernig honum líður. Við förum með honum í þessa feigðarför. Sitjum við eldhúsborðið þar sem lagt er á ráðin og rifist um aðdráttarafl Goya og Walt, erum í sætaröðinni fyrir aftan þá feðga á fluginu, í leigubílnum sem hringsólar um flugvöllinn meðan beðið eftir að þýski heimspekingurinn lendi.
Það er mikið öryggi í efnistökum sýningarinnar. Traust á leikaranum og einföldustu meðulum leikhússins. Þannig færumst við nær þessum ógeðfellda og ógnvekjandi manni, hlustum á hann með opnari hug en ef hann færi um öskrandi, rífandi og tætandi allt sem fyrir verður, sem hefði verið svo augljós og fyrirsjáanleg leið. Fyrir vikið nær það sem hann hefur að segja um siðmenningu á síðustu metrunum til okkar. Með því að gera sig varnarlausan gerir Stefán Hallur það sama við okkur.
Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti er kröftug sýning með alvöru erindi, miðlað af öguðu listfengi. Spennandi leikhús í sinni nöktustu mynd.
Kall á barmi taugaáfalls
Það er viðeigandi að tveimur dögum eftir að Bob Dylan eru veitt bókmenntaverðlaun Nóbels sé frumsýnt í Þjóðleikhúsinu þetta kröftuga sviðsverk sem sækir safa sinn að miklu leyti í spennuna milli há- og lágmenningar, eða kannski í örvæntinguna yfir hvað sú spenna er orðin lítil á þessari póstmódernísku skeggöld neyslu og nándarskorts.
Maður á besta aldri ákveður að sólunda fátæklegum ævisparnaðinum í sukkferð til Madridar með tveimur ungum sonum sínum. Áfengi, eiturlyf, skyndimatur og félagsskapur þýsks heimspekings er greiddur fullu verði, en hápunkturinn verður samt að brjótast inn í Prado og eyða nótt með svörtu myndum Goya. Drengirnir vilja reyndar heldur fara í Disneyland í París, lái þeim hver sem vill. Þetta virðast vera merkilega klárir strákar. En þetta er ekki þeirra ævisparnaður. Karlinn ræður.
Það er mikil orka og hæfileg óreiða í texta Rodrigó García. Bræðin út í öngstræti neyslusamfélagsins og almennt glóruleysi nútímans er einlæg, en framsetningin kannski ekki ýkja frumleg. Grunnhugmyndin – framvindan, ef svo mætti segja, er þó snjöll og heldur vélinni vel gangandi þann tæpa klukkutíma sem sýningin tekur. Og vissulega er stundum sagt eitthvað forvitnilegt og afhjúpandi. Pælingarnar um sálfræði og jarðfræði þóttu mér til að mynda spennandi. Ógnvekjandi ræða um kjarna kynlífsins var einnig öflug og eftirminnileg. Og svo þarf maður víst að fara að skoða verk Peter Sloterdijks sem þeir feðgar leigja sér eins og hverja aðra hóru til að tala við sig um heimspeki meðan þeir rúnta um Madrid og háma í sig samlokur áður en hápunktinum, Prado-heimsókninni, er náð. Áhrifaríkust er þó afstaða persónunnar til sona sinna, sex og ellefu ára. Hún er fyrir neðan allar hellur ef horft er með raunsæisgleraugum á verkið, en góðu heilli dregur García upp þannig mynd af þroska drengjanna að það er óhugsandi að lesa í verkið á þann hátt.
Leikstjóri og leikari hafa tekið djarfa ákvörðun um hvernig þau vildu vinna úr þessum efnivið. Óreiðan, ofbeldishugsunin, ólíkindaleg bræðin virðist við fyrsta lestur bjóða upp á trylling. Fullt af leikmunum, mat, myndbönd; öll vinsælu hjálpartækin í dótakassa samtímaleikhússins. Í enskri uppfærslu fóru grísir með hlutverk sonanna tveggja.
Ekki hér. Einangraður í reyk á auðu sviði fer Stefán Hallur Stefánsson með textann, segir okkur þessa sögu. Í hljóðnema úr dótakassanum reyndar, en aðallega erum við ein með manninum og orðunum.
Þessi dirfska borgar sig ríkulega. Stefán Hallur sýnir hér á sér hliðar sem hafa ekki verið áberandi í þeim verkefnum sem leikhúsið hefur falið honum undanfarið. Orkunni og ógninni sem hann á svo auðvelt með að miðla er ýtt til hliðar, pakkað niður. Lágmæltur, hikandi leggur hann upp í þessa Madridarferð. Hér er unnið af stakri fagmennsku á móti textanum, og þannig tekst að miðla merkingu hans á ferskan og óvæntan hátt.
Þetta er frábærlega gert. Stefáni og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra hefur tekist sérlega vel upp með greiningu og framsetningu textans. Ögrandi innihaldið, grimmdin og glóruleysi persónunnar, hugmyndalegt erindi textans, er svolítið látið sjá um sig sjálft. Ekki látið taka ráðin af listamanninum. Hann segir okkur bara söguna, tjáir okkur hvernig honum líður. Við förum með honum í þessa feigðarför. Sitjum við eldhúsborðið þar sem lagt er á ráðin og rifist um aðdráttarafl Goya og Walt, erum í sætaröðinni fyrir aftan þá feðga á fluginu, í leigubílnum sem hringsólar um flugvöllinn meðan beðið eftir að þýski heimspekingurinn lendi.
Það er mikið öryggi í efnistökum sýningarinnar. Traust á leikaranum og einföldustu meðulum leikhússins. Þannig færumst við nær þessum ógeðfellda og ógnvekjandi manni, hlustum á hann með opnari hug en ef hann færi um öskrandi, rífandi og tætandi allt sem fyrir verður, sem hefði verið svo augljós og fyrirsjáanleg leið. Fyrir vikið nær það sem hann hefur að segja um siðmenningu á síðustu metrunum til okkar. Með því að gera sig varnarlausan gerir Stefán Hallur það sama við okkur.
Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti er kröftug sýning með alvöru erindi, miðlað af öguðu listfengi. Spennandi leikhús í sinni nöktustu mynd.
<< Home