mánudagur, febrúar 08, 2016

Old Bessastaðir

Old Bessastaðir eftir Sölku Guðmundsdóttur. Leikstjóri: Marta Nordal. 
Leikmyndahönnun: Finnur Arnar Arnarsson. Búningahönnun: Helga Stefánsdóttir. 
Tónlist: Högni Egilsson. Hljóðsmiður: Marteinn Hjartarson. Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson. Leikendur: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.Sokkabandið sýnir í Tjarnarbíói. Frumsýning 4. febrúar 2016.

Gildafólkið 

Hvaða ódæði skyldu þær hafa ætlað að fremja, konurnar þrjár sem Salka Guðmundsdóttir leiðir saman í Tjarnarbíói þessa dagana? Því þær ætla augljóslega að gera eitthvað. Eitthvað þarf jú að gera, þetta getur ekki gengið svona lengur. Þó orð séu til alls fyrst þá duga þau ekki til þegar á hólminn er komið. Er það annars?

Strax og við hittum þær er ljóst að þær hafa eitthvað í hyggju. Það líður ekki á löngu áður en sú fyrsta íklæðist lambhúshettunni, einkennisklæðnaði aðgerðarsinnans og ígildi skriftastólsins í sýningunni. Víglínan virðist nokkuð skýr og gildin skilgreind. Eða hvað?

Gildin og skilgreining þeirra eru kjarni verksins Old Bessastaðir. Safaríkasta og frjóasta hugmynd Sölku Guðmundsdóttur. Hvernig þau um- og afmyndast í meðförum þríeykisins. Þróast frá því að vera almenn og óhlutbundin hugtök sem við flest myndum glöð kvitta undir yfir í að verða vopn í valdabaráttu kvennanna þriggja og á endanum merkingarleysan ein. Voru það kannski frá upphafi. Sennilega áttum við að sjá strax að sú sem ræður gildunum stýrir gangi mála. Sá sem reynir að halda í þau gildi sem meirihlutinn hefur kastað fyrir róða mun tapa, sjái hann ekki að sér í tíma.

Það blasir við öllum með opin skilningarvit og aðgang að fjöl- og samfélagsmiðlum að eitt af mikilvægustu málum samtímans er sú óvænta og uggvænlega staða að viðhorf sem í hálfa öld hafa verið meira og minna bannfærð og bannhelguð þokast sífellt fjær því að vera feimnismál og nær „miðjunni“ í samfélagsumræðunni á hinum velmegandi Vesturlöndum, og líka hér hjá okkur. Þetta er hinn görótti kokteill öfgafullrar þjóðernis- og einangrunarstefnu samfara vantrú á opinni umræðu og hefðum lýðræðisins, blanda sem einfaldast er að kalla fasisma.

Listamönnum úr öllum greinum rennur auðvitað blóðið til skyldunnar að rannsaka þessa stöðu mála, velta fyrir sér birtingarmyndum og grafast fyrir um orsakir og hugsanlegar afleiðingar þess að uppvakningurinn er kominn á kreik. Að mörgu leyti er leikhúsið vel til þess fallið að leggja eitthvað gagnlegt til málanna, enda í eðli sínu einskonar rannsóknarstöð mannlífsins. En á sama tíma er reyndar ríkjandi þar innandyra viss vantrú á einmitt þeim meðulum leikhússins sem ætla mætti að væru helsti styrkur þess og sérstaða. Sálfræðilegt raunsæi og hefðbundin fléttusmíð þar sem andstæð sjónarmið, hagsmunir og lífssýn eru látin mætast og takast á er ekki í tísku og sennilega hefur ekki einu sinni hvarflað að Sölku að nálgast efnið á þann hátt.

Ansi margt er órætt og látið ósagt um þessar þrjár konur. Þær virðast koma úr ólíkum heimum og eiga lítið sameiginlegt nema hugsjónina. Við fáum örlítið að skyggnast inn í fortíð þeirra í stuttum eintölum. Þar komumst við að því að sú sem Elma Lísa Gunnarsdóttir túlkar er öryrki sem hefur ekki náð að fóta sig í lífinu og lífsgæðakapphlaupinu. Hin hörkulega og kalda kona sem Arndís Hrönn Egilsdóttir sýnir okkur virðist vera einhvers konar meðferðaraðili, mögulega prestur en kannski félagsfræðingur og efst þeirra þriggja í valdapíramída þjóðfélagsins hefur karríerkona Maríu Hebu Þorkelsdóttur setið en nýverið hrapað þaðan eftir óskilgreint hneyksli. Allar vinna þær vel úr efnivið sínum undir smekkvísri stjórn Mörtu Nordal og í skýrri umgjörð ljósa-, leikmyndar-, búninga- og hljóðmyndarhönnunar, þó ekki sé hægt að segja að þær sýni áhorfendum sem þekkja til þeirra eitthvað nýtt og óvænt.

Sú framvinda sem leikkonurnar hafa úr að moða felst einkum í valdatogstreitu og bandalagamyndun innan hópsins, og þar verða til margar fyndnar og sannar aðstæður. Að mínu mati setur óræðnin, sem aðferð höfundarins gengur út á sýningunni, full strangar skorður. Afhjúpun ofbeldisblandinnar heimóttarinnar og rótanna í hræðslu og græðgi verður full auðveld, niðurstaðan gefin. Við erum alveg til í að hlæja að og líta niður á þessar konur. En til að skilja þær þarf að fara nær raunveruleikanum en þessi kröftuga og reiða sýning og stíll hennar leyfir.