Njála
Eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Danshöfundur: Erna Ómarsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Sunneva Ása Weisshappel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Árni Heiðar Karlsson og Valdimar Jóhannsson. Hljóðmynd: Valdimar Jóhannsson og Baldvin Þór Magnússon. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir. Leikarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Björn Stefánsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 30. desember 2015.
Með Héðni
Ég fékk límmiða með nafni Skarphéðins Njálssonar á forleiksmarkaðnum í anddyri Borgarleikhússins. Og eftir nokkuð harða atlögu sölustúlku þáði ég blóðuga öxi til að hafa með mér í salinn. Þótti það viðeigandi út frá erindi mínu á frumsýninguna, en ætla samt að stilla mig um að sveifla henni að ráði. Skarphéðinn er nefnilega ekki leiðtogi lífs míns, þó vafalaust sé sitthvað til í því sem segir í leikskránni að sá glóru- og gæfulausi garpur hafi löngum verið „uppáhaldshetja Íslendinga“. En örugglega ekki lengur.
Þessi forleikur allur er nokkuð skemmtilegur, ekki síst fimmaurabrandararnir í kallkerfinu. Það verður forvitnilegt að vita hvernig hann virkar á „eðlilegri“ áhorfendahóp en þann sem safnast einatt saman á frumsýningum. Engu að síður furða ég mig svolítið á hve lítil „eftirmál“ hann hafði, hversu samband sviðs og salar varð hefðbundið og landamærin skýr og vel virt þegar sest var. Þarna sat ég, merktur Skarphéðni með litla Rimmugýgjarsystur í hönd og beið skipana og áreitis sem aldrei kom. Pínu hissa, en allshugar feginn.
Sú ákvörðun höfundanna, Mikaels Torfasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar, að segja þessa risavöxnu sögu alla, eða í það minnsta rekja alla meginþræði hennar frá Merði gígju til hjónabands Kára og Hildigunnar, er kannski það eitt sem mótar hana mest. Að henni tekinni fer stór hluti tíma og orku leikhóps og höfunda í að halda til haga atburðarás, gera aðdraganda lykilviðburða skiljanlega og þá sjálfa áhrifaríka. Þetta tekst oft vel, en vitaskuld með nokkrum bláþráðum og á kostnað krufningar og rýni sem hefði verið möguleg ef aðstandendur hefðu látið sér hluta hennar nægja sem viðfangsefni, en þá leið hafa þeir sem fyrr hafa gert leikhúsatlögu að Njálu farið.
En hér er allt undir. Almennt er hressilegt hvað Þorleifi og hans fólki er ósínt um að halda einhverri skýrri línu með aðferðirnar sem notaðar eru við að koma efninu á framfæri, hoppa hiklaust milli grófasta gríns yfir í dýpstu alvöru. Oftast án þess að gamnið eða dramað bíði tjón af. Segja má að þessi sundurgerð endurspegli í einhverjum skilningi þessa stóru og ósamstæðu bók sem til meðferðar er. Hér er flestu tiltæku tjaldað úr verkfærakistu ágengs nútímaleikhúss. Hávaða. Talkórum. Vísunum í poppmenningu. Rappi. Hljóðnemum. Blóði í fötuvís. Karlakór. Og að sjálfsögðu trommara. Ýmis tilbrigði við frásagnarleikhús eru þó eðlilega grunvallaraðferðin og tóntegundin, sérstaklega framan af, náskyld þeirri sem við þekkjum úr ein- og tvíleikjum Benedikts Erlingssonar upp úr Gunnlaugssögu og Eglu. Einnig hér er á opinskáan og oft næsta kaldhæðinn hátt horft í gegnum sjóngler nútímaviðhorfa og -lífshátta á bjástur sögupersónanna. Enda liggur þar erindi sýningarinnar: að skoða hvort Njála hefur eitthvað með okkur að gera í nútímanum, og þá hvað.
Þetta er alltaf áhrifaríkt í sínu skipulagða kaosi. Og næstum alltaf skemmtilegt, verð að játa að kristnitökuballettinn og Prókofíev-sónatan reyndu á mín þolrif. Það má bæði líta á það sem kost og galla hvað aðferðir og nálganir Njáluhöfundanna eru þrátt fyrir allt orðnar leikhúsunnendum tamar, hvað þeir sem fara reglulega í leikhús eru orðnir læsir á þessa leikhússtafsetningu. Það má treysta því að ekkert af uppátækjunum slái gesti alvarlega út af laginu sem gæti orðið á kostnað slagkraftsins sem felst í nýjabruminu.
Ekki það að það sé ekki nægur slagkraftur. Hvergi meiri þó en í dramatískum hápunkti bókar og sýningar – Njálsbrennu. Það má lengi klóra sér í hausnum yfir merkingu þess að nota hinn glæsta kórkafla þeirra Davíðs og Páls úr Þjóðhátíðarkantötunni til að magna upp áhrifin. Hvernig tengist bænin um ljósið, sem „lýsir hverjum landa“, og þá sérstaklega hetjunum styrku, þessari grimmu hóprefsingu og dauða hinar hæpnu hetju, Skarphéðins, sem svo sannarlega hefur aldrei við stýrisvöl staðið? En þessar vangaveltur verða að bíða eftir að tilfinningarótið stillist og skynfærin jafni sig eftir þetta glæsilega atriði.
Þau eru fleiri. Sum byggja meira að segja áhrifamátt sinn á næsta hefðbundnum meðulum díalógs og persónusköpunar. Samskipti Gunnars við Otkel og Skammkel koma upp í hugann. Einnig fyrsta innkoma Njáls og framkoma hans við syni sína, sem var dregið upp á skýran hátt í nokkrum setningum. Meira efins um að gervi Jabba the Hut úr Stjörnustríðsheimum varpi sérlega gagnlegu ljósi á Njál, jafnvel þó ætlunin væri að sýna hann sem misvitran og illviljaðan, sem er alveg gilt sjónarmið. En fyndið var það. Það sama má segja um að láta Harald Gráfeld syngja Stairway to Heaven á skandinavísku að hætti Hunds í óskilum. Sýningin er á köflum alveg sátt við að vera viðhafnarmikil revía, sögualdarskaup. Þar nýtur sín kannski best samleiksgleðin sem einkennir framgöngu hópsins alls, leikara, dansara og kórs. En hún krefst þess líka að vera tekin alvarlega. Fer fram á að áhorfandinn leiti að meiningu með galskapnum.
Ég veit ekki með hana. Stundum fannst mér aðstandendur sýningarinnar sjá sig sem einhverskonar helgimyndabrjóta. En ég held að sú helgimynd sem þeir vilja vaða í með sleggjuna sé sennilega löngu brotin og alveg örugglega týnd. Fyrir utan að það þarf ekki mikla djörfung eða djúpa rannsókn til að finnast meðferð sögualdarsamfélags á konum fyrir neðan allar hellur og hetjuhugsjónin og móðgunarefnin fáfengileg frá sjónarhóli nútímans, í það minnsta aldrei dauðasök. Fornsögurnar eru svolítið eins og sauðamaðurinn sem Þorgeir Hávarsson hjó – liggja vel við höggi fyrir þá sem vilja leggja mælikvarða okkar húmaníska lýðræðissamfélags á þær. En er eitthvað unnið með þeirri aðgerð?
Annað en að skemmta okkur með öllum tiltækum ráðum, láta allt flakka. Þetta er oftast nær fjári flott revía. Mér dettur í hug kynning Gunnars Hámundarsonar til sögunnar, sérlega góð hugmynd, vel útfærð af karlleikurunum. Það eru ekki mikil tækifæri innan aðferðarinnar fyrir leikara til að gera persónur sínar eftirminnilegar í sjálfum sér, hvað þá þrívíðar eða verulega mennskar. Ætli Hjörtur Jóhann Jónsson fari ekki einna næst því með bæði Otkel og Skarphéðinn? Já og Brynhildur Guðjónsdóttir með Njál, eftir að hún er sloppin úr fitudressinu. Allir skila þó sínum „aðalhlutverkum“ með sóma. Og eru eins og fiskar í vatni þegar veggurinn frægi á sviðsbrúninni er rofinn.
Innkoma karlakórsins er síðan mjög áhrifarík, ekki síst fyrir þá sök hvað hann er sparlega notaður, og hvað svona þétt skipað svið er sjaldgæf sjón í atvinnuleikhúsi nútímans.
Ég treysti mér ekki til að segja margt af viti, hvað þá þekkingu, um hlut danslistarinnar og danshöfundarins Ernu Ómarsdóttur í sýningunni, annað en að stærsta dansatriðið, kristnitakan, gerði lítið fyrir mig eins og fram hefur komið. Annað stórt dansatriði er mikill hárballett sem kynnir Hallgerði og þrönga stöðu hennar í þessum heimi til sögunnar. Sá var öllu innihaldsríkari sem kannski má að hluta þakka ritgerð Helgu Kress sem flutt var á meðan fyrir okkur hina dans-ólæsu.
Umgjörðin er í stóru hlutverki. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er fjölbreytt og flott og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar á stóran þátt í stóru augnablikunum. Kannski eiga samt glæsilegir búningar Sunnevu Ásu Weisshappel stærstan hlut í þeim útlitsferskleika sem einkennir þessa litríku skoðunarferð á Njáluslóðir.
Það er margt sem fangar og gleður augu og huga í þessu mikla sjónarspili öllu. Jafnvel hjarta stundum. Mig grunar að það eigi jafnt við um þá sem þekkja söguna vel og hina sem mæta ólesnir. Ég efast reyndar um að þeir síðarnefndu nái að fylgja atburðarás og drifkröftum hennar til fulls. En hugkvæmni og leikrænn kraftur mun halda öllum við efnið þar til yfir líkur og lokabænin fagra hefur verið sungin.
<< Home