Macbeth
Höfundur: William Shakespeare
Þýðandi: Þórarinn Eldjárn
Leikstjóri: Benedict Andrews
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Oren Ambarchi
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Leikendur
Agla Bríet Gísladóttir, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ágúst Örn Bergesson Wigum, Ásgeir Sigurðsson Björn Thors, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hilmir Jensson, Hilmir Snær Guðnason, Hringur Ingvarsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Saga Garðarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Stefán Árni Gylfason, Vera Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.
Þjóðleikhúsið 16. janúar 2013 [birtist fyrst í Spássíunni]
Hefð og uppreisn
Það þarf kjark til að setja upp Shakespeareleikrit á Íslandi. Og til að skrifa gagnrýni um uppsetningar á Shakespeare ekki síður. Það er um þau sem ritdeilurnar verða. Kannski er Shakespeare þjóðleikskáldið okkar. Þó kemur orðið „Ísland“ bara einu sinni fyrir hjá honum, og þá sem skammaryrði – manni er líkt við íslenskan fjárhund.
En samt æsum við okkur yfir honum.
Samt skrifa sumir um sýningar á verkum hans, sem þykja framúrstefnulegar, að þær séu kærkomin tilbreyting frá hefðinni. Eins og við höfum „hefð“ í meðferð og túlkun á Shakespeare. Sennilega gerir ekkert mig eins pirraðan í íslenskri leikhúsumfjöllun og einmitt þetta vanhugsaða og sjálfvirka bull.
Sjálfur hef ég séð fimm sviðsuppfærslur á Macbeth. Engri þeirra væri rétt lýst sem „hefðbundinni“. Um þá hefðbundnustu (Royal Shakespeare Company 1996) var sagt að leikmyndin væri eins og hún hefði verið keypt í IKEA. Að auki hef ég séð nokkrar kvikmyndaðar. Flestar þeirra aldeilis frumlegar. Ég er miðaldra. Um hvað er fólk að tala?
Heimsfrægur útlendingur
Benedict Andrews fellur skemmtilega inn í þessa mynd fyrir mig. Hann er alþjóðlegt „nafn“ í leiklistarheiminum og er núna búinn að koma tvisvar og setja upp höfuðverk Shakespeares í Þjóðleikhúsinu okkar. Svoleiðis nokkuð hefur aldrei gerst áður. Ég geri fastlega ráð fyrir því að báðar hafi sýningarnar glatt það skrítna fólk sem er orðið þreytt á of mikilli hefðarfestu í meðferð okkar fólks á Shakespeare. Mig (sem er pínu íhaldskurfur hvað þetta varðar, en meðvitaður um það) hafa þær kætt og stuðað talsvert. Lér konungur þó meira samt.
Ég ætlaði alltaf að skrifa langhund á bloggið mitt um Lé Þjóðleikhússins, en gerði það aldrei. Vona að lesendur fyrirgefi þó hann fái smá pláss hér.
Andrews er ákaflega flinkur sviðsetjari. Í sýningunum eru möguleikar sviðsins og viðkomandi leikmyndar hugvitsamlega nýttir til að ná fram sterkum áhrifum og segja skýra sögu. Það er líka augljóst að leikstjórinn kann að framkalla sannfærandi og áhrifaríkan leik hjá flinkum leikurum. Það var reyndar talsvert meira áberandi í Lé, enda mun fleiri bitastæð hlutverk í því verki. Stærsti gallinn við Lé-sýninguna var túlkun konungsins, eða kannski öllu heldur túlkun stöðu hans í heimi verksins, en það var sem betur fer með nógu mörgu öðru að fylgjast.
Hvað er nú hlaupið í þann gamla?
Upphafssena Lés konungs er að mínu mati einhver sú snilldarlegasta í höfundarverki Shakespeares. Hún er margræð, mótsagnarkennd og opin fyrir ótal túlkunum. Þar fáum við að vita hvernig konungur Lér var, og er gefin einhver skýring á eða rökvísi í þeim brjálæðislegu og afdrifaríku ákvörðunum sem hann tekur. Er hann orðinn seníll, eða geðveikur, er hann harðstjóri, er hann heimilisharðstjóri, eða kannski bara skaphundur sem missir sig? Hver er síðan afstaða hirðarinnar til þeirra fádæma sem konungurinn býður upp á?
Í túlkun Arnars Jónssonar (og Andrews) fékk ég engin svör við þessum spurningum. Það var svolítið eins og það kæmi málinu ekki við. Sérstaklega var vont að sjá ekki hirðina fyrir heldur svipbrigðalausum blöðrunum sem fylltu sviðið, eins flott og sú hugmynd var annars, svona á vitsmunaplaninu.
Afdrifaríkasta afleiðing þessa var að gera ferðalag Lés mér einkennilega fjarlægt og óviðkomandi. Og forvitnilegt var hvað sýningin lifði vel af þessa grundvallarveilu. Kemur þar til bæði hvað Arnar skilaði þessu vel, þrátt fyrir þetta skrítna afstöðuleysi í upphafi, og hvað margt annað áhugavert fólk og atburðir fylla heim verksins.
Í Macbeth er það aftur lögn aðalpersónunnar sem ég á erfiðast með að kyngja.
Hér hefur það líka mun verri afleiðingar. Í Macbeth er kastljósið mun þrengra, næstum eingöngu á heim hjónum. Hvað þau gera, hvernig þau tala sig upp í það, og þó einkum hvaða afleiðingar það hefur fyrir þau. Aðallega hann. Í tilfelli Macbeths er kastljósið nefnilega röntgengeisli, við sjáum hug hans allan í gegnum hinn makalausa skáldskap.
En hér vantaði eitthvað. Eins og hjá Lé þótti mér það vera ferðalagið og samhengið sem Macbeth vinnur ódæði sín í sem skorti.
Killing machine
Það hjálpar ekki Birni Thors að vera búinn að lýsa fautum og heimskingjum svona snilldarlega undanfarin ár. Það er samt ekki bara þeirra vegna sem Macbeth hans birtist sem heimskur fauti. Það er greinilega meiningin. Þessi Macbeth er hugsunarlaus vígvél, túlkun sem gengur í sjálfu sér alveg upp á yfirborðinu. En hún gerir ferðalag Macbeths bara svo óáhugavert. Samviskukvalirnar svo ótrúverðugar.
Fyrir nú utan að það verður óskiljanlegt að þessi maður hafi verið gerður að konungi.
Það er nefnilega alveg skýrt að það er ekki sjálfvirk erfðaröð í heimi verksins. Ef hann er konungur „af drottins náð“ þá myndi hann heldur ekki hafa svona þungar áhyggjur af því að upp um hann komist. En verkið er um þessar áhyggjur, og samviskuskelfinguna sem allt í einu grípur þennan sjóaða hermann sem er vanur að vaða blóð í hné, þegar hann drepur ekki bara mann, heldur fremur morð. Eins ágætlega og Björn Thors skilaði hlutverkinu í sinni túlkun, þá bara trúði ég ekki á skelfingu þessa manns. Keypti ekki sjálfsrýnina. Og var þess vegna nokk sama um hann.
Lafðin kemur miklu betur út úr þessari nálgun. Hennar hlutverk er enda nánast algerlega byggt upp af stórum „aríum“: eintölum og ræðum. Við fáum ekki að fylgjast með hennar ferð niður í hyldýpið, fáum þess í stað svona „fyrir-og-eftir“ svipmyndir sem eru með því glæstara sem höfundurinn skrifaði. Frábærlega skilað hér af Margréti Vilhjálmsdóttur.
Af öðrum leikurum er vert að staldra við Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, en ein af hennar sérgreinum eru „deadpan“ nautheimskir kallar og svoleiðis smellpassar fyrir dyravörðinn drukkna. Frábært atriði.
Einnig verður (enn og aftur) að hrósa Hilmi Snæ, sem dregur upp mjög sannfærandi og stælalausa mynd af Bankó.
Ég botnaði ekkert í hvað nornirnar áttu að fyrirstilla, hverjar þær voru og á hvað þær trúa. Reyndar skautar sýningin að mér fannst framhjá því að taka afstöðu til hins yfirnáttúrulega, sem er svo sem ekki óalgengt á okkar raunsæistímum. Ég fæ ekkert vit í þá hugmynd að láta sama leikara túlka Macduff og eina nornanna. Atli Rafn er sem fyrr fínn í kjól og gerði þetta allt vel, en á móti var þetta nú ekki hermannlegasti Macduff sem sést hefur. Og talandi um gjörvileika: af hverju var hinn íturvaxni og fullorðni Malcom ekki með í stríðinu? Eða réttara sagt: af hverju var svona íturvaxinn og vel fullorðinn leikari látinn fara með það hlutverk (Jóhannes Haukur)? Það fannst mér skrítið.
Rautt, svart og beige
Stóru frumöflin í heimi verksins eru myrkur og blóð. Hér er nóg af blóði. Mér fannst það snilldarlega notað. Í lokaatriði sýningarinnar gengur grunnhugmyndin loksins alveg upp, þessi Bubba-kóngs-nálgun. Áhrifarík martröð.
Hér er hinsvegar ekkert myrkur. Þvert á móti. Ljósi viðarlitaði kassinn er meira og minna flóðlýstur. Það getur enginn falið sig eða ætlanir sínar. Aftur skýr hugsun, aftur löngun til að forðast hið augljósa. Og aftur nást talsverð áhrif. En það kostar talsvert á tilfinningasviðinu. Verst er þó hvað kassinn býr til mikinn glymjanda – það er afar óheppilegt að heyra ekki almennilega hvað verið er að segja í þessu leikriti orðsins. Ný þýðing og allt.
Þórarinn Eldjárn er auðvitað maðurinn til að þýða Shakespeare, fyrst mönnum hugnast að gera nýjar þýðingar. Orðsnjall með afbrigðum, þaulkunnugur reglum og möguleikum bundins máls. Fyrst og fremst samt skáld gott. Alvöru samanburður á Meðferð Þórarins, Helga, Matthíasar og Sverris verður ekki gerður hér. En þetta hljómaði allt snjallt og sannfærandi við fyrstu hlustun með fyrirvara um fyrrnefndan glymjanda.
Notkun á sjónvarpsskjá var áhrifarík. Gott dæmi um það sem mér sýnist vera helsti styrkur leikstjórans – líkt og kassinn sem ekið var um sviðið í Lé . Einfaldar lausnir með bæði merkingu og praktískt notagildi til að segja söguna og magna upp áhrifin.
Gott leikrit
Af þessum tveimur sýningum að dæma liggur áhersla Benedict Andrews fyrst og fremst í að miðla sterkri upplifun. Að beita hugmyndaauðgi sinni og yfirburðavaldi á meðulum og möguleikum leiksviðsins til að hreyfa við áhorfandanum. Þetta heppnast honum, svo langt sem það nær. En þeir þættir sem honum virðist síður umhugað um verða dálítið útundan; sálfræðileg dýpt í persónutúlkun, að skapa skýran og sjálfum sér samkvæman heim út frá forsendum leikritsins, að kortleggja ferðalög höfuðpersóna á áhugaverðan og sannfærandi hátt. Fyrir mig eru þessar sýningar meira fyrir vitsmunina en hjartað.
Þetta er langt frá því að vera dauðadómur yfir sýningum hans. Þær njóta styrkleika sinna og hrífa mann með sér á sterkustu stöðunum. Það er líka umhugsunarvert hvað verkin að baki sýninganna standast þó vel þetta „hirðuleysi“ um mikilvæga þætti. Lér þó sérstaklega. Macbeth fer verr út úr þessu, en engu að síður get ég alls ekki upplifað að Andrews hafi unnið nein spjöll á verkinu, eða notað það sem tæki til að þjóna listrænum duttlungum sínum, sem er tilfinning sem framúrstefnulegir leikstjórar skilja stundum eftir sig hjá mér.
Ég fór í Þjóðleikhúsið og sá Macbeth. Sýningin lukkaðist ekki fullkomlega, en leyndi því hins vegar ekki á nokkurn hátt að Macbeth er mikið snilldarverk. Það er enn blóð í þeim gamla. Þannig ætti sýningin að gleðja (og stuða) bæði þá sem vilja sinn Shakespeare ótruflaðan af uppátækjum túlkenda, og hina sem eru búnir að bíða af sér hverja gamaldags hefðaruppfærsluna af annarri.
Þýðandi: Þórarinn Eldjárn
Leikstjóri: Benedict Andrews
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Oren Ambarchi
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Leikendur
Agla Bríet Gísladóttir, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ágúst Örn Bergesson Wigum, Ásgeir Sigurðsson Björn Thors, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hilmir Jensson, Hilmir Snær Guðnason, Hringur Ingvarsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Saga Garðarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Stefán Árni Gylfason, Vera Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.
Þjóðleikhúsið 16. janúar 2013 [birtist fyrst í Spássíunni]
Blóð í þeim gamla enn
Hefð og uppreisn
Það þarf kjark til að setja upp Shakespeareleikrit á Íslandi. Og til að skrifa gagnrýni um uppsetningar á Shakespeare ekki síður. Það er um þau sem ritdeilurnar verða. Kannski er Shakespeare þjóðleikskáldið okkar. Þó kemur orðið „Ísland“ bara einu sinni fyrir hjá honum, og þá sem skammaryrði – manni er líkt við íslenskan fjárhund.
En samt æsum við okkur yfir honum.
Samt skrifa sumir um sýningar á verkum hans, sem þykja framúrstefnulegar, að þær séu kærkomin tilbreyting frá hefðinni. Eins og við höfum „hefð“ í meðferð og túlkun á Shakespeare. Sennilega gerir ekkert mig eins pirraðan í íslenskri leikhúsumfjöllun og einmitt þetta vanhugsaða og sjálfvirka bull.
Sjálfur hef ég séð fimm sviðsuppfærslur á Macbeth. Engri þeirra væri rétt lýst sem „hefðbundinni“. Um þá hefðbundnustu (Royal Shakespeare Company 1996) var sagt að leikmyndin væri eins og hún hefði verið keypt í IKEA. Að auki hef ég séð nokkrar kvikmyndaðar. Flestar þeirra aldeilis frumlegar. Ég er miðaldra. Um hvað er fólk að tala?
Heimsfrægur útlendingur
Benedict Andrews fellur skemmtilega inn í þessa mynd fyrir mig. Hann er alþjóðlegt „nafn“ í leiklistarheiminum og er núna búinn að koma tvisvar og setja upp höfuðverk Shakespeares í Þjóðleikhúsinu okkar. Svoleiðis nokkuð hefur aldrei gerst áður. Ég geri fastlega ráð fyrir því að báðar hafi sýningarnar glatt það skrítna fólk sem er orðið þreytt á of mikilli hefðarfestu í meðferð okkar fólks á Shakespeare. Mig (sem er pínu íhaldskurfur hvað þetta varðar, en meðvitaður um það) hafa þær kætt og stuðað talsvert. Lér konungur þó meira samt.
Ég ætlaði alltaf að skrifa langhund á bloggið mitt um Lé Þjóðleikhússins, en gerði það aldrei. Vona að lesendur fyrirgefi þó hann fái smá pláss hér.
Andrews er ákaflega flinkur sviðsetjari. Í sýningunum eru möguleikar sviðsins og viðkomandi leikmyndar hugvitsamlega nýttir til að ná fram sterkum áhrifum og segja skýra sögu. Það er líka augljóst að leikstjórinn kann að framkalla sannfærandi og áhrifaríkan leik hjá flinkum leikurum. Það var reyndar talsvert meira áberandi í Lé, enda mun fleiri bitastæð hlutverk í því verki. Stærsti gallinn við Lé-sýninguna var túlkun konungsins, eða kannski öllu heldur túlkun stöðu hans í heimi verksins, en það var sem betur fer með nógu mörgu öðru að fylgjast.
Hvað er nú hlaupið í þann gamla?
Upphafssena Lés konungs er að mínu mati einhver sú snilldarlegasta í höfundarverki Shakespeares. Hún er margræð, mótsagnarkennd og opin fyrir ótal túlkunum. Þar fáum við að vita hvernig konungur Lér var, og er gefin einhver skýring á eða rökvísi í þeim brjálæðislegu og afdrifaríku ákvörðunum sem hann tekur. Er hann orðinn seníll, eða geðveikur, er hann harðstjóri, er hann heimilisharðstjóri, eða kannski bara skaphundur sem missir sig? Hver er síðan afstaða hirðarinnar til þeirra fádæma sem konungurinn býður upp á?
Í túlkun Arnars Jónssonar (og Andrews) fékk ég engin svör við þessum spurningum. Það var svolítið eins og það kæmi málinu ekki við. Sérstaklega var vont að sjá ekki hirðina fyrir heldur svipbrigðalausum blöðrunum sem fylltu sviðið, eins flott og sú hugmynd var annars, svona á vitsmunaplaninu.
Afdrifaríkasta afleiðing þessa var að gera ferðalag Lés mér einkennilega fjarlægt og óviðkomandi. Og forvitnilegt var hvað sýningin lifði vel af þessa grundvallarveilu. Kemur þar til bæði hvað Arnar skilaði þessu vel, þrátt fyrir þetta skrítna afstöðuleysi í upphafi, og hvað margt annað áhugavert fólk og atburðir fylla heim verksins.
Í Macbeth er það aftur lögn aðalpersónunnar sem ég á erfiðast með að kyngja.
Hér hefur það líka mun verri afleiðingar. Í Macbeth er kastljósið mun þrengra, næstum eingöngu á heim hjónum. Hvað þau gera, hvernig þau tala sig upp í það, og þó einkum hvaða afleiðingar það hefur fyrir þau. Aðallega hann. Í tilfelli Macbeths er kastljósið nefnilega röntgengeisli, við sjáum hug hans allan í gegnum hinn makalausa skáldskap.
En hér vantaði eitthvað. Eins og hjá Lé þótti mér það vera ferðalagið og samhengið sem Macbeth vinnur ódæði sín í sem skorti.
Killing machine
Það hjálpar ekki Birni Thors að vera búinn að lýsa fautum og heimskingjum svona snilldarlega undanfarin ár. Það er samt ekki bara þeirra vegna sem Macbeth hans birtist sem heimskur fauti. Það er greinilega meiningin. Þessi Macbeth er hugsunarlaus vígvél, túlkun sem gengur í sjálfu sér alveg upp á yfirborðinu. En hún gerir ferðalag Macbeths bara svo óáhugavert. Samviskukvalirnar svo ótrúverðugar.
Fyrir nú utan að það verður óskiljanlegt að þessi maður hafi verið gerður að konungi.
Það er nefnilega alveg skýrt að það er ekki sjálfvirk erfðaröð í heimi verksins. Ef hann er konungur „af drottins náð“ þá myndi hann heldur ekki hafa svona þungar áhyggjur af því að upp um hann komist. En verkið er um þessar áhyggjur, og samviskuskelfinguna sem allt í einu grípur þennan sjóaða hermann sem er vanur að vaða blóð í hné, þegar hann drepur ekki bara mann, heldur fremur morð. Eins ágætlega og Björn Thors skilaði hlutverkinu í sinni túlkun, þá bara trúði ég ekki á skelfingu þessa manns. Keypti ekki sjálfsrýnina. Og var þess vegna nokk sama um hann.
Lafðin kemur miklu betur út úr þessari nálgun. Hennar hlutverk er enda nánast algerlega byggt upp af stórum „aríum“: eintölum og ræðum. Við fáum ekki að fylgjast með hennar ferð niður í hyldýpið, fáum þess í stað svona „fyrir-og-eftir“ svipmyndir sem eru með því glæstara sem höfundurinn skrifaði. Frábærlega skilað hér af Margréti Vilhjálmsdóttur.
Af öðrum leikurum er vert að staldra við Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, en ein af hennar sérgreinum eru „deadpan“ nautheimskir kallar og svoleiðis smellpassar fyrir dyravörðinn drukkna. Frábært atriði.
Einnig verður (enn og aftur) að hrósa Hilmi Snæ, sem dregur upp mjög sannfærandi og stælalausa mynd af Bankó.
Ég botnaði ekkert í hvað nornirnar áttu að fyrirstilla, hverjar þær voru og á hvað þær trúa. Reyndar skautar sýningin að mér fannst framhjá því að taka afstöðu til hins yfirnáttúrulega, sem er svo sem ekki óalgengt á okkar raunsæistímum. Ég fæ ekkert vit í þá hugmynd að láta sama leikara túlka Macduff og eina nornanna. Atli Rafn er sem fyrr fínn í kjól og gerði þetta allt vel, en á móti var þetta nú ekki hermannlegasti Macduff sem sést hefur. Og talandi um gjörvileika: af hverju var hinn íturvaxni og fullorðni Malcom ekki með í stríðinu? Eða réttara sagt: af hverju var svona íturvaxinn og vel fullorðinn leikari látinn fara með það hlutverk (Jóhannes Haukur)? Það fannst mér skrítið.
Rautt, svart og beige
Stóru frumöflin í heimi verksins eru myrkur og blóð. Hér er nóg af blóði. Mér fannst það snilldarlega notað. Í lokaatriði sýningarinnar gengur grunnhugmyndin loksins alveg upp, þessi Bubba-kóngs-nálgun. Áhrifarík martröð.
Hér er hinsvegar ekkert myrkur. Þvert á móti. Ljósi viðarlitaði kassinn er meira og minna flóðlýstur. Það getur enginn falið sig eða ætlanir sínar. Aftur skýr hugsun, aftur löngun til að forðast hið augljósa. Og aftur nást talsverð áhrif. En það kostar talsvert á tilfinningasviðinu. Verst er þó hvað kassinn býr til mikinn glymjanda – það er afar óheppilegt að heyra ekki almennilega hvað verið er að segja í þessu leikriti orðsins. Ný þýðing og allt.
Þórarinn Eldjárn er auðvitað maðurinn til að þýða Shakespeare, fyrst mönnum hugnast að gera nýjar þýðingar. Orðsnjall með afbrigðum, þaulkunnugur reglum og möguleikum bundins máls. Fyrst og fremst samt skáld gott. Alvöru samanburður á Meðferð Þórarins, Helga, Matthíasar og Sverris verður ekki gerður hér. En þetta hljómaði allt snjallt og sannfærandi við fyrstu hlustun með fyrirvara um fyrrnefndan glymjanda.
Notkun á sjónvarpsskjá var áhrifarík. Gott dæmi um það sem mér sýnist vera helsti styrkur leikstjórans – líkt og kassinn sem ekið var um sviðið í Lé . Einfaldar lausnir með bæði merkingu og praktískt notagildi til að segja söguna og magna upp áhrifin.
Gott leikrit
Af þessum tveimur sýningum að dæma liggur áhersla Benedict Andrews fyrst og fremst í að miðla sterkri upplifun. Að beita hugmyndaauðgi sinni og yfirburðavaldi á meðulum og möguleikum leiksviðsins til að hreyfa við áhorfandanum. Þetta heppnast honum, svo langt sem það nær. En þeir þættir sem honum virðist síður umhugað um verða dálítið útundan; sálfræðileg dýpt í persónutúlkun, að skapa skýran og sjálfum sér samkvæman heim út frá forsendum leikritsins, að kortleggja ferðalög höfuðpersóna á áhugaverðan og sannfærandi hátt. Fyrir mig eru þessar sýningar meira fyrir vitsmunina en hjartað.
Þetta er langt frá því að vera dauðadómur yfir sýningum hans. Þær njóta styrkleika sinna og hrífa mann með sér á sterkustu stöðunum. Það er líka umhugsunarvert hvað verkin að baki sýninganna standast þó vel þetta „hirðuleysi“ um mikilvæga þætti. Lér þó sérstaklega. Macbeth fer verr út úr þessu, en engu að síður get ég alls ekki upplifað að Andrews hafi unnið nein spjöll á verkinu, eða notað það sem tæki til að þjóna listrænum duttlungum sínum, sem er tilfinning sem framúrstefnulegir leikstjórar skilja stundum eftir sig hjá mér.
Ég fór í Þjóðleikhúsið og sá Macbeth. Sýningin lukkaðist ekki fullkomlega, en leyndi því hins vegar ekki á nokkurn hátt að Macbeth er mikið snilldarverk. Það er enn blóð í þeim gamla. Þannig ætti sýningin að gleðja (og stuða) bæði þá sem vilja sinn Shakespeare ótruflaðan af uppátækjum túlkenda, og hina sem eru búnir að bíða af sér hverja gamaldags hefðaruppfærsluna af annarri.
<< Home