sunnudagur, maí 29, 2011

Góði dátinn Svejk

Freyvangsleikhúsið í Þjóðleikhúsinu – Áhugaleiksýning ársins 2011
Höfundur: Colin Teevan eftir sögu Jaroslav Hašek
Þýðendur: Guðjón Ólafsson og Emilía Baldursdóttir (söngtextar)
Tónlist: Hermann Ingi Arason
Leikmynd: Karl Blöndal
Búningar: Beate Stormo
Lýsing: Benedikt Axelsson
Leikstjóri: Þór Tulinius

Skemmtiferð á vígvöllinn



Ég á bágt með að trúa því að nokkur sem var búinn að sjá sýningu Freyvangsleikhússins á Góða dátanum Svejk hafi efast um að þau yrðu fyrir valinu sem Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins þetta árið. Það er ekki oft sem maður sér viðamikla sýningu af þessu tagi heppnast svona gjörsamlega á öllum póstum.

Hún er kraftmikil og geislandi af leikgleði. Hún er nákvæmlega og nostursamlega unnin og mikil rækt hefur verið lögð við smáatriði í leik, umgjörð, búningum og leikmunum. Leikurinn er án merkilegra veikra punkta og rís í eftirtektarverðar hæðir þar sem mest á reynir. Svejk er einhver flottasta leiksýning sem ég hef séð í nokkur ár.

Leikgerðin sem lögð er sýningunni til grundvallar er frábært verk í sjálfu sér, og skólabókardæmi um hvernig gott er að nálgast bækur af þessari stærðargráðu á leiksviði. Colin Teevan sækir vissulega megnið af atburðarásinni og persónunum til Hašeks en tekur tvær grundvallarákvarðanir sem móta verk hans og gerir að sjálfstæðu listaverki. Hann dregur skýrt fram fáránlegt andrúmsloft og ógnir styrjaldarinnar sem hjá Hašek hverfa óneitanlega nokkuð í skuggann af óborganlegri aðalpersónunni. Og hann gerir samband Svejks og Lúkasar að þungamiðju verksins, þannig að jafnvel er hægt að tala um verkið sem þroskasögu Lúkasar. Í síðasta fjórðungi verksins, eða svo víkur Teevan nokkuð rækilega frá sögunni og uppsker tilfinningalega dýpt og samfélagslegt erindi sem verður auðvitað enn skýrara af því ljósi sem hið heilaga fífl Svejk varpar á allt með óumbreytanlegri (og óneitanlega ódramatískri) heiðríkju sinni.

Þó svo að leikmynd Þórarins Blöndal sé frábær bæði í formi og áferð, búningar Beate Stormo flottir og lýsing Benedikts Axelssonar þénug þá er Svejk fyrst og síðast sýning leikaranna. Hugkvæmnin í notkun hópsins til að búa til þennan heim er næsta takmarkalaus og fjölmargar smámyndir af fólki, dýrum og dauðum hlutum verða eftirminnilegar. Og hvar sem persónur leikgerðarinnar kalla á þrívíða sköpun hjá leikurunum þá svara þeir kallinu með glæsibrag. Framúrskarandi vinna Þórs Tuliniusar skilaði sér svo sannarlega.

Ingólfur Þórsson er Lúkas höfuðsmaður (ég er enn of fastur í Karli Ísfeld og Gísla Halldórssyni til að geta kallað hann Lautinant Lúkas eins og Guðjón Ólafsson gerir í kraftmikilli og skemmtilegri þýðingu sinni). Hlutverkið er eins og sniðið fyrir þennan vörpulega leikara og Ingólfur er alveg mergjaður, bæði í hermannlegu sjálfsöryggi sínu í byrjun og öryggisleysi þegar heimur hans fer að molna undan stríðsgeggjuninni og kostulegum uppátækjum Svejks.

Og Brynjar Gauti Schiöth er Svejk. Sýningin stendur og fellur með honum og hann bregst ekki heldur vinnur glæsilegan sigur – algerlega innlifaður og sannfærandi allan tímann. Það er ekki hægt að leika Svejk á tækninni, ekki hægt að fara á kostum eða leika með utanáliggjandi bravúr. Það þarf allt að koma innanfrá og skína í gegnum brosið án sýnilegrar áreynslu. Án innistæðu verður deyfðin ein eftir. En Brynjar skein alla leið upp á svalir og fangaði auga og huga hvað sem á gekk.

Það fór vel um sýninguna á Stóra sviði Þjóðleikhússins, enda Freyvængir orðnir nokkuð heimavanir þar eftir að hafa nú sigrað keppnina í fjórða sinn. Ég átti ekki í nokkrum vandræðum með að heyra í þeim upp á svalir, nema hvað söngtextar bárust ekki sérlega vel í gegnum undirleikinn. Tónlist Hermanns Inga Arasonar var flott og með viðeigandi miðevrópskum blæ sem smekklegar útsetningar og hljóðfæraskipan undirstrikaði fallega.

Það var stoltur Bandalagsformaður sem gekk út úr Þjóðleikhúsinu um ellefuleytið í gærkvöldi, búinn að hlæja og tárast og dást að vel unnu verki. Takk fyrir mig Freyvængir, Þór, hr. Teevan og gamli Jaroslav.