fimmtudagur, mars 29, 2007

ímyndunarveikin eða þögn Moliéres

Gestaleikur CDDB – Théatre de Lorient, Centre Dramatique National de Savoie, Compagnie 41751/Arthur Nauzyciel. Byggt á Ímyndunarveikinni eftir Moliére og Þögn Moliéres eftir Giovanni Macchia. Leikstjórn og leikgerð: Arthur Nauzyciel, þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson, leikmynd: Claude Chestier, búningar: Claude Chestier og Pascale Robin, lýsing: Marie-Christine Soma, hljóð: Xavier Jacquot, tónlist: Jean Chrirstophe Marti, skjátextar: Lárus Sigurbjörnsson og Tómas Guðmundsson. Leikendur: Arthur Nauczyciel, Brynhildur Guðjónsdóttir, Emile Nauczyciel, Gilles Blanchard, Isabelle Hurtin, Jean Pilippe Vidal, Mickaël Duglue, Nanou Garcia, Pierre Gerard og Stephanie Schwartzbrod. Þjóðleikhúsið 29. mars 2007.

Ekki hlæja! 


„EKKI hlæja!“ Þannig segir ein þjóðsagan að Moliére hafi komist að orði þegar hann hneig niður á sviðinu í hlutverki hins ímyndunarveika Argans, og urðu hans lokaorð á leiksviði (ekki í lífinu, því hann dó ekki samstundis, þó sagan væri vissulega betri þannig). Auðvitað var skáldinu og leikaranum ekki hlátur í hug á þessari stundu, en af orðum hans má líka draga þá ályktun að hann gerði ráð fyrir hlátri. Sem vonlegt er, því jafnvel enn í dag er Ímyndunarveikin stórhlægilegt verk um hroka, blindu, þráhyggju og möguleika óprúttinna manna til að hagnýta sér þessa veikleika. Kannski er það ekki síst fyrsta grínleikritið sem gerir markaðssetningu að aðhlátursefni, og ekki vanþörf á enn þann dag í dag.

En hr. Nauzyciel sér þetta ekki svona. Ég er ekki einu sinni viss um að hann líti á verkið sem gamanleikrit. Allavega var sá hluti sýningarinnar sem er byggður á Ímyndunarveikinni nánast alveg gersneyddur þeim léttleika og skopfærslu sem best þjónar stíl höfundar. Reyndar er hann að mestu leyti laus við flest það sem talið er leiksýningum til tekna: áhugaverðri og snjallri sýn á viðfangsefnið, skýrri og lifandi persónusköpun, útgeislun og leikgleði flytjenda. Nú er hr. Nauzyciel víst dáður leikstjóri sem allskyns nafntogað fólk vill vinna með, þar á meðal forráðamenn Þjóðleikhússins sem hafa tryggt sér starfskrafta hans á næsta leikári. En ef þetta væri ekki allt skjalfest myndi mér þykja einna nærtækast að lýsa stíl sýningarinnar sem kunnáttu- og hæfileikaleysi sem breitt hefði verið yfir með tilgerð og þokukenndri hugsun sem ef heppnin er með getur virkað djúp í krafti torræðni sinnar. Kannski ekki ósvipað aðferðum þeim sem læknamafían í verkinu beitir til að tryggja völd sín og afkomu. Var það kannski konseptið?

Til viðbótar við tvo stóra búta úr verki Moliéres er í sýningunni langt eintal sem lagt er í munn dóttur skáldsins. Það flutti Brynhildur Guðjónsdóttir, og voru fingraför leikstjórans líka greinileg þar. Textinn var stirður og bókmálslegur, hvort sem þar er að sakast við höfundinn eða þýðandann og var skilað með svipaðri flatneskju og hinir litríku karakterar Moliéres voru ofurseldir. Textaflutningur frekar en lifandi leiklist.

Nánast eina atriðið sem hafði einhvern þokka í sýningunni var síðan samleikur Brynhildar og Jean Philippe Vidal í litlu atriði úr Ímyndunarveikinni, þar sem blæbrigðaskorturinn og einfaldleikinn var í eðlilegu samhengi við innihaldið.

Að öðru leyti er lítið merkilegt um leikarana að segja, annað en það hlýtur að útheimta talsverðan myndugleika að fá þroskaða leikara með virðingu fyrir list sinni til að gefa jafn lítið af sér, fyrir utan einstaka stökk inn í groddalegan og bernskan skopstíl sem var fyrst og fremst vandræðalegur.

Leikmyndin var flott og buðu tjöldin á brautum í loftinu upp á margvíslega möguleika sem vitanlega voru illa og stefnulaust nýttir.

Að mínu viti er alveg leyfilegt að nota klassísk verk til að koma sinni eigin hugsun á framfæri. Það má snúa upp á þau á alla enda og kanta mín vegna, skopast að þeim og snúa merkingu þeirra á haus. Það er hinsvegar alveg allt að því bannað að vera leiðinlegur. Ég tala nú ekki um þegar efniviðurinn sjálfur er jafn skemmtilegur og Ímyndunarveikin. Moliére var nefnilega ekki að biðja okkur að hlæja ekki að verkinu.