þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Einn voða ástsæll


20. feb 2007


Þórhallur Sigurðsson, Laddi, heldur upp á sextugsafmæli sitt á viðeigandi hátt í Borgarleikhúsinu um þessar mundir; með yfirlitssýningu frá sínum einstaka grínferli.

Laddi er auðvitað þjóðargersemi og stemningin var þannig á frumsýningunni á Laddi 6-tugur. Þangað voru gestir komnir til að hylla hann og samfagna honum. Það að hann næði að kitla hláturtaugarnar einu sinni enn var nánast eins og aukageta. Svona sýning er nánast óhjákvæmilega byggð upp af eldra efni (þó undirritaður hafi reyndar ekki nægilega yfirsýn yfir smáatriði í ferli Ladda til að fullyrða um það), og grín er yfirleitt ekki ýkja fjölnota. En auðvitað var líka hlegið, og það nánast uppstyttulaust. Enda er maðurinn meistari.

Fyrst og fremst er hann auðvitað meistari persónusköpunar enda voru þau öll mætt, Elsa Lund, Marteinn Mosdal, Hallgrímur ormur, Denni, Þórður húsvörður, Stefán á Útistöðum, Saxi læknir, séra Svavar og meistarastykkið Eiríkur Fjalar. Það er umhugsunarefni að Laddi virðist ekki eiga sér neinn augljósan arftaka í þessu formi, þó grínframleiðsla standi í sjaldgæfum blóma nú um stundir. Sigurður Sigurjónsson er svo til eini maðurinn sem hefur viðlíka tök á persónusmíðinni. Vonandi hverfur þessi list samt ekki alveg úr flórunni þegar þeir tveir draga sig í hlé. Þetta er nefnilega mikil og skemmtileg kúnst og gefur þegar best lætur ýkta og eftirminnilega mynd af persónueinkennum sem allir kannast við, ef ekki hjá sjálfum sér þá örugglega í samferðamönnum sínum.

Það sést best í síðari hluta dagskrárinnar þegar Laddi birtist loksins „sem hann sjálfur“, með hefðbundið en vel útfært uppistand. Þá gerist það í tvígang að hann bregður sér í annað hlutverk fyrir framan áhorfendur og sú umbreyting er mögnuð. Ég get svarið það að hann bætti á sig tíu kílóum af vöðvamassa á fimm sekúndum sléttum, við það að taka á sig mynd Bubba Morthens.

Samverkamenn hans í sýningunni skila sínu líka vel. Steinn Ármann er verulega flinkur „straight man“, gaman er að sjá Halla aftur og tveggja manna sena með Ladda og Eggerti Þorleifssyni er eins og nærri má geta ekkert slor.

Þetta er sem sagt ansi hreint skemmtilegt. Og fyrir utan það hvað Laddi er frábær þá vakti kabarettformið spurninguna: hvers vegna er ekki meira af svona sýningum? Laustengdum og einföldum með stuttum leikatriðum, tónlist og öðru gríni? Mætti meira að segja gjarnan innihalda ádeilubrodda. Þetta er vitaskuld mun handhægara og sveigjanlegra form til að taka á samtímanum en þungskreiðar leiksýningar sem taka óratíma í vinnslu og leikrit í hefðbundnum stíl sem lítill vegur er að breyta til að bregðast við viðburðum. Ég sá því miður ekki „Best í heimi“ en af lýsingum að dæma var það sýning af skyldum toga og vel heppnuð sem slík. En það ætti að vera regla fremur en undantekning að kabarett sé á fjölunum í borginni.

Auglýsi hér með eftir því að einhverjir framtakssamir leikhúsfrömuðir kalli saman svona hóp og við fáum sprellfjörugan kabarett um ástandið í þjóðarsálinni á vordögum. Þangað til er um að gera að heimsækja Borgarleikhúsið og samfagna Ladda 6-tugum. Takk fyrir mig.