sunnudagur, janúar 14, 2007

The Power of Love

Brilljantín og Ismedia Höfundur, leikstjóri og leikari: Halldóra Malin Pétursdóttir. Austurbær 14. janúar 2007

Kella í helli 


THE Power of Love sver sig í ætt leiksýninga sem eðlilegast er að kenna við Hellisbúann. Eintöl þar sem karlar – og konur – útmála á skoplegan hátt afstöðu sína til hins kynsins. Þetta eru nokkurs konar varnarræður, verða stundum dálítið MORFÍS-legar, og á köflum ákaflega hvimleiðar.

The Power of Love er ekki hvimleið sýning. Hún er einlæg, nokkuð frumleg og skemmtileg úttekt á því hvernig það horfir við ungri konu að vera nánast ekki til nema eins og hún birtist körlunum sem hún vill (eða telur sig verða) að nálgast.

Sýningin samanstendur af laustengdum atriðum sem sameina dansleikhús, látbragð og trúð, stundum á nokkuð ómarkvissan hátt, stundum frábærlega, aldrei leiðinlega. Textinn er lítill sem enginn, en þegar persónan fær loks málið talar hún eingöngu í klisjulegum tilvitnunum í popptexta, og vekur þannig til umhugsunar um hvað grunnhyggni og sölumennska er nánast allsráðandi í umfjöllun um ástina, sem á hinn bóginn er sífellt mærð sem dýpsta og dýrmætasta kennd okkar.

Halldóra Malin hefur mikinn sviðssjarma og kann að nota hann. Hún var frá fyrsta andartaki í sambandi við salinn, þótt sýningin byrjaði á atriði þar sem tærnar á henni voru í aðalhlutverki. Líkamspartar léku reyndar stórt hlutverk sýninguna út í gegn, tær, fingur, augu, (óæskilegt) hár. Þetta var á köflum óborganlegt.

Sumt var að vonum klisjulegt. Tepruviðbrögð við myndum í kynlífskennslubók eru gömul saga. Margt af því var á móti útfært á frumlegan og skemmtilegan hátt í takt við tónlistina. Hin spennta bið við símann var dæmi um ferska nálgun á þreytt viðfangsefni. Og gaman hvernig hún nýtir hið trúðska augnaráð út í salinn, sem stöðugt biður um viðurkenningu. Því það á sér augljósa hliðstæðu í því hlutskipti kvenna að finnast þær knúnar til að uppfylla óorðuð og illa skilgreind viðmið til að vera gjaldgengar í augum okkar sem á þær glápum.

Mest var þó gaman að lokaatriðinu, þar sem persónan lokkar til sín mann á stefnumót. Þar tókst sýningin á flug, í líkingamáli sínu, í snjallri notkun á leikmunum og í krafti leikkonunnar. Þá var nú gaman.

Sýning af þessu tagi er í eðli sínu í stöðugri þróun, og það er ýmislegt sem mætti skerpa. Umgjörðin er tætingsleg, og þó svo það kunni að vera með vilja gert þá hjálpar það ekki erindi hennar. Meiri nákvæmni væri af hinu góða, svo lengi sem aginn gengur ekki af persónunni dauðri. Og svo má lengi skipta út atriðum fyrir önnur betri eftir því sem hugmyndirnar kvikna. Halldóra Malin er í þann veginn að halda í leiklistarhátíðavíking með sýninguna. Sjáið hana endilega áður en hún fer, og svo aftur þegar hún snýr heim