mánudagur, mars 30, 2020

Skattsvik Development Group

Óvelkomnir í betri stofuna

Breski grínistinn David Mitchell, sem er frægur fyrir sína reiðu rökvísi, benti einu sinni á að meðan skattaundanskot væru möguleg mætti líta á alla skattheimtu sem skatt á heiðarleika: skatthlutfallið ræðst af því hversu hreint þér finnst rétt að koma fram við yfirvöld. Sýningin Skattsvik Development Group undir merkjum tilraunaverkefnisins Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu leiðir hins vegar í ljós að óheiðarleiki er ekki nóg til að koma peningum undan.

Það fer vel á því hjá Ást og karókí að sýna á þessum vettvangi, því form sýningarinnar er nokkurskonar skýrsla um tilraun: Getur íslenskur leikhópur skotið þóknun sinni undan skatti með „hefðbundinni“ skattaskjólsfléttu? Stutta svarið er: nei. Drengirnir komast nokkuð áleiðis með áform sín, enda reynist þroskaður þjónustuiðnaður þrífast víða um heim til að auðvelda slíka vafninga, en á endanum strandar allt á of þröngum fjárhag. Nýleg íþyngjandi löggjöf spilar þar líka inn í en þó er ljóst að þetta hefði gengið upp ef upphæðirnar hefðu verið hærri en sem nemur fimm mánaðarlaunum listamanna í nýgræðingaflokki. Enn sem komið er eru þeir Adolf Smári Unnarsson, Birnir Jón Sigurðsson, Friðrik Margrétar- Guðmundsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon óvelkomnir í koníaksstofu þeirra sem eiga það einungis við eigin heiðarleika hvað þeir greiða til samfélagsins. Samkvæmt upplýsingum frá einum ráðgjafa þeirra félaga eru um 70% allra peninga heimsins í skattaskjólum. Það er sú tala sem endurómar í höfði áhorfenda þegar þeir ganga út úr Borgarleikhúsinu eftir skýrsluna. Trúlega dramatískur hápunktur sýningarinnar.

Þó að Ást og karókí hafi ráðist í þennan skítlega leiðangur er heiðarleiki grunntónn sýningarinnar. Þannig gangast þeir fúslega við því að það sem þeir bjóða upp á muni minna á efnistök annars íslensks ólíkindaleikhóps: Kriðpleirs. Það eru orð að sönnu, og natúralískur vandræðagangshúmorinn liggur vel fyrir Á&K-mönnum. Það birtist strax í upphafi þar sem þeir kynna sig hver og einn til sögunnar og afhjúpa sig sem – eðlilega – allnokkuð fákunnandi í þeirri list að svikja undan skatti. Og svo – sem er öllu verra – reynast fæstir þeirra bera skynbragð á strangheiðarlega skattaskýrslu. Hápunkti nær þetta gaman þegar þeir glíma við það snúna verkefni að koma bréfi í hraðpóst, og endist varla vinnudagur til þess.

Að því ævintýri undanskildu er sýningin í sjálfu sér ekki sérstök skemmtun, og ætlar greinilega ekkert endilega að vera það. Síðasti hluti hennar, vídeóspjallið við úrræðagóða ráðgjafann með upplýsingarnar um hvar 7/10 af auðæfum heimsins eru niðurkomin, er til dæmis ansi dauflegt sem leikhús. Það er ekki heiglum hent að skilja hvað maðurinn er að leggja til, og það er ekki eins fyndið hvað félagarnir botna lítið í því þegar áhorfandinn er jafn litlu nær.

Engu að síður: Allir þessir ósýnilegu peningar. Allt þetta fólk sem vinnur við að koma fé hinna ríku undan. Allar þessar girðingar sem stöðva bara meðaljóninn. Og þessi tæpi þriðjungur fjármuna heimsins sem stendur undir samneyslunni og allir njóta. Líka þeir sem eiga rest. Það er alveg kvöldstundar virði að láta minna sig á þetta.

fimmtudagur, mars 19, 2020

9 líf

Leiktexti og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Tónlist og söngtextar: Bubbi Morthens. Útsetningar og tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Danshöfundur: Lee Proud. Dramatúrg: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Myndband: Elmar Þórarinsson og Andri Björn Birgisson. Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir. Raddþjálfun: Kristjana Stefánsdóttir. Kórstjórn: Sigríður Soffía Hafliðadóttir. Kórar söngskólans Domus Vox, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora. Skólastjóri Margrét Pálmadóttir. Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Þorvaldur Þorvaldsson og Örn Eldjárn. Leikendur: Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talía Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Rakel Björk Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Baldur Björn Arnarsson, Gabríel Máni Kristjánsson og Hlynur Atli Harðarson. Dansarar: Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 13. mars 2020.

Lítill drengur gleymdi sér

Þetta hefði svo auðveldlega getað farið illa. Þetta hljómaði eins og ansi hæpin hugmynd þegar hún var kynnt: að búa til söngleik byggðan á ævi og tónlist Bubba Morthens. Í fyrsta lagi: er eitthvað ósagt um þann mann? Eitthvað sem við vitum ekki frá fyrstu hendi um þennan óstöðvandi sagna- og tjáningarmann sem hefur staðið í forgrunni á þjóðarsviðinu síðan áður en við af miðaldrakynslóðinni fermdumst? Og annað: verður þetta ekki bara tákrullandi stórhittarasjó með mishæpnum afsökunum fyrir því að flytja helstu smelli? Og talandi um þá: hver á eiginlega að syngja þessi lög svo eitthvert bragð verði að sem jafnast á við eða minnir allavega á meistarann sjálfan?

En þetta fer allt vel. Oftast á algerlega óvæntan og og stundum mótsagnarkenndan hátt. Eitt er nú að auðvitað er það ekkert endilega verkefni leikhússins að segja okkur einhver ný tíðindi. Heldur einmitt að minna okkur á, spegla og kryfja það sem við þegar vitum. Þannig verða alþekktir áfangar í lífi stjörnunnar, sigrar og skipbrot í bland við skondnar atvikssögur, tilefni til upprifjunar og endurmats í nýju samhengi.
Frumsýningarsalurinn rifnaði til dæmis þegar barnungum Ásbirni var sett fyrir að skrifa orðið „bomba“ á skólatöfluna, vitandi fullvel hvernig það myndi fara. Og já, auðvitað eru stórsmellirnir eins og vörður á leiðinni. Vitaskuld hefði aldrei komið til greina að sniðganga Ísbjarnarblús, Hiroshima, Afgan, Rómeó og Júlíu eða Blindsker. En samhengið er alltaf rétt og stundum óvænt. Og notkun á minna þekktum lögum oft brilljant: að grafa upp hið sniðuga og lúmskt sjálfshæðna Ég hata þetta bít til að fylgja útúrkókuðum Bubba á veiðilendur Safari þegar fyrstu endalokin nálgast. Eða teikna sögusvið upphafsins með hinni stórkostlegu og sjaldheyrðu Dauðakynslóð Egósins.

Eftir á að hyggja var líka ástæðulaust að hafa áhyggjur af handritsgerðinni. Afrek Ólafs Egils Egilssonar í Elly sýndi okkur að þetta gerir hann öllum betur: að fella saman framvindu og fyrirframgefna tónlist þannig að hvort styðji, spegli, dýpki og ögri hinu. Og varðandi þetta með að fylla fótspor mannsins: auðvitað er það ekkert hægt. En það þarf heldur ekkert. Að deila verkefninu, persónunni, í marga hluta, lauslega eftir tímabilum og enn lauslegar eftir eiginleikum og afstöðu er ein leið, og að henni valinni opnast ótal tæknilegir möguleikar sem hér eru þaulnýttir til að ýta undir þá tilfinningu að við séum að deila sögunni. Sögu sem við erum löngu farin að líta á sem sameign okkar hvort sem er. Þessi uppdeiling fríar sýninguna líka að mestu undan þeim eðlislæga vanda að það er ekki hægt að leika að maður hafi rokkstjörnuútgeislun.

Fyrir vikið gátu Bubbarnir einbeitt sér að því að lifa persónuna og búa í aðstæðum hennar, og leystu það öll framúrskarandi vel, frá dásamlegum litla-Bubba Hlyns Atla Harðarsonar til vígamóðs sátta-Bubba Vals Freys Einarssonar með viðkomu hjá ólgandi reiða-Bubba Rakelar Bjarkar Björnsdóttur, ómótstæðilega gúanó-Bubba Arons Más Ólafssonar, tryllta utangarðs-Bubba Björns Stefánssonar, kókdrifna egó-Bubba Halldóru Geirharðsdóttur, brotthætta edrú-Bubba Hjartar Jóhanns Jónssonar og gráthlægilega góðæris-Bubba Jóhanns Sigurðarsonar. Góðu heilli var ákveðið að láta ekkert þeirra herma eftir þessum næst-eftirhermdasta manni Íslandssögunnar, en áhugafólk um þá list fær engu að síður sitthvað fyrir snúð sinn: smámyndir af þjóðþekktu fólki birtast hér og þar, frá dýrðlegri Silju Aðalsteinsdóttur Estherar Talíu Casey til morðfyndins Þórarins Tyrfingssonar frá Jóhanni, en auk allra Bubbanna bregða þau sér öll í ýmis hlutverk í því sameiginlega verkefni að rekja þessa miklu sögu. Allt gengur þetta lipurlega og fallega fyrir sig. Eftirminnilegir hápunktar eru margir og fleiri rifjast upp eftir því sem lengra líður. Vert er að geta sérstaklega túlkunar Estherar Talíu á móðurinni Grethe. Flutningur hennar á Talað við gluggann eitt af mörgu í sýningunni sem grætti mann og gleymist seint.
Annars hvílir áhrifamáttur Níu lífa merkilega lítið á tilþrifum, hvað þá fullkomnun, í flutningi laganna. Enginn Bubbanna er þarna á þeim forsendum að vera söngleikjahetja eða rokkguð og þau nálgast tónlistina öll á sínum forsendum, syngja með sínu nefi. Það kemur aldrei að sök en gefur tóninn, ef svo mætti segja, um hverskonar sýning þetta vill vera. Og varpar stundum óvæntri birtu á eitthvað sem maður var hættur að heyra, eins og t.d. þegar Halldóra, einn næmasti textaleikari okkar, lætur mann hlusta á Fjöllin hafa vakað eins og í fyrsta sinn eftir öll þessi ár, og í dúett-útgáfunni af Rómeó og Júlíu í meðförum Arons og Rakelar. Eða þá uppbrotið með Stál og hníf, sem mann langar ekki að kjafta frá hvernig er.

Alla hina ólíku hljóðheima fangar stórfín hljómsveitin undir stjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Einna síst frumkraft Utangarðsmanna. Pönkið lætur illa að stjórn og þegar það er komið í bönd leikhússins er það ekki lengur það sjálft. Það myndi kannski hjálpa að hækka bara duglega í hljóðkerfinu. Það er ekki á hverjum degi sem ég bið um það.

Kóreógrafía Lee Proud þjónar sýningunni fullkomlega og styður hana í að verða aldrei einbert söngleikjasjó. Dansararnir þrír, Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð, gefa hárrétta orku í heildina og gegna mikilvægum smáhlutverkum hér og þar, og það sama má segja um stúlknakórinn. Ein af þessum hugmyndum sem maður skilur ekki alveg og getur ekki greint vitrænt, en virkar þegar maður mætir henni.

Umgjörðin vinnur vel í þágu þessarar miklu og margþættu sögu. Í glæsilegu afmælisljóði Hallgríms Helgasonar í leikskránni er Bubba líkt við fjall og þau eru nokkur hér hjá Ilmi Stefánsdóttur og reynast til ýmiss nýtileg. Allt flæðir fumlaust upp og niður hlíðarnar, hvort sem það er fiskvinna eða kassagerð, og þeim mun sterkari áhrifin þegar allt er skyndilega horfið af sviðinu og sögunni víkur að Staðarfelli. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar meistaraleg og mikilvæg. Búningar Filippíu I. Elísdóttur pottþéttir, og halda skemmtilega til skila íkonískum fötum á borð við frakkann með loðkraganum og GCD-skyrturnar. Að ógleymdum fölgulu sólgleraugunum.

Meira að segja fötin eru kafli í samtímasögunni. Partur af okkur. Og þegar maðurinn birtist sjálfur undir lok frumsýningarinnar, eftir að farginu hafði loks verið svipt af sálinni, og tók undir í lokasöngnum, var okkur auðvitað öllum lokið. Fullur salur af ást, virðingu, hugrekki og listfengi.

Þetta hefði getað farið illa en gerði það svo sannarlega ekki.

miðvikudagur, febrúar 26, 2020

Útsending

Eftir Lee Hall, byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson. Leikmynd: Egill Eðvarðsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tæknihönnun: Björn Helgason. Tónlist: Eðvarð Egilsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristján Sigmundur Einarsson og Eðvarð Egilsson. Myndbönd og grafík: Ólöf Erla Einarsdóttir. Leikarar: Arnar Jónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hallgrímur Ólafsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson og Örn Árnason. Aðrir þátttakendur í sýningunni: Alexander John George Hatfield, Eysteinn Aron Halldórsson, Sigurlaug Knudsen Stefánsdóttir, Snæfríður Jóhannsdóttir og Sturla Skúlason Holm. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 21. febrúar 2020.


Kapítalisminn étur börnin sín


Hvort sem það var einhver af kanónum breska Þjóðleikhússins, handritshöfundurinn Lee Hall eða leikstjóri frumuppfærslunnar, Hollendingurinn Ivo van Hove, nokkurskonar sendifulltrúi fagurfræði meginlandsleiklistar í bresku stofnanaleikhúsi, sem fékk hugmyndina, þá á viðkomandi hrós skilið. Það er ekkert sjálfgefið að 45 ára gamlar næstum gleymdar amerískar bíómyndir eigi alvöru erindi við okkur, hvað þá erindi upp á leiksvið, en það reyndist vera tilfellið með Network.

Grunnsagan er ekki flókin: Sjónvarpsfréttamaðurinn Howard Beale brotnar saman í beinni útsendingu þegar honum er sagt upp störfum á hnignandi sjónvarpsstöð í eigu gráðugrar samsteypu. Niðurbrotsræðan fær gríðarlegt áhorf og snjöll dagskrárgerðarkona sér möguleikana. Howard Beale verður stjarna, spámaður hinna reiðu og valdalausu. Á vegum hinna yfirveguðu og valdamiklu. Og þar með er mótsagna- og vendingasagan ekki sögð.

Og þarna leynist skýrt – en alls ekki einfeldningslegt – erindi við samtímann. Tíma falsfrétta sem næra öfgar. Veröld þar sem skilin milli afþreyingar og upplýsingar dofna jafnt og þétt. Heim þar sem upp er sprottin bæði iðnaður og pólitískar hreyfingar sem byggja á því að greina og virkja óskilgreinda reiði, veita henni farveg og kynda bálið undir henni. Peningar og völd eru í húfi og þar sem peningar og völd eru í boði er fólk fljótlega tilbúið að sýna sínar verstu hliðar. Þannig er það í dag og þannig var það líka á áttunda áratugnum eins og sjá má íÚtsendingu .

Það er merkilegt að sýningin reynist jafn áhrifarík og raun ber vitni, svo mörgum og ólíkum vopnum sem hún beitir. Þessi óstöðugi og að miklu leyti ósamhristi kokteill af margradda amerísku bíóraunsæi, brechtískri dæmisögu og klassískum persónulegum harmleik ætti ekki að virka. En gerir það samt. Það má alveg velta fyrir sér hvort hún væri áhrifaríkari ef við fengjum að kynnast sálfræðilegum forsendum fyrir ákvörðunum Howards. Að við sæjum hann meira í samskiptum við fólk, en ekki næstum eingöngu í ham fyrir framan myndavélarnar. Í einhverjum skilningi eru sinnaskipti hans eftir fund með æðsta yfirmanni samsteypunnar, sem er upphafið að endinum, óundirbyggð og ófullnægjandi sem drama í strangasta skilningi. Eins má spyrja hvort ástarsamband metnaðarfullu, ungu dagskrárgerðarkonunnar og miðaldra deldarstjórans skipti máli sem réttlætir plássið sem það tekur. En á endanum heldur sýningin athygli bæði heila og hjarta – við kaupum hana, svo gripið sé til málsniðs markaðarins, eins og hlýtur að teljast við hæfi.

Stóran hluta heiðursins á leikstjórinn. Guðjón Davíð Karlsson nær að láta þetta feikiflókna sjónarspil virka saman. Minna verður úr möguleikum sem þó eru þarna til að skapa áhugaverðar og raunsætt trúverðugar persónur. Raunsæisþátturinn í leiktextanum er líka pínu viðkvæmur fyrir textaóöryggi sem var bæði of áberandi og útbreitt á frumsýningunni. Á hinn bóginn er ótrúlegt öryggi í öllu gangverkinu, bæði skiptingum í hinni síhreyfilegu og snjöllu leikmynd Egils Eðvarðssonar og lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar en þó aðallega í fyrirferðarmikilli notkun á myndavélum og skjám sem er lygilega hnökralaus og oft hreinlega heillandi í sjálfu sér. Myndvörpunarblæti nútímaleikhússins á það til að fara í taugarnar á þeim sem hér skrifar en að þessu sinni eru græjurnar á heimavelli. Reyndar umtalsvert nútímalegri en rétt væri, en að öðru leyti eru tímabilinu gerð nostursamleg skil, bæði í myndefni og hönnun Ólafar Erlu Einarsdóttur og þó kannski allra helst í búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Ef ekki væri fyrir hið augljósa erindi þá mætti vel njóta sýningarinnar með fortíðarþrána eina að leiðarvísi. Fyrir utan útlit leikaranna er hún ríkulega skreytt auglýsingaefni og tónlistarmyndböndum. Fólk með óþol fyrir kalifornísku gullaldarpopprokki ætti að hugsa sig um tvisvar.

Það er fjölmenni á stóra sviðinu í þessari sýningu. Auk sextán leikara með próf eru fimm tæknimenn, búningafólk, sminkur og aðrir að störfum á sviðinu, hluti af upplifun okkar. Mörg hlutverkana eru ofursmá, nánast þögul en næstum alltaf til staðar engu að síður.

Mest mæðir vitaskuld á Pálma Gestssyni í hlutverki Howards Beale. Til að byrja með var ég ekki alveg sannfærður um hann í hlutverkinu, fannst vanta kraft og myndugleika. En þar skipti sennilega mestu máli skorturinn á undirbyggingu fyrir ákvarðanir og athafnir persónunnar í verkinu sjálfur. Og áður en upp var staðið var Pálmi kominn með heljartök á verkefninu, kröftugur og öruggur en um leið berskjaldaður.

Birgitta Birgisdóttir naut sín greinilega vel í hlutverki hinnar metnaðargjörnu Díönu, sem veit hvert hún stefnir og hikar aldrei. Þröstur Leó Gunnarsson fannst mér á hinn bóginn ekki alveg finna sig í hlutverki ástmannsins, og kannski er sá þáttur verksins líka full-vannærður frá höfundarins hendi þó hann taki sitt pláss í leiktíma. Það var oft gaman að þeim stressaða hrokagikk sem Atli Rafn Sigurðarson skóp úr nýráðnum yfirmanni stöðvarinnar og það er alltaf til bóta þegar Ólafía Hrönn Jónsdóttir tekur dansspor og lætur áhorfendur éta úr lófa sínum. Af fólkinu í bakgrunninum fangaði Hallgrímur Ólafsson oftast athyglina.

Útsending er óvenjuleg sýning um margt. Þetta er tæknilega flókið, stíllega brotakennt og pólitískt hlaðið verk sem spyr flókinna spurninga, sakfellir engan, eða kannski okkur öll. Þessu er vel skilað í sýningu Þjóðleikhússins. Það er magnað að í þessari gömlu bíómynd hafi fundist leið til að segja svona glúrinn og mótsagnakenndan sannleika um fjölmiðla, múgmennsku, kapítalisma og nútímamenningu, og hina nagandi vissu um að eitthvað sé rotið í því Danaveldi sem heimurinn var orðinn þá og er enn. Þótt hér sé verið að sækja verk sem hefur „sannað sig“ í erlendu leikhúsi sanna dæmin að það kál er ekki alltaf sopið þó í íslensku ausuna sé komið. Hér bragðast það hið besta, og er sennilega meinhollt að auki.

fimmtudagur, febrúar 20, 2020

Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag

Eftir Ævar Þór Benediktsson. Leikstjórn: Stefán Hallur Stefánsson. Leikmynd: Högni Sigurþórsson, Magnús Arnar Sigurðarson og Hermann Karl Björnsson. Búningar: Ásdís Guðný Guðmundsdóttir. Tónlist: Anna Halldórsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Kosningakerfi og sértækar tæknilausnir: Hermann Karl Björnsson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikgervi: Valdís Karen Smáradóttir. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmir Jensson, Íris Tanja Í. Flygenring, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson. Frumsýning í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu 14. febrúar 2020.

Tíminn vinnur á endanum

Eftir vel heppnaða tilraun í þátttökuleikhúsi með goðsöguverki Ævars Þórs Benediktssonar á síðasta leikári var einboðið að halda áfram að nýta fjárfestinguna í tæknibúnaðinum og halda áfram með bókaflokkinn. Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag (hér eftir Tímaferðalag til hægðarauka) er reyndar ákaflega sjálfstætt gagnvart bókinni sem ber hliðstætt nafn. Hér er komin önnur grunnsaga, nýtt verkefni fyrir tímaferðalangann að leysa.

Og nýr ferðalangur. Anna Hönnudóttir er kraftmikil nútímakona, alin upp af móður sinni til að takast á við hvern vanda af hugrekki og ráðkænsku. Ekki veitir af þegar henni áskotnast tímavél þar sem hún situr á sjúkrahúsi og bíður fregna af líðan fárveikrar mömmu sinnar. Upphefst mikil leit að lækningu, vítt og breitt um rúm og tíma: Og í sönnum ævintýraanda skilar leitin kannski ekki því sem lagt var upp með, en mögulega einhverju sem jafnvel er meira vert: þroska, þekkingu, skilningi og sátt. Allir lifa hamingjusamir til æviloka.

Ævar snýr skemmtilega og nútímalega upp á staðalmyndir ævintýrisins í upphafi, þar sem farið er yfir prinsessulegar dyggðir á borð við veggjaklifur, bardagalistir og kafsund. Prinsessur verða að kunna að spjara sig, eins og kemur í ljós þegar leiðangurinn hefst.

Hvað sem öllum formbrellum og tilraunum líður er það fólk og bjástur þess sem við erum komin til að sjá í leikhúsinu og þessar grunnstoðir eru sterkar í Tímaferðalagi . Bæði Anna og Hanna móðir hennar eru bitastæðir og áhugaverðir karakterar. Hæfileg blanda af staðalmyndum og andófi gegn þeim. Það sama má líka segja um Radar, persónugerving tímavélarinnar, sem lifir á mörkum mennsku og vélar.

Óneitanlega fanga samt bæði brellurnar, að ógleymdum furðum tímaferðalaga, huga og athygli í sýningunni. Ég gæti alveg trúað að þverstæðurnar í flakki um tímann vefjist fyrir fleirum en okkur hinum fullorðnu í látunum, en sennilega truflar það enga nema þá sem endilega vilja skilja allt. Ungir áhorfendur á frumsýningu virtust hafa full tök á tækjabúnaðinum sem gerir þeim kleift að hafa áhrif á atburðarásina. Sjálfur hélt ég mig til hlés og fylgdist með þegar yngri kynslóðin atti Önnu og Radar á foraðið eða reyndi að leiðbeina þeim gegnum þrautirnar sem Ævar Þór hafði lagt fyrir þau.

Framan af gekk þetta nokkuð vel. Ákvarðanirnar sneru að því hvert skyldi halda í tíma og rúmi, hvort skynsamlegt væri að berjast eða flýja, til dæmis í bráðskemmtilegu atriði í villta vestrinu. Í síðari hlutanum lenti sýningin hins vegar í nokkurri sjálfheldu, þar sem hlutverk áhorfenda fólst í því að aðstoða söguhetjurnar við að smyrja lík í hinu forna Egyptalandi á nógu sannfærandi hátt til að vekja ekki grunsemdir. Gisk um sögulegar staðreyndir er ekki dramatískt, þarna var Ævar vísindamaður og ást hans á þekkingu að grípa óheppilega fram fyrir hendurnar á leikhúsmanninum sem deilir með honum líkama. Atriðið varð langt vegna þess hve giskið gekk illa og spennan slaknaði, þrátt fyrir hetjulega tilburði leikara, og ekki tók betra við í síðasta ævintýrinu þar sem áhorfendur greiddu atkvæði um hvort rétt væri að fara til hægri eða vinstri. Algerlega merkingarlaust og óspennandi, sama hvað hækkað var mikið í hljóðkerfinu, sem var óspart nýtt og ekki alltaf skynsamlega.

Tímaferðalag bæði staðfestir kosti og afhjúpar galla þessarar útgáfu af gagnvirku leikhúsi. Meðan ákvarðanir áhorfenda eru merkingarbærar og þýðingarmiklar fyrir gangverk sögunnar eru þær skemmtilegar. Þegar þær eru byggðar á getgátum eða hendingum slaknar á spennunni. Það sem bjargar málunum hér er annars vegar hvað sagan sem undir liggur er áhugaverð og persónurnar bitastæðar, og hve vel leikhópurinn stendur sig í að túlka þær og halda boltum á lofti þrátt fyrir allt.

Þar stendur allt og fellur með þremenningunum; Önnu, Hönnu og Radar. Þau Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmir Jensson eru fyllilega verknum sínum vaxin. Lára Jóhanna drífur sýninguna áfram með krafti sínum og jákvæðri útgeislun, þetta makalausa fyrsta starfsár Ebbu Katrínar hjá Þjóðleikhúsinu heldur bara áfram að gleðja mann og vekja vonir um glæst framhald og Hilmir er hreint frábær í sínu frumlega hlutverki, hárnákvæmur þjarkur eina stundina, lúmskt fyndinn og mannlegur vinur þá næstu. Íris Tanja Í. Flygenring og Snorri Engilbertsson bregða sér í fjölbreytt hlutverk persóna sem verða á vegi tímaferðalanganna og eru oft ansi sniðug.

Leikmyndin er einföld í formi, enda fyrst og fremst vettvangur fyrir fjölbreytta staði sem framkallaðir eru með litríkum og snjöllum skjámyndum. Leikmyndin er skrifuð á þremenningana Högna Sigurþórsson, Magnús Arnar Sigurðarson og Hermann Karl Björnsson, en myndbandshönnun Ástu Jónínu Arnardóttur er þar kannski mikilvægasti þátturinn, ásamt með lýsingu Magnúsar Arnars. Búningar Ásdísar Guðnýjar Guðmundsdóttur eru sögulega réttir eins og vera ber.

Stefán Hallur Stefánsson hefur stýrt áhöfn sinni af öryggi. Ef til vill treystir hann leikhúsinu og áhorfendunum aðeins of lítið til að lifa sig inn í ævintýrið án þess að keyra stuð, hraða og hávaða í botn. Það sama má kannski segja um sjálfa grunnaðferð verksins; hún er á köflum dragbítur á sjálft innihaldið; leiðangur sem endar á að vera leit Önnu að sjálfri sér og því sem skiptir á endanum máli. Þar sem persónurnar og kjarni verksins nær að skína í gegn er hann skínandi, bæði frumlegur og rótfastur í hefðum ævintýranna sem við erum öll tilbúin að trúa á.

miðvikudagur, janúar 01, 2020

Meistarinn og Margaríta


Eftir Niklas Rådstöm, byggt á skáldsögu Mikhaíl Búlgakov. Þýðing og leikstjórn: Hilmar Jónsson. Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Sviðshreyfingar: Chantelle Carey. Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Örn Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson. Leikgervi: Tinna Ingimarsdóttir. Leikendur: Bjarni Snæbjörnsson, Björn Ingi Hilmarsson, Brigitta Birgisdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson , Hildur Vala Baldursdóttir, Oddur Júlíusson, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Stefán Hallur Stefánsson, Þórey Birgisdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 26. desember 2019.

Skrattinn skemmtir sér

Það er ekkert erfitt að sjá hvað laðar leikhúsfólk að Meistaranum og Margarítu. Í þessari viðamiklu og viðburðaríku skáldsögu Búlgakovs er urmull skrautlegra persóna og atvika. Ærsl og ýkjur í bland við djúpa alvöru. Svo gerist hún á skömmum tíma á þröngt og skýrt skilgreindum stað (tveimur reyndar) og að hluta til í leikhúsi. Fyrir utan bíður síðan þétt skipaðu hópur aðdáenda bókarinnar.

Ekki er samt allt sem sýnist, ekki frekar en í Moskvuborg þessa klukkutíma sem prófessor Woland og fylgdarlið hans fer þar um með ærslum og uppljóstrunum. Dæma lifendur og dauða gætum við sagt ef við værum í skapi til að leggja nafn Guðs við hégóma. Fljótlega ætti líka að renna upp fyrir leikgerendunum að það er snúið að þýða það sem gerir frægustu bók Búlgakovs, sem sjálfur var reyndar ekki síst leikskáld, svona heillandi yfir á mál leikhússins. Svo dæmi sé nefnt: þegar árekstrar hins hversdaglega og þess yfirnáttúrulega eru komnir upp á svið (þar sem allt er mögulegt) þá verða galdrarnir bæði sjálfsagðir, og líka fullkomlega gegnsæir. Leikhús er nefnilega hvorki bók, sem treystir á almáttugt ímyndunarafl lesandans, né CGI-vætt kvikmyndaver þar sem allt er hægt.

Þá er nokkuð snúið að miðla dýptinni í örlagasögunum þremur sem eru þungamiðja bókarinnar, innan um allt sjónarspilið. Meistarinn, Margaríta og þó einkum Pílatus, eru tragískar persónur, en harmur þeirra býr innra með þeim. Til að öðlast meðlíðan og skilning á sálarstríði landstjórans í Júdeu eftir fund sinn með Jesúa Ha-Notsri þurfum við þann aðgang að hugsunum hans sem Meistarinn og Búlgakov gefa okkur. Ef ætti að koma því til skila í leiksýningu þyrfti að skera rækilega niður sviðstíma kattar og kórstjóra. Og hver vill það? Eru það ekki aðallega þeir sem fólkið vill sjá?

Leikgerð Niklas Rådstöm leysir ekki þennan vanda og sviðsetning Hilmars Jónssonar kemur ekki nægilega til hjálpar. Rådstöm er ákaflega trúr bókinni, rekur nánast allt efni hennar í hér um bil sömu röð og þar er gert svo útkoman verður bæði heldur ódramatísk og óþarflega löng. Þá er hann ákaflega tregur til að sleppa nokkru því sem glatt gæti trygga lesendur bókar Búlgakovs. Það endar stundum í einhverskonar málamiðlunum, þar sem tæpt er á skemmtilegu efni án þess að gefa því raunverulegt líf. Hinn óstöðvandi kór er eitt dæmi og annað er tilgangslaus endursögn Korovévs og Behemots á orðaskiptum sínum við yfirþjóninn á veitingahúsinu. Útkoman gleður engan nema innvígða aðdáendur sem nægir smjörþefur.

Hilmari tekst síðan ekki að leysa þann vanda sem eðlislægar takmarkanir leiksviðsins skapa, þó gangverk sýningarinnar sé lipurt og umbreytingar fumlausar í flottri og snjallri, en kannski dálítið karakterlausri leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur og glæsilegri lýsingarumgjörð Halldórs Arnar Óskarssonar. Spennan milli þess yfirnáttúrulega og hins hversdagslega í þessu guðlausa harðstjórnar- og eftirlitsríki lifir ekki af ferðina upp á leiksvið þar sem allt er mögulegt og talandi köttur í yfirstærð er bara leikari í loðfeldi. Fjarvera samhengisins sem sagan er skrifuð inn í er síðan kapítuli út af fyrir sig. Við fáum aldrei tilfinningu fyrir Moskvu Stalínstímans með sinni gráu kúgun, ósýnilegu ógn, skorti, þrengslum og spillingu. Búlgakov gekk út frá meðvitund lesenda um þetta, leikgerð og sviðsetning virðist líta svo á að það skipti ekki máli. Ég efast um að það sé rétt. Allavega vakti sýningin hvað eftir annað upp spurninguna: af hverju er verið að sýna mér þetta? Hvert er erindi þessa efnis við mig?

Eins og fyrr sagði gerir ágripskennd og framvindudrifin leikgerðin aðalpersónunum og sálarkvölum þeirra enga greiða. Fyrir vikið verða Meistari Stefáns Halls Stefánssonar og Pílatus Pálma Gestsonar ekki mjög burðugar persónur þó myndugleikinn kæmist vel til skila hjá þeim síðarnefnda og Stefán finndi bæði alvöru og skop í smámynd sinni af Jesúa. Um Margarítu gegnir aðeins öðru máli, bæði bók og leikgerð sýna hana aðallega í nornaham, en annars er mynd hennar að stórum hluta í endursögn Meistarans af ástþrungnum tíma þeirra áður en bókin um Pílatus eyðileggur allt. Birgitta Birgisdóttir skilaði undrun og gleði hinnar umbreyttu Margarítu vel. Bjarni Snæbjörnsson var skoplegur þar sem rennur upp fyrir Ívan hans Bésdomní að þó hann sé ekki geðveikur þá muni enginn trúa öðru en að svo sé.

Sigurður Sigurjónsson var yndislega ísmeygilegur sem Woland og hvert einasta af hinum mörgu hnyttiyrðum þess skrattakolls hittu í mark í salnum. Sýningin staðfestir líka það sem Atómstöðin gaf vísbendingu um: það er fyllsta ástæða til að binda vonir við Ebbu Katrínu Finnsdóttur sem er myndugleikinn uppmálaður sem Korovév, hin athafnasama og köflótta hægri hönd kölska og kórstjóri í hjáverkum. Oddi Júlíussyni tókst hinsvegar ekki að leysa þann vanda að gera köttinn Behemoth skemmtilegan. Hið alltumlykjandi gervi Tinnu Ingimarsdóttur og búningur Evu Signýar Berger þvældust líka fyrir, en kannski eru skemmtilegheit Behemoths líka illflytjanleg af blaði á svið eins og áður sagði. Aðrir leikendur bregða sér í fjölmörg hlutverk og gekk það allt lipurlega.

Búningar Evu Signýjar eru glæsilegir og íburðarmiklir, ekki síst biblíumyndaraunsæið í píslarsögunni. Ég hefði samt kosið að Rússland fjórða áratugarins birtist okkur jafn skýrt. Tónlist Valgeirs Sigurðassonar hefði líka getað hjálpað okkur betur að upplifa stund og stað. Hún hjálpaði eflaust við að skapa réttu hughrifin, en dálítið sviplaus, fyrir utan tröllslega útgáfu vínarvalsins á ballinu endalausa.

Það má hafa gaman af einu og öðru í þessari stórsýningu, en ekki hvað. Engu að síður vekur nokkra furðu að þessari dálítið gamaldags leikgerð á torsviðsettri erlendri skáldsögu sé fenginn slíkur heiðurssess á leikárinu. Dómar um frumuppfærslu Dramaten benda ekki til að þar hafi verið unninn einhver mikilsháttar listrænn sigur heldur. Sýningin verður auðvitað sjálf að sannfæra áhorfandann um erindi sitt. Það gerir Meistarinn og Margaríta ekki svo fullnægjandi sé. 

x

föstudagur, desember 27, 2019

Engillinn

Leiksýning byggð á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar. Leikstjórn, handrit og leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Aðstoðarleikmyndahönnuður: Þórarinn Blöndal. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Pétur Ben og Elvar Geir Sævarsson. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Elvar Geir Sævarsson. Sýningastjórn og umsjón, og þátttakandi í sýningu: Guðmundur Erlingsson og Tómas Baldursson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 21. desember 2019.

Heimspekileg absúrdrevía

Í skemmtilegu viðtali við Finn Arnar Arnarson, leikstjóra og handritshöfund Engilsins, á vef Þjóðleikhússins leggur hann út af ást og áhuga Þorvaldar Þorsteinssonar á einkennisbúningum og hlutverkunum sem þeir þröngva okkur í. Nauðugum en oft því miður viljugum líka. Þetta birtist að sögn Finns, og í sýningunni sem hann hefur sett saman ásamt Grétu Kristínu Ómarsdóttur, bæði í bókstaflegri merkingu og sem almennur útgangspunktur og leið inn í þetta fjölskrúðuga og um margt einstaka höfundarverk. Hér úir og grúir af skátum, löggum, stöðumælavörðum, ofurhetjum, flugfreyjum og prestum, fyrir utan reykkafarann sem vakir yfir þessu öllu í björgunar- og forvarnarskyni. Hlutverkin sem einkennisbúningarnir fella fólkið í eru einatt tekin skoptökum í textum Þorvaldar, en það er alltaf líka stutt í afmennskun og ofbeldi undir absúrd-húmorísku yfirborðinu. Hvergi kannski jafn stutt og í hrollvekjandi Vasaleikhúsverki um dauðadæmdan fanga og prestinn sem kominn er til að veita hinstu huggun.

En hinn óræðari og heimspekilegri skilningur á einkennisbúningum er alltumlykjandi í verkum Þorvaldar og í sýningunni. Hvernig við festumst í samskiptaháttum, hvernig tjáning okkar og hugsun fylgir ákveðnum brautum þar sem valdastaða, kynhlutverk og dauður vani stýra för. Hvernig klisjurnar í máli og hugsun taka völdin. Á fyrri hluta ferilsins varð þessi vinkill Þorvaldi endalaus uppspretta hárbeittrar og afhjúpandi kímni. Á síðasta skeiði sínu, þegar hann hafði komið auga á skólakerfið sem helsta blóraböggulinn í afskræmingu og lömun sköpunar og heilbrigðra samskiptahátta, átti húmorinn til að víkja fullmikið fyrir boðskapnum, en ein snjöll eldræða af því taginu fær að fljóta með í Kassanum.

Stærsti hluti texta sýninganna er úr Vasaleikhúsverkunum og örverkasafninu Engill meðal áhorfenda. Samfléttun efnisins og notkun vísana í myndlistarverk Þorvaldar hefur tekist afburðavel. Þannig fær sögn hvers atriðis að lifa sínu sjálfstæða lífi og koma sínum boðskap eða hugsun til skila, en rennur jafnframt hæfilega saman við heildina. Eins er stöðug óræðni þess hvenær verið er að leika og hvenær við erum vitni að listafólki að störfum ákaflega skemmtilega og áreynslulaust útfærð og að áhorfandanum læðist grunur um að stílbrögð og fagurfræði Grétu Kristínar eigi þar drjúgan þátt. Frumraun hennar í leikhúsinu, Stertabenda, kemur upp í hugann. Og enn og aftur má dást að fumleysinu sem íslenskt leikhúsfólk hefur náð tökum á í framsetningarmáta af þessu tagi, og ekki síður hvað það getur gengið að vísu læsi og skilningi áhorfenda. Hér erum við samstiga og efniviður Þorvaldar Þorsteinssonar nýtur sín einkar vel við þessar aðstæður.

Það sama má segja um textann sjálfan. Ást Þorvaldar á stirðum og „bóklegum“ samtölum, t.d. eins og þau hljómuðu í útvarpsleikritum af ómerkilegra taginu á uppvaxtarárum hans, er ein höfuðuppspretta stílsins sem einkennir sviðsverk hans en þó enn frekar Vasaleikhústextana. Til að miðla þessu efni þarf að feta nokkuð þröngt einstigi þar sem helsti vegvísirinn er kannski einhverskonar „innblásin flatneskja“. Ekki alveg fjarskylt innblæstrinum sem Ionesco sótti í enskukennslubækur þegar hann setti saman Sköllóttu söngkonuna. Þetta einstigi feta þau Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir nánast alltaf af stakri fimi í sínum fjölmörgu hlutverkum. Það liggur við að stundum hefði verið gaman að sjá stílnum ögrað meira. Önnur nálgun en hin viðtekna og sjálfsagða hefði verið prófuð, svona af því sýningin er í og með einhverskonar endurmat á höfundarverki skáldsins. Mögulega hefði reynslumeiri leikstjóri en Finnur gengið lengra í þessa átt. En auðvitað má vera að það hafi einmitt verið reynt og niðurstaðan orðið þessi, og svo á maður auðvitað að fara varlega í að óska sér. Það er fullt öryggi í leikstjórnarlegum ákvörðunum sem sýningin byggist á.

Leikmynd Finns Arnar er í þessum sama anda, sótt beint í nálgun og hugmyndaheim höfundarins. Nytjahlutum safnað og unnið úr því tilviljanakennda efni sem þannig rak á fjörur leikhússins. Útkoman engu að síður vel nothæf til að styðja við þær sögur sem segja átti. Bráðsnjallt að staðsetja áhorfendur baksviðs megnið af sýningunni, sem hjálpaði til við að skerpa meðvitund okkar fyrir því að alls óvíst er hvað er leikið og hvað raunveruleiki. Eins þakklátt þegar við fáum loksins að sjá inn á „sviðið sjálft“ í viðamesta atriði sýningarinnar þar sem við fáum að sjá þann stjörnuleik hjá Eggert Þorleifssyni sem alltaf má reikna með. Dæmigerður Þorvaldarkarakter sem heldur dauðahaldi í frosin samskiptamynstur til að reyna að halda aftur af sálarmyrkrinu og ofbeldinu undir niðri. Og morðfyndið vitaskuld.

Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur eru trúir grunnhugmyndinni, samtíningslegir og banal og fyrir vikið hárréttir. Hljóðmynd Péturs Ben og Elvars Geirs Sævarssonar flott, ekki síst gítarhetjunúmerið undir eintalinu úr And Björk, of Course… Megasarlögin meistaraleg.

Engillinn er þörf áminning um þann magnaða fjársjóð frumleika og andagiftar sem verk Þorvaldar Þorsteinssonar eru. Heimspekileg absúrdrevía sem kætir, kitlar og kemur við okkur. Næst hlýtur að þurfa að taka til fullrar endurtúlkunar hans viðamestu og lífvænlegustu sviðsverk. Maríusögur og And Björk, of Course… væru efst á mínum óskalista.

fimmtudagur, nóvember 07, 2019

Atómstöðin

Eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Mirek Kaczmarek. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristinn Gauti Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Björn Thors, Birgitta Birgisdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Stefán Jónsson, Snorri Engilbertsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Oddur Júlíusson, Edda Arnljótsdóttir og Eggert Þorleifsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 1. nóvember 2019.

Upprunagoðsögn 

ógeðslegs þjóðfélags

Það blasir ekki við fyrir fram að Atómstöðin eigi sérstakt tilkall til þess að verða tekin til viðamikils endurmats á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Svo mjög er hún bundin ritunartíma sínum, skrifuð sem beint innlegg í hitamál samtíma síns, svo full af vísunum og tímabundnum skotum og skopmyndum sem löngu eru orðnar óskiljanlegar öðrum en elstu mönnum og æstustu og fróðustu aðdáendum. Fyrir utan að hér setur Halldór Laxness listræn viðmið í annað sæti á eftir pólitísku erindi á afgerandi hátt, og það sést. Atómstöðin er ekki meðal hans bestu bóka. Suma ágallana tekst ekki að leysa á sviði Þjóðleikhússins. Tilvísunin í freistingar Krists í eyðimörkinni verður til dæmis alltaf eitt vandræðalegasta uppátæki Nóbelsskáldsins, svo einn smávægilegur sé nefndur. Aðrir reynast vera óvæntir styrkleikar. Stærsti sigur „endurlits“ Dóra DNA leikgeranda og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og meðleikgeranda er að sýna fram á með sinni meðferð efnisins og eigin viðbótum að enn er ómaksins vert að rifja þetta allt saman upp.

Lykilatriðið er þar að setja ákvarðanir borgarastéttarinnar um sölu landsins og túlkun Halldórs á þeim í forgrunn á kostnað þroska- og ástarsögu Uglu og skrautlegs bóhemlífsins í húsi organistans. Hvort tveggja er þarna, en allra augu beinast að landsölufólkinu. Framlag Dóra og Unu er síðan sú augljósa spurning sem árin frá ritunartíma sögunnar hafa svarað: hvað fengu þau greitt fyrir góssið? Hér er afhjúpað hið ógeðslega þjóðfélag sem trússbinding Íslands við vestræna gróðahyggju gat af sér. Skálkaskjól valdastéttarinnar í þeirri heimagerðu, gerspilltu útgáfu af kapítalisma sem hér varð til, sölumönnunum og afkomendum þeirra til dýrðar og auðsöfnunar. Kjarni sýningarinnar eru enda uppbrot hennar: þegar hinum róttæka Pilti og hans fólki ofbýður framferði yfirstéttarinnar og kalla fram viðbrögð. Hápunkti nær Atómstöðin – endurlit rétt fyrir hlé þegar Búi Árland fær orðið og flytur magnaða en þó fyrst og fremst afhjúpandi ræðu um hvað blessað stríðið og Marshallaðstoðin gaf þjóðinni, en þó fyrst og fremst hans fólki. Og þótt tilvísanir Halldórs til þjóðþekktra fyrirmynda í bókinni séu horfnar í rykið fer væntanlega ekki framhjá neinum leikhúsgesti hvaðan Björn Thors sækir innblásturinn í meðferð sína á varnarræðu hægrisins.

Þessi eitraða vísun á síðan sinn þátt í að torvelda meðferð annars helsta efnisþráðar verksins. Það verður satt að segja með öllu ómögulegt að skilja, eða finna fyrir, nokkru einasta sambandi milli Búa og Uglu, sérstaklega hvað hana varðar. Hvernig getur hún fengið í hnén út af þessu gerpi? Ekkert í túlkun persónanna eða áherslum sýningarinnar hjálpar okkur að skilja það. Fyrir vikið nær seinni hlutinn, þar sem prívatlíf Uglu og persónulegt uppgjör hennar við ástmenn og samfélag er í forgrunni, ekki þeirri dramatísku dýpt sem hann þarf. Saga Uglu er útúrdúr frá markmiðum og áherslum sýningarinnar, eins og Pilturinn bendir reyndar á í frábærri ræðu að saga Uglu er ekki um framtíð landsins og svik borgarastéttarinnar, sem er aðalmálið, heldur „bara krúttleg ástarsaga um sveitastelpu sem flyst í bæinn og verður ástfangin af myndarlegum ráðherra á besta aldri …“ Ástarsaga Uglu er hér séð sem enn ein „afvegaleiðingin“, sem er lykilorð í uppfærslunni og oft notað á sláandi hátt.

En sú afvegaleiðing fær að taka yfir stóran bút síðari hluta verksins. Sem auk þess líður fyrir að Búi er eins og hann er í túlkun Unu, Dóra og Björns, feimna löggan dálítið litlaus (en stundum sniðug samt) hjá Oddi Júlíussyni og síðast en ekki síst: hin óleysanlega þraut sem Ugla Falsdóttir er sjálf frá hendi höfundar. Þessi saklausa en djúpvitra, heimóttarlega en sjálfsörugga, luralega en ómótstæðilega yngismær sem allir falla fyrir er smíð sem virkar í bók en varla á sviði. Ebba Katrín Finnsdóttir skilar textanum og afstöðu persónunnar fallega og eins skilmerkilega og ætlast verður til, ekki síst eintölum síðari hlutans. En henni er um megn að sætta mótsagnirnar. Það er óvinnandi vegur að vera heilsteypt Ugla í sviðsetningu túlkunar sem vill hana helst ekki. Undarlegur búningurinn hjálpar okkur ekki neitt, þessi pokalegi hvíti kjóll sem mér tókst ekki að skilja hvert vísaði. Annars eru búningar Mireks Kaczmareks smartir.

Leikmynd Mireks er síðan stórglæsileg. Ber hvítleitur kassi með bekkjum sem í upphafi mynda kirkjuskip með orgelharmóníum til hliðar. „Musteri íslenskrar tungu“ var fyrsta hugsunin sem kviknaði, en fljótlega er allt komið úr tilbeiðslugírnum sem betur fer. Una Þorleifsdóttir er á góðum degi alveg sérlega flinkur sviðsetjari og hér rekur hver sláandi fagra og sterka myndin aðra. Gangurinn er hægur en alltaf gerist eitthvað áhugavert í flæðinu. Ég renni grun í að leikmyndin hafi samt sett ljósahönnuði grimmar skorður, allavega er útkoman þannig hjá Ólafi Ágústi Stefánssyni að erfitt var að greina svipbrigði í birtunni sem í boði er, sem torveldar okkur leiðina að persónunum. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar er töff.

Fyrir utan þá leikendur sem þegar hafa verið nefndir er rétt að nefna Birgittu Birgisdóttur sem skapaði sannfærandi yfirstéttarkonu og fann í henni léttleika sem ég hef ekki séð í fyrri holdgervingum hennar. Landaljómi Arnmundar Ernsts Backmans hafði greinilega gengið í sama stjórnmálaskóla og faðir hans. Það gustaði af Piltinum, einbeittum kommúnista Snorra Engilbertssonar og túlkun Stefáns Jónssonar á organistanum var ánægjulega víðsfjarri ullarvestismildingum hefðarinnar. Þar hitti búningur og gervi líka beint í mark. Allur leikhópurinn stendur sína plikt, en heilt yfir er persónusköpun ekki í forgrunni nálgunarinnar.

Endurlit Dóra DNA og Unu Þorleifsdóttur á Atómstöð Halldórs Laxness er að mörgu leyti sterk sýning. Afburðavel sviðsett í glæsilegri umgjörð og setur sitt pólitíska ljós aldrei undir mæliker. Hér er fylgt fordæmi skáldsins og málað með breiðum pensli og barið með þungri sleggju. Leikgerðin leysir ekki alla snókera bókarinnar, er stundum í hægari takti en ég hefði kosið, heldur til haga meiru af efni bókarinnar en beinlínis var nauðsynlegt og hefði ekki þurft að vera jafn löng og tilfellið er. En það er bit og flug í viðbótartextum Dóra. Dirfskan og sannfæringin er þarna, gleður, ergir og vekur.