fimmtudagur, mars 01, 2018

Slá í gegn

Höfundur og leikstjóri: Guðjón Davíð Karlsson. Danshöfundur: Chantelle Carey. Tónlist: Stuðmenn. Tónlistarstjórn: Vignir Snær Vigfússon. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Myndband: Ingi Bekk (myndbandshönnun), Björgvin Már Pálsson og Árni Jón Gunnarsson (hreyfimyndagerð) og Rúnar Steinn Skaftason (bakgrunnur). Hljómsveit: Vignir Snær Vigfússon, Karl Olgeirsson, Helgi Reynir Jónsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Róbert Þórhallsson og Aron Steinn Ásbjarnarson. Leikarar, dansarar og sirkuslistafólk: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Jón Gnarr, Sigurður Þór Óskarsson, Sigurður Sigurjónsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Oddur Júlíusson, Esther Talía Casey, Þórey Birgisdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Bjarni Snæbjörnsson, Juliette Louste, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Hildur Ketilsdóttir, Nicholas Arthur Candy, Sindri Diego, Harpa Lind Ingadóttir, Bjarni Kristbjörnsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 24. febrúar 2018.

Dýrleif með töfrabrögðin

Tónlist Stuðmanna er á heimavelli í leikhúsinu. Svo ekki sé minnst á fjölleikahúsið. Fjöllyndið í stíl, stefnum og andrúmslofti, létt-paródísk afstaðan, hnyttnin í textunum og fjölbreytni yrkisefnanna. Þessi lög tala mörgum röddum og oftar en ekki eru „ljóðmælendur“ mótaðar persónur, jafnvel nafngreindar. Allt þetta þokar list Stuðmanna nær söngleiknum en flestri popptónlist myndi þykja þægilegt eða fínt. Við þessa þulu má svo bæta að staða Stuðmanna í íslenskri þjóðmenningu er slík að leikhúsinu beinlínis ber að gera henni skil. Jörundur hundadagakonungur, hernámið, Njála: allt kallar þetta á að vera sett á dagskrá. Það sama gildir um árshátíðargrínið úr Menntaskólanum við Hamrahlíð sem fór svona eftirminnilega, gleðilega og varanlega úr böndunum.

Og það hefur auðvitað verið á dagskrá. Það var dálítið þreytandi í aðdraganda frumsýningarinnar að heyra spyrla tala um Slá í gegn eins og eitthvert Kólumbusaregg hjá Guðjóni Davíð Karlssyni, og höfundinn og leikstjórann taka undir hvað það væri merkilegt að engum skyldi hafa dottið í hug fyrr að sjóða saman söngleik með tónlist Stuðmanna sem hryggjarstykkið. Stutt gúggl leiðir mann nefnilega í Loftkastalann 1996 þar sem þeir Valgeirar, Skagfjörð og Guðjónsson, frumsýndu söngleikinn Sumar á Sýrlandi, spunninn utan um tónlistina af fyrstu tveimur breiðskífum sveitarinnar. Svo ekki séu tíundaðar atlögur skólaleikfélaga um landið þvert og endilangt að þessum augljósa og gjöfula efnivið. Nýjabrum er ekki góður sölupunktur fyrir þetta sjó.

Það er handritið því miður ekki heldur. Í kynningu sýningarinnar hljómaði eins og hún byggðist á nokkuð skýrri og glúrinni grunnhugmynd, sem er alger lífsnauðsyn fyrir sýningu sem þessa. Hér þarf sterka sögu og skýr átök sem halda fleytunni á floti og gefa svigrúm fyrir þá útúrdúra sem tónlistin kallar á. Togstreita milli áhugaleikfélags í litlu þorpi og sirkuss sem mætir á svæðið er alveg ágætis vettvangur, en það spilast ekki vel úr þessu. Eitt er nú að sirkusinn er ekki fyrr kominn í bæinn en leikfélagið gengur til liðs við hann í heild sinni, að frátöldum einum þrjóskum sérvitringi. Annars eru árekstrar hins þjóðlega og þess framandi og forboðna ekki til meðferðar hér. Það reynist heldur ekki vera neitt leikrænt eða dramatískt púður í aðlögun sveitavargsins að sirkuslífinu, sem er óskiljanlegt. Samdráttur fjölleikaprinsessunnar og leikfélagskolbítsins er auðvitað óhjákvæmilegur, en þurfti hann að vera alveg svona áreynslulaus? Og þessi reykvíska fjölskylda sem fylgir pabbanum í draumaleit hans þegar hann kaupir rúmenskan sirkus á eBay – var ekkert áhugavert við að skoða hvernig það gæti gengið fyrir sig, eða ekki gengið? Hefði það jafnvel nægt sem leikrænt eldsneyti eitt og sér? Það kviknar aldrei í því.

Í stað þess að leyfa leiktextanum að vera límið, skapa togstreitu leggja til hreyfiorku í samskipti persónanna er hann að mestu lagður undir fimmaurabrandara. Sem auðvitað hitta sumir í mark, en ofgnóttin er þreytandi, sérstaklega endalausar vísanir í Stuðmannatexta. Þá þykja mér textatengsl verksins við leiktexta Með allt á hreinu misráðin (fyrir nú utan að skjóta inn bútum úr tveimur Gærulögum, sem er furðuleg ráðstöfun). Hér hefði þurft að skapa nýjan og lífvænlegan jarðveg fyrir tónlistina, en það er ekki gert.

Persónugalleríið er það best heppnaða í framlagi höfundarins, einfaldar týpur, sumar andlits- og einkennalausar en aðrar harla sniðuglega samsettar; Kalli lögga með búktalsdúkkuna sína, hin skeggjaða Ólína sem finnst enginn sjá sig fyrir brjóstunum, alvitri presturinn og svo auðvitað prímadonnan Sigurjón digri, sem reyndar er sóttur að stórum hluta á bensínstöðina í Næturvaktinni, en býr að því að Jón Gnarr hefur áratugareynslu af jafnvægisdansi milli fyndins banalítets og alvöru í leiktexta á barmi paródíunnar. Tveir af leikrænum hápunktum sýningarinnar eru hans: tilraun Sigurjóns til að flytja Gullna hlið Davíðs einn síns liðs eftir að hafa flæmt leikfélagið út í sirkustjald og svo samtal hans og Ólínu, sem Edda Björgvinsdóttir túlkar fallega. Jón syngur ekki í meistaradeildinni, en hefur það fram yfir flesta að það sem hann syngur hljómar eins og þar sé persóna að tjá sig en ekki söngvari að brillera, sem rétt er að geta að flestir þeirra gera. Sömu áhrifum nær Snæfríður Ingvarsdóttir í gullfallegri túlkun á „Angantý“ og þau Sigurður Þór Óskarsson í skemmtilega endurútsettum „Ástardúett“. Sem vel á minnst er eina lagið sem hægt er að segja að sé meðhöndlað með skapandi afstöðu. Að öðru leyti einkennist framlag Vignis Snæs Vigfússonar og liðsmanna hans af skotheldri fagmennsku og engu þar umfram. Ég var á sveitaballaaldrinum á gullaldarárum Stuðmanna og hef heyrt flest þessi lög fara í gegnum hakkavél hugmyndaríkra grallara. Þau þola það vel, og græða sum.

Þau halda líka bolta sýningarinnar á lofti þrátt fyrir allt. Dauðir punktar þjóta hjá og hverfa í rykið af hverjum smellinum á fætur öðrum. Þrjátíu lög koma við sögu, fyrir utan öll hin sem vitnað er til í leiktextanum. Undir lokin, þegar sirkusinn frumsýnir sjóið sitt, tekur tónlistin öll völd og gleðisprengjan springur. Þá er gaman. Það er vel haldið utan um gangverk sýningarinnar af Guðjóni Davíð og Chantelle Carey, þó dansatriðin hafi svo sem ekki slegið mig sem sérlega frumleg sköpun. Þær sirkusbrellur sem sýndar eru eru skemmtilegar og það næst áberandi vel að má út skilin milli leikara, söngvara, sirkusfólks og dansara, nýta kraftana og gefa öllum færi á að njóta sín. Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur gera þetta að dálítið myrkum sirkus, pínu fullorðins, pínu „Freak Show“, og ekkert að því, svo augljóslega meinlaust er þetta fólk allt, ekki síst hin elskulegu sirkusstjórahjón sem Örn Árnason og Ólafía Hrönn Jónsdóttir nutu sín fyrirsjáanlega vel í. Svona sýning er líka leikvöllur fyrir ljósahönnuð og Magnús Arnar Sigurðarson fer í öll heljarstökkin og splittin. Leikhópurinn er í sölugírnum allan tímann, stuðinu er haldið uppi af einurð og krafti (ég bara neita að kalla það energí og trú).

Slá í gegn er mannmargt og íburðarmikið stórsjó. Öllu er tjaldað til úr vopnabúri Þjóðleikhússins til viðbótar þeirri miklu meðgjöf sem tónlist Stuðmanna er. Frá sjónarhóli skemmtunar næst harla góður árangur og fagnaðarlætin á frumsýningarkvöldinu voru eins og í Atlavík ’84. Úr bæjardyrum leiklistar horfir aðeins öðruvísi við. Leikræni efniviðurinn er vægast sagt rýr og ekki erfitt að ímynda sér viðbrögð listrænnar forystu leikhússins ef því bærist slíkt handrit í póstinum. Þau yrðu alla vega ekki að opna alla skápa, ræsa allar vélar, ráða stóra hljómsveit og sirkus utan úr bæ.

Þjóðleikhúsið er ekki fjáröflunararmur Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Það hefur listrænum skyldum að gegna. Það er ekki sama hvað það gerir, eða hvernig það gerir það, þó að öryggisnet tónlistar allra landsmanna grípi það í þetta sinn og skili öllum brosandi heim.

þriðjudagur, janúar 30, 2018

Lóaboratoríum

Eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Valdimar Jóhannsson. Sviðshreyfingar: Ásrún Magnúsdóttir. Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Friðrikka Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Sokkabandið frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins 26. janúar 2018.

Við lifandi komin


Hvað eigum við að kalla mannlífsvinkil Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur sem birtist í teikningum hennar í blöðum, vefjum og bókum, og er nú kominn á svið? Fyrir utan „fyndinn“ og „nauðsynlegan“ auðvitað. Mér dettur í hug orðin „martraðarraunsæi“ og „hvunndagsgróteska“ yfir þessar gráthlægilegu myndir af fólki – aðallega konum – að mistakast sú list að hafa betur gagnvart áreiti og kröfum umhverfisins. Að reyna án árangurs að skapa sér einhverskonar vettvang eða griðastað til að líða sæmilega í þessum tryllta sirkus sem samtíminn er. Langoftast hittir Lóa í mark, er morðfyndin og sannsögul um það ástand sem hún lýsir. Auðvitað er freistandi að gefa svona efnivið frekara líf á fjölum leikhússins.

Vandasamt er það samt. Það er bæði kostur og galli að í listheimi Lóu, rannsóknarstofunni Lóaboratoríum, er engin framvinda, engir fastagestir með nafn og kennitölu, hvað þá forsögu. Límið felst í afstöðu höfundar, persónueinkennum sem ganga manna – aðallega kvenna – á milli. Hendur leikskáldsins Lóu eru því óbundnar hvað þetta varðar, en um leið færra að halda sér í. Eins þarf að ákveða að hve miklu leyti handritið á að taka mark á kröfum og hefðum leikhússins. Leikhúsgestir nútímans eru orðnir öllu vanir hvað þetta snertir og að sumu leyti gengst Lóa meira inn á leikreglurnar en bráðnauðsynlegt getur talist.

Tvær íbúðir í Reykjavík. Eða eiginlega lítil einbýlishús, ef skemmtileg umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er tekin á raunsæisorðinu. Í öðru þeirra býr hinn rauðvínslegni bókaútgefandi Stella, og þegar verkið hefst er Anna, stillingarljósið dóttir hennar, að flytja inn eftir að hafa heykst á lokahnykknum í mastersnáminu sínu. Handan götunnar (girðingarinnar?) býr geðhvarfasjúka YouTube-stjarnan Inga í húsi foreldra þeirra Brynju, hvataferðafararstjórans sem leitar heim eftir ástarlífsskipbrot.

Þarna er komin hæfileg rannsóknarstofa fyrir Lóu og upphefst mikið, beitt og á köflum alveg óborganlegt grín þar sem útlit, hagsmunir, lífsviðhorf, matarsmekkur, stíll, farsæld og árangur í hamingjukapphlaupinu mynda einhverskonar sjöþraut sem konurnar fjórar keppa í af mismiklu harðfylgi og ójöfnum árangri, öllum þó frekar dapurlegum og eftir því hlægilegum. Orkan í handritinu tekur dálitlar dýfur þegar reynt er að búa til framvindu, tengja saman atriði, gangast undir formkröfur leikritunar. Reyndar er ruglingurinn með pizzusendingarnar fjári skemmtilegur, eins einfaldur og hann þó er, ekki síst vegna tilhugsunarinnar um að einhver panti sér Hawaii-pizzu með engum ananas. Stórkostlega sér-Lóu-leg hugmynd og synd að forseti lýðveldisins var ekki á þessari frumsýningu til að verða vitni að þessu. Önnur element sem eiga að skapa framvinduspennu, svo sem æskuminningar og áhugi Brynju á að koma húsi þeirra systra í verð, verður meira til trafala. Annars er best og skemmtilegast þegar replikkutennisinn fær að ganga ótruflaður og nokkurn veginn stefnulaust.

Sokkabandskonur njóta sín vel í þessum efnivið og Kolfinna Nikulásdóttir stýrir þeim af skilningi og smekkvísi. Stella, þessi drafandi og uppgerðarsjálfsörugga subba, varð ljóslifandi og morðfyndin hjá Arndísi Hrönn Egilsdóttur. Brynja er mögulega sú „venjulegasta“ í galleríinu, en þá kemur sér vel hvað Maríu Hebu Þorkelsdóttur lætur vel að lýsa óöryggi. Það er vandasamt að halda uppi orkunni í senum þar sem persóna mótleikarans er nánast óstarfhæf af þunglyndi, en það tekst Maríu Hebu og þegar Elma Lísa Gunnarsdóttir skríður loksins undan sænginni eins og pallíettufiðrildi og svífur á djammið á vængjum maníunnar er það líka listavel gert og fjári vel skrifað.

Þær þrjár hafa lengi verið nokkuð áberandi í sýningum í leikhópageiranum og það nýtist þeim í týpuleikhúsi eins og hér er á ferð. Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir er nær því að vera óskrifað blað og það er kannski meðal annars þess vegna sem það er í persónu Önnu sem mér fannst ég fá hreinustu myndina af hinum teiknaða heimi Lóu. Mér þótti Jóhanna Friðrika til dæmis hreyfa sig eins og ég ímynda mér að þessar persónur myndu gera. Svona myndu þær ganga, einmitt svona myndu þær spritta á sér hendurnar, svona væri að sjá þær hekla. Og auðvitað myndu þær hekla. Fínlega unnin persóna og viss furða að hún skili sér til áhorfenda í gegnum brussuganginn allt í kring. Ekki fylgir sögunni í leikskrá hvað drengurinn heitir sem færir þeim pizzurnar en hann skilaði sínu óaðfinnanlega. Nema pizzunum reyndar.

Þó umbúnaður sé hvorki ríkulegur né fágaður þá er hann áhrifaríkur. Leikmyndin þénug og sannfærandi og mikil prýði, ef það er rétta orðið, að draslinu hjá þeim systrum Ingu og Brynju. Búningar Sigríðar Sunnu meira og minna nákvæmlega jafn ósmekklegir og þörf er á. Vídeóin sniðug og „rétt“ og tónlistin vel valin og unnin hjá Árna Rúnari Hlöðverssyni. Gaman að dansútgáfunni af hringitóninum og dansuppbrotin öll skemmtileg, en Ásrún Magnúsdóttir á heiðurinn af sviðshreyfingum.

Litla svið Borgarleikhússins hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir rannsóknir á þjóðarsálarástandinu í vetur. Kartöfluætur Tyrfings Tyrfingssonar og nú Lóaboratoríum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur eru tvær vel heppnaðar atlögur að því að skoða persónur á jaðrinum takast á við samtímann. Í báðum er boðið upp á frumlega nálgun og húmor af súrara og svartara taginu. Lóaboratóríum hefði grætt á meira sjálfsöryggi gagnvart forminu, að efniviðnum sjálfum hefði verið treyst betur. Eða þá ef stigin hefðu verið fleiri og markvissari skref í átt að rétt formuðu leikriti. Eða jafnvel söngleik, ég heyri hann alveg fyrir mér. Engu að síður stendur það sem Sokkabandið ber á borð algerlega fyrir sínu og mun vekja hlátur og skapa hroll hjá öllum þeim sem voga sér inn á tilraunastofuna.

x

fimmtudagur, janúar 18, 2018

Efi

Eftir John Patrick Shanley. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Stefán Baldursson. Leikmynd og búningar: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Veigar Margeirsson. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 13. janúar 2018, en rýnt í 2. sýningu 14. janúar 2018.


Sálarháski alstaðar 

„Það sem raunverulega á sér stað í lífinu er ekki þannig að það sé hægt að leggja út af því. Sannleikurinn er ekki efni í góða predikun. Hann er svo oft ruglingslegur og niðurstaðan óskýr.“

Þannig kemst séra Flynn að orði þegar systir James spyr hann út í sannleiksgildi aldeilis prýðilegrar dæmisögu sem hann notaði í predikun um slúður. Þetta er alveg rétt hjá prestinum. Kannski þess vegna sem leikskáld grípa gjarnan til þess að staðsetja siðklemmuleikrit innan veggja klausturs og kirkju. Þar eru línurnar einfaldari, færra sem hefur áhrif á gjörðir fólks. Og auðvitað meira í húfi en hjá hinum vantrúaða leikmanni nútímans.

En jafnvel í þessu einfaldaða umhverfi er manneskjan söm við sig og stjórnast af ótalmörgu öðru en siðviti og trú. Persónuleiki, lífsreynsla, samfélagsstaða, hvatir; allt hefur þetta áhrif til góðs og ills. Þetta veit John Patrick Shanley mætavel og þess vegna er Efi alls ekki réttnefnd „dæmisaga“, heldur verk skrifað innan leikritunarhefðar þar sem aðstæður og atburðir líkja einmitt eftir hinum ruglingslega og óskýra raunveruleika, innan kirkju og utan. Sem því nemur verra efni í dæmisögu.

Við kirkju Heilags Nikulásar í New York er starfræktur barnaskóli. Þar ræður ríkjum systir Aloysius, framúrskarandi fær í sínu starfi, með óbilandi undirstöðu í kennisetningunum og einstrengingsleg og hrokafull eftir því. Hinn léttúðugi nútími hefur hafið innreið sína í gervum ungnunnunnar systur James og séra Flynn. Skólastýran hefur vald til að móta stúlkuna að vild, en öðru máli gegnir um prestinn. Þegar atvik varðandi einn altarisdrengjanna vekur grunsemdir um misnotkun gengur systir Aloysius í málið af röggsemi sem fer jafnvel á skjön við skýran valdastrúktúr kirkjunnar. Velferð barns er í húfi, en undir og saman við kraumar persónuleg andúð og hugmyndaleg togstreita. Hvaða syndir er réttlætanlegt að drýgja til að leiða slíkt mál til lykta, og er drifkrafturinn kristilegt siðgæði, umhyggja og réttlætiskennd eða eitthvað lægra? Þarna er efinn.

Þetta Pulitzer-verðlaunaleikrit er haganlega smíðað í hinni rótgrónu raunsæishefð sem nær amerískum hápunkti sínum í sumum verka Arthurs Miller. Upplýsingum er miðlað áreynslulaust og á tæknilega hárréttum stöðum til að viðhalda spennu, áhuga og óvissu áhorfenda. Persónurnar bæði fulltrúar hugmynda, stétta og lífsafstöðu en nægilega búnar persónueinkennum til að verða fyllri og nær því að líkjast fólki af holdi og blóði. Það sem á vantar til að það sé framúrskarandi er einna helst það að sálarangist systur Aloysius í lokin er ekki nægilega vel undirbyggð, eða okkur leitt nógu snemma í ljós að hún sé hið raunverulega efni leikritsins. Það er of seint að segja áhorfandanum í síðustu setningunum að það sem á undan er gengið sé í raun harmleikur og draga þá loksins fram hver sé hin tragíska hetja.

En sem sagt: fram að því afbragðsgott, og mikið fóður fyrir leikara sem hafa þessa hefð á valdi sínu. Það er óhætt að segja að það eigi við um leikhóp Stefáns Baldurssonar, sem og kunnáttu hans í meðferð efnis af þessu tagi, enda er sýningin einstaklega lipurlega sviðsett og nákvæmlega unnin svo allt komist til skila. Ég hef reyndar smá efasemdir um lögnina á frú Miller, móður altarisdrengsins sem á eina senu þar sem hún mætir til viðtals við skólastýruna sem leitar sannana fyrir illvirkjum prestsins. Mig vantaði meira óöryggi, jafnvel undirgefni, í túlkun Sólveigar Guðmundsdóttur frammi fyrir hinni valdamiklu, jafnvel ógnvekjandi systur Aloysius. Það er varla hægt að vera á jafn augljósum útivelli og frú Miller. Sonur hennar er eini þeldökki nemandinn í skólanum í írsk-ítalska verkamannahverfinu og öll hans framtíð veltur á að hann útskrifist þaðan. Ég held líka að þegar frú Miller setur fram sína sýn á málið og hryllilegar aðstæður fjölskyldunnar væri samanbitin harka rökréttari og áhrifaríkari en sýnileg örvænting. Sólveig vann vel úr þeirri leið sem valin hafði verið, verðugur mótherji skólastýrunnar.

Það lendir á ungum herðum Láru Jóhönnu Jónsdóttur að gefa sýningunni léttleika i hlutverki hæfileikaríku hugsjónakonunnar systur James, sem við sjáum að er – eðlilega – undir hælnum á systur Aloysius en getur þegar mikið liggur við staðið uppi í hárinu á henni og er glöggskyggn á bæði kosti hennar og galla. Skýr og vel unnin persóna þar sem mikið var sagt með líkamsmáli og augnaráði.

Hilmir Snær Guðnason er framúrskarandi sem séra Flynn. Geislandi af persónutöfrum og brothættum myndugleika. Reynsla, færni og hæfileikar Hilmis Snæs nýtast til fullnustu í þessum stíl, við sjáum áreynsluleysi meðan tæknin vinnur vinnuna. Þeir Stefán og Hilmir stilla sig algerlega um að gera Flynn grunsamlegan eða ljá honum einhver einkenni sem falla að staðalímyndum um níðinga. Sem eykur spennustigið fremur en hitt.

En auðvitað er endurkoma Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur stóru fréttirnar. Það er óhætt að segja að það sé umtalsverður stæll yfir henni. Stjörnubragur. Systir Aloysius verður bæði ómótstæðileg og ógnvekjandi í túlkun Steinunnar Ólínu, hún drottnar yfir sviðinu og allar setningar sem eiga að vekja hlátur gera það. Og aftur: áreynsluleysi. Vald á viðfangsefninu. Það fer einkar vel saman með því valdi sem persónan hefur lengst af á aðstæðum og öllum í kringum sig, að henni sjálfri meðtalinni.

Leikmynd og búningar eru verk Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur. Búningarnir stýrast eðlilega af raunsæisnálgun sýningarinnar, nunnur og prestur skrýdd eins og vera ber, þó háir hælar skólastýrunnar hafi fengið mig til að velta vöngum. Og kannski hefði frú Miller mátt mæta örlítið settlegri með siðprúðari pilssídd á fundinn í klausturskólanum.

Umgjörð Þórunnar um verkið er eins einföld og verða má. Hvítur bogadreginn veggur sem lita mátti með ljósum og varpað var á fallegum trúarlegum teikningum milli þátta. Einnig er gefið til kynna með texta hvar senurnar eiga sér stað, sem vinnur með dæmisagnahugmyndinni en á móti raunsæiseðli verksins en truflaði hvorki né gerði gagn þegar upp var staðið. Íþróttavallarmerkingar á sviðsgólfinu þóttu mér meira truflandi en gefandi. Tónlist Veigars Margeirssonar er þénug og hógvær. Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar stingur hvergi í eyru. Húsgögn og annar sviðsbúnaður naumhyggjulegur mjög, hér er öll áhersla á list leikara og nákvæma meðferð texta.

Fjórmenningarnir standa vel undir þeirri ábyrgð. Sýning Þjóðleikhússins á Efa er prýðistækifæri til að sjá framúrskarandi leikhóp flytja af öruggu listfengi vel uppbyggt og alvörugefið verk sem ætlar sér þegar upp er staðið aðeins um of sem drama en rígheldur leikhúsgestum, skemmtir og hreyfir við.


þriðjudagur, janúar 16, 2018

Himnaríki og helvíti

Eftir Jón Kalman Stefánsson í leikgerð Bjarna Jónssonar. Leikstjórn: Egill Heiðar Anton Pálsson. Leikmynd og kvikmynd: Egill Ingibergsson. Teikningar og kvikun: Þórarinn Blöndal. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Tónlist og hljóðmynd: Hjálmar H. Ragnarsson. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Árdís Bjarnþórsdóttir. Hljóðfæraleikarar: Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á stóra sviði Borgarleikhússins 11. janúar 2018.

Listin að lifa af

,,Þetta var tími þegar fólk var bæði óskaplega opið og dramatískt í samskiptum en einnig lokað og sýndi mikla hörku hvað við annað,“ segir Bjarni Jónsson, leikgerðarsmiður Himnaríkis og helvítis, í viðtali í leikskrá sýningarinnar. Þetta er skörp athugasemd og gefur kannski innsýn í hvers vegna þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar og þó sérstaklega fyrsta bók hans, samnefnd sýningunni, hefur eignast sess sinn í hjarta lesþjóðarinnar. Hér eignast einstakur tónn og nálgun Jóns á skáldskapinn (ég vil síður kalla það „stíl“) heimili þar sem eiginleikar hans og tjáningarmáttur njóta sín í fullkomnu samræmi við umfjöllunarefnið. Persónur Jóns njóta þess einmitt hvernig hann gefur þeim færi á að vera opnar og dramatískar á áhrifaríkan hátt, fyrir utan hversu skáldlega og upphafið sögumaðurinn lýsir einatt þeirra innra lífi. Og harkan, hrjóstrugt yfirborð persóna sem neita eða geta ekki lifað opnar, heilla einatt þennan höfund og kalla fram margt það magnaðasta sem hann skrifar.

Þrátt fyrir að þríleikurinn – einkum fyrsta bindið – hafi hitt þjóðina í hjartastað hefur hann líklega ekki búið þar nógu lengi til að þola, eða verðskulda, galgopalega póst-dramatíska þeytivindu í anda Þorleifs Arnar Arnarssonar eða Yönu Ross. Það gæti að minnsta kosti verið ein skýring þess hve hlutlaus afstaða er tekin til efnisins í sýningu Borgarleikhússins. Mögulega er ósanngjarnt að kalla verk þeirra Bjarna og Egils Heiðars Antons Pálssonar leikstjóra „gamaldags“, en það er sannleikskjarni í því líka. Örlítið meira afstöðupúður hefði ekki sakað, sýnist mér úr sæti eftiráskýrandans. Þetta bitnar ekki síst á þorpsbúunum, þar sem hin skýri dilkadráttur höfundar í góða og slæma fólkið er ýktur og engum gráum flötum hleypt að. Fyrir vikið afhjúpast viss klisjutilhneiging í persónugalleríinu. Í þriðja hluta kviknar sú hugsun að það sé engu líkara en Charles Dickens hafi ákveðið að leggja frá sér Nickolas Nickleby og skrifa frekar Heimsljós eftir sínu höfði.

Fyrir utan orðspor bókanna og fegurð textans er erfitt að koma auga á kosti þríleiksins sem efnis í leiksýningu, og það verður að viðurkennast að sýning Borgarleikhússins nær ekki fyllilega að gera þá augljósa. Dramað, átökin í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna eru fyrst og fremst við náttúruöflin; veðurofsa, sjó og snjó, nokkuð sem leikhúsið er ekki á heimavelli við að lýsa, og þegar togstreitur innan mannlegs samfélags taka við í Hjarta mannsins þá siglir Jón hættulega nálægt melódramanu, nokkuð sem getur verið leikhúsinu skeinuhætt, nú á öld kaldhæðni og efasemda.

Hitt er líka erfiðleikum bundið hvað vitundarmiðja bálksins, strákurinn sem lifir af sjóferðina örlagaríku, kemst undir verndarvæng sterkra og sjálfstæðra kvenna og tekur að lokum örlög sín í eigin hendur, er kyrrstæð persóna. Hann birtist nánast fullþroskaður í upphafi sýningar, nývaknaður í verbúðinni. Opinn, greindur, skapheitur, listelskur, leitandi, hugrakkur og ástríkur. Síðan fylgjumst við með honum takast á við heiminn með þessum vopnum sem honum eru fengin á fyrstu síðu. Sem gengur mun betur upp á pappír en sviði. En þá kemur til kasta Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur. Sköpun hennar á stráknum er ekki hægt að kalla neitt annað en leikhústöfra. Algerlega sannfærandi túlkun og þrungin útgeislun sem staðsetur strákinn ævinlega í miðri athygli áhorfandans.

Það er auðveldara að sætta sig við það hvað aðrar persónur eru kyrrstæðar og eintóna, þetta er jú saga stráksins. Allar þessar myndir eru skýrar og skarpar, vel studdar af fallegum, viðeigandi en óneitanlega ansi ófrumlegum búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Valur Freyr Einarsson hreppir gjarnan, og brillerar í, hlutverkum illgjarnra ríkisbubba og fór áreynslulaust með Friðrik, en skapar líka eina af áhugaverðari og dýpri týpum sýningarinnar úr hrúðurkarlinum Pétri. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er Andrea kona hans, sem strákurinn „bjargar“ úr ömurlegum aðstæðum, fallega teiknuð persóna en sérkennilegt að hafa þessa brotnu konu svona fagra og beina í baki – hefði ekki verið áhugaverðara að láta strákinn einan um að sjá í henni fegurðina? Það geislar líka af tálkvendinu Ragnheiði og hinni elskuðu Álfheiði í meðförum Birnu Rúnar Eiríksdóttur, eins og maklegt er.

Stoltar og fagrar eru þær líka stöllurnar Helga og Geirþrúður og Sigrún Edda Björnsdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir fara létt með að sýna á þeim þessa einu hlið. Kolbeinn blindi, bitastæðasta hlutverk Haraldar Ara Stefánssonar, er frekar þreytandi í sínum hrópum. Var virkilega ekki pláss fyrir senu með stráknum að lesa fyrir hann? Það hefði stækkað mynd þeirra beggja í sýningunni, dýpkað skilning okkar á aðalpersónunni. Bárður var skemmtilega lífsglaður hjá Birni Stefánssyni og dauði hans hálfu átakanlegri fyrir vikið.

Það kom mér svolítið í opna skjöldu að það er hin sérkennilega og sviðsetningarlega vandasama miðbók, Harmur englanna, sem rís hæst í sýningunni. Þar blómstrar umgjörð Egils Ingbergssonar, dúkurinn stóri sem leikhópurinn magnar með illviðrið, skápallurinn, kröftugar teikningar Þórarins Blöndal og lýsing Þórðar Orra Péturssonar auk hljóðvinnslu Baldvins Þórs Magnússonar. Þarna gengur leikhúsið af einurð og heiðarleika á hólm við verkefni sem ekki er sjálfgefið að takist, og sigrar.

Þarna í hríðinni kemst sýningin líka næst því að gefa persónu áhugavert dramatískt líf í Jens pósti, þökk sé tveimur atriðum. Annarsvegar þar sem hann opnar sig fyrir stráknum í svaðilförinni miklu um ástæður þess að hann verði, og muni, halda lífi, og síðan þar sem ferðafélagarnir liggja í vari við líkkistu Ástu heitinnar og hann útlistar ástarmál sín. Allt eru þetta þó frásagnir af dramatík utan sviðs, líkt og í frönskum sautjándu aldar harmleik. Bergur Þór Ingólfsson er firnagóður Jens, sérstaklega í eintalinu magnaða um systur sína. Hannes Óli Ágústson kröftugur Hjalti vinnumaður, en á sitt stærsta og besta hlutverk í hinum ógæfusama Gísla skólastjóra sem nær mögulega einhverskonar landi í leikslok. Ekki endilega frábær hugmynd samt að láta Hannes Óla syngja einsöng. Grunnhugmynd að baki tónlistabeitingu, með hljóðfæraskipan og lagaval er snjöll, þau Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir spiluðu hnökralaust og allir sungu hreint. Nýju lögin hans Hjálmars H. Ragnarssonar voru falleg og í réttum anda um leið og þau báru skýr höfundareinkenni.

Leikgerðarhöfundur og leikstjóri vinna með viðteknar aðferðir skáldsagnaleikgerða í þessari sýningu. Framvindunni er ágætlega skýrt til skila haldið frá upphafi til enda, og aðdáendur orðlistar Jóns Kalmans fá fylli sína. Fyrir utan að skila sínum leikhlutverkum, flestir fleiri en einu, með þeim takmörkunum sem aðferðin setur djúpri og innlifaðri persónusköpun, gegnir leikhópurinn hlutverki sviðsmanna og sögumanns. Umbreytingar og sviðsetning er meira og minna fumlaus en ég hef efasemdir um þá ákvörðun að leggja drjúgan hluta sögumannstexta í munn talkórs leikaranna. Það þarf í það minnsta að útfæra betur. Hópurinn hljómaði oftast meira eins og illa samstilltur söfnuður að fara með trúarjátninguna í sunnudagsmessu en fagmenn að beita úthugsuðu listrænu stílbragði. Kannski var það meiningin. Vera má að kórinn slípist, en er þetta ekki óþörf upphafning textans?

Almennt þykir mér hér stigið fullvarlega til jarðar. Ljóst er að þríleikur Jóns er efniviður sem nýtur sín ekki sjálfkrafa til fullnustu í leikrænum búningi. Engu að síður er honum mikið til hlíft við þeirri róttæku rannsókn sem kröftugar leikgerðasýningar undanfarinna ára hafa byggst á. Útkoman er ekki nægilega sjálfstætt listaverk. Það er augljóslega meðvituð listræn ákvörðun og skilar bæði styrkleika og ágöllum sýningarinnar.

Leikgerðin afhjúpar veikleika þessa metnaðarfulla þríleiks. Melódramað, grunnskreiða samfélagsgreiningu og skort á þróun persóna. Sýningin nær engu að síður þegar best lætur að skila og gera sér mat úr umtalsverðum styrkleikum skáldskapar Jóns Kalmans og þeim innblæstri sem í hann má sækja. Þarna munar mikið um eftirtektarverða frammistöðu Þuríðar Blævar. Áhorfendur verða líka vitni að áhrifaríkri beitingu meðala og tækni sviðsins til að skapa aðstæður og virkja ímyndunarafl áhorfandans til að horfast í augu við náttúruöflin og kraftana innra með okkur.

föstudagur, desember 29, 2017

Hafið

Eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjórn: Sigurður Sigurjónsson. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Myndband: Ingi Bekk. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson. Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og fleiri. Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Baltasar Breki Samper, Birgitta Birgisdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Oddur Júlíusson, Snorri Engilbertsson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins þriðjudaginn 26. desember 2017.

Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

Það reyna fæstir lengur að taka mannlífið þeim tökum sem Ólafur Haukur Símonarson gerir í Hafinu, sem birtist svo eftirminnilega á Stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir tuttugu og fimm árum og snýr aftur nú, eins og krakkaskammirnar hans Þórðar útgerðarjaxls. Formgerð og aðferð raunsæislegs „stofudrama“ að hætti næstsíðustu aldamóta er ekki lengur útgangspunktur sviðshöfunda, og hætt við að það sérhæfða handverk sé á leiðinni á Árbæjarsöfn vestræns leikhúss. Sem er synd, því þegar best tekst til eru fáar leiðir skilvirkari til að skoða samfélag og sálarlíf, en þó einkum og sér í lagi samspil þessa.

Hið sérkennilega óréttlæti sem íslenska kvótaframsalskerfið leysti úr læðingi liggur mjög vel við höggi fyrir rannsóknaraðferðir raunsæisleikhússins. Helstu dauðasyndir leika lausum hala þegar óverðskuldaðir milljarðar eru innan seilingar, og ekkert virðist standa í vegi fyrir græðginni annað en rómantískar hugmyndir um lífshætti í útrýmingarhættu. Skemmtilega kaldhæðnislegt líka að fulltrúar þessarar rómantíkur í verki Ólafs Hauks eru einmitt kaldhömruðustu harðjaxlarnir. Þegar allt er um garð gengið fær Kata gamla, sem fram að því hefur verið einna minnst glámskyggn í galleríi Ólafs, að bera fram hina fráleitu ósk að Bergur sjóhetja geti „byrjað með tvær hendur tómar“ líkt og Þórður forðum. Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur. Það sem er dautt er dautt, eins og Kata boðar í upphafi verks, og er viðkvæði hennar og leiðarstef verksins.

Þó Ólafur gangi í smiðju Ibsens, Shaws og Tsjékofs varðandi aðferð og form eru hans sérstöku höfundareinkenni áberandi, næstum allsráðandi. Þau eru líka stærsti styrkur verksins. „Skemmtilega kaldhæðnislegt“ er ekki verri lýsing á stílsmáta Ólafs en hver önnur. Langflestar persónanna í Hafinu falla í það mót sem við sjáum dæmi um í langflestum hinna fjölmörgu leikrita og sagna sem frá Ólafi hafa komið á löngum og starfsömum ferli: hrjúfar og harðar hið ytra, ólgandi kvika undir. Einhversstaðar leynist sárið sem kvikan sækir hitann í. Allt er þetta fólk orðheppið og fundvíst á hnyttnar spælingar og hittið eins og Amazon-indjánar með eitraðar örvar sínar. Þannig er í það minnsta fjölskylda Þórðar, sem hefur safnast saman næstsíðasta dag ársins, að beiðni ættföðurins, sem grunar að endalokin nálgist og vill að hans eigin dauði verði ekki líka endalok lífsmátans – og þorpsins. Það er hans rómantík. Þórður hefur rekið bæði fyrirtæki og heimili með harðri hendi. Allt verður þetta frá honum tekið, og kemur vafalaust engum á óvart. Það sem er dautt er dautt.

Einlínur og orðahnippingar fjölskyldunnar vekja enn hlátur í sal þegar þær eru lipurlega fluttar. Ekki síst þar sem myrkari hliðum sjávarþorpslífsins er lýst. Hér glansa Sólveig Arnarsdóttir og Oddur Júlíusson sem hafa mest af skotfærunum frá Ólafi í hlutverkum helstu afætanna, brottfluttu systkinanna Ragnheiðar og Gústa. Að ógleymdri Guðrúnu S. Gísladóttur, sem leikur nú hverja skrítnu kellinguna á fætur annarri með miklum sóma og gerði Kötu ágæt skil.

Það er mikill safi í þessum texta, feitir bitar fyrir flinka leikara. En þrátt fyrir þessa skemmtan og mikilsvert erindi náði Hafið þegar á heildina er litið samt ekki nægilegum tökum á þessum áhorfanda að þessu sinni.

Skýringanna er víða að leita. Eitt er nú að samþætting og gagnvirk áhrif samfélagsástands og fjölskylduaðstæðna eru ekki sérstaklega skýr. Fyrir vikið verður „fléttan“ heldur fyrirsjáanleg og framvindan hæg. Úr því þarna eru á annað borð stór leyndarmál þá er ófullnægjandi hversu vannærð þau verða, og snertipunktalaus við gang mála. Þetta bitnar ekki síst á Snæfríði Ingvarsdóttur í hlutverki Maríu. Harmur stjúpdótturinnar, sem einn og sér dygði í mjög hressilegt heils kvölds melódrama, fjarar ófullnægjandi út í verkinu. Það slær mig líka eins og vannýtt tækifæri hvað afstaða allra barnanna til föður síns, fjölskylduauðsins og þess hvað ber að gera er áþekk. Þessi einsleitni verður enn meira áberandi þegar búið er að fækka í systkinahópnum, en þrjár persónur eru horfnar úr verkinu frá fyrri gerð. Tæknilega séð er þessi niðurskurður þó til bóta og vel útfærður, og fyrir þá sem eru vel kunnugir verkinu frá fyrri tíð er forvitnilegt í sjálfu sér að sjá hvernig persónueinkennum hinna útstrikuðu systkina er deilt meðal þeirra sem eftir standa.

Sigurði Sigurjónssyni hefur ekki auðnast að vinna nægilega úr þessum ágöllum. Kannski vegur þar þyngst hvernig afstaða afkvæmanna gagnvart föður sínum er ekki bara einsleit, heldur líka án votts af ótta eða virðingu frá upphafi, og þróast hvorki né breytist að ráði þessa örlagaríku sólarhringa. Þarna hefði þurft að leggjast í mjög nákvæma vinnu með valdastöðu, ekki síst þar sem Þröstur Leó Gunnarsson, jafnmikið afbragð leikara sem hann annars er, er ekki beinlínis á heimavelli við túlkun hrúðurkarla á borð við Þórð. Á samleik Þrastar og allra í kringum hann hvílir spenna sýningarinnar, líkt og ástandið á heimilinu ræðst af stöðu loftvogarinnar. Það hefur ekki tekist nægjanlega vel að teikna upp þetta spennuvirki, svo það skili sér út í sal.

Sérstaklega var furðulegt að sjá eiginmann dótturinnar snerta Þórð kæruleysislega, jafnvel dangla hugsunarlaust í hann með flugeldapoka, án þess að það vekti nein viðbrögð eða hefði eftirmál. Þar fyrir utan kom það í hlut Snorra Engilbertssonar í þessu hlutverki að bjóða upp á áhugaverðustu persónutúlkun kvöldsins. Í meðförum hans verður Guðmundur kostulegur, næstum tsjékovskur, einfeldningur – opið hjarta innan um skeldýrin. Hinn makinn, hin lífsleiða eiginkona Hermanns Þórðarsonar forstjóra, var greinilega auðleyst fyrir Birgittu Birgisdóttur, sem þarf að fara að fá bitastæðari verkefni en lítilsigldu bytturnar og tálkvendin sem hún hefur verið að brillera í undanfarið.

Nostursamleg statusvinna hefði líka auðveldað okkur að skynja betur þrjár ólíkar afstöður til mála. Í fyrsta lagi höfum við „afæturnar að sunnan“, Ragnheiði og Gústa. Þá er það Hermann, skyldurækni heimóttarbróðirinn, sem Baldur Trausti Hreinsson gerir sannfærandi skil en hefði mátt sleppa að gera alveg svona kallalegan. Og svo aflaklóin Bergur. Sjóarinn var kraftmikill hjá Baltasar Breka Samper, hann tók sitt skipstjórapláss í sínum tveimur innkomum, en mig vantaði svolítið slorkeiminn af honum, tilfinningu fyrir að hann væri þrátt fyrir allt ekki á heimavelli í landi, í þessari stofu. Og aftur: skýrari aðgreiningu frá uppeldissystkinum hans. Afstöðu. Það hefði líka þurft að hjálpa Elvu Ósk Ólafsdóttur að vera talsvert minna sjálfbjarga og veraldarvön sem Kristín, svo einhver leið væri að trúa því að Hermann gæti vafið henni um fingur sér með undirskriftir fyrir aftan bak sambýlismannsins. Sem reyndar var erfitt að trúa að ætti nokkurt einasta erindi í þjónustuíbúð fyrir sunnan, hvað þá hún, kona í blóma lífsins.

Opnar leikmyndir sem nýta kosti hringsviðsins eru mjög í tísku í Þjóðleikhúsinu þessi árin. Við minnumst Djöflaeyjunnar, Horft frá brúnni, Hússins og Óvinar fólksins. Finnur Arnar Arnarson fer skylda leið hér, okkur býðst að horfa inn í útgerðarmannshöllina frá öllum hliðum. Þetta eru ekki íburðarmikil húsakynni ef undan er skilinn flygillinn sem Þórður getur rétt svo spilað á. Samtal Maríu og Gústa á dyratröppunum seint í verkinu, sem og fundur Þórðar og Kristínar við útigrillið græddu heilmikið á að losna út úr stofunni, en það er mín tilfinning að hér hafi leynst fleiri tækifæri til að brjóta upp stífa þáttaskiptingu verksins, ibsenska „stofuleikhúsformið“ og umferð fólksins um rýmið. Ólafur Ágúst Stefánsson lýsir heimilið með prýði og öldugangurinn í myndbandsverkum Inga Bekk eykur á stemminguna. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur styðja persónurnar ágætlega.

Það hefur verið óeðlilegt ástand í húsi útgerðarmannsins þegar börnin voru að alast upp, og þannig er það enn. Vafalaust hefur honum þótt það nauðsynlegt til að hafa aga og skapa sér svigrúm til að lifa í sátt við eðli sitt. Hvað svo sem segja má um nauðsyn og gagnsemi kvótakerfisins til að skapa útveginum svigrúm þá hefur það skapað óeðlilegt ástand í bæjum þar sem lífið er fiskur. Hafið er metnaðarfull og kröftug tilraun til athugunar leikhússins á þessari stöðu og hvert hún leiðir, bæði sálir og samfélag. Til þess er leikhúsið. Að þessu sinni vantar eitthvað upp á að kvikni í tundrinu, þótt hér og hvar leiftri snjallar lýsingar og glampi á beitt tilsvör þetta gamlárskvöld.miðvikudagur, nóvember 01, 2017

Natan

Eftir Sölku Guðmundsdóttur og leikhópinn Aldrei óstelandi. Leikstjórn: Marta Nordal. Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Kippi Kaninus (Guðmundur Vignir Karlsson). Aðstoð við hreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Lýsing: Jón Þorgeir Kristjánsson. Myndbandshönnun: Kjartan Darri Kristjánsson. Leikarar: Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Birna Rún Eiríksdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Rödd á myndbandi: Hjörtur Jóhann Jónsson. Leikhópurinn Aldrei óstelandi frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins 26. október 2017.

Natan Satan

Það er okkur sem þjóð til mikils sóma hvað síðasta aftaka á Íslandi situr í okkur. Hversu mikið verra fólk værum við ef örlög þeirra Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar skiptu okkur engu? Eða ef við teldum að þau hefðu augljóslega fengið það sem þau áttu skilið. Enginn vafi virðist leika á sekt þeirra. Aðild Sigríðar Guðmundsdóttur er líka næsta óumdeild. Svo má lengi deila um nákvæmlega hver verðskuldaði hvað. Nema við erum auðvitað löngu orðin sammála um að enginn verðskuldi dauðarefsingu. Og málsbætur eiga þau vitaskuld. Um það hefur tæpast ríkt nein þöggun. Myrkur og mótsagnakenndur persónuleiki Natans Ketilssonar hefur alla tíð verið viðfangsefni sagnaritara, sem eðlilega laðast að svona mönnum eins og flugur að ljósi, eða taðhrúgum. Aldarfarið sem Illugastaðamorðin eru einhverskonar endapunktur á er kjarninn í viðtekinni söguskoðun nútímans.

Hvað ætlar hinn metnaðarfulli og ígrundandi leikhópur Aldrei óstelandi að leggja til þessara mála, hvaða blæbrigði ætlar Marta Nordal og hennar fólk að draga fram?

Einfaldleiki, tærleiki og yfirvegun einkennir nálgunina eins og svo oft áður hjá þessum listfenga leikhópi. Þar hjálpast allt í umgjörðinni að. Stílhrein leikmynd Axels Hallkels Jóhannssonar sem er í senn nútímaleg og tímalaus, hljóðmynd Kippa Kaninus, lýsing Jóns Þorgeirs Kristjánssonar og sérdeilis gullfallegir búningar Helgu I. Stefánsdóttur og milt litróf þeirra draga athygli okkar að kjarna málsins.

En er kjarni málsins kjarni málsins? Eða réttara sagt: Hvað er hægt að hreinsa burt mikið af „óþarfa“ áður en sagan hættir að virka, áður en athafnir og tilfinningar persónanna verða of abstrakt til að skiljast og hreyfa við okkur? Marta, Salka Guðmundsdóttir og leikhópurinn dansar á þessari línu í Natan.

Verkið er skipulega byggt upp í kringum fjórar „tilgátur“ um orsakir og drifkrafta atburðanna: Ofbeldi, ágirnd, ástríðu og misnotkun, sem síðan eru fleygaðar með texta úr dómsorði og öðrum gögnum um skipulag aftökunnar, sem fluttir eru í hljóðnema en áhersla á listræna umgengni við hið talaða orð er eitt af aðalsmerkjum hópsins.

Auðvitað eru tilgáturnar allar „réttar“, samskipti fólksins á Illugastöðum bera öll þessi einkenni. Enda er sterkur samhljómur milli þátta. Þrúgandi andrúmsloft er grunntónninn. Það er alveg skýrt og vel útfært í hreyfimynstri og stuttum atriðunum, eða myndunum sem texti Sölku og leikhópsins dregur upp. Því styttri því beittari, fyrir utan síðan eintölin þar sem skáldið breiðir meira úr sér og fyllir út í sálarlífsmyndirnar.

Ekki nægjanlega samt. Því helsti galli verksins, það sem stendur áhrifum þess helst fyrir þrifum, er óskýr persónusköpun. Þar held ég að hin listræna stefna hreinsunar og eimingar vinni gegn markmiðunum. Við náum ekki nægu sambandi við þetta fólk, skiljum ekki aðstæður þess og flækt samskiptamynstur. Það er ekkert pláss í þessu verki, þessari nálgun, til að draga upp mynd af því samfélagi sem gerir atburðina mögulega.

Fyrir vikið verður Natan einhverskonar samræmdur heimilisharðstjóri, en ekki sá sérkennilega samsetti maður sem hann var, hvað þá barn síns mótandi tíma. Það þjóðskipulag og hugmyndafræði sem myndar farveg harmleiksins fær ekkert pláss. Meira að segja yfirþyrmandi sviðsnærvera Stefáns Halls Stefánssonar nýtist ekki hér til að skapa nauðsynlega spennu. Persónueinkenni stúlknanna tveggja eru dregnar eru of lauslegum, almennum dráttum. Það er greinilega sterk og virðingarverð ætlun höfunda sýningarinnar að rétta hlut þeirra Agnesar og Sigríðar, en það á virðist mér þátt í að gera þær of sviplausar. Agnes er vissulega keik og sterk í túlkun Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, en hún er eiginlega ekkert annað. Og það er ekki nóg. Eins hefur Birna Rún Eiríksdóttir alltof lítil tæki til að sýna okkur hvað stýrir gjörðum Sigríðar, hvernig manneskja hún er, og það sama á við um Friðrik Kjartans Darra Kristjánssonar.

Almennt má segja að sýningin sé fáguð um of. Hún er sennilega óskiljanleg þeim sem ekki þekkja sögu Illugastaðamorðanna og vita ekkert um samfélagsgerð fyrri alda á Íslandi. Hvers vegna drápu þau Natan? Það var ekki að ástæðulausu. Það var heldur ekki réttlætanlegt. Það verður bara skiljanlegt ef smáatriðunum er til skila haldið. Persónugerð allra sem við sögu koma. Atvikum aðdragandans. Sálarástandinu sem skapast í deiglu tiðarandans.

Án þessa erum við engu nær. Sýning Aldrei óstelandi hjálpar ekki til skilnings, en er fágað listaverk í sjálfu sér. Við krefjumst annars og meira af einum af okkar fremstu sjálfstæðu leikhópum.

þriðjudagur, október 31, 2017

Risaeðlurnar

Eftir Ragnar Bragason í leikstjórn höfundar. Leikmynd: Halfdan Pedersen. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Tónlist: Mugison. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Pálmi Gestsson, Guðjón Davíð Karlsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson og María Thelma Smáradóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 20. október 2017, skrifað um 3. sýningu 27. október 2017.

Fulltrúar lands og þjóðar

Þessa dagana ómar stjórnmálaþras í eyrum okkar og höfði. Þá rifjast upp að þegar frambjóðendur sem vilja breyta forgangsröðinni eru krafðir svara um hvað megi skera niður í ríkisútgjöldum er utanríkisþjónustan næstum alltaf það fyrsta sem nefnt er. Sem er ekkert skrítið. Sendiráðin í huga okkar, sem þekkjum þar ekkert til, eru ekki svo frábrugðin þeim sem Ragnar Bragason hefur hugsað upp og sett á svið í Þjóðleikhúsinu núna í haust. Auðvitað ekki alveg svona gegndarlaust glórulaus, en samt.

Það er nú meira pakkið sem er fulltrúar okkar í Washington. Elliði sendiherra er graðkall af gamla skólanum, og hefur tekist að halda þjóðrembuárunni ótrúlega hreinni þrátt fyrir að hafa eytt starfsævinni í stórborgum heimsins, með Jónas og Einar Ben sem sínar stoðir og styttur. Frú Ágústa gefur honum lítið eftir í þröngsýni og hefur fyrir löngu stirðnað í innantómum hirðsiðum atvinnugestgjafans og andlausu hannyrðabjástri. Svo eru þau auðvitað drykkfelld. Segir sig sjálft.

Ung og sjálfhverf listakona snapar sér kvöldverð í sendiherrabústaðnum, enda bætir hún það upp sem hana skortir af hæfileikum og erindi með skarpri innsýn í hvernig kaupin gerast á eyrinni. Í eftirdragi er kærastinn Albert, ósköp venjulegur strákur sem elskar hana Bríeti sína Ísold „ekki viturlega, en hóflaust“, en á að öðru leyti lítið sameiginlegt með Óþelló.

Í eldhúsinu puðar hin asíska Lí Na, eins og móðir hennar áður. Hana hafa sendiherrahjónin alið upp og „íslenskað“ þó líklega hafi hún aldrei fengið að koma „heim“. Þriðja kynslóð mun fæðast eftir fjóra mánuði. Og í garðhýsinu býr sonurinn Sveinn Elliði, sem ber syndir fjölskyldunnar.

Viss form- og efnisleg togstreita einkennir verkið og stendur áhrifamætti þess talsvert fyrir þrifum. Annars vegar er hér grimmilegur svartur gamanleikur þar sem ýmsir lestir (sjálfselska, þjóðhverfa, losti og græðgi) eru ýktir og þeir sem þá bera dregnir sundur og saman í háði. Hins vegar er drifkraftur Risaeðlanna af ætt fjölskyldu- og stofudramans, þar sem leyndarmál afhjúpast og fornar syndir kalla á uppgjör og yfirbót.

Þetta hristist ekki sérlega vel saman. Það stendur groddalegu gríninu fyrir þrifum hvað höfundi virðist liggja mikið á hjarta um spillt hugarfar þessa fólks, hvað honum virðist þrátt fyrir allt liggja mikið á hjarta. Og það ómerkir dramað hvað persónurnar eru undarlega einvíðar í þjónustu hlátursins, og hvað byggingin – framvindan – er veik og fyrirsjáanleg. Verst er samt tilfinningin að Ragnari þyki þetta fólk svo fyrirlitlegt það sé eiginlega ekki áhugavert. Það er að segja sendiherrahjónin og listakonan. Sambýlismaðurinn, húshjálpin og sonurinn eru ekki jafn mikið pakk, en fara fyrir vikið undir radar höfundarins og hverfa manni einkennalaus úr minni.

Eða myndu gera það ef leikhópurinn væri ekki svona ágætur, og leikstjórinn Ragnar yfirvegaður, ef kannski ekki beinlínis innblásinn, í útfærslu sinni á gölluðum afrakstri höfundarins Ragnars. Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson hafa náttúrulega hátt í ævistarf að baki við að lenda hláturreplikkum í hraðsoðnum grínhandritum og klikka aldrei hér, ekki frekar en í Gervahverfi eða Spaugstofunni. Pálmi gæti sennilega leikið svona hrokakallpung sofandi, og þá Edda svona hégómlega, laundrukkna sjálfsblekkingarkellingu. Þessi hlutverk gera engar merkilegar kröfur á þessa þaulreyndu kómíkera, enda klikkuðu þau aldrei. Ágústa að hringja eftir þjónustustúlkunni er einn af hápunktum sýningarinnar. Eða þá Elliði langfullur að gráta það að vera ekki sendiherra stærra lands, þegar kyngetan bregst honum á ögurstund.

Öllu eftirtektarverðara er afrek Birgittu Birgisdóttur, sem nær að sýna okkur merkilega heilsteypta sjálfhverfuprinsessu. Það eru vissulega fáir drættir í Bríet Ísold en þeir eru hér dregnir skarpt og skýrt. Bjóðandi fleðulætin gagnvart sendiherranum eru hrollvekjandi yndisleg, sem og útreiknaður kuldinn í garð unnustans sem Hallgrímur Ólafsson ljær sannfærandi hversdagsmannsþokka. María Thelma Smáradóttir fær vonandi fljótlega bitastæðara tækifæri en hina óskýru Lí Nu, því hún gerir það litla sem hún þarf að gera ákaflega vel. Hlutverk Sveins Elliða er að sönnu ákaflega vannært en Guðjón Davíð Karlsson nær samt að minna leikhúsgesti á það sem við sáum í Húsinu í fyrra, að hann ræður alveg yfir alvarlegri nærveru.

Umgjörðin öll er fagmannleg. Leikmynd Halfdans Pedersen sérlega þénug og falleg og möguleikar hringsviðstækninnar nýttir af hófstilltri fimi. Búningar sendiherrahjónanna sannfærandi hjá Filippíu I. Elísdóttur, en myndi ung og djörf listakona mæta í svona boð í svona ljótum og gamaldags kjól? Hvað veit ég? Ég veit allavega að það er bannað að láta persónur í svona raunsæislegum leikheimi fara að heiman með augljóslega tóma ferðatösku eins og hér gerist.

Að flestu öðru leyti er þessu verki sýndur allur sá fagmennskusómi sem Þjóðleikhús verður að gera. Um hitt má deila, hvaða erindi Risaeðlurnar eiga upp á stóra svið hússins. Sem gamanleikur er það ágætt en ekki leiftrandi. Sem greining á ástandi fólks og samfélags er verkið því miður einstaklega klisjulegt, einfeldningslegt og grunnt. Skotmörkin eru of auðveld, framvindan of formúlukennd, leikslokin allt of fyrirsjáanleg. Það er augljóst að Ragnari Bragasyni liggur fleira á hjarta en þörf fyrir að kitla hláturtaugarnar. En þurfum við í alvörunni allt þetta batterí til að segja okkur að langfullir þjóðrembdir kallar eru ömurlegir, konurnar sem kóa þá brjóstumkennanlegar og hæfileikasnauðir listamenn fyrirlitlegir?

Er það ekki svona sirka eins gamaldags, þunglamalegt og óhagkvæmt og, tjah, utanríkisþjónustan?