fimmtudagur, mars 04, 2021

Sölumaður deyr

Eftir Arthur Miller. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Gyða Valtýsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Hljóðfæraleikur: Gyða Valtýsdóttir, Julian Sartorius, Shahzad Ismaily og Karl James Pestka. Leikarar: Jóhann Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Stefán Jónsson, Þorsteinn Bachmann, Aron Már Ólafsson, Valur Freyr Einarsson, Esther Talía Casey, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 20. febrúar 2021.

Sálin hans meðaljóns míns

Ólíkt flestum skáldsystkinum sínum í deild nútímaklassíkur virðist Arthur Miller ekki þurfa að óttast að falla í gleymsku alveg strax hér uppi á Íslandi. Öll hans helstu verk; Allir synir mínir, Sölumaður deyr, Horft af brúnni og Í deiglunni/Eldraunin hafa verið tekin til meðferðar í atvinnuleikhúsum okkar á þessari öld. Sölumaðurinn núna í tvígang og það í sama húsinu. Tennessee Williams, Eugene O’Neill og Harold Pinter gnísta tönnum í sviðsvængnum.

Hvað veldur? Það er alveg hægt að færa ágæt rök fyrir því að það séu umtalsverð ellimerki á skáldskap Millers, og fleiri ágalla mætti tína til. Hann er t.d. næstum alveg húmorslaus. Á það til að styðja sig full-þungt við hækju melódramans. Formstífnin eitt af höfuðeinkennum hans. Ekki endilega meðmæli fyrir leikhús okkar tíma, með allri sinni ást á óreiðu og íróníu.

Engu að síður eru vinsældirnar staðreynd. Ætli það sé kannski vegna þess að hann komst næst því að gera það sem margir reyndu, og við erum mikið til búin að gefast upp á: að skrifa harmleiki að fornri fyrirmynd um örlög hverdagsfólks í guðlausum heimi? Einhversstaðar vitum við að þetta er það sem leikhúsið er skapað til að skoða. 

Öll hafa höfuðverk Millers sér til ágætis nokkuð, en það er freistandi að setja Sölumanninn í sérflokk. Ólíkt hinum þremur hverfist það ekki um eina tiltekna harmræna valþröng hetjunnar. Hér er meðaljóninn sem ómeðvitað sköpunarverk þjóðfélagsins til skoðunar. Og það er kostnaður Willy Loman við að láta þetta meðvitundarleysi eftir sér sem skapar honum örlög, og öllu hans fólki. 

Og svo er hitt: þetta makalausa sérsniðna form sem Miller bjó efninu; flæðið milli nútímans – síðustu klukkutímanna í lífi Willys – og fortíðarinnar eins og hún býr í höfði hans. Og síðast en ekki síst: sambræðsla þessrar „óraunsæislegu“ aðferðar og miskunnarlauss sálfræðiraunsæisins í samskiptum og tilfinningalífi persónanna, línu fyrir línu.

Það er þrautin þyngri fyrir leikstjóra að láta þetta verk lifna á sviðinu. Að finna jafnvægi milli þess að lúta ströngu og flóknu forminu og stíl textans og þess að leggja eitthvað til málanna frá eigin brjósti. Frá mínum bæjardyrum séð hefur Kristín Jóhannesdóttir gerst of eftirlátssöm við sína 
eigin frjóu hugsun, og um leið misst sjónar á mikilvægum eigindum verksins sjálfs. 

Það kemur minna að sök með hugmyndirnar sem hún vinnur út frá og getur ekki stillt sig um að bæta hráum við: bókstaflegri útleggingu á tilvistarspeki Sartres eins og hún birtist í dæmisögunni um þjóninn í Veru og neind og hvernig líf hans er óheilindunum merkt. Að leggja hana í munn þjónsins Stanleys (Valur Freyr Einarsson) í nokkurskonar forleik, með smávegis ábót eftir hlé er vissulega óþarfi og pínu vandræðalega útfært, en auðvelt að leiða það hjá sér. 

Verra er með hvernig fínlegir sálfræðilegir drættir í samskiptum, valdatafli og tilfinningaóreiðu Loman-fólksins þurrkast að stórum hluta út í leikstíl sýningarinnar. Hér er allt meira og minna á útopnu frá því Happý rekur upp sitt óútskýrða öskur í upphafi sýningar þar til systkinin, móðir þeirra og hinir góðu grannar standa yfir moldum sölumannsins í lokin. Textinn mikið til „fluttur“ en mun síður „lifaður“, mælskulist trompar tilfinningatúlkun og samleik, svo hið ósagða, undirtextinn, skilar sér of sjaldan út milli orðanna. Þetta kemur sérstaklega illa niður á Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki Lindu, lífsakkerinu og miðpunkti fjölskyldunnar þótt eiginmaðurinn sé fókus leikritsins. Sigrún nær undir lokin að sýna okkur inn að kviku persónunnar í áhrifamiklum eftirmálanum, en þangað til gengur of mikið á. 

Jóhann Sigurðarson er líka heftur af skorti sýningarinnar á alúð við fínleg blæbrigði í titilhlutverkinu, en á þó ýmis tól í verkfæraskúrnum sínum sem nýtast við að sýna okkur meðalmennið sem lætur ranghugmyndir dogmatískrar velgengnishugsjónar kapítalismans stýra sér fram af brúninni. Mikilfengleg nærveran og á móti þessi sérkennilegi bernski undirlægjutónn sem Jóhann á til koma í góðar þarfir. Eins og flest í sýningunni eru hans sterkustu stundir þegar óreiðan og ásókn minninganna er í algleymingi. Ég hef séð nokkrar uppfærslur Sölumannsins en aldrei fyrr hafa senurnar með hinum goðsagnakennda stóra bróður verið það áhrifaríkasta. Stefán Jónsson nýtur sín til fulls í skrítnu hlutverkinu og samleikur þeirra Jóhanns er sterkur. Jóhann er líka góður með Þorsteini Bachmann í hlutverki nágrannans Charley, og Þorsteini virðist ekki geta mistekist að skapa eftirminnilegar persónur úr litlu þessi árin. Aron Már Ólafsson fór snoturlega með lítið hlutverk Bernards sonar hans.

Öflugastan mótleikinn fær Jóhann frá Hirti Jóhanni Jónssyni, enda má segja að glíma Willys við eldri son sinn sé eldsneytið sem knýr persónulegan harmleikinn áfram. Hjörtur á stjörnuleik, nær að skapa sannfærandi og raunsæislega persónu úr Biff, sem sér – og sér ekki – gegnum tálsýnir fjölskyldu og samfélags. Það er mikið fjör í túlkun Rakelar Ýrar Stefánsdóttur á Happy, en ég held að það hafi verið misráðið að breyta syni í dóttur: of mikið af samspili bræðra, mæðgina og feðga skekkist og glatar merkingu sinni, sérstaklega í ljósi þess að ógerningur er að flytja verkið í heild sinni til í tíma, og það er ekki heldur reynt hér. Sérkennilegt líka að fara svona langt með daðurstilburði Happy(jar) við Stanley í veitingahúsaatriðinu. Sama má reyndar segja um farsakennda lögnina á viðhaldinu í meðförum Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur. Önnur kynbreyting er gerð á Howard, yfirmanni Willys og hún gengur betur upp í meðförum Esterar Thalíu Casey, þó stóllinn hennar hafi ögrað útlitsstíl sýningarinnar og bernskt táknmálið með lyftubúnaðinn hafi frekar kallað á fliss en nokkur önnur viðbrögð.

Ekki er vel gott að lesa í myndmál leikmyndar Brynju Björnsdóttur. Einfaldleikinn, nánast naumhyggja, ræður ríkjum, en hvítu plastboltarnir fanga athyglina án þess að láta uppi hvað þeir vilja tákna. Vekja samt upp hugrenningatengsl við tumbleweed-runna, rótleysi og þyrrking. Búningar, lýsing, tónlist og hljóðmynd þjónar sínu hlutverki en fangar ekki athygli svo neinu nemur. Eins er að mestu með áheyrilega og munntama nýja þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Pínu ótraustvekjandi samt hvað hann snarar tveimur af eftirminnilegri setningum verksins flatneskjulega: „A terrible thing is happening to him“ verður „Hann á mjög bágt“ og „Attention must be paid“ verður „Sýna nærgætni“. 

Sölumaður deyr nær alltaf takinu á sálum áhorfenda. Verkið virkaði í Kína kommúnismans fyrir daga herskálakapítalismans og það virkaði í Japan þar sem einhverjir sögðu víst „sölumanni sem ekki selur ber að fyrirfara sér“. Vægðarleysi lífshátta okkar og lygin sem við þurfum að segja okkur til að trúa á tilganginn með þeim hefur ekki þróast svo mikið á sjötíu árum að við finnum ekki fyrir Willy Loman innra með okkur. Þó uppfærsla Borgarleikhússins að þessu sinni haldi sig mikið til á yfirborðinu þá heldur þessi harmleikur hversdagsmannsins áfram að tala til okkar.

miðvikudagur, mars 03, 2021

Fullorðin

Eftir Árna Beintein Árnason, Birnu Pétursdóttur, Vilhjálm B. Bragason og teymið. Leikstjórn: Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Marta Nordal. Danshreyfingar: Unnur Anna Árnadóttir og leikhópurinn. Leikmynd: Auður Ösp Guðmundsdóttir og Jasmina Wojtyla. Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Gunnar Sigurbjörnsson. Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 8. janúar 2021, rýnir sá 9. sýningu, laugardaginn 13. febrúar 2021 í Hamraborg í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Seinni hálfleikur

Eru þær ekki frekar fáséðar á fjölunum, sýningarnar sem hafa augljóslega og meðvitað þann tilgang einan að skemmta áhorfendum með nýju og sérsniðnu efni um samtíma okkar? Hefur leikhúsið gefist upp á revíuforminu og eftirlátið sjónvarpinu sketsakvótann, sem það er síðan ekkert að sinna heldur? Það má alveg líta á Fullorðin hjá Leikfélagi Akureyrar sem undantekninguna sem sannar regluna, allavega meðan Veislan sem Borgarleikhúsið boðaði til fyrir að manni finnst eilífð síðan er ósýnd enn. Mengið „atvinnuleikhús á Íslandi“ er sannarlega lítið svo kannski eru tvær sýningar til marks um stefnubreytingu og blómaskeið. Þetta er allavega kærkomið og ætti að vera fastur stallur í listrænum fæðupýramída þjóðarinnar. Konfektmolinn á gamlárskvöld er ekki nóg.

Fullorðin er sem sagt sketsasýning og viðfangsefnið kemur fram í titlinum. Fullorðinsfræðsla í bókstaflegri merkingu orðsins: skýrsla um lífshætti miðaldra meðaljóna með þá rannsóknartilgátu að þó almennt sé gert ráð fyrir að fólk á þeim aldri sé komið með bæði skilning og tök á listinni að lifa þá fer því auðvitað fjarri. Ef svo væri er óvíst að mannfræðirannsókn hópsins væri svona gráthlægileg þegar best tekst til.

Því það er hún. Hugmyndirnar eru margar snjallar, sumar algerlega augljósar og standa og falla með útfærslunni. Sumar falla vissulega, en nógu margar standa til að Fullorðin sé hin besta skemmtun heilt á litið.

Margt kemur þar til. Nefna má hvað textinn er oftast áberandi vel mótaður, bæði ræður sem beint er að áhorfendum og samtölin. Ófáar replikkur smella eins og svipuhögg. Þó Fullorðin sé afrakstur hópvinnu er búið að pússa og lakka textann víðast hvar. Það sést kannski ekki síst vegna þess að eina spunaatriðið, þar sem samtal er spunnið út frá tillögu áhorfenda, var augljósasti fallisti sýningarinnar.

Það sama má segja um söngtextana. Þar voru fingraför Vilhjálms B Bragasonar auðþekkt, en hann heldur ásamt Sesselju Ólafsdóttur úti gamanvísnasönghópnum Vandræðaskáldum, sem finna má ummerki um á samfélagsmiðlum sé vel leitað. Hér er sami blær á kveðskap og lagasmíðum, sem mætti kannski líkja við það sem gerðist ef bandaríski píanóháðfuglinn Tom Lehrer reyndi að gera barnaplötu. Það eru nú ekki öll rímorð Vilhjálms beinlínis prenthæf, og stundum eru klúrheitin heldur ódýr, en þess fyndnari í réttu samhengi og þegar best tekst til.

Viðfangsefnin spanna flest svið daglegs lífs: Tómstundir, fjárhagslega velgengni, tilhugalíf, barneignir, framgangur í vinnu. Allt skoðað með ýkjuaðferðum revíunnar, en alltaf með einhvern kjarna sem áhorfendur geta tengt eigin lífi, eða allavega samferðafólks síns.

Eftirminnilegasta stóra atriðið er hrollvekjandi grótesk mynd af endurfundapartíi gamalla bekkjarfélaga, með tilheyrandi öfgum í fjárhagslegri velgengni, hroðalegum slysförum, upprifjun á kynlífi sem betur mætti gleyma, og einelti sem það sama mætti segja um. Þar eiga þremenningarnir allir flotta spretti í týpusmíði. Vel hefði mátt hugsa sér þetta partí sem ramma utan um heila sýningu í mun hefðbundnari byggingu. Það sem síst tekst er trúlega sagan af hjónunum sem eru ekki fyrr laus við síðasta afkvæmið úr hýbílum sínum en sambandið springur í loft upp. Það er ekki gott að segja hvort samleikurinn við klaufagang hljóðeffektastjórans var ofaukið eða þá góð hugmynd sem þarfnaðist miklu meira nosturs, nákvæmni og orku til að skila tilætluðum hlátri. Synd, því hjónin voru sérlega skemmtilega útfærðar persónur hjá Vilhjálmi og Birnu Pétursdóttur. 

Birna er eftirtektarvert flink týpugerðarkona og neglir hverja staðalmyndina á fætur annarri. Ætli námskeiðshaldarinn ofurhressi standi þar ekki fremst meðal hrollvekjandi jafningja. Vilhjálmur og Árni Beinteinn náðu ekki alveg sömu raunsæisjarðtengingu með sína kalla, en snarvirka engu að síður í því sameiginlega verkefni leikhópsins að halda stuðinu gangandi og orkustiginu uppi. 

Það er lipur og fumlaus gangur í sýningunni og oft áberandi sniðuglega komist úr einum skets í annan, en leikstjórar sýningarinnar, þær Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Marta Nordal hafa skipulagt þetta vel. Einföld leikmynd Auðar Aspar Guðmundsdóttur og Jasminu Wojtyla þjónar gangverkinu vel og gerir búninga Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur auðveldlega aðgengilega þegar handagangurinn er hvað mestur. 

Það er þakkarvert að bjóða upp á svona einbeitta grínsýningu á þessum döpru tímum og það verður að segjast að Covid-gisinn salurinn í Hofi eru ekki kjöraðstæður fyrir grín af þessu tagi, þar sem hlátursmit eru eitt af mikilvægustu innhaldsefnunum í vel heppnaðri kvöldstund. Stemmingin er fljót að kólna þegar einstök atriði skila ekki tilætluðum áhrifum. En þau Árni, Birna og Vilhjálmur berjast hetjulega og skila verki sem er alloft fyndið, augljóslega nostursamlega unnið og heldur lífi í hefð sem við munum alltaf þurfa á að halda.

þriðjudagur, febrúar 16, 2021

Sýnt í tvo heimana

Pólverjar á Íslandi eru að bestu manna yfirsýn að minnsta kosti jafn margir og íbúar Akureyrar. Það er allnokkuð, og ekki að undra þó smám saman sé að verða til menningarlíf í þessu samfélagi sem „utanbæjarmenn“ verða líka varir við. Bíó Paradís hefur um skeið sýnt pólskar bíómyndir reglulega, og þá ekki einungis hámenningarlega útflutningsvöru. Það var einmitt við sýningu á pólskri glæpamynd sem hugmyndin að Co za poroniony pomysł kviknaði. „Úff hvað þetta er slæm hugmynd“ ku nafnið þýða, sem er auðvitað alrangt, og í góðum takti við létt-íróníska nálgun þeirra Jakubs Ziemann, Aleksöndru Skołożyńska og Ólafs Ásgeirssonar.

Leikhús um og fyrir pólska samfélagið hefur verið áberandi undanfarna mánuði, svona ef „áberandi“ er rétta orðið yfir leikhúslífið almennt. Vel má kalla eftir að fleiri listgreinar taki sér tak líka. Væri ekki t.d. ekki ráð að þýða meira af pólskum bókmenntum? Þau eiga t.d. nýlega bakaðan Nóbelshöfund, Olgu Tokarczuk. Og það kæmi verulega á óvart ef þessi fjörutíu milljón manna þjóð lumaði ekki á jafngóðum krimmum og hver önnur.

En aftur í Tjarnarbíó. Þar er í gangi ansi sniðug sýning sem er trúlega fyrst og fremst ætluð Pólverjum á Íslandi þó þessi Húsvíkingur sem hér skrifar hafi haft umtalsvert gaman af. Í anda lausbeislaðra samsköpunarsýninga nútímans vinna þátttakendur úr eigin reynslu, tveir sem ungir pólverjar að leita lífshamingju og framtíðar á framandi slóðum og einn Íslendingur sem ákveður líka kynna sér annan heim.

„I feel like I have a superpower!“ hrópar Óli upp yfir sig þegar hann hefur náð þannig tökum á pólsku með hjálp Duolingo-appsins að hann er farinn að skilja Pólverja á förnum vegi, úti í búð og í heita pottinum. Nýr heimur opnast. Þá er næsta skref að eignast vini í nýja heiminum og kynna sér menninguna.

Upphefst þá mjög forvitnilegt sjónarspil, ekki síst frá sjónarhóli Íslendingsins. Þau Óli og vinir hans, Kuba og Ola velta upp hverri staðalmyndinni á fætur annarri af pólska samfélaginu og Pólverjum almennt. Vodka og pierogi-hveitibollur eru þar í aðalhlutverki. Séríslenskir þættir á borð við veðrið, óskiljanlega sunnudagslokun Vínbúðarinnar og hina hjálpsömu Agnieszku hjá Landsbankanum sem greiðir götu landa sinna um refilstigu íslenska fjármálaumhverfisins milli þess sem hún stundar sjósund með vinkonum sínum ber einnig á góma, allt við góðar undirtektir innvígðra áhorfenda. Og sjarmi sýningarinnar hrífur okkur utanbæjarmennina með, þó hún sé lausbeisluð, ekki sérlega dramatísk og leikhópurinn augljóslega vanur að fást við aðra hluti en standa á sviði og deila lífi sínu með ókunnugum. Það kemur á óvart hvað skuggahliðar sambúðarinnar fá lítið pláss; útlendingaandúð, launamisrétti og hunsun. Varla nema beitt ljóðlína frá Olu, þess efnis að Íslendingar elski þegar Pólverjar vinni vinnuna sína almennilega. Annars er létt yfir þessari slæmu hugmynd.

Co za poroniony pomysł er skemmtilegur gluggi inn í óþarflega ósýnilegan menningarkima mitt á meðal okkar, um leið og hann skemmtir og gleður greinilega þeim sem eru þar öllum hnútum kunnugir. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er leikstjóri sýningarinnar, leikmynd og búninga gerði Þórdís Erla Zoëga og ljósin eru hönnuð af Kjartani Darra Kristjánssyni. Nina Słowińska aðstoðaði við þýðingu, en sýningin fer fram á þremur tungumálum og þýðingu á hin málin varpað jafnóðum upp á skjá svo allir geti verið með í gamninu. 

laugardagur, febrúar 13, 2021

Vertu úlfur

Leiksýning byggð á sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar. Leikstjórn og leikgerð: Unnur Ösp Stefánsdóttir. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Leikmynd og myndbandshönnun: Elín Hansdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Halldór Örn Óskarsson. Hljóðhönnun: Elvar Geir Sævarsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Titillög: Emilíana Torrini, Markéta Irglová og Prins Póló. Texti í titillögum: Emilíana Torrini. Leikari: Björn Thors. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 22. janúar 2021.

Í auga hugarstormsins

Saga baráttumannsins Héðins Unnsteinssonar vakti mikla athygli þegar hún kom út á bók fyrir nokkrum árum. Mér skilst að fljótlega hafi leikhúsfólk ákveðið að þarna væri bitastætt efni til úrvinnslu á leiksviði. Það er alveg skiljanlegt. Annarlegt hugarástand hefur verið eitt af eftirlætisviðfangsefnum leikhússins frá örófi alda, gott ef helstu gúrúar geðlæknisfræðinnar litu ekki í þá smiðju til að skilgreina sálarlífið og hnúta þess. Svo er hitt: leikhúsið er í sífelldri leit að tilefnum til að gera sig gildandi í umræðu um málefni samtíðarinnar, og staða geðsjúkra og skilningur á geðheilbrigði hefur nú um árabil verið ofar á dagskrá þess eilífa málfundar en undanfarna áratugi og aldir. 

Héðinn hefur verið áberandi í þessari umræðu, vopnaður Geðorðunum tíu og fleiru góðu, til dæmis eldmóði og örri lund. En hann hefur líka frá persónulegri reynslu að segja og það gerði hann í Vertu Úlfur sem kom út fyrir sex árum síðan og er nú komin í leikbúning upp á svið, enduropnunarsýning Þjóðleikhússins eftir langa lokun vegna faraldursins.

Ef við byrjum að tala um sviðsetninguna þá ber hún þess örugglega merki að verkefnið var flutt úr Kassanum á Stóra sviðið á endaspretti þess langhlaups sem undirbúningurinn hefur verið. Þá er ég ekki að meina þá ákvörðun að hafa víðáttu sviðsins óbeislaða af tjöldum, veggjum eða öðrum fyrirferðarmiklum umbúnaði. Það er mjög viðeigandi fyrir glímu persónunnar við sinn óbeislaða anda. Það er frekar hvernig Unnur Ösp Stefánsdóttir er óhrædd við að grípa til hverrar brellunnar á fætur annarrar og nýta flestar tæknilausnir nútímaleikhússins til að magna upp áhrifamáttinn, mögulega á kostnað listrænnar heildar. Hringsviðið snýst, hljóðkerfið er þanið meðan ljósin blikka (smart lýsing Björns Bergsviens Guðmundssonar og Halldórs Arnar Óskarssonar), myndvarparnir fylla bakvegginn. Og auðvitað þarf að flæða vatn. 

Þá er rof fjórða veggjarins mikilvægur þáttur í nútímaleikhúsinu, og fullnýttur hér, með beinum ávörpum, hljóðnema, leik fyrir framan fortjald og við innanstokksmuni áhorfendasalarins, hlaupum út í sal, fram í anddyri. Óreiðan og ofgnótt meðala á auðvitað vel heima í miðlun þessa tiltekna efnis, en dyggð hreinleikans er engu að síður dyggð og stundum vaknar spurningin hvort sýningin hefði ekki haft gott af að kjarna sig. Vera í punktinum. 

Sterkasta sviðsræna lausnin í umgjörð Elínar Hansdóttur er er tvímælalaust hin ógnarlanga hvíta sæng sem Úlfurinn (eins og hann er kallaður í handriti) rúllar út um það bil sem hans fyrsta innlögn á geðdeild hefst. Það má alveg sakna þess að hún fengi víðtækari hlutverk, gengi í gegnum fleiri umbreytingar og kæmi í staðin fyrir eitthvað af hinum lausnunum. En gott og vel: ofgnótt og sundurgerð er líka stíll og listræn ákvörðun sem þjónar tilgangi, hefur áhrif og afleiðingar. 

Hljóðmynd Valgeir Sigurðssonar er einföld og áhrifarík eins og hans var von og vísa, hverfur í skuggann af vel valdri þekktri tónlist sem hljómar þegar á þarf að halda, og svo auðvitað „titillögunum“ tveimur. Þetta höfundareinkenni leikhússtjórans ryður sér nú til rúms í húsinu og ég get ekki sagt að ég fagni því. Er mjög efins um að það sé listræn þörf sem kallar á þessa útvarps- og samfélagsmiðlavænu mola. Þau Emilliana Torrini, Markéta Irglová og Prins Póló hafa líka öll átt umtalsvert betri daga í stúdíóinu.

Ekkert af þessu hefur samt viðlíka vægi og leikarinn, sem einn þarf að bera uppi sýninguna, halda hita á kviknöktu stóra sviðinu og athygli allra í Covid-gisnum salnum. Það tekst Birni Thors mætavel. Hann er á heimavelli í svona yfirgíruðum og viðkvæmum persónum og fipast hvergi. Allavega þykist ég vita að öll augnablikin þar sem hann stoppar og afvegaleiðist í miðjum klíðum og miðjum setningum hafi ekki verið óöruggur leikari að koma upp um sig heldur einmitt innlifaður fagmaður að túlka óróa í huga, óþægilega vel. Þau tök sem sýningin nær á áhorfendanum eru fyrst og fremst að þakka tökum Björns á list sinni og viðfangsefninu og vinnu hans með leikstjóra sínum.

Það sem helst stendur Vertu úlfur fyrir þrifum til að verða listrænn fullnaðarsigur er hins vegar úrvinnsla efnisins yfir í leikhandrit, og mögulega efniviðurinn sjálfur. Það er vissulega æsilegt að fara með Héðni/Úlfi í rússibanareið maníunnar, sá þáttur er sá sterkasti í bókinni og flyst vel yfir á tungutak leiksviðsins, sem hefur alltaf sótt í og nærst á þessum efnivið. Það mætti jafnvel segja að hann haldi sýningunni uppi. En leikhúsið afhjúpar líka vankanta. Það skýtur skökku við þegar boðuð er dýnamísk, húmanísk sýn á viðhorf til og meðferð við geðsjúkdómum, að orsakasamhengi veikinda Úlfs sé nánast enginn gaumur gefinn. Við sjáum bara virtúósíska túlkun einkenna sem spretta fram aðdraganda- og skýringalaust, nema að svo miklu leyti sem handvömm og andvaraleysi við lyfjagjöf er um að kenna. 

Lykilatvik sýningarinnar, illa ígrunduð og hranalega framkvæmd sjálfræðissvipting, er áhrifarík og sláandi í nærgöngulli og tilfinningalega örlátri túlkun Björns, en það virðist vera krafa – jafnvel aðalerindi – sýningarinnar og textans að af henni eigi að draga víðtækar ályktanir um brotalamir og kerfislægt óréttlæti og ofbeldi. Hún knýr ekki eins sannfærandi á um það og mig grunar að hafi verið ætlunin. Til þess er allt samhengi of persónulegt, og vanreifað. Hugleiðingar bókarinnar um geðheilbrigði, hugtakanotkun og forvarnarvinnu þóttu mér á sínum tíma full-almennar og losaralegar og sú tilfinning magnast upp þegar þær þurfa að keppa um athygli við tilþrifaríka túlkun maníu og trúðatæknileg samskipti flinks leikara við salinn. 

Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu er undir svipaða sök seld og aðrar nýlega leiksýningar sem sækja fast að vera innlegg í þjóðfélagsumræðu. Að sumu leyti eru hún of sein; ýmislegt hefur breyst síðan það sem hún lýsir átti sér stað, bæði í lagaumhverfi og viðhorfum. Þó víða sé pottur brotinn eru þeir færri og kannski að einhverju leyti aðrir. Umræða um geðheilbrigðismál kallar á ígrundun hugtaka og djúpköfun í tilfinningar sem rímar illa við útleitna tilþrifamennsku sýningarinnar. 

En vitaskuld er alltaf fengur í sjálfu sér að heyra reynslusögur úr heiminum utan hversdagsreynslunnar. Og að sjá einn af okkar fremstu leikurum hnykla tjáningarvöðvana. Unnendur leikhúss sem beitir öllum sínum vopnum af ástríðu og krafti fá mikið fyrir sinn snúð í enn einni opnunarsýningu Þjóðleikhússins, vonandi þeirri síðustu að sinni.

sunnudagur, október 11, 2020

Kardemommubærinn

Eftir Thorbjörn Egner. Tónlist og söngtextar: Thorbjörn Egner. Þýðing leiktexta: Hulda Valtýsdóttir. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlistarstjórn og útsetningar: Karl Olgeir Olgeirsson. Danshöfundur: Chantelle Carey. Leikmynd: Högni Sigurþórsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóð: Kristinn Gauti Einarsson. Sirkusstjóri: Nicholas Arthur Candy. Leikgervi: María Th. Ólafsdóttir og Valdís Karen Smáradóttir. Höfundar dýragerva: Högni Sigurþórsson og María Th. Ólafsdóttir. Grímugerð: Ásta Jónsdóttir og Mathilde Anne Morant. Hljómsveit: Birgir Bragason, Haukur Gröndal, Karl Olgeir Olgeirsson, Samúel Jón Samúelsson, Snorri Sigurðarson, Stefán Már Magnússon og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir. Leikarar: Hallgrímur Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Oddur Júlíusson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Bergþóra Hildur Andradóttir, Vala Frostadóttir, Arnaldur Halldórsson, Jón Arnór Pétursson, Bjarni Gabríel Bjarnason, Hilmar Máni Magnússon, Örn Árnason, Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Hákon Jóhannesson, Hera Katrín Aradóttir, Rebecca Scott Lord, Nicholas Arthur Candy, Sindri Diego, Rebecca Hidalgo, Hafrún Arna Jóhannsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Katla Borg Stefánsdóttir, Mikael Köll Guðmundsson, Steinunn Lóa Lárusdóttir, Telma Ósk Bergþórsdóttir, Hrafnhildur Hekla Hólmsteinsdóttir, Lísbet Freyja Ýmisdóttir, Tinna Hjálmarsdóttir, Vilhjálmur Árni Sigurðsson, Aron Gauti Kristinsson, Edda Guðnadóttir, Kaja Sól Lárudóttir, Kári Jóhannesarson, Alba Mist Gunnarsdóttir, Ísabel Dís Sheehan, María Pála Marcello, Ylfa Blöndal Egilsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Telma Ósk Bergþórsdóttir og Auður Finnbogadóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 26. september 2020.

Gleði i gamla bænum


Hið langa, trausta og farsæla samband Þjóðleikhússins og Thorbjörns Egner er sennilega sú hefð sem áhugafólk um nýsköpun í því húsi mundu síðast hrófla við. Það er vel. Auðvitað þýðir það minna pláss fyrir nýsköpun fyrir börnin, en verðmætin sem felast í að skapa sameiginlega reynsluheim, sameiginlegar leikhúsminningar fyrir kynslóðirnar eru ómetanleg. Auðvitað eru Dýrin í Hálsaskógi og Kardemommubærinn gallagripir á mælikvarða dramatískra gæðastaðla. það fyrra með sinn fallega siðaboðskap í samhengi þar sem hann gengur engan vegin upp, hið síðara harla stefnulaust og ódramatískt. Og af hverju fannst Egner svo góð hugmynd að láta stórafmæli rígfullorðinna aukapersóna vera hápunkta að hann notaði hana í báðum verkunum?

Hvað með það? Við viljum öll að börnin okkar og barnabörnin fái að heimsækja Hálsaskóg og Kardemommuborg eins og við gerðum. Og svo eru verkin auðvitað bæði bráðskemmtileg þrátt fyrir vankanta sem öllum er á endanum sama um nema geðvondum gagnrýnendum.

Fyrir utan þá ræktarsemi að sýna verkin á hæfilega margra ára fresti í takt við tímans þunga nið þá má hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að ganga ekki óhóflega langt í að „fríska upp á“ verkin, sleppa hönnuðum og leikstjórum aldrei algerlega lausum, en gefa engu að síður svigrúm til að tryggja ferskleika og andrými. Það blasir við í sviðsetningu Ágústu Skúladóttur, þeirri sjöttu frá því bæjarfógetinn Bastían hóf fyrst upp raust sína í álfahöllinni fyrir sextíu árum. Það fer vel á því að láta leikmyndina hverfast um styttu af Egner sjálfum á bæjartorginu í Kardemommu á þessum tímamótum. Leikmynd Högna Sigurþórssonar stekkur engin heljarstökk frá blænum yfir teikningum Egners sjálfs en er engu að síður ómótstæðilegt verk í sjálfri sér með öllum sínum öngstrætum og skúmaskotum og vísunum til Austurlanda nær, jafnvel alla leið í hrekkjavökulandið í Nightmare before Christmas en þó einkum og sér í lagi vestur um haf til latnesku Ameríku, varnarþings töfraraunsæisins sem rúmar þetta ævintýri allt; húsvanin ljón, talandi úlfalda og páfagauka og erkinorðurevrópskt persónugallerí og sporvagn.

Latínublærinn birtist hér og hvar í litríkum og glæsilegum búningum Maríu Th. Ólafsdóttur og ekki síst í útsetningum Karls Olgeirs Olgeirssonar og frábærlega spilandi hljómsveit hans á tónlistinni. Langoftast líður þessum sígrænu lögum vel í salsagallanum, þó sum verði eilítið þunglamaleg þegar búið er að reima á þau dansskóna. Ég saknaði til dæmis „pattersong“ stemmingarinnar í reiðilestri Soffíu frænku, sveiflan dró aðeins tennurnar úr skarexinni ógurlegu. 

Reyndar fór ekki mikið fyrir hræðslu við skassið meðal bæjarbúa, vel hefði mátt hugsa sér meiri skjálfta í hnjám Tobíasar og síðar Bastíans þegar þeim er att á foraðið. Nógu mikið sópaði að Soffíu í þrautreyndri túlkun Ólafíu Hrannar Jónsdóttur með sitt óbrigðula nef fyrir óvæntum kómískum tímasetningum. Þórhallur Sigurðsson stígur hér á svið eftir (að ég held) nokkuð langt hlé og var sannfærandi Tóbías, hjárænulegur eins og við á. Ég hefði hinsvegar verið til í aðeins skýrari hugsun í túlkun Bastíans bæjarfógeta og frúar hans. Auðvitað var ekkert upp á þau Örn Árnason og Ragnheiði Steindórsdóttur að klaga, en hefði ekki verið hægt að gefa manni aðeins skýrari mynd af hvað býr að baki reiðareksstefnu fógetans í málefnum bæjarins. Er hann bernskur, húmanískur, hippískur eða kannske bara svona latur? Og hvernig er sambandi þeirra hjóna háttað? Smá nostur við þetta hefði skilað sér ríkulega. 

Minna gerði til þó þeim Bjarna Snæbjörnssyni, Gunnari Smára Jóhannessyni, Hildi Völu Baldursdóttur og Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur yrði ekki mikið úr smáhlutverkum pylsugerðarmanns, kaupmanns, sporvagnsstjóra og bakara, þó meira afgerandi – segi ekki ýkt – týpusmíð hefði verið möguleg og ekki stungið í stúf í þessu mikla sjónarspili. Unga fólkinu var ágætlega borgið í höndum Völu Frostadóttur, Jóns Arnórs Pétursonar og Bjarna Gabríels Bjarnasonar, en önnur þrenning leysir þau af í hlutverkum Kamillu, Tomma og Remós í ströngu sýningarprógramminu.

Að Soffíu frátaldri veltur þetta samt allt á ræningjunum. Og það er óhætt að segja að þeir Hallgrímur Ólafsson, Sigurður Þór Sverrisson (Sveppi) og Oddur Júlíusson standi undir þeirri ábyrgð að túlka þá ábyrgðarlausu þokkapilta, Kasper, Jesper og Jónatan. Frábær týpusköpun, fimi og fíflagangur í hárréttu jafnvægi halda gleðinni gangandi frá því þeir birtast fyrst, öfundsjúkir utangarðsmenn sem langar á bæjarhátíðina en þurfa að láta sér nægja að stela sporvagninum. Þegar heim var komið í grenið fengu þeir verðskuldaðan mótleik hjá fimu og sniðugu ljóni Ernesto Camila Aldazábal Valdés, og Ólafía Hrönn fullkomnaði svo gamanið eftir að hún var inn borin. Mitt uppáhaldsatriði var nú samt undir lokin þegar þeir félagar eru lausir úr prísundinni, orðnir bæjarsómar eftir hetjudáðir við páfagaukabjörgun og ákveða að fá sér langþráðan göngutúr um miðbæinn, en kunna það ekki. Eitt af fjölmörgum smáatriðum sem þarf til að krydda svona viðamikið sjó úr sundurlausu efni.

Sýningin springur út af krafti þegar söngleikjaþáttur hennar er í forgrunni. Ágústa Skúladóttir hefur einstakt lag á að blása lífi í fjörmiklar hópsenur og lítið hægt að fullyrða um hvar því framlagi sleppir og hvar kröftugir og skemmtilegir dansar Chantelle Carey taka við. Það var til dæmis sérlega gaman að sjá alla þorpsbúa hamast við að æfa sig í hverju skúmaskoti leikmyndarinnar í aðdraganda bæjarhátíðarinnar. Stóru dansnúmerin voru glæsileg og frábærlega flutt af fjölskipuðum danshóp á öllum aldri. Það sama má segja um fjöl- og fimleikanúmerin öll. Það er óhætt að taka undir með bæjarfógetanum; það er hreint hneyksli að það hafi ekki verið starfandi fjölleikahús í þessum bæ fyrr en auðnuleysinginn Jesper stundi upp úr sér draumum sínum um sirkusstjórastöðu.

Kardemommubærinn er ansi hreint losaralegt leikrit frá höfundarins hendi, en gefur að sama skapi mikla möguleika í að skapa skrautlegt sjónarspil, byggja ævintýraheim og gefa tilfinningu fyrir hve lífið getur verið gott þegar fólk hefur tóm og frið til að lifa og leika sér. Þau Ágústa, Chantelle, Högni, María, Karl og Ólafur tryggja ásamt sínum fjölskipaða hæfileikaher að þeir möguleikar eru vel nýttir og ný kynslóð minnt á að þegar allir geta bara lifað og leikið sér þá er það nákvæmlega það sem gerist.

miðvikudagur, október 07, 2020

Kópavogskrónika

Eftir Kamillu Einarsdóttur í leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur. Leikstjórn: Silja Hauksdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Tónlist: Auður. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikarar: Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 25. september 2020.

Bersögli í borginni

Harmsögur af útbrunnu karríerfólki af öllum kynjum, buguðum ofurmæðrum og fólki með slétt og öfundsvert yfirborð en kraumandi kvíðann undir. Við þekkjum þær ófáar. Gott ef við erum ekki orðin smá leið á þeim. Um leið og slíkt fólk er kynnt til sögunnar á prenti, sviði, tjaldi eða skjá vitum við (og bíðum spennt eftir) að sprungurnar komi í ljós og eyðileggjandi óreiðan flæði um allt. Eitt af því sem kætti við lestur Kópavogskrónikunnar var hvernig hún sneri þessu þreytta þema á haus: hér höfðum við síbernska og óábyrga unga konu sem hafði ekki minnsta áhuga á að pakka sinni óreiðu inn í einhverjar áferðarfallegar umbúðir. Og ekki nóg með það: þrátt fyrir allt kaosið og ábyrgðarleysið hafði dóttir hennar komist vellukkuð á legg (það er sennilega réttara svona en að segja að hún hafi „komið barninu á legg“).  

Þetta er bráðfyndinn texti, og enn betri fyrir þá tilfinningu að á bak við óáreiðanlegan sögumanninn leynist óáreiðanlegur höfundur, sem jafnvel mögulega er að segja sannar sögur. Það er kitlandi tilhugsun, en jafnvel þó maður ýti henni til hliðar eins og sá vel uppaldi lesandi sem maður er þá er Kópavogskrónika stórskemmtileg, óvenjuleg og ögrandi bók.

Óvenjulegur og ögrandi íslenskur texti á bók kveikir kannski alltaf áhuga einhverra í leikhúsheiminum á að kanna hvort þar sé efniviður fyrir sviðið, hér í þessu leikgerðalandi. Að ekki sé talað um þegar hann er léttur og fyndinn í ofanálag. Það sem þennan tiltekna texta skortir á hinn bóginn er dramatískt form eða framvinda, og spennu milli sjálfsmyndar söguhetjunnar og raunveruleikans og atburðanna. Hvorugt tekst leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur að leggja til eða magna upp. Of lítið og óskýrt ferðalag eða þróun, hvað þá þroski fyrir persónuna í árekstrum hennar við samfélagið og mismóttækilegt samferðafólk. Það sem er nánast útgangspunktur og erindi bókarinnar verður Akkilesarhæll þegar í leikhúsið er komið og fyrir vikið verður sviðsútgáfa Kópavogskróniku frekar flöt. 

Alls ekki leiðinleg samt. Til þess er aðalpersónan of fyndin, of yfirgengileg, of sjarmerandi. Brandararnir streyma frá henni í þéttri bunu, sérstaklega framan af, meðan hún er að teikna bæinn sinn fyrir okkur, frá Hamraborg upp í Smiðjuhverfi, og fara yfir helstu kærasta og/eða draumaprinsa. Ilmur bætir sínum umtalsverða sviðssjarma við lúmskan þokka söguhetjunnar eins og hann birtist í orðum hennar og heldur athyglinni fanginni þó lítið sé beinlínis að frétta. Það er á hennar herðum sem hiti og þungi kvöldsins hvílir. Stundum glitti í kviku og sársauka undir töffaragrímunni og hún skapar sannfærandi persónu sem við höldum með þrátt fyrir allt. 

Mótleikararnir standa líka fyrir sínu. Þórey Birgisdóttir sennilega eftirminnilegust sem ábyrga mamman á foreldrafundinum. Hljómar alveg ótrúlega leiðinleg, séð með augum aðalpersónunnar sem við erum búin að tileinka okkur þegar þar kemur sögu, þó flest séum við vafalaust (vonandi) á bandi ábyrgu mömmunnar í okkar eigin lífi og Ilmarpersóna hljómi stundum eins og Óttar Guðmundsson að predika yfir sínum síðmiðaldra kór.

Arnmundur Ernst Backman fær feitari aukabita sem hinir aðskiljanlegustu elskhugar og gerir þeim fín skil. Sérstaklega var tölvutónskáldið sérvitra og sérgóða vel formuð og jafnvel frumleg skopfígúra. Verðbréfamiðlarinn öllu venjulegri skíthæll, en eftirminnileg er fínleg nautnin þegar hann tók sér í munn orðin „lögfræðingur hjá Capacent“ til að kynna til sögunnar ósigrandi keppinaut um ástir sínar.

Einföld umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur þótti mér ekki styðja neitt sérstaklega vel við það sem fram fór. Græna grasþústin sem ríkir yfir rýminu nýttist á köflum ágætlega til sviðsetninga á heimilum og skemmtistöðum, sem leikstjórinn Silja leysir að mestu ágætlega, en dálítið klaufalegt að þurfa líka að sækja leikmuni til að skapa sumar aðstæðurnar, og þá ýmist raunsæislega (sjúkrarúm og hitakassi) eða stílfærða (barstólar fyrir bílsæti). Búningar Sigríðar Sunnu voru sannfærandi í sínum natúralisma og lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar þénug. Danstónlistin í sýningunni er viðeigandi sviplaus, og Auðarlagið sem hljómaði meðan áhorfendur ganga út að sýningu lokið var áheyrilegt þó torvelt væri að tengja það við erindi sýningarinnar og ástæðulaust að staldra við eftir hneygingar og fagnaðarlæti.

Í Kópavogskróniku tekst ekki nægilega vel að flytja óvenjulegan og skemmtilegan texta inn í sviðsljósið svo úr verði grípandi og áhrifarík dramatík. Textinn er engu að síður jafn óvenjulegur og skemmtilegur það langt sem hann nær og skemmtir áhorfendum þessa stuttu kvöldstund í prýðilegum flutningi flinkra listamanna. Kamilla er rétt að byrja og er augljóslega hæfileikaríkt ólíkindatól sem engin leið er að spá fyrir um hvað gerir næst. 

þriðjudagur, september 22, 2020

Beðið eftir Beckett

Eftir Trausta Ólafsson byggt á textum Samuels Beckett og brotum úr verkum Dante Alighieri, Hallgríms Péturssonar og Antonins Artaud. Leikstjórn: Trausti Ólafsson. Íslensk þýðing: Trausti Ólafsson, Guðmundur Böðvarsson og Friðrik Rafnsson. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Leikmynd og búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Tónlist: Hjörleifur Valsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Sendiboði: Tóbías Dagur Úlfsson. Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýndi í Kómedíuleikhúsinu Haukadal 30. ágúst 2020, skrifað um sýninguna 9. september 2020 í Tjarnarbíói.

Stefnumótið sem ekki varð


Ef ég vissi hver Godot er hefði ég látið það flakka, sagði Samuel Beckett um sína frægustu persónu. Eða eitthvað í þá átt. Það er semsagt alveg opið fyrir túlkun hver hann er, þessi dularfulli hugsanlegi velgjörðarmaður þeirra Vladimirs og Esdragons í Beðið eftir Godot. Það er allt opið, og þó algengast sé að tengja hann við almættið sjálft er alveg ógalið að stilla Beckett sjálfum upp sem þessum fjarverandi heiðursgesti í lífsdramanu tíðindalausa, eins og Trausti Ólafsson gerir í einleiknum Beðið eftir Beckett. 

Að sjálfsögðu hefur a.m.k. titillinn verið notaður áður, eins snjall og borðleggjandi og hann er; til er heimildarmyndin Waiting for Beckett um líf og störf skáldsins frá árinu 1993. En hún fjallar vafalaust ekki um leikara sem mátar við sig nokkur af helstu verkum skáldsins meðan hann bíður eftir að það láti sjá sig. Árangurslaust auðvitað. Beckett á ekkert vantalað við túlkendur verka sinna. Allt sem hann vildi sagt hafa hefur þegar verið skrifað. Að sönnu nokkuð órætt sumt, og kannski ekki allt jafn djúpt eða merkilegt og óræðnin gefur óneitanlega í skyn, en það besta óumdeild snilld. Og burtséð frá textanum: ekkert leikskáld sögunnar hefur skapað annað eins af myndum sem hafa náð fótfestu í sameiginlegu menningarminni okkar. Blindur maður með annan í taumi. Hjónin í ruslatunnunum. Konan í sandhaugnum. Munnurinn sem getur ekki þagnað. Samuel Beckett er ekki bara skarpur og óvægin túlkandi og greinandi mannsandans á tuttugustu öld. Hann er partur af heimsmynd hans.

Það er Beckettlega um að litast á sviðinu þegar Elfar Logi Hannesson gengur inn til að hefja bið sína eftir skáldinu. Frakki hangir á herðatré niður úr loftinu. Tveir litlir trékistlar. Og að sjálfsögðu nakið tré, sem reyndar er „leikið af“ orfi og ljá. Fullvissan um dauðann er alltaf í loftinu og milli orðanna hjá Samuel Beckett. Þetta er falleg og fáguð mynd, Marsibil G. Kristjánsdóttir er höfundur leikmyndar og búninga. Gervi leikarans er beint úr staðalmynd okkar af flækingunum í Beðið eftir Godot. Þvæld kjólföt og kúluhattur. Göngustafur. Ekki stígvél reyndar heldur skór sem Elfar fer í og úr. 

Grunnerindi leikarans er skýrt. Hann bíður skáldsins og drepur tímann með að róta í koffortunum og textum eftir Beckett og aðra sem tengjast honum eða hugmyndir kvikna upp við upprifjunina og biðina. Fyrirferðarmest (og auðþekkjanlegust) eru brot úr Beðið eftir Godot og einleiknum makalausa, Ekki ég, sem Beckett skrifaði árið 1972. Einnig þar bauð hann ekki upp á neina hjálp til skilnings. „Ég veit ekki hvar hún er eða hvers vegna. Textinn er það eina sem ég þekki“, skrifaði hann Alan Schneider, leikstjóra frumuppfærslunnar.

Trausti Ólafsson er ekki á þeim buxunum að hjálpa okkur neitt til skilnings. Hvorki á Beckett, né hvað leikaranum gengur til með bið sinni. Óræðnin í þeim texta þar sem leikarinn talar „frá eigin brjósti“ er síst minni en í textabútunum sem hann mátar sig við. Þeir eru óneitanlega heldur lágfleygari sem skáldskapur, stundum vandræðalega bernskir. En virka hvorki sem lím eða leiðarvísir. 

Þar hjálpar ekki nálgun leikstjórans. Sú ákvörðun að láta leikarann mæta okkur „í hlutverki“ ef svo má segja. Í búningi, með áberandi leikræna, jafnvel trúðslega, takta. Með augljóslega nákvæmlega fyrirskipaðar og æfðar hreyfingar og samskipti við leikmuni sem aldrei urðu almennilega lífrænar og áttu kannski aldrei að vera það. 

Eins mótsagnakennt og það má virðast þá komumst við næst leikaranum Elfari Loga í viðureign hans við textabrotin frá Beckett sjálfum. Kannski sérstaklega við eintalið óræða Ekki ég, þennan furðulega, staglsama og sundurlausa flaum. Þar var svolítið eins og leikarinn léti flauminn taka yfir, leyfði orðunum að tala fyrir sig sjálf. Ekki ósvipað og höfundurinn sem neitar að stíga inn í samtal textans við þá sem um hann véla. Það flökraði að rýni á þessum stundum hvað hefði verið gaman að sjá Elfar og Trausta ganga á hólm við einhver af eintölum Becketts, án þessara tilbrigða. Síðasta segulband Krapps kom upp í hugann.  

Alla vega náðist ekki hér að skapa áhugaverða spennu milli leikara og höfundarins fjarverandi, milli glímunnar við textana og eigin hlugleiðinga. Kannski var ekki ætlunin að byggja Beðið eftir Beckett á þeirri spennu. En verkið og sýningin láta þá of lítið uppi um hvað höfundum hennar liggur annað á hjarta. 

Tónlist er í mikilvægu hlutverki, vel samin, valin, útsett og flutt af Hjörleifi Valssyni. Lýsing Sigurvalds Ívars Helgasonar falleg og innkoma sendiboðans snyrtilega leyst af hinum unga Tóbías Degi Úlfssyni.