sunnudagur, október 11, 2020

Kardemommubærinn

Eftir Thorbjörn Egner. Tónlist og söngtextar: Thorbjörn Egner. Þýðing leiktexta: Hulda Valtýsdóttir. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlistarstjórn og útsetningar: Karl Olgeir Olgeirsson. Danshöfundur: Chantelle Carey. Leikmynd: Högni Sigurþórsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóð: Kristinn Gauti Einarsson. Sirkusstjóri: Nicholas Arthur Candy. Leikgervi: María Th. Ólafsdóttir og Valdís Karen Smáradóttir. Höfundar dýragerva: Högni Sigurþórsson og María Th. Ólafsdóttir. Grímugerð: Ásta Jónsdóttir og Mathilde Anne Morant. Hljómsveit: Birgir Bragason, Haukur Gröndal, Karl Olgeir Olgeirsson, Samúel Jón Samúelsson, Snorri Sigurðarson, Stefán Már Magnússon og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir. Leikarar: Hallgrímur Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Oddur Júlíusson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Bergþóra Hildur Andradóttir, Vala Frostadóttir, Arnaldur Halldórsson, Jón Arnór Pétursson, Bjarni Gabríel Bjarnason, Hilmar Máni Magnússon, Örn Árnason, Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Hákon Jóhannesson, Hera Katrín Aradóttir, Rebecca Scott Lord, Nicholas Arthur Candy, Sindri Diego, Rebecca Hidalgo, Hafrún Arna Jóhannsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Katla Borg Stefánsdóttir, Mikael Köll Guðmundsson, Steinunn Lóa Lárusdóttir, Telma Ósk Bergþórsdóttir, Hrafnhildur Hekla Hólmsteinsdóttir, Lísbet Freyja Ýmisdóttir, Tinna Hjálmarsdóttir, Vilhjálmur Árni Sigurðsson, Aron Gauti Kristinsson, Edda Guðnadóttir, Kaja Sól Lárudóttir, Kári Jóhannesarson, Alba Mist Gunnarsdóttir, Ísabel Dís Sheehan, María Pála Marcello, Ylfa Blöndal Egilsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Telma Ósk Bergþórsdóttir og Auður Finnbogadóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 26. september 2020.

Gleði i gamla bænum


Hið langa, trausta og farsæla samband Þjóðleikhússins og Thorbjörns Egner er sennilega sú hefð sem áhugafólk um nýsköpun í því húsi mundu síðast hrófla við. Það er vel. Auðvitað þýðir það minna pláss fyrir nýsköpun fyrir börnin, en verðmætin sem felast í að skapa sameiginlega reynsluheim, sameiginlegar leikhúsminningar fyrir kynslóðirnar eru ómetanleg. Auðvitað eru Dýrin í Hálsaskógi og Kardemommubærinn gallagripir á mælikvarða dramatískra gæðastaðla. það fyrra með sinn fallega siðaboðskap í samhengi þar sem hann gengur engan vegin upp, hið síðara harla stefnulaust og ódramatískt. Og af hverju fannst Egner svo góð hugmynd að láta stórafmæli rígfullorðinna aukapersóna vera hápunkta að hann notaði hana í báðum verkunum?

Hvað með það? Við viljum öll að börnin okkar og barnabörnin fái að heimsækja Hálsaskóg og Kardemommuborg eins og við gerðum. Og svo eru verkin auðvitað bæði bráðskemmtileg þrátt fyrir vankanta sem öllum er á endanum sama um nema geðvondum gagnrýnendum.

Fyrir utan þá ræktarsemi að sýna verkin á hæfilega margra ára fresti í takt við tímans þunga nið þá má hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að ganga ekki óhóflega langt í að „fríska upp á“ verkin, sleppa hönnuðum og leikstjórum aldrei algerlega lausum, en gefa engu að síður svigrúm til að tryggja ferskleika og andrými. Það blasir við í sviðsetningu Ágústu Skúladóttur, þeirri sjöttu frá því bæjarfógetinn Bastían hóf fyrst upp raust sína í álfahöllinni fyrir sextíu árum. Það fer vel á því að láta leikmyndina hverfast um styttu af Egner sjálfum á bæjartorginu í Kardemommu á þessum tímamótum. Leikmynd Högna Sigurþórssonar stekkur engin heljarstökk frá blænum yfir teikningum Egners sjálfs en er engu að síður ómótstæðilegt verk í sjálfri sér með öllum sínum öngstrætum og skúmaskotum og vísunum til Austurlanda nær, jafnvel alla leið í hrekkjavökulandið í Nightmare before Christmas en þó einkum og sér í lagi vestur um haf til latnesku Ameríku, varnarþings töfraraunsæisins sem rúmar þetta ævintýri allt; húsvanin ljón, talandi úlfalda og páfagauka og erkinorðurevrópskt persónugallerí og sporvagn.

Latínublærinn birtist hér og hvar í litríkum og glæsilegum búningum Maríu Th. Ólafsdóttur og ekki síst í útsetningum Karls Olgeirs Olgeirssonar og frábærlega spilandi hljómsveit hans á tónlistinni. Langoftast líður þessum sígrænu lögum vel í salsagallanum, þó sum verði eilítið þunglamaleg þegar búið er að reima á þau dansskóna. Ég saknaði til dæmis „pattersong“ stemmingarinnar í reiðilestri Soffíu frænku, sveiflan dró aðeins tennurnar úr skarexinni ógurlegu. 

Reyndar fór ekki mikið fyrir hræðslu við skassið meðal bæjarbúa, vel hefði mátt hugsa sér meiri skjálfta í hnjám Tobíasar og síðar Bastíans þegar þeim er att á foraðið. Nógu mikið sópaði að Soffíu í þrautreyndri túlkun Ólafíu Hrannar Jónsdóttur með sitt óbrigðula nef fyrir óvæntum kómískum tímasetningum. Þórhallur Sigurðsson stígur hér á svið eftir (að ég held) nokkuð langt hlé og var sannfærandi Tóbías, hjárænulegur eins og við á. Ég hefði hinsvegar verið til í aðeins skýrari hugsun í túlkun Bastíans bæjarfógeta og frúar hans. Auðvitað var ekkert upp á þau Örn Árnason og Ragnheiði Steindórsdóttur að klaga, en hefði ekki verið hægt að gefa manni aðeins skýrari mynd af hvað býr að baki reiðareksstefnu fógetans í málefnum bæjarins. Er hann bernskur, húmanískur, hippískur eða kannske bara svona latur? Og hvernig er sambandi þeirra hjóna háttað? Smá nostur við þetta hefði skilað sér ríkulega. 

Minna gerði til þó þeim Bjarna Snæbjörnssyni, Gunnari Smára Jóhannessyni, Hildi Völu Baldursdóttur og Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur yrði ekki mikið úr smáhlutverkum pylsugerðarmanns, kaupmanns, sporvagnsstjóra og bakara, þó meira afgerandi – segi ekki ýkt – týpusmíð hefði verið möguleg og ekki stungið í stúf í þessu mikla sjónarspili. Unga fólkinu var ágætlega borgið í höndum Völu Frostadóttur, Jóns Arnórs Pétursonar og Bjarna Gabríels Bjarnasonar, en önnur þrenning leysir þau af í hlutverkum Kamillu, Tomma og Remós í ströngu sýningarprógramminu.

Að Soffíu frátaldri veltur þetta samt allt á ræningjunum. Og það er óhætt að segja að þeir Hallgrímur Ólafsson, Sigurður Þór Sverrisson (Sveppi) og Oddur Júlíusson standi undir þeirri ábyrgð að túlka þá ábyrgðarlausu þokkapilta, Kasper, Jesper og Jónatan. Frábær týpusköpun, fimi og fíflagangur í hárréttu jafnvægi halda gleðinni gangandi frá því þeir birtast fyrst, öfundsjúkir utangarðsmenn sem langar á bæjarhátíðina en þurfa að láta sér nægja að stela sporvagninum. Þegar heim var komið í grenið fengu þeir verðskuldaðan mótleik hjá fimu og sniðugu ljóni Ernesto Camila Aldazábal Valdés, og Ólafía Hrönn fullkomnaði svo gamanið eftir að hún var inn borin. Mitt uppáhaldsatriði var nú samt undir lokin þegar þeir félagar eru lausir úr prísundinni, orðnir bæjarsómar eftir hetjudáðir við páfagaukabjörgun og ákveða að fá sér langþráðan göngutúr um miðbæinn, en kunna það ekki. Eitt af fjölmörgum smáatriðum sem þarf til að krydda svona viðamikið sjó úr sundurlausu efni.

Sýningin springur út af krafti þegar söngleikjaþáttur hennar er í forgrunni. Ágústa Skúladóttir hefur einstakt lag á að blása lífi í fjörmiklar hópsenur og lítið hægt að fullyrða um hvar því framlagi sleppir og hvar kröftugir og skemmtilegir dansar Chantelle Carey taka við. Það var til dæmis sérlega gaman að sjá alla þorpsbúa hamast við að æfa sig í hverju skúmaskoti leikmyndarinnar í aðdraganda bæjarhátíðarinnar. Stóru dansnúmerin voru glæsileg og frábærlega flutt af fjölskipuðum danshóp á öllum aldri. Það sama má segja um fjöl- og fimleikanúmerin öll. Það er óhætt að taka undir með bæjarfógetanum; það er hreint hneyksli að það hafi ekki verið starfandi fjölleikahús í þessum bæ fyrr en auðnuleysinginn Jesper stundi upp úr sér draumum sínum um sirkusstjórastöðu.

Kardemommubærinn er ansi hreint losaralegt leikrit frá höfundarins hendi, en gefur að sama skapi mikla möguleika í að skapa skrautlegt sjónarspil, byggja ævintýraheim og gefa tilfinningu fyrir hve lífið getur verið gott þegar fólk hefur tóm og frið til að lifa og leika sér. Þau Ágústa, Chantelle, Högni, María, Karl og Ólafur tryggja ásamt sínum fjölskipaða hæfileikaher að þeir möguleikar eru vel nýttir og ný kynslóð minnt á að þegar allir geta bara lifað og leikið sér þá er það nákvæmlega það sem gerist.

miðvikudagur, október 07, 2020

Kópavogskrónika

Eftir Kamillu Einarsdóttur í leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur. Leikstjórn: Silja Hauksdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Tónlist: Auður. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikarar: Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 25. september 2020.

Bersögli í borginni

Harmsögur af útbrunnu karríerfólki af öllum kynjum, buguðum ofurmæðrum og fólki með slétt og öfundsvert yfirborð en kraumandi kvíðann undir. Við þekkjum þær ófáar. Gott ef við erum ekki orðin smá leið á þeim. Um leið og slíkt fólk er kynnt til sögunnar á prenti, sviði, tjaldi eða skjá vitum við (og bíðum spennt eftir) að sprungurnar komi í ljós og eyðileggjandi óreiðan flæði um allt. Eitt af því sem kætti við lestur Kópavogskrónikunnar var hvernig hún sneri þessu þreytta þema á haus: hér höfðum við síbernska og óábyrga unga konu sem hafði ekki minnsta áhuga á að pakka sinni óreiðu inn í einhverjar áferðarfallegar umbúðir. Og ekki nóg með það: þrátt fyrir allt kaosið og ábyrgðarleysið hafði dóttir hennar komist vellukkuð á legg (það er sennilega réttara svona en að segja að hún hafi „komið barninu á legg“).  

Þetta er bráðfyndinn texti, og enn betri fyrir þá tilfinningu að á bak við óáreiðanlegan sögumanninn leynist óáreiðanlegur höfundur, sem jafnvel mögulega er að segja sannar sögur. Það er kitlandi tilhugsun, en jafnvel þó maður ýti henni til hliðar eins og sá vel uppaldi lesandi sem maður er þá er Kópavogskrónika stórskemmtileg, óvenjuleg og ögrandi bók.

Óvenjulegur og ögrandi íslenskur texti á bók kveikir kannski alltaf áhuga einhverra í leikhúsheiminum á að kanna hvort þar sé efniviður fyrir sviðið, hér í þessu leikgerðalandi. Að ekki sé talað um þegar hann er léttur og fyndinn í ofanálag. Það sem þennan tiltekna texta skortir á hinn bóginn er dramatískt form eða framvinda, og spennu milli sjálfsmyndar söguhetjunnar og raunveruleikans og atburðanna. Hvorugt tekst leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur að leggja til eða magna upp. Of lítið og óskýrt ferðalag eða þróun, hvað þá þroski fyrir persónuna í árekstrum hennar við samfélagið og mismóttækilegt samferðafólk. Það sem er nánast útgangspunktur og erindi bókarinnar verður Akkilesarhæll þegar í leikhúsið er komið og fyrir vikið verður sviðsútgáfa Kópavogskróniku frekar flöt. 

Alls ekki leiðinleg samt. Til þess er aðalpersónan of fyndin, of yfirgengileg, of sjarmerandi. Brandararnir streyma frá henni í þéttri bunu, sérstaklega framan af, meðan hún er að teikna bæinn sinn fyrir okkur, frá Hamraborg upp í Smiðjuhverfi, og fara yfir helstu kærasta og/eða draumaprinsa. Ilmur bætir sínum umtalsverða sviðssjarma við lúmskan þokka söguhetjunnar eins og hann birtist í orðum hennar og heldur athyglinni fanginni þó lítið sé beinlínis að frétta. Það er á hennar herðum sem hiti og þungi kvöldsins hvílir. Stundum glitti í kviku og sársauka undir töffaragrímunni og hún skapar sannfærandi persónu sem við höldum með þrátt fyrir allt. 

Mótleikararnir standa líka fyrir sínu. Þórey Birgisdóttir sennilega eftirminnilegust sem ábyrga mamman á foreldrafundinum. Hljómar alveg ótrúlega leiðinleg, séð með augum aðalpersónunnar sem við erum búin að tileinka okkur þegar þar kemur sögu, þó flest séum við vafalaust (vonandi) á bandi ábyrgu mömmunnar í okkar eigin lífi og Ilmarpersóna hljómi stundum eins og Óttar Guðmundsson að predika yfir sínum síðmiðaldra kór.

Arnmundur Ernst Backman fær feitari aukabita sem hinir aðskiljanlegustu elskhugar og gerir þeim fín skil. Sérstaklega var tölvutónskáldið sérvitra og sérgóða vel formuð og jafnvel frumleg skopfígúra. Verðbréfamiðlarinn öllu venjulegri skíthæll, en eftirminnileg er fínleg nautnin þegar hann tók sér í munn orðin „lögfræðingur hjá Capacent“ til að kynna til sögunnar ósigrandi keppinaut um ástir sínar.

Einföld umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur þótti mér ekki styðja neitt sérstaklega vel við það sem fram fór. Græna grasþústin sem ríkir yfir rýminu nýttist á köflum ágætlega til sviðsetninga á heimilum og skemmtistöðum, sem leikstjórinn Silja leysir að mestu ágætlega, en dálítið klaufalegt að þurfa líka að sækja leikmuni til að skapa sumar aðstæðurnar, og þá ýmist raunsæislega (sjúkrarúm og hitakassi) eða stílfærða (barstólar fyrir bílsæti). Búningar Sigríðar Sunnu voru sannfærandi í sínum natúralisma og lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar þénug. Danstónlistin í sýningunni er viðeigandi sviplaus, og Auðarlagið sem hljómaði meðan áhorfendur ganga út að sýningu lokið var áheyrilegt þó torvelt væri að tengja það við erindi sýningarinnar og ástæðulaust að staldra við eftir hneygingar og fagnaðarlæti.

Í Kópavogskróniku tekst ekki nægilega vel að flytja óvenjulegan og skemmtilegan texta inn í sviðsljósið svo úr verði grípandi og áhrifarík dramatík. Textinn er engu að síður jafn óvenjulegur og skemmtilegur það langt sem hann nær og skemmtir áhorfendum þessa stuttu kvöldstund í prýðilegum flutningi flinkra listamanna. Kamilla er rétt að byrja og er augljóslega hæfileikaríkt ólíkindatól sem engin leið er að spá fyrir um hvað gerir næst. 

þriðjudagur, september 22, 2020

Beðið eftir Beckett

Eftir Trausta Ólafsson byggt á textum Samuels Beckett og brotum úr verkum Dante Alighieri, Hallgríms Péturssonar og Antonins Artaud. Leikstjórn: Trausti Ólafsson. Íslensk þýðing: Trausti Ólafsson, Guðmundur Böðvarsson og Friðrik Rafnsson. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Leikmynd og búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Tónlist: Hjörleifur Valsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Sendiboði: Tóbías Dagur Úlfsson. Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýndi í Kómedíuleikhúsinu Haukadal 30. ágúst 2020, skrifað um sýninguna 9. september 2020 í Tjarnarbíói.

Stefnumótið sem ekki varð


Ef ég vissi hver Godot er hefði ég látið það flakka, sagði Samuel Beckett um sína frægustu persónu. Eða eitthvað í þá átt. Það er semsagt alveg opið fyrir túlkun hver hann er, þessi dularfulli hugsanlegi velgjörðarmaður þeirra Vladimirs og Esdragons í Beðið eftir Godot. Það er allt opið, og þó algengast sé að tengja hann við almættið sjálft er alveg ógalið að stilla Beckett sjálfum upp sem þessum fjarverandi heiðursgesti í lífsdramanu tíðindalausa, eins og Trausti Ólafsson gerir í einleiknum Beðið eftir Beckett. 

Að sjálfsögðu hefur a.m.k. titillinn verið notaður áður, eins snjall og borðleggjandi og hann er; til er heimildarmyndin Waiting for Beckett um líf og störf skáldsins frá árinu 1993. En hún fjallar vafalaust ekki um leikara sem mátar við sig nokkur af helstu verkum skáldsins meðan hann bíður eftir að það láti sjá sig. Árangurslaust auðvitað. Beckett á ekkert vantalað við túlkendur verka sinna. Allt sem hann vildi sagt hafa hefur þegar verið skrifað. Að sönnu nokkuð órætt sumt, og kannski ekki allt jafn djúpt eða merkilegt og óræðnin gefur óneitanlega í skyn, en það besta óumdeild snilld. Og burtséð frá textanum: ekkert leikskáld sögunnar hefur skapað annað eins af myndum sem hafa náð fótfestu í sameiginlegu menningarminni okkar. Blindur maður með annan í taumi. Hjónin í ruslatunnunum. Konan í sandhaugnum. Munnurinn sem getur ekki þagnað. Samuel Beckett er ekki bara skarpur og óvægin túlkandi og greinandi mannsandans á tuttugustu öld. Hann er partur af heimsmynd hans.

Það er Beckettlega um að litast á sviðinu þegar Elfar Logi Hannesson gengur inn til að hefja bið sína eftir skáldinu. Frakki hangir á herðatré niður úr loftinu. Tveir litlir trékistlar. Og að sjálfsögðu nakið tré, sem reyndar er „leikið af“ orfi og ljá. Fullvissan um dauðann er alltaf í loftinu og milli orðanna hjá Samuel Beckett. Þetta er falleg og fáguð mynd, Marsibil G. Kristjánsdóttir er höfundur leikmyndar og búninga. Gervi leikarans er beint úr staðalmynd okkar af flækingunum í Beðið eftir Godot. Þvæld kjólföt og kúluhattur. Göngustafur. Ekki stígvél reyndar heldur skór sem Elfar fer í og úr. 

Grunnerindi leikarans er skýrt. Hann bíður skáldsins og drepur tímann með að róta í koffortunum og textum eftir Beckett og aðra sem tengjast honum eða hugmyndir kvikna upp við upprifjunina og biðina. Fyrirferðarmest (og auðþekkjanlegust) eru brot úr Beðið eftir Godot og einleiknum makalausa, Ekki ég, sem Beckett skrifaði árið 1972. Einnig þar bauð hann ekki upp á neina hjálp til skilnings. „Ég veit ekki hvar hún er eða hvers vegna. Textinn er það eina sem ég þekki“, skrifaði hann Alan Schneider, leikstjóra frumuppfærslunnar.

Trausti Ólafsson er ekki á þeim buxunum að hjálpa okkur neitt til skilnings. Hvorki á Beckett, né hvað leikaranum gengur til með bið sinni. Óræðnin í þeim texta þar sem leikarinn talar „frá eigin brjósti“ er síst minni en í textabútunum sem hann mátar sig við. Þeir eru óneitanlega heldur lágfleygari sem skáldskapur, stundum vandræðalega bernskir. En virka hvorki sem lím eða leiðarvísir. 

Þar hjálpar ekki nálgun leikstjórans. Sú ákvörðun að láta leikarann mæta okkur „í hlutverki“ ef svo má segja. Í búningi, með áberandi leikræna, jafnvel trúðslega, takta. Með augljóslega nákvæmlega fyrirskipaðar og æfðar hreyfingar og samskipti við leikmuni sem aldrei urðu almennilega lífrænar og áttu kannski aldrei að vera það. 

Eins mótsagnakennt og það má virðast þá komumst við næst leikaranum Elfari Loga í viðureign hans við textabrotin frá Beckett sjálfum. Kannski sérstaklega við eintalið óræða Ekki ég, þennan furðulega, staglsama og sundurlausa flaum. Þar var svolítið eins og leikarinn léti flauminn taka yfir, leyfði orðunum að tala fyrir sig sjálf. Ekki ósvipað og höfundurinn sem neitar að stíga inn í samtal textans við þá sem um hann véla. Það flökraði að rýni á þessum stundum hvað hefði verið gaman að sjá Elfar og Trausta ganga á hólm við einhver af eintölum Becketts, án þessara tilbrigða. Síðasta segulband Krapps kom upp í hugann.  

Alla vega náðist ekki hér að skapa áhugaverða spennu milli leikara og höfundarins fjarverandi, milli glímunnar við textana og eigin hlugleiðinga. Kannski var ekki ætlunin að byggja Beðið eftir Beckett á þeirri spennu. En verkið og sýningin láta þá of lítið uppi um hvað höfundum hennar liggur annað á hjarta. 

Tónlist er í mikilvægu hlutverki, vel samin, valin, útsett og flutt af Hjörleifi Valssyni. Lýsing Sigurvalds Ívars Helgasonar falleg og innkoma sendiboðans snyrtilega leyst af hinum unga Tóbías Degi Úlfssyni.

sunnudagur, september 20, 2020

Ekkert er sorglegra en manneskjan

Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Leikstjórn og texti: Adolf Smári Unnarsson. Dramatúrg: Matthías Tryggvi Haraldsson. Leikmynda- og búningahönnuður: Bryndís Ósk. Þ. Ingvarsdóttir. Lýsing: Hafliði Emil Barðason. Myndband: Elmar Þórarinsson. Tónlistarstjórn: Pétur Björnsson. Hljómsveit: Baldvin Ingvar Tryggvason, Björg Brjánsdóttir, Friðrik Margrétar-Guðmundsson, Flemming Viðar Valmundsson, Pétur Björnsson og Unnur Jónsdóttir. Flytjendur: Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson. Frumsýnt 6. september 2020 í Tjarnarbíói, skrifað um 2. sýningu á sama stað 10. september 2020.

Söngur um lífið


Þögul en skopleg örvænting hversdagsins er kannski ekki fyrsta viðfangsefnið sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um óperur. En af hverju ekki? Hvers vegna skyldu útblásin stórdrömu nítjándu aldarinnar stýra því hvernig við hugsum um þetta form, eitthvað frekar en við miðum við þann tíma og hefðir hans þegar við leggjum mat á aðra sviðslistakima? Engu að síður er það staðreynd að af öllum sviðsformum er óperan sú stirðasta. Verst farin af bæði liðagigt, offitu og beinþynningu. Haldið á lífi af sífellt gráhærðari yfirstétt á verndarsvæðum óperuhúsa þar sem sömu gömlu öruggu verkin eru reglulega dregin fram eins og á minjasafni eða dýragarði.

Það er samt lífsmark utan verndarsvæðisins. Reyndar stafar það að hluta af spennunni milli forms og hefða og þess sem nýja kynslóðin kýs að taka til umfjöllunnar. Þannig fóru hláturbylgjur um sal Tjarnarbíós þar sem grámyglulegir sólarlandafararnir fjórir sungu af vélrænni innlifun „Borða mat /drekka vín / Hlægja hátt / segja grín“ og annað álíka þrungið. Ekki var samt hægt að sjá að tónskáldið Friðrik Margrétar-Guðmundsson eða líbrettistinn og leikstjórinn Adolf Smári Unnarsson væru beinlínis að vinna með þessa spennu. Það vottaði varla fyrir paródíublæ, umfram það sem mun alltaf virka kjánalega á alla sem eru ekki beinlínis innvígðir í mál óperunnar: að fólk sé að syngja það sem væri mun nærtækara að segja.

Enda fjöruðu flissin smám saman út. Ekki alveg loku fyrir það skotið að fólki hafi stundum leiðst þófið, tíðindaleysi og endurtekning eru grunnþættir í bæði erindi og fagurfræði verksins. Einhver skelltu nú samt upp úr þegar langdregin leikfimiæfingarsería upphófst í þriðja sinn, en það hló enginn þegar lagt var af stað í rútínuna í sjötta skiptið. Wagner er ekki einn um að reyna á þolrif fólks. Svo má alveg flissa yfir honum líka.

Það eru í sjálfu sér ekki sérlega ný eða markverð tíðindi á boðstólum í Ekkert er sorglegra en manneskjan. Satírísk uppgjöf ungu kynslóðarinnar gagnvart því sem bíður þeirra í ferðalaginu gegnum lífið á þessum síðustu og verstu tímum er bæði skiljanleg, þekkt og kannski heldur dauft eldsneyti í listaverk. Innihaldslausar klisjur náms- og starfsráðgjafa, jógakennara og slökunargúrúa tjá mest lítið annað en eigin innihaldsleysi, þó skoplegar séu. Það var ekki mikið gert af því að afvegaleiða, dýpka eða skrumskæla þessi skilaboð, umfram það sem felst í því að syngja eða flytja þau í talkórum. Sterkasta senan, sú með beittustu sögnina, var væntanlega kórkaflinn þar sem textinn „Allir eru að gera sitt allra besta“ var sunginn meðan sjónvarpsskjárinn sýndi heimsendalegar myndir af kraumandi eldi.

Það sem situr samt sterkast eftir hjá mér eftir sýninguna er hið frábæra og fágaða vald sem hópurinn allur sýnir. Það byrjar í efniviðnum sjálfum. Friðrik hefur samið sérlega áheyrilega tónlist, undir sterkum naumhyggjuáhrifum, þar sem oft er unnið tímunum saman með tvo smekklega kryddaða hljóma sem skiptast á og tilbreytingin birtist fyrst og fremst í hægferðugri taktóreiðu. Frábærlega var unnið með litbrigðin sem hljóðfæraskipanin bauð upp á og aukastig fyrir að bjóða harmóníkuna velkomna í litlu hefðbundnu kammersveitina. Nikkan lagði til heilmikla fyllingu og skemmtilega effektar, auk þess sem hún blandast með eindæmum vel við bæði blásturs- og strokhljóðfærin. 

Flutningur spilenda jafnt sem syngjenda var næsta lýtalaus og einstaklega smekklega unnið með uppmögnun. Textameðferð alla jafnan einstaklega skýr; oft hefur innihaldsríkari texti fengið minni alúð hjá íslenskum söngvurum. Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt um frammistöðu einstakra söngvara að segja, sem aftur ögrar stjörnustemmingunni sem gegnsýrir óperuheiminn, en þau Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson skiluðu sínu lýtalaust, sem hlýtur að teljast helsta dyggðin í heimi sýningarinnar og markmiðum hennar.

Sviðsetning Adolfs Smára er annar þáttur þar sem algert vald fær að njóta sín. Sýningin er kóreógraferuð niður í smæstu smáatriði, hreyfingamynstrið er stranglega agað og þeim aga aldrei ögrað. Persónusköpun, samskipti og samband við áhorfendur eru þættir sem eru algerlega sniðgengnir, og þó vel megi sakna þeirra, og ávinnings af slakara taumhaldi, er aginn virðingarverður og útkoman forvitnileg sem slík. Umgjörð Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur (leikmynd og búningar), Hafliða Emils Barðasonar (lýsing) og Elmars Þórarinssonar (myndband) er prýðilegt verk. 

Ekkert er sorglegra en manneskjan er svo sannarlega ekkert átakaverk. Dramatík er haldið í lágmarki, köld stílfræð nákvæmni kemur í stað mannlegrar nándar og tilfinningatúlkunnar. Þetta er ekki Puccini. Þetta er hinsvegar aðdáunarverð æfing í nákvæmni og fágun og rannsókn á tjáningarmöguleikum einhæfninnar. Ákaflega vel heppnuð sem slík, og svo langt sem hún nær.

fimmtudagur, september 03, 2020

Ég kem alltaf aftur

Ferð með fyrirheiti

Ég missti af hinni rómuðu Íslandsheimsókn pólska meistarans Tadeusz Kantor og leikhópsins Cricot 2 á Listahátíð 1990. Eins og títt er um framúrstefnuleg stórvirki hef ég bæði heyrt vitnisburði frá fólki sem varð fyrir nánast trúarlegri upplifun á „Ég kem aldrei aftur“, og séð nokkra leikhúsgesti skopast með tilburðina. Aðallega að leikstjóranum sjálfum, sem er kannski frægastur fyrir að taka sér einatt stöðu á sviðinu með leikhópnum sínum og gefa fyrirskipanir meðan á sýningum stóð. Ekkert liggur eins vel við höggi gárunganna og þegar listamenn leggja á ókönnuð svæði tjáningarinnar og sækja svo langt í dýptina eftir innblæstri að flestum þykir einfaldara að fylgja þeim ekki eftir heldur horfa á þá úr öruggri fjarlægð háðfuglsins. 

Pálína Jónsdóttir hefur verið í fyrri hópnum. Áður en sýning hófst á „Ég kem alltaf aftur“ flutti hún nokkur inngangsorð um vinnu hópsins og minningar sínar um sýningu Cricot 2 sem að hennar sögn breytti sýn hennar á hvað leikhús gæti verið, og þar með lífi hennar. Sjálf steig Pálína samt ekki á svið í Iðnó til að hafa áhrif á gang mála, heldur eftirlét það félögum sínum í Reykjavík Ensamble, þeim Adam Świtała, Ewu Marcinek, Jördisi Richter, Magdalenu Tworek, Mao Alheimsdóttur, Karolinu Bogusławska, Robert Zadorozny og Wiolu Ujazdowska.  

Sýningin er kölluð verk í vinnslu, og Pálína talaði um níu daga sem hópurinn hafði til umráða í Iðnó áður en áhorfendum var hleypt inn. Þeir hafa verið vel nýttir. Óreiðan í sýningunni stafar ekki af fumi og fáti heldur einmitt af trú á að línuleg rökvísi og vitsmunalegur agi sé, ef ekki til óþurftar, þá allavega óþarfur til að hreyfa við áhorfendum.  Það er alveg rétt. Brotakenndar, næstum kúbískar myndir leikhópsins úr veruleika sínum – pólskum og íslenskum, sögulegum og nútímalegum, persónulegum og pólitískum, trúarlegum og hversdagslegum, harmrænum og fyndnum – opnuðu hugmyndaflug áhorfenda og héldu athygli salarins áreynslulaust í þann klukkutíma sem sýningin stóð. Afslöppuð nærvera og alvörublandin glettni hópsins var hárrétt til að draga okkur inn í heiminn og láta okkur í léttu rúmi liggja að skilja ekki allt.  

Auðvitað er allt önnur orka í sýningu sem unnin er á þessum hraða í íslenska atinu en í djúpri og langvinnri samvinnu og djúpköfun á borð við þá sem Kantor og aðrir sjáendur og vitringar leikhússins á tuttugustu öld fóru í áður en áhorfendum var hleypt að borðinu. En þannig virkar innblástur á alvöru listamenn eins og Pálinu og hennar fólk: kallar ekki fram eftiröpun heldur hvetur til dáða í eigin leit að möguleikum og viðfangsefnum. Opnar dyr sem enginn veit hvert liggja fyrir en gengið er um þær, eða alla vega kíkt inn.  

Hér er arkað af stað af hugrekki og gleði. Það verður gaman að hitta Reykjavík Ensamble á næsta áfangastað. Þau munu koma aftur.

fimmtudagur, ágúst 20, 2020

Í dulitlu dragi

Það er einkenni hugmyndadrifinnar listar, „konsept-listar“ sem kölluð er, að oft bætir upplifun á listaverksinu sjálfu ekki svo miklu við áhrifin af því að heyra hugmyndina útlistaða. Þannig virkaði flutningur Malarastúlkuna fögru, ljóðasöngvabálks Schuberts við ljóð Wilhelms Müller á mig í flutningi tenórsöngvarans Sveins Dúa Hjörleifssonar við undirleik Tómasar Guðna Eggertssonar og dygga aðstoð Kristrúnar Hrafnsdóttur í Tjarnarbíói síðastliðinn laugardag. Ekki að það kæmi neitt að ráði að sök; hver er ekki til í að njóta þessarar undursamlegu tónlistar, sérstaklega þegar sjálfur flutningur hennar er jafn fágaður og sannfærandi og hér var raunin?


En semsagt, hugmyndin er fjári snjöll, sérstaklega á blaðinu. Söngvarinn, ljóðmælandinn, ástsjúki malaradrengurinn finnur malarastúlkuna ómótstæðilegu innra með sjálfum sér, og tekur smám saman á sig mynd hennar með hefðbundnum drag-drottningarmeðulum, meðan hann uppgötvar og veltir sér upp úr ást sinni á henni. Hugmynd sem umsvifalaust getur af sér allskyns frjóanga með þeim sem hana hugleiðir: um ást sem endursameiningu í anda ræðu Aristófanesar í Samdrykkju Platóns. Um taumlausa unga – og óendurgoldna ást sem markmið og nautn í sjálfu sér, eins og Shakespeare tekur óviðjafnanlega til umfjöllunar í Sem yður þóknast, og skopstælir í harmleiknum um Píramus og Þispu – Müller fer ansi nálægt þeim ósköpum með malaradrenginn sinn. Um samspil hins ytra gervis og þess sem undir því býr. Um sviðsetningu okkar á sjálfum okkur í lífinu sjálfu. 


Og svo auðvitað hefðbundna ljóðasöngstónleika sem sviðsetningu í sjálfum sér, með ströngum hefðum og ákveðinni stífni í framgöngu bæði listafólks og áhorfenda. Það opinberaðist strax í upphafi sýningarinnar: þó áhorfendur væru þess örugglega allir fullvissir að hér var sviðsett leiksýning að hefjast gengu þeir inn í hlutverk sín sem tónleikagestir og klöppuðu listamönnunum lof í lófa þegar þeir gengu inn á sviðið – nokkuð sem hefur ekki tíðkast í leikhúsi áratugum saman, en er ófrávíkjanlegt í tónleikasölum.


Smám saman byrjaði hinn leikræni þáttur sýningarinnar að kalla á athygli okkar, frá því að hugmyndin um kvengervið kviknar í samspili Sveins Dúa og nótnaflettarans Kristrúnar, þar til malarastúlka/dragdrottning stígur alsköpuð á svið upp úr miðbiki bálksins. Hinn leikræni hápunktur er þó aðeins fyrr, þegar Sveinn klæðist kvenskónum og heilsar ástmærinni í áttunda söng, Morgengruß. Þá finnum fyrir því að hún er mætt. 


Annar akkillesarhæll konseptdrifinna sviðsetninga er síðan hve sjaldgæft er að hugmyndirnar gangi fullkomlega upp í efniviðnum. Og óneitanlega er erfitt að finna samhljóm milli vegferðar malaradrengsins og hinnar innri/ytri kvenmyndar söngvarans eftir að keppinauturinn um ástir stúlkunnar birtist í ljóðunum. En þá er bara tímabært að segja skilið við vitsmunina og leyfa hinni heiðríku rödd Sveins að heilla sig með hinum dýrðlegu lögum, hvað sem öllum pallíettum og parrukkum líður. Það er vandalaust með öllu. 


Það er skynsamleg hófstilling í sviðssetningu Grétu Kristínar Ómarsdóttur á vegferð malaradrengs og stúlku. Enda setja tæknikröfur sönglistarinnar vafalaust ýmsar skorður, sem og leikfærni þátttakenda. Eftir á að hyggja sennilega hið besta mál að hugmyndinni er þrátt fyrir allt ekki gefið alræðisvald yfir flutningnum. Enda lifir hún sínu lífi í huga áhorfendans, og hefði mögulega gert það þó hún væri bara orð á blaði. Tónlistina þurfum við á hinn bóginn að heyra, það er fyrir öllu.

mánudagur, mars 30, 2020

Skattsvik Development Group

Óvelkomnir í betri stofuna

Breski grínistinn David Mitchell, sem er frægur fyrir sína reiðu rökvísi, benti einu sinni á að meðan skattaundanskot væru möguleg mætti líta á alla skattheimtu sem skatt á heiðarleika: skatthlutfallið ræðst af því hversu hreint þér finnst rétt að koma fram við yfirvöld. Sýningin Skattsvik Development Group undir merkjum tilraunaverkefnisins Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu leiðir hins vegar í ljós að óheiðarleiki er ekki nóg til að koma peningum undan.

Það fer vel á því hjá Ást og karókí að sýna á þessum vettvangi, því form sýningarinnar er nokkurskonar skýrsla um tilraun: Getur íslenskur leikhópur skotið þóknun sinni undan skatti með „hefðbundinni“ skattaskjólsfléttu? Stutta svarið er: nei. Drengirnir komast nokkuð áleiðis með áform sín, enda reynist þroskaður þjónustuiðnaður þrífast víða um heim til að auðvelda slíka vafninga, en á endanum strandar allt á of þröngum fjárhag. Nýleg íþyngjandi löggjöf spilar þar líka inn í en þó er ljóst að þetta hefði gengið upp ef upphæðirnar hefðu verið hærri en sem nemur fimm mánaðarlaunum listamanna í nýgræðingaflokki. Enn sem komið er eru þeir Adolf Smári Unnarsson, Birnir Jón Sigurðsson, Friðrik Margrétar- Guðmundsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon óvelkomnir í koníaksstofu þeirra sem eiga það einungis við eigin heiðarleika hvað þeir greiða til samfélagsins. Samkvæmt upplýsingum frá einum ráðgjafa þeirra félaga eru um 70% allra peninga heimsins í skattaskjólum. Það er sú tala sem endurómar í höfði áhorfenda þegar þeir ganga út úr Borgarleikhúsinu eftir skýrsluna. Trúlega dramatískur hápunktur sýningarinnar.

Þó að Ást og karókí hafi ráðist í þennan skítlega leiðangur er heiðarleiki grunntónn sýningarinnar. Þannig gangast þeir fúslega við því að það sem þeir bjóða upp á muni minna á efnistök annars íslensks ólíkindaleikhóps: Kriðpleirs. Það eru orð að sönnu, og natúralískur vandræðagangshúmorinn liggur vel fyrir Á&K-mönnum. Það birtist strax í upphafi þar sem þeir kynna sig hver og einn til sögunnar og afhjúpa sig sem – eðlilega – allnokkuð fákunnandi í þeirri list að svikja undan skatti. Og svo – sem er öllu verra – reynast fæstir þeirra bera skynbragð á strangheiðarlega skattaskýrslu. Hápunkti nær þetta gaman þegar þeir glíma við það snúna verkefni að koma bréfi í hraðpóst, og endist varla vinnudagur til þess.

Að því ævintýri undanskildu er sýningin í sjálfu sér ekki sérstök skemmtun, og ætlar greinilega ekkert endilega að vera það. Síðasti hluti hennar, vídeóspjallið við úrræðagóða ráðgjafann með upplýsingarnar um hvar 7/10 af auðæfum heimsins eru niðurkomin, er til dæmis ansi dauflegt sem leikhús. Það er ekki heiglum hent að skilja hvað maðurinn er að leggja til, og það er ekki eins fyndið hvað félagarnir botna lítið í því þegar áhorfandinn er jafn litlu nær.

Engu að síður: Allir þessir ósýnilegu peningar. Allt þetta fólk sem vinnur við að koma fé hinna ríku undan. Allar þessar girðingar sem stöðva bara meðaljóninn. Og þessi tæpi þriðjungur fjármuna heimsins sem stendur undir samneyslunni og allir njóta. Líka þeir sem eiga rest. Það er alveg kvöldstundar virði að láta minna sig á þetta.