þriðjudagur, október 05, 2021

Út að borða með Ester

​​Eftir Bjarna Jónsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikarar: Guðrún S. Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson. Frumsýning í Leikhúskjallaranum í Þjóðleikhúsinu miðvikudaginn 22. september 2021.

Parið á næsta borði

Það er langt síðan síðast var gerð tilraun með hádegisleikhús, er það ekki? Vonandi tekst  vel til með tilraun Þjóðleikhússins í vetur. Það er í það minnsta hægt að segja að það fari vel af stað. Það lofar góðu að rýmið í kjallaranum sé sveigjanlegt, en ekki bundið við að leika á „hljómsveitarpallinum“, sem gerir engum greiða hvað varðar súlur, sjónlínur og innkomuleiðir. Að þessu sinni er leikið á stórum palli fyrir miðju með áhorfendur allt í kring og gengur vel að vinna með það form.
Efnisskráin framundan er forvitnileg, og gaman að sjá að þar ætla tvö úr leikarahópi leikhússins að spreyta sig á leikstjórn, hugsanlega í fyrsta sinn þó ég ætli nú ekki að fullyrða það hástöfum. Í þessu fyrsta hádegi er það hins vegar hinn kornungi reynslubolti Gréta Kristín Ómarsdóttir sem heldur í taumana. Tilfinningin utan frá séð er að það hafi ekki verið ýkja krefjandi verkefni, en þeim mun ánægjulegra.
Leikverk sem ekki fylla upp í heila kvöldstund eru fáséð á fjölum atvinnuleikhúsa þó formið lifi góðu lífi hjá áhugaleikfélögunum, þökk sé m.a. leikritunarnámskeiðum þar sem Bjarni Jónsson hefur ásamt fleirum leiðbeint. Absúrdleikhúsið, um og upp úr miðri síðustu öld, nýtti sér kosti stutta formsins og frelsið sem fæst í þrengri stakki, vinsæl verk af því tagi eru til að mynda að finna hjá Ionesco, Beckett og Pinter . Endurómur úr húsi fáránleikans heyrist í nánast öllum stuttverkum nútímans og svo er einnig um Út að borða með Ester. Vantraust absúrdistanna á dramatík og efasemdir um nauðsyn þess að hnýta lausa enda gengur aftur í þessari hálftíma löngu heimsókn okkar inn í líf tveggja eldri borgara í tilhugalífinu.
Eða eru þau á þeim buxunum? Kannski sum þeirra, það er einn af spennugjöfum verksins hvað Hauk langar mikið að komast upp á milli Esterar og framliðins eiginmanns hennar. Annar, sem er kannski frekar gleðigjafi en spennu-, er hvað þeim Hauki og Ester hefur gengið vel að verða gömul hjón, með öllum þeim samstillingar- og núningsáhrifum sem svoleiðis samlífi ber með sér, án þess að vera slík hjón, eða hafa endilega þekkst mjög lengi. 
Og þá má spyrja: af hverju reynist þessi mótsagnakennda staða ekki galli á verki Bjarna Jónssonar, og sýningunni í Þjóðleikhúskjallaranum þegar til kastanna kemur? Það má tefla fram tveimur skýringum. 
Önnur er arfur úr absúrdleikhúsinu; órökvísi og óræðni getur vel verið listræn ákvörðun í þeirri hefð frekar en höfundaglöp. Það sama má segja um það stílbragð að leika tveimur skjöldum um hvort fjórði veggurinn umlyki persónurnar eða ekki, eins og Bjarni leikur sér mjög skemmtilega með hér. 
Hin er aldeilis framúrskarandi frammistaða reynsluboltanna á sviðinu. Það er hreinn unaður að horfa úr návígi á þennan dans Guðrúnar Gísladóttur og Sigurðar Sigurjónssonar. Eftir á að hyggja er engin leið að tilgreina hvað kveikti hin tíðu hlátrarsköll í kjallaranum. Sýningin er ekki keyrð áfram á orðaleikjum, hnyttiyrðum eða farsabrellum svo böndin berast að algeru öryggi flytjendanna. Þetta er fyndið af því að það er satt, er stundum sagt og það er upplifunin af þessum fyrstu og einu kynnum af Ester og Hauki. Og það er einmitt áreynslulaus og afslöppuð fimi Guðrúnar og Sigurðar sem sannfæra okkur um að allt sé satt.
Gulu tónarnir í búningum Evu Signýjar Berger gerðu svo sitt til að létta brúnina á bæði leikurum og áhorfendum. Heilt yfir alveg hin prýðilegasta hádegisstund hjá gestum Þjóðleikhússkjallarans, þó allt sé í óvissu með framtíðina hjá Hauki og Ester.

fimmtudagur, september 30, 2021

Ásta


Leikverk byggt á höfundarverki Ástu Sigurðardóttur. Handrit og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Dramatúrg og aðstoðarleikstjóri: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir. Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og Matthildur Hafliðadóttir. Tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Sigurbjörg Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Myndbandshönnun: Steinar Júlíusson. Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson. Sviðshreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir. Hljómsveit: Guðmundur Óskar Guðmundsson, Matthildur Hafliðadóttir, Rögnvaldur Borgþórsson og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir. Leikarar: Birgitta Birgisdóttir, Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Oddur Júlíusson, Hákon Jóhannesson og Steinunn Arinbjarnardóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 17. september 2021.

Kona stígur fram

Á sínu gullna skeiði hefur Ásta Sigurðardóttir borið af öllum. Klárust, orðheppnust, flinkust, frökkust, fallegust. Hreinlega best í öllu. Síðast en ekki síst nútímalegust. 
Hvernig gat það eiginlega gerst? Kotbóndadóttir úr Kolbeinsstaðahreppnum, alin upp á Eddukvæðum og brennisteinsríkari hlutum Biblíunnar með skyrinu og slátrinu. Og hvernig gat svo hitt gerst; að allir þessir mannkostir og möguleikar brynnu upp og koðnuðu síðan niður? Hvorki lífeðlisfræðilegar tilgátur um alkóhólfíkn, inngróið samfélagslegt óréttlæti um miðja síðustu öld né sálfræðikenningar um afleiðingar sífellds umtals og fordæmandi gláps fullægja okkur. Kannski viljum við bara fá að syrgja í friði allar sögurnar sem aldrei voru skrifaðar, óristu dúkana og hversdagslegu lífshamingjuna sem stundum virðist vera innan seilingar og okkur langar svo að hefði getað orðið hlutskipti hennar.
Leikverk og sýning Ólafs Egils Egilssonar ætlar sér ekki að leysa neinar af þessum gátum. Nema kannski með því að leggja spilin á borðið enn einu sinni og leyfa okkur að horfa á mynstrið myndast. Rifja upp fyrir þeim sem þekkja og kynna magnaðan kima fyrir hinum. Verkið byggir á heimildarvinnu og rannsóknum, lestri smásagnanna og annarra texta Ástu, grúski í bréfum og opinberum skjölum og viðtölum við fólk. Vafalaust hafa þau Ólafur og Andrea Elín Vilhjálmsdóttir dramatúrg haft mikinn stuðning af „Minn hlátur er sorg“, ágætri bók Friðriku Benónýsdóttur um Ástu frá 1992 sem nú hefur verið endurútgefin.
Þetta tekst þegar á allt er litið harla vel. Stundum, sérstaklega í fyrri hlutanum, er eins og einhverntíman hafi staðið til að þetta væri einhverskonar stórsjó í anda Þreks og tára, með helmingi fleiri leikurum, hringsviðinu á yfirsnúningi og tíðarandanum í aðalhlutverki. En fljótlega þrengist sjónarhornið um Ástu, samferðafólk hennar í bóhemalífinu og hvernig allt sem hún gerir virðist stuða og ógna kyrrstöðunni og siðgæðinu. Módelstörfin auðvitað, en líka einfaldlega plássið sem hún tekur sér. Og svo stóra bomban, smásagan „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“, sem engum dettur í hug annað en sé sannsöguleg, að þarna hafi höfundurinn „stigið fram“ eins og það er kallað í nútímanum, og eins og nú má ekki á milli sjá hvort er ljótari synd; að afhjúpa ofbeldi tæpitungulaust eða nefna ekki nöfn. 
Úrvinnsla Ólafs Egils og hans fólks á sögunni frægu, sem er fléttuð saman við hina grimmilegu hrollvekju „Dýrasögu“, er áhrifarík og snjöll. Þaðan liggur leið Ástu að mestu niður á við með stuttu sælutímabili og barnaláni í Kópavogi, og áhrifamáttur sýningarinnar og tök hópsins á efninu styrkist að sama skapi. Lokin, þar sem bréfasendingar milli móður og barna er fléttað saman við skýrslutexta um nöturlegar aðstæður hennar og þeirra, eru sérlega sterk, og brilljant lausn hefur fundist á að gefa tilfinningu fyrir börnunum án þess að leikhópnum sé gert að „túlka“ þau sem slík, sem erfitt er að sjá fyrir sér að hefði endað öðruvísi en með vandræðagangi.
Fram að því hafa þau Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson, Oddur Júlíusson og Steinunn Arinbjarnardóttir í nógu að snúast við að skapa samfélagið í kringum Ástu. Aðalbjörg er flott sem hin harðneskjulega móðir, sem þrátt fyrir sína heitu trú er stundum líka rödd jarðneskrar skynsemi, sem auðvelt er að leiða hjá sér eða slá út af laginu með vel formuðu guðlasti. Bitastæðasta hlutverk Steinunnar er systirin sem virðist bjargast þó óreglan heilli hana líka. Gunnar Smári fer fínlega með það vandasama verkefni að vera Þorsteinn frá Hamri, sem hvorki sýningarhöfundar né gestir kæra sig líklega um að sé afgreiddur sem lítilsigldur óþokki þó erfitt sé að horfa á hann yfirgefa fjölskylduna. Hákon dregur upp fallegar myndir af föður Ástu og Geir Kristjánssyni. Sterkust tökin á að draga upp skyndimyndir hefur þó Oddur, sem er óborganlegur sem Jónas Svafár, Karl rafvélavirki og skýr Jóhannes Geir, þó það sé ekki skopmynd heldur einfaldlega sannfærandi mannlýsing í fáum dráttum.
Allt hverfist þetta síðan í kringum Birgittu Birgisdóttur í hlutverki Ástu, sem ber sýninguna á herðum sér með umtalsverðum glæsibrag. Það er viss, og pínu óvænt, hófstilling í túlkun og framsetningu persónunnar, sem Birgitta heldur mjög fallega utan um. Vel hefði verið hægt að hugsa sér nærgöngulli, grófari, trylltari lögn. Þess í stað mætti kannski tala um „hetjusögunálgun“ í sýningunni, næstum en ekki alveg dýrlingasmíð. Það vottar ekki fyrir hinni óforskömmuðu glennu sem birtist í kjaftasögunum. Hefði ekki mátt gefa í skyn að það hafi verið einhver fótur fyrir þeim án þess að rugga ímyndarbátnum um um of? 
Þessi hófstilling gerir fyrri hlutann dálítið bragðminni og einfeldningslegri en hann hefði orðið með margræðari túlkun aðalpersónunnar. Á hinn bóginn verður síðari hlutinn, niðurleiðin hroðalega, bæði bærilegri og áhugaverðari en hún hefði orðin með vægðarlausri nálgun. Sem vafalaust hefði hrist meira við tilfinningunum, en verið í stórhættu með að sökkva í fen melódramans. Og staðreyndir málsins um seinni ár Ástu Sigurðardóttur duga alveg til að hreyfa við manni. 
Umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er skemmtilega hráslagaleg, en það er dálítið þröngt um sýninguna í rýminu, innan um þessar tvær hreyfanlegu tröppur og annað sem hún kallar á. Búningar smartir, sérstaklega auðvitað dívuleg og litsterk klæði söguhetjunnar, en þar á Sigurbjörg Stefánsdóttir hlut að máli ásamt Sigríði Sunnu. Tónlistin á ekki minnstan hlut í að skapa tíðarandann, og á það bæði við um gömlu lögin og þau sem Guðmundur Óskar Guðmundsson og Matthildur Hafliðadóttir sömdu við ljóð Ástu í tilefni sýningarinnar, og eru sérlega glæsileg og fallega flutt af vel spilandi bandi og Matthildi sem syngur þau fagurlega. Vonandi lifa þau áfram.
Þótt höfundaverk Ástu Sigurðardóttur sé ekki mikið að vöxtum er engin hætta á að hún falli í gleymsku. Þekktustu smásögurnar verða lesnar, spilin hennar kröftugu lögð á borðið og við munum halda áfram að stara í forundran á ljósmyndir Kaldals þegar við viljum fá augnablikstilfinningu fyrir elegans miðrar tuttugustu aldarinnar. Og við munum halda áfram að undrast og harma þessi dapurlegu örlög sem svo margt í fari hennar sjálfrar, tíðarandanum og grimmri menningunni skapaði henni i sameiningu. Sýning Þjóðleikússins er fagmannleg, vel hugsuð og þörf upprifjun á þessu öllu.

miðvikudagur, september 15, 2021

Rómeó og Júlía

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarsson. Leikstjórn og leikgerð: Þorleifur Örn Arnarsson. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Anna Rún Tryggvadóttir og Urður Hákonardóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Myndband: Nanna MBS og Signý Rós Ólafsdóttir. Tónlist og söngtextar: Salka Valsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Auður og Bríet Ísis Elfar. Tónlistarstjórn: Salka Valsdóttir. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Danshöfundar: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebecca Hidalgo. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Salka Valsdóttir, Rebecca Hidalgo, Atli Rafn Sigurðarson, Hilmar Guðjónsson, Bríet Ísis Elfar, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Arnar Jónsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Jónmundur Grétarsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 4. og 5. september 2021.

Þú og ég við erum svo ...

Þrjú leikritanna sem Shakespeare skrifaði á árunum 1595–6 mætti sem best kalla „feðraveldisþríleikinn“. Rómeó og Júlía, Draumur á Jónsmessunótt og Kaupmaðurinn í Feneyjum sækja öll hreyfiafl í tilraunir feðra til að stýra makavali dætra sinna. Grimmilegast birtist þetta í Draumnum, sem þó er hreinræktaðasti gleðileikurinn af þessum þremur. Shakespeare er nefnilega háll sem áll þegar kemur að því að greina hann, flokka, kryfja – og sviðsetja. 
Hálkan er bölvun og blessun. Hún er atvinnuskapandi fyrir fræðimenn og á örugglega sinn þátt í vinsældum helstu verkanna í leikhúsum allra tíma og allra þjóða. 
Síðarnefndu verkin tvö eru samkvæmt hefðinni flokkuð með gamanleikjum, sem væri kannski réttara að kalla „giftingarleiki“. Hjónaband er niðurstaða þeirra, það skiptir minna máli hvort þau veki hlátur. Reyndar er vel hægt hlæja meira að fyndnari harmleikjunum, svo sem Hamlet, en brúnaþyngri gamanleikjunum.
Rómeó og Júlía fellur snyrtilega á milli gamans og harms. Fyrri hlutinn greinir sig á engan hátt frá gamanleikjunum, en ógæfan sem hefst með dauða Tíbalts og útlegð Rómeós er harmrænan holdi klædd. Túlkun Þorleifs Arnar Arnarssonar og samstarfsfólks hans undirstrikar þessar tvær hliðar á mjög afgerandi hátt, sem kemur upplifuninni á ýmsan hátt til góða, en kostar á öðrum sviðum. Shakespeare er háll sem áll.

Best tekst það sem mestu varðar: að sýna okkur sannfærandi ástfangna unglinga, sannfærandi fyrstu sönnu ást. Þar leggst ansi margt á eitt. Hæfileikar, útgeislun og sviðsþokki Sigurbjarts Sturlu Atlasonar og Ebbu Katrínar Finnsdóttur vegur þar þyngst. Bæði leyfa okkur líka að sjá inn fyrir æskusjarmann, sem gefur þeim vídd og dýpt. Rómeó og Júlía eru nefnilega ekki bara skotin hvort í öðru, þau eru ekki síður sjálfselsk og sjálfsupptekin. Þau eru unglingar. 
Tónlistarnotkunin undirstrikar þetta. Hér eru kallaðar til liðs stjörnur úr yngri deild íslenska poppsins; Bríet, Auður og Salka Valsdóttir, auk aðalleikaranna tveggja, sem skila heilt yfir frábæru verki. Ég verð illa vikinn ef gullfallegur upphafs- og lokasöngurinn verður ekki á dagskrá þegar Klassíkin okkar kíkir aftur á leikhústónlistina eftir svona þrjátíu ár. Enn mikilvægara fyrir sýninguna er hve poppnærveran undirstrikar eðli ástarinnar sem hér stýrir örlögum: þetta er nefnilega poppást: Stundarhrifning fyrstu kynna, ást milli fólks sem þekkist ekki einu sinni þegar örlög þess ráðast á einu andartaki. Ástin sem sungið er um. Hið stórkostlega svalaatriði (sem hér er snúið skemmtilega á haus) undirstrikar þetta. Ást Rómeós og Júlíu er full af gáska, hita, gleði og kjánaskap. Hún er náttúruafl. Er hún djúp? Það mun enginn nokkurntíman fá að vita. 
Þýðing Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Jóns Magnúsar Arnarssonar vinnur með þessari kæti. Sennilega mun enginn ábyrgur kennari eða bókavörður ota henni að fólki sem langar að lesa Rómeó og Júlíu, allavega ekki ef Helgi eða Matthías eru hendi nær. En hún þjónar markmiðum þessarar sýningar ljómandi vel. Og er ákaflega trú anda frumtextans þó formið sé rofið og vikið frá bókstaflegu innihaldinu þegar henta þykir. Hrærigrautur nútímamáls og vísana í lífið hér og nú, saman við upphafna lýrík og viðtekið skáldlegt orðfæri, og smá neðanþindardónaskap þegar á þarf að halda, eru jú höfuðeinkenni höfuðskáldsins.
Þegar dimmir yfir, þegar eitruð karlmennskan brýst fram í ögrunum og mannvígum og yfirráðaréttur föðurins yfir dóttur sinni er ítrekaður með vel þekktum afleiðingum, missir sýningin flugið. Eins vel og stílsmáta og nálgun Þorleifs og félaga lætur að nota tækni, liti, óreiðu og ofgnótt til að skapa stemmingu þá nýtist hún verr þegar efniviðurinn kallar á nákvæman fókus á atburðakeðju, þegar tilfinningarnar verða djúpar og sárar. Bardaginn sem breytir leiknum er hér hálfkjánaleg leðjuglíma sem engin leið er að greina hvert stefnir. það sem verra er: fjörið og sjóið reynist hafa haldið okkur frá aðalpersónunum svo við fylgjum þeim síður tilfinningalega eftir ofan í táradalinn. Verst er samt að það er engu líkara en það sé ekki ætlast til að við förum í þann leiðangur. Þreyttir brandarar draga reglulega athygli okkar að því að við séum reyndar bara stödd í leikhúsi og þegar hæst stendur í undirbyggingu lokakaflans, í miðri dramatíkinni, kviknar á neonskilti á stóra skjánum á bakveggnum: „intense“. Spennan slaknar í taugaveikluðum hlátrinum yfir þessari kaldhæðni. Og við missum af harmleikjalestinni. Dramað verður aldrei dramatískt.

Endastöðin er reyndar önnur en í verkinu sem sýningin byggir á. Leikrit Shakespeares er um ástfangin ungmenni sem horfa á ástvin sinn dáinn og kjósa frekar dauðan en að lifa áfram án hans/hennar. Það þarf smá plottbrellu til að þau geti bæði staðið frammi fyrir þessu vali, og nútímaleikhúsið hefur ekki mikla trú á svoleiðis. Svo þessi sýning er um ástfangin ungmenni sem kjósa í sameiningu að svipta sig lífi þegar ógnir steðja að samvistum þeirra. Það er ekki sama saga og ekki auðvelt að sjá hversvegna hún þótti betri en hin. Kannski vegna þess að hún er það ekki. 
Að öðru leyti eru helstu breytingar á gangverki verksins vel hugsaðar og sumar ágætlega heppnaðar. Það er lítil eftirsjá til dæmis af prinsinum og ekki stórvægileg af foreldrum Rómeós, og þó samsláttur Merkútíós og föður Lárens geri Atla Rafni Sigurðarsyni enga greiða í að skapa sannfærandi persónu þá reyndist það minna mál en mig grunaði þegar ég sá í hvað stemmdi. Atli fór vel með fræga textaaríuna um draumadrottninguna Möbbu, en „dauðastríðið“ hvarf í óreiðunni. 
Fyrir utan titilhlutverkin er lítið svigrúm fyrir leikhópinn að glansa þó allir hafi í nógu að snúast við að halda boltum á lofti, og hlaupa um sviðið ef ekki vill betur til. Það má velta því fyrir sér hvort boðskapnum um kerfisvillu feðraveldisins hefði ekki verið betur þjónað ef Kapúlett Arnars Jónssonar væri ekki svona mikið ógeð. Á hinn bóginn var gott að Hallgrímur Ólafsson og leikstjórinn stillu sig um að láta París greifa vera alveg óhugsandi elskhuga, eins og stundum er gert. Þessi París ætti alveg séns ef Rómeó hefði sleppt því að svindla sér inn á ballið. En mikið var Ebba Katrín fyndin þegar hún sleppti sér yfir óhugsanleikanum við að elska þennan mann. 
Þó fyrri hlutinn sé almennt betri en sá síðari náðu Nína Dögg Filippusdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir nær kjarna persónanna sinna undir lokin. Þá sá maður loksins glitta í harminn sem frú Kapúlett hefur borið alla ævi, og virðist munu endurtaka sig hjá dótturinni. Og eftir að fóstran þarf ekki lengur að vera fyndin varð Ólafía sönn. Auðvitað voru Örn Árnason og Sigurður Sigurjónsson sniðugir, þó erfitt sé að skilja hvað svona utanveltukarakterar vilja upp á dekk. Hilmar Guðjónsson er flestum betri í að vita ekkert hvað er í gangi svo úr verði fynd og það nýtist ágætlega í Benvólíó. Jónmundur Grétarsson var flottur Týbalt. Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Salka Valsdóttir, Bríet Ísis Elfar og Rebecca Hidalgo góð í sínu. Tónlistarflutningurinn hreint afbragð.
Búningar Önnu Rúnar Tryggvadóttur og Urðar Hákonardóttur eru mikið sjónarspil. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur smart  og ljósbeiting Björns Bergsteins Guðmundssonar örugg og áhrifarík. Þessir hefðbundu umgjarðarþættir eru um margt yfirskyggðir af skjánotkun sem er beitt af miklu öryggi, oft á áhrifaríkan hátt til að víkka út atburðarýmið, en líka til að færa okkur nær persónunum með nærmyndum. Þar gæti leikhúsið verið að pissa í skóinn sinn: áberandi hve orkustigið hrapar þegar slökkt er á skjávarpanum og óuppmagnaður leikari þarf að fylla rýmið á eigin spýtur.
Næst þegar Shakespeare gerði ástina að viðfangsefni, einum fimm árum síðar, voru feður og kúgunarafl þeirra víðs fjarri. Í As You Like It og Twelfth Night eru það vitrar og sjálfum sér ráðandi ungar stúlkur sem ráðast í það verkefni að breyta ástsjúkum vonbiðlum sínum í mannsefni sem á vetur eru setjandi. Við fáum aldrei að vita hvernig hitinn í ást Rómeós og Júlíu hefði hegðað sér undir svoleiðis þrýstingi. Uppfærsla Þjóðleikhússins að þessu sinni skorar hátt í tjáningu sinni á hinni trylltu órökvísi tilfinninganna en leiðir söguna ekki sannfærandi til lykta. Ungir aðalleikararnir ljóma. Það er ljómandi.
Og það er löngu kominn tími á að við fáum Kaupmanninn í Feneyjum á svið. Þar er nú aldeilis svigrúm fyrir róttæka sviðslistamenn.


sunnudagur, ágúst 22, 2021

Góðan daginn, faggi

Eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Tónlist: Axel Ingi Árnason. Sviðshreyfingar: Cameron Corbett. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Stílisti: Eva Signý Berger. Leikari: Bjarni Snæbjörnsson. Rýnt í fyrstu sýningu í Þjóðleikhúskjallaranum föstudaginn 13. ágúst 2021.

Brosa, jákvæðni ...


Fyrir utan allt það umtalsverða sem einsöngleikur (söngeinleikur?) Bjarna Snæbjörnssonar hefur að segja okkur um líf og áskoranir samkynhneigðs karlmanns á besta aldri í sæluríki umburðalyndis og velsældar þá er hann ekki síður áminning um gildi þess að halda dagbók. Og nei, Facebookstatusar leysa þær ekki af hólmi. Facebook er ekki trúnaðarvinur. Facebook dæmir þig. Þó þú getir sennilega rakið atburðakeðju lífs þíns þokkalega með því að skruna aftur í tímann á veggnum þínum þá verður þú sennilega lítils vísari um hvernig var að vera þú á hinum ýmsu æviskeiðum. Og svo er hitt: ef Bjarni hefði birt á samfélagsmiðlum sumt sem hann trúði dagbókunum sínum fyrir væri hann löngu kominn í bann. Og hefði ekki getað notað hinar skrásettu upplifanir til að leita skýringa á taugaáfallinu sem hann fékk, tuttugu árum eftir að hafa komið út úr skápnum, þegar allt virtist leika þvílíkt í lyndi.
Ef einhverjum vaxa dagbókarskrif í augum þá er rétt að leggja áherslu á að dagbækur eru ekki bókmenntir. Nema þá óvart. Þær þurfa ekki að lúta kröfum fagurfræði eða byggingarreglugerðum bókmenntafræðinnar. Varla einu sinni málfræðinnar. Ekki frekar en lífið sem þær lýsa. Gildi þeirra liggur í varðveislunni og vitnisburðinum.
Segja má að Góðan daginn faggi endurspegli þetta óhamda, óformaða eðli efniviðarins. Sagan sem Bjarni segir er mestan part línuleg, frá barnæsku á Tálknafirði, í gegnum tilvistarkrísu unglingsára með vaknandi vitneskju um kynhneigðina og viðurkenningu á henni. Það er ekki fyrr en undir lokin sem staldrað er við til að greina, leggja út af og draga ályktanir, skýra hvernig stóð á áfallinu óvænta. Frá sjónarhóli dramatúrgíunnar er sá hluti ekki sérlega vel undirbyggður og óþarflega knappur, enda má segja að þar sé komið að kjarna málsins. Á hinn bóginn er hann augljóslega jafn einlægur og játningarnar í dagbókunum og þykkum bréfunum sem Bjarni skrifaði vinkonum sínum á unglingsárunum. Og það skiptir á endanum meira máli.
Afslöppuð einlægnin einkennir líka stíl og framsetningu sýningarinnar. Rýmið á sviði Þjóðleikhúskjallarans er látið að mestu óáreitt. Þar eru einungis „nytjahlutir“, frekar tilviljanakennt staðsettir: borð fyrir bakpoka, tvö statíf til að stilla upp bókum og pappírum. Eins hef ég á tilfinningunni að verkefni Grétu Kristínar Ómarsdóttur leikstjóra hafi fyrst og fremst verið að skapa öryggi og traust fyrir Bjarna til að segja sína sögu, frekar en að móta hana og stýra. Hárrétt nálgun auðvitað og hleypir áhorfendum enn nær persónunni sem Bjarni afhjúpar fyrir okkur af örlæti, orku og tæknilegri fimi.
Lengst af er áhersla Bjarna og samstarfsfólks hans samt á skemmtun. Vitaskuld, þetta er jú söngleikur. Það er uppistandsbragur á upphafinu, sem helst áfram inn í æviágripið og undirstrikast enn frekar af flestum tónlistaratriðunum, þó einlægni og sjálfsskoðun bregði þar fyrir líka. Lög Axels Inga Árnasonar eru framúrskarandi smíðar, kirfilega innan söngleikjahefðarinnar án þess að virka sem skopstælingar. Textarnir eru glúrnir og rímuð „pönsin“ hitta iðulega beint í mark. Flutningurinn stórglæsilegur. Eftirminnilegur er lagabálkur sem dregur upp morðfyndnar myndir af nokkrum staðalmyndum hommans, sem við gætum þess vegna kallað „skápa“, sem þeim er stillt út í, af umhverfinu og sennilega líka sínu eigin samfélagi. Smekklegi Epalhomminn, hommavinur stelpnanna, lausláti djammarinn og júróvisjónlúðinn fá hver sín erindi og vægðarlausa útmálun.
Annað leiðarstef, sem hefði að ósekju mátt fá meira andrými og athygli, er sú krafa sem hvílir sennilega að einhverju leyti á öllum hommum en kannski þyngst á Bjarna og starfsbræðrum hans: að geta virkað „streit“ á sviði og annarsstaðar. Drepfyndin var endurgerð þeirra Axels á auglýsingu sem Bjarni lék í, en þótti of „mjúkur“ og var á endanum skipt út fyrir sér „harðari“ leikara. Drepfyndin og sorgleg, eins og fleiri árekstrar hans við hið gagnkynhneigða norm sem allsstaðar er og allsstaðar ríkir.
Umburðarlyndi er vissulega gott, en það felur auðvitað í sér að eitthvað þurfi að „umbera“. Og að þurfa að umbera sjálfan sig getur auðveldlega endað í taugaáfalli úti í hrauni, hvað sem öllum gleðigöngum og lagaumbætum líður. Fyrir utan að vera bráðskemmtileg kvöldstund yfir drykk á fornfrægum skemmtistað tekst Góðan daginn faggi að minna okkur á þetta og vonandi hrista smá upp í frjálslyndri sjálfsánægjunni.
mánudagur, júní 07, 2021

Krufning á sjálfsmorði

Eft­ir Alice Birch. Íslensk þýðing: Salka Guðmunds­dótt­ir. Leik­stjórn: Marta Nor­dal og Anna María Tóm­as­dótt­ir. Leik­mynd og bún­ing­ar: Brynja Björns­dótt­ir. Tónlist: Ísi­dór Jök­ull Bjarna­son. Lýs­ing: Ólaf­ur Ágúst Stef­áns­son. Leik­ar­ar: Alm­ar Blær Sig­ur­jóns­son, Björk Guðmunds­dótt­ir, Ell­en Mar­grét Bæhrenz, Fann­ar Arn­ars­son, Kristrún Kol­brún­ar­dótt­ir, Ní­els Thi­baud Girerd, Stefán Þór Þor­geirs­son, Urður Bergs­dótt­ir og Örn Gauti Jó­hanns­son. Einnig koma fram í sýn­ing­unni þær Anna María Tryggva­dótt­ir og Arnþrúður Kar­en Vikt­ors­dótt­ir sem og kan­ín­an Skúli. Lista­há­skóli Íslands í sam­starfi við Leik­fé­lag Ak­ur­eyr­ar og Þjóðleik­húsið í Kass­an­um í Þjóðleik­hús­inu 1. júní 2021.

Syndir mæðranna

Eins og svo oft áður er síðasta embættiverk gagnrýnandans á leikárinu að skrifa umsögn um útskriftarverkefni nemenda leikarabrautar Listaháskólans. Vonandi markar sýningin önnur tímamót og verður sú síðasta þar sem grímuskylda áhorfenda gildir. Óskandi er að næsta leikár fari fram truflunarlaust og leikhúsin komi frá sér stórum fyrningarstabba undanfarinna leikára. Og vonandi setur sú fordæmalausa staða möguleika hinna nýútskrifuðu í sem minnst uppnám. Nóg er nú óvissan samt.

Sem eigingjarn og gráðugur leikhúsgestur þá sakna ég Nemendaleikhússins: þegar lokaár Leiklistarskólans fólst í uppfærslu þriggja sýninga, sem gefur augljóslega mun betra færi fyrir öll leikaraefnin til að skína en ein. Það er nefnilega ekki um auðugan garð að gresja í leit að leikriti sem hentar til þess arna. Að veðja á einn hest dregur mjög úr líkunum á að vel takist til, og það hefur því miður ekki lukkast sem skyldi í þetta sinn.

Leikrit Alice Birch, Krufning á sjálfsmorði, var frumsýnt í Royal Court leikhúsinu í London fyrir fjórum árum í uppfærslu Katie Mitchell við talsvert lof. Í því er áfallasaga þriggja kynslóða kvenna rakin samtímis, fléttuð saman af mikilli íþrótt. Óneitanlega virðist sem sköpunarorka höfundar hafi að mestu farið í að láta formið ganga upp. Persónusköpun ristir ekki djúpt og það sem verra er: Birch lætur að mestu ógert að skoða orsakasamhengi geðsjúkdómanna sem hún fjallar um. Félagslegar hliðar, samskiptamynstur, þjóðfélagsstaða, umhverfi: ekkert af þessu er krufið að neinu marki. Við vitum mest lítið um hvað sendi ættmóðurina Carol af stað eftir glötunarbrautinni, Birch virðist sátt við að þar ráði einhverskonar bölvun för, eða þá nútímaútgáfa hennar: ósýnlegar klínískar orsakir í stýrikerfi heilans. Sem er vitaskuld öldungis ófrjó sýn í dramatísku tilliti.

Val Krufningar á sjálfsmorði sem útstillingarglugga leiklistarnemanna vekur nokkra furðu. Það gefur að sönnu þremur leikkvennanna nokkuð bitastæð hlutverk, sem þó eru heft af efnistökum og formi. Önnur eru varla nema svipmyndir, sem þó er ekki við hæfi að nálgast með aðferðum týpuleiksins. Sum kalla á leik „upp fyrir sig“, sem kann sjaldnast góðri lukku að stýra nema tilgangurinn sé léttvægari en í þessu harmræna – að maður segi ekki melódramatíska – verki. Auk útskriftarhópsins taka Anna María Tryggvadóttir og Arnþrúður Karen Viktorsdóttir þátt í sýningunni.

Öllu verra en þetta ójafnvægi hlutverkanna er þó að óhóflegar tæknikröfur verksins taka til sín alltof stóran skammt af einbeitni og sköpunarkrafti leikhópsins, sem hefði betur verið varið í að komst inn að kviku persónanna og samskipta þeirra. Það má dást að, jafnvel hafa gaman af, þegar fleyguð samtölin falla saman í endurtekningum eða þegar orð hljóma samtímis í samtölum Carol og hennar ráðalausa eiginmanns, hjá dótturinni og fíklinum Önnu í viðtali hjá kvikmyndagerðarmanninum sem seinna verður maður hennar, og dóttur þeirra, unglækninum Bonnie, sem óttast ekkert meira en ættarfylgjuna sem brýst út við barneignir. En fórnarkostnaðurinn við að ná þessum yfirborðskenndu virtúósaáhrifum er of hár. Tilfinningin fyrir áreynsluleysi og innlifun í örlög persónanna sem þarf að hylja gangverkið kemur ekki nema augnablik og augnablik. Sem aftur afhjúpar sérkennilega grunnhyggni í sýn höfundar á viðfangsefni sitt, á innihaldið. Krufning á sjálfsmorði er ekki verkefni fyrir óvana.

Þetta er synd. Viðfangsefni útskriftarnema þarf að gefa þeim raunhæfa möguleika á að skína. Best væri auðvitað að hverfa aftur til Nemendaleikhúss-módelsins, allavega utan frá séð, en vafalaust eru ótal skynsamleg og jafnvel óhrekjanleg rök fyrir að svona þurfi þetta að vera. Þeim mun mikilvægara er að útskriftarverkið henti, eða sé tekið þeim tökum að það þjóni tilgangi sínum og sé jafnframt sannfærandi leikhúsupplifun. Þetta tókst mætavel í Aðfaranótt og enn frekar í Mutter Courage fyrir tveimur árum. Síður núna, þó hetjulega sé barist.

Svið Kassans er á mörkunum að rúma þessa þrjá heima sem verkið kallar á. Fyrir vikið verður sviðsetningin dálítið klúðursleg stundum hjá Mörtu Nordal og Önnu Maríu Tómadóttur, sem hjálpar ekki. Leikmynd Brynju Bjarnadóttur er frekar hlutlaus en búningar hefðu mögulega þurft meiri alúð til að hjálpa við skilning á framrás tímans í verkinu. Talsvert mæðir á lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar, sem er svipmikil en baklýsing í augu áhorfenda vekur þeim sem hér skrifað takmarkaða gleði. Salka Guðmundsdóttir þýðir og hefur þurft að stilla orðaval sitt af til að allt gangi upp í samvirkninni. Textinn í sögu Carol var áberandi stirðastur, sem vel má vera að eigi rætur í einhverjum tíðarandatilraunum höfundar og verður ekki skrifað nema með fyrirvara á reikning Sölku. Tónlist Ísidórs Jökuls Bjarnasonar þjónaði sýningunni en fangaði ekki athygli.

Það er ekki sanngjarnt, eða við hæfi, að leggja mat á frammistöðu einstakra leikara, til þess eru tæknikröfur verksins of augljósar og glíman við þær yfirskyggir allt. Hitt er maklegt: að óska þeim Almari Blæ Sigurjónssyni, Björk Guðmundsdóttur, Ellen Margréti Bæhrenz, Fannari Arnarssyni, Kristrúnu Kolbrúnardóttur, Níels Thibaud Girerd, Stefáni Þór Þorgeirssyni, Urði Bergsdóttur og Erni Gauta Jóhannssyni til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni. Og okkur hinum grímulausra stunda í sölum leikhúsanna. Og endurreisn Nemendaleikhússins að sjálfsögðu.

miðvikudagur, maí 05, 2021

Nashyrningarnir

Eftir Eugène Ionesco. Íslensk þýðing: Guðrún Vilmundardóttir. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Davíð Þór Jónsson. Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Guðjón Davíð Karlsson, Hákon Jóhannesson, Hildur Vala Baldursdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Siobhán Antoinette Henry, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Örn Árnason. Hljóðfæraleikari: Flemming Viðar Valmundsson. Köttur: Rúfus. Aðrir þátttakendur í sýningunni: Anna Kristín Vilhjálmsdóttir, Elísa Sif Hermannsdóttir, Harpa Líf Hallgrímsdóttir, Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, Högni Sigurþórsson, Lena Birgisdóttir, Valdimar Róbert Fransson, Valur Hreggviðsson og Vigdís Hafliðadóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 22. apríl og föstudaginn 23. apríl 2021. 

Dýrið gengur laust


Með grófri einföldun mætti segja að absúrdhöfundarnir hafi komið aftur með skáldskapinn í leikhúsið. Eða réttara: að menn eins og Beckett, Genet, Arrabal og Ionescu hafi komið skáldlegum myndum og líkingamáli fyrir á miðju sviðinu, í stað þess að nota það til skrauts eða höfundinum til dýrðar og fagurkerum til fróunar. Kona grefst smátt og smátt í sandhaug. Vinnukonur stytta sér stundir við að sviðsetja morð á húsmóður sinni. Fjölskylda borðar dögurð á vígvelli. Svið fyllist af stólum. Stækkandi lík í næsta herbergi. Í sofandalegri franskri smáborg byrja íbúarnir að breytast í nashyrninga. Einn af öðrum, án útskýringar.

Hvílík hugmynd! Nashyrningarnir er leikrit sem að formi og stíl er eins og mjög spítukallalegt hefðbundið raunsæisleikrit sem veit ekkert hvort það er þjóðfélagssvipmynd, sálfræðilegt ástardrama eða heldur mislukkuð og mjög gamaldags kómedía. En allt þetta er í raun farartæki fyrir ótrúlega lífræna og merkilega margræða hugleiðingu um mennskuna og máttleysi skynseminnar.

Sérstaklega í tilfelli aðalpersónunnar Lárusar/Bérengers, sem stendur í lok verks eftir sem síðasti maðurinn, ekki bara vegna þess að hann sé „mennskari“ en aðrir, heldur ekki síður vegna vangetu sinnar við að ganga hvötum sínum á hönd og samlagast hjörðinni, hvort sem er til góðs eða ills. Lárus vill ekki breytast í – getur ekki breyst í – nashyrning. En það glittir vissulega stundum í nashyrninginn í honum. Einnig hann býr yfir frumstæðum viðbrögðum hvatadýrsins. Eins og við öll. Við erum öll í hjörð. Þess vegna er þessi snjalla grunnhugmynd Ionescos svona áleitin, svona frjó. Hún er opin og margræð. Við vitum ekki fyrir hvað nashyrningafárið stendur. Við vitum ekki einu sinni hvorri hjörðinni við myndum tilheyra.

Það gengur náttúrulega ekki að ljóstra því upp núna, í upphafi sýningartímabils sem hefur alla burði til að verða langt og sigursælt, hvernig hnút Benedikt Erlingsson kýs að hnýta á túlkun sína í lokin. Látum nægja að segja: það að gefa því sterklega undir fótinn að allt fárið sé ímyndun sjúks huga drykkfelldrar aðalpersónunnar er afleit hugmynd. Einfeldningsleg slaufa sem ógildir hina skáldlegu margræðni verksins sem áhorfendur eiga að fá að taka heim með sér. Sem betur fer er hægt að túlka endinn á aðra vegu, eða hreinlega gleyma honum og skilja við Lárus þar sem höfundurinn skildi við hann: Trylltan af bræði yfir einsemd sinni, staðráðinn í að gefast ekki upp, harmi slegin yfir að geta ekki verið eins og allir hinir.

Önnur meinlaus en áberandi skáldaleyfi tekur Benedikt sér. Hann dregur leikhúsið sjálft inn í túlkun sína, með návist og þátttöku sviðsmanna og annars starfsfólks, og gefur persónunum nöfn leikaranna sem fóru með hlutverkin í íslenskri frumuppfærslu verksins 1961. En sem betur fer er Benedikt ekki bara uppátækjasamur og frjór sýningahöfundur, heldur eitursnjall úrvinnslumaður leiktexta og túlkandi höfundarverka annarra. Í krafti þeirra hæfileika leiðir hann fram kosti Nashyrninganna og sléttar yfir misfellur og breytir langlokum Ionescos í ljúfmeti fyrir andann.

Fyrsti þátturinn er til að mynda hin versta þrautabraut frá höfundarins hendi. Þar fer ótal þýðingarlausum sögum fram og innihaldslaust þvaðrið ætlar mann lifandi að drepa. En með snjöllum úrfellingum og uppbrotum, og frábærri nýtingu rýmisins og leikhússins alls tekst Benedikt og hans fólki að fanga athyglina og stilla okkur inn á aðferð sýningarinnar. Allar tækniþrautir varðandi nærveru hófdýranna og umbreytingu fólks í þau eru leystar af smekklegri fimi, ekki síst með klókindum sem felast í smartri en einfaldri leikmynd Barkar Jónssonar og hljóðhönnun Kristjáns Sigmundar einarssonar.

Stærsta lykilatriðið í að koma Nashyrningunum til skila er þó auðvitað framganga leikhópsins og ekki síst sá stíll sem lagður er til grundvallar. Það er örugglega freistandi að beita ýkjum og stílfærslu á svona dæmisögulegan efnivið. Einnig væri hægt að reyna að vinna út frá sálfræðilegum raunsæisgrunni sem form verksins bendir til að sé þarna. Benedikt er nær þeirri hlið en hinni fyrrnefndu, sem betur fer, en virðir samt algerlega ýktan og gervilegan blæinn sem Ionesco setur á aukapersónurnar. Flinkir týpugerðarmenn eins og Pálmi Gestson (Baldvin/Papillon), Örn Árnason (Bessi/Botard), Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (Rökfræðingur) og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir (Emilía/Húsmóðir) teikna skýrar og smáfyndnar fígúrur af öryggi. Öllu nær raunsæinu eru síðan Ilmur Kristjánsdóttir (Herdís/Daisy), Arnmundur Ernst Backman (Rúrik/Dudard) og Hilmir Snær Guðnason (Róbert/Jean), en samleikur þeirra Guðjóns Davís Karlssonar (Lárus/Bérenger) er hreint stórkostlegur, bæði í upphafi og í atriðinu þeirra þegar fólk er byrjað að ganga hinni nýju „tísku“ á hönd.

En hvað sem öðru líður er þetta sýningin hans Guðjóns Davíðs. Það dugir engin grínaktug stílfærsla eða útspekúleruð fjarlægð til að skila hinum margbrotna og mótsagnakennda Lárusi þannig að hann dragi áhorfendur með sér inn í ólíkindin. Lárus þarf að vera okkar maður. Þetta lukkast og fyrir vikið lukkast sýningin.

Fleiri leikendur koma lítillega við sögu og rétt er að nefna Siobhán Antoinette Henry fyrir snöfurmannlegan flutning hennar á skoplega nákvæmum sviðslýsingum Ionescos, og samleik við meðleikara sína sem stilla sér upp samkvæmt fyrirmælum. Svona nokkurnvegin.

Tónlist Davíðs Þórs Jónssonar og flutningur hennar hjá Flemming Viðari Valmundssyni er mögnuð. Í höndum Flemmings framkallar nikkan bæði klisjufranska stemmingu og óræða martröð þegar það á við. Búningar Filippíu I. Elísdóttur undirstrika líka bæði stað og stund, en gera það á sjálfstæðan hátt. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar vinnur vel með öðrum útlitsþáttum. Þýðing Guðrúnar Vilmundardóttr lék vel í eyrum.

Það getur brugðið til beggja vona með óumdeilda nútímaklassík á borð við Nashyrningana, eins og dæmin sanna. Ekki síst absúrdverkin, sem oftar en ekki draga það versta fram í túlkendum sem telja ólíkindi texta og atburða gefa þeim sjálfdæmi og frítt spil í úrvinnslunni. Í öllum aðalatriðum hefur Benedikt Erlingsson og hans fólk leitað í leikritinu sjálfu og axlað þá ábyrgð að koma því skýrt og skemmtilega til skila. Og það tekst. Áleitin og skáldleg sýn Ionescos brýtur sér enn og aftur leið inn í huga áhorfandans. Hvort hann setur hana í samhengi við farsóttir, fasisma, kvenfrelsi eða slaufanir þegar heim er komið er hans mál. Það eina sem þarf er að áhorfandinn reki enn einu sinni upp undrunarópið: Hvað á þetta eiginlega að þýða?! Það tekst þeim Ionesco, Benedikt, Guðjóni og félögum svo sannarlega að framkalla.

fimmtudagur, mars 04, 2021

Sölumaður deyr

Eftir Arthur Miller. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Gyða Valtýsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Hljóðfæraleikur: Gyða Valtýsdóttir, Julian Sartorius, Shahzad Ismaily og Karl James Pestka. Leikarar: Jóhann Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Stefán Jónsson, Þorsteinn Bachmann, Aron Már Ólafsson, Valur Freyr Einarsson, Esther Talía Casey, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 20. febrúar 2021.

Sálin hans meðaljóns míns

Ólíkt flestum skáldsystkinum sínum í deild nútímaklassíkur virðist Arthur Miller ekki þurfa að óttast að falla í gleymsku alveg strax hér uppi á Íslandi. Öll hans helstu verk; Allir synir mínir, Sölumaður deyr, Horft af brúnni og Í deiglunni/Eldraunin hafa verið tekin til meðferðar í atvinnuleikhúsum okkar á þessari öld. Sölumaðurinn núna í tvígang og það í sama húsinu. Tennessee Williams, Eugene O’Neill og Harold Pinter gnísta tönnum í sviðsvængnum.

Hvað veldur? Það er alveg hægt að færa ágæt rök fyrir því að það séu umtalsverð ellimerki á skáldskap Millers, og fleiri ágalla mætti tína til. Hann er t.d. næstum alveg húmorslaus. Á það til að styðja sig full-þungt við hækju melódramans. Formstífnin eitt af höfuðeinkennum hans. Ekki endilega meðmæli fyrir leikhús okkar tíma, með allri sinni ást á óreiðu og íróníu.

Engu að síður eru vinsældirnar staðreynd. Ætli það sé kannski vegna þess að hann komst næst því að gera það sem margir reyndu, og við erum mikið til búin að gefast upp á: að skrifa harmleiki að fornri fyrirmynd um örlög hverdagsfólks í guðlausum heimi? Einhversstaðar vitum við að þetta er það sem leikhúsið er skapað til að skoða. 

Öll hafa höfuðverk Millers sér til ágætis nokkuð, en það er freistandi að setja Sölumanninn í sérflokk. Ólíkt hinum þremur hverfist það ekki um eina tiltekna harmræna valþröng hetjunnar. Hér er meðaljóninn sem ómeðvitað sköpunarverk þjóðfélagsins til skoðunar. Og það er kostnaður Willy Loman við að láta þetta meðvitundarleysi eftir sér sem skapar honum örlög, og öllu hans fólki. 

Og svo er hitt: þetta makalausa sérsniðna form sem Miller bjó efninu; flæðið milli nútímans – síðustu klukkutímanna í lífi Willys – og fortíðarinnar eins og hún býr í höfði hans. Og síðast en ekki síst: sambræðsla þessrar „óraunsæislegu“ aðferðar og miskunnarlauss sálfræðiraunsæisins í samskiptum og tilfinningalífi persónanna, línu fyrir línu.

Það er þrautin þyngri fyrir leikstjóra að láta þetta verk lifna á sviðinu. Að finna jafnvægi milli þess að lúta ströngu og flóknu forminu og stíl textans og þess að leggja eitthvað til málanna frá eigin brjósti. Frá mínum bæjardyrum séð hefur Kristín Jóhannesdóttir gerst of eftirlátssöm við sína 
eigin frjóu hugsun, og um leið misst sjónar á mikilvægum eigindum verksins sjálfs. 

Það kemur minna að sök með hugmyndirnar sem hún vinnur út frá og getur ekki stillt sig um að bæta hráum við: bókstaflegri útleggingu á tilvistarspeki Sartres eins og hún birtist í dæmisögunni um þjóninn í Veru og neind og hvernig líf hans er óheilindunum merkt. Að leggja hana í munn þjónsins Stanleys (Valur Freyr Einarsson) í nokkurskonar forleik, með smávegis ábót eftir hlé er vissulega óþarfi og pínu vandræðalega útfært, en auðvelt að leiða það hjá sér. 

Verra er með hvernig fínlegir sálfræðilegir drættir í samskiptum, valdatafli og tilfinningaóreiðu Loman-fólksins þurrkast að stórum hluta út í leikstíl sýningarinnar. Hér er allt meira og minna á útopnu frá því Happý rekur upp sitt óútskýrða öskur í upphafi sýningar þar til systkinin, móðir þeirra og hinir góðu grannar standa yfir moldum sölumannsins í lokin. Textinn mikið til „fluttur“ en mun síður „lifaður“, mælskulist trompar tilfinningatúlkun og samleik, svo hið ósagða, undirtextinn, skilar sér of sjaldan út milli orðanna. Þetta kemur sérstaklega illa niður á Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki Lindu, lífsakkerinu og miðpunkti fjölskyldunnar þótt eiginmaðurinn sé fókus leikritsins. Sigrún nær undir lokin að sýna okkur inn að kviku persónunnar í áhrifamiklum eftirmálanum, en þangað til gengur of mikið á. 

Jóhann Sigurðarson er líka heftur af skorti sýningarinnar á alúð við fínleg blæbrigði í titilhlutverkinu, en á þó ýmis tól í verkfæraskúrnum sínum sem nýtast við að sýna okkur meðalmennið sem lætur ranghugmyndir dogmatískrar velgengnishugsjónar kapítalismans stýra sér fram af brúninni. Mikilfengleg nærveran og á móti þessi sérkennilegi bernski undirlægjutónn sem Jóhann á til koma í góðar þarfir. Eins og flest í sýningunni eru hans sterkustu stundir þegar óreiðan og ásókn minninganna er í algleymingi. Ég hef séð nokkrar uppfærslur Sölumannsins en aldrei fyrr hafa senurnar með hinum goðsagnakennda stóra bróður verið það áhrifaríkasta. Stefán Jónsson nýtur sín til fulls í skrítnu hlutverkinu og samleikur þeirra Jóhanns er sterkur. Jóhann er líka góður með Þorsteini Bachmann í hlutverki nágrannans Charley, og Þorsteini virðist ekki geta mistekist að skapa eftirminnilegar persónur úr litlu þessi árin. Aron Már Ólafsson fór snoturlega með lítið hlutverk Bernards sonar hans.

Öflugastan mótleikinn fær Jóhann frá Hirti Jóhanni Jónssyni, enda má segja að glíma Willys við eldri son sinn sé eldsneytið sem knýr persónulegan harmleikinn áfram. Hjörtur á stjörnuleik, nær að skapa sannfærandi og raunsæislega persónu úr Biff, sem sér – og sér ekki – gegnum tálsýnir fjölskyldu og samfélags. Það er mikið fjör í túlkun Rakelar Ýrar Stefánsdóttur á Happy, en ég held að það hafi verið misráðið að breyta syni í dóttur: of mikið af samspili bræðra, mæðgina og feðga skekkist og glatar merkingu sinni, sérstaklega í ljósi þess að ógerningur er að flytja verkið í heild sinni til í tíma, og það er ekki heldur reynt hér. Sérkennilegt líka að fara svona langt með daðurstilburði Happy(jar) við Stanley í veitingahúsaatriðinu. Sama má reyndar segja um farsakennda lögnina á viðhaldinu í meðförum Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur. Önnur kynbreyting er gerð á Howard, yfirmanni Willys og hún gengur betur upp í meðförum Esterar Thalíu Casey, þó stóllinn hennar hafi ögrað útlitsstíl sýningarinnar og bernskt táknmálið með lyftubúnaðinn hafi frekar kallað á fliss en nokkur önnur viðbrögð.

Ekki er vel gott að lesa í myndmál leikmyndar Brynju Björnsdóttur. Einfaldleikinn, nánast naumhyggja, ræður ríkjum, en hvítu plastboltarnir fanga athyglina án þess að láta uppi hvað þeir vilja tákna. Vekja samt upp hugrenningatengsl við tumbleweed-runna, rótleysi og þyrrking. Búningar, lýsing, tónlist og hljóðmynd þjónar sínu hlutverki en fangar ekki athygli svo neinu nemur. Eins er að mestu með áheyrilega og munntama nýja þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Pínu ótraustvekjandi samt hvað hann snarar tveimur af eftirminnilegri setningum verksins flatneskjulega: „A terrible thing is happening to him“ verður „Hann á mjög bágt“ og „Attention must be paid“ verður „Sýna nærgætni“. 

Sölumaður deyr nær alltaf takinu á sálum áhorfenda. Verkið virkaði í Kína kommúnismans fyrir daga herskálakapítalismans og það virkaði í Japan þar sem einhverjir sögðu víst „sölumanni sem ekki selur ber að fyrirfara sér“. Vægðarleysi lífshátta okkar og lygin sem við þurfum að segja okkur til að trúa á tilganginn með þeim hefur ekki þróast svo mikið á sjötíu árum að við finnum ekki fyrir Willy Loman innra með okkur. Þó uppfærsla Borgarleikhússins að þessu sinni haldi sig mikið til á yfirborðinu þá heldur þessi harmleikur hversdagsmannsins áfram að tala til okkar.