sunnudagur, október 11, 2020
miðvikudagur, október 07, 2020
Kópavogskrónika
Bersögli í borginni
þriðjudagur, september 22, 2020
Beðið eftir Beckett
Stefnumótið sem ekki varð
sunnudagur, september 20, 2020
Ekkert er sorglegra en manneskjan
Söngur um lífið
fimmtudagur, september 03, 2020
Ég kem alltaf aftur
Ég missti af hinni rómuðu Íslandsheimsókn pólska meistarans Tadeusz Kantor og leikhópsins Cricot 2 á Listahátíð 1990. Eins og títt er um framúrstefnuleg stórvirki hef ég bæði heyrt vitnisburði frá fólki sem varð fyrir nánast trúarlegri upplifun á „Ég kem aldrei aftur“, og séð nokkra leikhúsgesti skopast með tilburðina. Aðallega að leikstjóranum sjálfum, sem er kannski frægastur fyrir að taka sér einatt stöðu á sviðinu með leikhópnum sínum og gefa fyrirskipanir meðan á sýningum stóð. Ekkert liggur eins vel við höggi gárunganna og þegar listamenn leggja á ókönnuð svæði tjáningarinnar og sækja svo langt í dýptina eftir innblæstri að flestum þykir einfaldara að fylgja þeim ekki eftir heldur horfa á þá úr öruggri fjarlægð háðfuglsins.
Pálína Jónsdóttir hefur verið í fyrri hópnum. Áður en sýning hófst á „Ég kem alltaf aftur“ flutti hún nokkur inngangsorð um vinnu hópsins og minningar sínar um sýningu Cricot 2 sem að hennar sögn breytti sýn hennar á hvað leikhús gæti verið, og þar með lífi hennar. Sjálf steig Pálína samt ekki á svið í Iðnó til að hafa áhrif á gang mála, heldur eftirlét það félögum sínum í Reykjavík Ensamble, þeim Adam Świtała, Ewu Marcinek, Jördisi Richter, Magdalenu Tworek, Mao Alheimsdóttur, Karolinu Bogusławska, Robert Zadorozny og Wiolu Ujazdowska.
Sýningin er kölluð verk í vinnslu, og Pálína talaði um níu daga sem hópurinn hafði til umráða í Iðnó áður en áhorfendum var hleypt inn. Þeir hafa verið vel nýttir. Óreiðan í sýningunni stafar ekki af fumi og fáti heldur einmitt af trú á að línuleg rökvísi og vitsmunalegur agi sé, ef ekki til óþurftar, þá allavega óþarfur til að hreyfa við áhorfendum. Það er alveg rétt. Brotakenndar, næstum kúbískar myndir leikhópsins úr veruleika sínum – pólskum og íslenskum, sögulegum og nútímalegum, persónulegum og pólitískum, trúarlegum og hversdagslegum, harmrænum og fyndnum – opnuðu hugmyndaflug áhorfenda og héldu athygli salarins áreynslulaust í þann klukkutíma sem sýningin stóð. Afslöppuð nærvera og alvörublandin glettni hópsins var hárrétt til að draga okkur inn í heiminn og láta okkur í léttu rúmi liggja að skilja ekki allt.
Auðvitað er allt önnur orka í sýningu sem unnin er á þessum hraða í íslenska atinu en í djúpri og langvinnri samvinnu og djúpköfun á borð við þá sem Kantor og aðrir sjáendur og vitringar leikhússins á tuttugustu öld fóru í áður en áhorfendum var hleypt að borðinu. En þannig virkar innblástur á alvöru listamenn eins og Pálinu og hennar fólk: kallar ekki fram eftiröpun heldur hvetur til dáða í eigin leit að möguleikum og viðfangsefnum. Opnar dyr sem enginn veit hvert liggja fyrir en gengið er um þær, eða alla vega kíkt inn.
Hér er arkað af stað af hugrekki og gleði. Það verður gaman að hitta Reykjavík Ensamble á næsta áfangastað. Þau munu koma aftur.
fimmtudagur, ágúst 20, 2020
Í dulitlu dragi
Það er einkenni hugmyndadrifinnar listar, „konsept-listar“ sem kölluð er, að oft bætir upplifun á listaverksinu sjálfu ekki svo miklu við áhrifin af því að heyra hugmyndina útlistaða. Þannig virkaði flutningur Malarastúlkuna fögru, ljóðasöngvabálks Schuberts við ljóð Wilhelms Müller á mig í flutningi tenórsöngvarans Sveins Dúa Hjörleifssonar við undirleik Tómasar Guðna Eggertssonar og dygga aðstoð Kristrúnar Hrafnsdóttur í Tjarnarbíói síðastliðinn laugardag. Ekki að það kæmi neitt að ráði að sök; hver er ekki til í að njóta þessarar undursamlegu tónlistar, sérstaklega þegar sjálfur flutningur hennar er jafn fágaður og sannfærandi og hér var raunin?
En semsagt, hugmyndin er fjári snjöll, sérstaklega á blaðinu. Söngvarinn, ljóðmælandinn, ástsjúki malaradrengurinn finnur malarastúlkuna ómótstæðilegu innra með sjálfum sér, og tekur smám saman á sig mynd hennar með hefðbundnum drag-drottningarmeðulum, meðan hann uppgötvar og veltir sér upp úr ást sinni á henni. Hugmynd sem umsvifalaust getur af sér allskyns frjóanga með þeim sem hana hugleiðir: um ást sem endursameiningu í anda ræðu Aristófanesar í Samdrykkju Platóns. Um taumlausa unga – og óendurgoldna ást sem markmið og nautn í sjálfu sér, eins og Shakespeare tekur óviðjafnanlega til umfjöllunar í Sem yður þóknast, og skopstælir í harmleiknum um Píramus og Þispu – Müller fer ansi nálægt þeim ósköpum með malaradrenginn sinn. Um samspil hins ytra gervis og þess sem undir því býr. Um sviðsetningu okkar á sjálfum okkur í lífinu sjálfu.
Og svo auðvitað hefðbundna ljóðasöngstónleika sem sviðsetningu í sjálfum sér, með ströngum hefðum og ákveðinni stífni í framgöngu bæði listafólks og áhorfenda. Það opinberaðist strax í upphafi sýningarinnar: þó áhorfendur væru þess örugglega allir fullvissir að hér var sviðsett leiksýning að hefjast gengu þeir inn í hlutverk sín sem tónleikagestir og klöppuðu listamönnunum lof í lófa þegar þeir gengu inn á sviðið – nokkuð sem hefur ekki tíðkast í leikhúsi áratugum saman, en er ófrávíkjanlegt í tónleikasölum.
Smám saman byrjaði hinn leikræni þáttur sýningarinnar að kalla á athygli okkar, frá því að hugmyndin um kvengervið kviknar í samspili Sveins Dúa og nótnaflettarans Kristrúnar, þar til malarastúlka/dragdrottning stígur alsköpuð á svið upp úr miðbiki bálksins. Hinn leikræni hápunktur er þó aðeins fyrr, þegar Sveinn klæðist kvenskónum og heilsar ástmærinni í áttunda söng, Morgengruß. Þá finnum fyrir því að hún er mætt.
Annar akkillesarhæll konseptdrifinna sviðsetninga er síðan hve sjaldgæft er að hugmyndirnar gangi fullkomlega upp í efniviðnum. Og óneitanlega er erfitt að finna samhljóm milli vegferðar malaradrengsins og hinnar innri/ytri kvenmyndar söngvarans eftir að keppinauturinn um ástir stúlkunnar birtist í ljóðunum. En þá er bara tímabært að segja skilið við vitsmunina og leyfa hinni heiðríku rödd Sveins að heilla sig með hinum dýrðlegu lögum, hvað sem öllum pallíettum og parrukkum líður. Það er vandalaust með öllu.
Það er skynsamleg hófstilling í sviðssetningu Grétu Kristínar Ómarsdóttur á vegferð malaradrengs og stúlku. Enda setja tæknikröfur sönglistarinnar vafalaust ýmsar skorður, sem og leikfærni þátttakenda. Eftir á að hyggja sennilega hið besta mál að hugmyndinni er þrátt fyrir allt ekki gefið alræðisvald yfir flutningnum. Enda lifir hún sínu lífi í huga áhorfendans, og hefði mögulega gert það þó hún væri bara orð á blaði. Tónlistina þurfum við á hinn bóginn að heyra, það er fyrir öllu.
mánudagur, mars 30, 2020
Skattsvik Development Group
Óvelkomnir í betri stofuna
Breski grínistinn David Mitchell, sem er frægur fyrir sína reiðu rökvísi, benti einu sinni á að meðan skattaundanskot væru möguleg mætti líta á alla skattheimtu sem skatt á heiðarleika: skatthlutfallið ræðst af því hversu hreint þér finnst rétt að koma fram við yfirvöld. Sýningin Skattsvik Development Group undir merkjum tilraunaverkefnisins Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu leiðir hins vegar í ljós að óheiðarleiki er ekki nóg til að koma peningum undan.Það fer vel á því hjá Ást og karókí að sýna á þessum vettvangi, því form sýningarinnar er nokkurskonar skýrsla um tilraun: Getur íslenskur leikhópur skotið þóknun sinni undan skatti með „hefðbundinni“ skattaskjólsfléttu? Stutta svarið er: nei. Drengirnir komast nokkuð áleiðis með áform sín, enda reynist þroskaður þjónustuiðnaður þrífast víða um heim til að auðvelda slíka vafninga, en á endanum strandar allt á of þröngum fjárhag. Nýleg íþyngjandi löggjöf spilar þar líka inn í en þó er ljóst að þetta hefði gengið upp ef upphæðirnar hefðu verið hærri en sem nemur fimm mánaðarlaunum listamanna í nýgræðingaflokki. Enn sem komið er eru þeir Adolf Smári Unnarsson, Birnir Jón Sigurðsson, Friðrik Margrétar- Guðmundsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon óvelkomnir í koníaksstofu þeirra sem eiga það einungis við eigin heiðarleika hvað þeir greiða til samfélagsins. Samkvæmt upplýsingum frá einum ráðgjafa þeirra félaga eru um 70% allra peninga heimsins í skattaskjólum. Það er sú tala sem endurómar í höfði áhorfenda þegar þeir ganga út úr Borgarleikhúsinu eftir skýrsluna. Trúlega dramatískur hápunktur sýningarinnar.
Þó að Ást og karókí hafi ráðist í þennan skítlega leiðangur er heiðarleiki grunntónn sýningarinnar. Þannig gangast þeir fúslega við því að það sem þeir bjóða upp á muni minna á efnistök annars íslensks ólíkindaleikhóps: Kriðpleirs. Það eru orð að sönnu, og natúralískur vandræðagangshúmorinn liggur vel fyrir Á&K-mönnum. Það birtist strax í upphafi þar sem þeir kynna sig hver og einn til sögunnar og afhjúpa sig sem – eðlilega – allnokkuð fákunnandi í þeirri list að svikja undan skatti. Og svo – sem er öllu verra – reynast fæstir þeirra bera skynbragð á strangheiðarlega skattaskýrslu. Hápunkti nær þetta gaman þegar þeir glíma við það snúna verkefni að koma bréfi í hraðpóst, og endist varla vinnudagur til þess.
Að því ævintýri undanskildu er sýningin í sjálfu sér ekki sérstök skemmtun, og ætlar greinilega ekkert endilega að vera það. Síðasti hluti hennar, vídeóspjallið við úrræðagóða ráðgjafann með upplýsingarnar um hvar 7/10 af auðæfum heimsins eru niðurkomin, er til dæmis ansi dauflegt sem leikhús. Það er ekki heiglum hent að skilja hvað maðurinn er að leggja til, og það er ekki eins fyndið hvað félagarnir botna lítið í því þegar áhorfandinn er jafn litlu nær.
Engu að síður: Allir þessir ósýnilegu peningar. Allt þetta fólk sem vinnur við að koma fé hinna ríku undan. Allar þessar girðingar sem stöðva bara meðaljóninn. Og þessi tæpi þriðjungur fjármuna heimsins sem stendur undir samneyslunni og allir njóta. Líka þeir sem eiga rest. Það er alveg kvöldstundar virði að láta minna sig á þetta.