fimmtudagur, nóvember 15, 2018

Tvískinnungur

Eftir Jón Magnús Arnarsson. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Tónlist: Young Nazareth. Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Leikarar: Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 9. nóvember 2018.

Ástin á tímum óreglunnar


Leikhús er grímudansleikur. Enginn er það sem hann sýnist og í krafti gervisins er óhætt að bera tilfinningar sínar og sögu á opinskáan hátt á opinberum stað. Leikhús er skel af öryggisbúnaði fyrir hættulegar sálarlífsrannsóknir, kannski ekki ósvipað hinni óbrjótandi málmskel sem iðnjöfurinn Tony Stark byggði utan um sjálfan sig í upprunasögu ofurhetjunnar Iron Man, svo ekkert gæti stöðvað hann, nema þá ef gangráðurinn sem heldur hjarta Starks gangandi verði eldsneytislaus eða bili.

Þessi mótsagnakenndi og afhjúpandi feluleikur er eitt af því sem virðist hafa kveikt sköpunarneistann hjá Jóni Magnúsi Arnarssyni við samsetningu Tvískinnungs. Í upphafi sígur Járnmaðurinn niður úr loftinu í gegnum klifurgrindina sem myndar kjarna leikmyndar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur. Tæknibúnaður Litla sviðsins; ljós, hljóð og myndvarpar, fer á fullt við að sannfæra okkur um að hér sé sjálf Marvel-hetjan á ferð. Það sama gerist þegar erkióvinurinn, Svarta ekkjan, sígur einnig á svið og upphefjast orðaskylmingar þeirra á milli, sem samstundis byrja líka að brjóta upp myndina. Eru þau á grímuballi? Þekkist fólkið í búningunum, eða er kunnugleikinn leikur sem þau leika vegna gervanna? Eða eru þau einfaldlega leikarar að pota í fjórða vegginn?

Enn bætist í flækjustigið þegar leikararnir taka á sig gervi sviðsmanna í leikhúsinu og þá er það samband leikaranna, sem baktjaldafólkið horfir á utan frá, sem leynist innst í þessari matrjúsku-dúkku. Eða er það samband sviðsmannanna sjálfra? Eða leikaranna sem leika þau? Þessi flókni speglasalur gæti verið ættaður úr búi Jeans Genet. Tryllt og ofbeldisþrungið neysluástarsambandið, sem reynist á endanum vera rótin, kveikjan og kjarninn í verkinu og allar spegilmyndirnar fletir á því, er líka eins og eitthvað sem hefði kveikt í því höfuðskáldi öfga og niðurlægingar.

En veldur hver á heldur. Það er ekki hægt að segja að þessi áræðna tilraun Jóns Magnúsar heppnist fyllilega. Kannski hefur gleðin yfir að henda svona marga tæknilega form-bolta á lofti villt honum og öðrum aðstandendum sýn um innihaldið. Því miður stendur ansi margt af meðölum sýningarinnar áhrifum hennar á endanum fyrir þrifum. Þar á meðal þessi flókna vinna með dulargervi, leik og raunveruleika, eins áhugaverð og hún er í sjálfu sér og „á pappírnum“. Það sama má segja með ofurhetjufyrirbærið sjálft, sem slær mig eins og snjöll grunnhugmynd, en er mögulega of stór og of frjó til að deila sviði og tíma með öllum hinum. Til þess bendir upphafssenan sem vekur talsverðar væntingar og forvitni. En með því að leggja svona mikla áherslu á gervi og grímur verða persónurnar okkur fjarlægar, örlög þeirra snerta okkur síður.

Annað sem nefna má sem djarfa formhugmynd sem nýtist ekki til fullnustu er hið rímaða og stuðlaða mál sem stór hluti leiktextans er skrifaður á, en Jón Magnús er í fremstu röð íslenskra ljóðaslammara nú um stundir. Bundið mál er ævafornt tæki í verkfærakassa leikhússins, en þær eru fáar tilraunirnar til að endurvekja það í nútímaleikhúsi sem ná tilgangi sínum. Mig hefur lengi grunað að einhvers staðar liggi samnefnari leikhúss og fagurfræði rímnaflæðis rapps og ljóðaslamms, en ekki enn séð hann birtast á sviði og það gerðist heldur ekki í Borgarleikhúsinu að þessu sinni. Rím er enda sérlega vandmeðfarið tæki í leiktexta, skapar alltaf hættu á að einfalda, létta, jafnvel skopgera viðfangsefnin. Þá setur bundið mál leiktextahöfundi skorður í orðavali sem getur neytt hann til að orða hugsanir sínar á hátt sem þjónar hvorki persónum né erindinu. Það er varla á færi nema stórskálda að fá þennan kapal til að ganga upp fyrir nútímaáhorfendum og það gerist ekki hér, þótt óneitanlega veki sumar hendingarnar gleði í eyra og huga. Snjallt og óvænt rím, líkingar eða myndmál stendur alltaf fyrir sínu.

Að frátalinni fyrrnefndri upphafssenu með ofurhetjunum skera tvær senur sig nokkuð úr hvað varðar áhrifamátt, önnur kómískan og hin dramatískan. Í báðum hafa sviðsmennirnir orðið. Önnur virtist spunnin af leikurunum út frá dauðasenu Rómeós og Júlíu, sem tekur stöðugt á sig gróteskari myndir í frásögn og einvígi leikaranna fyrir hönd þessara frægustu elskenda sviðsins. Og undir lokin lýsa þau fyrir okkur tveimur mögulegum endalokum sambands persónanna að baki allra gervanna sem sýningin hefur borið á borð. Dramatísk endalok, en jafnframt fáfengileg. Knúin áfram, eins og líklega sambandið sjálft, af taumleysi neyslunnar. Sambandi sem haldið er á lífi af meðvitundarleysinu sem henni fylgir. Þessi lýsing á grunn-atburði leikritsins er sterk og áhrifarík vegna innihaldsins, sterkari og áhrifaríkari en tilraunirnar til að búa honum leikbúning í aðdragandanum.

Tvískinnungur er krefjandi verkefni fyrir leikaraparið í öllum þessum hlutverkum sem flæða hvert inn í annað og kallast á í gegnum grímurnar. Þau Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir ganga af fullri einurð á hólm við textann og persónurnar. Sýningin er ágeng og líkamleg, sem stundum verður á kostnað textavinnunnar, en rímuðu hlutarnir hefðu þurft talsvert meiri ögun og einbeitingu að möguleikum og hindrunum bundins máls. Það er óneitanlega meira áberandi hjá Haraldi Ara, sem er glæsilegur á sviði en býr sennilega ekki að sömu reynslu og Þuríður Blær í slagsmálum við slíkan texta. Það er líka alltaf stjörnuára yfir Þuríði Blævi á sviði sem fangar athygli áhorfenda hvað svo sem hún er að gera eða segja.

Ólafur Egill Egilsson fylgir öfgum og formtilraunum textans eftir í sviðsetningu sinni, beitir öllum helstu vopnum ágengs nútímaleikhúss. Háværri tónlist úr smiðju Young Nazareth og fleiri, rusli og óreiðu, mat, hljóðnemum, myndvörpun og lýsingu Þórðar Orra Péturssonar þar sem fagurfræði rokktónleika er til hliðsjónar. Þetta er trúlega eina rétta nálgunin en óneitanlega ýtir hún innihaldinu enn frekar undir yfirborðið. Búningar Sigríðar Sunnu eru flottir og viðeigandi, ofurhetjugervin sérstaklega vel útfærð.

Að koma nýjum og efnilegum leikskáldum til þroska er eitt af verkefnum „stóru leikhúsanna“. Vel má halda því fram að hvorugu þeirra hafi gengið þetta sérlega vel undanfarin ár, þótt Borgarleikhúsið sé þar sjónarmun betur á vegi statt. Hér hefur verið tekin djörf ákvörðun þar á bæ; veðjað á óreyndan höfund, sem ef marka má kynningarviðtöl er í viðkvæmri stöðu með sjálfan sig, auk þess að vinna á ágengan hátt með eigin sáru reynslu við smíði verksins. Útkoman er djörf tilraun þar sem unnið er með flókið form og krefjandi málsnið sem ekki tekst að láta vinna saman á fullnægjandi listrænan hátt. Óskandi er að Jóni Magnúsi Arnarssyni takist að stilla miðið og stæla kraftana eftir þessa eldskírn.

þriðjudagur, október 16, 2018

Sigvaldi Kaldalóns

Eftir Elfar Loga Hannesson. Tónlist: Sigvaldi Kaldalóns. Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson. Leikmynd og búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Leikendur: Elfar Logi Hannesson og Sunna Karen Einarsdóttir. Kómedíuleikhúsið frumsýndi í Hannesarholti 4. október 2018, en rýnt í aðra sýningu 7. október 2018

Fóstursonur Djúpsins

Elfar Logi Hannesson heldur áfram að bregða sér í ham nafntogaðra Vestfirðinga, og ánægjulegt fyrir okkur á mölinni að hann gerir sig nú æ meira heimakominn í höfuðborginni. Skemmst er að minnast vel heppnaðrar endursköpunar hans á „einbúa Íslands“ Gísla Oktavíusi Gíslasyni sem kenndur er við Uppsali. Sú sýning lifir enn góðu lífi enda er Kómedíuleikhús Elfars Loga „repertoire“-stofnun, með ótal sýningar á takteinum hverju sinni og fjölmörg svið. Eitt þeirra er í Hannesarholti þar sem nýjasta afurðin, Sigvaldi Kaldalóns, var frumflutt síðastliðna helgi, rétt áður en farandleikarinn axlaði sín skinn og hélt vestur með uppfærsluna, þá fertugustu og þriðju samkvæmt verkefnaskrá leikhússins sem er að finna í veglegri leikskrá sem einnig inniheldur leiktexta verksins.

Sigvaldi Stefánsson er af því tagi listamanna sem við þekkjum lítið til persónulega þótt verkin séu okkur runnin í merg og blóð. Stór hluti laga Sigvalda er ýmist almenningseign sem sungin er á hverju mannamóti án tillits til lagvísi eða sönghæfileika eða listrænar perlur í lykilhlutverki á efnisskrám útlærðra söngvara og oftar en ekki síðasta lag (eða næstsíðasta eins og nú er) fyrir fréttir. En hvaða maður er þetta á bak við „Þú eina hjartans yndið mitt“, „Ave María“ og „Á Sprengisandi“? Þessi kall með skrítna innrímaða nafnið sem er alveg á mörkunum að maður þekki á mynd?

Það er ærið verkefni sem Elfar Logi hefur sett sér, og leikhúsformið gerir ýmsar kröfur sem samræmast ekki alveg þörfinni fyrir grunnupplýsingar. Þó tekst honum að koma ýmsu af því taginu til skila, og hjálpar þar ramminn sem hann hefur valið verkinu. Árið er 1921 og Sigvaldi stendur á fertugu. Hann er á berklahæli í Danmörku og styttir sér stundir í baráttunni við hvíta dauðann með því að segja hjúkrunarkonunni Sofie frá lífshlaupi sínu, með áherslu á samband sitt við náttúruna, einkum við Djúp, og svo auðvitað tónlistina. Að mörgu leyti góð grunnhugmynd, ekki síst af því að Sunna Karen Einarsdóttir er jafnframt í hlutverki nokkurs konar hljóðmyndasmiðs. Sofie situr lengst af við hljóðfærið og leikur tóndæmi úr sönglögum Sigvalda. Vel valin tóndæmi þar sem alþekktar perlur hljóma saman við minna kunn verk. Í tvígang syngur Sunna Karen líka, og ferst það vel með sinni fallegu og látlausu rödd. Hún skilar líka mótleikaraskyldum sínum með prýði.

Þótt „Íslandskynning“ fyrir danska hjúkrunarkonu sé kveikjan að einræðu Sigvalda gefur Elfar Logi honum nokkuð lausan tauminn, leyfir persónunni að líta í anda liðna tíð og berast frjáls um fortíð sína. Oft er okkur ljóst að Sigvaldi er einfaldlega á valdi minninga sinna, að hugsa upphátt, tala við sjálfan sig eða einfaldlega þá sem í salnum sitja. Það þýðir í reynd að áhersla verksins er frekar á persónulýsingu en æviágrip. Þar liggur líka styrkleiki Elfars sem leikara; að skapa trúverðugar eftirmyndir. Sigvaldi Kaldalóns birtist okkur hér sem hrifnæmur og heiðríkur rómantíker, sem velkist ekki í vafa um að listræn sköpun eigi upptök sín í náttúrunni, og hvað hann sjálfan varðar í fegurð Djúpsins og sveitanna kringum Kaldalón.

Elfar sýnir okkur mann sem á köflum er á valdi innblástursins og fer auðveldlega fram úr sér. Það er ekki erfitt að trúa því að þrekraunir þær, sem læknisstörf í stóru og ógreiðfæru héraði þýddu um og upp úr aldamótunum nítján hundruð, hafi kostað svona mann heilsuna, eða allavega mótstöðuaflið gegn vágestum á borð við taugaveiki og berkla. Opinn hugur er berskjaldaðri en herptur og harður og Sigvaldi sýningarinnar leyfir sér ekki slíkan munað, eða á slíkt ekki í sér. Þessi persónulýsing er aðal sýningarinnar, umfram kannski dramatík, sem myndin af þessu lífshlaupi dregur síður fram, og er mögulega ekki að finna í viðfangsefninu. Ef eitthvað úr lífshlaupi Sigvalda Kaldalóns hefði mátt fá fyllri meðferð myndi ég fyrst nefna tengsl hans við tónlistina sjálfa, upplifun hans af tónlist annarra, smekk og eigin metnað. Það er jú hennar vegna sem við höfum áhuga á þessum manni.

Þótt texti verksins sé skrifaður og birtur í leikskránni leyfir Elfar sér talsvert frelsi gagnvart hinu ritaða orði, umorðar og endursegir efnið á köflum. Mér þótti stundum gæta nokkurs óöryggis í beitingu þessa stílbragðs, sem vafalaust er ætlað að gefa flutningnum raunsæislegt yfirbragð. Það er stutt þaðan yfir í tilfinningu fyrir óöryggi í textakunnáttu, að leikarinn sé að bjarga sér frekar en að persónan sé að leita orða, skoða hug sinn eða safna kjarki til að tala um óþægilega hluti.  Að öðru leyti var þessi dagstund með listamanni ánægjuleg, fróðleg og hrífandi.


miðvikudagur, september 26, 2018

Svartlyng

Eftir Guðmund Brynjólfsson. Leikstjóri og hljóðmynd: Bergur Þór Ingólfsson. Leikmynd, búningar og gervi: Eva Vala Guðjónsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson og Hafliði Emil Barðason. Sviðshreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Valgerður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir. GRAL frumsýndi í Tjarnarbíói föstudaginn 21. september 2018.

Já ráðherra

Svartlyng hefst með lögbroti. Meðan ljósin koma upp og leikhópurinn leggur síðustu hönd á leikmyndina með nokkrum klósettpappírsrúllum hljómar Lofsöngur Sveinbjörns Sveinbjörnssonar í bannfærðri djassmeðferð Guðmundar Ingólfssonar úr kvikmyndinni Okkar á milli. Tónlist er mikið notuð í sýningunni, oftast skemmtilega þó að sjaldnast sé jafn auðvelt og í upphafinu að tengja valið efnislega við erindi sýningarinnar. Svo er sjálfstætt rannsóknarefni hvers vegna leikstjórum sýninga með pólitískt erindi, finnst svona brýnt að skjóta misvel útfærðum dansatriðum inn í verk sín nú um stundir. En yfirdrepsskapur og skinhelgi hinnar sjálfshátíðlegu yfirstéttar er viðfangsefni Guðmundar Brynjólfssonar, leikstjórans Bergs Þórs Ingólfssonar og samverkafólks þeirra, svo gönuhlaup Guðmundar Ingólfssonar við flygilinn slá réttan tón.

Það ríkir umsátursástand í ráðuneytinu. Ráðherrann, pólitískur armur Svartlyng-fjölskyldunnar sem á allt og má allt, á fullt í fangi með að fela og/eða endurskoða svartbók eina sem er víst full af leyndarmálum og upplýsingum sem munu koma honum, ríkisstjórninni, fjölskyldunni og Flokknum illa. Og er mögulega týnd. Kannski felst lausnin í að semja hvítbók í stað hennar, til viðbótar við hefðbundinn útúrsnúninga- og undanbragðadans við fjölmiðla. En það hefur sínar afleiðingar að láta hollustu frekar en hæfileika stýra vali á aðstoðarfólki. Fyrir utan að í sýndarheimi eins og íslenskri pólitík er ekki alveg auðvelt að vita hvað er hvítt og hvað svart.

Pólitískt ádeiluleikhús er vandmeðfarið verkfæri. Eitt er nú hvað leikhúsformið er þungt í vöfum og tímafrekt í framleiðslu, sem hentar ekki sérlega vel ef tala á beint inn í samtímann, skoða og skensa ráðamenn meðan skandalarnir eru enn í fersku minni. Annar vandi er sá að litlar líkur eru á að þeir sem ætlunin er að lesa pistilinn leggi á sig leikhúsferð með tilheyrandi fjárútlátum og fyrirhöfn. Stundum gleymist að skúrkarnir eru næstum örugglega fjarverandi og reiðigusur ganga yfir áhorfendur sem langar mest að samsinna öllu sem sagt er, en er stillt upp sem óvinum. Hinar öfgarnar eru líka dauði yfir áhugaverðri kvöldstund. Þá ríkir yfirlætið eitt, engra spurninga er spurt enda allir sammála um svörin og fara sjálfsánægðir og umhugsunarlausir heim.

Það er langt síðan ég sá leiksýningu sneiða eins fimlega hjá þessum skerjum án þess að bleyta um of í eigin púðri og Svartlyng gerir.

Þar kemur ýmislegt til. Bergur Þór er auðvitað einn okkar næmustu leikstjóra og Guðmundur ágætlega að sér í leikhúsi fáránleikans. Hvernig þar er sótt í innantóma og merkingarlausa síbylju þess sem við köllum tjáskipti, en er oftast einhverskonar valdaspil og feluleikur, ekki síst þegar valdamenn tala. Enda eru ræðuhöld og samræður persónanna í senn fráleitar og hrollvekjandi kunnuglegar. Í sama skóla er hægt að læra að nota einfaldar líkingar og bernskt myndmál sem jaðrar við fimmaurabrandara á áhrifaríkan hátt. Þaðan kemur hugmyndin um hendurnar sem fólk er tilbúið að fórna frekar en að svíkja flokkinn, og þaðan koma glerkassar Evu Völu Guðjónsdóttur útlitshönnuðar sem gefa sviðinu form og tákna gegnsæið, og klósettpappírinn sem þjónar fjölbreyttum tilgangi, m.a. sem forgengilegur pappír svart- og hvítbókar.

Annað sem hjálpar er hvernig farsafléttan sem liggur undir byggingu verksins er aldrei látin taka völdin. Fyrir vikið verður aldrei óþægilegt að það stendur greinilega ekki til að leiða hana til lykta á viðtekinn hátt, eða sækja beint í hana kómískt eldsneyti í feluleik og vandræðagang með hin ýmsu leyndarmál flokks og fjölskyldu. Slík nálgun hefði sett erindi sýningarinnar aftar í forgangsröðina og það er alveg ljóst að hér liggur fólki meira á hjarta en svo að það hefði verið ásættanlegt. Eftir hlé, þegar leikslok nálgast verður erfiðara að víkja sér undan kröfunni um lausn fléttunnar. Þá slaknar eilítið á spennunni í sýningunni. Eins þegar tekin eru af öll tvímæli um að hið óræða hneyksli sem persónurnar hafa glímt við lengi vel er sömu ættar og málsmeðferðin á „ærumálinu“ sem sprengdi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 2017. Frá sjónarhóli fagurfræði leikritunar hefði verið betra að halda þó þeirri óræðni sem ríkir fram að því allt til enda, en sennilega var nokkrum hláturgusum fórnandi fyrir hina óþægilegu og spennuþrungnu þögn sem breiðist yfir salinn þegar þetta blasir loksins við án tvímæla.

Ráðherrann og ráðstýran eru fólk sem rétt nær að halda framhliðinni í skorðum meðan allt leikur á reiðiskjálfi hið innra og Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir eru bæði vel þjálfuð í týpum af því taginu. Það er alltaf stutt í árásargirni ráðherrans hjá Sveini Ólafi, og nefna má tvö glæsileg atriði þegar fer að halla undan fæti í síðari hluta sýningarinnar. Fyrst þegar hann skrúfar frá kynþokkanum og heillar fréttakonu upp úr skónum og frá vitinu, og svo aftur síðar þegar hann afvegaleiðir sömu fréttakonu í beinni útsendingu með því að játa grátklökkur á sig heppilega yfirsjón til að moka yfir alvarlegri ásakanir. Í báðum þessum atriðum fær hann verðugan mótleik frá Valgerði Rúnarsdóttur. Ræða ráðstýru Sólveigar um dætur sínar snemma í verkinu var annað frábært augnablik sem og samskipti hennar við fatlaða gluggaþvottamanninn sem hún á erfitt með að trúa að geti verið Íslendingur. Þór Tulinius skapar þar dásamlegan kall. Benedikt Karl Gröndal er kostulegur sem tækifærissinnað fórnarlamb aðstæðna og harmur hans yfir að vera fluttur yfir í umhverfisráðuneytið verður í minnum hafður. Þá er ótalin Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir sem hnýtir endahnút sýningarinnar á táknrænan hátt og minnir á að þrátt fyrir allan galgopaskapinn og fyndnina er dauðans alvara á bak við Svartlyng. Rammpólitískt og hraðsoðið ádeiluverk sem virkar.

þriðjudagur, september 18, 2018

Ronja ræningjadóttir

Eftir Astrid Lindgren. Leikgerð: Annina Enckell. Tónlist og söngtextar: Sebastian. Þýðing leiktexta: Þorleifur Hauksson. Þýðing söngtexta: Böðvar Guðmundsson. Leikstjórn: Selma Björnsdóttir. Tónlistarstjórn og útsetningar: Hjörtur Ingvi Jóhannsson. Danshöfundar: Birna Björnsdóttir og Auður B. Snorradóttir. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Myndband: Ingi Bekk. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson. Leikarar: Salka Sól Eyfeld, Sigurður Þór Óskarsson, Örn Árnason, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Oddur Júlíusson, Bjarni Snæbjörnsson, Þórey Birgisdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð og fleiri. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 15. september 2018.

Kjarnakona verður til

Af öllu því fjölmarga sem Astrid Lindgren var til lista lagt er ég ekki frá því að hennar helsti styrkur sé hvernig hún skrifar um hugrekki. Hvers vegna það er nauðsynlegt, hvernig það birtist í breytni okkar og, síðast en ekki síst, hvernig við temjum okkur það. Þess vegna er Lína langsokkur fyrirmynd en Superman til dæmis ekki; við dáumst að ofurkröftum og fögnum afrekunum sem þeir vinna mögulega, en það er staðfastur ásetningur hennar að vera hún sjálf og lifa á eigin forsendum sem heillar öðru fremur, og sem við viljum að börnin okkar tileinki sér. Svona innan marka góðra siða að sjálfsögðu. Þess vegna er Snúður líka okkar maður í Nangijala. Í honum sjáum við það undraeðli hugrekkisins að birtast skýrast þegar sá sem sýnir það upplifir það ekki, en breytir engu að síður rétt í erfiðum aðstæðum.

Og þess vegna er Ronja Matthíasardóttir kannski eindregnasta fyrirmyndin í öllum þessum ótrúlega sagnasjóði, þessu einstaka persónugalleríi. Þessar makalausu æfingar hennar í að detta ekki ofan í Helvítisgjána, sem auðvitað geta ekkert farið fram annars staðar en á barmi hennar, og hljóta að fela í sér hættuna sem forðast ber. Er ekki líka dásamlegt að jafnvel ofvaxna barnið Matthías skuli skilja þetta og hleypa dóttur sinni út í skóginn, þrátt fyrir allar vel þekktar hættur hans, með þau heilræði ein að vopni að passa sig og standa sig? Dramað hefst síðan þegar þetta sama hugrekki sem Ronja hefur fengið að byggja upp í glímunni við náttúru og yfirnáttúru í skóginum gefur henni kraft til að gera tvær uppreisnir gegn föður sínum. Hafna óréttlátum lífsháttum hans fyrst og harðýðgi og yfirráðum svo. Gerir það sem hún þarf að gera, því annars er maður bara lítið skítseiði, eins og Jónatan Ljónshjarta, bróðir hennar í öðrum heimi, orðaði það svo eftirminnilega.

Þessi meginþráður sögunnar um Ronju, togstreita dóttur og föður og þróun sambandsins við Birki Borkason, er einstakur í höfundarverki Lindgren, í það minnsta í fantasíudeildinni. Hann er líka kannski það eina í þessum bókum sem er beinlínis á heimavelli leikhússins. Skoðun á samskiptum fólks. Þar skína líka túlkendur helstu hlutverka í uppfærslu Þjóðleikhússins að þessu sinni. Útgeislun og óstýrlátur kraftur Sölku Sólar Eyfeld þýðir að hún er eins og sköpuð í titilhlutverkið og samleikur þeirra Sigurðar Þórs Óskarssonar í hlutverki Birkis er fallega útfærður, hjarta sýningarinnar sem slær af krafti fyrir allra augum. Það gustar líka af Erni Árnasyni í hlutverki Matthíasar, en kemur nokkuð á óvart hvað hann sýnir okkur lítið af kjánanum og karlabarninu, sem gerir Matthías svo hlægilegan og ég hefði fyrirfram haldið að yrði grunntónn túlkunar þessa tiltekna leikara. Eins er lágstemmd hófstilling áhrifamikill grunntónn í fallegri túlkun Eddu Björgvinsdóttur á Skalla-Pésu (en af hverju ekki Skalla-Petra?). Vigdís Hrefna Pálsdóttir er síðan glæsileg sem Lovísa, hin mynduga rödd skynsemi og heilbrigðrar hlýju í óstýrlátum og hávaðasömum karlaheimi Matthíasarborgar. Því þetta er óneitanlega karlaheimur, þótt fáeinir ræningjar hafi undirgengist dramatúrgíska kynskiptaaðgerð, eins og tíðarandinn kallar sem betur fer á.

Leikhúsið blómstrar þegar það stillir persónulegum átökum og sálrænum þroskaferlum upp fyrir framan okkur. Það er hins vegar svo margt annað sem þarf að gera skil í þessari sögu sem leikhús á í brösum með: Landslag og veður. Yfirnáttúrulegar verur. Og svo auðvitað hinar ógurlegu náttúruhamfarir sem verkið hefst á. Bíótæknin getur þetta, en hvorki hún né leiksviðið hafa samt roð við ímyndunarafli lesandans. Hér er öllu tjaldað til af tækni stóra sviðsins: hringsviðið snýst, ljósaróbótarnir sömuleiðis, flugkerfið þeytir skógarnornum um loftin blá og hljóðkerfið í (fullmiklum) botni. Og já, Matthíasarborg klofnar með bauki og bramli í upphafi sýningarinnar. Fáir leikstjórar standa Selmu Björnsdóttur á sporði við að halda stuðboltanum á lofti og sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og gleði, rækilega undirstrikað með stomp- og fimleikainnblásnum dönsum Birnu Björnsdóttur og Auðar B. Snorradóttur. Samt læddist að þessum áhorfanda sá grunur að með þessari viðteknu nálgun barnastórsýninga væri leikhúsið að heyja tapað stríð á vígvelli keppinautarins. Leikhús verður aldrei bíó. Ætli leiklausnir sem virkja ímyndunarafl áhorfandans myndu kannski virka betur en tilraunir til að koma í staðinn fyrir það? Gæti leikgerð sem setti samskipti aðalpersónanna framar í forgangsröðina, gæfi tilfinningum og drama meira pláss, náð sterkari tökum á okkur?

Þetta er þriðja uppfærsla söngleiks Anninu Enckell og Sebastians á íslensku atvinnusviði. Í leikskrá kemur fram að fjölmargar aðrar leikgerðir séu til og að mínu mati er engin ástæða til að festa þessa í sessi sem einhvers konar klassík. Það er sagan sem er sígild, ekki þessi tiltekna útfærsla hennar. Það háir henni til dæmis nokkuð hvað tónlist Sebastians er óeftirminnileg og karakterlaus. Það segir sína sögu að ekkert laganna hefur fest sig á viðlíka hátt í sameiginlegt tónminni okkar og titillög leikgerðanna um Emil í Kattholti og Línu. Það sem verra er: lögin eru nánast öll almennir stemningarsöngvar, óbundnir kringumstæðum persónanna sem hefja upp raust sína og vinna engan veginn vinnuna sína sem hluti af sögunni, eins og söngleikjalög eiga að gera og er sterkasta vopn formsins. Flutningur tónlistarinnar er á hinn bóginn til mikils sóma hér, bæði undirleikur og söngur. Salka og Sigurður blómstra en þó kannski öðrum fremur Vigdís Hrefna, ekki síst í úlfasöngnum, eftirminnilegasta lagi verksins. Í fjörugum hópsöngvunum hefði þurft að gefa röddunum meira vægi í hljóðmyndinni svo orðaskil heyrðust, jafnvel tempra líka óhóflegan hljóðstyrkinn. Mögulega hoppa aðeins minna. Effektar og hljóðjafnvægi gerðu líka rassálfum, skógarnornum og grádvergum erfitt fyrir í sínum lögum, en ungu leikararnir í þeim gervum bættu það upp með kröftugri nærveru og frábærum hreyfingum.

Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar er augnayndi mikið, rómantísk og ríkulega skreytt og skapar ótal leikrými í samspili við hringsvið og lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar og nýtt af fimu öryggi af leikstjóranum. Óhjákvæmilega kom skógurinn heldur illa út úr jafnvægislistinni við að gefa ólíkum athafnasvæðum Ronju rými. Eitt veglegt kirsuberjatré í þrengslum milli kletta gefur eiginlega frekar tilfinningu fyrir snotrum lystigarði en dulmögnuðum skógi með hættum og refilstigum við hvert fótmál. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur styðja, líkt og kastalaveggir Finns Arnars, hina viðteknu mynd af þessum fortíðar- og fantasíuheimi sem texti bókarinnar og myndir Ilons Wikland hafa galdrað fram í huga lesenda, kynslóð fram af kynslóð.

Í Ronju ræningjadóttur er öllu vopnabúri stóra sviðsins tjaldað til, sem sýnir virðingu hússins fyrir yngstu skjólstæðingum sínum. Mögulega hefði Þjóðleikhúsið mátt fylgja fordæmi söguhetjunnar og sýna meira hugrekki í efnistökum og nálgun en það er þó enginn efi að þar í salnum mun fjöldi barna skemmta sér, taka andköf af spennu og ískra af hlátri næstu mánuðina.

þriðjudagur, maí 15, 2018

Aðfaranótt

Eftir Kristján Þórð Hrafnsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson.
Eftir Kristján Þórð Hrafnsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar: Útskriftarnemendurnir Árni Beinteinn Árnason, Ebba Katrín Finnsdóttir, Elísabet Skagfjörð Guðrúnardóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Hákon Jóhannesson, Hlynur Þorsteinsson, Júlí Heiðar Halldórsson og Þórey Birgisdóttir. Gestaleikari frá Þjóðleikhúsinu: Sigurður Þór Óskarsson. Lokaverkefni leikarabrautar sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Frumsýning í Kassanum föstudaginn 11. maí 2018.

Út í kvöld


Formkröfur leikrita og forsendur nemendaleikhúss fara ekki frábærlega saman. Gangverk hefðbundinna leikverka virkar alla jafnan best þegar örlög einnar, eða í mesta lagi þriggja persóna eru í forgrunni, og aðkoma annarra ræðst af gagnsemi þeirra til að segja þá sögu og gefa henni safa og líf. Á hinn bóginn er það verkefni leikskálds sem skrifar fyrir útskriftarhóp leikarabrautar LHÍ að gefa öllum verðug verkefni, því sem næst jafngild að umfangi og erindi þar sem öll eru leidd til lykta á jafnræðisgrundvelli. Fyrir utan að persónurnar mega gjarnan vera á sama aldri. Það er ekki tilviljun að það verk sem mér virðist einna lífvænlegast af þeim sem ég hef séð frumsamin af slíku tilefni er Maríusögur, sem Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði fyrir ‘95 árganginn, en þau voru einungis fimm. Það munar ansi mikið um þessa þrjá sem bætast við í meðalári.

Það sem þessar takmarkanir gefa á móti færi á er að lýsa einhverskonar ástandi, einhverjum samnefnara, tíðaranda, menningu. Kjartan Ragnarsson leysti það mjög skemmtilega árið 1981 í Peysufatadegi sínum og skapaði eftirminnilega mynd af Íslandi í aðdraganda heimsstyrjaldar. Í Aðfaranótt hellir Kristján Þórður Hrafnsson sér í reykvíska djammið og opnar nokkurskonar sýnisbók áskorana og þrauta sem ungt fólk þarf að glíma við í leit sinni að fótfestu í lífinu og færni í að lifa í samfélagi við aðra, sátt í eigin skinni. Hann gleymir heldur ekki að jafnvel fólk á byrjunarreit á sér fortíð, sem bankar ekki síst upp á þegar hömlurnar leysast upp í alkóhóli og danssvita.

Eins sérkennilega og það hljómar þá gefur hin ágæta sonnettubók Kristjáns, Jóhann vill öllum í húsinu vel, vísbendingar um hvernig hann gæti nálgast svona verkefni, og leyst það smekklega. Mörg ljóðin þar eru byggð upp af hliðskipuðum smámyndum, ein til tvær línur helgaðar persónu og bjástri hennar, sem fær síðan dýpri merkingu í samspili við næstu sjálfstæðu mynd. Byggingarlag Aðfaranætur er ekki óskylt. Ungt fólk á bar, sumt komið til að halda upp á afmæli eins í hópnum, önnur í öðrum erindagjörðum.

Hvert þeirra er mætt með sinn djöful að draga. Frjálshyggjuspaðinn (Júlí Heiðar Halldórsson) sem breiðir hroka yfir óöryggi sitt, sem brýst líka út í afbrýðisemi. Kærastan hans (Ebba Katrín Finnsdóttir) sömuleiðis með harða framhlið af sjálfsánægju og það má líka segja um náungann (Árni Beinteinn Árnason) sem eitt sinn var bekkjarforinginn og finnst hann enn eiga tilkall til gegnheilu grunnskólakærustunnar (Þórey Birgisdóttir), þrátt fyrir að hún sé sæl með sínum hæfileikaríka en viðkvæma kærasta (Hákon Jóhannesson). Útsmogin frænka frjálshyggjuspaðans (Eygló Hilmarsdóttir) nær að draga vinkonu sína (Elísabet Skagfjörð Guðrúnardóttir) út á lífið með fölskum upplýsingum, en Reykjavík er smábær og fyrrverandi sambýlismaður systur hennar (Sigurður Þór Óskarsson í gestaleik hjá útskriftarbekknum) afgreiðir á barnum og á sitthvað vantalað við sína fyrrverandi fjölskyldu. Í kringum gleðskapinn sveimar svo samanbitið eineltisfórnarlamb í hefndarhug (Hlynur Þorsteinsson).

Við vitum frá upphafi að þetta mun enda með skelfingu. Það er síðan áréttað jafnt og þétt í stuttum eintölum – algengt formbragð í „jafnræðisleikritum“ á borð við Aðfaranótt. Nákvæmlega hvernig það gerist kemur á endanum á óvart, ýmsir möguleikar eru lengst af opnir um hver muni liggja í valnum og fyrir hendi hvers. Niðurstaðan er kannski ekki fyllilega fullnægjandi, en einnig það gerir verkið trúverðugra, meira eins og dæmigert djammkvöld sem lýtur ekki lögmálum um dramatíska nauðsyn. Annars eru samtöl lipur og gangverk leikritsins skýrt, þó fátt sé um óvæntar vendingar eða kitlandi spennu. Á stundum mætti Kristján líka ganga örlítið nær persónum sínum, vera grimmari í að afhjúpa þær, eða láta þær koma betur upp um sig í samtölunum. Það leynast held ég í upplegginu ónýttir möguleikar á bæði fyndni og dýpt, auk þess sem spennustigið lækkar upp úr miðbiki verksins. En svo nær það sér á strik og grípur áhorfandann aftur áður en yfir lýkur.

Uppsetningin ber sterk höfundareinkenni Unu Þorleifsdóttur. Skýrleiki er hennar aðalsmerki og sem sviðsetjari fótar hún sig sem leikstjóri best á næstum auðu sviði. Þó verkið sé nánast allt byggt upp af tveggja til þriggja manna samræðum gengur mjög lipurlega upp að nýta aðra í hópnum sem lifandi leikmynd meðan þær samræður fara fram. Auk þess byggir þetta á raunsæisgrunni; er þetta ekki einmitt svona á djamminu – allir saman en þó einir í þvögunni?

Leikmynd Rebekku A. Ingimundardóttur samanstendur af níu málmklappstólum og þremur hreyfanlegum málmbekkjum. Einn fær strax hlutverk bars en hinir verða nokkuð utanveltu. Að öðru leyti sér leikhópurinn um að mynda umgjörðina, með hjálp vídeókameru sem varpar nærmyndum af höndum, hári og öðrum líkamshlutum á bakvegg: nútímaleikhúslausn sem er á góðri leið með að verða klisja eða klassík, eftir því með hvaða gleraugum er horft. Búningar Rebekku eru mikið augnayndi og hugkvæmir mjög, byggðir á endurunnum galla- og jakkafötum og myndu sóma sér á tískufataslám í raunveruleikanum, að svo miklu leyti sem ég er dómbær á slíkt. Samspil búninganna og lýsingar Jóhanns Friðriks Ágústsonar er verulega áhrifaríkt, sérstaklega þegar honum tekst að gera leikhópinn nánast svarthvítan á ögurstundu. Tónlist Gísla Galdurs er fullkomlega viðeigandi og fyrir vikið hæfilega óþolandi fyrir allsgáðan sitjandi (miðaldra) áhorfanda.

Það er alveg hægt að leyfa sér að sakna aðeins sterkari drátta, jafnvel meiri áhættu, meiri ýkja, í karaktersmíðinni, bæði í textanum og túlkuninni. Á móti einkennist sýningin af áhrifaríkum skýrleika og heildarsvip á framgöngu leikhópsins. Aftur höfundareinkenni Unu, auk áhrifanna af áralangri náinni samvinnu leikaranna flestra. Sem viðfangsefni fyrir einmitt þennan hóp í því samhengi sem hann er, er Aðfaranótt ágætlega heppnað og unnið verk. Það er góður siður að fara ekki djúpt í saumana á frammistöðu einstakra leikenda í nemendasýningum. Hér nægir alveg að segja að allir komast vel frá sínu og óska þessum unga og flotta hópi til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

x

miðvikudagur, maí 02, 2018

Svartalogn

Eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur. Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Tónlist: Markéta Irglová og Sturla Mio Þórisson. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Aron Þór Arnarsson. Ráðgjöf varðandi pólsku: Ewa Marcinek. Leikarar: Elva Ósk Ólafsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Snæfríður Ingvarsdóttir, Esther Talía Casey, Hallgrímur Ólafsson, Pálmi Gestsson, Baldur Trausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir og Snorri Engilbertsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 27. apríl 2018.


Við enda ganganna


Fyrir utan umfjöllunarefnið: hlutskipti miðaldra kvenna í atvinnulífi og samfélagi nútímans, og umbreytandi möguleika samtakamáttar kvenna til að virkja hæfileika og blómstra á sínum forsendum, er fýsileiki þess að leikgera Svartalogn langt í frá augljós. Þessi nýjasta bók Kristínar Marju Baldursdóttur líður dálítið fyrir sviplitlar aðalpersónur og skort á verulega áhugaverðum og dramatískum „þröskuldum“ á vegi Flóru, Petru og pólsku söngdísanna, sem eru þrjár í bókinni en tvær á sviðinu, Ewa og Joanna. Tónskáldið Petra er að koðna niður í Vestfjarðaþorpinu en sigrar loks heiminn með hjálp hinna austrænu radda og viðskiptavits brottreknu bókhaldskonunnar að sunnan. Jafnvel ástin lætur á sér kræla en mun ekki fá að afvegaleiða konurnar í lífshamingjuleit sinni, eins og hún hefur áður gert.

Það verður að játast að ekki þótti mér Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni auðnast að berja í þessa bresti að neinu marki. Til að gera söguna að nothæfu eldsneyti í leiksýningu hefði þurft talsvert sjálfstæðari afstöðu, meira framlag frá leikskáldinu, minni virðingu fyrir texta skáldkonunnar.

Stóri vandinn liggur í persónu Flóru. Þó að við fáum langsamlega mest að vita um hennar hagi, fortíð og þá klemmu sem lífið er búið að koma henni í verður persónan sjálf aldrei fyllilega lifandi, sérstök eða áhugaverð fyrir lesanda/áhorfanda. Til þess ber hún of þungar byrðar í erindisrekstri verksins varðandi meðferð samfélagsins og vinnumarkaðarins á síðmiðaldra konum með tilheyrandi tjóni á sjálfsmynd og -trausti. En það er ekki hægt að leika það, ekki í svona hefðbundinni og leikhúsraunsærri úrvinnslu. Það þarf persónuleika. Það þarf alvöru árekstra við annað fólk og kringumstæðurnar. Það fýkur vissulega svolítið í Flóru stundum, þegar Petra dettur í þunglyndi eða listræn frekjuköst, en allt slíkt lagast áreynslulítið. Vissulega vinnur hún hógværa hetjudáð með því að bjarga Joönnu úr klóm ofbeldishrottans Krumma og halda honum fjarri, en jafnvel það gengur stóráfallalaust og skilur ekki eftir sjáanleg merki á persónunni og þroska hennar. Það er varla nokkuð út á skothelda frammistöðu Elvu Óskar Ólafsdóttur að setja, annað en ósk um að hún fái feitari og safaríkari bita fljótlega.

Petra er jafnvel enn óskýrari persóna, en hana sjáum við með augum Flóru í fyrstupersónufrásögn bókarinnar. Geðsveiflur hennar og mótsagnir gera Petru auðvitað skrautlega og andlegt ástand hennar og/eða dyntir móta að mörgu leyti framvindu verksins, ásamt aðstæðum Joönnu og viðbrögðum hennar við þeim. En persónan sjálf nær ekki sjálfstæðu lífi, hvorki í bók né á sviði. Edda Arnljótsdóttir náði Petru fyrir vikið ekki í fókus, en skapaði vissulega nokkur sönn augnablik, ekki síst þar sem kómískir möguleikar voru í boði. Það sama má segja um Elvu Ósk, sérstaklega var vandræðagangurinn í samdrætti Flóru og heimsborgarans Marteins (Baldur Trausti Hreinsson) gleðigjafi.

Það gerir minna til þó að smærri persónur skorti dýpt og fyrir vikið var þar fleira sem gladdi. Ragnheiður Steindórsdóttir var hæfilega aðsópsmikil sem Guðrún gamla, frænka og skjól Petru, þó að eldri og skrítnari „kerling“ hefði trúlega hjálpað sýningunni og breikkað galleríið. Pálmi Gestsson náði sýndist mér öllu sem í boði var út úr hrúðurkarlinum innanmjúka, Jóhannesi verkstjóra. Sama má segja um Hallgrím Óskarsson, ekki við hann að sakast þó að Krummi sé klisjulegur ofbeldismaður og vesalmenni þegar á reynir. Hann fór síðan einna verst út úr einum af stærri annmörkum sýningarinnar: leikmyndinni.

Eins og það hefur nú hljómað vel á einhverju stigi að staðsetja þetta Vestfjarðadrama í jarðgangamunna, og þó að útfærsla Gretars Reynissonar þjóni í raun flæði sýningarinnar ágætlega og gangverk hennar sé hnökralaust og flott hjá Hilmi Snæ hefur hún þann stóra galla að skapa skelfilega hljóðvist fyrir leikhópinn. Allt of oft drukknaði textinn, eða barst í það minnsta ekki skiljanlegur út í sal. Verst fór út úr þessu eitt lykilatriði verksins, lokauppgjör Krumma og Joönnu. Hann á öskrinu, hún að berjast við hvolfþak Grétars með grátstaf í kverkum. Og pólskan hreim.

Langoftast þegar unnið er með erlendan hreim í íslensku leikhúsi er það í grínleikritum og oft er bæði útfærsla og tilgangur einhvers staðar á rasismarófinu. Svo er ekki hér. Raunar finnst mér hin vandaða og heiðarlega vinna Snæfríðar Ingvarsdóttur og Estherar Talíu Casey með pólska hreiminn, og pólska textann, vera eitt það besta við sýninguna, að svo miklu leyti sem ég er dómbær á hversu vel þeim tekst til í samstarfi við Ewu Marcinek, pólskuráðgjafa sinn. Esther hefur ekki úr stóru drama að moða í hlutverki sínu en Joanna hefur talsverða nærveru og átökin í kringum hana eru viðburðamiðja verksins. Snæfríður gerði þetta ágætlega.

Ónefnd eru Birgitta Birgisdóttir og Snorri Engilbertsson, sem fara með hlutverk nokkurs konar innri radda Flóru, holdgerðar sem fyrrverandi samstarfsmenn hennar. Raddirnar eru að mestu hæðnislegar og sjálfsásakandi, sem á vel við, og hugmyndin er fín, sem og úrvinnsla Birgittu og Snorra. En textinn nær ekki nægilegu flugi og dugar ekki til að gefa þessum þætti vídd og líf.

Einu nær sviðsetningin að miðla sem ekki tekst í bókinni, reyndar mjög skiljanlega. Það er tónlistin sem Petra semur, Ewa og Joanna syngja og allir sem heyra heillast af. Það er ekki lítið sem lagt er á herðar Markétu Inglová og Sturlu Mio Þórissyni, tónlistarhöfundum verksins. Góðu heilli er útkoman ákaflega sjarmerandi lög við seiðmögnuð og dramatísk ljóð íslenskra skáldkvenna, Guðfinnu frá Hömrum, Ólöfu frá Hlöðum og Ólínu Andrésdóttur. Lögin eru í einhvers konar þjóðlagaskotnum söngvaskáldapoppstíl, sem hægt er að spyrja sig hvort rími við það sem okkur er sagt um tónskáldið sérlundaða, eða eigi erindi í kirkjur Suður-Þýskalands, þar sem Petra og systur hennar í listinni slá í gegn. En góð tónlist afvopnar jafnvel hryssingslega gagnrýnendur og þetta eru falleg lög, vel flutt í sýningunni og gætu auðveldlega átt framhaldslíf. Eins og persónur verksins sem hafa sótt í þau styrk og von til að ganga til móts við lífið. Það sést best í lokamynd verksins, sem er snjöll og fer langt með að réttlæta leikmyndina.

Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur fyrir Halldór Örn Óskarsson að lýsa þessi göng hans Gretars. Enda stundum erfitt að ná sambandi við svipbrigði leikaranna. Effektalýsing í gangaveggjum og lofti er hins vegar stundum áhrifarík í samspili sínu við hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar og Arons Þórs Árnasonar. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur eru frekar rökréttir og tilþrifalitlir, nema þá rauði kjóll Flóru sem gegnir nokkuð mikilvægu tákn- og sálfræðilegu hlutverki í frelsun hennar. Óheppilegt að þessi glæsifatnaður skuli virka meira heftandi en frelsandi, kona að pakka sér inn í þröngar kynæsandi umbúðir og upp á óstöðugu háu hælana. Algerlega gegn sögn verksins.

Leikgerð Svartalogns fylgir mótaðri leikgerðarhefð Þjóðleikhússins, sem það fær oft skammir fyrir að leita svona oft í. Hér endurgeldur efniviðurinn ekki traustið og virðinguna sem honum er sýndur, nær ekki að blómstra eða hafa þau sterku áhrif sem augljós vilji stendur til.x

fimmtudagur, mars 01, 2018

Slá í gegn

Höfundur og leikstjóri: Guðjón Davíð Karlsson. Danshöfundur: Chantelle Carey. Tónlist: Stuðmenn. Tónlistarstjórn: Vignir Snær Vigfússon. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Myndband: Ingi Bekk (myndbandshönnun), Björgvin Már Pálsson og Árni Jón Gunnarsson (hreyfimyndagerð) og Rúnar Steinn Skaftason (bakgrunnur). Hljómsveit: Vignir Snær Vigfússon, Karl Olgeirsson, Helgi Reynir Jónsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Róbert Þórhallsson og Aron Steinn Ásbjarnarson. Leikarar, dansarar og sirkuslistafólk: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Jón Gnarr, Sigurður Þór Óskarsson, Sigurður Sigurjónsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Oddur Júlíusson, Esther Talía Casey, Þórey Birgisdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Bjarni Snæbjörnsson, Juliette Louste, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Hildur Ketilsdóttir, Nicholas Arthur Candy, Sindri Diego, Harpa Lind Ingadóttir, Bjarni Kristbjörnsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 24. febrúar 2018.

Dýrleif með töfrabrögðin

Tónlist Stuðmanna er á heimavelli í leikhúsinu. Svo ekki sé minnst á fjölleikahúsið. Fjöllyndið í stíl, stefnum og andrúmslofti, létt-paródísk afstaðan, hnyttnin í textunum og fjölbreytni yrkisefnanna. Þessi lög tala mörgum röddum og oftar en ekki eru „ljóðmælendur“ mótaðar persónur, jafnvel nafngreindar. Allt þetta þokar list Stuðmanna nær söngleiknum en flestri popptónlist myndi þykja þægilegt eða fínt. Við þessa þulu má svo bæta að staða Stuðmanna í íslenskri þjóðmenningu er slík að leikhúsinu beinlínis ber að gera henni skil. Jörundur hundadagakonungur, hernámið, Njála: allt kallar þetta á að vera sett á dagskrá. Það sama gildir um árshátíðargrínið úr Menntaskólanum við Hamrahlíð sem fór svona eftirminnilega, gleðilega og varanlega úr böndunum.

Og það hefur auðvitað verið á dagskrá. Það var dálítið þreytandi í aðdraganda frumsýningarinnar að heyra spyrla tala um Slá í gegn eins og eitthvert Kólumbusaregg hjá Guðjóni Davíð Karlssyni, og höfundinn og leikstjórann taka undir hvað það væri merkilegt að engum skyldi hafa dottið í hug fyrr að sjóða saman söngleik með tónlist Stuðmanna sem hryggjarstykkið. Stutt gúggl leiðir mann nefnilega í Loftkastalann 1996 þar sem þeir Valgeirar, Skagfjörð og Guðjónsson, frumsýndu söngleikinn Sumar á Sýrlandi, spunninn utan um tónlistina af fyrstu tveimur breiðskífum sveitarinnar. Svo ekki séu tíundaðar atlögur skólaleikfélaga um landið þvert og endilangt að þessum augljósa og gjöfula efnivið. Nýjabrum er ekki góður sölupunktur fyrir þetta sjó.

Það er handritið því miður ekki heldur. Í kynningu sýningarinnar hljómaði eins og hún byggðist á nokkuð skýrri og glúrinni grunnhugmynd, sem er alger lífsnauðsyn fyrir sýningu sem þessa. Hér þarf sterka sögu og skýr átök sem halda fleytunni á floti og gefa svigrúm fyrir þá útúrdúra sem tónlistin kallar á. Togstreita milli áhugaleikfélags í litlu þorpi og sirkuss sem mætir á svæðið er alveg ágætis vettvangur, en það spilast ekki vel úr þessu. Eitt er nú að sirkusinn er ekki fyrr kominn í bæinn en leikfélagið gengur til liðs við hann í heild sinni, að frátöldum einum þrjóskum sérvitringi. Annars eru árekstrar hins þjóðlega og þess framandi og forboðna ekki til meðferðar hér. Það reynist heldur ekki vera neitt leikrænt eða dramatískt púður í aðlögun sveitavargsins að sirkuslífinu, sem er óskiljanlegt. Samdráttur fjölleikaprinsessunnar og leikfélagskolbítsins er auðvitað óhjákvæmilegur, en þurfti hann að vera alveg svona áreynslulaus? Og þessi reykvíska fjölskylda sem fylgir pabbanum í draumaleit hans þegar hann kaupir rúmenskan sirkus á eBay – var ekkert áhugavert við að skoða hvernig það gæti gengið fyrir sig, eða ekki gengið? Hefði það jafnvel nægt sem leikrænt eldsneyti eitt og sér? Það kviknar aldrei í því.

Í stað þess að leyfa leiktextanum að vera límið, skapa togstreitu leggja til hreyfiorku í samskipti persónanna er hann að mestu lagður undir fimmaurabrandara. Sem auðvitað hitta sumir í mark, en ofgnóttin er þreytandi, sérstaklega endalausar vísanir í Stuðmannatexta. Þá þykja mér textatengsl verksins við leiktexta Með allt á hreinu misráðin (fyrir nú utan að skjóta inn bútum úr tveimur Gærulögum, sem er furðuleg ráðstöfun). Hér hefði þurft að skapa nýjan og lífvænlegan jarðveg fyrir tónlistina, en það er ekki gert.

Persónugalleríið er það best heppnaða í framlagi höfundarins, einfaldar týpur, sumar andlits- og einkennalausar en aðrar harla sniðuglega samsettar; Kalli lögga með búktalsdúkkuna sína, hin skeggjaða Ólína sem finnst enginn sjá sig fyrir brjóstunum, alvitri presturinn og svo auðvitað prímadonnan Sigurjón digri, sem reyndar er sóttur að stórum hluta á bensínstöðina í Næturvaktinni, en býr að því að Jón Gnarr hefur áratugareynslu af jafnvægisdansi milli fyndins banalítets og alvöru í leiktexta á barmi paródíunnar. Tveir af leikrænum hápunktum sýningarinnar eru hans: tilraun Sigurjóns til að flytja Gullna hlið Davíðs einn síns liðs eftir að hafa flæmt leikfélagið út í sirkustjald og svo samtal hans og Ólínu, sem Edda Björgvinsdóttir túlkar fallega. Jón syngur ekki í meistaradeildinni, en hefur það fram yfir flesta að það sem hann syngur hljómar eins og þar sé persóna að tjá sig en ekki söngvari að brillera, sem rétt er að geta að flestir þeirra gera. Sömu áhrifum nær Snæfríður Ingvarsdóttir í gullfallegri túlkun á „Angantý“ og þau Sigurður Þór Óskarsson í skemmtilega endurútsettum „Ástardúett“. Sem vel á minnst er eina lagið sem hægt er að segja að sé meðhöndlað með skapandi afstöðu. Að öðru leyti einkennist framlag Vignis Snæs Vigfússonar og liðsmanna hans af skotheldri fagmennsku og engu þar umfram. Ég var á sveitaballaaldrinum á gullaldarárum Stuðmanna og hef heyrt flest þessi lög fara í gegnum hakkavél hugmyndaríkra grallara. Þau þola það vel, og græða sum.

Þau halda líka bolta sýningarinnar á lofti þrátt fyrir allt. Dauðir punktar þjóta hjá og hverfa í rykið af hverjum smellinum á fætur öðrum. Þrjátíu lög koma við sögu, fyrir utan öll hin sem vitnað er til í leiktextanum. Undir lokin, þegar sirkusinn frumsýnir sjóið sitt, tekur tónlistin öll völd og gleðisprengjan springur. Þá er gaman. Það er vel haldið utan um gangverk sýningarinnar af Guðjóni Davíð og Chantelle Carey, þó dansatriðin hafi svo sem ekki slegið mig sem sérlega frumleg sköpun. Þær sirkusbrellur sem sýndar eru eru skemmtilegar og það næst áberandi vel að má út skilin milli leikara, söngvara, sirkusfólks og dansara, nýta kraftana og gefa öllum færi á að njóta sín. Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur gera þetta að dálítið myrkum sirkus, pínu fullorðins, pínu „Freak Show“, og ekkert að því, svo augljóslega meinlaust er þetta fólk allt, ekki síst hin elskulegu sirkusstjórahjón sem Örn Árnason og Ólafía Hrönn Jónsdóttir nutu sín fyrirsjáanlega vel í. Svona sýning er líka leikvöllur fyrir ljósahönnuð og Magnús Arnar Sigurðarson fer í öll heljarstökkin og splittin. Leikhópurinn er í sölugírnum allan tímann, stuðinu er haldið uppi af einurð og krafti (ég bara neita að kalla það energí og trú).

Slá í gegn er mannmargt og íburðarmikið stórsjó. Öllu er tjaldað til úr vopnabúri Þjóðleikhússins til viðbótar þeirri miklu meðgjöf sem tónlist Stuðmanna er. Frá sjónarhóli skemmtunar næst harla góður árangur og fagnaðarlætin á frumsýningarkvöldinu voru eins og í Atlavík ’84. Úr bæjardyrum leiklistar horfir aðeins öðruvísi við. Leikræni efniviðurinn er vægast sagt rýr og ekki erfitt að ímynda sér viðbrögð listrænnar forystu leikhússins ef því bærist slíkt handrit í póstinum. Þau yrðu alla vega ekki að opna alla skápa, ræsa allar vélar, ráða stóra hljómsveit og sirkus utan úr bæ.

Þjóðleikhúsið er ekki fjáröflunararmur Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Það hefur listrænum skyldum að gegna. Það er ekki sama hvað það gerir, eða hvernig það gerir það, þó að öryggisnet tónlistar allra landsmanna grípi það í þetta sinn og skili öllum brosandi heim.