þriðjudagur, maí 16, 2017

RVKDTR – THE SHOW

Eftir Kolfinnu Nikulásdóttur, Jóhönnu Rakel Jónasdóttur, Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur, Steinunni Jónsdóttur, Þuru Stínu, Solveigu Pálsdóttur, Steineyju Skúladóttur, Sölku Valsdóttur og Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. Leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir. Leikmynd og búningar: Jóhanna Rakel Jónasdóttir. Hljóðmynd og tónlistarstjórar: Salka Valsdóttir og Baldvin Magnússon. Sviðshreyfingar: Kolfinna Nikulásdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Jóhanna Rakel Jónasdóttir. Ljósahönnun: Juliette Louste. Myndbandsgerð: Elmar Þórarinsson. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 11. maí 2017.

Á útivelli

Leið íslenska rappsins af jaðrinum inn í meginstrauminn hefur verið glannalega hröð síðustu misseri. Svo hröð reyndar að það hefur verið umtalsvert djarfari ákvörðun hjá Kristínu Eysteinsdóttur að rétta Reykjavíkurdætum hljóðnema og skilyrðislaus afnot af Litla sviðinu þegar hún var tekin, en núna þegar afraksturinn er borinn fram.

Margt mælir með að rapp eigi heima í vopnabúri leikhússins. Leikhúsið á að vera vettvangur orðsins, en sá hluti genamengis þess hefur verið bældur og jaðarsettur undanfarna áratugi, leynt og ljóst. Kannski er hægt að smygla skáldskapnum aftur inn á sviðsmiðjuna með þessari flaumkenndu og litskrúðugu rímnalist, nú þegar sífellt fleiri eru læsir á fagurfræði hennar. Margir horfa vonaraugum vestur um haf, þar sem slegist er um miðana á hiphop-söngleikinn Hamilton á Broadway. Í Bretlandi er The Hip Hop Shakespeare Company átta ára gamalt batterí.

Það er hugsað öllu smærra í Borgarleikhúsinu, sem vonlegt er. Raunar finnst mér að það hefði þurft mun nánari samgang milli rappsins, laganna sem dæturnar flytja í sýningunni og annars efnis sýningarinnar. Einhverskonar sambræðslu, tilraun til að nýta hinn mjög svo leikræna efnivið tónlistarinnar á forsendum leikhússins. Að opna dyr. Kannski var þetta reynt en niðurstaðan orðið þessi. Að hafa skilin skýr, að láta skiptast á tónlist og talað mál og láta innihaldið kallast á gegnum lokaðar dyrnar.

Það skapast hratt skemmtileg spenna milli þessara sviða. Ýkt og yfirgengilegt sjálfsöryggi er innbyggt í rappið. Hetjulegri tónlist hefur ekki heyrst síðan hár-metal féll úr tísku. Sumarliði hans Bjartmars Guðlaugssonar hefði líka fundið sig í afstöðunni. Sá/sú sem hefur orðið liggur sjaldnast á þeirri skoðun sinni að hann/hún sé mest og best í listinni og lífinu en ekki síður í því að njóta lífsins og hrifsa til sín það sem þarf til þess. Rappari tekur sitt pláss í heiminum með tilþrifum.

Merking þess að konur taki sér slíka stöðu er þrátt fyrir allt enn gerólík þeirri sem verður til þegar karlar byrja að tala um eigið ágæti, velgengni og greddu. Í þessa staðreynd sækja Reykjavíkurdætur slagkraft sinn. Og fá allan sinn mótbyr. Sem verður mikilvægur hluti af sama slagkrafti. Mótbyrinn er síðan í stóru hlutverki milli laga. Bæði vandinn við að gera sig gildandi og njóta sannmælis í karlstýrðum heimum rapps, tónlistar og menningar, en líka hið almenna og sjálfsmyndarslítandi álag sem fylgir nútímalífi ungra kvenna. Konur eru á útivelli í rappinu. Rapparar í leikhúsinu.

Þessar andstæður eru ágætt eldsneyti. Atriðin eru hinsvegar missterk og vilja svolítið fölna við hliðina á kröftugu og ágengu rappinu. Áberandi bestur er fyrsti hlutinn, þar sem dæturnar sviðsetja spjallþátt og bjóða í hann valdakörlum menningar- og fjölmiðlalífsins, sem gengur misvel að dylja þá löngun sína að halda sínu og verja dyr kallaklúbbsins. Aldeilis myljandi snjallar skopmyndir (frekar en beinlínis eftirhermur) af leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarssyni og Unnsteini Manúel í Retro Stefson, sem í meðförum sýningarinnar eru vissulega allir af vilja gerðir til að „gefa“ konum tækifæri, en... það er alltaf eitthvað en. Fleiri áberandi karlar gera sig svo líka breiða og atriðinu lýkur með ákaflega táknrænni og morðfyndinni gæðastund drengjanna.

Hin hliðin á þeim peningi var svo innlit Borgarleikhússtýrunnar, Kristínar Eysteinsdóttur, í lokin, þar sem hún eys lofi yfir sýninguna og frammistöðu stúlknanna. Þar lekur smá af yfirgengilegu sjálfsáliti rapparans loksins undir dyrnar inn í vanmetakenndarherbergið baksviðs. Sem er gott og skemmtilegt.
Önnur atriði flugu ekki eins hátt. Játningar um öryggisleysi, erfiðleika við að tengjast öðrum, áhyggjur af hvert stefnir, óþol gagnvart mótsagnakenndum kröfum heimsins – allt eru þetta efni sem liggja beint við og þurfa snjallari útfærsluhugmyndir, heildstæðari hugsun eða dýpri meðferð til að hreyfa við áhorfandanum, sem er alveg örugglega ekki að heyra þessar fréttir í fyrsta sinn. Einlægnin og nálægðin er sterk, en það þarf meira. Sérstaklega þar sem krafturinn í tónlistaratriðunum og orðavefnaði rímnanna skapar mótvægi sem nánast drekkir leikatriðunum.

Dæturnar eru allar sannfærandi á sviði og ná áreynsluleysinu sem þarf til að vera sannfærandi í einlægninni og búa yfir sannfæringu og krafti fyrir tónlistaratriðin. Sýningin er lipurlega sviðsett af Kolfinnu Nikulásdóttur, með hæfilega afslappaðri umferðarstjórn sem er alveg við það að verða að óreiðu í rappatriðunum en skýr og nákvæm þess á milli. Viðtalsatriðin eru líka vel útfærð og hæfilega langt gengið í að „ná“ viðmælendum þáttastjórnandans án þess að detta inn í klisjur eftirhermulistarinnar.

Útlit sýningarinnar er vel heppnað hjá Jóhönnu Rakel Jónasdóttur. Hvíti liturinn allsráðandi í leikmynd og búningum og glitrandi gerviglys vísar smekklega í rapparaklisju „blingsins“. Ég er almennt ekki hlynntur því að leikmyndir taki sér forystuhlutverk í að miðla merkingu leiksýninga en trommusettið sem trónir stolt á Litla sviðinu var frábær hugmynd.

Ég hefði verið til í meiri ögrun í þessari sýningu. Meiri listræna áhættu, fjölbreyttari aðkomu rappsins. Það sem fyrir áhorfendur er borið er alveg ágætt, sumt vel það. Annað dálítið bragðdauft, sem kom á óvart.

þriðjudagur, apríl 11, 2017

Álfahöllin

Eftir Þorleif Örn Arnarsson. Handrit: Þorleifur Örn Arnarsson og Jón Atli Jónasson. Meðhöfundar: Aldís Amah Hamilton, Anna Katrín Einarsdóttir, Arnar Jónsson, Arnbjörg María Daníelsen, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Börkur Jónsson, Elvar Geir Sævarsson, Gaukur Úlfarsson, Hallgrímur Ólafsson, Hermann Karl Björnsson, Jóhann Friðrik Ágústsson, Jón Atli Jónasson, Kristín Hauksdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Sunneva Ása Weisshappel, Uwe Gössel, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þorleifur Örn Arnarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Þórir Sæmundsson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Dramatúrg: Símon Birgisson og Uwe Gössel. Leikmynd: Börkur Jónsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Búningar: Sunneva Ása Weisshappel. Myndbandshönnun: Gaukur Úlfarsson. Tónlist og tónlistarstjórn : Arnbjörg María Daníelsen. Hljóðmynd: Arnbjörg María Daníelsen og Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Aldís Amah Hamilton, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Hallgrímur Ólafsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 8. apríl 2017.

Leikvangur tómstunda – vígvöllur gagnrýni


Til hvers er Þjóðleikhús? Í glæsilegri ræðu Vilhjálms Þ. Gíslasonar sem hljómar í upphafi Álfahallarinnar eru skyldur þess og hugsjónir taldar upp með mælskufræðilegum þokka og vel hægt að skrifa undir þær allar enn þann dag í dag. Deila síðan um mikilvægisröðina og hversu vel hefur gengið að standast prófin. Athygli vekur áherslan á skemmtun. Það á að vera gaman, ríkja gleði í þessu musteri, þessari álfahöll. Nokkuð sem hin frægu einkennisorð systurstofnunarinnar í Kaupmannahöfn segja án þess að segja það, sem er viðeigandi á heimavelli undirtextans. „Ej blot til lyst“ stendur þar, Ekki bara til skemmtunar. Sem þýðir auðvitað að skemmtunin eigi þar heima líka.
Þessi togstreita er eldsneytið í Álfahöll Þorleifs Arnar Arnarssonar, Jóns Atla Jónassonar og samstarfsfólks þeirra. Hvaða þýðingu hefur Þjóðleikhúsið – og leikhús almennt – fyrir þá sem þar starfa, sem listamenn og einstaklinga? Hvað hefur það að segja áhorfendum? Hvaða gagn gerir það samfélaginu? Um hvað fjallar það, hvað kemst ekki að og hvers vegna ekki? Hvað getur það gert?

Þetta hljómar auðvitað sjálfhverft, upphafið og leiðinlegt, en það er Álfahöllin svo sannarlega ekki. Örlítið sjálfhverf kannski í gamansögum úr leikhúsinu, en gamansögur réttlæta sjálfar sig ef þær standa undir nafni. Pínulítið óvæntur léttleiki er grunntónninn í efnistökunum og næstum alltaf þegar hún vill vera fyndin er hún það. Stundum svo um munar. Einstöku sinnum mistekst grínið alveg. Það er ekki það eina sem Álfahöllin á sameiginlegt með formgerð áramótaskaupsins, annarrar menningarstofnunar sem vill skemmta og stinga á kýlum, þannig að „menn rísa þó heilir og sáttir að morgni eftir bardaga kvöldsins“, eins og Vilhjálmur Þ. segir í fyrrnefndri ræðu.

Léttleiki já, en ekki léttúð. Það er þungur undirtónn í sýningunni og tvö verkanna sem rifjuð eru upp fá „óbrjálaða“ meðferð – hér er hvorki skopast með Fjalla-Eyvind né Pétur Gaut. Harmleikurinn um allsleysið og hinn um tómið í allsnægtunum eru hornsteinar hallarinnar. Í upphafi er sungið yfir barninu sem fórnað er á flóttanum og í lokin fáum við svo söng Sólveigar sem bíður alla ævi eftir sínum flóttamanni.

Með léttleikanum tekst á snjallan en einfaldan hátt að setja áhorfandann í meðvitaða og gagnrýna stöðu strax í upphafi, þar sem leikararnir segja örstuttar sögur um fyrstu kynni sín af leikhúsinu og listinni. Með því að hafa eina þeirra augljóslega ósanna (eða réttara sagt: líklega sanna en greinilega rangfeðraða) erum við látin koma okkur fyrir á sætisbrúninni og búin undir það sem koma skal, tilbúin að greina, spyrja, efast.

Sýningin fer ekki leynt með hópvinnueðli sitt. Atriðin eru ósamstæð að efni, aðferðir ólíkar, tengingar bláþráðóttar en sumar mjúkar og fallegar, eins og þegar Ólafur Egill Egilsson er borinn til grafar í hlutverki Guðjóns Samúelssonar en umbreytist á leiðinni í Þröst Leó Gunnarsson að hrekkja Baldur Trausta Hreinsson og aðra mótleikara sína í Edit Piaf. Leikararnir sjálfir eru í forgrunni, eða nálægt yfirborðinu þá sjaldan þeir bregða sér í hlutverk í þeim verkum úr sögu leikhússins sem fyrir þeim verða. Texti sem ekki er sóttur beint í leikritin ber með sér að vera ekki orðaður í eitt skipti fyrir öll heldur umorðaður í hvert sinn innan þess ramma – út frá þeim kjarna – sem viðkomandi atriði hefur.

Þrjú atriði hverfast um það sem „hæst ber“ í umræðunni í samfélaginu. Kostuleg er endursköpun á sigri „strákanna okkar“ á Englendingum á EM síðasta sumar undir stjórn Sigurðar Þórs Óskarssonar (er bensínið samt ekki búið á húh-gríninu?), tónsetning Hallgríms Ólafssonar á mest lesnu fréttunum á mbl.is (með aðstoð frá Bubba Morthens) og lestur Þóris Sæmundssonar á svipuðu efni í trúðsgervi sem hann ber stærstan hluta sýningarinnar og verður mikilvægt steypustyrktarjárn í byggingu Álfahallarinnar. Bráðskemmtileg er makalaus meðferð trúðsins og hópsins á atriði úr Stundarfriði Guðmundar Steinssonar. Það sama má segja um æðiskast sem trúðurinn tekur í hlutverki gagnrýnanda yfir stöðu listamannsins eins og hún birtist í Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason. Það er svo aftur til marks um fimi Þorleifs og hans fólks við að henda marga bolta á lofti og láta okkur horfa úr öllum áttum í senn, að viðhorfin í textanum sem þar eru skopgerð ríma að því virðist ágætlega við áhyggjur hans af þessari sömu stöðu. Er listamaðurinn dauður? Eða lifandi lík í skemmtiiðnaðinum?

Skemmtunin og ögrunin eru aftur samferða í lokaatriði fyrri hlutans sem hefst með upprifjun á Inúk en afvegaleiðist vægast sagt illa inn í umræðu um kynþætti með Aldísi Amah Hamilton í miðju stormsins. Brilljant atriði þar sem hláturrokurnar og Klovn-ættuð óþægindi í boði Atla Rafns Sigurðarsonar, Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur og Láru Jóhönnu Jónsdóttur þvælast þrátt fyrir allt ekki fyrir skilningi okkar á alvarleika efnisins sem til umfjöllunar er. Þvert á móti. Leiklist í essinu sínu.

Frjálsi tíminn sem í flestum sýningum er kallaður „hlé“ er síðan sérkapítuli. Einna helst eins og Hieronymus Bosch og Charles Ives hafi ákveðið að semja söngleik. Sigurður Þór í pífupilsinu og dragdrottningin Arnar Jónsson að kyrja lögin úr Gísl munu lifa í minninu.

Brúnin þyngist eftir söngskemmtunina. Eftir snöggt innlit í Sumarhús fær Ólafía Hrönn Jónsdóttir orðið og segir frá því sem hún varð vísari við að ræða við fátækt fólk og þá sem sinna hjálparstarfi. Það er alveg ljóst að þetta atriði er hugsað sem þungamiðja sýningarinnar. Ólafía er greinilega slegin af ástandinu sem hún hefur fengið innsýn í, af þeim sögum sem hún hefur heyrt. Skiljanlega, þær eru sláandi.

Leikhúsið á að reka erindi réttlætis og mannúðar. En hvernig? Einlægni er nauðsynleg. Hún er hér. Það er mikilvægt að rannsaka og greina rétt frá. Það gerir Ólafía. En það er ekki nóg. Hverju bætir leikhúsið við? Hvað getur það gert sem ekki næst betur með blaðagreinum, skýrslum, útvarpsþáttum, mótmælafundum og lobbýisma? Á meðan leikkonan flytur mál sitt fer fram áhrifaríkur gjörningur sem að einhverju leyti svarar þeirri spurningu, en engu að síður skilur atriðið eftir þá tilfinningu að hér hafi leikhúsið staðið upp og viðurkennt vanmátt sinn.

Það er verðmætt. Það er núllpunktur. Á því má byggja. Sú byggingarsaga hófst fyrir þúsundum ára og stendur enn.

Það er falleg og áreynslulaus samheldni í leikhópnum. Öll eiga þau glansaugnablik en aðallega þjóna allir heildinni öllum stundum, eins og eðli sýningarinnar krefst. Viðeigandi sundurgerð einkennir búningana fremur en stílhrein fegurð. Leikmyndin er þénug, gervin snjöll.

Álfahöllin er margbrotið og heillandi listaverk. Því er ekkert heilagt, það skammast sín hvorki fyrir lágkúru né fimmaurabrandara. Það ískrar í því reiðin og vill gjarnan smita okkur öll, en því finnst þessi reiði sín líka svolítið kjánaleg. Aðallega veit það að það er til einskis að hafa dýpt ef ekki tekst að lokka gestina til að kafa.

föstudagur, mars 24, 2017

Núnó og Júnía

Eftir Sigrúnu Huld Skúladóttur og Söru Martí Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir. Ljósa- og myndbandshönnun: Ingi Bekk. Leikmynda- og leikmunahönnun: Brynja Björnsdóttir. Búninga- og gervahönnun: Íris Eggertsdóttir. Hreyfinga- og danshönnuður: Katrín Mist Haraldsdóttir. Tónlist: Stefán Örn Gunnlaugsson (Íkorni). Hljóðhönnun: Sigurvald Ívar Helgason. Myndband: Ragnar Hansson. Grafískur hönnuður: Sverrir Ásgeirsson. Leikarar: Alexander Dantes Erlendsson, Bjarni Snæbjörnsson, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Aldís Sveinsdóttir, Arndís Eva Erlingsdóttir, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Brynjólfur Skúlason, Egill Andrason, Elísa Ýrr Erlendsdóttir, Eyþór Daði Eyþórsson, Freysteinn Sverrisson, Iðunn Andradóttir, Mateusz Swierczewski, Sigríður Alma Ásmundsdóttir, Sindri Snær Jóhannesson, Rakel Róbertsdóttir, Urður Andradóttir og Valentína Björk Hauksdóttir. Frumsýning í Hamraborg í Hofi 18. febrúar 2017, en rýnt í 5. sýningu 19. mars 2017.

Börnin í Spörtu

Hin árangursdrifna Kaldónía er í krísu. Meðan íbúarnir hamast við að „verða besta útgáfan af sjálfum sér“ með þrotlausum æfingum og mælingum undir vökulu auga Ráðsins herjar „Þokan“ á íbúana, illvíg pest sem gerir þá sem verða fyrir henni ósýnilega að hluta eða öllu leyti. Í stað þess að leita orsakanna og ráða bót á vágestinum hefur Ráðið farið leið strútsins í baráttunni við Þokuna og einangrað þá sem byrja að sýna (eða sýna ekki) einkenni hennar. Reist múr, en handan við hann hírast hinir ósýnilegu við harðan kost meðan hinir íbúarnir hamast. Enginn þó eins ötullega og Núnó Fálkon, ungur afreksmaður og heimsmeistari í óskilgreindum íþróttum sem Ráðið gerir að sendiherra og sínum helsta talsmanni í upphafi verks. En enginn er óhultur fyrir Þokunni. Kynni Núnós af hinni ósýnilegu Júníu, strokustúlku úr Þokuútlegðinni, hrindir honum af stað í sjálfsskoðun og leit að orsökum pestarinnar og þá í leiðinni hvort Þokan sé endilega verra hlutskipti en hið sálarlausa markmiðsdrifna hversdagslíf í Kaldóníu.

Þó barnaleikrit séu einatt boðskapardrifin þá er óvenjulegt að sjá höfunda þeirra stíga jafn eindregin skref inn í dystópíuhefðina og hér er gert. Hinir rómuðu sjónvarpsþættir Black Mirror komu fljótlega upp í hugann, og þeir sem hafa fylgt höfundi þeirra, Charlie Brooker, eftir í myrka afkima nútímalífs og -tækni, myndu seint telja þá við barna hæfi. Þessi sýning er það hins vegar, og hef ég sannfrétt að hún haldi athygli barna frá upphafi til enda, þó í fullri lengd sé, lítið sem ekkert sungið og útlit að mestu grátónað og naumhyggjulegt. Aftur eitthvað sem við eigum ekki að venjast úr „stórsjóum“ fyrir börn.

Útlit og umgjörð er með miklum ágætum út frá þessari grunnforsendu. Grá, hálfgegnsæ tjöld eru dregin sundur og saman af stórum fumlausum leikhópnum og marka ólík leikrými. Notkun myndvarpa og ljósa vinnur glæsilega með hinu efnislega svo úr verður sannfærandi gerilsneyddur framtíðarheimur. Og svo bætast sjónhverfingarnar ofan á, að láta líkamshluta hverfa. Framúrskarandi samvinna hjá hönnuðum sýningarinnar, Birnu Björnsdóttur, Inga Bekk, Ragnars Hanssonar og vafalaust fleirum.

Tónlist Stefáns Arnar Gunnlaugssonar (Íkorna) er flott og rétt, undurfallegur valsinn sem Núnó og Júnía stíga. Það er alveg skiljanleg ákvörðun að magna upp allt tal sýningarinnar og það er smekklega gert hjá Sigurvald Ívari Helgasyni, en óhjákvæmilega er þessi listræna ákvörðun á kostnað nándarinnar við persónurnar og gefur öllu sem fram fer á sviðinu dálítið fráhrindandi gerviblæ. Viðeigandi hér, en engu að síður glatast leikhústöfrar.

Búningar í heimi Kaldóníu eru stílhreinir hjá Írisi Eggertsdóttur, með skýra vísun í heim tölvuleikja og teiknimynda. Hinir litríku íbúar Vestursvæðisins, sem hafa hafnað markhyggju Austursins og lifa í sátt við takmarkanir sínar og hina ósýnilegu voru hins vegar óþarflega klisjulega hippa-austrænir í útliti. Sú sena kom líka einkennilega inn í gang mála og hefði annað hvort þurft mun meira vægi í vegferð Núnós eða hreinlega að láta í minni pokann undir vægðarlausu strokleðri höfundar eða dramatúrgs.

Aðalvandi sýningarinnar liggur nefnilega í handriti Sigrúnar Huldar Skúladóttur og Söru Martíar Guðmundsdóttur. Þó hugmyndin um Kaldóníu sé skýr og snjöll og í henni búi möguleikar á spennandi atburðarás og þroskakostir fyrir persónurnar þá vantar talsvert upp á að úrvinnsla þeirra möguleika sé sannfærandi. Of mikil lausatök eru á vegferð Núnós frá sjálfumglaðri sporthetju til örvæntingarfulls flóttamanns og að lokum bjargvættar. Eins eru samskipti hans og Júníu of yfirborðskennd og fyrirsjáanleg.

Það háir líka Dominique Gyðu Sigrúnardóttur allnokkuð að vera ýmist ólíkamleg rödd í hljóðkerfi, eða alhulin fötum svo ósýnileikinn sjáist ekki. Leikhústæknilegt vandamál sem ekki tekst að leysa þannig að við komumst í samband við aðalkvenhetju leiksins. Dominique er hins vegar bráðskemmtileg sem sjónvarpsstjarnan Sópran í einu af betri atriðum verksins. Alexander Dantes Erlendsson heldur sýningunni uppi í aðalhlutverkinu, en kemst ekki mjög langt með rýran efnivið sem hleypir Núnó aldrei almennilega að hjarta áhorfenda. Bjarni Snæbjörnsson er kröftugur sem Þjálfi, lærimeistari Núnós en jafn heftur af handritinu. Kannski hefði verið betra fyrir orku sýningarinnar, spennustig og skemmtunina að gera Þjálfa að meira eindregnu illmenni. Það vantar svolítið andlitið á andstæðinga Núnós og Júníu.

Það er fallegt og virðingarvert að Leikfélag Akureyrar ráðist í viðamikla frumsköpun af þessu tagi. Sigrún Huld og Sara Martí stytta sér ekki leið með því að nota tilbúinn efnivið ævintýra eða vinsæls barnaefnis heldur vinna úr vitsmunalega krefjandi efnivið frumlega og um margt snjalla sögu. Öllu er tjaldað til í leikhúsinu. Þó útkoman sé ekki afdráttarlaus sigur þá er hér unnið af sönnum metnaði og ástríðu sem er svo sannarlega vel sýnileg og til eftirbreytni.þriðjudagur, mars 14, 2017

Húsið

Eftir Guðmund Steinsson. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlistarumsjón: Davíð Þór Jónsson. Hljóðmynd: Davíð Þór Jónsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Leikgervi: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir og Ingibjörg G. Huldarsdóttir. Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Arnmundur Ernst Backman, Þröstur Leó Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Aldís Amah Hamilton, Baldur Trausti Hreinsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Emil Adrian Devaney, Kolbeinn Daði Stefánsson, Emil Björn Kárason, Þorsteinn Stefánsson, Jón Stefán Sigurðsson, Juan Camilo Roman Estrada, Muhammad Alzurqan, Luis Lucas, Juan Carlos Peregrina Guarneros, Sheba Wanjiku, Marwa Abuzaid, Charlie Jose Falagan Gibbon, Olivia Andrea Barrios Schrader, Maya Moubarak, Javier Fernandez Valiño, Monika Kiburyte, Jozef Pali, Maria Beatriz Garcia og Cheick Ahmed Tidiane Bangoura. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 10. mars 2017.

Flottasta villan í Feigðarósi

Hvað skyldi hafa valdið því að Húsið fékkst ekki sýnt um 1970, þegar það var ferskt úr penna Guðmundar Steinssonar og talaði beint inn í samtíð sína? Samband Guðmundar og Þjóðleikhússins var þá vissulega ekki orðið jafn þétt og það varð fljótlega upp úr þessu, og ljóst er að umfang verksins kallar á tækni og mannafla sem fáir aðrir höfðu á valdi sínu. Kannski hefur Þrándurinn í götunni verið mannfjöldinn sem verkið kallar á undir lokin. Slíkar senur eru eitur í beinum hagsýnna atvinnuleikhússtjóra og kalla á hug- og hagkvæmar lausnir.

Alla vega er ekki hægt að koma auga á neina þannig listræna eða tæknilega ágalla að hefðu átt að kalla á neitun verkefnavalsnefnda af þeim sökum. Þetta er snjallt verk, stílað í anda samtíma síns, skáldlegt í sviðshugsun og stórt í sniðum. Erindi þess hefur auðvitað verið skýrara á ritunartímanum. Margt í afhjúpandi samtölum hinna nýríku hjóna, innbyrðis, við fjölskyldu, vini og óboðna gesti, hefur þá haft yfirbragð hversdagslífs leikhúsgestanna, í stað þess að uppskera aðhlátur fyrir gamaldags fávisku.

Engu að síður er Húsið kærkomið á svið, þó að seint sé. Því margt sem það hefur að segja hittir illu heilli enn í mark hjá börnum og barnabörnum Páls og Ingu.

Virðing Þjóðleikhússins og listamanna fyrir þessu gamla hússkáldi sínu er falleg. Það er vægast sagt óvenjulegt að sjá svona gömul ósýnd verk sótt í handritasafnið og látið á þau reyna. Reyndar eru jafnvel vinsælustu og frægustu leikrit íslenskrar fortíðar fáséð á sviðinu, enda í mörg horn að líta og fáir mánuðir í leikárinu. Tíminn flýgur hratt.

Í Húsinu segir af ungum hjónum á uppleið, þeim Páli og Ingu. Þau búa þröngt með drengjunum sínum þremur og móður Páls. En það stendur til bóta, verið er að leggja lokahönd á stórhýsi fyrir fjölskylduna. Ekki alla reyndar, amman er á leið á elliheimili, ekki er gert ráð fyrir henni í hinni fögru og nýtískulegu höll sem Páll er að reisa sínu fólki. Fljótlega eftir að þau flytja inn fara að birtast þar óboðnir gestir, meðfram þeim sem boðið er til að dást að hinni fögru byggingu og mannlífinu þar. Aðsóknin ágerist þar til öllu er lokið.

Páll og Inga eru gott fólk. Þeim er í mun að innprenta sonum sínum hin kristnu gildi sem Vesturlönd byggja líf sitt og siðferði á. Bjarni, sá elsti, er samt kominn í uppreisnarham, enda er ekki erfitt að sjá að lífshættir hússins eru dauðanum merktir. Þess er vandlega gætt að gildin raski ekki velsældinni, trufli ekki veisluna en gjaldþrot er óumflýjanlegt. Það er ekki síst sú tilfinning sem gerir Húsið tímabært og áhrifaríkt í dag.

Leikhúsfólki verður tíðrætt um „dýptina“ í verkum Guðmundar. Hvað mikið búi að baki orðum og æði persónanna. Ég er ekki sannfærður um að það sé heppilegt orð, jafnvel einfaldlega ekki rétt lýsing. Ég myndi frekar tala um „svigrúm“ sem afhjúpandi innihaldsleysið í samræðunum gefur. Þessu svigrúmi deila túlkendur (leikstjóri, hönnuðir og leikarar) með áhorfendum. Því meira afgerandi sem sýn leikhúsfólksins er, því þrengra verður um ímyndunarafl leikhúsgesta, skilningsleiðum fækkar.

Lengst af tekur uppfærsla Benedikts Erlingssonar verkið „á orðinu“ ef svo mætti segja. Nálgast það bókstaflega, leyfir því að tala fyrir sig. Sú ákvörðun að gera ritunartíma verksins áberandi í útliti sýningarinnar skiptir hér miklu máli og er hreint frábærlega útfærð af hönnuðum búninga (Filippíu I. Elísdóttur), leikmyndar (Snorra Frey Hilmarssyni), lýsingar (Halldóri Erni Óskarssyni) og tónlistar (Davíð Þór Jónssyni). Án þess að hafa rannsakað það sérstaklega grunar mig að ekki hafi verið hnikað til orði í textanum. Sem hefði svo sem alveg borgað sig, ankannalegar eru „útvarpslegar“ staðhæfingar persónanna um það sem fyrir augu ber („þú sest í stólinn!“).

Ein róttæk nýtúlkunarhugmynd er þó útfærð í sýningunni. Undir lokin leggur hópur ókunnugs ungs fólks undir sig hús fjölskyldunnar. Nærtækast er að sjá þau sem hippa/anarkista/róttæklinga sem hafna þeim gildum sem hjónin boða og játa á yfirborðinu, þó að ekki séu nákvæm fyrirmæli um slíkt í handriti Guðmundar. Í sýningu Þjóðleikhússins er kosið að láta þennan lokakafla verksins tala beint við eitt brýnasta viðfangsefni samtímans: fólksflutninga frá stríðsþjáðum og efnahagslega aðþrengdum heimshlutum. Í hlutverkum unga fólksins eru leikarar af erlendum uppruna, úr leikhópi nýrra Íslendinga, og búnaður þeirra gefur sterklega til kynna stöðu nýbúans, flóttamannsins, hælisleitandans. Þessi túlkunarleið þrengir áðurnefnt svigrúm en skapar um leið sitt eigið, kallar beinlínis á meðvitaða úrvinnslu áhorfenda. Því hvað er það sem gerist? Hópur fólks leggur undir sig heimili, að mestu umyrðalaust. Borðar matinn, drekkur vínið, elskast í sérhönnuðum húsgögnunum. Brennir listaverkin. Merking þessa er öll önnur ef æskuhreyfingum sjöunda áratugarins er skipt út fyrir neyðarástand nútímans og má vart á milli sjá hvort hér sé á ferðinni listræn dirfska eða hreinlega einfeldningslegt og óábyrgt innlegg í umræðu sem er svo sannarlega nógu eldfim fyrir.

Strípaður texti og útlínukennd persónusköpun Guðmundar Steinssonar virðist mér ættuð úr absúrdleikhúsinu og gerir miklar kröfur til leikendanna, en jafnframt spennandi tækifæri. Það var gaman að sjá nýja hlið á Guðjóni Davíð Karlssyni sem er hér ekki hláturvekjandi æringi eins og svo oft, heldur hið mynduga og sjálfumglaða höfuð fjölskyldunnar. Hláturrokurnar sem oft fóru um salinn voru ekki sóttar þangað með brögðum gamanleikarans heldur kviknuðu af afhjúpandi orðaskiptum persónanna. Guðjón er sannfærandi í hlutverki Páls en betur hefði þurft að vinna gegn vissri einhæfni í raddbeitingu og mótun tilsvara. Það sama á við um Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur sem einnig var að öðru leyti sannfærandi sem hin ófullnægða en yfirborðssæla húsmóðir. Kristbjörg Kjeld var svo ekki í neinum vandræðum með að ljá línum sínum áreynslulausa og náttúrulega fjölbreytni og ömmunni fullkomlega eðlilegt líf. Frábærlega gert.

Túlkun Bjarna, elsta sonarins, líður nokkuð fyrir tvísæi sýningarinnar, inn í ritunartímann og núið. Ekki má gefa of mikið upp um drifkrafta Bjarna svo Arnmundi varð ekki mikið úr hlutverkinu. Yngri drengirnir voru á frumsýningu leiknir af Emil Adrian Devaney og Þorsteini Stefánssyni sem fóru vel með þau. Þröstur Leó Gunnarsson var kannski óþarflega látlaus útigangsmaður, en þeim mun spaugilegri sem dularfullur mælingamaður seinna í verkinu.

Smáhlutverk veislugesta voru í öruggum höndum og allt það partí bráðskemmtilegt. Leikhópur Juan Camilo Roman Estrada átti sterka innkomu og þó óvani við að standa á sviði og fara með íslenskan leiktexta væri sýnilegur þá bætti hann í raun einu merkingarlagi ofan á þessa lykilsenu sýningarinnar, frekar en að vera til vansa.

Mér hefur lengi þótt verk af sauðahúsi Hússins vera úrelt börn síns tíma. Absúrdisminn og afleggjarar hans hafa að mínu viti reynst blindgata og þeir fáu höfundar og verk sem hafa staðist tímans tönn úr þeim „skóla“ þrífist þrátt fyrir en ekki vegna efnistakanna og viðfangsefnanna. En tímarnir breytast. Þær ógnir og óvissa sem samtíminn er gegnsýrður af hefur gert óræða upplausn og skáldlegar ógnir slíkra verka gilda aðferð á ný. Húsið reynist verðugt viðfangsefni og sýning Benedikts Erlingssonar þjónar því að mestu af trúmennsku og alltaf af dirfsku.

mánudagur, mars 06, 2017

Þórbergur

Eftir Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, Sveinn Ólaf Gunnarsson og leikhópinn með aðstoð frá Pétri Gunnarssyni. Leikstjórn: Edda Björg Eyjólfsdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson og Bjarni Þór Sigurbjörnsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson. Kóreógrafía: Birna Björnsdóttir. Tónlistarval og hljóðmynd: Stefán Már Magnússon. Leikarar: Birna Rún Eiríksdóttir, Friðrik Friðriksson, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikhópurinn Edda Productions frumsýndi í Tjarnarbíói 23. febrúar 2017, en rýnt í þriðju sýningu miðvikudaginn 1. mars 2017.

Spekingur spjallar

„Við opnum inn í sal eftir eina mínútu eða kannski þrjár,“ kallaði starfsmaður Tjarnarbíós yfir óþreyjufulla gesti meðan við biðum eftir að sýningin Þórbergur hæfist síðastliðið miðvikudagskvöld. Óneitanlega varð mér hugsað til viðfangsefnisins og hans frægu áráttukenndu nákvæmni, sá hann fyrir mér öskureiðan, þyljandi bölbænir á astralplaninu. Kannski var þetta hluti sýningarinnar, svona eftir á að hyggja. Ef svo var: frábært!
Ekki gerði Þórbergur þó vart við sig í salnum eftir að sýningin hófst, að öðru leyti en því að hér er nánast einvörðungu unnið úr orðum hans eins og þau birtast í hans eigin ritum og því sem penni Matthíasar Johannessen og myndavélar Sjónvarpsins fönguðu í frægum viðtölum.
Fyrir utan að Þórbergi brá sjálfum fyrir í öllu sínu kviknakta veldi á baktjaldi í frægu myndskeiði Vilhjálms Knudsen af meistaranum í algleymi Müllersæfinga við fjöruborðið.

Notkun myndefnis og samleikur við það er einn af mörgum þáttum sem bera vitni athyglisverðum tökum Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur á möguleikum leiksviðsins í þessu fyrsta stóra leikstjórnarverkefni sínu. Það sama má segja um hvernig Edda Björg bæði nýtir grunnhugmynd sýningarinnar – viðtal við titilpersónuna – og brýst út úr þeim ramma áreynslulaust þegar á þarf að halda.

Þórbergur gerði ekki vart við sig í salnum, sem leiðir hugann að annarri grundvallarákvörðun sýningarinnar. Friðrik Friðriksson gerir litla sem enga tilraun til að „ná“ Þórbergi. Líkir ekki eftir rödd hans, kækjum eða hreyfingum á neinn heildstæðan hátt. Þetta undirstrikast enn með því að láta Jón Hjartarson í sínu frægasta hlutverki hljóma sem rödd Þórbergs „sjálfs“ á nokkrum stöðum þegar nauðsyn krefur.

Óneitanlega dregur þessi ákvörðun bæði úr áhættu sýningarinnar og skemmtigildi fyrir þá sem enn muna hvernig þessi kynjakvistur var í hátt, eða að minnsta kosti hvernig Jón túlkaði hann í sögufrægri sýningu Leikfélags Reykjavíkur, sem einnig var sjónvarpað. Á móti kemur að kjarni þess Þórbergs sem er okkur aðgengilegur, það sem skapar forvitni um hann og aðdáun á honum: orð hans, rituð og sögð, er einmitt það sem Eddu Björgu og meðhöfundum hennar að sýningunni er svo umhugað um að deila með okkur.

Friðrik vinnur vel út frá þessum forsendum og skapar trúverðugan mann. Fór alveg að þolmörkum með hófstillingu sem aftur gerir dramatíska hápunkta (örvæntingu yfir námsefni Kennaraháskólans og fæðingu dótturinnar) áhrifaríkari. Og aldeilis frábær sem roskinn rithöfundur að setja sig í spor ungbarns. Svo vel gert reyndar að það leiddi hugann að því hve oft slík hamskipti mistakast.

Mótleikarar hans hjálpa mjög við að skerpa og staðsetja persónuna. Þau Sveinn Ólafur Gunnarsson og María Heba Þorkelsdóttir vinna í nokkuð öðrum stíl en Friðrik, greinilega vísvitandi. Teikna með breiðari strikum, vinna með skopfærslu og skýrar kómískar tímasetningar sem uppskáru hlátur ekkert síður en textabundin fyndni aðalpersónunnar.

Þannig hjálpar óöryggi þáttastjórnandans í meðförum Sveins Ólafs við að gefa tilfinningu fyrir sérvisku og uppátækjasemi Þórbergs, og aðdáun og virðing sem braust gegnum stressað viðmótið auðveldar okkur að trúa á snilligáfu skáldsins. María Heba býr til kostulega týpu sem undirstrikar frægð og vinsældir Þórbergs með því að vilja í senn baða sig í henni og eigna sér hluta heiðursins af henni, en draga líka stöðugt athygli að eigin verðleikum eins og þeir speglast í aðdáun annarra. Hvort þetta er fyllilega sanngjarnt gagnvart fyrirmyndinni er ég ekki sannfærður um, en þjónar sýningunni og gladdi gesti. Samleikur þeirra Friðriks er verulega vel útfærður og spennandi og nær að brúa leikstílsbilið á sannfærandi hátt.

Birna Rún Eiríksdóttir er svo Sóla; ástkona, barnsmóðir og dramatísk miðja. Birna Rún hefur úr litlu að moða öðru en nærveru sinni en nýtur sín ágætlega á sviðinu. Þó má segja að sá þráður – Þórbergur og ástin sem ekki varð hlutskipti hans – sé helsta lím sýningarinnar. Hann verður hins vegar ekki nógu skýr eða þéttur til að gefa henni sannfærandi dramatísk form, sem virðist hafa verið ætlunin.

Efnistökin, að sækja textann svona einarðlega í birtan texta Þórbergs, setja höfundunum skýrar skorður. Sennilega óhjákvæmilegt en óneitanlega takmarkandi. Úr verður svipmynd af hugarheimi en framvindan víkur.

Hugmyndaheimurinn og orðsnilldin er svo vitaskuld nóg til að hafa ofan af fyrir áhorfendum eina kvöldstund, jafnvel þótt pólitíkinni sé vandlega haldið utan við, andatrúnni og sönnunarsögum um líf eftir dauðann stillt í ýtrasta hóf og látið nægja að nota esperantó sem eldsneyti í einn ágætan brandara. Fyrir þetta allt er ég reyndar þakklátur. Ýmsir eftirminnilegir hápunktar úr skrifum Þórbergs eru hér: óléttusagan, draumarnir um frönsku skúturnar, hörmungarnar í landafræðistaglinu í Kennaraháskólanum, náttúrustemningin úr Bréfi til Láru sem endar með búksorgum svo varð hneyksli. Og svo skemmtilegheit úr viðtölum Matthíasar Johannessen: fyrirlitningin á íþróttum og áhugaleysi um tónlist. Það undirstrikar svo hinar kitlandi mótsagnir í persónuleika Þórbergs að einn hápunkta sýningarinnar er þegar Magnús spjallstjórandi lokkar höfundinn til að syngja með sér það dásamlega kvæði „Það sem enginn veit“, þar sem fínlegur samleikur Friðriks og Sveins Ólafs blómstrar. Umfram allt hlustum við á Þórberg boða mikilvægi þess að rækta líkamann, leita sannleikans og þroska andann. Fallegar hugsanir, óaðfinnanlega orðaðar og vel fluttar.

Það er ekki vel gott að átta sig á hverjum sýningin Þórbergur er ætluð. Hvort hún standi nógu nærri fyrirmyndinni til að fullnægja heitum aðdáendum og hvort hún sé nægilega föst í sér til að virka sem kynning á meistaranum og ólíkindatólinu. Sýningin líður nokkuð fyrir óskýra stefnu handritsins. En textinn er kostulegur, samleikurinn nákvæmur, lögnin úthugsuð og vel haldið utan um sviðsvinnuna. Fyrir vikið verður Þórbergur aldrei minna en skemmtilegur.

mánudagur, febrúar 13, 2017

MannsröddinTónlist eftir Francis Poulenc. Texti eftir Jean Cocteau. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn og leikgerð: Brynhildur Guðjónsdóttir. Tónlistarstjóri: Irene Kudela. Búningar og leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Myndband: Elmar Þórarinsson. Flytjendur: Auður Gunnarsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir. Íslenska óperan frumsýndi í Kaldalóni Hörpu fimmtudaginn 9. febrúar 2017.

Tvær raddir, einn söngur

Þó uppátækjasamir leikstjórar og leikmyndahönnuðir með fjarstæðukenndar hugmyndir hafi mikið til lagt undir sig óperuhús heimsins hafa verkin sjálf að mestu fengið að standa óbrjáluð. Þar vinnur með tónlistinni sú sögulega hending að í Evrópu þróaðist aðferð við að skrifa hana niður sem tekur af næstum öll tvímæli um hvernig hún skuli hljóma. Einnig leikur hefð hér stórt hlutverk, og fyrr á öldum skirrðust listamenn ekkert við að laga verkin að smekk tíðarandans. Ekki lengur. Enda þótti Steinunni Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra þörf á því að kalla leikstjóra og aðlögunarhöfund Mannsraddarinnar, Brynhildi Guðjónsdóttur, á svið í upphafi sýningarinnar til að gera grein fyrir gjörðum sínum. Óþarfi er að taka fram að frumsýningargestir Þjóðleikhússins hefðu orðið forviða hefði Gísli Örn Garðarsson stigið á svið til að útskýra og réttlæta sínar umfangsmiklu breytingar á handriti Óþellós áður en tjaldið var dregið frá um jólin. Brynhildi mæltist vel, ljósin dofnuðu og leikurinn hófst.

Eintal Jean Cocteau frá 1928 væri trúlega löngu gleymt ef vinur hans, tónskáldið Francis Poulenc, hefði ekki tónsett það þrjátíu árum síðar. Þetta er nú hvorki rismikill né djúpur skáldskapur og það tæknilega nýjabrum að láta það hverfast um símtal er löngu fölnað og jafnvel orðið skemmtilega gamaldags í okkar þráðlausu veröld. Hin nafnlausa kona, Elle í íslenska textanum, sem kveður elskhuga sinn til fimm ára þegar hann hringir eftir fötunum sínum á leið í hjónaband og brúðkaupsferð með annarri konu, er engan veginn nógu áhugaverð persóna, svona sögu- og samhengislaus, ekkert nema söknuðurinn og að lokum örvæntingin. Á sama tíma ríkir ískrandi hversdagsleiki í textanum, ekkert skáldlegt flug eða snjöll sjálfskoðun.

Tónlist Poulenc kemur með skáldskapinn inn í jöfnuna. Tónmálið er þokkafullt og ákaflega „franskt“, með hæfilegu jarðsambandi í tóntegundum fortíðarinnar til að gera það bærilegt fyrir óinnvígða, en jafnframt frjálst og brotakennt að hætti tímans. Ekki endilega skemmtilegasta eða eftirminnilegasta tónlist síðustu aldar, en góð til síns brúks. Það verður samt að segjast að með því að klæða látlausan texta Cocteau í þennan viðhafnarbúning er búið að þrengja túlkunarmöguleika hans ákaflega. Tónlistin jaðarsetur hversdagsleikann, gefur öllu upphafinn og fjarlægan blæ og hitar jafnframt hressilega undir tilfinningapottinum, jafnvel umfram það sem innistæða er fyrir.

Þarna kemur endurgerð og nálgun Brynhildar til bjargar. Með því að flétta saman tónsetningu Poulenc og flutning á upprunalegu eintali Cocteau í sannfærandi þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar vinnst ýmislegt.

Eitt er nú bara það vandamál að óperur eru, illu heilli, alla jafnan fluttar á frummálum sem kallar á einhverskonar tæknilausn til að koma áheyrendum í samband við þann hluta innihaldsins sem leynist í textanum. Annar grundvallarkostur er síðan að geta nálgast textann úr tveimur áttum samtímis og brjótast þannig úr viðjum túlkunar Poulenc á dramanu. Hið lágstemmda og jafnvel íróníska í afstöðu konunnar sem fær ekki hljómgrunn í tónlistinni (og verður heldur ekki numið án frönskukunnáttu) fær sinn talsmann í leikkonunni. Það er ekki víst að það hafi verið meiningin, en upplifunin verður að hin syngjandi Elle lýsi innri ólgu þeirrar talandi, tilfinningunum sem aðeins brjótast út í textanum endrum og eins, innan um hversdagslegri hluti, undanbrögð og veikburða valdatafl.

Fyrir einhvern eins og mig, sem aðeins þekkti verkið sem óperu, var það nánast opinberun að sjá hina talandi Elle vera svona bratta og kokhrausta í upphafi verks í meðförum Elvu Óskar Ólafsdóttur. Og hve lengi hún hélt „kúlinu“ og náði því iðulega aftur milli þess sem tilfinningarnar náðu tökum sínum á henni. Það kom líka á óvart hvað möguleikar til fyndni eru margir í þessari sorglegu og fyrirsjáanlegu sögu. Elva Ósk fór frábærlega með textann, náði lygilega miklum safa út úr honum og myndaði spennandi andstæðu við sitt syngjandi sjálf. Það sem tapast við að hafa Elle svona yfirvegaða er trúverðugleiki þess að hún hafi nokkrum klukkustundum áður verið hér um bil búin að stytta sér aldur. En þar kemur tilfinningaólga tónlistarinnar að góðum notum.

Auður Gunnarsdóttir þykir mér með okkar allra bestu og raddfegurstu söngkonum, þó mig skorti tækniþekkingu til að rökstyðja þá tilfinningu af neinu viti. Ég er líka viss um að það er ekki sú vanþekking sem veldur því að ég hef ekkert út á frammistöðu hennar eða túlkun að setja, heldur hitt að þetta var allt framúrskarandi fallega gert. Samleikur þeirra tveggja var jafnframt nákvæmur og vel útfærður, bæði þegar þær voru hvor í sínum heimi og þá sjaldan að línur þeirra víxluðust eða runnu saman.

Það sem píanóumritunin glatar af litbrigðum upprunalega hljómsveitarbúningsins kemur til baka í lífrænna samspili söngvara og meðleikara og betra styrkleikajafnvægis. Eva Þyri Hilmarsdóttir virtist mér leysa sitt krefjandi hlutverk óaðfinnanlega. Umgjörð Helgu I. Stefánsdóttur bauð upp á ýmsa möguleika þó einföld sé og voru þeir vel nýttir af leikstjóra og flytjendum.

Mannsröddin er ekki merkilegt verk. Sá grunur læðist að manni að Íslenska óperan væri ekki að ráðast í sína aðra uppfærslu þess nema vegna þess að það krefst lítillar umgjarðar og fámennrar áhafnar. Birtingarmynd þess í vel útfærðri og snjallri útfærslu Brynhildar Guðjónsdóttur og hennar fólks blæs fersku lífi í verkið, bætir við víddum og möguleikum á merkingu sem hvorki leikritið né óperan einsömul bjóða upp á. Og gefa unnendum tón- og leiklistar kost á að sjá þrjár afburðalistakonur í návígi.

þriðjudagur, janúar 17, 2017

Gísli á Uppsölum

Eftir Elfar Loga Hannesson og Þröst Leó Gunnarsson. Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Tónlist: Svavar Knútur Kristinsson. Útlit: Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Búningur: þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Kómedíuleikhúsið frumsýndi í Selárdal 25. september 2016 og hefur sýnt víða um land á haustmánuðum. Rýnt í sýningu í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu 15. janúar 2017.

Síðasti gæinn í dalnum


Það er ekki á hverjum degi sem okkur menningarrýnum í einangruninni hér í „fjölsinninu“ gefst færi að á sjá til listamanna landsbyggðarinnar. Þess vegna er ómögulegt annað en að byrja á að tala aðeins um Elfar Loga Hannesson.

Eins og kemur fram í fallegri og efnisríkri leikskrá er Gísli á Uppsölum fertugasta sýning Kómedíuleikhússins sem Elfar Logi stofnaði 1997, þá nýútskrifaður úr The Commedia School í Kaupmannahöfn. Einleikurinn er grunnform Kómedíuleikhússins og Vestfirðir varnarþing þess. Það sama má segja um annað hugarfóstur Elfars Loga, einleikjahátíðina Act Alone, langlífustu atvinnumannaleiklistarhátíð Íslandssögunnar. Þá er Elfar Logi auðvitað nærtækur fyrir áhugaleikfélög Vestfjarðakjálkans þegar finna þarf leikstjóra eða námskeiðshaldara. Hann er höfundur kennslubókar í leiklist, sögu hins gamla og merka leikfélags á Bíldudal, auk fjölmargra leikhandrita. Framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar er næsta einstakt og verðskuldar alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er.

Nafntogaðir Vestfirðingar eru áberandi rauður þráður í verkefnavali Kómedíuleikhússins og Gísli Oktavíus Gíslason er verðug viðbót við þann fríða flokk. Einbúinn sérlundaði sem varð heimilisvinur þjóðarinnar jólin 1981 fyrir milligöngu Ómars Ragnarssonar hreyfir við svo mörgum stöðvum í tilfinningalífinu. Þrautseigja og nægjusemi. Innsýn í lifnaðarhætti forfeðranna. Yfirvegun andspænis grimmu hlutskipti. Stríðnin og eineltið, sem seinna varð opinbert að væri ein af rótum örlaga Gísla, hefur sennilega dregið úr ástundun þeirrar íþróttar að herma eftir talanda sjálfsþurftarbóndans í Selárdal. En um tíma var hann sennilega einungis eftirbátur Nóbelsskáldsins sem viðfang þess alþýðusports.

Við getum byrjað á talandanum. Það er nú aldeilis listræn áskorun. Þetta höfuðeinkenni Gísla (ásamt hattinum reyndar, sem er hér í öllu sínu veldi) verður að fá sitt pláss í sviðsljósinu. Það er líka ljóst að við nútímamenn höfum ekki þolrif til að brjótast inn í talandann, svo ekki þýðir að segja söguna með hreinræktaðri stælingu. Leið Elfars Loga og Þrastar Leós Gunnarssonar, leikstjóra og meðhöfundar, er að láta sérkennin birtast og hverfa í takt við umræðuefnið og innri tíma verksins. Í upphafi og enda sýningar heyrum við hreinræktaða og vel útfærða eftirlíkingu, sem annars heyrist hvað skýrast í snjöllum (og launfyndnum) samleiksatriðum við upptökur af rödd Ómars Ragnarssonar úr Stiklum. Annars eru einkennin víkjandi og hverfa nánast alveg í atriðum þar sem Gísli er nálægt því að láta drauma sína rætast. Þetta heppnast fullkomlega; við fáum aðgang að sögunni og erum þess jafnframt fullviss að það er einmitt sá Gísli sem við þekkjum sem sagan fjallar um.

Annað sem rétt er að staldra við er yfirvegaður og úthugsaður samleikur Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni. Textinn sjálfur dregur aftur á móti fram biturð og vonbrigði skýrar en flest annað aðgengilegt efni um Gísla á Uppsölum. Undanskildir eru kaflar þar sem móðir hans kemur við sögu, og aftur er það ekki síst samleikur hans við myndina af henni sem gefur tilfinningalegu dýptina. Það má spyrja sig hvers vegna myndin ratar ekki ofan í ferðatöskuna sem Gísli er að pakka í fyrir sína hinstu ferð á sjúkrahúsið á Patreksfirði, en slíkt er öryggið í leikmunavinnunni að áhorfandinn gefur sér að þar liggi meining að baki frekar en yfirsjón.

Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Texti sýningarinnar er sagður vera að langmestu leyti orðréttur eða því sem næst upp úr skrifum Gísla sjálfs. Bernskur, afvopnandi, blátt áfram og bætir upp með einlægni það sem skortir á í skáldlegum tilþrifum eða greinandi dýpt. Reyndar vakti þessi einfaldi texti, einsemdin, endurtekningin, kyrrstaðan, örvæntingin undir, bjástrið, og svo hin næstum súrrealísku samtöl við segulbandið, upp hugrenningatengsl við Samuel Beckett. Leiðirnar að dýptinni eru margvíslegar.

Leikmynd er einföld en þénug og leikmunir sannfærandi og vel valdir. Búningur Gísla sérlega fallegur og réttur. Tónlistin er viðeigandi og áhrifarík hjá Svavari Knúti, sérstaklega for- og eftirspilið á harmóníum, hljóðfæri söguhetjunnar.

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera.

Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.