fimmtudagur, október 10, 2019

Sex í sveit

Eftir Marc Camoletti. Íslenskun: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson. Leikmynd: Petr Hlousek. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir: Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Leikarar: Haraldur Ari Stefánsson, Jörundur Ragnarsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 5. október 2019.

Þar sem enginn þekkir mann


Það er alltaf gaman að horfa á berskjaldað fólk reyna að fela hvað það er ómerkilegt, gráðugt og gratt. Nákvæmlega hvers vegna það er svo er kannski áhugaverð heimspekileg ráðgáta, en þá fer maður að hugsa um froskinn hans Marks Twain sem er eins og húmor og deyr við krufningu. Það viljum við ekki. Gefum okkur bara að farsar virka vegna þess að við erum flest á því að þar sé lýst óförum sem almennt er siðferðilega lofsvert að hæðast og hlæja að.

Og þrítug breiðgötukómedía Marcs Camoletti virkar. Sérstaklega fram að hléi, loftið sígur ískyggilega úr blöðrunni eftir það. Sökin liggur hjá höfundinum og áreynsla leikstjóra og áhafnar við að dæla nýju helíumi í belginn kemur að mestu fyrir ekki. Gerir jafnvel illt verra; reynsla er vandmeðfarin í ærslaleikjum, þótt ótrúlegt megi virðast. En morðfyndin eru tilþrifin fyrir hlé, meðan verið er að byggja upp blekkingaleiki félaganna Benedikts og Ragnars sem báðir ætla að fá eins mikið utankvótakynlíf út úr sumarbústaðahelginni fyrir norðan og mögulegt er. Benedikt með módelviðhaldinu sínu, henni Sóleyju, en Ragnar með Þórunni, konu Benedikts. Eða frekar á hinn veginn, Þórunn er við stjórnvölinn í því framhjáhaldi. Camoletti kann sitt fag og bætir lengst af eldsneyti á óreiðubálið af reglusemi hins þrautþjálfaða kyndara. Þá er gaman. Mikil ósköp.

Góð hugmynd hjá Bergi Þór Ingólfssyni leikstjóra og/eða þýðandanum Gísla Rúnari Jónssyni að tengja nýjustu tækni við gamla gangverkið. Auðvitað eru Þórunn og Benedikt með sama hringitón í gemsunum, og auðvitað hafa þau ekki nema rétt svo stjórn á Google Home kerfinu sínu. Mikið vill auðvitað meira og það hefði verið gaman að flétta tæknina enn þéttar inn í atburðakeðjuna. Hefði ekki verið gaman ef þetta væri Apple-stúlkan Siri og hún væri fyrir farsakennda tilviljun nafna bæði módelviðhaldsins og veisluþjónustustúlkunnar sem verður aðalskálkaskjól karlanna? Sigurverk vel smíðaðs farsa þolir samt ekki nema visst mikið af svona sandkornum frá túlkendum sínum. Stóri hlutanetsfarsinn er ósaminn enn, en möguleikarnir eru ótvíræðir.

Groddalegur galskapur ræður lengst af för í sýningunni, jafnvel umfram meðallag og stundum á kostnað fínni og nákvæmari tilþrifa í slapstick-i. Á hinn bóginn tekst Bergi að stilla sig um að skrúfa tryllinginn í botn áður en atburðirnir gefa tilefni til, sem hafa verið landlæg lýti á farsasýningum hér undanfarið. Að þessu sinni er spennustig sýningarinnar í takt við forsendur verksins. Og hálfu fyndnari fyrir vikið.

Mest hvílir það á leikhópnum, auðvitað, sem skilar sínu með fullum sóma. Týpugerðin ræður þar ofar hverri kröfu um þrívídd og dýpt. Fyrir vikið verðum við bara að trúa því að valkyrjan Þórunn, eins og hún verður í kröftugum meðförum Sólveigar Guðmundsdóttur, skuli velja sér til fylgilags jafn drengjalegan og spaugilega atkvæðalítinn meðreiðarsvein og Ragnar verður hjá Sigurði Þór Óskarssyni. Auðveldara er að trúa því að hún sé orðin leið á eiginmanninum, þessari hrokafullu pempíu sem Jörundur Ragnarsson hefur greinilega unun af að skapa og sýna í allri sinni lítilmótlegu dýrð. Við fáum svo sem enga tilfinningu fyrir hvernig hjónabandið er, eða var áður en þau ákváðu hvort í sínu lagi að leggja það í rúst. Eins hjálpa hvorki handritið né túlkun leikstjóra og leikenda okkur að skilja hverskonar tengsl eru á milli Benedikts og Ragnars. Hvort þau séu náin eða losaraleg, hver afstaða þeirra er, hvor er almennt séð í bílstjórasætinu. Eins er ekki gott að segja hvort þessi óskýrleiki kemur að sök svo einhverju nemi.

Það er einungis þegar kemur að þessum þremur sem er yfirleitt hægt að velta fyrir sér hvötum og forsendum. Hin þrjú eru fyrst og fremst leiksoppar atburðarásarinnar. Túlkendum þeirra gefast fyrir vikið mun fleiri færi á að láta eingöngu stjórnast af því sem líklegt er til að vekja hlátur, og fengu hann ómældan úr salnum á frumsýningu. Alla vega konunum, Haraldur Ari Stefánsson fær úr sýnu minnstu að moða og er auk þess nokkuð fjarri því að vekja trúverðuga ógn sem ofbeldissinnaður og afbrýðisamur þöngulhausinn sem honum er falið að leika.

Eiginkona hans, kokkurinn Sólveig, er leikin af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur af feikilegu fjöri. Það er óhætt að segja að Katrín Halldóra láti engum steinum óvelt í leit að skoplegum töktum, viðbrögðum, líkamstjáningu og ekki síst talanda. Sjaldan hefur verið farið eins langt yfir strikið í leikhúsnorðlensku og hér, ekkert l eða n var látið óraddað, harkan í lokhljóðunum hækkuð upp í ellefu og syngjandinn ómar frjálst. Ég ráðlegg viðkvæmum sveitungum mínum að norðan sem mæta á sýninguna að brynja sig. Þetta er glæst frammistaða.

Það sama má segja um Völu Kristínu Eiríksdóttur sem bætir stásspíunni Sóleyju í ljóskusafnið sitt. Þær eru samt hver með sínu sniði. Þessi er til dæmis sjálfsörugg og klók þó hún sé sennilega dálítið grunn eins og hefðin krefst. Stundum virkar hún sjálfsörugg af því hún er klók en oftar samt kemur hún fyrir sem klók af því hún er sjálfsörugg. Og grunn. Drepfyndin alveg í hvert sinn sem því verður við komið.

Sumarhúsið sem Petr Hloušek hefur hannað fyrir hjónin er þénugt augnayndi. Smekkfólk, þau Þórunn og Benedikt. Svo eru þau lita- og tilraunaglöð í fatavali, samkvæmt túlkun Stefaníu Adólfsdóttur. Aðrar persónur eru líka glæsilega gallaðar af henni. Lýsing Þórðar Orra Péturssonar lýtalaus að ég best gat séð og ljósastýringarvirknin í Google Home mun samstarfsfúsari en tónlistarvalið.

Hér er býsna vel að verki staðið sem sagt. En heildaráhrifin líða fyrir veikan seinni hluta þar sem áreynslan við að halda uppi gleðinni á heimstíminu skilar ekki sömu samfelldu hláturbylgjunum og glumdu í þeim fyrri.föstudagur, október 04, 2019

Húh!

Eftir leikhópinn RaTaTam. Leikstjórn: Charlotte Bøving. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hljóðmynd og tónlist: Helgi Svavar Helgason og RaTaTam. Myndbönd: Aron Martin Ásgerðarson. Aðstoðarleikstjóri og dramatúrg: Stefán Ingvar Vigfússon. Leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnúsdóttir. RaTaTam frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 27. september 2019. 
x

Sjáðu særða naflann minn


Við erum öll að glíma við sömu grundvallarvesenin, er það ekki? Leitum að hamingju og samastað í tilverunni. Ást og trausti. Að komast til fulls þroska. Að verða „besta útgáfan af sjálfum okkur“ eins og það heitir á alþjóðamáli sjálfshjálpariðnaðarins, en sú hroðalega klisja glymur nokkrum sinnum í sýningu leikhópsins RaTaTam í Borgarleikhúsinu sem þau kalla Húh! Sennilega frekar til að halda áfram með nafnalínuna sniðugu en að efnið beinlínis kalli á þetta heiti. Fyrri sýningar hópsins hétu Suss! og Ahhh… Þetta er góð lína og vel hægt að sjá fyrir sér að þau haldi sig á henni. 

Listin að lukkast er til umfjöllunar hjá þeim Albert Halldórssyni, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Guðrúnu Bjarnadóttur, Halldóru Rut Baldursdóttur og Hildi Magnúsdóttur, og leiðtoga hópsins, Charlotte Bøving. Þetta er sameiginlegt keppikefli okkar og því rökrétt að þau sæki einfaldlega í eigin reynslubrunn eftir hráefni til að rannsaka boðhlaupið sem við erum í með keflið. Hvernig við erum samt fyrst og fremst að berjast við okkur sjálf, en náum engu að síður að hrasa, villast og þjófstarta stöðugt, jafnvel þótt enginn sé endilega að bregða fyrir okkur fæti eða afvegaleiða. Stundum samt. 

Það eru sem sagt þeirra eigin sögur sem þau miðla og vinna með í þessari sýningu. Það hefur kosti og galla eins og annað. Einn gallinn er auðvitað ekki þeim að kenna: það eru svolítið margir að gera þetta. Frumsköpunarverkefni frjálsra leikhópa eru fleiri og fleiri unnin úr heimafengnum efnivið, hvort sem það er hópvinna eða einstaklingsframtak. Hitt er síðan næstum óhjákvæmilegt: það er ekki sjálfgefið að efniviðurinn sem stendur til boða sé til þess fallinn að bera uppi leiksýningu eða kveikja dramatískan neista. Þessa sjást nokkur merki í Húh! Það er ljótt að segja það, en lífsraunir fimmmenninganna, kulnun og krísur, eru ekki allar „í frásögur færandi“ á þessum vettvangi. Ekki spennandi í sjálfu sér þó að þær geti nýst sem frjór upphafspunktur sköpunar og standi að mörgu leyti fyrir algeng vandræði nútímamannsins; frammistöðukvíða, tengslaleysi, ráðvillu í baráttu við hraða og kröfur nútímalífsins. Og þá komum við að síðustu vandkvæðunum: sýningum sem unnar eru á þennan hátt, og Húh! þar meðtalin, hættir til að stranda í ferlinu. Bræðast ekki fyllilega saman á fullnægjandi listrænan hátt. Eða, sem er næstum algild regla, að það sem á borð er borið virkar eins og sýnishorn af sköpunarvinnunni frekar en tilbúin „afurð“. Eins og innlit í æfingarýmið. 

Á móti kemur svo ferskleikinn og fjörið sem einmitt þessi nálgun gefur. Þannig eru sum allra eftirminnilegustu atriðum Húh! þau „æfingalegustu“. Morðfyndin örvæntingararía Alberts yfir hvernig ferillinn hefur þróast. Æðiskast Guðmundar út í sveitina sem ól hann og hann er búinn að lofsyngja alla sýninguna. Hildur að gera upp málin við ástina og traustið með hjálp trompetsins. Halldóra að rifja upp skelfilegar bernskuminningar gegnum hækkandi svamphaug. Guðrún í górillubúningnum og særður ásökunarsvipurinn á henni þegar hún líkir sér við Neanderdalsmann og minnir okkur á að við útrýmdum þessum frændum hennar. Og okkar. Næstum. 

En sem heild nær sýningin ekki alveg vopnum sínum. Hlutirnir mynda ekki jafn sterka og sláandi heild og áhorfandanum finnst að standi til að bjóða honum. Að hluta til liggur þetta í eðli formsins; sundurleysi og sundurgerð er dagskipunin. En kannski er skýringanna líka að leita í óstöðugri blöndu gamans og alvöru. Sýningin er á köflum alveg bráðfyndin, og það er ljóst að fjör og fyndni er í aðalhlutverki í efnistökunum. Hér er þungur efniviður skoðaður á grínaktugan hátt en gert um leið ráð fyrir tilfinningalegri og vitsmunalegri svörun áhorfenda. Þetta heppnast oft og gerir það á mörgum köflum í Húh! En ef sýningin er skoðuð í heild verður samruni gleði og harms ekki alveg sannfærandi. 

Eitt sem samsköpun úr eigin reynslu gefur flytjendunum er færi á að blómstra á eðlilegan hátt á sviðinu. Þau eru jú mætt til leiks eins og þau eru klædd. Það heppnast fullkomlega hér. Öll með sinn ríkulega skammt af sviðssjarma og áreynsluleysi sem vafalaust hefur þurft að vinna fyrir, svo nákomið sem efnið er þeim. Nokkuð sem Charlotte er örugglega kjörin til að gera. Við erum til í þetta með þeim. Umgjörð, og þó sérstaklega búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur, styðja vel við þau. Samtíningsbragurinn á fatnaðinum virkar ekki eins og ódýr lausn fátæka leikhússins, sem hann vafalaust er öðrum þræði, heldur rökrétt leið. Aðrir umgjarðarþættir; lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar, myndband Arons Martins Ásgerðarsonar og hljóðmynd Helga Svavars Helgasonar sömuleiðis. Tónlistarflutningur leikhópsins bætir stórri vídd í sýninguna. Lokalagið var flott. 

Sumt af efninu í Húh! er bitastæðara en annað. Óvenjulegustu sögurnar og vinklarnir hefðu næstum getað borið uppi heila sýningu, eða allavega dugað sem fræ að fullbúinni og mun heildstæðari kvöldstund. Ég get nefnt samband manns og sveitar sem dæmi. En að sumu leyti eru það hversdagslegustu raunirnar, minnst leikvænu efnisþættirnir, sem eru kjarni erindisins. Hvernig lífið er að leika okkur öll. En á móti kemur að þær eru ekki bitastæðar eins og þær óvenjulegu. Það er vandratað í þessum kima leiklistarinnar og sýningin ber þess merki, þó vel megi njóta samvistanna við þau Albert, Guðmund, Guðrúnu, Halldóru og Hildi, og þekkjast boðið um að hlæja að óförum þeirra.

miðvikudagur, september 25, 2019

Ör

Eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Leikgervi: Valdís Karen Smáradóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Myndband: Elmar Þórarinsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Tónlist: Damien Rice. Leikarar: Baldur Tausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hildur Vala Baldursdóttir og
Pálmi Gestsson. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 19. september 2019.

Kyrrlátt kvöld í krísuvík

Leikgerðir vinsælla skáldsagna hafa gegnt lykilhlutverki í starfsemi Þjóðleikhússins frá því Íslandsklukka Halldórs og Lárusar varð fyrsta frumflutta verkið á sviði þess. Frá þeim sjónarhóli er við hæfi hvað aðlaganir eru fyrirferðarmiklar á þessu afmælisleikári. En þar er ekki allt sem sýnist. Samband leikritsins sem var frumflutt í Kassanum síðastliðið fimmtudagskvöld við samnefnda verðlaunaskáldsögu er flóknara og óvenjulegra. Verkið byrjaði sem uppkast að leikriti, tók síðan á sig skáldsagnarmynd en snýr nú aftur til upprunans. Vafalaust hefur það ummyndast á leiðinni í ljósi þess sem persónurnar opinberuðu fyrir Auði Övu Ólafsdóttur þegar hún lagði með þær í hið öllu viðameira ferðalag sem sagt er frá í skáldsögunni.

Reyndar má alveg furða sig á hvað leikritið virkar heilsteypt og áhrifaríkt þegar skoðað er að sýningu lokinni hvaða efnisþætti skáldsögunnar er ekki að finna í sviðsverkinu. Það er allnokkur listi og á honum er margt það bitastæðasta. Margt að því sem ætla mætti að hefði kveikt í áhugasömum leikgerendum, fyrir utan miðasöluforgjöfina sem verðlaun og vinsældir skila. Hér er ekkert Hotel Silence, engin stríðshrjáð borg í ónefndu landi með allt í lamasessi og jarðsprengjur um alla skógarlundi. Ekkert barn með áfallastreituröskun til að ná til Jónasar, sem heldur á þennan afskekkta stað til að ljúka jarðvist sinni án þess að valda ástvinum sínum meiri ama en óhjákvæmilegt er. Og síðast en ekki síst: engin smávægileg en ómissandi viðvik sem gera manninn með borvélina að lykilmanni í bænum. Sem aftur gegnir lykilhlutverki í að fá hann ofan af áformunum um að stytta sér aldur. Að endurheimta merkingu og tilgang.

Ekkert af þessu er að finna í handriti Auðar Övu sem liggur til grundvallar uppfærslu Ólafs Egils Egilssonar og hans fólks. Nema þetta síðastnefnda reyndar. Þetta er sagan um niðurbrot Jónasar Ebenesers og endurheimt hans á lífi sínu. En allt gerist þetta á heimavelli. Á höfuðborgarsvæðinu, aðallega heima hjá Jónasi, en líka á elliheimilinu þar sem móðir hans dvelur í umsjá hinnar aðfluttu Maí, sem hefur borið hina þungu bagga stríðsins alla leið til Íslands, en er ekki með þá á niðurníddu hóteli frænda síns ásamt syni og bróður eins og í bókinni.

Vitaskuld gerist það aðallega í huga og sál aðalpersónunnar. Þetta er ekki plottsins verk, og varla einu sinni verk um samskipti, hvað þá samfélag. Ör er skáldleg hugleiðing um ferðalag hversdagsmanns að landamærum lífs og dauða. Því verður varla á móti mælt. Þess einkennilegra hvað Ör er skemmtileg sýning í sínu lágstemmda látleysi.

Ólafi Agli er held ég sérlega lagið að fínstilla yfirbragð þess sem hann fæst við, og miða við afdráttarlausa listræna stefnu sem hann vill taka. Það er mjög auðvelt að ímynda sér mun hærra orku- og dramastig í meðferð á þessum texta. Má jafnvel halda því fram að slík nálgun hefði verið rökrétt, ákvörðun sem tæki sig sjálf. Þess augljósara er hvað mótun efnisins er meðvituð. Og skilar ríkulegum árangri.

En veldur hver á heldur. Frammistaða leikhópsins er það sem allt hvílir á. Þar verður fyrsta að nefna Baldur Trausta Hreinsson og Pálma Gestsson, en samleikssenur þeirra eru hreinn unaður og kjarni sýningarinnar. Hin ísmeygilega greining Auðar Övu á karlmennsku hefði ekki getað komist í betri hendur. Baldur Trausti er algerlega sannfærandi sem hinn trausti en umkomulausi Jónas Ebeneser, því nákomnari áhorfendanum fyrir það hve mikil friðsæld og natúralísk nákvæmni einkennir leikinn. Karlarnir hans Pálma eru sömuleiðis einstaklega skýrt dregnir en án ódýrra stæla, auðvitað fremstur þeirra nágranninn sem er kannski með fleira á hreinu en Jónas á móti, en kannski einmitt ekki.

Konurnar í kringum Jónas eru dregnar umtalsvert færri dráttum, bæði í bókinni, þar sem við kynnumst þeim með augum aðalsöguhetjunnar sem gengur í verk sögumannsins eins og önnur viðvik, og í leikritinu, þar sem sálarástand Jónasar skiptir okkur öllu máli. Guðrún Snæfríður Gísladóttir er einn okkar helsti sérfræðingur í skrítnum kerlingum þessi árin, svo hin talnaglögga og stríðsfróða Stella, móðir Jónasar, er í öruggum höndum. Eftir smá framsagnarbasl í fyrsta atriði sínu óx Hildur Vala Baldursdóttir fallega inn í hlutverk Vatnalilju, dótturinnar sem Jónasi finnst hann hafa glatað. Aftur er áreynsluleysið í samleik það sem kemur upp í hugann. Birgitta Birgisdóttir er síðan Maí, sem leysir Jónas úr álögum sínum með því að deila með honum sínum eigin sorgum. Það er kannski óvæntasta og mest afgerandi listræn ákvörðun sýningarinnar að gefa Maí fullt og hreimlaust vald á íslensku, og láta hana vera algerlega komna yfir martraðir fortíðarinnar, ef marka má hvernig hún segir sögu sína. Ég er ekki fullkomlega sannfærður um að þetta hafi verið rétti túlkunarvalkosturinn en Birgitta fór vel með hann.

Sá frægi maður Damien Rice samdi tónlist við verkið, en það er ekki hans framlag sem situr eftir úr hljóðmyndinni, heldur sniðug notkun þekktra laga, stundum kómísk en stundum ekki. Að ógleymdri eitursnjallri notkun á föstum útvarpsliðum; morgunleikfimi og dánarfregnum.

Búningar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur voru í sannfærandi raunsæisstíl, og leikmynd hennar studdi vel við flæðandi sviðsetninguna þar sem ólíkir þættir veruleika verksins runnu hver inn í annan á fumlausan hátt. Lausn þar sem áherslan var greinilega á virkni fremur en raunsæislegan bakgrunn eða túlkun efnisins. Ég kann vel við þannig leikmyndir. Lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar vann vel með veggjum Sigríðar Sunnu.

Leiksýningin Ör er fágað verk með þunga undiröldu sem haldið er undir yfirborðinu allt til enda. Hér er traust borið til efnisins, til textans, til nostursamlegs raunsæis í leik. Það er gleðilegt þegar einmitt svona vinnubrögð skila þessum árangri.

þriðjudagur, september 17, 2019

Independent Party People

Höfundar og flytjendur: Davíð Þór Katrínarson, Jónmundur Grétarsson, Nína Hjálmarsdóttir og Selma Reynisdóttir. Sviðsmynd: Katerina Blahutová. Dramatúrgísk aðstoð: Brogan Davison og Pétur Ármannsson. Tónlist: Sigrún Jónsdóttir. Ljós: Aron Martin Ásgerðarson og Magnús Thorlacius. Búningar: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir. Sviðslistahópurinn Sálufélagar frumsýndi í Tjarnarbíói 21. ágúst 2019.

Sjálfstæða selskapsfólkið

Hvernig er að vera Íslendingur? Hvernig er að vera Íslendingur fyrir þau okkar sem við fyrstu sýn gætu virst ekki tilheyra þeim hópi? Einhvern veginn þannig gætu rannsóknarspurningar Nínu Hjálmarsdóttur og Selmu Reynisdóttur hafa hljómað, og hluti af sjarma – og vanköntum – sýningarinnar Independent Party People er hve auðveldlega þær afvegaleiðast í leit sinni að svörum.

Fjótlega sjá þær að þótt þær séu að eigin sögn með afbrigðum meðvitaðar og fyrir vikið á mörkum þess að teljast fyllilega hvítar þurfi þær liðsauka til að vinna verkefnið og niðurstaðan verður að kalla til þá Davíð Þór Katrínarson og Jónmund Grétarsson til liðs, tvo unga menn með reynslu af sviðslistum og því að vera brúnir Íslendingar. „Brúnn“ er að sögn Davíðs Þórs ásættanleg niðurstaða um hvaða orð yfir litaraft þeirra félaga er minnst stuðandi. Og þá er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við að búa til sýningu.

Samt ekki. Því vinnan strandar í sífellu á vandræðagangi og óþægindum, sem oftar en ekki stafa af ýktri tillitsemi að hætti ungs meðvitaðs nútímafólks. Allur sá vandræðagangur er spaugilegur. Afslöppun, jafnvel kæruleysi, er grunntónn í sýningunni, ásamt með kaldhæðinni fjarlægð á kýlin sem á að stinga á, en líka á ofurmeðvitaða afstöðuna sem á að tryggja að samskiptin gangi smurt og stuði engan. Þegar og hvernig það fer úrskeiðis eru dramatískir hápunktar sýningarinnar. Hvernig Nína slær sjálfa sig út af laginu í langri þulu um dásemdir íslenskrar náttúru þegar hún missir út úr sér orðið „skepna“ um kindina sem Jónmundur er að túlka. Má nokkuð kalla brúnan mann skepnu? Er nokkur ástæða til að hlusta á hann reyna að sannfæra næstum-ekki-hvítu forréttindastúlkurnar í kringum sig um að þetta sé allt í lagi?

Þetta eru flókin mál með anga í allar áttir og það verður að segjast eins og er að sýning fereykisins nær ekki alveg utan um þau. Eitt er að hún er einfaldlega of stutt til að gera öllum efnum sínum skil. Annað er að vinnuaðferð samsköpunar tekur sjálf of mikið pláss í henni. Að hengja sýninguna saman með því að „endurgera“ vinnuna við að búa hana til er alveg gild aðferð en hér nær hún dálítið völdum á kostnað innihalds.

Verst er þó að tvö veigamestu efnin eiga sér eiginlega ekki nothæfa snertipunkta. Annars vegar hlutskipti brúnu Íslendinganna og hins vegar klisjuleg ímynd Íslands eins og hún birtist í markaðssetningu landsins í víðasta skilningi þess orðs. Þessi síðarnefndi þráður er fyrirferðarmestur í sýningunni. Það er miður, enda hafa klisjurnar margsinnis verið hafðar að verðskulduðu háði og spotti, fyrir utan að liggja sérlega vel við höggi. Hið fyrrnefnda fær fyrir vikið ekki fyllilega það pláss sem ætla mætti að hafi staðið til. Óneitanlega er vandræðagangurinn við þau mál samt mesta skemmtipúður sýningarinnar og gaman að sjá fjórmenningana beina spjótunum svona hressilega að sjálfum sér og sinni prúðu en taugaveikluðu og kannski dálítið sjálfhverfu góðmennsku.

Þótt Sálufélagar séu örugglega ekki ríkt leikhús frekar en aðrir sjálfstæðir leikhópar er talsvert mikið lagt í útlit sýningarinnar, ef ekki af efnum þá af hugsun og vinnu. Í sviðsmynd Katerinu Blahutová gefur að líta hvíta heyrúllu, eina af táknmyndum íslensku sveitarinnar, ásamt með klassískum togarakössum sem koma sjávarútveginum að. Í einum þeirra leynist meira að segja bústinn eldislax sem stelur senunni og afvegaleiðir verkið undir lokin. Búningarnir eru líka greinilega þaulhugsaðir og nostursamlega útfærðir af Tönju Huld Levý Guðmundsdóttur. Í þeim fléttast saman, hugmyndalega og bókstaflega, hin klassíska (ef svo mætti segja) lopapeysa og sportgallar níunda áratugarins svo nokkuð sé nefnt. Snjallt, en líka dálítið afvegaleiðandi eins og svo margt í þessari sundurleitu sýningu.

Þær ímyndir og þjóðernishugmyndir sem hópurinn skoðar virka ekki eins og þær séu þeirra eigin, heldur viðteknar klisjur sem enginn skrifar lengur upp á og hefur jafnvel aldrei gert. Trúir einhver ímyndarauglýsingum ferðaþjónustunnar eða gerir sjálfsmynd þeirra að sinni? Það er vissulega sjokkerandi að heyra hið glaðhlakkalega barnalag „tíu litla negrastráka“ með þá Jónmund og Davíð Þór fyrir augunum, en hvenær heyrði einhver það lag síðast öðruvísi en sem vandræðalegt dæmi um úreltar hugmyndir?

Best er sýningin þegar eigin hugmyndir, fordómar, áhyggjur og heimssýn þátttakenda eru skoðuð með kaldhæðinni einlægninni sem er grunntónn hennar. Þá njóta þau Davíð Þór, Jónmundur, Nína og Selma sín best í afslöppuðum sviðssjarma. Þegar athyglin beinist að öðru minnkar slagkrafturinn. Það gerist of oft á þessum stutta tíma.föstudagur, maí 03, 2019

Loddarinn

Eftir Molière. Íslensk þýðing: Hallgrímur Helgason. Leikstjórn: Stefan Metz. Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist og hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Dóra Jóhannsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hilmir Snær Guðnason, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Oddur Júlíusson og Ragnheiður Steindórsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 27. apríl 2019.

Leiðtogi lífsins


Mikið á hann Orgeir gott. Þegar allt er farið fjandans til, fjölskyldan á vonarvöl, rekin burt af heimilinu fyrir sakir heimsku hans og blindu þá standa þau með honum, faðma hann og gráta honum til samlætis í stað þess að hrækja á hann og klóra úr honum augun eins og hann á skilið, ekki síst fyrir þá taumlausu fyrirlitningu sem hann hefur sýnt þeim öllum með ákvörðunum sínum undanfarið og orsaka þá stöðu sem upp er komin í leikslok. Þegar andlegi leiðtoginn hefur verið afhjúpaður svo allir, meira að segja blinda ættmóðirin, sjá í gegnum yfirdrepsskapinn og illan ásetning. Þegar hann stendur engu að síður með pálmann í höndunum og lyklana að húsinu meðan skósveinar hans skipta málverki út fyrir spegil og rífa klukkuna af veggnum.

Aldrei hefur mér fundist eins skýrt að Orgeir er aðalhlutverk Loddarans og í þessari uppfærslu Stefans Metz. Einungis hann, af aðalpersónum verksins, breytist eða þroskast. Allir aðrir á heimilinu hafa séð í gegnum Guðreð þegar tjaldinu er lyft. Sjálfur er loddarinn auðvitað bara það sem hann er. Eins og guð.

Nafnið Guðreður er auðvitað ein af bráðfyndnum uppáfinningum Hallgríms Helgasonar í sinni lipru og smellnu þýðingu. Önnur er nafnið Orgeir. Linnulaus straumurinn af AABBCC-rímuðum fimmliðunum reynir nokkuð á þolrifin þegar fer að síga á seinni hlutann en engu að síður er afrek hjá Hallgrími að halda þetta út. Það er síðan allur gangur á hvernig þýðingin skilaði sér út í salinn. Leikmyndin virðist skapa nokkra glymjandi og ekki allir leikararnir nógu passasamir með að fylgja línunum sínum eftir allt til enda.

Annars hvílir mikil ábyrgð á textanum í þessari uppfærslu. Fyrir utan nútímaleg snið búninganna er farið einstaklega sparlega með brögð leiksviðsins til að auka við merkingu leikritsins, bregðast við henni, skerpa eða snúa á hvolf. Það sama á við um grínið, sem fyrir utan fyrirskipuð farsabrögð og glaðbeitta þjónustustúlku hvílir nær eingöngu í textanum. Þótt hefð Moliéres eigi rætur í skopleikjaformi Commedia Dell'Arte með sínum stílfærðu persónum og líkamlega gríni heldur Stefan Metz sýningunni nánast algerlega á raunsæislegu plani. Svo mjög reyndar að það er varla hægt að tala um persónusköpun, hvað þá týpusmíð, umfram þau einkenni sem atburðarásin leiðir í ljós.

Það er fátítt, jafnvel gleðiefni, að sjá leiktexta treyst jafn afdráttarlaust til að bera hitann og þungann af áhrifum og erindi leiksýningar núna á öld leikstjóra-, samsköpunar- og konseptleikhússins, en þá verður textinn að vera traustsins verður. Ég veit ekki alveg hvort það sé raunin með þessa skörpu og sniðugu en dýptarlausu lýsingu Moliéres á hræsni og maklegum málagjöldum fáviskunnar. Fyrir vikið fáum við litla innsýn í hvernig fólk þetta er. Hvernig Guðreður náði þessum heljartökum á huga Orgeirs. Hvort það skýrist frekar af hrekkleysi eða einfeldningshætti fórnarlambsins eða útgeislun og sannfæringarkrafti hins andlega leiðtoga. Við sjáum reyndar heldur ekki nein merki um áhrif Guðreðar í heimilislífinu eða á hegðun þeirra sem hafa gerst lærisveinar hans. Við vitum heldur næstum ekkert um samband Orgeirs og Elmíru konu hans, hvaða stöðu frú Petrúnella hefur á heimili sonar síns eða hvers konar áhrif Guðreður hefur á börnin. Það er eitthvað meinlætalegt við það hvernig verkinu er boðið að tala fyrir sig sjálft. Það kemur líka í ljós að það hefur ekki margt merkilegt, óvænt eða hugvekjandi að segja. Vissulega falla kjánar enn fyrir náðarvaldi sjarmerandi síkópata. Vissulega fæðist einn slíkur enn á mínútufresti eins og P.T. Barnum sagði kannski. Og vissulega hefur orðsnilld og rímflæði gildi í sjálfu sér, í það minnsta skemmtigildi. En samt. Af hverju er verið að sýna okkur Tartuffe? Sýningin svarar því ekki á sannfærandi hátt.

Hún gefur þétt skipuðum leikhópnum heldur ekki mikil færi á að glansa. Einu karakterarnir sem verða sæmilega eftirminnilegir sem slíkir eru Dóra vinnukona sem Kristín Þóra Haraldsdóttir nýtur greinilega að skapa og sýna, þótt ekki sé hún alsaklaus af fyrrnefndum textameðferðargöllum, og kostuleg lögmærin hennar Dóru Jóhannsdóttur, sem vissulega er örhlutverk. Hennar „aðalhlutverk“ er Vala, heitmey heimasætunnar. Hún birtist í einni senu sem hefur elst hvað verst af texta Moliéres og verður algerlega tilgangslaus sé ekki unnið með afstöðu og persónueinkenni þeirra Völu og Maríönnu Orgeirsdóttur. Lára Jóhanna Jónsdóttir gaf þeirri síðarnefndu sviðssjarma en ekki eftirtektarverðan persónuleika. Danni, bróðir Maríönnu, er öllu tilþrifameiri í sínum fyrirgangi hjá Oddi Júlíussyni, en ekki er hann nú sérlega skýr samt. Það hefur sína kosti að kynbreyta tilvonandi ektamaka Maríönnu, en kostar líka sitt. Til dæmis það að kynhneigð heimasætunnar trompar allt annað sem hún gæti haft á móti því að giftast Guðreði. Einhverjum hefði líka þótt það dauðafæri að „jarðtengja“ trúarkreddur loddarans með því að gefa honum, og lærisveini hans, færi á að tjá á einhvern hátt vanþóknun á samkynja hjúskap, en það er ekki gert. Þetta er ekki svoleiðis sýning.

Baldur Trausti Hreinsson er mágur Orgeirs og hefur tilhneigingu til að láta línuendingar sínar fjara út en var annars aðsópsmikill í vanþakklátu hlutverki. Ragnheiður Steindórsdóttir var reffileg frú Petrúnella, en ekki fannst mér blinda hennar ýkja sannfærandi. Fyrir utan að ég skildi ekki tilganginn, þetta er almennt ekki uppfærsla sem krefst þess að vera skilin táknrænum hætti. Nína Dögg Filippusdóttir blómstraði í langbitastæðasta atriði verksins, þar sem húsfrúin Elmíra táldregur guðsmanninn til að afhjúpa hann loksins fyrir eiginmanninum. Guðjón Davíð Karlsson fer prýðilega með hlutverk Orgeirs, og ekki við hann að sakast hvað frelsi til skoptilþrifa eru af skornum skammti í túlkunarleið sýningarinnar. Hilmir Snær Guðnason glímir við sama vanda, en er einnig ágætur innan hins þrönga ramma. Hann byrjaði reyndar með þreytandi „stórleikararaddbeitingu“ í fyrstu innkomu sinni, eitthvert hljómfall sem jaðrar við flámæli, en svo hvarf það og styrkleiki hans í textameðferð nýtist vel. Það eru samt sorglega mörg glötuð tækifæri í afstöðuleysinu. Í hverju felst náðarvald hans? Hefur taumlaus neyslan sem lýst er í upphafi haft einhver áhrif á hann? Er hann jafnvel sérlega ógeðfelldur í augum allra annarra en Orgeirs og móður hans? Það nægir ekki að aflita hárið, klæða Guðreð í ljótan T-bol og láta hann bera krem á fæturna á sér til að trompa stjörnuútgeislun Hilmis Snæs.

Leikmynd Seans Mackaoui og búningar eru umtalsvert augnayndi. Sérstaklega létt og litrík föt fína fólksins, þótt klæðnaður Danna stingi þar í stúf. Erfitt er að lesa í búninga Völu og Guðreðar, hvort beri að skilja þá samfélagslegum eða táknrænum skilningi. Það þarf almennt að kveða fastar að í túlkun verksins og það gildir um umgjörð hennar líka. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er til sóma, skörpu „blakkátin“ mjög skemmtileg. Tónlist Elvars Geirs Sævarssonar var sniðug og flutningur leikhópsins á sálmi Sibeliusar var íðilfagur.

Loddarinn virkar heldur yfirborðskennt verk í þeirri mynd sem það fær á sig í þessari sýningu. Að sumu leyti óhjákvæmilegt, hinn hreini og beini framsetningarmáti Moliéres er í það minnsta einfaldur, og jaðrar við að vera einfeldningslegur, séð með baksýnisspegli nútímans. Það virðist vera meðvituð listræn ákvörðun að leyfa einfaldleikanum að tala að þessu sinni. Þar fara að mínu mati forgörðum ótal möguleikar til að gera þessa kvöldstund bæði skemmtilegri og umhugsunarverðari.

fimmtudagur, maí 02, 2019

Bæng!Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Hafliði Arngrímsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Kjartan Þórisson. Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson. Myndband: Ingi Bekk. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Sýningarstjóri: Christopher Ian Astridge. Leikarar: Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, Halldór Gylfason, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins 26. apríl 2019.

Skrímslafræði fyrir
byrjendur

Viðbrögð við kjöri Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta hafa verið margvísleg. Í þeim kimum heimsins sem flokkast sem frjálslyndir og lýðræðissinnaðir, eða bara rétt vinstra megin við fasisma, hafa tveir þræðir verið mest áberandi: furðublandin skelfing og dálítið óöruggur hæðnishlátur. Sjónvarpsgrínistar í Bandaríkjunum eru flestir hverjir algerlega helteknir af að sýna, greina og hæða nokkurn veginn allt sem forsetinn segir og gerir. Leikhúsin fengu endurnýjaðan áhuga á harmleik Shakespeares um uppgang harðstjórans Júlíusar Sesars, sem sum þeirra settu hreinlega í blá jakkaföt, of langt rautt hálsbindi og hæpna ljósa hárkollu. En auðvitað er svoleiðis leikur að hliðstæðum dæmdur til að missa marks að miklu leyti. Shakespeare var ekki að skrifa um Donald Trump. Hann var varla einu sinni að skrifa um Júlíus Sesar. Hvað getur „alvöru“ leikhús lagt til málanna?

Svar Mariusar von Mayenburg var Bæng!, sem frumsýnt var á Schaubühne í Berlín fyrir tveimur árum, og höfundurinn lýsir sem „ofnæmisviðbrögðum“ eftir þessa óvæntu en mögulega fyrirsjáanlegu vendingu í alþjóðastjórnmálum. Þar er sagt frá uppvexti og framgangi skrímslisins Hrólfs Bæng, frá því hann sprettur nánast alskapaður og vel tenntur úr móðurkviði eftir að hafa kyrkt tvíburasystur sína ófædda, hvernig hann elst upp í skjóli velmeinandi, frjálslyndra og ofurmeðvitaðra millistéttarforeldra og ræktar allar sínar illu eðlisgáfur og siðblindu í skjóli hins nytsama sakleysis sem ríkir á þeim bænum. Von Mayenburg sýnir okkur líka hvað hinn siðmenntaði og friðelskandi lífsmáti herra og frú Bæng er þunn himna utan um dýrslegt eðlið, sem býr bæði í blóðugri nánustu fortíð fjölskyldunnar og velþóknun þeirra hjóna yfir baráttuvilja ungbarnsins á leikvellinum. Að því leyti er sögn verksins á svipuðu róli og réttlætingarræður Hrólfs sjálfs fyrir framferði sínu: svona erum við. Í þeim er líka að finna bitastæðasta innlegg von Mayenburg til greiningarvinnunnar varðandi stöðu mála í heiminum og vegferðina fram undan: hvað óþol okkar fyrir leiðindum og kyrrstöðu er mikilvægur og vanmetinn drifkraftur í mannlífinu. Nokkuð sem birtist í óseðjandi lyst okkar á blóðugum morðsögum og fréttum af viðbjóðslegu ofbeldi gegn börnum. Líka t.d. í einbeittum vilja fjölmiðlafólks til að fá vísindamenn til að spá eldgosum og öðrum hamförum. Og svo auðvitað í kjörþokka fólks á borð við Bolsonaro, Duterte og Trump.

Fyrir utan þessa forvitnilegu þanka verður að segjast að rannsókn höfundar og framsetning efnisins í verkinu nær ekki að varpa miklu eða nýstárlegu ljósi á viðfangsefnið. Von Mayenburg er vissulega flinkur höfundur, öruggur í því lausbeislaða formi sem handritaskrif fyrir listrænt þenkjandi leikhús nútímans gerir ráð fyrir. Gréta Kristín Ómarsdóttir er líka á heimavelli í þessari hefð. Þannig eru bæði samskipti við áhorfendur, ferðalög í tíma og rúmi og stökk leikaranna út úr hlutverkum sínum og inn í raunheiminn lipur, eðlileg og þjóna tilgangi sínum. En frumleg og ögrandi eru þessi stílbrögð ekki lengur, frekar en notkun míkrófóna og kvikmyndavéla. Fyrir fastagesti leikhúsanna undanfarin ár er þetta orðið næsta fyrirsjáanlegt.

En þrátt fyrir færni höfundar og þokkalega skemmtun lengst af (lopinn er teygður til hins ýtrasta þessa tvo og hálfan tíma) er Bæng! ófullnægjandi sýning. Hún sannfærði allavega ekki þann sem þetta skrifar um gagnsemi þess að skoða pólitískar ógnir samtímans með einföldunaraðferðum dæmisögunnar og frumlitakassa barnaleikritanna að vopni. Það að velmeinandi veimiltítur í Prenzlauer Berg veiti fórnarlömbum heimilisofbeldis skjól í kjallaranum hjá sér, og fasíska frumsjálfið sem þau ala við brjóst sér vilji þau burt, varpar engu ljósi á flóttamannavandann eða uppgang útlendingaandúðar í Evrópu, sem virðist vera hliðstæðan sem von Mayenburg er að draga fram. Hálftíma könnunarleiðangur um athugasemdakerfin er mun gagnlegri.

Björn Thors er Hrólfur Bæng. Það eru gleðitíðindi að nú virðist Björn vera búinn að leggja Kenneth Mána endanlega til hvílu, hvort sem það voru nú leiktaktar hans eða ofvirkt leikhúsminni mitt sem héldu svona lengi í honum lífinu. Björn er oft og iðulega bráðfyndinn hér, aldrei beinlínis ógnvekjandi samt. Sá kækur hans að þagna í miðjum setningum dró mjög úr slagkrafti textans, hvort sem um var að kenna óöryggi eða misráðinni tilraun til að gefa honum raunsæislegra yfirbragð. Sem er engin ástæða til, svo mjög sem stílbrögð textans benda í aðrar áttir. Þeirra fremst hinar löngu og bráðfyndnu stuðluðu romsur sem faðirinn datt inn í þegar hann komst í geðshræringu. Vel útfærðar hjá þýðandanum Hafliða Arngrímssyni og leika Hirti Jóhanni Jónssyni á tungu.

Þau Brynhildur Guðjónsdóttir eru bráðskemmtileg sem foreldrarnir lánlausu. Hjörtur fyndnastur þegar þolgæði mjúka mannsins er ögrað og Brynhildur í afbrýðiseminni út í hina kynæsandi barnfóstru. Sú er túlkuð af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, ein af fjórum konum sem hún smíðar í sýningunni og hafa allar skýrt svipmót, eftirminnilegust sennilega hin kúgaða Ússí í næsta húsi. Eiginmaður hennar, ofbeldishrottinn Reynir, er síðan ein af rullum Halldórs Gylfasonar sem einnig fá allar afgerandi svip, eru hver annarri sannari og fyndnari hjá þessum flinka týpusmið. Það kemur svo í hlut Davíðs Þórs Katrínarsonar að vera hinn frekar sviplausi kamerumaður og verða svolítið utanveltu í stuðinu, en gerir sitt vel. Einkum í dálítið sjokkerandi atriði þar sem hann og frú Bæng hyggjast fá Ússí til að „stíga fram“ og afhjúpa ummerki heimilisofbeldisins, sem reynast vandræðalega lítilfjörleg í það sinnið.

Christopher Ian Astridge sýningarstjóri er síðan sýnilegur og ósýnilegur eftir þörfum, og stelur senunni smá með fiðluleik þegar mikið liggur við. Tónlistarval og útfærsla Garðars Borgþórssonar er með ágætum. Eva Signý Berger gerir búninga sem eru meira og minna hárréttir á natúralískum forsendum og hjálpa við að jarðtengja galskapinn. Leikmynd Barkar Jónssonar er smart verk með ótal möguleikum sem eru vel nýttir í flæðandi og lipurri sviðsetningu Grétu Kristínar. Lýsing Kjartans Þórissonar fín.

Vandi sýningarinnar liggur fyrst og fremst í verkinu, eða kannski í þunglamalegu eðli leikhússins sjálfs, og viðbragðssnerpu þess. Sem innlegg í umræðu um kjör Trumps, uppgang andverðleikastjórnmála og lýðskrum úr öfgahægriáttinni er það hvorki nógu snjallt né fyndið. Það býður heldur ekki upp á óvænta, spennandi eða gagnlega greiningu. Það má auðvitað hafa dálítið gaman af yfirgengileika Hrólfs Bæng og hlæja kuldahlátri að vanmætti velmeinandi en villuráfandi nærsamfélagsins. En það er brandari sem allir eru búnir að vera að segja, oft betur, í síbyljunni frá því Marius von Mayenburg ýtti öðru til hliðar til að skoða ástand heimsins síðla árs 2016.

x

föstudagur, mars 22, 2019

Súper – þar sem kjöt snýst um fólk


Eftir Jón Gnarr. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Edda Björgvinsdóttir, Eggert Þorleifsson, Hallgrímur Ólafsson, Jón Gnarr, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Raddir: Freyja Maríanna Benediktsdóttir, Brynja Maja Benediktsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 16. mars 2019.x

Geimveran


Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið. Hvort sem hlutskipti utanveltumannsins, útlagans, geimverunnar, er Jóni áskapað eða áunnið þá hefur sýn hans á fólk á sér öll einkenni hins glögga gestsauga. Hann sér kannski ekki djúpt undir yfirborðið, kryfur ekki eða greinir. En hann heyrir það sem við erum hætt að heyra, fangar fullkomlega fáránleikann í hversdagshjalinu – hið fráleita, vanhugsaða og heimskulega – og skilar því gljáfægðu til okkar á ný. Það er ekki alltaf notalegt, en alla jafnan morðfyndið og sennilega meinhollt.

Þetta hafa áhorfendur Fóstbræðra og kannski enn fremur hlustendur Tvíhöfða löngu komið auga á og sjálfur hefur Jón í sínum einstöku og mögnuðu minningabókum að einhverju leyti hleypt okkur að gangverki huga síns og sköpunargáfu. Það er ýmislegt kunnuglegt við Súper, en líka einhver ferskleiki. Og annað álíka mikilvægt: öryggi í beitingu formsins og hefðarinnar sem hér er unnið með. Það er mögulega það sem kemur mest á óvart. Það er ekkert sem minnir á stolt kunnáttuleysi pönkarans í þessari yfirveguðu og þaulhugsuðu sýningu.

Það virðist fátt fást í kjörbúðinni Súper annað en kjöt. Íslenskt kjöt. Þaulunnar kjötvörur, marineraðar í þjóðarsálinni. Hér er ekkert vegan nema mögulega plastumbúðirnar. Og kannski kleinurnar sem hún Agnieszka frá Póllandi er með á tilboði. Nærvera hennar er eins og steinn í skónum hjá viðskiptavinunum, þessum sjálfsöruggu og sannfærðu Íslendingum með ranghugmyndagrunnaða sjálfsmyndina á hreinu. Eða það halda þau. Myndin sú reynist vera örlítið meira úr fókus en þau vilja viðurkenna, en það slær þau ekkert út af laginu. Í absúrdskólanum breytist ekki neitt. Godot lætur aldrei sjá sig. Það má kalla einn Akkilesarhæl formsins. Annar er skortur á sálrænu raunsæi, þrívíðri persónusköpun. Þannig er það líka í Súper. Hver persóna hverfist um eitthvað eitt. Það er erfiðara en það virðist að halda slíku efni áhugaverðu heilt kvöld. Margir af lærisveinum Ionescos hafa fallið á þessu prófi, sannfærðir um að svona efni skrifaði sig sjálft. Svo er ekki. Það þarf meira en tilvistarangist, menntaskólahúmor og sannfæringu um merkingarleysi lífsins.

Jóni tekst þetta að talsvert mörgu leyti. Súper er bráðfyndin og skörp stúdía í íslenskum sjálfsmyndarklisjum. Kannski ekki djúpskreið. Kannski ekki ýkja frumleg, við höfum heyrt þetta allt áður. En það er auðvitað mergurinn málsins.

Til hliðar við hina þjóðlegu og dálítið þjóðrembdu hlið sjálfsmyndarinnar eru kynhlutverkin. Þar er bæði margt að skoða í viðteknum og jafnvel klisjukenndum og sjálfvirkum hugmyndum okkar. Þarna er vettvangur fyrir bæði ærsl og usla. Sá vettvangur hefur lengi verið heimavöllur Jóns Gnarr, fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar, við útvarpshljóðnemann og eftirminnilega í hlutverki borgarstjórans í Reykjavík. Á glerhálum kynhlutverkavellinum spilar Jón gott mót í Súper.

Benedikt Erlingsson stenst allar freistingar í þá átt að hjálpa efninu með sjónhverfingum og tilþrifabrellum leikhússins. Hér ríkir einfaldleiki og nákvæmni. Þó að persónurnar séu einfaldar og flestar aðeins með eitt erindi að reka á sviðinu eru þær ekki ýktar eða stílfærðar. Leikstíllinn er raunsæislegur og afslappaður og ber hvergi skugga á í túlkun hópsins.

Sólveig Arnarsdóttir gefur hinni fyrrnefndu Agnieszku áreynslulausan virðuleika þar sem hún reynir að eigna sér rými í þjóðrembukælinum. Það dettur hvorki né drýpur af Elínu hennar Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur, í óþreyju hennar eftir áfengisóminni og einnar næturgamni, sama hversu yfirgengilega hluti hún lætur út úr sér. Nettur óhugnaður einkennir Einar og Guðrúnu, unga parið sem virkar svo samhent og keimlíkt en á svo illa saman, í meðförum Arnmundar Ernst Backman og Snæfríðar Ingvarsdóttur, sem ég er ekki frá því að ég hafi ekki séð gera betur en hér.

Höfundurinn sjálfur fer með hlutverk Kristjáns kjötborðskapteins og fellur ekki í þá gryfju að smíða einhvern „kall“ sem hann annars gerir svo skemmtilega. Það er öryggi og myndugleiki í framgöngu Jóns, og auðvitað hárrétt tilfinning fyrir skopmöguleikum texta og samleiks. Það er líka eitthvað sérlega „gnarrískt“ við bæði persónu Hannesar, sem hefur farið í föt föður síns í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og meðferð Hallgríms Ólafssonar á henni. Algerlega hversdagslegur maður, úr þjóðardjúpinu ef svo mætti segja, en um leið næstum hrollvekjandi án þess beinlínis verði fest hönd á hvað veldur. Frábær frammistaða hjá Hallgrími, auk þess sem bæði búningur og gervi vinna sinn drjúga skerf af verkefninu við að skapa þennan mann.

Það er síðan eitthvað dýrðlegt við innkomu Eddu Björgvinsdóttur og Eggerts Þorleifssonar sem eru ómótstæðileg í gervum hinna erkitýpísku bóndahjóna Bjössa og Guggu. Svo samhent og hjartahrein að engin fórn Bjössa er of stór fyrir lífshamingju Guggu, eins og kemur í ljós í óvæntri uppljóstrun sem sendir verkið á örugga braut að marklínunni. Sjálfsmyndin reynist ekki vera jafn klöppuð í steininn og viðskiptavinir og starfsfólk Súper eru sammála um, en engu að síður eru þau öll jafn örugg með sig í sjálfgóðum klisjuhjúpnum. Það er kannski fáránleikinn sjálfur.

Leikmynd Gretars Reynissonar er verulega vel heppnað verk í einfaldleika sínum sem segir hæfilega mikið um verkið. Inni í einsleitum marmaragráum kassa er kjötkælir og verðskanni. Annað ekki, fyrir utan innkaupakerrur kúnnanna og vörukynningarborð kleinusölukonunnar. Plaststrimlar hanga úr lofti og ramma inn innra rými innan kassans. Gegnsæir þegar vel útfærð lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar leyfir. En minnir sterklega á sig með megnri plastlykt. Þetta er áreiðanlega meinhollt íslenskt plast. Filippía I. Elísdóttir klæðir fólkið í algerlega viðeigandi klæði.

Súper – þar sem kjöt snýst um fólk er meðal skemmtilegustu sýninga sem ég hef séð það sem af er þessum leikvetri. Hún er óvænt, en það kemur líka á óvart hvað hún er óvænt, svo mjög sem hún ber stíl höfundar sínum vitni. Hún er líka enn eitt dæmið um að því er virðist áreynslulaust öryggi Benedikts Erlingssonar við að finna viðfangsefnum sínum nákvæmlega réttan tón, stíl og yfirbragð. Hún mun ekki breyta því hvernig við erum, en kannski mun hún stundum kalla fram smá kinnroða yfir því hvað við segjum.