laugardagur, apríl 28, 2001

Tilbrigði við Súperstar

Leikfélag Sólheima
Íþróttaleikhúsinu Sólheimum 28. apríl 2001

Leikstjóri: Árni Pétur Guðjónsson

Leikendur: Anja Rún Egilsdóttir, Ármann Eggertsson, Dísa Sigurðardóttir, Edda Guðmundsdóttir, Einar Baldursson, Erla Björk Sigmundsdóttir, Erla Leifsdóttir, Eyrún Briem Kristjánsdóttir, Gísli Halldórsson, Guðlaug Jónatansdóttir, Guðrún Rósalind Jóhannsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Halldór Hartmannsson, Haukur Þorsteinsson, Hákon Fannar Kristjánsson, Helga Alfreðsdóttir, Jón Grétar Jónasson, Kamma Viðarsdóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Kristjana Larsen, Kristján Ólafsson, Kristján Þór Steinþórsson, Lárus Fjeldsted, María Kristjánsdóttir, Ólafur Benediktsson, Pálína Erlendsdóttir, Roberta Brambilla, Rúnar Magnússon, Sigríður Sigurðardóttir, Sigurður Gíslason, Sigurlín Sigurgeirsdóttir, Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, Valdimar Reynisson og Valgerður Pálsdóttir.

Helgileikur á afmælisári

EITT elsta leikfélag landsins heldur upp á afmæli sitt á árinu. Leikfélag Sólheima hefur haldið uppi starfsemi í sjötíu ár, og sýnir á hverju ári nýja sýningu, oftast frumsköpun leikhópsins og leikstjórans, að því er ég best veit. Slíkum dugnaði og listelsku ber að sjálfsögðu að fagna og óska afmælisbarninu langra lífdaga og er það gert hér með.

Í ár ræðst Leikfélag Sólheima í að sýna okkur örlagaríkustu sögu allra tíma, síðustu daga Krists frá innreiðinni í Jerúsalem til dauða hans á krossinum, dyggilega studd af tónlist Webber lávarðar. Á fjórða tug leikara taka þátt í sýningunni, vistmenn, starfsmenn og börn mynda einkar samhentan hóp sem á stóran þátt í því hve vel heppnuð sýningin er og áhrifarík.

Því það er hún. Frá því Júdas slær trommu sína í upphafi þar til leikhópurinn horfir til himins í lokin á móti því ljósi sem hefur verið kveikt í heiminum heldur Tilbrigði við Súperstar áhorfandanum gersamlega föngnum. Árni Pétur Guðjónsson hefur unnið frábært verk og kann greinilega vel þá list að ná miklum áhrifum með einföldum aðferðum. Sýningin er ákaflega skýrt mótuð og hreyfingar og stöður þjóna ætíð tilgangi og margar myndir og einstök atriði munu seint gleymast. Öllu þessu skilar leikhópurinn af einlægni, innlifun og með mikilli prýði. Búningar eru sérlega fallegir og auka enn á áhrifin.

Til að leiksýning nái áhrifum sínum þurfa ótal atriði að verka saman, eins og þátttakendur í sýningum jafnt sem leikhúsgestir vita. Einna mikilvægast er þó að áhorfendur upplifi að verið sé að bjóða þá velkomna til að taka þátt í einhverju og til að verða vitni að atburðum sem skiptir leikhópinn máli að skýra frá. Þessi tilfinning er grundvöllur þess sambands þáttakenda og áhorfenda sm stundum er kallað galdur leikhússins. Tilbrigði við Súperstar er svoleiðis sýning og glæsilegur minnisvarði um sjötíu ára leikstarfsemi á Sólheimum. Til hamingju.

laugardagur, apríl 14, 2001

Dýrin í Hálsaskógi

Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík
Samkomuhúsinu á Húsavík laugardaginn 14. apríl 2001

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Hallmarsson


Piparkökur eins og piparkökur eiga að vera

DÝRIN í Hálsaskógi er nú komið á það virðingarstig að vera óumdeilanlega sígilt verk. Það sést best á þeim gjörólíku túlkunarleiðum sem hafa verið farnar að því í sýningum undanfarið. Stefán Jónsson og leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði gerði úr því kostulega Tarantino-martröð um einelti, Björn Gunnlaugsson lagði áherslu á flókin samskipti Lilla og Marteins í sýningu á Fáskrúðsfirði og nú síðast heyrast kenningar um að Egner hafi verið að túlka goðsögnina um kristnitökuna á Íslandi. Enn hefur enginn ráðist í að sviðsetja verkið með hliðsjón af þeirri forvitnilegu hugmynd og einnig er óvíst hvaða áhrif breytt viðhorf almennings til grænmetisframleiðenda og hollustu ólíkra landbúnaðarafurða almennt mun hafa á túlkun Dýranna. Við bíðum spennt.

Þangað til er sýning Pýramusar og Þispu ágætis sýnishorn af hefðbundinni nálgun við þetta merka verk. Og auðvitað kemur þá í ljós að það stendur fyllilega fyrir sínu án nokkurrar rýni og tilrauna til frumleika. Sagan er góð, persónurnar skemmtilegar, lögin grípandi og gleðin ríkir.

Sigurður Hallmarsson er þaulvanur að segja óvönum leikurum til og þarf því ekki að koma á óvart að leikarar stóðu allir fyrir sínu. Textameðferð var vitaskuld til norðlenskrar fyrirmyndar, meira að segja í hópsöngvum komst hvert atkvæði til skila. Undirleik annaðist Sigurður sjálfur ásamt Ingimundi Jónssyni og af þeim samleik mátti helst ráða að um einn fjórhentan hljóðfæraleikara væri að ræða. Enn átti Sigurður svo hlut að máli þegar kom að leikmyndinni, sem var heilt ævintýri á að líta. Tré úr görðum Húsvíkinga fylla sviðið í Samkomuhúsinu og ilmurinn af þeim vit sýningargesta. Frábær mynd sem nýttist vel sem heimkynni dýranna.

Sýningin byrjaði tiltölulega hægt, kannski var afslöppunin heldur mikil fyrst um sinn, en hélt þó athyglinni við efnið og náði um síðir að skapa viðeigandi spennu og fjör þegar leitin að Bangsa litla stóð sem hæst.

Af leikendum er rétt að geta þeirra þriggja sem mest mæddi á. Hilmar Valur Gunnarsson var pottþéttur Refur, aldrei sérlega hættulegur en alltaf skemmtilegur. Arnar Þór Sigurðsson var iðandi af lífi sem Lilli lífsnautnamús og hæfileg andstæða við Martein fyrirmyndarmús sem Katrín Ragnarsdóttir gerði skotheld skil.

Pýramus og Þispa sækja nafn sitt til leikrits handverksmannanna í Draumi á Jónsmessunótt en ólíkt tekst Egner, Sigurði og þeirra fólki betur upp en Spóla vefara og félögum. Saman eiga þó Húsvíkingar og Aþeningar Shakespeares ást á viðfangsefni sínu og aðferðinni við að skila því; leikhúsinu. Og það skilar sér.

þriðjudagur, apríl 10, 2001

Kabarett

Fúría – leikfélag Kvennaskólans
Íslenska Óperan þriðjudaginn 10.apríl 2001

Höfundar: Joe Masteroff, John Kander og Fred Ebb
Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Charlotte Bøving
Útlitshönnun: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Danshöfundur: Sigyn Blöndal Kristinsdóttir
Tónlistarstjóri og útsetningar: Hjörleifur Jónsson
Hljómsveitarstjóri: Þóranna Björnsdóttir

Lífið er gullfallegt

VERKEFNAVAL framhaldsskólaleikfélaganna skiptist nokkurn veginn í tvö horn þennan veturinn. Annars vegar glíma við alvarleg, hálfsígild verk, hinsvegar léttúðugar og skrautlegar söngleikjasýningar og stælingar á kvikmyndum. Kabarett fellur þarna svona nokkurn veginn í miðju. Vissulega einn besti söngleikur allra tíma en líka einn sá sem málaður er dekkstum litum og sígildur í þokkabót. Ef sýningum framhaldsskólana væri hins vegar raðað eftir ágæti þeirra er nokkuð ljóst að sýning Fúríu færi talsvert yfir meðallag, væri í toppbaráttunni.

Söngleikir eru mikil endurvinnslustöð fyrir hugmyndir og svo er einnig um Kabarett. Leikrit var skrifað eftir endurminningum/sögum Christopher Isherwood frá Berlín á uppgangstíma nasista. Leikritinu var svo snúið á söngleikjaform, söngleiknum í fræga kvikmynd, sem aftur hefur mikil áhrif á það hvernig sviðsverkið er meðhöndlað í dag.

Þannig nýtir leikgerð Charlotte Bøving lög sem voru samin fyrir kvikmyndina en sleppir öðrum sem tilheyra sviðsgerðinni. Tónlistaratriðin í sýningunni gerast öll í Kit-Kat klúbbnum, í Kabarettinum sem nafnið vísar til, með einni áhrifamikilli undantekningu þó. Það ber vott um dramatúrgíska snyrtimennsku að sleppa lögum þar sem persónur verksins bresta í söng heima hjá sér og úti á götu við undirleik ósýnilegrar hljómsveitar, eins og er í upprunalega verkinu. Mestan partinn gengur þetta upp. Ég og aðrir aðdáendur Kabaretts sakna samt laganna, sérstaklega hins óviðjafnanlega ástardúetts Frau Schneider og Herr Schultz; Einn ananas.

En nóg komið af greiningu. Sýning Fúríu er verulega vel heppnuð. Einföld sviðsmyndin gegnir hlutverki sínu vel og snjöll lýsingin skapar andrúmsloft þar sem henni sleppir. Mestu varðar þó auðvitað frammistaða leikenda. Leikstjóra hefur tekist það sem vefst gjarnan fyrir þeim sem vinna með ungu og lítt reyndu fólki, að skapa jafngott yfirbragð yfir leikinn. Leikstíll er einfaldur, hreyfingar skýrar og afgerandi svo ekkert fer milli mála og allir leikendur ná valdi yfir hlutverkum sínum. Þetta er verulega vel unnið og Charlotte Bøving góð viðbót við leikstjóraúrval landsins. Tónlistarflutningur er prýðilegur, útsetningar skemmtilegar og söngvarar skiluðu meira að segja flestum textum óbrjáluðum til áhorfenda.

Þó svo leikur sé jafngóður þá eru hlutverkin auðvitað misviðamikil í svona verki. Hilmar Guðjónsson fer vel með hið krefjandi hlutverk skemmtanastjóra Kit-Kat klúbbsins, Kári Allansson er trúverðugur sem hinn nýkomni ameríkani Cliff sem leyfir okkur að kynnast Berlín með sér, svo og náttúrulega kabarettstjörnunni lífsreyndu; Sally Bowles. Halla Vilhjálmsdóttir fer frábærlega vel með þetta erfiða hlutverk, leikur, syngur og dansar geislandi af öryggi. Hún gerir hin þrjú stóru söngnúmer Sallyar algerlega að sínum og nær síðan að skila dramatísku lokaatriðinu þannig að gleymist ekki í bráð. Glæsileg frammistaða.

Það má reyndar yfirfæra á hópinn alla. Hér er vel að verki staðið á öllum póstum og útkoman eftir því. Skemmtileg sýning sem nær tilætluðum áhrifum, skemmtir og vekur, hræðir og gleður.

mánudagur, apríl 09, 2001

Gauragangur

Leiklistarklúbbur NFFA
Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi mánudaginn 9.4.2001

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Tónlist: Ný Dönsk
Leikstjóri: Ólafur Guðmundsson
Tónlistarstjóri: Flosi Einarsson
Danshöfundur: Belinda Eir Engilbertsdóttir

Glampar á gullið

MANNDÓMSVÍGSLA orðháksins Orms Óðinssonar var á sínum tíma frábært og löngu tímabært innlegg í sápuóperulegan heim íslenskra unglingabókmennta. Loksins trúverðug og heiðarleg lýsing á efnilegum gallagrip án þess að tiltæki hans, hrasanir og glíma við ókunnuglegan heim væru skoðuð sem “vandamál”. Vissulega tekur Ormur út þroska, annað hvort væri nú, en einhverjir höfundar hefðu ekki látið sér það nægja heldur hefðu látið Orm snúa “af villu síns vegar”, gott ef ekki taka að stunda líkamsrækt og hætta að reykja og drekka.

Leikgerðin fylgir sögunni nokkuð nákvæmlega, sem gerir hana dálítið óþjála í sviðsetningu. Ótal senur á ólíkum stöðum sem kalla annaðhvort á tæknilega fullkomið leiksvið eða mikla hugkvæmni leikstjóra og leikmyndarhönnuðar. Hér hefur verið farin sú óvenjulega leið að smíða hringsvið. Að sumu leyti snjöll lausn, en þvælist líka dálítið fyrir, tekur tíma að snúast og þrengir sviðið stundum svo að hópatriði ná ekki að lifna við. En að láta sér detta þetta í hug og framkvæma það síðan – það hefði Ormur Óðinsson kalla ofurraunsæi með aðdáunarróm í röddinni. Við tökum undir það.

Tónlist var vel flutt af hljómsveit og söngvurum, stundum smá jafnvægisvandamál svo texti fór forgörðum og hljóðnemar settu leiktúlkun skorður. Reyndar þykir mér tónlistin síst heppnaði hluti verksins. Of mörg laganna gera lítið fyrir verkið, dýpka hvorki persónulýsingar né fleyta sögunni áfram. Þá hefur Ný dönsk afgerandi lagasmíðastíl, frekar hæggengan og ekki alltaf auðgrípanlgan við fyrstu hlustun, sem hentar misvel í leikhúsi. Bestu númerin eru auðvitað löngu orðin sígild óháð því hvort þau eru vel lukkuð leikhústónlist: Söngur skólastjórans – Ský í buxum, partírokkarinn Málum bæinn rauðan og svo náttúrulega framadraumaástarballaðan Er hann sá rétti?

Sýning Leiklistarklúbbs NFFA er góð skemmtun. Best er hún þar sem grínið er í algleymingi, fatast ögn flugið þegar alvaran brýst í gegn. Almennt gekk hópnum betur að sýna unglingana en eldri kynslóðina sem vonlegt er. Stíll verksins er það raunsæislegur að sú skopstæling sem ævinlega felst í að “leika upp fyrir sig” á varla við, jafnvel þó sumt væri þar vel gert. Ég er samt ekki frá því að Ólafi Guðmundssyni, leikstjóra, hefði átt að takast að skapa fleiri trúverðuga fullorðna með styrkari leikstjórnarhönd.

Það tæpast á neinn hallað þó Sindri Birgisson sé tilnefndur hetja sýningarinnar. Hann hvílir fullkomlega í hlutverki Orms og skilar jafnt söngvum sem endalausum snjallyrðum hans áreynslulaust til áhorfenda. Glæsileg frammistaða. Af öðrum finnst mér rétt að nefna Bjarka Þór Guðmundsson sem var stórfínn Ranúr bestivinur, Sigríði Hrund Snorradóttur sem var skemmtileg Halla bestavinkona og Sylvíu Rún Ómarsdóttur sem var Linda, draumadísin sem sér “glampa á gullið í drengnum” en telur það síðar vera glópagull eitt. Það er vel þess virði að eyða kvöldinu með Ormi, þessum illþolandi gullmola sem telur sig vera frá annari plánetu og virðist stundum hafa nokkuð til síns máls.

miðvikudagur, apríl 04, 2001

Glórulaus

Sauðkindin, leikfélag Menntaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs 4. apríl 2001

Leikstjóri: Gunnar Hanson
Byggt á kvikmyndinni Clueless eftir Amy Heckerling og skáldsögunni Emmu eftir Jane Austen.
Leikendur: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Arnar Ingi Richardsson, Ásgerður Drífa Stefánsdóttir, Guðlaug Björk Eiríksdóttir, Hans Aðalsteinn gunnarsson, Hjálmar Ásbjörnsson, Hrebbna Þórisdóttir, Jóhann V. Gíslason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Lilja Kristín Ólafsdóttir, María Rut Beck, Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, Rannveig Alda Haraldsdóttir, Sandra Björg Stefánsdóttir, Sara Valný Sigurjónsdóttir, Sverrir Árnason, Tinna Eiríksdóttir, Þóra K. Kristinsdóttir og Þórður Ingi Guðmundsson.


Víst er glóra

AÐALPERSÓNUR Glórulaus eru sjálfsuppteknar, þröngsýnar, fordómafullar, grunnhyggnar, fáfróðar, hrokafullar, yfirborðskenndar. Og algerlega ómótstæðilegar. Í þessar andstæður sækir verkið skemmtilegheitin og fjörið, sem nóg er af í sýningu Sauðkindarinnar.

Sýningin er byggð á bandarískri kvikmynd, Clueless, sem aftur er byggð á skáldsögu Jane Austen, Emmu, sem einnig hefur verið kvikmynduð. Það er að vísu orðið nokkuð langt síðan ég sá Clueless og sögu Austen hef ég ekki lesið, en samt er ég nokkuð viss um að handrit Kópavogskrakkanna fer ansi nálægt myndinni, þó þau vísi á söguna í leikskrá. Allavega voru kunnugleg tilsvör ansi algeng, og líklega styttra til Íslands í dag úr heimi ríkramannabarna í Los Angeles en enskrar yfirstéttar á dögum Austen.

Ofurgellan Ellý og vinkonan Diddú eru vinsælustu og hamingjusömustu stúlkurnar í Versló. Þær taka upp á arma sína hina lúðalegu og norðfirsku Tönju með það að göfugu markmiði að gera hana jafn hamingjusama og vinsæla og þær eru. En lífið er ekki alveg eins einfalt og þær hafa fyrir satt, sem betur fer og Ellý lærir og þroskast á leiðinni gegnum verkið, enda enginn hálfviti.

Að láta verkið gerast í Versló er jafn fyndið og það er áreiðanlega ósanngjarnt gagnvart Verslingum, en það verður að hafa það. Annars gengur staðfærslan auðvitað misvel upp, sumt algerlega, annað síður.

Glórulaus minnir reyndar meira á annan enskan snilling en Jane Austen. Hin endalausa runa af "einlínum", hnyttnum setningum sem persónurnar dæla út úr sér og eiga að tjá sjálfsöryggi og traust tök á tilverunni minnir einna mest á Oscar Wilde, Og líkt og hjá honum eru það einmitt þessar setningar sem afhjúpa persónurnar, eru fyndnar bæði vegna þess að þær eru vel orðaðar og af því þær opinbera okkur fráleit lífsviðhorf persónanna.

Texti af þessum toga er kannski sá erfiðasti að láta lifna í munni leikara og það tókst ekki alltaf hjá Kindinni að þessu sinni. Það er allavega algert grundvallaratriði að greina orðaskil, sem stundum var misbrestur á. En nóg skildist til að halda uppi góðri skemmtun og segja söguna.

Það er eilífðarvandamál þess sem vill sviðsetja kvikmyndahandrit að klippitækni leikhússins stendur bíóinu nokkuð að baki. Hér fer Gunnar Hansson þá skynsamlegu leið að halda sviðsmynd í lágmarki og gefa senuskipti í skyn með allra einföldustu ráðum. Þetta gengur fullkomlega upp og skapar frábært flæði og mikinn kraft sem einkennir nánast alla sýninguna. Undir lokin dalar aðeins stuðið, enda persónurnar teknar að þroskast smá.

Ég ætla ekki að tilgreina einstaka leikara, enda er sýningin mikið hópverk. Aðalatriðið er að hún er kraftmikil, skemmtileg og þrátt fyrir glóruleysi flestra persóna hreint ekki innantóm.

sunnudagur, apríl 01, 2001

Á Svið!

Leikfélag Mosfellssveitar
Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ 1. apríl 2001

Höfundur: Rick Abbott
Þýðandi: Guðjón Ólafsson
Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir
Leikendur: Dóra Wild, Grétar Snær Hjartarson, Gunnhildur Sigurðardóttir, Harpa Svavarsdóttir, Hjalti Kristjánsson, Hrefna Vestmann, María Guðmundsdóttir, Ólafur Haraldsson, Stefán Bjarnason og Vaka Ágústsdóttir.

Fyndið fólskumorð

LEIKRIT sem skopstæla viðvaningshátt í leikhúsi eru til fjölmörg. Eins er um verk sem draga dár að hinu staðlaða breska sakamálaleikriti, með Músagildruna ódrepandi sem eilífa fyrirmynd og skotspón. Svo eru þónokkur sem reyna að gera hvorttveggja. Á svið eftir Rick Abbott verður að teljast með lítilsigldustu bræðrunum í þessari fjölskyldu. En með úthugsuðum stílbrögðum, fítonskrafti og leikgleði tekst leikhóp þeirra Mosfellinga að leiða hugann frá líflitlu verkinu og skemmta skjólstæðingum sínum ótæpilega.
Leikritið Á svið er nánast fléttulaust. Leikhópur æfir nýtt leikrit og stríðir við höfund þess sem sífellt breytir og bætir við. Að lokum sjáum við frumsýningu þess, sem fer að sjálfsögðu í handaskolun. Verkið er sundurlaust og varla hægt að segja að samskipti og afstaða persónanna þróist á nokkurn hátt, hvað þá heldur hafi áhrif á hvernig verkinu vindur fram. Leikritið í leikritinu, Hið fúla fólskumorð, er síðan eins og móðir allra sakamálaleikja; bilaðir símar, enskt yfirstéttarlið og gríðarlega flókin flétta sem gengur auk þess ekki upp.
Ingrid Jónsdóttir, sem að því ég best fæ vitað hefur ekki lagt stund á leikstjórn fyrr, fer þá leið að keyra sýninguna áfram með miklum krafti og hraða, og stílfæra síðan uppfærsluna á Hinu fúla fólskumorði út fyrir öll skynsamleg mörk. Þessi nálgun gengur algerlega upp. Krafturinn skapar spennuna sem leikritið skortir og stílfærslan er hlægileg í sjálfri sér. Ef verkið væri betra væru lætin líklega einum of mikil en hér dugar ekkert elsku mamma ef á að skemmta áhorfendum.
Allt væri þetta þó til lítils ef leikhópurinn réði ekki við verkefnið. Hér er hins vegar valinn maður í hverju rúmi sem nær að halda kraftinum til enda og skapa ótal skopleg augnablik á meðan. Vaka Ágústsdóttir var yndislega vitgrannur nýliði í hlutverki þernunnar Doris og Grétari Snæ Hjartarsyni tekst einhvernveginn að tala íslensku með enskum yfirstéttarhreim. Dóra Wild og Hrefna Vestmann voru hlægilegar vondar leikkonur, hvor með sínu lagi, og það sama má segja um Hjalta Kristjánsson og Stefán Bjarnason sem mótleikara þeirra. Harpa Svavarsdóttir var eitilharður sviðsstjóri og Ólafur Haraldsson hlægilega vanhæfur tæknimaður. María Guðmundsdóttir var síðan óborganleg sem höfundurinn, ofvirk og handóð og nóg efni í margra vikna martraðir fyrir taugaveiklaða leikstjóra á borð við þann sem Gunnhildur Sigurðardóttir gerir hér pottþétt skil.
Þrír leikaranna, Grétar Snær, Ólafur og Hjalti, grípa í hljóðfæri og skapa með því stemmningu á nokkrum stöðum og ferst öllum vel úr hendi. Auðvitað ræðst rithöfundurinn líka á píanóið á einum stað, en er sem betur fer stöðvuð fljótlega.
Það þarf hugkvæmni, hæfileika og hugrekki til að skapa svona skemmtilega sýningu úr jafn rýrum efnivið. Vonandi flykkjast bæjarbúar og aðrir í Bæjarleikhúsið til að hlægja og dást að.