þriðjudagur, mars 26, 2002

Maður og kona

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Valaskjálf, þriðjudaginn 26. mars 2002

Leikgerð Emils Thoroddsen og Indriða Waage á skáldsögu Jóns Thoroddsen.
Leikstjóri og höfundur söngtexta: Einar Rafn Haraldsson
Útsetning tónlistar: Torvald Gjerde.

Það er líf í þeim enn

ÞÓ að Maður og kona sé fráleitt jafn vinsælt viðfangsefni leiklistarfólks og það áður var lítum við samt á það sem hluta af íslenskri klassík. Okkar stutta og tiltölulega rýra leikritunarsaga hefur neytt okkur til að skilgreina hugtakið nokkuð vítt, og leikgerð Emils Thoroddsen og Indriða Waage á skáldsögu afa Emils á þar augljóslega heima, þó kannski hafi verið skrifuð markverðari og dýpri leikrit. Það var allavega kærkomið að endurnýja kynnin við þetta fólk úr veröld sem var og kemur aldrei aftur.

Ekki hef ég lesið skáldsögu Jóns, en það flaug í gegnum höfuðið á mér þegar líða fór á sýninguna hversu vel hefur tekist að ljá efninu leikritsform. Fléttan og byggingin stendur mun nær leikhúsinu en skáldsöguforminu, sýnist mér. Ókunnugum myndi líklega seint renna í grun að hér væri leikgerð skáldsögu á ferð. Þó fléttan sé dálítið lotulöng og fyrirsjáanleg þá er hún engu að síður í eðli sínu leikritsflétta. Og persónugalleríið, hinn stóri styrkur verksins, hlýtur beinlínis að æpa af blöðum sögunnar á leikræna túlkun.

Sýning Leikfélags Fljótsdalshéraðs fer í helstu atriðum hefðbundna leið að verkinu hvað varðar leikstíl og túlkun persónanna, svo og búninga og umgjörð. Hvorttveggja er afbragðsvel af hendi leyst. Sérstaklega eru kvenbúningar fallegir og leikmynd hugvitssamleg, þó skiptingar í grafarþögn séu hálfleiðinlegar þegar áhorfendur vita af prýðilegri hljómsveit bak við tjald. Öll umferð leikara um sviðið er eðlileg og áreynslulaus, en líklega þyldi verkið og græddi á ögn meiri krafti og snerpu við og við.

Að einu veigamiklu leyti velur Einar Rafn að víkja frá verkinu, hann bætir við það söngvum. Ekki er þó verið að breyta verkinu í söngleik, heldur gegna þeir fyrst og fremst því hlutverki að skapa stemmningu, og gera grein fyrir ætlun og innræti persónanna. Þetta lukkast ágætlega og lífgar upp á sýninguna. Mestur fengur er í söngvum Hjálmars Tudda, en í þeim er lengst gengið í uppbroti. Hjálmar hreinlega stígur út úr hlutverki sínu og syngur um uppruna sinn og gerir grein fyrir innræti sínu, en hverfur svo aftur inn í samankreppta og gráðuga slefberann sem hefur orðið hans hlutskipti að vera. Skemmtilega Brecht-leg hugmynd sem gengur upp í skemmtilegri túlkun Þráins Sigvaldasonar á þessari subbulegu glansrullu.

Leikhópurinn er skipaður misvönu fólki og hefur tekist dável að fá hverjum verkefni við hæfi. Sigurjón Bjarnason tekur ómennið séra Sigvalda hefðbundnum “Brynjólfskum” tökum og kemst dável frá því. Vígþór Sjafnar Zophoníasson og Julia Wramling eru elskulegir ungir elskendur. Freyja Kristjánsdóttir er sköruleg Þórdís í Hlíð og Daníel Behrend og Jónas Pétur Bjarnason skemmtilegir gleði- og ýkjumenn.

Það er greinilegt af þessari sýningu að það er líf í þessu gamla verki. Hún sameinar virðingu fyrir hefðinni og nýstárleg uppbrot á smekklegan hátt, gengur upp og skemmtir ungum sem öldnum.

laugardagur, mars 23, 2002

Upprisa holdsins

Stúdentaleikhúsið
Stúdentakjallaranum 23. mars. 2002

Höfundar: Aðalsteinn Smárason og Hildur Þórðardóttir
Leikstjóri Sigurður Eyberg Jóhannesson

Tveggja penna tal

FORSAGA sýningar Stúdentaleikhússins að þessu sinni er harla óvenjuleg. Haldin var leikritasamkeppni, en að lokum tókst dómnefnd ekki að komast að niðurstöðu um einn sigurvegara, heldur stóðu tvö handrit eftir. Höfundarnir þeirra eru fengnir til að vinna með leikhópnum og útkoman er Upprisa holdsins, sýning byggð á tveimur handritum sem geta af sér hið þriðja.

Eins og nærri má geta er Upprisan æði brotakennd sýning. Rauði þráðurinn, eina sýnilega fléttan, er þjóðsagnakennd saga af tveimur prestdætrum og tilraunum annarrar þeirra til að fleka vinnumanninn, en forverar hans hafa farist á voveiflegan hátt hver af öðrum. Innanum og saman við getur síðan að líta revíukennd atriði úr stjórnmála- og hugmyndasögu Vesturlanda á síðustu öld. Þar ægir öllu saman; Þórbergur Þórðarson fer á fjörurnar við Guð, Fidel Castro verður forseti Íslands að undirlagi Sjálfstæðisflokksins, helför gyðinga verður að grótesku gríni. Þriðji vinkillin er síðan sögumaður eða kannski öllu heldur málpípa sem heldur þrumandi ræður um ástand heimsins, stríð gegn hryðjuverkum, alþjóðavæðingu, spillingu og annað böl sem er ofarlega í hugum margra nú um stundir.

Það er vandasamt að setja saman sýningu af þessu tagi. Hægt er að fara þá leið að láta atriðin kallast á, láta eitt atriði leiða af öðru, tengjast eða mynda andstæður og spennu. Einnig má ganga alla leið í hina áttina og gera hvert atriði að örverki með upphafi, miðju og endi, merkingarbærum bút í sjálfum sér. Að vissu leyti fellur Upprisa holdsins milli þessara tveggja stóla. Engan greinanlegan þráð er að finna ef undan er skilin þjóðsagan, sem er snertipunktalaus við önnur atriði, og fæst atriðin ná að verða sterk í sjálfum sér.

Það er síðan aðdáunarvert hvað hópurinn skilar þessu brotkennda verki af miklum sannfæringarkrafti. Sýningin nær að vera fáguð og gróf í senn og engir dauðir punktar í leikrænni útfærslu efnisins. Sigurður Eyberg skilar því ágætu verki, þó hann hefði reyndar að ósekju mátt hnippa í nokkra þá óskýrmæltustu. Leiklega er hún sterk, eins og við var að búast og nokkur atriði verða eftirminnileg: samskipti tannlæknis og Goth-stelpu, valdarán Che Guevara í glugganum og eftirmálar þess, hin vergjarna Bergþóra á höttunum eftir sauðamanninum dularfulla. Yfirgengilega ósmekklegt nasistagrínið þótti undirrituðum dálítið sniðugt, en gat einhvern veginn ekki alveg bægt burtu hugsuninni: “má þetta?”. Predikun málpípunar var síðan pirrandi, eins og predikun í leikhúsi alltaf er, ekki síst þegar vel er messað og skörulega eins og hér er raunin.

Stúdentaleikhúsið er öflugt leikhús þessi misserin og hefur á að skipa hæfileikaríkri áhöfn sem tekur starfsemina bersýnilega alvarlega. Með Upprisu holdsins gera þau djarfa tilraun sem, eins og títt er með tilraunir, heppnast ekki fullkomlega. Sú reynsla fer í sarpinn hjá Stúdentaleikhúsinu og það er hreint engin tímasóun að mæta í Stúdentakjallaranum og deila henni með þeim.

föstudagur, mars 22, 2002

Vígsluvottorðið

Leikfélag Siglufjarðar
22. mars 2002.

Höfundur: Efraim Kishon.
Þýðandi: Árni Bergmann.
Leikstjóri: Linda María Ásgeirsdóttir.

Leikendur: Bogi Kristjánsson, Hanna Björnsdóttir, Páll Þorvaldsson,Sigurður Hlöðvesson, Soffía Arnardóttir og Sólveig Halla Kjartansdóttir.

Ævi og ástir pípulagningamanns

EF ekki kæmi til kollhúfur og tal um samyrkjubú væri auðvelt að ímynda sér að Vígsluvottorðið væri danskt leikrit. Hin hlýja og elskulega skoptóntegund sem Efraim Kishon syngur í fer ansi nærri þeirri sem oft er að finna í verkum frá því landi, en sjálfur er hann er hins vegar ungverskur að uppruna, býr nú í Sviss, en verk hans gerast í Ísrael, þar sem hann bjó lengst af.

Í Vígsluvottorðinu kynnumst við píparanum Daníel Brozowsky og fjölskyldu hans. Hjónaband hans og Ellu er fyrir löngu fallið í farveg hverdagsleikans, en þegar dóttirin Vicky ætlar að gifta sig heimtar tengdamóðirin tilvonandi að sjá vígsluvottorð foreldra hennar. Það finnst hvergi, og þau hjónin hálfminnir reyndar að ef til vill hafi þau aldrei komið því formsatriði í verk að ganga fyrir rabbía, enda hvorugt sérlega trúhneigt. En við þessa uppgötvun fer að hrikta í hversdagsstoðunum. Vill Ella giftast þeim heimilisharðstjóra sem Daníel er orðinn? Getur hann og vill breyta sér aftur í mann sem Ella hefur áhuga á? Um þetta snýst þetta ágæta leikrit, sem er bráðskemmtilegt og sækir fyndnina ekki í fíflalæti, orðaleiki eða misskilning, heldur í grínaktukt sjónarhorn Kishons á brölt venjulegs fólks við að lifa lífinu. Verkið er kjörið viðfangsefni sem óhætt er að mæla með að forsprakkar fleiri leikfélaga gefi gaum. Hér sannast það, sem við vitum auðvitað öll, að venjulegt fólk í austurlöndum nær er merkilega lítið frábrugðið bræðrum sínum og systrum á Siglufirði.

Leikstjóri verksins er heimamaður, Linda María Ásgeirsdóttir, og er þetta frumraun hennar við uppsetningu heils kvölds verks. Óhætt er að segja að hún komist dável frá þeirri eldskírn og úr verður bráðskemmtileg kvöldstund. Umgjörðin er afar nostursamleg stofa, sem gæti eins verið íslensk og ísraelsk. Hreyfiferli er lipurt og þó leikarar séu auðsjáanlega mis-sviðsvanir þá skila þeir allir skýrum persónum. Það sem helst má að sýningunni finna er að hún mætti að ósekju þéttast nokkuð. Hvort sem um er að kenna óöryggi í textakunnáttu eða ónógri eftirfylgju leikstjórans þá virðast leikarar óþarflega oft þurfa að hugsa sig um áður en setningar falla. Þetta kemur nokkuð niður á kraftinum í sýningunni, en mun vafalaust lagast eftir því sem líður á sýningartímann.

Af leikendum hvílir mest á Sigurði Hlöðvessyni og Sólveigu Höllu Kjartansdóttur í hlutverkum Daníels og Ellu, en það eru einnig bitastæðustu hlutverkin. Samleikur þeirra er aldeilis ágætur, þau eru bæði trúverðug og skemmtileg, og ná einnig bæði að eignast samúð okkar. Við hlægjum að reigingslegri karlrembunni í Daníel, en finnum einnig til með honum í vandræðum hans við að komast fram hjá henni og nálgast langþreytta konu sína á ný.

Það er mikilvægur áfangi hjá hverju leikfélagi að eignast leikstjórnarreynslu og þekkingu innan félagsins. Það stælir metnaðinn, eykur möguleikana á fjölbreyttu starfi og hjálpar félaginu að fá það besta út úr aðkeyptum leikstjórum. Ég óska Leikfélagi Siglufjarðar til hamingju með Lindu Maríu.

Gísl

Leikfélag Hornafjarðar
Mánagarði 12. mars 2002

Höfundur: Brendan Behan
Þýðandi: Jónas Árnason
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Afmælissýning í Hornafirði

SÝNING Leikfélags Hornafjarðar á Gísl eftir Brendan Behan er sett á svið í tilefni af fjörutíu ára afmæli félagsins. Það er allnokkur starfsaldur hjá einu leikfélagi og ástæða til að óska félaginu til hamingju með áfangann.

Gísl hefur orðið vinsælt viðfangsefni meðal leikfélaga okkar, og kemur þar margt til. Fyrst og fremst er verkið auðvitað bráðskemmtilegt, fullt af dýrðlegum söngvum, og svo er þýðandinn náttúrulega ástmögur íslenskra áhugaleikara, Jónas Árnason, sem setur sinn elskulega svip á textann. Verkið greinir frá nokkrum örlagaríkum klukkustundum í lífi írsks neðanmálsfólks sem lendir í miðju vitskerta (eða vitgrannra, eins og verkið gefur í skyn) illdeilna Englendinga og írska lýðveldishersins. Atburðarásin hverfist um enskan hermann sem tekinn er í gíslingu og komið fyrir í leiguhjalli sem hýsir söguhetjurnar. Góð kynni takast með íbúunum og gíslinum milli þess sem er þrasað, drukkið, hórast og sungið. En alvara lífsins lætur ekki hlægja sig í burtu, eins og IRA-maðurinn Behan vissi vel, enda kaus hann að drekka sig út úr heiminum, fyrst óeiginlega síðan bókstaflega.

Sýning Hornfirðinga hefur ýmislegt sér til ágætis. Félagið býr að prýðilegum kröftum á ýmsum sviðum. Leikmyndin er verulega vel heppnuð, og tókst í senn að gefa í skyn að húsið væri rétt fokhelt og að hruni komið. Hljómsveitin var ánægjulega írsk með sína tinflautu og mandólín. Ýmsir leikarar eiga góðan dag. Þó verð ég að segja að sá áhrifamáttur sem í verkinu býr nær ekki að blómstra til fulls og verður það að skrifast á reikning leikstjóra. Hann hefur kosið að leggja rækt við og skreyta hið furðulega samfélag sem þarna er saman komið, en gengur að mínu viti of langt í gríninu og missir jarðsambandið. Á köflum eru uppátækin svo afkáraleg að það skyggir á mannlýsingar verksins, skrumskælir þær úr hófi. Enda kemur í ljós að það eru raunsæislegustu mannlýsingarnar sem skila mestum hlátrinum, þau Kristín Gestsdóttir og Ingvar Þórðarson sem Pat og Meg. Kristín er oft óborganleg og í söngnum um páskauppreisnina nær hún inn að kvikunni, sem að öðru leyti er alltof djúpt á. Sigurður Kr. Sigurðsson sem hinn elliæri Monsjúr og Margrét Jóhannesdóttir í hlutverki offiserans gefa síðan skemmtileg dæmi um hvernig hægt er að skopfæra án þess að afskræma. Þrúðmar Kárin Ragnarsson og Þóra Kristín Ludwigsdóttir eru gíslinn og þjónustustúlkan sem ná saman þessa örlaganótt. Eftir dálítinn frumsýningarskjálfta í byrjun urðu þau trúverðug og hefðu náð að hreyfa betur við manni ef sýningin hefði tekið örlög þeirra alvarlegar.

Það má vissulega hafa skemmtun af sýningu Leikfélags Hornafjarðar á Gísl, enda er leikurinn greinilega til þess gerður. En sem túlkun á verkinu er hún of einhliða, það á að skemmta manni hvað sem það kostar. Og það kostar of mikið, finnst mér.

mánudagur, mars 18, 2002

Rocky Horror Show

Leikhópur Verkmennataskólans á Akureyri
Ketilhúsinu á Akureyri 18. mars 2002

Höfundur: Richard O’Brien
Þýðandi: Veturliði Guðnason
Leikstjóri: Þorsteinn Bachmann

Hryllingur, kynórar og rokk

EINKENNILEGUR kokteill, Rocky Horror. Háðsk ástarjátning til þriðja flokks hryllings- og vísindaskáldskaparkvikmynda, rokktónlistar og klæðskiptinga. Allt efnið er meðhöndlað í gamansamri fjarlægð, en samt leynir væntumþykja höfundar á viðfangsefninu sér ekki. Til að kokkteillinn hrífi þurfa aðstandendur sýningar á Rocky Horror að ganga þetta sama einstigi. Vera einlægir og fjarlægir í senn.

Að sumu leyti tekst jafnvægislistin ágætlega í sýningu Verkmenntaskólans á Akureyri. Hún hefur grófgert yfirbragð B-myndanna, er ekki “kóreógraferuð” út í ystu æsar, leikmynd, búningar og leikmunir skemmtilega “ódýrir”. Sönglega er hún afbragð, allir aðalleikaranna fara með númerin sín eins og þaulreyndir rokkhundar. Leiklega er hún köflótt eins og við er að búast í svo stórum hópi lítt reyndra leikara. Alltaf þó ágæt skemmtun.

Þó Rocky Horror sé galgopalegt og alvörulaust verk þá er það í raun mjög heilsteypt, og hvílir á fyrirmyndum sínum, B-myndum og rokki. Þorsteinn Bachmann hefur sem höfundur sýningarinnar gert nokkrar breytingar á verkinu og það verður að segjast að þar er hann á hálum ís. Sú ákvörðun til dæmis að leggja texta sögumanns í munn partístúlkunnar Columbiu gerir ekkert annað en að rugla áhorfendur í ríminu. Nær hefði verið að sleppa honum alveg, enda bætir hann engu við nema gríninu sem felst í hátíðlegum og siðavöndum texanum úr munni hátíðlegs og siðavands sögumanns. Eins er með persónu Dr. Scott. O’Brien skopast með þá klisju að brjálaðir vísindamenn séu af þýskum ættum og hafi vafasama fortíð, en að gera Scott að Adolf sjálfum drepur öllu gamni á dreif. Þessar og fleiri hugmyndir geta virst skemmtilegar þegar þær kvikna, en þegar augljóst er orðið að þær þjóna ekki markmiðum sýningarinnar og vinna gegn áhrifamætti verksins er eina vitið að henda þeim.

Tónlistarflutningur var að mestu til fyrirmyndar, en þar virtist líka vera löngun til að sprengja rammann, láta ekki rokkklisjurnar nægja. Það gafst ekki vel, það er nefnilega ramminn sem er aðalkostur Rocky Horror, eina ástæða þess að verkið er þess virði að setja það á svið.

Það er mikil áskorun fyrir hvern leikara að smeygja sér í háhælaða skó Frank’N Further. Sigursveinn Þór Árnason var prýðilegur höfuðpaur, söng frábærlega og skapaði heilsteypta skrípamynd. Nokkuð vantaði upp á að nægilegri ógn stafaði af höfuðpaurnum, en þar er allt eins við mótleikarana og leikstjórann að sakast, til að leika kónginn þurfa aðrir að haga sér eins og hann sé kóngur. Af öðrum leikurum þótti mér mest koma til Sunnu Valgerðardóttur sem var afar skemmtileg Columbia og fór vel með sögumannstextann þó hann ætti illa heima hjá henni. Þá var þjónninn og kroppinbakurinn Riff Raff flottur hjá Stefáni Jakobssyni sem auk þess er þrususöngvari. Í raun mætti nefna alla leikarana, og hrósa þeim fyrir að skapa skýrar persónur og vera bráðskemmtilegir. Það er þeirra verk að gera þessa frumraun VMA í söngleikjabransanum að þeirri prýðisskemmtun sem hún er, þrátt fyrir þær blindgötur sem hún ratar annað slagið í.

laugardagur, mars 16, 2002

Hárið

Leikhópur nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 16. mars 2002

Höfundar: Gerome Ragni og James Rado
Tónlist: Galt MacDermot
Þýðing: Davíð Þór Jónsson
Leikgerð Baltasars Kormáks byggð á verkinu og kvikmyndahandriti Michael Weller
Leikstjóri: Ari Matthíasson
Danshöfundur: Selma Björnsdóttir
Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Tíðarandi í aðalhlutverki

ÞAÐ er auðvelt að gleyma því þegar horft er á hverja glæsisýninguna af annarri í framhaldsskólunum að hin tæknilega fullkomnun á sviði umgjarðar, tónlistar og dans er ekki sjálfsögð, heldur ber vitni metnaði og þrotlausri vinnu aðstenda sýninganna. En svo útbreiddur er þessi hái standard orðinn að þetta vill gleymast.

Það skal játað að þessi kvöldstund í Garðabænum voru fyrstu kynni undirritaðs af hinum fræga hippasöngleik Hárinu, og ekki get ég sagt að verkið hafi hrifið mig mjög við fyrstu sýn. Það er eins og höfundarnir hafi haldið að til að lýsa tíðaranda á leiksviði sé best að gera tíðarandann að helstu, og nánast einu persónu verksins. Atburðarás er nánast engin, persónurnar grunnar, átök varla fyrir hendi, samtölin flatneskjan ein. Enda varð leikhópnum ekki mikill matur úr hinum stuttu og ómarkvissu leikatriðum milli söngnúmera. Það gerði hins vegar lítið til, því tónlistaratriðin eru uppistaða verksins og þau lifðu svo sannarlega. Kom þar bæði til að söngur var undantekningalaust frábær (að vísu skildist óþarflega lítill texti) og hreyfingar óaðfinnanlegar. Sum tónlistaratriðin náðu reyndar að verða litlar stílfærðar leiksýningar, sem mér finnst alltaf mest gaman þegar tekst í söngleikjum. Selma kann líka þá list að nota kyrrstöðuna, eins og sást í áhrifamiklu lokanúmerinu. Leikmyndin er einföld eins og óhjákvæmilegt við þessar tilteknu aðstæður (hátíðarsalur skólans), búningar réttir, ljós og hljóð pottþétt.

Af leikhópnum mæðir mest á hippaklíkunni og sveitalubbanum sem dregst inn í hana eftir því sem líður á verkið. Það er ástæðulaust að gera upp á milli þeirra Ölmu Guðmundsdóttur, Margrétar Hildar Guðmundsdóttur, Thelmu Hrannar Sigurdórsdóttur, Ingólfs Þórs Péturssonar, Birgis Más Björnssonar, Davíðs Smára Harðarsonar og Guðmundar Orra Sævarssonar. Öll með kraftmikla sviðsnærveru og höfðu hlutverkin sín valdi sínu, þó lítið yrði úr dramatískri spennu eins og áður sagði. Og sungu náttúrulega hvert öðru betur. Af öðrum leikurum situr trúlega lengst í minni Sara Blandon sem gerði mannshvarfssöngnum um Frank Mills firnafalleg skil.

Sýning Fjölbrautaskólans í Garðabæ á Hárinu stenst hvað varðar tónlist, dans og umgjörð samanburð við hvaða sýningu sem vera skal á íslenskum fjölum um þessar mundir. Fyrir það verðskulda þau svo sannarlega að áhorfendur rísi úr sætum sínum eins og þeir gerðu á sýningunni á laugardagskvöldið. Það þarf að klípa sig í handlegginn til að muna að þetta var “bara” framhaldsskólasýning.

föstudagur, mars 15, 2002

Söngleikurinn Grettir

Leikfélag Keflavíkur og Vox Arena
Frumleikhúsinu í Keflavík 15. mars 2002

Höfundar: Egill Ólafsson, Ólafur Haukur Símonarson og Þórarinn Eldjárn
Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson
Tónlistarstjórn: Júlíus Freyr Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson

Ris og fall í Breiðholtinu

SÖNGLEIKURINN Grettir virðist ætla að hafa það af að verða sígilt viðfangsefni íslenskra leikfélaga. Þrátt fyrir lausungina í fléttunni og nykrað sambandið við Grettissögu hefur hann stór tromp á hendi; frábæra tónlist frá Agli á hinu frjóa þursaskeiði og tvo fyndnustu penna landsins, þá Ólaf og Þórarinn. Tónlistin er þó stærsta skrautfjöðrin að mínu mati, vísar í allar áttir, sækir áhrifamátt á ótal staði og framundan rokkinu gægjast þeir fimmundasöngur og víkivaki.

Hér segir frá Breiðhyltingnum Gretti, aula sem fyrir áeggjan draumadísarinnar lendir í fangelsi en losnar þaðan til að verða sjónvarpsstjarna í sápuóperu um nafna sinn úr fornsögunum. En hver Grettir á sér sinn Glám og viðureignin við hann gerir hann ljósfælinn með afbrigðum; einkar óheppilegt ofnæmi fyrir ljósvakaleikara.

Það er margt gott um sviðsetningu (og frumraun) Jóns Páls Eyjólfssonar að segja. Hann er greinilega myndvís mjög, leikmyndin sem er einnig hans verk er bæði einföld og flott. Hurðirnar stóru eru snilldarbragð og margar uppstillingar eru glæsilegar og límast í heilabörkinn. Ásmundur á klóinu, gengið í sjoppunni, svo tvær séu nefndar. Hins vegar hefði mátt leggja meiri rækt við hóp- og söngatriði og skapa meiri hreyfingu á sviðinu. Sýningin hefur tilhneigingu til að verða dálítið kyrrstæð. Þetta verður til að draga nokkuð úr kraftinum sem þarf að vera til staðar til að fleyta henni áfram. Þetta þarf ekki að vera spurning um stórkostlega pottþétt dansnúmer heldur einfaldlega að virkja hópinn meira, verkið bíður enda upp á léttúð og að allt sé látið flakka. Eins er með sönginn, hann var, með einstaka undantekningum, eiginlega óþarflega áreynslulaus. Kannski væri ráð að skrúfa aðeins niður í hljóðnemunum og láta leikarana hafa aðeins meira fyrir hlutunum!

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að sýningin er bæði skemmtileg og frambærilega leikin og sungin. Mikið mæðir að sjálfsögðu á Jóhanni Má Smárasyni í titilhlutverkinu, en hann er eins og sniðinn í það, sérstaklega framan af meðan Grettir er ennþá væskilsstrákur. Berglind Ásgeirsdóttir er sannkallað “femme fatale” sem draumadísin Sigga. Burkni Birkisson á marga snilldartakta í ótal hlutverkum, ekki síst sem Tarsan apabróðir (Já, merkilegt nokk, hann kemur við Grettis-sögu!). Jón Marinó Sigurðarson er bráðgóður Ásmundur og Sandra Þorsteinsdóttir er skemmtileg sem systirin Gullauga og söngur hennar dæmi um kraftinn sem þyrfti að einkenna öll númerin.

Grettir í Keflavík er flott sýning. Einfaldar lausnir, skýrar myndir og pottþétt tónlist einkenna hana öðru fremur. Með betur útfærðri traffík á sviðinu og meiri krafti væri hún ómótstæðileg. Samstarf leikfélaganna tveggja verður að teljast efnilegt mjög.

laugardagur, mars 09, 2002

Þrek og tár

Leikfélag Hörgdæla
Félagsheimilið Melar, Hörgárdal laugardagurinn 9. mars, 2002

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Saga Jónsdóttir

Meira þrek en tár

ÞAÐ er ekki laust við að efasemdir láti á sér kræla í huga manns þegar sest er niður í salnum á Melum. Er virkilega svigrúm til að sviðsetja nostalgíumósaík Ólafs Hauks þarna? En það hefur tekist merkilega vel í snyrtilegri sviðsetningu Sögu Jónsdóttur.

Þrek og tár segir frá tónelskri kaupmannsfjölskyldu á sjöunda áratugnum í Reykjavík og fólkinu í kringum hana, vel blandaður kokkteill af tónlist og tali, gríni og gráti. Mörgum sögum vindur fram, ótal örlög ráðast. Þungamiðjan eru þó ólík örlög þeirra systrasyna Davíðs og Gunna Gæ og glíma föður Davíðs við sjálfan sig og framtíðardrauma sína. Yfir öllu vakir síðan Jóhann kaupmaður, sem situr á völtum friðarstóli í ellinni eftir umbrotasamt líf. Fortíðardraugar hans eru ekki eins vel niðurkveðnir og hann vildi vera láta og gera jafnan vart við sig þegar tilfinningahitinn hækkar.

Verk af þessu tagi reynir á fjölmarga þætti í hæfileikasafni eins leikfélags. Það þarf sterka leikara sem einnig geta sungið og dansað, tónlistarmenn til að annast undirleikinn, útsjónarsamt búninga- og leikmunafólk til að endurskapa fortíðina og svo náttúrulega leikstjóra sem megnar að halda í alla þræði í senn og vefa litríkt tjald úr öllu saman.

Saga Jónsdóttir hefur valið þá leið að undirstrika húmorinn sem nóg er af í verkinu og nýta þannig hæfileika leikaranna á því sviði. Enda er sýningin hin mesta skemmtun þegar léttast er yfir henni. Á hinn bóginn verður óneitanlega dálítil slagsíða á henni fyrir vikið, fortíðarskuggarnir og hörmungar sem yfir dynja ná ekki áhrifamætti sínum þegar illa gengur að hemja galgopaskapinn. Það er viðkvæmur línudans að skila báðum hliðum verksins, og hér hverfa tárin nokkuð í skugga þreklegra skoptakta.

Undantekning þessa vanda eru tveir aðalleikendanna, þau Ívar Örn Björnsson sem leikur Davíð og Fanney Valsdóttir sem Helga móðir hans. Þau ná að hvíla fallega í sínum hlutverkum og gera með því örlög sín aðgengileg áhorfendum. Auðvitað nýtast síðan skoptaktar og -hæfileikar margra dáindisvel. Nefna mætti Þórð Steindórsson sem var kostulegur sem fálkaorðuriddarinn Hallur Fengel og Sigurð B. Sverrisson í hlutverki Gunna Gæ, tugthússlims, kanakróga og ógæfumanns. Sigurður fór síðan, ásamt Ingu Berglindi Birgisdóttur, fremstur í flokki lipurra dansara, en dansatriði voru ágætlega heppnuð. Reyndar kemur fram í leikskrá að félagið hefur staðið fyrir dansnámskeiðum undanfarið, sem ég veit ekki til að leikfélög geri mikið af en er til fyrirmyndar og skilar auðsjáanlega árangri.

Þrek og tár hjá Leikfélagi Hörgdæla er prýðisskemtun, kraftmikil uppfærsla á skemmtilegu verki.Það næst oft að kitla hláturtaugarnar á Melum, þó vasaklúturinn hefði að ósekju mátt vökna oftar og meira.

sunnudagur, mars 03, 2002

Jesús Kristur Súperstjarna

Börn, unglingar og fleiri í Bústaðahverfi
Bústaðakirkju sunnudaginn 3. mars 2002

Tónlist: Andrew Lloyd Webber
Texti: Tim Rice
Þýðing: Hannes Örn Blandon og Emilía Baldursdóttir
Leikgerð og Leikstjórn: Sigrún Sól Ólafsdóttir
Hljómsveitarstjóri: Pálmi Sigurhjartarson
Söngstjóri: Jóhanna Þórhallsdóttir
Búningar: Gyða Jónsdóttir
Dansar: Cameron Corbett

Grettistak í Bústaðakirkju

ÞAÐ er ekki annað hægt en að dást að metnaði og vinnusemi þeirri sem unglingarnir í Bústaðakirkju hafa lagt í uppfærslu sína á söngleiknum Jesús Kristur Súperstjarna, eins og þau kjósa að kalla hann. Tónlistarflutningur, búningar, til allra hluta er vandað umfram það sem ætlast mætti til, og gríðarstór hópurinn siglir í gegnum sýninguna af að því er virðist áreynslulausu öryggi. Það er engu líkara en þar fari þaulvant fólk á þessu sviði.

Sviðsetningin er líka nokkuð lipur hjá Sigrúnu Sól, einfaldleikinn ræður ríkjum og nokkrar sterkar myndir setja svip á sýninguna og verða eftirminnilegar, Júdas að klifra upp kaðal til að þiggja sitt silfur, Kristur gengur húðstrýktur gegnum mannmergðina, svo tvær séu nefndar.

Verkið hefur verið stytt um trúlega helming og það hefur ekki tekist nógu vel. Sem betur fer er atburðarásin alþekkt, ellegar hefði mátt klóra sér talsvert í hausnum yfir viðburðum á sviðinu. Það er enda vandasamt að stytta svona “gegnumsungið” verk, því jafnframt því að halda sögunni til haga er erfitt að fórna flottustu númerunum, sem oftar en ekki fleyta sögunni lítt áfram. Tveir vondir kostir, og sjálfsagt að láta tónlistina ráða í uppfærslu sem þessari. Ég hef nú samt séð dæmi þess að hægt er að bjarga hvoru tveggja, en það tekst ekki hér.

Kannski hefur grunnhugmynd sýningarinnar þvælst eitthvað fyrir. Og hana á ég erfitt með að skilja, þá ákvörðun leikstjóra og hóps að færa verkið inn í innantóman og yfirborðskenndan heim hátísku nútímans. Tískukóngurinn JKS með sýningu sína í Jerúsalem? Eins og við mátti búast reynist þetta “konsept” svo snertipunktalaust við innihald og boðaskap sögunnar um líf og dauða Krists að eftir að hafa verið lagt upp með miklum látum í upphafi, hverfur það í skuggann af atburðunum og tónlistinni. Sem betur fer. Eftir standa búningarnir með “lógói” tískukóngsins á búningum áhangenda hans. Smart, en innihaldslaust, eins og hátískan.

En eins og áður var sagt er sýningin sigur fyrir aðstandendur sína þrátt fyrir þessa hnökra. Útgeislun Maríu Magdalenu (sem Hrafnhildur Sigurðardóttir og Sandara Dögg Björnsdóttir skiptu með sér), krafturinn í Þresti Sigurðssyni sem Heródes, Júdas Vilmundar Sveinssonar, og jesúsarnir tveir, þeir Gylfi Þór Sigurðarson og Hrafn Hjartarson. Frábær frammistaða. Raunar á allur hópurinn hólið skilið, hér hefur verið lyft Grettistaki, líklega af því enginn í hópnum hefur frétt að þetta er ekki hægt.

laugardagur, mars 02, 2002

Fríða og Dýrið

Leikfélag Mosfellssveitar
Bæjarleikhúsinu í Mosfellssveit 2. mars 2002

Byggt á teiknimynd Disney
Leikstjóri: Bjarney Lúðvíksdóttir
Tónlistarstjóri: Birgir Örn Tryggvason

Gamalt ævintýr á nýlegum belg

LEIKFÉLAG Mosfellssveitar gerir það ekki endasleppt við börnin í sinni sveit. Samkvæmt leikskrá er það stefna félagsins að sýna hið minnsta eitt barnaleikrit á hverju starfsári. Þetta er auðvitað til fyrirmyndar, sérstaklega ef litið er til þess að öflugt námskeiðahald fyrir börn hefur verið fastur liður í starfseminni um nokkurt skeið, og leikstjóri Fríðu og Dýrsins, Bjarney Lúðvíksdóttir, verið þar framarlega í flokki.

Sagan um stúlkuna Fríðu og prinsinn sem hnepptur var í álög fyrir hroka sinn en frelsast þegar hann hefur tekið út tilætlaðan tilfinningaþroska hefur farið nokkuð krókóttan veg að leiksviðinu að þessu sinni. Víðfræg teiknimyndarútfærsla Disneyfabrikkunnar hefur verið tekin og færð upp á svið. Nú hefur undirritaður ekki séð teiknimyndina og því ekki dómbær um hvort miklu eða litlu hefur verið hnikað til við þessa síðustu aðlögun. Hvort heldur sem er þá verður að segjast að handrit það sem liggur sýningunni til grundvallar er nokkuð gallað verk. Sögunni vindur hægt fram, sumir atburðir illa undirbyggðir og óþarflega miklum tíma er eytt í hliðaratburði á kostnað meginefnisins. Þannig er til að mynda mannasiðakennsla dýrsins og samdráttur þess og Fríðu afgreidd í fljótheitum, meðan miklu púðri og tíma eytt í vindbelginn Gaston, vonbiðil Fríðu, og uppátæki hans. Eins virðist tímarammi sögunnar skolast illa til undir lokin og ruglar áhorfendur í ríminu, allavega undirritaðan.

Það mæðir því mikið á leikhópnum og leikstjóranum að skemmta áhorfendum með þennan rýra efnivið. Bjarney hefur lagt upp með nokkuð ýkjulegan leikstíl, sem nýtist sumum leikaranna ágætlega til að skapa kátlegar persónur. Einna lengst komast Pétur Ragnar Pétursson og Bragi Dór Hafþórsson sem Gaston og vikapiltur hans. Þá ná Halldór Halldórsson og Vaka Ágústsdóttir góðum tökum á göldruðum innanstokksmunum á heimili Dýrsins. Í heild hefði sýningin þó grætt á skýrari heildarsvip, bæði hvað varðar leikstíl og umgjörð. Tónlistin er afar vel af hendi leyst, bæði undirleikur og söngur, sem var öruggur og fallegur.

Mest mæðir að sjálfsögðu á titilpersónunum. Guðbjörg Pálsdóttir hefur mikinn sviðsþokka og er sannfærandi Fríða, auk þess sem hún fer fremst í flokki söngkrafta. Hjalti Stefán Kristjánsson er dýrið og fer mikinn í flottu gerfi. Hann líður þó persóna mest fyrir leikgerðina, og eins fékk hann litla hjálp frá mótleikurum sínum í að skapa ógn og skelfingu. Það virðist raunar líka hlaupið í og úr með það í handritinu, hvort allir hræðast hann eður ei. Hápunkturinn, þegar álögunum er létt á síðustu stundu, var síðan afar vel útfærður, bæði hugmyndalega hjá Bjarneyju og leiklega af þeim Hjalta og Guðbjörgu.

Fríða og Dýrið hjá Leikfélagi Mosfellssveitar er viðamikið og flókið viðfangsefni sem líður fyrir gallað handrit. Þó má hafa skemmtun af, sakir kraftmikils leiks og fallegs söngs.