þriðjudagur, október 31, 2017

Risaeðlurnar

Eftir Ragnar Bragason í leikstjórn höfundar. Leikmynd: Halfdan Pedersen. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Tónlist: Mugison. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Pálmi Gestsson, Guðjón Davíð Karlsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson og María Thelma Smáradóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 20. október 2017, skrifað um 3. sýningu 27. október 2017.

Fulltrúar lands og þjóðar

Þessa dagana ómar stjórnmálaþras í eyrum okkar og höfði. Þá rifjast upp að þegar frambjóðendur sem vilja breyta forgangsröðinni eru krafðir svara um hvað megi skera niður í ríkisútgjöldum er utanríkisþjónustan næstum alltaf það fyrsta sem nefnt er. Sem er ekkert skrítið. Sendiráðin í huga okkar, sem þekkjum þar ekkert til, eru ekki svo frábrugðin þeim sem Ragnar Bragason hefur hugsað upp og sett á svið í Þjóðleikhúsinu núna í haust. Auðvitað ekki alveg svona gegndarlaust glórulaus, en samt.

Það er nú meira pakkið sem er fulltrúar okkar í Washington. Elliði sendiherra er graðkall af gamla skólanum, og hefur tekist að halda þjóðrembuárunni ótrúlega hreinni þrátt fyrir að hafa eytt starfsævinni í stórborgum heimsins, með Jónas og Einar Ben sem sínar stoðir og styttur. Frú Ágústa gefur honum lítið eftir í þröngsýni og hefur fyrir löngu stirðnað í innantómum hirðsiðum atvinnugestgjafans og andlausu hannyrðabjástri. Svo eru þau auðvitað drykkfelld. Segir sig sjálft.

Ung og sjálfhverf listakona snapar sér kvöldverð í sendiherrabústaðnum, enda bætir hún það upp sem hana skortir af hæfileikum og erindi með skarpri innsýn í hvernig kaupin gerast á eyrinni. Í eftirdragi er kærastinn Albert, ósköp venjulegur strákur sem elskar hana Bríeti sína Ísold „ekki viturlega, en hóflaust“, en á að öðru leyti lítið sameiginlegt með Óþelló.

Í eldhúsinu puðar hin asíska Lí Na, eins og móðir hennar áður. Hana hafa sendiherrahjónin alið upp og „íslenskað“ þó líklega hafi hún aldrei fengið að koma „heim“. Þriðja kynslóð mun fæðast eftir fjóra mánuði. Og í garðhýsinu býr sonurinn Sveinn Elliði, sem ber syndir fjölskyldunnar.

Viss form- og efnisleg togstreita einkennir verkið og stendur áhrifamætti þess talsvert fyrir þrifum. Annars vegar er hér grimmilegur svartur gamanleikur þar sem ýmsir lestir (sjálfselska, þjóðhverfa, losti og græðgi) eru ýktir og þeir sem þá bera dregnir sundur og saman í háði. Hins vegar er drifkraftur Risaeðlanna af ætt fjölskyldu- og stofudramans, þar sem leyndarmál afhjúpast og fornar syndir kalla á uppgjör og yfirbót.

Þetta hristist ekki sérlega vel saman. Það stendur groddalegu gríninu fyrir þrifum hvað höfundi virðist liggja mikið á hjarta um spillt hugarfar þessa fólks, hvað honum virðist þrátt fyrir allt liggja mikið á hjarta. Og það ómerkir dramað hvað persónurnar eru undarlega einvíðar í þjónustu hlátursins, og hvað byggingin – framvindan – er veik og fyrirsjáanleg. Verst er samt tilfinningin að Ragnari þyki þetta fólk svo fyrirlitlegt það sé eiginlega ekki áhugavert. Það er að segja sendiherrahjónin og listakonan. Sambýlismaðurinn, húshjálpin og sonurinn eru ekki jafn mikið pakk, en fara fyrir vikið undir radar höfundarins og hverfa manni einkennalaus úr minni.

Eða myndu gera það ef leikhópurinn væri ekki svona ágætur, og leikstjórinn Ragnar yfirvegaður, ef kannski ekki beinlínis innblásinn, í útfærslu sinni á gölluðum afrakstri höfundarins Ragnars. Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson hafa náttúrulega hátt í ævistarf að baki við að lenda hláturreplikkum í hraðsoðnum grínhandritum og klikka aldrei hér, ekki frekar en í Gervahverfi eða Spaugstofunni. Pálmi gæti sennilega leikið svona hrokakallpung sofandi, og þá Edda svona hégómlega, laundrukkna sjálfsblekkingarkellingu. Þessi hlutverk gera engar merkilegar kröfur á þessa þaulreyndu kómíkera, enda klikkuðu þau aldrei. Ágústa að hringja eftir þjónustustúlkunni er einn af hápunktum sýningarinnar. Eða þá Elliði langfullur að gráta það að vera ekki sendiherra stærra lands, þegar kyngetan bregst honum á ögurstund.

Öllu eftirtektarverðara er afrek Birgittu Birgisdóttur, sem nær að sýna okkur merkilega heilsteypta sjálfhverfuprinsessu. Það eru vissulega fáir drættir í Bríet Ísold en þeir eru hér dregnir skarpt og skýrt. Bjóðandi fleðulætin gagnvart sendiherranum eru hrollvekjandi yndisleg, sem og útreiknaður kuldinn í garð unnustans sem Hallgrímur Ólafsson ljær sannfærandi hversdagsmannsþokka. María Thelma Smáradóttir fær vonandi fljótlega bitastæðara tækifæri en hina óskýru Lí Nu, því hún gerir það litla sem hún þarf að gera ákaflega vel. Hlutverk Sveins Elliða er að sönnu ákaflega vannært en Guðjón Davíð Karlsson nær samt að minna leikhúsgesti á það sem við sáum í Húsinu í fyrra, að hann ræður alveg yfir alvarlegri nærveru.

Umgjörðin öll er fagmannleg. Leikmynd Halfdans Pedersen sérlega þénug og falleg og möguleikar hringsviðstækninnar nýttir af hófstilltri fimi. Búningar sendiherrahjónanna sannfærandi hjá Filippíu I. Elísdóttur, en myndi ung og djörf listakona mæta í svona boð í svona ljótum og gamaldags kjól? Hvað veit ég? Ég veit allavega að það er bannað að láta persónur í svona raunsæislegum leikheimi fara að heiman með augljóslega tóma ferðatösku eins og hér gerist.

Að flestu öðru leyti er þessu verki sýndur allur sá fagmennskusómi sem Þjóðleikhús verður að gera. Um hitt má deila, hvaða erindi Risaeðlurnar eiga upp á stóra svið hússins. Sem gamanleikur er það ágætt en ekki leiftrandi. Sem greining á ástandi fólks og samfélags er verkið því miður einstaklega klisjulegt, einfeldningslegt og grunnt. Skotmörkin eru of auðveld, framvindan of formúlukennd, leikslokin allt of fyrirsjáanleg. Það er augljóst að Ragnari Bragasyni liggur fleira á hjarta en þörf fyrir að kitla hláturtaugarnar. En þurfum við í alvörunni allt þetta batterí til að segja okkur að langfullir þjóðrembdir kallar eru ömurlegir, konurnar sem kóa þá brjóstumkennanlegar og hæfileikasnauðir listamenn fyrirlitlegir?

Er það ekki svona sirka eins gamaldags, þunglamalegt og óhagkvæmt og, tjah, utanríkisþjónustan?



þriðjudagur, október 24, 2017

Guð blessi Ísland

Eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Sunneva Ása Weisshappel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Danshöfundur: Aðalheiður Halldórsdóttir. Tónlist: Katrín Hahner. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Sunneva Ása Weisshappel og Elín S. Gísladóttir. Myndband: Elmar Þórarinsson. Leikarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Brynhildur Guðjónsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Örn Árnason. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 20. október 2017.

Óreiðumenningin

Eins og gjarnan á sýningum Þorleifs Arnar Arnarssonar er eitt lykilaugnablik hennar utan hefðbundins sýningartíma. Í hléi rúlla fréttamyndir frá hrundögum, í kringum fall Glitnis, og rétt áður en leikarar hefjast handa á ný er þar talað við Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann bankans. Hann er harla óhress með að vera búinn að missa bankann sinn og jafnvel harðmæltari en hversdags og þegar hann er spurður hvort hann sjái einhverja sök hjá bankanum, eitthvað í framferði og stefnu sem hefði átt þátt í því hvernig fór, fer hann með hina klassísku trúarjátningu valdakalla með allt niðrum sig: að það sé óþörf og fráleit tíma- og orkusóun að horfa til baka. Auðvitað gerir hann það. Af þeirri heiðbjörtu, manni liggur við að segja helbláu, sannfæringu sem leikari í absúrdleikriti þarf alltaf að leggja í replikkurnar sínar.

Á níu ára afmæli þessa viðtals erum við enn að horfa til baka, og sér ekki fyrir endann á því verkefni. Enn er eins og hrunið hafi bæði verið rætt í kaf, krufið til mergjar, og svo á hinn bóginn alls ekki greint eða skýrt nægjanlega. Það er enn að „þvælast fyrir okkur“. Stundum erum við líklega aðeins líkari Pétri Gunnlaugssyni á sínu frægðarkorteri á blaðamannafundinum í Iðnó en við kærum okkur um að vita. Tilbúin að fullyrða og slá föstu einhverju sem byggist meira á óskhyggju og afstöðu en staðreyndum. Það er svo yfirþyrmandi mikið af þeim. Rannsóknarskýrslan er yfir 2.000 síður og segir ekki allt. Pétur fær að vera með í sýningunni, Örn Árnason fer glæsilega með korterið. Fyndið. Fyndnara en fyrirmyndin, sem er auðfundin á YouTube? Eiginlega ekki.

Hvað getur leikhúsið gert? Alltaf er það nú lykilspurningin í verkum Þorleifs og Mikaels Torfasonar, að minnsta kosti jafnfætis hverju því efni sem vinna skal úr og miðla. Hvernig nýtast möguleikar formsins, tækni leiksviðsins og aðferðir sviðslistamanna við rannsókn og framsetningu efnisins? Við því fæst auðvitað ekki endanlegt svar núna, frekar en endranær. Atriðin í þessari revíuformuðu sýningu hitta sum í mark, önnur síður. Eitt hittir þennan áhorfanda en segir sessunaut hans ekki neitt. Svo kemur nýtt. Einn hlær hér, annar þar. Þetta er Skaupið. Er þetta fyndnara eða beittara en skaupin eftir hrun? Eiginlega ekki. En dýpra? Sannara? Ég er ekki heldur viss um það.

Ég veit ekki heldur hvort það er ósanngjörn nýjabrumsgræðgi í mér að finnast sumt af aðferðunum og nálguninni sem naut sín svo vel í Njálu og Álfahöllinni ekki vinna af nægjanlegum krafti fyrir kaupinu sínu hér. Kitsuðu skrautbúningarnir hennar Sunnevu Ásu Weisshappel til dæmis. Og það hvernig leikararnir sjálfir birtast okkur meðfram persónunum sínum. Áreitisofgnótt sem stundum hellist yfir í umgjörð, leikmunum, tónlist, myndböndum og lýsingu. Og ekki síst sú gegnumgangandi afstaða að helst þurfi allt að orka tvímælis. Allt þurfi að hverfast í kaldhæðni, speglast í afstöðu leikendanna, haldast opið á einhvern hátt. Dæmi um þetta í Guð blessi Ísland er hvernig móðursýkisleg og ýkt túlkuð reiðiköst ómerkja sjálfshjálparræðu Björgúlfs Thors (eins og þess væri nú þörf). Annað er þegar Ingibjörg Kristjánsdóttir flytur sína klisjulegu fjallgöngupredikun en missir sig aftur og aftur í bræðiköst yfir hlutskipti eiginmannsins, Ólafs Kvíabryggjufanga.

Skemmtilegasta hugmyndin í sýningunni, sú sem mesta eldsneytið er í, er góðu heilli ein þeirra sem er gegnumgangandi. Lottóhugmyndin. Hvernig stöðugt er verið að draga í Lottóinu, við minnt á til hve mikils sé að vinna og gefið skemmtilega í skyn að stundum sé kannski vitlaust gefið. Einkum þó hin brilljant lína sem endurtekur sig nokkrum sinnum í ólíkum myndum: að það sé hægt að vera góður í Lottói. Að sigur í þessum leik líkindanna sé í krafti einhverra verðleika. Er trú á þessa firru kannski kjarninn í ógæfunni? Ætli mitt eftirlætisatriði í Guð blessi Ísland verði ekki hinn klaufski og augljóslega snaróheiðarlegi Ólafur Ólafsson Hilmars Guðjónssonar að stýra þessari vél.

Versta atriðið er síðan aðdragandinn að fyrrnefndri ræðu Kvíabryggjugrasekkjunnar, þegar leikhópurinn flytur tónverk sem afsökunarbeiðni til þýskra banka fyrir tap þeirra á viðskiptum við snillingana okkar. Ef maður setur upp greiningargleraugun má alveg lesa út úr því einhverja meiningu um innistæðulaust sjálfsöryggi fólks sem veit ekkert hvað það er að gera. Eða jafnvel einhverja pína banal túlkun á „falskri iðrun“. Aðallega er það samt bara leiðinlegur hávaði, blessunarlega stuttur.

Í heildina er sjónarhorn sýningarinnar merkilega þröngt. Hér er lítið sem ekkert grúskað í aðdragandanum; hinum sögulegu, hagfræðilegu eða sálrænu djúprótum hrunsins. Kannski eins gott, því mikið skelfilega er vandræðalegt að sjá montnu Kaupthinking-auglýsinguna og að þurfa enn og aftur að sitja undir eðlishyggjuþvælunni úr Ólafi Ragnari og Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Að öðru leyti erum við að mestu stödd síðustu sólarhringana í aðdraganda yfirtöku Glitnis og síðan í áfallastreitu og eftirmálunum eins og þau horfa við helstu leikmönnum. Útrásarvíkingum og svo manninum sem mætir á svæðið með goðsagnakenndum stæl undir eigin þematónlist snemma leiks.

Það er einhvern veginn allt í senn: óþolandi, óhjákvæmilegt og stórkostlegt að Davíð Oddsson skuli yfirtaka þessa sýningu eins og hann tók yfir banka óreiðumannanna. Það segir sig sjálft að það var óhjákvæmilegt. Stórkostlegt er það vegna þess hvernig bæði handritshöfundur og leikkona fara á kostum í að vinna úr efniviðnum. Óþolandi vegna þess að þrátt fyrir allt plássið sem hann tekur þá eru varla nokkur spurningarmerki sett við nokkuð sem hann segir eða gerir, alla vega ekki af neinum marktækum persónum; hér hafa allir eigið skinn að verja. Það fellur utan verkefnis sýningarinnar – Guð blessi Ísland er ekki um einkavæðingu, nýfrjálshyggju, reiðareksstefnu í eftirlitsmálum eða Eimreiðarhópinn – og svo er þetta jú hann Davíð og við vitum hvernig hann er.

Og hvílíkur Davíð! Hvernig Brynhildur Guðjónsdóttir nær í alveg hæfilega mikið af kækjum og einkennum þessa auðþekkta manns, hvernig Mikael Torfason hefur augljóslega notið þess að nostra við málsniðið, hvernig Brynhildur hefur öll völd á sviðinu þegar hún kærir sig um, dyggilega studd auðvitað af leikhópnum. Hvernig allt sem hún segir er alltaf svo augljóslega það eina rétta. Og síðast en ekki síst, þegar Davíð lætur svo lítið að ræða við leikarana sjálfa. Þar sést þó að það er enn bensín á þeirri brellu að færa til skilin milli leiks og „raunveruleiks“.

Að öðru leyti er farið hæfilega kæruleysislega og „pragmatískt“ með umbreytingu leikhópsins í þekktar persónur. Það er til dæmis dálítið fyndið hvernig Kristín Þóra Haraldsdóttir virðist nánast enga tilraun gera til að líkjast Hannesi Hólmsteini, en verður stundum talsvert lík öðrum talsmanni og varðhundi, Sean Spicer í túlkun Melissu McCarthy. Kannski útsmogin og vel útfærð vísun, mögulega samt bara tilviljun. Aðallega er aðdáunarverð samvinnuorka og sannfæring í leikhópnum og fimin við að hoppa í og úr hlutverkum, og koma þess á milli „nakin fram“ í eigin persónu leikur í höndum þeirra allra.

Þau syngja líka fallega. Mér finnst samt vanta svolítið upp á sniðugheitin í lagavali. Upphafshluti „Bohemian Rhapsody“ smellpassar auðvitað, en setur samt einhvern veginn ekkert nýtt svif á hugsanir okkar um hrunið. Við vitum vel að það orkar mjög tvímælis hvort það var „real life“ eða „fantasy“. Okkur leið – og líður sumum enn – eins og við séum „caught in a landslide“. Revíur þurfa beittari gamanvísur en þessa.

Guð blessi Ísland er kraftmikil sýning, stundum fyndin, sjaldnast hugvekjandi, fimlega leikin, útfærð og hönnuð á öllum póstum. Íburðarmikil revía sem minnir okkur á nokkur mikilsverð atriði varðandi þennan þáttaskilaatburð í Íslandssögunni, en það er lítið um nýja eða spennandi vinkla. Spurningunni um hvað leikhúsformið hefur til málanna að leggja er enn ósvarað, en atlögur Þorleifs, Mikaels og félaga þeirra að svari halda áfram að vera áhugaverðar.

þriðjudagur, október 17, 2017

Faðirinn

Eftir Florian Zeller. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Borgar Magnason. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Borgar Magnason. Leikarar: Eggert Þorleifsson, Edda Arnljótsdóttir, Harpa Arnardóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 12. október 2017.

Á útleið


„Þetta er ekkert flókið, það eru tvær manngerðir í heiminum. Annars vegar þeir sem fá sér sykur út í kaffið og svo hinir. Það sem öllu skiptir er að gera sér ljóst hvorum hópnum maður tilheyrir.“

Heimsmynd Andrés, aðalpersónu Föðurins eftir franska leikskáldið og rithöfundinn Florian Zeller, er heimsmynd verkfræðingsins. Nákvæmni, stundvísi og viðtekið stigveldi er umhugsunarlaust í hávegum haft.
Einnig stuðandi hreinskilni sem iðulega fer yfir strikið út í grimmd sem líklega er oftast ómeðvituð, en mögulega ekki alltaf. Sérstaklega í samskiptum við dótturina Anne, og sérstaklega þar sem André er að gamlast og er smátt og smátt að missa tökin, hætta að gera sér ljóst hvort hann er maður tveggja sykurmola eða ekki.

Grunnhugmynd verksins er ákaflega snjöll. Zeller nýtir sér þá staðreynd að áhorfandinn þekkir ekki þetta fólk og veit almennt ekki hvað gerist næst og setur hann í spor Andrés þar sem heimur hans liðast í sundur og fyllist af óvissu og ógnum. Þetta tekst á stundum einstaklega vel, með hrollvekjandi áhrifum. Jafnframt fylgjumst við með álaginu sem ástand Andrés og krefjandi persónuleiki leggur á hans nánustu, hvernig dóttir hans glímir við og vinnur úr bæði hversdagslegum uppákomum og tilfinningum sem samvera með André kveikja. Höfundur hefur valið að halda þeim þráðum, kringumstæðum Andrés, einföldum og dæmigerðum, þetta fólk getur staðið fyrir nánast hverja sem er í svipuðum kringumstæðum. Skiljanleg ákvörðun, en gerir verkið dálítið sviplaust og formlegt. Dæmisaga frekar en raunverulegar kringumstæður lifandi fólks með öllum sérkennum, sögu og tiktúrum sem einkenna okkur. Eðlilega hljómandi þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar kemur þessu látlausa eðli textans vel til skila.

Kristín Jóhannesdóttir vinnur gegn þessari deyfð í verkinu með ýmsum ráðum í túlkun sinni. Þeirra veigamestar eru hvernig persónurnar í kringum André eru málaðar sterkari litum en textinn virðist kalla á. Á stundum reynir um of á þanþol hans, eins og til dæmis í skoplegri tilraun Anne og sambýlismannsins til að eiga náið samneyti ofurölvi.

Harpa Arnardóttir er annars sannfærandi og kröftug í hlutverki Anne, full af spennu og óþoli í sínum erfiðu aðstæðum. Þröstur Leó Gunnarsson er einnig prýðilega trúverðugur sem Pierre, sem reynir hvað hann getur að halda sig til hlés og lúta vilja konu sinnar, en hafa jafnframt áhrif á hann.

Ýkjukennd og gleðikonuleg túlkunin á persónu heimilishjálparinnar þykir mér sérkennileg ákvörðun. Hún verður vissulega fyndin í athyglisbresti sínum hjá Eddu Arnljótsdóttur, og samleikur þeirra Hörpu þegar Anne er að átta sig á hvers konar fyrirbæri er komið inn á gólf hjá henni er skemmtilegur, en erfitt er að sjá að erindi eða áhrifamætti verksins sé þjónað með þessari túlkun. Fyrir utan að erfitt er að skilja hvað er unnið með því að fela hlutverkið ekki leikkonu á réttum aldri, en fram kemur að Laura er um þrítugt. Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson skila sínum litlu hlutverkum með sóma.

Svo virðist sem ætlun Kristínar sé að styrkja þá tilfinningu áhorfandans að hann horfi á verkið allt með augum aðalpersónunnar, líka þá hluta þar sem André er ekki á sviðinu. Það held ég sé ekki sérlega gagnleg ákvörðun. Ráðvilla Andrés þarf held ég þvert á móti að standa í skýrri andstöðu við trúverðugan, rökréttan og raunsæislega teiknaðan hversdag, til að öllum slagkraftinum í stefnumóti hans við ástand sitt sé til skila haldið.

Þessi afstaða endurspeglast í áferðarfallegri leikmynd Stígs Steinþórssonar. Hin mjög svo stofnanalega stofa sem myndar umgjörð sýningarinnar tekur breytingum eftir því sem líður á verkið, en það hversu kaldranaleg og óheimilislega uppstillt hún er frá upphafi dregur úr áhrifunum af þeim breytingum. Gerir áhrifin vitræn frekar en tilfinningaleg. Tæknilegum möguleikum veggjanna, í samspili við lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar, er aftur á móti beitt á verulega sláandi hátt áður en yfir lýkur. Tónlist Borgars Magnasonar er líka hið besta innlegg í andrúmsloftið og búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur styðja á látlausan hátt við túlkun leikenda.

Það verður síðan að segjast eins og er að tækni- og túlkunarlegar efasemdir mínar hverfa nánast algerlega í skuggann af frammistöðu aðalleikarans. Hér nær Eggert Þorleifsson að setja alla sína þrautþjálfuðu nákvæmni í tímasetningum, allt sitt glæsilega næmi í náttúrulegri meðferð texta, í þjónustu makalaust vel unninnar persónusköpunar. Hrokabrynja Andrés í byrjun, brestirnir sem smátt og smátt koma í hana uns hann stendur berskjaldaður með hana molnaða í kringum sig; allt er þetta jafn trúverðugt, sannfærandi og áhrifaríkt í meðförum Eggerts.

Fátt er eins æsandi í leikhúsi og stjörnuleikur í þessum gæðaflokki. Það er þetta sem svo margir leikhúsgestir eru komnir til að sjá. Það kemur auðvitað engum á óvart að Eggert Þorleifsson geri leikhúsið heimsóknarinnar virði. Hitt er gott að láta minna sig á, að stjörnuframmistaða og leiksigrar eru ekki bara flugeldasýningar eða afreksíþróttir. Við færumst nær persónunum. Skiljum þær betur, látum örlög þeirra okkur varða. Leikrit Florians Zeller vill með sinni snjöllu uppbyggingu gefa okkur innsýn í hugarheim sem eðli máls samkvæmt er okkur lokaður. Eggert lýkur honum upp og býður okkur inn. Það boð ættu sem flestir að þiggja.