sunnudagur, janúar 18, 2004

Chicago

Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn
Borgarleikhúsið 18. janúar 2004.

Höfundar: John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse.
Þýðing og aðlögun: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Danshöfundur: Jochen Ulrich
Ljós: Lárus Björnsson
Hljóð: Gunnar Árnason
Leikgervi: Sóley Björt Guðmundsdóttir
Kvikmyndagerð: Hákon Már Oddsson
Búningar: Elín Edda Árnadóttir
Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson.

Leikendur: Aðalheiður Halldórsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Birna Hafstein, Eggert Þorleifsson, Ellert A. Ingimundarson, Guðmundur Elías Knudsen, Steve Lorenz, Guðmundur Helgason, Guðmundur Ólafson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hanna María Karlsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Katrín Ingvadóttir, Katrín Johnson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Marta Nordal, Peter Anderson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Sveinn Geirsson, Theódór Júlíusson, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.

Séð og heyrt í Chicago

ÞÓTT ótrúlegt megi virðast þá er söngleikurinn Chicago byggður á sannsögulegum atburðum, morðmáli í samnefndri borg árið 1924 og hvernig morðingjanum tókst að snúa á réttvísina með því að spila á almenningsálitið með aðferðum sem spunameistarar nútímans væru fullsæmdir af.

Í söngleiknum segir frá Rósí Há sem dreymir um frægð en verður það á að myrða elskhuga sinn þegar hann segir henni upp. Eftir misheppnaða tilraun til að koma sök á grunnhygginn eiginmann sinn er hún ákærð, en tekst að fá hinn sjóðheita lögfræðing Billa Bé til að taka málið, en hann veit sem er að mál eins og hennar vinnast ekki í réttarsalnum heldur í fjölmiðlum. Billi hefur fleiri kúnna og kabarettstjarnan Elma Ká er hreint ekki ánægð með það að vera komin í skuggann af nýstirninu Rósí. Í heimi söngleiksins er allt til sölu og frægðin er dýrasta djásnið. En ylurinn af leifturljósum blaðamannanna er skammgóður vermir eins og Rósí kemst að þegar áhugaverðari morðingi birtist á sviðinu. Chicago er frábær söngleikur, frumlegur í forminu sem vekur jafnvel hugrenningatengsl við Brecht og nær bæði að vera mikill skemmtunarleikur og beitt ádeila á yfirborðsmennsku og siðspillingu án þess að predika. Slíkt var heldur ekki fjarri ætlun gleraugnaglámsins frá Augsburg þó hann hafi aldrei náð að verða jafn skemmtilegur og þeir Kander, Ebb og Fosse í Chicago.

Það er líklega ekki fagur vitnisburður fyrir samtíðina að hægt sé að snúa atburðum söngleiksins jafn áreynslulaust upp á Ísland í dag og Gísla Rúnari hefur tekist í frábærri þýðingu og staðfærslu verksins. Hér er Séð og Heyrt-menningin í algleymingi, frægð hvað sem hún kostar er hið dýrasta hnoss og aðgöngumiði að bæði frama og réttlæti. Gísli tekur sér stórt skáldaleyfi og hittir iðulega beint í mark með andstyggilegum skotum sínum. Og þó tónlistin sé vissulega með miklum bannára-, en þó fyrst og fremst samræmdum amerískum söngleikjakeim þá kemur það lítt að sök, sýningin heldur, og staðfærslan skilar sér bæði í beittari ádeilu og að því er virðist óþrjótandi möguleikum á skemmtilegheitum.

Reyndar er eins og allir aðstandendur sýningarinnar hafi notið þess að ausa af skálum hugkvæmni sinnar og sköpunargleði. Það á jafnt við um vinnu leikara, hönnuða búninga, ljósa og leikmyndar sem skapa sögunni viðeigandi umgjörð, sem og tónlistarstjóra, danshöfundar og leikstjóra. Það er alls ekki sjálfgefið að það borgi sig að taka þaulreynda og útpælda söngleiki jafn sjálfstæðum og ferskum tökum og hér er gert, en sú áhætta hefur margborgað sig. Samvinna Leikfélagsins og Íslenska dansflokksins virðist mér mun þéttari hér en í Sól og Mána í fyrra, dansarnir gegna stærra hlutverki í sjálfri sögunni, og skilin milli dansara og leikara eru ánægjulega óljós. Hér á Jochen Ulrich vafalaust mikinn heiður skilinn, og að svo miklu leyti sem ég hef vit á þá er höfundarverk hans bæði frumlegt og viðeigandi innan þess forms sem söngleikurinn er. Þórhildur Þorleifsdóttir er auðvitað margfaldur íslandsmeistari í stórsýningum og hennar hlutur er stór í þessari margbrotnu, frumlegu og snjöllu uppfærslu. Hér hefur hvorki verið misst sjónar á að allt þjóni heildarmyndinni né að einstakar hugmyndir fái að blómsta og listamenn að njóta sín. Notkun myndbanda er dæmi um slíka hugmynd - hér er hún sérlega viðeigandi í öllu fjölmiðlafárinu og útfærsla hennar hefur tekist prýðilega.

Það sem síðan kórónar skemmtunina er svo hin smitandi leikgleði og listræna örlæti sem einkennir leikhópinn í heild sinni. Chicago er verk sem útheimtir samhentan leikhóp, allir verða að leggjast á eitt við að segja söguna og þó nokkur hlutverkin séu viðamikil eru tækifæri fyrir marga til að blómstra. Og hér blómstra allir. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ómótstæðileg sem Rósí, illþolandi grunnhyggin þokkadís með ofþroskaða sjálfsbjargarviðleitni. Leikur, söngur, dans - allt er eins og best verður á kosið í meðförum Steinunnar. Það sama má segja um hina sjóuðu Elmu Ká hjá Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur. Kannski hefði hún þó mátt gera sér meiri mat úr sveiflunum í veraldargengi persónunnar - leyfa okkur að sjá betur hvernig hún verður að beygja sig þegar sól Rósíar rís. En persónusköpunin er heilsteypt og söng- og dansnúmerin frábær. Sveinn Geirsson er í miklum vexti sem leikari og Billi B er að því ég best veit hans viðamesta verkefni til þessa. Fyrirfram átti ég varla von á því að Sveinn hefði þá útgeislun og persónutöfra sem þarf til að sætta mann við þetta lögfræðilega afstyrmi og fylla út í svona stjörnurullu, en hann fór létt með að snúa þeirri skoðun minni. Eitthvað fannst mér ég finna fyrir áreynslu í glímu hans við tónlistina, aldrei til stórra vansa þó.

Eggert Þorleifsson fór áreynslulaust með hlutverk Adams Há, hins smáða eiginmanns Rósíar. Áreynslulaust í þeim skilningi að allt sem hann gerði var satt og grátlega hlægilegt eins og vera ber. Margrét Helga Jóhannsdóttir gerði hlutverk fangelsis- og skemmtanastjórans Mömmu Morthens (hvaðan koma honum Gísla þessar nafnahugmyndir?) algerlega að sínu og ljáði söngatriðum hennar gamaldags revíublæ sem kom skemmtilega út. Bergur Þór Ingólfsson var síðan ekkert minna en yndislegur sem sjónvarpskonan og tilfinningaklámdrottningin Marta Smart, glæsilegt dragspil og svo syngur hann eins og sóprandíva sem komin er fram yfir síðasta söludag.

Tónlistarflutningur er vel af hendi leystur og ekki að heyra að minni hljómsveit en ætlast er til komi að sök nema síður sé. Einstaka tónlistarnúmer sem vert er að minnast á eru til að mynda hinn frábæri fangelsistangó þar sem hópur morðkvenda segir sögur sínar með miklum tilþrifum, söngur Rósíar um sína björtu framtíð undir sviðsnafninu Roxý og glæsilegur tvísöngur Elmu og Mömmu Morthens um nútímalegan skort á mannasiðum. Sýningin er reyndar nokkuð löng og lækkar óneitanlega flugið í síðari hlutanum, en er samt alltaf skemmtileg og lumar stöðugt á nýjum trompum í erminni.

Chicago er stórsigur fyrir aðstandendur sína, Þórhildi, hr. Ulrich, Íslenska dansflokkinn og Leikfélag Reykjavíkur. Þegar fullur salur af góðborgurum á frumsýningu ýlfrar eins og unglingsgelgjur á Verslósjói í leikslok er verið að gera eitthvað rétt. Illa er ég svikin ef slík fagnaðarlæti verða ekki fastur liður í Borgarleikhúsinu á næstunni.

laugardagur, janúar 17, 2004

Rauðu skórnir

Leikhópurinn Rauðu skórnir
Borgarleikhúsið, litla svið 17. janúar 2004.

Leikgerð Helgu Arnalds, Hallveigar Thorlacius og fleiri á sögu H.C. Andersen.
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Brúður og leikmynd: Petr Matásek
Tónlist: Ragnhildur Gísladóttir
Lýsing: Elfar Bjarnason
Búningar: Helga Arnalds.
Leikendur: Hallveig Thorlacius, Helga Arnalds og Jón Páll Eyjólfsson.

Dansi dansi dúkkan mín

EKKERT leikhúsform er eins háð ímyndunarafli áhorfandans og brúðuleikhúsið. Fyrir vikið er fátt eins gefandi og vel heppnuð brúðuleikhússýning, því áhorfandinn veit hversu stór hans hluti er í að láta sýninguna lifna við það - það er beinlínis á hans ábyrgð að blása lífi í leikarann. Vitaskuld með dyggri hjálp brúðustjórnendanna, en hlutur áhorfenda er aldrei meiri en í brúðuleikhúsi.

Rauðu skórnir hans H. C. Andersen eru kjörið viðfangsefni fyrir brúðuleikhús að mörgu leyti. Saga sem gengur út á hreyfingu og hluti með sjálfstæðan vilja býður upp á snjallar lausnir fyrir leikhúsform sem blæs lífi í dauða hluti. Innihaldslega hefur hún kjarna sem á erindi á öllum tímum, kannski samt aldrei eins og nú; hvernig eftirsókn eftir hégóma getur leitt okkur inn í aðstæður sem við höfum enga stjórn á. Fíkn af öllu tagi og blinda á hvað skiptir raunverulega máli fær skýra táknræna meðferð í sögunni um stúlkuna sem missti stjórn á lífi sínu á vald skónna sinna sem ekki vildu hætta að dansa.

Leikhópurinn velur þá leið að segja alla söguna með látbragði. Það útheimtir talsverða einföldun, og án þekkingar á hvað gerist í sögunni er hætt við að fyrri hluti sýningarinnar valdi ruglingi - svo var allavega með mig, sem hélt að verið væri að segja sömu söguna tvisvar, sem alls ekki er raunin. Það sem einna helst verður útundan úr sögunni er hin trúarlega vídd hennar, sem hverfur nánast alveg, en er mjög miðlæg í textanum. Eftir stendur persónuleg þroskasaga sem spannar allt frá fyrstu meðvitund brúðunnar um sjálfa sig og líkama sinn þar til hún hefur þurft að fórna hluta þessa líkama til að öðlast frelsi undan afleiðingum eigin ástríðna.

Brúðan sem fer með aðalhlutverkið í Rauðu skónum er frábær smíð hjá Petr Matásek og öðlast á köflum nokkuð sannfærandi líf í höndum þeirra Helgu Arnalds og Jóns Páls Eyjólfssonar. Ekki náðist þó nægilega ótrufluð innlifun hjá áhorfendum á frumsýningunni sem stafaði að mínu viti af tilfinningu fyrir óöryggi og fumi í vinnu leikaranna. Einu sinni þurfti reyndar að stöðva sýninguna og hefja leik að nýju vegna mistaka, nokkuð sem undirritaður hefur aldrei áður séð í leikhúsi. Slík afmörkuð atvik skipta þó minna máli en tilfinningin fyrir því að leikararnir hvíli ekki í verkefni sínu sem aftur stendur í vegi fyrir því að ímyndunarafl áhorfandans geti unnið sína vinnu. Þetta sama fum einkenndi líka sviðsetninguna sjálfa og hreyfingar leikaranna í rýminu og hin glæsilega brúða, gamla konan, virtist þvælast nokkuð fyrir Hallveigu Thorlacius. Vinna með skuggaleikhús og tjald var ekki nægjanlega örugg til að ná fullum áhrifum og of oft var klaufalega staðið að því að fela hluti sem ekki máttu sjást.

Mikið af þessum aðfinnsluatriðum eiga vafalaust eftir að pússast af sýningunni. Og vitaskuld eru einstök atriði ágætlega leyst, til dæmis upphafsatriðið þar sem brúðan verður til og uppgötvar líkama sinn. Þá er öll vinna með hina mjög svo sýnilegu mekanísku umgjörð brúðunnar, og hvernig hún er látin bera hluta merkingar sýningarinnar, skýr og snjöll. Hljóðmynd Ragnhildar Gísladóttur er um margt ágæt en skil milli “laga” voru sum dálítið brött. Úr því tónlistin er undir nánast allan tímann hefði farið betur á að láta mismunandi stemningar renna hverja inn í aðra.

Það er svo sem betur fer í hápunktinum sem sýningin er sterkust. Rauðu skórnir sjálfir eru ansi hreint mögnuð smíð, og sterkasti hluti hljóðmyndarinnar er danstónlistin. Martraðarkennt Techno-afbrigðið er svo hárrétt að eiginlega skilur maður ekki annað en einmitt svona hafi Andersen hugsað sér þetta. Dans dúkkunnar er áhrifaríkt ferðalag frá gleðilegu algleymi yfir í óstöðvandi hrylling, sem nær hámarki í hrottalegri lausninni sem var jafn sláandi þrátt fyrir að auðvelt væri að sjá hana fyrir. Lokamyndin lýsir bæði kyrrð og sorg.

Það sem er lærdómsríkast við að horfa á brúðuleikhús er að uppgötva hversu tjáningarríkar brúður geta verið. Augu brúðunnar í Rauðu skónum breytast aldrei sjálf, andlitið er skorið í tré. Samt tjáir svipur hennar fyrirhafnarlaust undrun, gleði, ótta, hrylling og sársauka, kyrrð og spennu. Það er samhengið, sagan og tilfinning áhorfenda sem býr til þessa tjáningu. Og jafnvel þó fyrrgreint óöryggi standi í vegi fyrir innlifuninni náði brúðan talsverðum tökum á okkur. Þau tök munu verða sterkari eftir því sem tök þeirra þremenninga styrkjast.

föstudagur, janúar 09, 2004

Vegurinn brennur

Þjóðleikhúsið
Smíðaverkstæðið 9. janúar 2004.

Höfundur: Bjarni Jónsson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Lýsing: Páll Ragnarsson
Búningar: Margrét Sigurðardóttir og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
Leikmynd Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

Leikendur: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Hjalti Rögnvaldsson, Jóhann Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson.

Samtíminn er sápustykki

Í kynningu á Vegurinn brennur hefur nokkuð verið gert úr því að fléttan sé flókin, að tengsl sögupersónanna séu samansúrruð og erfitt að koma orðum yfir hve margvísleg þau eru. Og vissulega er farsalykt af grunnstöðunni. Bæjarstjóri með allt á hælunum og dóttir hans sem elskar kærustu eiturlyfjafíkilsins bróðursonar síns meðan kona hans og bróðir gefa hvort öðru auga. Fyrir nú utan peningana: hver á þá, hver þarf þá og hver er tilbúinn að gera hvað fyrir þá.

En Vegurinn brennur er ekki farsi og fléttunni er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að stilla upp ólíkum aðstæðum þar sem hægt er að skoða samskipti, tjáskipti og valdatafl persónanna. Flókin tengslin skila síðan þéttriðnu neti af skoðunum, viðbrögðum og fjölbreyttri afstöðu.

Stíll verksins virðist mér vera nokkurskonar upphafinn natúralismi, skerptar myndir af venjulegu fólki, þar sem athyglin beinist einkum að takmarkalítilli einstaklingshyggju, skeytingarleysi um náungann og vangetu til að skynja tilfinningar hans, nema í leit að höggstað. Vitaskuld þrífst engin ást í þessu umhverfi, hvorki rómantísk ást né milli foreldra og barna.

Einn af styrkleikum Vegarins er að þó höfundi sé augljóslega mikið niðri fyrir þá hefur hann það vald á sínum miðli að persónurnar verða aldrei málpípur. Þó þær séu allar haldnar predikunarþörf, mismikilli samt, er alltaf ljóst að þar eru á ferðinni þeirra eigin tilraunir til að höndla veruleikann, koma honum í orð, lýsa honum á þann hátt sem þær halda að komi sér best. En veruleikinn smígur einatt undan orðum þeirra eins og sápustykki úr blautum höndum. Bjarni Jónsson er hins vegar ekki að skrifa lýsingu á veruleikanum, hann er ekki í kenningarsmíði. Bjarni er ekki eiturfíkillinn Sigurður, sem í atriði sem verður að teljast byggingarlegur hápunktur verksins lýsir stóru kvikmyndahugmyndinni sinni sem reynist ekki annað en allsendis innihaldslaus fantasía hans um allsherjarlausn og almannahylli. Bjarni býður eins og vera ber upp á ríkulegt innihald en enga lausn. Hvort það er vænlegt til almannahylli skal ósagt látið.

Heppnast þetta? Að mörgu leyti. Bjarni hefur næmt eyra og mörg samtölin eru miskunarlaus endurgerð á nútíma samskiptaháttum. Persónurnar eru þrívíðar og fá allar sitt pláss í byggingu verksins. Fyrir nú utan að hve nauðsynlegt og tímabært var að skrifa einmitt svona leikrit um þessa athyglisverðu samtíð okkar.

Á hinn bóginn verður að segjast að verkið heldur ekki óskertri athygli allan tímann. Það er akkilesarhæll natúralismans að stundum er veruleikinn ekki nógu viðburðaríkur eða áhugaverður, flatneskjan of flöt. Og þegar Bjarni grípur til sterkari meðala til að hrista upp í áhorfendum sínum; kúks og piss, sifjaspella, nauðgunar og sjálfsmorðstilraunar, er ekki laust við að manni finnist púðrið hafa blotnað. Hroðalegasta senan held ég að sé þegar faðir gerir kæruleysislegt grín að einlægum hugmyndum sonar síns, sem er á batavegi eftir sjálfsvígstilraun, að því er virðist til að ganga í augun á mágkonu sinni sem hann girnist. Þarna er trúverðugum og mér liggur við að segja hversdagslegum aðstæðum snúið upp í ófyrirsjáanlega martröð. En þegar áhorfandinn hefur á tilfinningunni að nú eigi vísvitandi að ganga fram af honum þá slekkur hann á afruglaranum.

Sviðsetning Viðars Eggertssonar er eins og vera ber næsta látlaus, er einkum ætlað að bera þetta nýja leikrit og hugmyndir höfundar á borð. Reyndar krefst verkið kannski sjálfstæðari vinnubragða en mörg handrit, og sviðsetningin ber þess merki. Þannig eru persónurnar iðulega sýnilegar þó þær séu ekki viðstaddar þá framvindu sem textinn segir til um. Sviðsmyndin er einnig af táknræna taginu, kuldaleg og fráhrindandi biðstofa eða sjoppa gegnir hlutverki heimila bræðranna, skrifstofu annars þeirra og annarra leiksvæða. Þegar vel er að gáð má þó sjá helstu grunnatriði heimilis á þessum ópersónulega stað. Þarna er djúskælir sem vísar til eldhúss, og baksviðs glittir í bekk sem leiðir hugann að sturtuklefa, eða baðherbergi. Kanski er þarna komin sú “næringar- og tæmingarstöð mitt á malbikinu”, sem Pétur Gunnrsson kallar nútíma heimili einhversstaðar í Andrabókunum. Lýsing Páls Ragnarssonar er einnig hörð og kuldaleg, en vel hefði ég komist af án melódramatískra ljósabreytinga í tilefni af fyrrnefndum nauðgunum og sjálfsvígstilraunum.

Ólafur Darri Ólafsson er hinn rót- og ógæfusami Sigurður og lætur betur að sýna hinn misheppnaða listamann en siðblindan fíkil. Faðir hans, ráðgjafinn Kristján er leikinn af Hjalta Rögnvaldsyni, sem náði ekki að gera persónunna sérlega áhugaverða, kannski hefði verið vænlegra að ljá Kristjáni meiri myndugleika í framgöngu. Jóhann Sigurðarson er bróðir hans, hinn brottrekni bæjarstjóri Örn, og er firnagóður í þakklátu hlutverki lítilsiglds skíthæls. Sérstaka eftirtekt vekja þögul andartök þar sem hugsanir og ástand Arnar blasir við hverjum áhorfanda í meðförum Jóhanns. Sigrún kona Jóhanns er leikin af öryggi og húmor af Guðrúnu S. Gísladóttur. Samleikur hennar og Nönnu Kristínar Magnúsdóttur sem leikur Hönnu dóttur þeirra var afar sannur og sterkur. Nönnu Kristínu hef ég ekki séð betri en sem Hönnu, hina yfirborðssjálfsöruggu en skemmdu dóttur Arnar og Sigrúnar. Arnbjörg Hlíf Valsdóttir er stundum dálítið sérviskuleg leikkona og Inga, unnusta Sigurðar, verður meira spennandi en skýr í meðferð hennar, kannski líka sú persóna sem óræðust er af höfundarins hendi, auk þess utanveltu í fjölskyldunni og utan af landi. Leikhópnum, og þá í leiðinni leikstjóra, ber þó ekki síst að hrósa fyrir fínlegan og nákvæman samleik þar sem tilfinningaboltinn gengur fumlaust frá manni til manns.

Vegurinn Brennur er greinilega skrifað af væntumþykju þó myndin sem dregin er upp af okkur og samfélagi okkar sé ekki snotur. Þetta er samfélagsleg ástríðuleikritun af því taginu sem íslensk leikskáld eiga að sinna í meira mæli en þarf þó fyrst og fremst að fá mun meira pláss á verkefnaskrám leikhúsanna.

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Meistarinn og Margaríta

Hafnarfjarðarleikhúsið
Hafnarfjarðarleikhúsinu 7. janúar 2004.

Leikgerð á skáldsögu eftir Mikhaíl Búlgakov.
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Egill Ingibergsson
Myndband: Gideon Gabriel Kïers
Leikgervi: Ásta Hafþórsdóttir
Dansar: Ólöf Ingólfsdóttir
Tónlist: Margrét Örnólfsdóttir.

Leikendur: Brynja Jóhannesdóttir, Egill Heiðar Anton Pálsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson, Hjálmar Hjálmarsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnús, Margrét Vilhjálmsdóttir, Myriam Guðmundsdóttir, Ólöf Jakobsdóttir, Páll S. Pálsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Hólmar Guðmundsson, Valgeir Emil Sigurgeirsson, Vinni Drexler og Þórdís Lilja Sigurðardóttir.

Lúðrasveitin Svanur, stjórnandi: Rúnar Óskarsson.

Árshátíð andskotans

SKÁLDSAGA Búlgakovs um heimsókn Satans til Moskvuborgar Stalíns og sólarhring í lífi Pontíusar Pílatusar er einhver sú magnaðasta sem skrifuð var á síðustu öld. Bæði átakamikil og efnisrík, hefur bæði breidd og dýpt, og er auk þess uppfull af skemmtilegheitum og hugmyndaflugi.

Leikgerðir geta verið ágætis túlkunartæki, og bjóða oft upp á möguleika til að skoða byggingu og innihald efniviðar síns á nýjan hátt um leið og þær verða að lifa sjálfstæðu lífi sem listaverk. Hlimar og hans fólk kýs að fylgja atburðaröð skáldsögunnar nokkuð nákvæmlega, sérstaklega framan af, og þá fyrir vikið verða mjög skýr skil í framvindunni um miðbik sýningarinnar. Fyrri hlutinn segir frá viðskiptum Skrattans, sem kallar sig að þessu sinni Prófessor Woland, og hyskis hans við Moskvubúa og lýkur með almennri niðurlægingu þeirra í fjölleikahúsinu. Síðari hlutinn er síðan ástarsaga Meistarans og Margarítu og píslarsaga Meistarans og skáldverks hans, sem fjallar um viðskipti boðbera sannleikans við kjarklausa millistjórnendur á öðrum tíma, söguna af Jesúa Ha-Notsri og og Pontíusi Pílatusi. Hápunktar þeirra sögu fléttast saman við meginsöguna uns þræðirnir renna saman í lokin þegar skáldsaga Meistarans hefur verið lesin á æðstu stöðum og veitir innsýn í rætur ragmennsku hans. Ástin og listin sigra.

Annað sem leikgerðin dregur skýrt fram er hve Woland er miðlægur í henni, og hve hlutverk hans er jákvætt. Hann er ekki "hið illa", varla einu sinni freistarinn sem afvegaleiðir mannkynið, heldur sá sem veitir makleg málagjöld. Hið illa er á hans könnu í sama skilningi og glæpir eru verkefni dómsmálaráðherra. Hann virðist sammála Jesúa um það að ragmennskan sé verst mannlegra lasta, enda eru það smáskitleg spilling sem verður fyrir honum, hann gerir enga tilraun til að ráðast að höfuðpaurnum sjálfum. Hann er kominn til að gera rassíu og halda árshátíð.

Margt í sviðssetningu Hilmars heppnast afbragðsvel. Frumleg og ögrandi notkun rýmis hefur verið eitt af sterkustu vopnum Hafnarfjarðarleikhússins og sannar það máltækið um neyðina og nöktu konuna, enda sýningarsalurinn ekki augljóslega heppilegur vettvangur fyrir leiklist. Svo er einnig hér, og snjöll notkun tjalda, lýsingar og frábærlega vel nýttrar myndbandstækni gefur sýningunni aukna vídd. Hljóðheimurinn verður á köflum líkamlega áþreyfanlegur þegar málmblástursdrunur Lúðrasveitarinnar skella á áhorfendum - innblásin hugmynd. Auk þess skreytir sýninguna endalaust flóð af snjöllum, eða kannski fyrst og fremst skemmtilegum, lausnum sem aðdáendur Hilmars og Hafnarfjarðarleikhússins eru næstum farnir að ganga út frá sem lágmarkskröfu. Nægir að nefna krossfestinguna, ræðu Latúnskís gagnrýnanda og nýstárlega lyfjagjafatækni geðhjúkrunarkonunnar sem dæmi um þessi litlu atriði sem taka stórt pláss í minninu.

Ýmislegt stendur þó í vegi fyrir að sýningin vinni fullnaðarsigur á áhorfendum, allavega undirrituðum. Framanaf náði hún ekki að brjóta sig þannig úr viðjum skálsögunnar að framvindan yrði hnökralaus. Í síðari hlutanum gekk miklu betur að láta atriðin flæða hvert inn í annað og þar er líka tekin frjálslegri afstaða til framvindunnar. Verulega snjallt að skjóta krossfestingunni inn í árshátíð Wolands, nánast eins og skemmtiatriði. Fullvíst má telja að fyrri hlutinn þéttist og orka hans vaxi með auknu öryggi, en hluti vandans liggur samt í frásagnaraðferðinni, atriðaskiptingunni og því hversu hefð- og jarðbundin leikgerð efnisins í raun er, þó sviðsetningin bæti þar nokkuð úr.

Annað sem hindrar algera hamingju er að mínu mati búninga- og gervavinnan. Eins skemmtilegt og frumlegt og framlag þeirra Ástu og Þórunnar er þá glatast nokkuð áhrifamátturinn af framand- og yfirnáttúruleika Wolands og hyskis hans þegar heimurinn sem þeir mæta er alveg jafn skrítinn og þeir. Með því að gera allan heiminn að sirkus er ekki við öðru að búast en undursamlegir hlutir gerist. Trúðslegur leikstíll í raunsæislegra útliti hefði verið frjórri jarðvegur fyrir galdurinn.

Leikhópurinn er nokkuð ólíkur þeim sem oftast hefur sést hjá leikhúsinu, einungis Erling Jóhannesson er eftir af helstu kanónum félagsins og á góðan dag í hlutverkum sínum, einkum var nærvera hans sterk sem hinn trúfasti en óáreiðanlegi sagnaritari Leví Matteus. Egill Heiðar Anton Pálsson var betri sem Meistarinn en Jesúa og samleikur hans og Margarítu, Margrétar Vilhjálmsdóttur, var heitur og fallegur. Margrét er mögnuð í hlutverki nöfnu sinnar.

Tveir gamalreyndir leikarar snúa aftur úr leikhléi í þessari sýningu. Kristján Franklín Magnús gerir nærveru Wolands áhrifamikla og stillir sig um þann óhemjuskap sem vel er hægt að ímynda sér að hlutverkið bjóði upp á. Hjálmar Hjálmarsson verður einna kómískastur af fylgdarliði andskotans, nokkuð sem kemur á óvart því í sögunni stendur Azazello að þessu leyti nokkuð að baki þeim Korovéf og Behemot. Kemur þarna til leikstíll Hjálmars, en texti hans hljómar nánast eins og spunninn á staðnum, hvort sem það er raunin eður ei. Vera má að þau Páll S. Pálsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir hefðu átt að fylgja fordæmi Hjálmars að þessu leyti, því þetta gerði Azazello bæði hættulegri og fyndnari. Páll á annars ágætan leik sem Korovéf, en lítið varð úr kettinum Behemot í sýningunni, sem helgast meira af því sem sleppt er úr sögunni og fyrrgreindum ólíkindum í útliti sýningarinnar en Elmu Lísu, sem gekk betur með ungnornina Natösju. Jón Páll Eyjólfsson nær eftirtektarverðum tökum á Pílatusi og er auk þess drepfyndinn mútuþægur hússtjórnarformaður. Sólveig Guðmundsdóttir fer ágætlega með nokkur smærri hlutverk.

Hópur ungmenna bregður sér í ýmis hlutverk í hópsenum, með stuðningi lúðrasveitarfólks. Af þeim atriðum er fundur listamannafélagsins þeirra stærsta stund, en þar njóta einstaklingsbundir hæfileikar sín best. Orka hópsins dugði ekki til að blása lífi í sirkusatriðið, sem var einkennilega flatt í samhengi sýningarinnar. Hæst rísa samt hópatriðin á hárréttum stað, í magnaðri veislusenunni þar sem töfrar Hafnarfjarðarleikhússins losna fyrir alvöru úr læðingi.

Meistarinn og Margaríta á eflaust eftir að eflast með frekari sýningum, en er trúlega of bundin forskrift sinni til að ná fullu flugi. Samt er hún stórviðburður: skemmtileg, fjölbreytt, skrautleg og efnisrík sýning, borin uppi af ríkulegu hugmyndaflugi aðstandenda sinna. Allir ættu að sjá hana.