Meistarinn og Margaríta
Hafnarfjarðarleikhúsið
Hafnarfjarðarleikhúsinu 7. janúar 2004.
Leikgerð á skáldsögu eftir Mikhaíl Búlgakov.
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Egill Ingibergsson
Myndband: Gideon Gabriel Kïers
Leikgervi: Ásta Hafþórsdóttir
Dansar: Ólöf Ingólfsdóttir
Tónlist: Margrét Örnólfsdóttir.
Leikendur: Brynja Jóhannesdóttir, Egill Heiðar Anton Pálsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson, Hjálmar Hjálmarsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnús, Margrét Vilhjálmsdóttir, Myriam Guðmundsdóttir, Ólöf Jakobsdóttir, Páll S. Pálsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Hólmar Guðmundsson, Valgeir Emil Sigurgeirsson, Vinni Drexler og Þórdís Lilja Sigurðardóttir.
Lúðrasveitin Svanur, stjórnandi: Rúnar Óskarsson.
Leikgerðir geta verið ágætis túlkunartæki, og bjóða oft upp á möguleika til að skoða byggingu og innihald efniviðar síns á nýjan hátt um leið og þær verða að lifa sjálfstæðu lífi sem listaverk. Hlimar og hans fólk kýs að fylgja atburðaröð skáldsögunnar nokkuð nákvæmlega, sérstaklega framan af, og þá fyrir vikið verða mjög skýr skil í framvindunni um miðbik sýningarinnar. Fyrri hlutinn segir frá viðskiptum Skrattans, sem kallar sig að þessu sinni Prófessor Woland, og hyskis hans við Moskvubúa og lýkur með almennri niðurlægingu þeirra í fjölleikahúsinu. Síðari hlutinn er síðan ástarsaga Meistarans og Margarítu og píslarsaga Meistarans og skáldverks hans, sem fjallar um viðskipti boðbera sannleikans við kjarklausa millistjórnendur á öðrum tíma, söguna af Jesúa Ha-Notsri og og Pontíusi Pílatusi. Hápunktar þeirra sögu fléttast saman við meginsöguna uns þræðirnir renna saman í lokin þegar skáldsaga Meistarans hefur verið lesin á æðstu stöðum og veitir innsýn í rætur ragmennsku hans. Ástin og listin sigra.
Annað sem leikgerðin dregur skýrt fram er hve Woland er miðlægur í henni, og hve hlutverk hans er jákvætt. Hann er ekki "hið illa", varla einu sinni freistarinn sem afvegaleiðir mannkynið, heldur sá sem veitir makleg málagjöld. Hið illa er á hans könnu í sama skilningi og glæpir eru verkefni dómsmálaráðherra. Hann virðist sammála Jesúa um það að ragmennskan sé verst mannlegra lasta, enda eru það smáskitleg spilling sem verður fyrir honum, hann gerir enga tilraun til að ráðast að höfuðpaurnum sjálfum. Hann er kominn til að gera rassíu og halda árshátíð.
Margt í sviðssetningu Hilmars heppnast afbragðsvel. Frumleg og ögrandi notkun rýmis hefur verið eitt af sterkustu vopnum Hafnarfjarðarleikhússins og sannar það máltækið um neyðina og nöktu konuna, enda sýningarsalurinn ekki augljóslega heppilegur vettvangur fyrir leiklist. Svo er einnig hér, og snjöll notkun tjalda, lýsingar og frábærlega vel nýttrar myndbandstækni gefur sýningunni aukna vídd. Hljóðheimurinn verður á köflum líkamlega áþreyfanlegur þegar málmblástursdrunur Lúðrasveitarinnar skella á áhorfendum - innblásin hugmynd. Auk þess skreytir sýninguna endalaust flóð af snjöllum, eða kannski fyrst og fremst skemmtilegum, lausnum sem aðdáendur Hilmars og Hafnarfjarðarleikhússins eru næstum farnir að ganga út frá sem lágmarkskröfu. Nægir að nefna krossfestinguna, ræðu Latúnskís gagnrýnanda og nýstárlega lyfjagjafatækni geðhjúkrunarkonunnar sem dæmi um þessi litlu atriði sem taka stórt pláss í minninu.
Ýmislegt stendur þó í vegi fyrir að sýningin vinni fullnaðarsigur á áhorfendum, allavega undirrituðum. Framanaf náði hún ekki að brjóta sig þannig úr viðjum skálsögunnar að framvindan yrði hnökralaus. Í síðari hlutanum gekk miklu betur að láta atriðin flæða hvert inn í annað og þar er líka tekin frjálslegri afstaða til framvindunnar. Verulega snjallt að skjóta krossfestingunni inn í árshátíð Wolands, nánast eins og skemmtiatriði. Fullvíst má telja að fyrri hlutinn þéttist og orka hans vaxi með auknu öryggi, en hluti vandans liggur samt í frásagnaraðferðinni, atriðaskiptingunni og því hversu hefð- og jarðbundin leikgerð efnisins í raun er, þó sviðsetningin bæti þar nokkuð úr.
Annað sem hindrar algera hamingju er að mínu mati búninga- og gervavinnan. Eins skemmtilegt og frumlegt og framlag þeirra Ástu og Þórunnar er þá glatast nokkuð áhrifamátturinn af framand- og yfirnáttúruleika Wolands og hyskis hans þegar heimurinn sem þeir mæta er alveg jafn skrítinn og þeir. Með því að gera allan heiminn að sirkus er ekki við öðru að búast en undursamlegir hlutir gerist. Trúðslegur leikstíll í raunsæislegra útliti hefði verið frjórri jarðvegur fyrir galdurinn.
Leikhópurinn er nokkuð ólíkur þeim sem oftast hefur sést hjá leikhúsinu, einungis Erling Jóhannesson er eftir af helstu kanónum félagsins og á góðan dag í hlutverkum sínum, einkum var nærvera hans sterk sem hinn trúfasti en óáreiðanlegi sagnaritari Leví Matteus. Egill Heiðar Anton Pálsson var betri sem Meistarinn en Jesúa og samleikur hans og Margarítu, Margrétar Vilhjálmsdóttur, var heitur og fallegur. Margrét er mögnuð í hlutverki nöfnu sinnar.
Tveir gamalreyndir leikarar snúa aftur úr leikhléi í þessari sýningu. Kristján Franklín Magnús gerir nærveru Wolands áhrifamikla og stillir sig um þann óhemjuskap sem vel er hægt að ímynda sér að hlutverkið bjóði upp á. Hjálmar Hjálmarsson verður einna kómískastur af fylgdarliði andskotans, nokkuð sem kemur á óvart því í sögunni stendur Azazello að þessu leyti nokkuð að baki þeim Korovéf og Behemot. Kemur þarna til leikstíll Hjálmars, en texti hans hljómar nánast eins og spunninn á staðnum, hvort sem það er raunin eður ei. Vera má að þau Páll S. Pálsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir hefðu átt að fylgja fordæmi Hjálmars að þessu leyti, því þetta gerði Azazello bæði hættulegri og fyndnari. Páll á annars ágætan leik sem Korovéf, en lítið varð úr kettinum Behemot í sýningunni, sem helgast meira af því sem sleppt er úr sögunni og fyrrgreindum ólíkindum í útliti sýningarinnar en Elmu Lísu, sem gekk betur með ungnornina Natösju. Jón Páll Eyjólfsson nær eftirtektarverðum tökum á Pílatusi og er auk þess drepfyndinn mútuþægur hússtjórnarformaður. Sólveig Guðmundsdóttir fer ágætlega með nokkur smærri hlutverk.
Hópur ungmenna bregður sér í ýmis hlutverk í hópsenum, með stuðningi lúðrasveitarfólks. Af þeim atriðum er fundur listamannafélagsins þeirra stærsta stund, en þar njóta einstaklingsbundir hæfileikar sín best. Orka hópsins dugði ekki til að blása lífi í sirkusatriðið, sem var einkennilega flatt í samhengi sýningarinnar. Hæst rísa samt hópatriðin á hárréttum stað, í magnaðri veislusenunni þar sem töfrar Hafnarfjarðarleikhússins losna fyrir alvöru úr læðingi.
Meistarinn og Margaríta á eflaust eftir að eflast með frekari sýningum, en er trúlega of bundin forskrift sinni til að ná fullu flugi. Samt er hún stórviðburður: skemmtileg, fjölbreytt, skrautleg og efnisrík sýning, borin uppi af ríkulegu hugmyndaflugi aðstandenda sinna. Allir ættu að sjá hana.
Hafnarfjarðarleikhúsinu 7. janúar 2004.
Leikgerð á skáldsögu eftir Mikhaíl Búlgakov.
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Egill Ingibergsson
Myndband: Gideon Gabriel Kïers
Leikgervi: Ásta Hafþórsdóttir
Dansar: Ólöf Ingólfsdóttir
Tónlist: Margrét Örnólfsdóttir.
Leikendur: Brynja Jóhannesdóttir, Egill Heiðar Anton Pálsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson, Hjálmar Hjálmarsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnús, Margrét Vilhjálmsdóttir, Myriam Guðmundsdóttir, Ólöf Jakobsdóttir, Páll S. Pálsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Hólmar Guðmundsson, Valgeir Emil Sigurgeirsson, Vinni Drexler og Þórdís Lilja Sigurðardóttir.
Lúðrasveitin Svanur, stjórnandi: Rúnar Óskarsson.
Árshátíð andskotans
SKÁLDSAGA Búlgakovs um heimsókn Satans til Moskvuborgar Stalíns og sólarhring í lífi Pontíusar Pílatusar er einhver sú magnaðasta sem skrifuð var á síðustu öld. Bæði átakamikil og efnisrík, hefur bæði breidd og dýpt, og er auk þess uppfull af skemmtilegheitum og hugmyndaflugi.Leikgerðir geta verið ágætis túlkunartæki, og bjóða oft upp á möguleika til að skoða byggingu og innihald efniviðar síns á nýjan hátt um leið og þær verða að lifa sjálfstæðu lífi sem listaverk. Hlimar og hans fólk kýs að fylgja atburðaröð skáldsögunnar nokkuð nákvæmlega, sérstaklega framan af, og þá fyrir vikið verða mjög skýr skil í framvindunni um miðbik sýningarinnar. Fyrri hlutinn segir frá viðskiptum Skrattans, sem kallar sig að þessu sinni Prófessor Woland, og hyskis hans við Moskvubúa og lýkur með almennri niðurlægingu þeirra í fjölleikahúsinu. Síðari hlutinn er síðan ástarsaga Meistarans og Margarítu og píslarsaga Meistarans og skáldverks hans, sem fjallar um viðskipti boðbera sannleikans við kjarklausa millistjórnendur á öðrum tíma, söguna af Jesúa Ha-Notsri og og Pontíusi Pílatusi. Hápunktar þeirra sögu fléttast saman við meginsöguna uns þræðirnir renna saman í lokin þegar skáldsaga Meistarans hefur verið lesin á æðstu stöðum og veitir innsýn í rætur ragmennsku hans. Ástin og listin sigra.
Annað sem leikgerðin dregur skýrt fram er hve Woland er miðlægur í henni, og hve hlutverk hans er jákvætt. Hann er ekki "hið illa", varla einu sinni freistarinn sem afvegaleiðir mannkynið, heldur sá sem veitir makleg málagjöld. Hið illa er á hans könnu í sama skilningi og glæpir eru verkefni dómsmálaráðherra. Hann virðist sammála Jesúa um það að ragmennskan sé verst mannlegra lasta, enda eru það smáskitleg spilling sem verður fyrir honum, hann gerir enga tilraun til að ráðast að höfuðpaurnum sjálfum. Hann er kominn til að gera rassíu og halda árshátíð.
Margt í sviðssetningu Hilmars heppnast afbragðsvel. Frumleg og ögrandi notkun rýmis hefur verið eitt af sterkustu vopnum Hafnarfjarðarleikhússins og sannar það máltækið um neyðina og nöktu konuna, enda sýningarsalurinn ekki augljóslega heppilegur vettvangur fyrir leiklist. Svo er einnig hér, og snjöll notkun tjalda, lýsingar og frábærlega vel nýttrar myndbandstækni gefur sýningunni aukna vídd. Hljóðheimurinn verður á köflum líkamlega áþreyfanlegur þegar málmblástursdrunur Lúðrasveitarinnar skella á áhorfendum - innblásin hugmynd. Auk þess skreytir sýninguna endalaust flóð af snjöllum, eða kannski fyrst og fremst skemmtilegum, lausnum sem aðdáendur Hilmars og Hafnarfjarðarleikhússins eru næstum farnir að ganga út frá sem lágmarkskröfu. Nægir að nefna krossfestinguna, ræðu Latúnskís gagnrýnanda og nýstárlega lyfjagjafatækni geðhjúkrunarkonunnar sem dæmi um þessi litlu atriði sem taka stórt pláss í minninu.
Ýmislegt stendur þó í vegi fyrir að sýningin vinni fullnaðarsigur á áhorfendum, allavega undirrituðum. Framanaf náði hún ekki að brjóta sig þannig úr viðjum skálsögunnar að framvindan yrði hnökralaus. Í síðari hlutanum gekk miklu betur að láta atriðin flæða hvert inn í annað og þar er líka tekin frjálslegri afstaða til framvindunnar. Verulega snjallt að skjóta krossfestingunni inn í árshátíð Wolands, nánast eins og skemmtiatriði. Fullvíst má telja að fyrri hlutinn þéttist og orka hans vaxi með auknu öryggi, en hluti vandans liggur samt í frásagnaraðferðinni, atriðaskiptingunni og því hversu hefð- og jarðbundin leikgerð efnisins í raun er, þó sviðsetningin bæti þar nokkuð úr.
Annað sem hindrar algera hamingju er að mínu mati búninga- og gervavinnan. Eins skemmtilegt og frumlegt og framlag þeirra Ástu og Þórunnar er þá glatast nokkuð áhrifamátturinn af framand- og yfirnáttúruleika Wolands og hyskis hans þegar heimurinn sem þeir mæta er alveg jafn skrítinn og þeir. Með því að gera allan heiminn að sirkus er ekki við öðru að búast en undursamlegir hlutir gerist. Trúðslegur leikstíll í raunsæislegra útliti hefði verið frjórri jarðvegur fyrir galdurinn.
Leikhópurinn er nokkuð ólíkur þeim sem oftast hefur sést hjá leikhúsinu, einungis Erling Jóhannesson er eftir af helstu kanónum félagsins og á góðan dag í hlutverkum sínum, einkum var nærvera hans sterk sem hinn trúfasti en óáreiðanlegi sagnaritari Leví Matteus. Egill Heiðar Anton Pálsson var betri sem Meistarinn en Jesúa og samleikur hans og Margarítu, Margrétar Vilhjálmsdóttur, var heitur og fallegur. Margrét er mögnuð í hlutverki nöfnu sinnar.
Tveir gamalreyndir leikarar snúa aftur úr leikhléi í þessari sýningu. Kristján Franklín Magnús gerir nærveru Wolands áhrifamikla og stillir sig um þann óhemjuskap sem vel er hægt að ímynda sér að hlutverkið bjóði upp á. Hjálmar Hjálmarsson verður einna kómískastur af fylgdarliði andskotans, nokkuð sem kemur á óvart því í sögunni stendur Azazello að þessu leyti nokkuð að baki þeim Korovéf og Behemot. Kemur þarna til leikstíll Hjálmars, en texti hans hljómar nánast eins og spunninn á staðnum, hvort sem það er raunin eður ei. Vera má að þau Páll S. Pálsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir hefðu átt að fylgja fordæmi Hjálmars að þessu leyti, því þetta gerði Azazello bæði hættulegri og fyndnari. Páll á annars ágætan leik sem Korovéf, en lítið varð úr kettinum Behemot í sýningunni, sem helgast meira af því sem sleppt er úr sögunni og fyrrgreindum ólíkindum í útliti sýningarinnar en Elmu Lísu, sem gekk betur með ungnornina Natösju. Jón Páll Eyjólfsson nær eftirtektarverðum tökum á Pílatusi og er auk þess drepfyndinn mútuþægur hússtjórnarformaður. Sólveig Guðmundsdóttir fer ágætlega með nokkur smærri hlutverk.
Hópur ungmenna bregður sér í ýmis hlutverk í hópsenum, með stuðningi lúðrasveitarfólks. Af þeim atriðum er fundur listamannafélagsins þeirra stærsta stund, en þar njóta einstaklingsbundir hæfileikar sín best. Orka hópsins dugði ekki til að blása lífi í sirkusatriðið, sem var einkennilega flatt í samhengi sýningarinnar. Hæst rísa samt hópatriðin á hárréttum stað, í magnaðri veislusenunni þar sem töfrar Hafnarfjarðarleikhússins losna fyrir alvöru úr læðingi.
Meistarinn og Margaríta á eflaust eftir að eflast með frekari sýningum, en er trúlega of bundin forskrift sinni til að ná fullu flugi. Samt er hún stórviðburður: skemmtileg, fjölbreytt, skrautleg og efnisrík sýning, borin uppi af ríkulegu hugmyndaflugi aðstandenda sinna. Allir ættu að sjá hana.
<< Home