JÓLASÖGUR JÚLLA
eftir Júlíus Júlíusson. Fjórar sögur í flutningi höfundar, Júlíusar Júlíussonar, upptökur: Magnús G. Ólafsson, útgefandi: Júlli og Maggi 2003. 21. desember 2003.
Jólalög án tónlistar
DALVÍKINGURINN Júlíus Júlíusson er maður með mörg járn í eldinum. Leiklistarfrömuður, leikskáld og leikstjóri, umsjónarmaður hins víðfræga Veðurklúbbs, allt í öllu á bæjarhátíðinni Fiskideginum mikla. Á aðventunni færist síðan árlega líf í Jólavef Júlla, sem er einn veglegasti vefur landsins sem tileinkaður er hátíðinni, og vitaskuld einungis einn af mörgum vefjum sem Júlíus heldur úti af miklum myndarskap. Og nú hefur hann sent frá sér geisladisk með fjórum frumsömdum jólasögum sem hann les sjálfur.
Sögurnar eru greinilega og að sjálfsögðu ætlaðar yngri kynslóðinni. Sú fyrsta, Blíð og bangsi litli, er meira að segja full af innskotum þar sem hlustendum er hjálpað að draga lærdóma af hinu fallega hugarfari og lífi sem lifað er í jólaenglalandinu þar sem Blíð og bangsinn hennar eru að undirbúa fullkomin jól. Allar eru þær reyndar fullar af boðskap um umhyggju, gjafmildi og góða siði. Andrúmsloftið er eiginlega eins og á jólakorti eða í jólalagi án tónlistar.
Þessum sögum er fyrst og fremst ætlað að skapa andrúmsloft, innleiða jólagleði og -frið. Minna fer fyrir öðrum mikilvægum atriðum í sagnagerð, svo sem fléttu, hvörfum, spennu, húmor eða tilþrifum í máli og stíl. Það er einna helst í síðustu sögunni, Jólatöfrum, sem framvindan skiptir einhverju máli, enda er hún trúlega best heppnuð þeirra. Miðsögurnar tvær, Jólatréð og Jól hjá bæjarstjóranum, eru afar áreynslulausar lýsingar á góðverkum sem fylla bæði gefanda og þiggjanda sönnum jólafrið. Flutningur höfundar er að sama skapi áreynslulaus en stundum helst til of tilþrifalítill – einkum í fyrstu sögunni sem sárlega þarf á meiri tilbreytingu að halda milli frásagnar, beinnar ræðu og fyrrnefndra athugasemda sem beint er til hlustendanna.
Það er auðvitað góðra gjalda vert að skapa jólastemningu með kyrrlátum jólasögum fyrir börnin en trúlega er trúlega teflt á tæpasta vað með að halda athygli hlustendanna með því að hafa frásagnirnar jafn áreynslulausar og raun ber vitni. Meiri skuggar, erfiðari lausnir fyrir söguhetjurnar hefðu gert þær áhugaverðari – líka fyrir yngstu hlustendurna. Það er nefnilega allt í lagi að jólafriðurinn og -gleðin kosti eitthvað.
<< Home