sunnudagur, nóvember 02, 2003

Ýtið tímanlega á stanzrofa

Útvarpsleikhúsið
Frumflutt 2. nóvember 2003

Höfundur: Guðmundur Ólafsson

Leikari: Erlingur Gíslason
Leikstjóri: Helga E. Jónsdóttir
Hljóðvinnsla: Hjörtur Svavarsson

Leiðarkerfi gegnum lífið

EINTAL Guðmundar Ólafssonar um hinn reglufasta strætisvagnstjóra er hefðbundinn afhjúpunartexti, varnarræða þar sem persónan útlistar lífsgildi sín og skreytir dæmum úr lífi sínu. Fljótlega er samt ljóst að líf hans er grámyglan ein, bundið í klafa vana og samskiptin við fjölskylduna drepin af heimilisharðstjórn hans. Strætisvagnaakstur er alveg ógalin líking um það undarlega ferðalag sem lífið er, og persónan hefur fallið í þá gryfju að reyna með öllum ráðum að halda undarlegheitunum í algeru lágmarki.

Tónninn í eintalinu er að mörgu leyti skyldur öðrum einleik Guðmundar, Tenórnum, sama afhjúpandi tækni, þar sem hinn sjálfumglaði Tenór stendur að lokum uppi með allt niðrum sig ef svo mætti segja. Bæð verkin eru lipurlega skrifuð og skemmtileg. Reyndar þykir mér sem spennan slakni nokkuð um miðbikið á því verki sem hér er til umfjöllunar, það bætist lítið við af efni um þennan kall fyrr en í lokin, og þá næst spennan upp aftur, í uppgjörinu við eiginkonuna og ræðunni um mikilvægi strætisvagnabílstjóra og heilagt hlutverk þeirra í sið- og regluvæðingu þjóðfélagsins alls. Það sem Ýtið tímanlega á stansrofa hefur framyfir Tenórinn er þessi táknmynd strætisvagnsins fyrir lífið, og sem betur fer stillir Guðmundur sig um að nudda áheyrandanum upp úr henni, en leyfir henni að tala sjálfri.

Val á leikara á trúlega sinn þátt í þessu spennufalli sem fyrr var nefnt. Erlingur Gíslason gerir bílstjórann frá upphafi að afar sérkennilegu og óaðlaðandi mannkerti með sinni ísmeygilegu raddbeitingu. En með því að mála bílstjórann svona sterkum litum missum við svolítið tengslin við hann, og fáránlegar hugmyndir hans um lífið og tilveruna og fráleit viðbrögð við aðstæðum sem upp koma ná ekki að vekja neina undrun. Sú ákvörðun að fela Erlingi hlutverkið er trúlega stærsta túlkunaratriðið í uppfærslunni og ég er ekki frá því að það hefði orðið sterkara með hófstilltari túlkun og hversdagslegri rödd. Þá hefði lífsskoðun bílstjórans fyrst virkað sem nokkurnvegin eðlileg, en smámsaman afhjúpast sem óþolandi stjórnlyndi gagnvart lífinu. Kannski var það tengingin við Tenórinn en ég heyrði rödd Guðmundar sjálfs fyrir mér.

En vitaskuld gerir Erlingur þetta fantavel með sínu lagi, nær að gera bílstjórann verulega skemmtilega andstyggilegan í sinni vanmáttugu tilraun til að reglubinda lífið. Hljóðvinnsla gaf á hófstilltan og vel heppnaðan hátt tilfinningu fyrir akstrinum án þess að stela athyglinni. Ýtið tímanlega á stansrofa var ágæt skemmtun á að hlýða.