föstudagur, október 24, 2003

Ástarbréf

Leikfélag Akureyrar
Ketilhúsinu á Akureyri 24. október 2003.

Höfundur: A.R. Gurney
Þýðandi: Úlfur Hjörvar
Leikendur: Saga Jónsdóttir og Þráinn Karlsson
Listrænn ábyrgðarmaður: Þorsteinn Bachmann
Tónlist: Arnór Vilbergsson
Lýsing: Ingvar Björnsson.

Ameríkubréf

FYRIRFRAM væri sjálfsagt hægt að kalla Ástarbréf A.R. Gurneys formtilraun. Texti verksins er stílaður sem sendibréf milli persónanna tveggja, og spanna þau samskipti nánast alla þeirra ævi, eða allavega frá því þau læra að draga til stafs og þar til annað þeirra stendur eftir að hinu látnu og neyðist til að horfast í augu við þá staðreynd að hafa séð á eftir stóru ástinni í gröfina án þess að hafa gefið sambandinu annað tækifæri en bréfaskipti, með örfáum undantekningum. Vissulega læðist samt að áhorfandanum sá illi grunur að meiri nálægð, þó ekki hefði verið nema nokkrum sinnum hefði gengið af parinu, eða allavega sambandinu, dauðu á stuttum tíma. Svo ólík eru þau, hin “listræna”, en óstöðuga Melissa Gardner og hinn stefnufasti, kaldi en í grundvallaratriðum góði, Andrew Makepeace Ladd III.

En þó formið sé frumlegt hefur það ekki kallað á frekari frumleika hjá höfundinum. Persónurnar eru klisjulegar sem mest má verða, og verkið er rígbundið þeim menningarheimi sem það er sprottið úr án þess að hafa neina þá kosti sem gera það sammannlega áhugavert. Líklega myndi engu leíkhúsi utan þess sem stílar upp á markhóp bandarískrar efri millistéttar detta í hug að snerta á því nema fyrir það hvað það er einfalt, ódýrt og þægilegt í uppsetningu. Og gefur þrátt fyrir allt tveimur stjörnuleikurum á besta aldri ágætis tækifæri til að blómstra og njóta sín, án þeirra óþæginda sem gjarnan fylgja því að setja upp nýja leiksýningu. Höfundur leggur meira að segja áherslu á þennan “sölupunkt” í handritinu og telur enga þörf á leikmynd, ströngum æfingum né heldur að leikarar læri textann sinn. Það er næstum eins og verkið sé skrifað með þá listamenn í huga sem finnst starf sitt ekki lengur ómaksins vert. En þó sjálfsagt sé hægt að komast í gegnum verkið á þennan hátt er það nú einu sinni svo að það er eldmóður listamannanna sem kveikir í áhorfendum. Og ef hvorki höfundur, leikendur né leikstjóri sjá ástæðu til að henda sér af fullum krafti í verkefnið er eins víst að áhorfendur láti sér fátt um finnast. Og það er ekki fyrr en undir lokin sem sýning Leikfélags Akureyrar nær þeim áhrifum. Þangað til vekur hún fyrst og fremst undrun yfir því hvað tveir svona frábærir leikarar eru að leggja sig niður við svona nokkuð.

Það er nefnilega ein grundvallarvilla innbyggð í fyrrnefnda athugasemd höfundar, og sem höfundar sýningarinnar hafa gleypt hráa. Fólk les ekki eigin sendibréf. Það að standa á sviði og fara með texta úr eigin sendibréfum eins og maður sé að lesa þau upp úr bréfi er aldeilis fráleit nálgun, og stendur í vegi fyrir innlifun, blæbrigðum, að ekki sé talað um sambandið við áhorfendur, sem ætti að vera grundvallaratriði í svona skemmtunarleik, því ekki er tengslum milli persónanna eða samspili fyrir að fara. Ef sendibréf eru tjáningarform þá verður að flytja texta þeirra eins og um tjáningu sé að ræða, en ekki eitthvað sem persónan uppgötvar þegar hún sér orðin á blaði.

Reyndar voru þau Saga Jónsdóttir og Þráinn Karlsson alls ekki sammála um hvaða stílsmáta ætti að hafa á sýningunni, sérstaklega framan af. Saga gerði sér far um að bregða sér í gervi Melissu og túlka aldursskeið hennar og gerði það reyndar vel. En sú staðreynd að hennar “bréf” voru greinilega handrit í plastmöppu dró óneitanlega úr áhrifamættinum. Bréf Þráins voru hins vegar óumdeilanlega bréf, en hann gætti þess hins vegar vandlega að lesa upp úr þeim með tilheyrandi lestóni og gerði enga tilraun til að verða barn eða unglingur. Hvort sem þessi munur er meðvituð ákvörðun leikaranna og “listræns ábyrgðarmanns” sýningarinnar eða einfaldlega til marks um að engin skýr listræn lína var lögð er ekki gott að segja. Áhrifin, fyrir utan þau að rugla áhorfandann í ríminu, eru á hinn bóginn þau að verkið verður eins og upprifjun Andrews, og gerir Melissu að hálfgerðri aukapersónu, gerir mynd hennar að hugmynd Andrews um hana. Og það er alveg áreiðanlega óheppileg leið.

Það er síðan til marks um það úr hverju þau Þráinn og Saga eru gerð sem leikarar að undir lokin ná þau að yfirvinna ágalla formsins, verksins og grunnhugmyndar sýningarinnar og ná tilfinningalegu taki á áhorfendum. Og annað gera þau líka svo vel að undrum sætir. Þau hlusta bæði með afbrigðum fallega. Sterkustu stundir sýningarinnar fyrir utan endinn er að finna hjá þeirri persónu sem ekki talar heldur hlustar og upplifir viðbrögð við því sem hinn segir. Þetta er afar fínlega unnið, aldrei ofgert en alltaf satt.

Umgjörðin í Ketilhúsinu er raunsæisleg, og ýtir undir þann skilning að allt gerist þetta í endurliti. Það hefði verið ómaksins vert að leita að leið til að sýna betur breytingar á aldri, tíðaranda og þjóðfélagsstöðu persónanna, samkvæmisföt Melissu og jakkaföt Andys gerðu hvorki gagn né ógagn. Tónlistin er líka notuð á óþarflega ómarkvissan hátt, einstaka sinnum kallast hún skemmtilega á við efnið, en of oft er hún eins og frekar hvimleið dinnertónlist, sem er auðvitað ágætis tákn fyrir innihaldsleysi, skyldi það hafa verið ætlunin.

Ástarbréf er þunnildi. Ekki leiðinleg nema að svo miklu leyti sem það er leiðinlegt að sjá hæfileika vannýtta og möguleikum kastað á glæ. En ekki skil ég hvað fékk Leikfélag Akureyrar til að finnast þetta verk eiga erindi við sitt fólk.