þriðjudagur, október 14, 2003

Dýrin í Hálsaskógi

Þjóðleikhúsið
14.10.2003

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Leikmynd; Brian Pilkington
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Jóhann G. Jóhannson
Dansar: Ástrós Gunnarsdóttir


Fersk sýn

"sígilt" er eitt af þessum marghliða hugtökum sem engin leið er að fá botn í hvað nákvæmlega þýðir, en gegnir samt mikilvægu hlutverki í umfjöllun um listir. Og það sem meira er: þó það sé ill- eða óskilgreinanlegt þá fer því fjarri að það sé gagnslaust eða villandi. Meðan ekki er spurt um nákvæma merkingu sem er sameiginleg í allri notkun þess getur það nýst við að skýra og skilgreina það sem við viljum að það skýri og skilgreini.

Þessvegna veldur það engum vandræðum að tala um Hamlet, Fiðlarann á þakinu, Skugga-Svein og Dýrin í Hálsaskógi sem sígild verk þó ekki verði í fljótu bragði fundnir margir sameiginlegir fletir með þessum verkum. Nema þá kannski sá eini að með reglulegu millibili koma þau til kasta leikhússfólks, eru sett upp á nýjan leik, og - vegna þess að við lifum þá tíma sem við lifum - eru tekin til endurmats.

Endurmat
Að vanhugsuðu máli mætti í sjálfu sér efast um nauðsyn þess að endurmeta Dýrin á nokkurn hátt. Markhópurinn er eðli málsins jú alltaf nýr, það er engin hætta á að börnin verði leið á verkinu. En lifandi leiklist verður ekki sköpuð nema með því að horfa á viðfangsefnin upp á nýtt í hvert skipti, þó ekki sé nema fyrir flytjendurna. Þó börnin geti kannski ekki borið saman sýningar má slá því föstu að þau misstu fljótt áhugann á því sem fram fer á sviðinu ef þeir sem þar standa eru einungis að troða af gömlum vana sömu slóð og alltaf hefur verið gengin. Nei, endurmat er hreinlega innbyggt í sköpun lifandi leikhúss.

Það er ekki þar með sagt að frumleiki og leit að nýjum leiðum að sígildum verkum sé forsenda þess að skapa góða leiklist. Sú leit leiðir oftar en ekki listamennina á villigötur og útkoman er sýning þar sem form og innihald vinna hvort gegn öðru. Það að horfa á ferskan hátt á viðfangsefnið, eins og handritið hafi dottið inn um lúguna þá um morgunin og enginn kannist við höfundinn, er miklu fremur leiðin að sönnum ferskleika í framsetningu og uppskrift að því að sýningin þjóni verkinu og verkið vinni með sýningunni.

Dýrin
Undanfarin ár hef ég séð þó nokkrar sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi og vitna sumar þeirra um gildi þessa síðarnefnda. Aðrar voru jafnvel prýðilegar, en báru þess nokkur merki að taka “hefðina” sem gefna. Svo rammt kveður stundum að þessu að nær er að segja að leikararnir séu að leika Árna Tryggvason og Bessa Bjarna en þá Lilla og Mikka. Tvær sýningar af fyrrnefnda taginu verðskulda að á þær sé minnst. Uppfærsla Björns Gunnlaugssonar með Leikhópnum Veru á Fáskrúðsfirði í mars 2001 bar þess vitaskuld merki að börn og unglingar voru í flestum hlutverkum og fæst með mikla leikreynslu. En þar sá ég í fyrsta sinn samband Lilla og Marteins Skógarmúsar, og raunar allt hlutverk Marteins, skoðað á ferskan hátt með opnum augum. Þannig var ljóst í sýningunni að upphaflega voru lagagreinar Marteins aðeins tvær. Sú þriðja varð til á staðnum þegar honum ofbauð tilætlunarsemi og snýkjudýrsháttur vinar síns Lilla.
Þetta atriði rifjaðist síðan upp fyrir mér í sýningu Þjóðleikhússins núna, þar sem þessi ferska sýn á aðalhlutverkin á stóran þátt í að gera hana jafn vel heppnaða og raun ber vitni.

Allt á hvolf
Hin eftirminnilega sýningin er síðan hin óborganlega uppfærsla Leikfélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði sem Stefán Jónsson setti á svið vorið 2000. Þar var öllu því sem við teljum boðskap verksins snúið á haus, verkið varð að sögu um einelti það sem Mikki verður fyrir vegna þess að hann er öðruvísi en meirihlutinn. Þessi túlkun gekk fullkomlega upp, þrátt fyrir að ekki væri hróflað við textanum, nokkuð sem er eitt af mörgum einkennum sígildra verka. Reyndar er boðskapur Dýranna vandræðalegasti þáttur verksins, ef undan er skilinn fráleitur lokasöngurinn. Ef Egner er tekinn á orðinu er nánast hægt að saka hann um sjúklega áráttu til að hafna náttúrunni, og frekar andstyggilega trú á að hægt sé að sveigja eðli fólks með boðum og bönnum. Horfi maður framhjá þessu og líti á erindi Dýranna sem almennan boðskap um gildi vináttu og samvinnu þá verður samt ekki horft framhjá því að hann kemur þessum boðskap til skila á einkar langsóttan hátt. Í sýningu Flensborgarskólans stóð allur leikhópurinn að Mikka frátöldum og öskraði grænmetissönginn fram í sal, og heilsaði síðan með nasistakveðju í endann, svo ekki færi nú framhjá neinum að hér væri múgur á ferð sem léti engin frávik óátalin. Eiginlega hefði fyrsta lagagreinin í þeirri sýningu átt að hljóma. “Öll dýrin í skóginum eiga að vera eins”.

Þjóðleikhúsið
Boðskapurinn er loðinn já, en skemmtigildið er ótvírætt. Og það er óhætt að segja að Sigurður Sigurjónsson og hans lið í Þjóðleikhúsinu láti sitt ekki eftir liggja hvað það varðar. Sýningin er uppfull af snjöllum hugmyndum sem krydda efnið, og er þeim viðbótum trúlega ekki síst beint til foreldranna, sem eru mögulega að sjá sýna þriðju uppfærslu. Sýningin hefur líka þann augljósa kost að vera fersk. Það er aldrei tilfinning áhorfandans að verið sé að fylgja einhverri hefð, eða elta erfðavenjur umhugsunarlaust. En á sama tíma er trúnaðurinn við efnið þannig að niðurstaðan verður ekkert langt frá fyrri túlkunum. Þannig er hinn óborganlegi refur Þrastar Leó Gunnarssonar ekkert víðs fjarri þeim sem Bessi Bjarnason skóp, en það fer samt aldrei á milli mála að hann er sköpunarverk Þrastar. Það sama má segja um Lilla Atla Rafns Sigurðssonar og Martein í meðförum Kjartans Guðjónssonar, þó trúlega sé þeirra sköpun lengra frá því sem við þekkjum, og gallarnir í persónuleika þeirra skýrar mótaðir en áður hefur þótt hæfa. Við lifum jú á tímum íróníunnar.

Umgjörð Brians Pilkington og búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur eru þessu sama marki brennd. Fersk sýn á viðfangsefnið en tilfinning fyrir því sem áður hefur verið gert. Leikhópurinn tekur sér víða frelsi til að bæta við, skjóta inn hlægilegum vísunum í nútímann og leika á áhorfendur og hljómsveit. Allt hjálpar þetta til að gera sýninguna að lifandi skemmtun og draga áhorfendur á öllum aldri með í gamanið.

Niðurstaðan er því sú að Dýrin lifa sem aldrei fyrr. Sígild - ekki veit ég af hverju.