þriðjudagur, apríl 15, 2003

Vetrarævintýri og Rómeó og Júlía

Leikfélag Reykjavíkur og Vesturport
vorið 2003

Shakespeare tvisvar sinnum

Ég hefði líklega látið segja mér það tvisvar fyrir nokkrum vikum ef mér hefði verið sagt að tvær frumlegar og frábærlega vel heppnaðar Shakespearesýningar væru í gangi í einu hér á landi, og það í sama húsinu.

Uppfærslur síðustu ára á verkum karlsins í íslensku atvinnuleikhúsi hafa með örfáum undantekningum einkennst af áreynslukenndum tilraunum til að vinna gegn “hefðinni” (eins og hér hafi einhverntíman verið til Shakespeare-hefð), vanhugsuðum eða illa ígrunduðum leikstjórakonseptum sem gengu ekki upp og pínlegum tilraunum til að gera Shakespeare aðgengilegan án þess að maður hefði á tilfinningunni að aðstandendur sýninganna skildu verkin sem þeim var svo í mun að koma á framfæri. Svo ég dragi nú strax beittustu vígtennurnar úr þessari alhæfingu vil ég nefna tvær vel heppnaðar sýningar þar sem frumleiki leikstjóranna og verkin héldust í hendur frekar en að standa í fangbrögðum. Draumur á Jónsmessunótt í uppfærslu Guðjóns Pedersen í Nemendaleikhúsinu og Ofviðrið í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar á sama stað. Þessar sýningar sýndu að þetta er hægt.

Og nú eru Sumarævintýri og Rómeó og Júlía til marks um að fleiri hafa þetta á valdi sínu en Gíó og Rúnar. Báðar eru verulega róttækar í afstöðu sinni til viðfangsefnanna, en á sama tíma fullar trúnaðar við það sem hóparnir hafa fundið með einlægri og opinni leit í textanum. Hér á eftir ætla ég að reyna að gera mér, og kannski öðrum, grein fyrir hvernig þessar sýningar ná þessum áhrifum.

VERKIN

Verkefnavalið á sinn þátt í þessu. Þó Rómeó og Júlía og Sumarævintýri standi á sitthvorum enda ferlis Shakespeares sem fullþroska skálds eiga þau ýmislegt sameiginlegt sem greinir þau frá þorra verkanna. Rómeó og Júlía er gjarnan flokkað sem harmleikur, og vissulega eru örlög aðalpersónanna sorgleg. En allt fram að sjálfri dauðasenunni er stemmingin í verkinu eins og í gleðileik - fjallað er um rómantískar æskuástir í meinum eins og í Draumi á Jónsmessunótt - í skugga stríðs og ættarerja eins og í Allt í misgripum og Sem yður þóknast. Og meira að segja dauði elskendanna stafar af misskilningi eins og í farsa sem gengur of langt. Eina raunverulega harmræna atriðið er dauði Merkútsíós, um það er ekki minni maður en Tom Stoppard sammála mér, eins og þeir vita sem séð hafa hina ágætu mynd Shakespeare in Love.

Vesturportsmenn, með leikstjórana Gísla Örn Garðarsson og Agnar Jón Egilsson við stjórnvölin, skynjuðu gamanleikseðli verksins og leika í samræmi við það. Fyrir vikið er sýningin þrungin gleði, sem gerir auðvitað slysaleg sjálfsmorðin í lokin enn meira trist. Það eina sem fer forgörðum í slíkri lögn er tilfinningin fyrir óöldinni sem ættarerjurnar valda - það var varla að maður tryði því að eitthvað stæði í alvörunni í vegi fyrir hamingjusömu hjónabandi barnanna. En hvað; eitthvað verður undan að láta í öllum uppfærslum.

Sumarævintýri er að sama skapi illflokkanlegt. Það telst til gamanleikja þar sem endirinn er hjónaband en ekki dauði, en allur fyrri hluti verksins er harmrænn, þrunginn þráhyggju og dauða og minnir einna helst á Lé konung. Leontes Sikileyjarkóngur fyllist óhagganlegri vissu um sviksemi drottningar og tekst á skömmum tíma að hrekja burt besta vin sinn og steypa öllum sínum nánustu í glötun, áður en beisk meðvitundin um afleiðingarnar hellist yfir hann - og þannig skiljum við við hann um miðbik verksins - brotinn mann. Eftir millispil í sveitinni er síðan horfið aftur að Leontesi og á undursamlegan hátt tekst að snúa hjóli tímans við - hann fær annað tækifæri til að snúa harmleik sínum til betri vegar.

Nýjasviðsfólkinu tekst með hárfínni blöndu af einlægni og sjálfsháði, sem sumir myndu vafalaust kalla hugleikska, að láta dramað virka um leið og meðvitund áhorfenda, um hve fráleitir viðburðirnir eru, vakir allan tímann. Skynsamlegur og vel útfærður niðurskurður á sveitalífsþættinum hjálpar líka til að skapa skýrari áherslu á meginefni verksins.

Vegna þessarar tvíræðni í stíl og viðfangsefnum eru þessi tvö leikrit sérlega móttækileg fyrir rótttækum túlkunum.

TÚLKUNIN

Þó svo að sýningarnar séu báðar frábærlega vel heppnaðar eru þær afar ólíkar. Reyndar nota þær báðar bein ávörp og aðrar aðferðir til að tengjast áhorfendum betur, en meira að segja það er í grundvallaratriðum ólíkt. Víkingur Kristjánsson er nánast eins og siðameistarinn í Kabarett í upphafi Rómeó og Júlíu, segir brandara og “hitar upp salinn”, á síðan eina aðra “rútínu” seinna, en að öðru leyti er sýningin í sínum heimi sem við skyggnumst inn í.

Sumarævintýri er mun róttækar brotið upp, bæði með upphafskynningu persónanna, sönglögunum sem leikaranir sömdu og flytja í sýningunni og því hvernig lífið baksviðs er látið vera hluti af upplifuninni. Benedikt Erlingsson, leikstjóri Sumarævintýris, orðaði það einhvernveginn svo í útvarpsviðtali að þau hefðu talið nauðsynlegt að “skapa samkomulag” við áhorfendur svo þeir gengjust inn á ólíkindalega atburðarásina. Vafalaust eiga þessi uppbrot og þessi beinu tengsl við áhorfendur sinn þátt í því að það samkomulag heppnast, þó mér hafi reyndar þótt baksviðslífið fljótlega verða hálf hvimleitt og truflandi. Þar fyrir utan voru sönglögin mörg hver frábær viðbót við túlkun leikaranna á persónum sínum. Þannig náði ég eiginlega fyrst sambandi við Leontes þegar Þór var búinn að syngja um hve kalt væri á toppnum. Önnur eftirminnileg lög voru t.d. söngur Hermíónu til Mamilíusar, saknaðarsöngur Pálínu og síðasta lag fyrir hlé, sem ég kýs að ljóstra ekki upp um hver syngur né um hvað - aldeilis frábært.

Annað sem gerir sýningarnar líkar en um leið ólíkar er hvernig þær nota leikarana. Báðar eru “leikarasýningar” í orðsins fyllstu merkingu - svið eru nánast óbreytt milli atriða en leikurum eftirlátið að skapa tilfinningu fyrir stað og stund. Hvernig þetta birtist er síðan afar ólíkt.

Aðferð Vesturportsfólksins mótast fyrst og fremst af óvenjulegum líkamlegum möguleikum hópsins. Að nota loftfimleika og aðrar sirkusbrellur eru svo sem ekkert nýtt í leikhúsi, og fyrirfram átti ég allt eins von á að þetta yrði tilgerðarlegt og “utanáliggjandi”, en það var nú eitthvað annað. Hér næst alger sambræðsla aðferðar og innihalds, svo engu heljarstökki er ofaukið, rólur og hringir eru nýttir á hugvitsamlegan og fjölbreyttan hátt. Bardagaatriðin verða meira spennandi, kómíkin hættulegri og líkamlegri og rómantíkin fer á flug - töfrum slungin. Þá er flæðið milli líkamsmáls og texta fantalega vel unnið - og ekki spillir þýðing Hallgríms Helgasonar sem gefur tóninn í kómíkinni, er aldrei tvíræð þegar hún getur verið einræð (pedantískur samanburður á Hallgrími, Helga H. og Shakespeare bíður betri tíma, þegar brosviprurnar eru almennilega horfnar).

Og svo er náttúrulega skopið í því að sumir leikaranna eru hreint ekki fimir notað í hæfilegu hófi til að vera alltaf fyndið þegar gripið er til þess. Sýningin er reyndar iðandi af brilljant smáatriðum sem bæta við heildarupplifunina.

Nýjasviðshópurinn fer jarðbundnari leið, ef svo mætti segja. Þau treysta á hefðbundin vopn leikarans, teikna sterkar myndir í rýminu og hella sér af fullum krafti í tilfinningarótið í verkinu. Þau treysta textanum til að koma tilfinningunum til skila - fylgja honum eftir af alefli og uppskera ríkulega. Allir sem halda að ómengaður no nonsense Shakespeareleikur sé leiðinlegur ættu að hlusta á Halldóru Geirharðsdóttur og Svein Geirsson gantast með hinn stíflynda Leontes eða Halldóru flytja varnarræðu Hermíónu. Hjá henni verður stakhendan að því upphafna mannamáli sem til er ætlast - tíu sinnum áhrifaríkara en óbundið mál, og fullt eins skiljanlegt og eðlilegt. Ég get ekki beðið eftir að sjá hana sem Lafði Makbeð, Portíu, Kleópötru, Ríkharð II og III, Hamlet (alltof lítið af bitastæðum kvenhlutverkum hjá Shakespeare). Harpa Arnardóttir hefur þetta líka á valdi sínu og Pálína verður nánast eins og refsinorn, eða jafnvel innri rödd Leontesar sem eyðir sextán árum í samviskubit með Pálínu sem sinn ómissandi kvalara.

Hvorki Rómeó og Júlía né Sumarævintýri hvíla samt á stjörnuleik. Ég náði til dæmis litlu sambandi við Leontes hjá Þór Tulinius, meðan afbrýðisemiskastið stóð. Fyrifram hefði ég haldið að sýning á verkinu stæði og félli með túlkun Leontesar, en svo er nú aldeilis ekki - og Þór á síðan frábæran leik sem smali í miðhlutanum og Leontes hans lifnar við í sorg sinni í seinni hlutanum.

Eins held ég að hvorki Gísli Örn né Nína Dögg verði ógleymanleg fyrir leiktúlkun sína á elskendunum ógurlegu - en fyrstu kynni Rómeós og Júlíu og svalaatriðið voru samt yfirnáttúruleg. Fóstran hans Ólafs Darra var reyndar yndisleg, svo og Merkútsíó hjá Birni Hlyni og Tíbalt Ólafs Egils var ógnvekjandi eins og vera ber, sérstaklega í fylgd sinna vöðvastæltu stríðsmanna.

Þrátt fyrir skort á stjörnuleik í aðalhlutverkum eru sýningarnar báðar fullar af lífi - soga athyglina til sín og leyfa manni að lifa sig inn í ólíkindalegan skáldaheim Shakespeares - hlægja að lágkúrulegu klámi, gráta af sorg yfir grimmum örlögum og af gleði yfir endurheimt ástvina yfir gröf og dauða.

Heilt yfir eru þessar sýningar hápunkturinn á leikhúsferðum mínum það sem af er árinu. Frábær dæmi um hvað hægt er að gera þegar Shakespeare er lesinn opnum augum og fluttur af einlægni, hvorki með nefið ofan í prentuðum textanum né með hugann við hvernig megi hlífa áhorfendum við leiðindunum. Kannski er það kraftaverk að tveir hópar hafi hitt Stratford-naglann á höfuðið á sama leikárinu - en við bjartsýnismennirnir trúum því að nú sé gullöld að renna í garð.

Grein skrifuð á Leiklisarvefinn