föstudagur, apríl 04, 2003

Lífsháski

Leikfélag Seyðisfjarðar
Félagsheimilinu Herðubreið 4. apríl 2003.

Höfundur: Ira Levin
Þýðandi: Tómas Zöega
Leikstjóri: Ágúst Torfi Magnússon.

Lífs- og sálarháski

LÍFSHÁSKI er lipurlega smíðaður spennuleikur sem hverfist um tvo leikritahöfunda, annan útbrunninn og bitran, hinn ferskan og metnaðargjarnan. Að rekja fléttuna væri auðvitað firra, enda eru á henni ótal hlykkir sem flestir koma á óvart, og hvarfpunktarnir eru sterkir og áhrifamiklir í uppfærslu Ágústs Torfa Magnússonar með Leikfélagi Seyðisfjarðar.

Sýningin er snyrtilega upp sett að mestu leyti, leikmynd og búningar ágætir. Nokkuð bar á frumsýningaróöryggi í textaflutningi sumra leikenda sem stendur auðvitað til bóta, eins má reikna með að sýningin þéttist. Leikendur skila allir skýrum persónum. Það sem helst stendur áhrifamætti Lífsháska fyrir þrifum er samt að ekki tekst fyllilega að koma til skila háskanum sem byggist upp í hverjum þætti og meðfylgjandi taugatitringi persónanna. Það er of mikil afslöppun í gangi. Á hinn bóginn eru ofbeldisatriðin óvenju vel útfærð hjá Ágústi og hans fólki og þrátt fyrir að ég þekki fléttuna tókst honum að skjóta mér skelk í bringu hvað eftir annað.

Af leikendum mæðir mest á Snorra Emilssyni sem eldri höfundinum og stendur hann sig ágætlega fyrir utan hina almennu annmarka sýningarinnar. Þá er sjáandinn sérlega skemmtilega unnin hjá Sigurveigu Gísladóttur. Sýningin er ágæt skemmtun og á skilið betri aðsókn en á frumsýningunni, þar sem skammarlega fáir voru mættir.