fimmtudagur, mars 27, 2003

Cicago

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
Samkomuhúsinu á Akureyri 27. mars 2003

Höfundar: Fred Ebb, John Kander og Bob Fosse
Þýðandi: Flosi Ólafsson
Leikstjóri: Laufey Brá Jónsdóttir
Tónlistarstjórn: Björn Þórarinsson og Helgi Vilberg Helgason
Lýsing: Róbert Lee Evensen.

Skítapakk og gúmmítöffarar

ÞAÐ er heldur hráslagalegur heimur sem birtist okkur í Chicago. Þegar Roxie Hart myrðir elskhuga sinn og mistekst að koma sökinni á vitgrannan eiginmanninn leitar hún til Billy Flynn, lögfræðings sem telur frægðina fremur en lagaklæki vera leiðina undan snörunni. Þetta er frumlegur söngleikur að forminu til, engin eiginleg sviðsmynd en leikhópur og hljómsveit sameinast um að segja söguna. Verulega skemmtilegt verk þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á skapandi hátt. Tónlistin grípandi og þýðing Flosa er frábær, að mínu mati hans besta. Eins gott að söngtextar komust vel til skila að þessu sinni.

Sýning LMA er hreint afbragð. Laufey Brá og hennar fólk hefur komist ótrúlega langt með að gera öllum þáttum þessa krefjandi verks skil. Tónlist er fantavel flutt bæði af hljómsveit og söngvurum, sviðsetningin er hugmyndarík og lifandi, leikur kraftmikill og sjálfsöruggur og þó öryggið í snjöllum dansatriðunum sé ekki alveg jafn mikið breytir það engu því verkið er skemmtilegt og persónurnar áhugaverðar þó fráhrindandi séu. Þar er athyglin, eins og vera ber.

Aðalhlutverkin, Roxie og Billy eru í góðum höndum hjá Unni Birnu Björnsdóttur og Ævari Þór Benediktssyni. Andri Már Sigurðsson er kostulegur eiginmaður og margir eiga fyndnar innkomur í smáhlutverkum, þar sem ýkjur eru dagskipunin.

En sýningin í heild er sigur hópsins. Einhver sterkasta, og áreiðanlega skemmtilegasta, söngleikjasýning framhaldsskólaleikfélags í vetur.