sunnudagur, mars 23, 2003

Söngvaseiður

Litli leikklúbburinn og Tónlistarskóli Ísafjarðar
Ísafirði 23.3.2003

Höfundar: Richard Rodgers, Oscar Hammerstein II, Howard Lindsay og Russell Crouse
Þýðing: Flosi Ólafsson
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir
Útsetningar: Hákon Leifsson
Tónlistarstjóri: Beáta Joó
Hljómsveitarstjóri: Janusz Frach
Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir
Lýsing: Sveinbjörn Björnsson.

Þrekvirki

TIL að skila verki af sauðahúsi Söngvaseiðs vel duga engin vettlingatök. Fyrir utan tónlist, sem allir heyra samstundis ef ekki er lýtalaust flutt, þarf verkið sannfærandi umgjörð til að skila tíðaranda og rómantík, stóran leikhóp með mikla útgeislun og líflega sviðsetningu til að halda spennu og hreyfingu í sýningunni. Á öllum þessum sviðum tekst aðstandendum sýningarinnar á Ísafirði mætavel upp, raunar framar öllum eðlilegum væntingum. Árangurinn er heillandi sýning, fáguð og fagmannleg.

Þórhildur þorleifsdóttir hefur látið hafa það eftir sér í viðtölum að hún sé trúlega eini Íslendingurinn sem ekki hefur séð kvikmyndagerð Söngvaseiðs, svo ég er þá ekkert að rekja söguþráðinn. En það er reyndar eins ástatt fyrir mér og Þórhildi hvað þetta varðar, auk þess sem ég hef heldur ekki séð verkið á sviði og þekkti það í raun ekki neitt þegar ég settist niður á sýningunni á sunnudaginn. Ekki get ég sagt að verkið sjálft hafi hrifið mig verulega. Framvindan er bæði hæg og ómarkviss, samtöl sum dálítið hallærisleg, endirinn snubbóttur. Það er tvennt sem heldur Söngvaseið á floti, og vel það reyndar: falleg tónlist og börnin. Fyrir utan Maríu barnfóstru er fullorðna fólkið hinsvegar óttalega flatneskjulegar smíðar.

Þó brotalamir séu í verkinu er ekki þar með sagt að sýning á því sé ekki ómaksins verð og hér hefur verið unnið af fádæma krafti á öllum sviðum. Hvergi hefur verið veittur afsláttur af kröfum. Leikmynd er snjöll og falleg, búningar réttir, dans og sviðshreyfingar áhrifaríkar, sviðsetning Þórhildar öll frábærlega markviss, söngur og tónlistarflutningur sannfærandi þó hljómburður sé með erfiðasta móti.

Lífið og sálin í sýningunni er Guðrún Jónsdóttir, en það geislar af henni í hlutverki Maríu, hinnar óstýrlátu ungnunnu. Fylgihnettir hennar, Trapp-börnin, lyfta sálinni í hvert skipti sem þau birtast. Þau Herdís Anna Jónasdóttir, Helgi Þór Arason, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Elma Sturludóttir, Anna Marzellíusardóttir, Þorgeir Jónsson og Agnes Ósk Marzellíusardóttir eru hvert öðru skemmtilegra og ná samtímis að vera lífleg og ábyrgðarfull. Samvinna þeirra við leikstjórann greinilega verið báðum til sóma. Fleiri eiga góðan leik, og það hefur augljóslega verið mikið lagt upp úr góðum heildarsvip og aga hvað leikræn tilþrif varðar.

Söngvaseiður er verkefni af þeirri stærðargráðu að í raun er það allt bæjarfélagið sem stendur að baki sýningarinnar. Það er því allra Ísfirðinga að gleðjast yfir því hve gott verk hefur verið unnið, hve mikil aðlúð, virðing og metnaður verið lagður í það. Sýningin er veisla fyrir augu og eyru, Vestfirðingar ættu að streyma í leikhúsið til að taka þátt í henni og samfagna.