föstudagur, mars 14, 2003

Fuglinn minn heitir Fótógen

Leikfélag Fjölbrautaskóla suðurlands
Leikhúsinu við Sigtún, Selfossi 14. mars 2003.

Spunaverk eftir leikhópinn og Sigrúnu Sól Ólafsdóttur
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttur
Búningar: Elín Harpa Valgeirsdóttir og Þórunn Gróa Magnúsdóttir
Tónlistarval: Birkir Kúld Pétursson
Lýsing: Guðmundur Finnbogason og Sævar Öfjörð Magnússon.

Lítill söngfugl flýgur hátt

LISTRÆN áhætta er ekki í tísku hjá leikfélögum framhaldsskólanna þessi árin, heldur róið á stjórsjóin með áherslu á fagmennsku og markaðssetningu. Á þessu eru nokkrar undantekningar og spunaverkið Fuglinn minn heitir Fótógen er besta dæmið um slíkt sem ég hef séð í vetur. Fádæma sterk sýning hvernig sem á er litið.

Verkið er unnið í kringum persónur og aðstæður tveggja Tsékhov-leikrita, Máfsins og þriggja systra. Hér eru lífsleiðir og sjálfhverfir dreifbýlingar Rússans færðir inn í íslenskt þorp og gengur sú tilfærsla algerlega upp. Verkið hverfist um heimkomu frægustu dóttur þorpsins, stórleikkonunnar Birgittu Rósar. Með henni í för er kvikmyndagerðarmaðuinn Skúli Friðjón sem hefst þegar handa við að eltast við ungpíur þorpsins, meðan sonur Birgittu reynir að vekja athygli hennar með framúrstefnulegum listgjörningi. Margt fleira fólk kemur hér við sögu, en ekki er ástæða til að rekja hana frekar. Sýningin byggist frekar upp af sterkum senum og vandaðri leikaravinnu en framvindu, sem þó er til staðar og raunar ótrúlega sterk miðað við hvernig til sýningarinnar er stofnað. Hún er kannski dáliítið lengi að enda, en ekki myndi ég treysta mér til að velja hvaða senur mættu missa sín.

Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og slíku öryggi að sveiflur á milli ótrúlegs groddaskapar og fínlegustu ljóðrænu takast fullkomlega. Sigrún Sól leysir úr læðingi bæði yfirgengilegan lágkúruhúmor og algera einlægni sem virðist ekki vefjast fyrir neinum að skila og fyrir vikið sveiflast áhorfendur með. Hópurinn sem heild hjálpast að við að drífa sýninguna áfram og flæðið virkar samtímis agað og stjórnlaust. Vel valin tónlist og áhrifamikil lýsing setja síðan punktinn yfir i-ið.

Leikhópurinn sem heild er stjarna sýningarinnar en samt er nauðsynlegt að geta nokkurra sérstaklega. Árni Grétar Jóhannsson var óborganlegur sem fyllibyttan faðir þriggja systra. Nærvera Önnu Hansen sem hin hljóðláta yngsta systir var afar sterk og söngurinn fallegur. Kristín Hrefna Halldórsdóttir var réttilega óþolandi, enda persónan byggð á andstyggilegustu persónu Tsékhovs. Bjartmar St. Steinarsson var síðan ekkert minna en magnaður í báðum sínum hlutverkum. Sem Skúli Friðjón var hann eins og Friðrik Þór í líkama Hrafns Gunnlaugssonar og í hlutverki einfeldningsins Einars var hann hjarta sýningarinnar í blóðrauðri Nóatúnspeysunni.

Fótógen er frábær skemmtun, fyndinn og sár, hágvær og hljóðlát, groddafengin og fínleg. Allir á Selfoss.