föstudagur, febrúar 28, 2003

Að eilífu

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði
Menntaskólanum á Ísafirði, 28. febrúar 2003.

Höfundur: Árni Ibsen, leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson.

Ástir samlyndra ungmenna

KANNSKI er hægt að líta á Að eilífu sem einhverskonar viðbrögð Árna Ibsen við rómantískum kómedíum á borð við ofangreint verk, [Hrein mey á leiðinni] eða allavega sem athugun á því hvernig svoleiðis efni reiðir af í íslenskum raunveruleika. Verkið lýsir samdrætti tveggja ungra Íslendinga og leið þeirra í gegnum hakkavél hinna tilbúnu og aðfengnu brúðkaupssiða sem orðnir eru kvöð á hverju því pari sem vill játa ást sína formlega. Þetta er sterkt verk, fyrst og fremst vegna þess að Árni hefur kjark til að ofskrifa ekki, segja aldrei meira en þarf. Atburðirnir tala sínu máli og hér er mikið efni fyrir hugmyndaríkan leikstjóra og kraftmikinn hóp. Og Þröstur Guðbjartsson og hans lið gerir sér svo sannarlega mat úr verkinu.

Hér er stór hópur að störfum og ná allir að leggja sitt af mörkum til að sýningin verði jafn vel heppnuð og raun ber vitni. Í forgrunni eru þau Telma Björg Kristinsdóttir og Benedikt Hreinn Einarsson sem eru prýðileg sem brúðhjónin. Þá er frammistaða Gylfa Ólafssonar í hlutverki prestsins eftirtektarverð skrípamynd.

Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og Þresti tekst samtímis að ná fram sterkum ýkjustíl og jafnframt að láta krakkana hvíla í hlutverkum sínum. Fyrir vikið verða viðbrögð, tímasetningar og ætlun persónanna sönn og skýr þó mikið gangi á og skrípalætin séu í algleymingi. Og óneitanlega léttir galgopaskapurinn kvöð fágunarinnar af leikurunum, sem er þakklátt fyrir óvana en áhugasama leikara.

Sviðsetningin er vel unnin hjá Þresti og hann nær að snúa erfiðu rými á sal Menntaskólans upp í styrkleika. Umferðarstjórn er með miklum ágætum og fullt af snjöllum hugmyndum sem þessi skemmtilegi hópur skilar vel. Að eilífu er mikil skemmtun og ættu Ísfirðingar og nágrannar þeirra að drífa sig á þær fáu sýningar sem verða á verkinu.