laugardagur, febrúar 01, 2003

Uppistand um jafnréttismál

Leikfélag Akureyrar
Samkomuhúsinu á Akureyri 1. febrúar 2003

Þrír einleikir: Olíuþrýstingsmæling dísilvéla eftir Guðmund Kr. Oddsson, Hversu langt er vestur? Eftir Hallgrím Oddsson og Maður og kona: Egglos eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Leikstjóri: Halldór E. Laxness
Leikendur: Hildigunnur Þráinsdóttir, Skúli Gautason og Þorsteinn Bachmann.


Skemmtiferð á vígvöllinn

ÞAÐ gengur á með frumsýningum hjá Leikfélagi Akureyrar. Kvöldið eftir frumsýningu á Leyndarmáli rósanna er afrakstur samkeppni um einleiki frumfluttur á sama sviði. Jafnframt er ein sýning til í fullum gangi á sviði Samkomuhússins, Hversdagslegt kraftaverk. Hvernig þetta gengur allt saman upp er ekki auðvelt að skilja, og gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.

Leikritasamkeppnir leikhúsanna hafa ekki verið að skila merkilegum sýningum síðustu árin. Val hefur iðulega orkað tvímælis og væntingar áhorfenda til verðlaunaleikrita ekki verið uppfylltar af því sem borið hefur verið á borð. Kannski hefur Leikfélagi Akureyrar tekist að finna eina leið út úr þeim ógöngum sem slíkar samkeppnir hafa ratað í undanfarið. Hér er óskað eftir smærri verkum, lagt upp með ákveðið umfjöllunarefni – hæfilega vítt þó, og síðast en ekki síst kastað upp lykilorðinu uppistand. Útkoman dregur enda dám af því formi, dálítið kæruleysisleg, án alls listræns herpings, engin vandræðaleg tilhlaup að tímamótaverkum. Öll umgjörð sýningarinnar styður þessa upplifun og stuðlar að afslöppuðu andrúmslofti. Leikskráin, tónlistin, grallaralegar kynningar Þráins Karlssonar, viðfangsefnið og samband þess við nýlega viðburði í sögu leikfélagsins. Allt hjálpast að við að fá áhorfendur til að slappa af og búa sig undir skemmtiferð. Og þeir eru heldur ekki sviknir um hana.

Fyrsti þátturinn, Olíuþrýstingsmæling díselvéla, byggir á þeirri skemmtilegu grunnhugmynd að kynjabaráttan sé tapað stríð og hinn sigraði, karlmaðurinn, þurfi að sleikja sár sín og efla baráttuandann í leyni, til dæmis undir yfirskini fyrirlestra um díselvélar. Fyrirlesarinn rekur sögu baráttunnar, greinir hvernig hún tapaðist og reynir að stappa stálinu í kynbræður sína, uppfullur af heilagri vandlætingu og réttlátri reiði hins undirokaða. Verkið er fullt af ísmeygilegu sjálfsháði og kostuleg týpan sem Þorsteinn Bacmann skapaði ýtti mjög undir það. Skemmtileg grunnhugmynd hjá Guðmundi Oddssyni en þáttinn skorti nokkuð stígandi, eftir að afstaðan og aðstæðurnar eru ljósar bætist lítið við, fyrr en í lokin þegar hnittinn endahnútur er bundinn á fyrirlesturinn og þáttinn.

Meira var spunnið í næsta þátt, sem bróðir Guðmundar, Hallgrímur, skrifar. Hversu langt er vestur birtir okkur óborganlega óframfærinn forræðislausan föður sem segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við barnsmóðurina og útlistar kenningar sínar um samskipti kynjanna almennt. Hallgrímur kemst á gott skáldlegt flug í spuna út frá hugmyndina um Guð sem konu, og innskotsatriði um Georg Bush og Saddam Hussein var mjög vel heppnað. Vel skrifaður þáttur en dálítið endasleppur. Skúli Gautason var verulega hlægilegur í hlutverkinu, en sú leið að láta hann teikna með látbragði og leikhljóðum hvert einasta smáatriði í frásögninni rímaði illa við sviðsfælni persónunnar í upphafi. Einnig skil ég ekki þá ákvörðun að láta Skúla flytja þáttinn í hljóðnema. Uppfærslan var mjög leikræn, og þátturinn er hreinræktað leikhúseintal en ekki uppistandsrútína og óþolandi að fela skipbrigði leikarans bak við óþarfan míkrófón.

Sama var upp á teningnum í síðasta þættinum og var jafnvel enn hjákátlegra, þar sem svo mikið var að gera hjá Hildigunni Þráinsdóttur í hlutverki Beru að hún þurfti bæði að hafa hefðbundinn hljóðnema og handfrjálsan búnað. Afhverju í ósköpunum? Að þessu slepptu er Maður & kona: egglos eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur afar vel heppnaður þáttur. Í honum kynnast áhorfendur Beru sem er yfirkomin og undirlögð af þörf sinni eftir að eignast barn, en því miður, ekkert hefur gengið í þeim efnum hjá henni og manni hennar. Nú hefur hún tekið trú á kenningu sem beinir kynlífinu aftur í sinn rétta farveg og helgar það á ný sínu upprunalega hlutverki: getnaði. Hún er full efasemda um heilindi eiginmannsins í þessu efni, og hennar eigin ástríður eiga líka til að setja hana af sporinu. Hildigunnur flutti þáttinn af frábæru öryggi og fítonskrafti. Skemmtilega var unnið með leikmuni, hvort sem það voru egg eða eiginmaðurinn sem stóð bísperrtur á sviðinu í líki gínu. Þessi þáttur er leikrænastur þáttanna og best upp byggður, með stöðugri stígandi og endar með mögnuðum hápunkti. Viðeigandi endir á þessari grallaralegu skoðunarferð um vígvöll kynjasamskiptanna.