fimmtudagur, janúar 23, 2003

Ráðalausir menn

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu 23. janúar 2003.

Höfundur og leikstjóri: Siguringi Sigurðsson
Leikendur: Jón Marinó Sigurðsson og Sigurður Svavar Erlingsson.

Tilraunanna virði

TILRAUNASTARFSEMI og listræn áhætta af öllu tagi nýtur einatt mikillar virðingar meðal áhugamanna um leiklist, þó almennum áhorfendum sé slétt sama um slíkt og heimti umbúðalausa skemmtun öðru fremur. Færa má fyrir því rök að metnaðargjörn áhugaleikfélög séu kjörinn vettvangur fyrir tilraumir, slíkir hópar séu minna háðir efnahagslegum forsendum sem sníða atvinnumönnum þröngan stakk. Engu að síður er starfsemi íslenskra áhugaleikhópa heilt yfir með fremur hefðbundnu sniði, bæði hvað varðar verkefnaval og efnistök. Kannski er það líka eins og við er að búast, það er jú áhugi á (hefðbundinni) leiklist sem öðru fremur knýr fólk til þátttöku í starfinu, en tilraunir og byltingar spretta einmitt af óþoli og vantrú á möguleikum hefðbundins tjáningarmáta og viðteknum formum. Ef áhugamaður verður leiður á rútínunni eru líklegri viðbrögð að snúa sér einfaldlega að einhverju öðru.

En listræn áhætta er fólgin í fleiru en formtilraunum. Þannig er það djarft hjá Leikfélagi Keflavíkur að gefa ungum höfundi tækifæri til að sjá sitt fyrsta leikverk lifna á fjölunum og það sem meira er, leyfa honum að sviðsetja það sjálfum, sem einnig er frumraun hans í því hlutverki. Árangurinn er athyglisverður á öllum sviðum og ástæða til að óska Siguringa Sigurjónssyni og Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með afraksturinn af þessari ferð út í óvissuna.

Ráðalausir menn verður að teljast réttnefni á verkinu, en það fjallar um vandræði tveggja vina í kvennamálum og ólíkar leiðir þeirra til að takast á við þann vanda. Meðan drifkraftur Jóa er fyrst og fremst greddan hverfur Siggi á vit rósraðra drauma um hið fullkomna samlíf karls og konu. Þeir rökræða og rífast um markmið og leiðir, sprengja draumablöðrurnar hvor fyrir öðrum, en hætta sér að lokum út á kjötmarkað næturlífsins. Árangurinn er fyrirsjáanlegur, þetta eru ráðalausir menn.

Siguringa lætur vel að skrifa samtöl, þau eru lipur og á eðlilegu og tilgerðarlausu talmáli, og þau voru mörg hlátrarsköllin í Frumleikhúsinu á föstudagskvöldið. Verkið er þó fremur tíðindalítið, og ef til vill voru persónurnar ekki alltaf nógu skýrar, meiri spenna hefði skapast með skarpari andstæðum. Vonandi heldur Siguringi nú áfram að skrifa fyrir leiksvið, reynslunni ríkari.

Kannski kemur ekki síður á óvart hve vel höfundi tekst upp við sviðsetninguna. Hún er tilgerðarlaus og eðlileg, eins og við á við frumflutning, verkið var látið tala. Það er heldur ekki amalegt fyrir nýbakaðan leikstjóra að hafa á að skipa jafn pottþéttum leikurum og þeir Jón Marinó Sigurðsson og Sigurður Svavar Erlingsson eru. Áreynslulaus og afslöppuð sviðsnærvera þeirra, og gott næmi fyrir kómískum tímasetningum áttu ekki minnstan þátt í að gera Ráðalausa menn að verulega ánægjulegum félagsskap, hvort sem þeir Siggi og Jói myndu trúa því eða ekki.