föstudagur, nóvember 08, 2002

Þrek og tár

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Valaskjálf 8. nóvember 2002

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Tónlistarstjóri: Jón Kristófer Arnarson.

Fortíðarvandi fjölskyldunnar

Jóhann kaupmaður hefur lifað langa og stormasama ævi. Hann á enga ósk heitari en að lifa í friði og deila með afkomendum sínum lífsvisku sinni sem er því dýrmætari sem reynslan sem hún byggir á var sárari og breyskleiki hans meiri. En lífið er ekki svona einfalt. Fortíðarvandi fjölskyldunnar er enn til staðar og er hreyfiafl atburðanna í Þreki og tárum, einkum í örlögum Gunna Gæ sem er fórnarlamb aðstæðna og skapgerðarbresta, sinna eigin og flestra sinna nánustu.

Þó þessi saga sé kannski meginþráðurinn í Þreki og tárum er ótalmargt annað sem við fáum að vita um Jóhann og fólkið hans. Allir eiga sér forsögu, allir stefna á eitthvað, vilja eitthvað, dreymir um bjartari framtíð. Okkur er sagt frá þessu öllu og drögumst inn í stórfjölskyldulífið - ekki síst í gegnum helstu fjölskylduástríðuna: tónlist. Ljúfsár dægurtónlistin, tryllt rokkið, kvartettsöngur og íslenskar einsöngsperlur. Tvennt telja Jóhann kaupmaður og Áki rakari helst geta orðið mönnum til sálubótar; tónlist og umburðarlyndi. Má vera að það sé rétt, en það bjargar ekki þeim sem ekki er við bjargandi og eru fyrir vikið þeir einu sem þarfnast björgunar. Þrek og tár er gott leikhúsverk en leysir ekki lífsgátuna, þó það nú væri.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur sýnt það undanfarin ár að þar fer hópur sem á góðum degi getur skilað flóknum og viðamiklum sýningum með fullum sóma. Það er skemmst frá því að segja að þau eiga prýðisdag að þessu sinni. Þrek og tár er lífleg sýning, vel leikin og sungin og ákaflega haganlega upp sett af leikstjóranum, Oddi Bjarna Þorkelssyni. Oddi hefur tekist sérlega vel upp að feta einstigi Ólafs Hauks milli gleði og harms, hláturs og gráts. Sýningin er full af gleði og spaugilegum smáatriðum en jafnframt tekst flestum að sýna okkur kvikuna þegar á þarf að halda. Erfiðar uppgjörssenur, til að mynda milli Jóhanns og Diddu dóttur hans og kveðjustund feðganna Einars og Davíðs, hreyfa svo sannarlega við manni. Sýningin er líka sérlega vel sviðsett, sem tryggir að athygli áhorfenda beinist þangað sem hún á að beinast, jafnvel í stórum hóp- og danssenum. Eini kaflinn sem ég var ekki fyllilega sáttur við voru lokaatriðin, örlög Gunna, brottför Davíðs og heimkoma. Þar hefði þurft meiri yfirlegu, snjallari lausn, sem í ljósi annarra hápunkta eru fyllilega á valdi leikstjóra og hans fólks.

Margir leikaranna eiga góðan dag. Einar Rafn Haraldsson skilar vel hrjúfri hlýju Jóhanns kaupmanns og af þeim Jóhönnum sem ég hef séð gefur hann einna besta tilfinningu fyrir skapgerðarbrestum og skuggalegri fortíð kaupmannsins, sem auðvelt er að týna undir góðlátlegu afa-yfirbragðinu. Aðrir góðir eru til dæmis Ágúst Ólafsson sem var sannfærandi sem hinn tvístígandi kommúnisti Einar, og þær Sigurlaug Gunnarsdóttir og Freyja Kristjánsdóttir Gjerde í hlutverkum söngsystranna Helgu og Diddu. Sérstaklega verður þó að hrósa hinum unga Hálfdáni Helga Helgasyni sem gerir þungamiðju verksins, Davíð dóttursyni Jóhanns, sterk og einlæg skil. Það verður gaman að fylgjast með þessum dreng þroskast á sviðinu.

Fleiri verða ekki taldir upp þó fyllsta ástæða væri til. Svona vandaðar sýningar gera ekki önnur félög en þau þar sem virðing fyrir viðfangsefnum og leikhúsinu er orðin sjálfsögð og viðtekin. Umgjörð er prýðileg, búningar sömuleiðis og tónlistarflutningur ágætur. Heildarútkoman er öllum aðstandendum til sóma og verður Hérðaðsbúum og nágrönnum þeirra vafalaust til gleði, drífi þeir sig í Valaskjálf sem þeir eru hér með hvattir til að gera.