laugardagur, október 26, 2002

Kardemommubærinn

Leikhópurinn Vera
Félagsheimilinu Skrúð 26. október 2002


Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson.

Ferskar Kardemommur á Fáskrúðsfirði

BJÖRN Gunnlaugsson stýrir nú í þriðja sinn leiksýningu hjá Leikhópnum Veru á Fáskrúðsfirði. Þetta hefur verið farsælt samstarf og skilað ágætum sýningum. Það sem er þó jafnvel meira um vert þá hafa tvær þessara sýninga, Dýrin í Hálsaskógi í mars í fyrra og nú Karedmommubærinn, verið að stórum hluta fluttar af grunnskólabörnum sem fá þannig tækifæri til að kynnast leikhúsvinnu þar sem greinilega er unnið af alúð og alvöru. Þetta er frábært framtak hjá leikhópnum Veru, og það er svo gleðilegur bónus þegar útkoman er bráðskemmtileg sýning, eins og raunin var með Dýrin og aftur nú í Kardemommubænum.

Varla þarf að fjölyrða um efnisþráð Kardemommubæjarins, sem fyrir utan það að draga upp skemmtilegar smámyndir af ótrúlega hamingjusömum og litríkum smábæ segir sögu af blíðlegri og átakalítilli betrun þriggja glæpamanna og endurkomu þeirra inn í samfélagið. Sem leikverk stendur það Dýrunum í Hálsaskógi nokkuð að baki, en er á hinn bóginn laust við predikunartóninn sem einkennir siðaboðskap þess verks. Kardemommubærinn er fyrirmyndarsamfélag undir blíðlegri stjórn Bastíans bæjarfógeta, ólíkt Hálsaskógi með sínum ónáttúrulegu og óframfylgjanlegu lögum.

Það er mikill barnaskari í sýningunni, enda þörf á mörgum leikurum þegar draga á upp mynd af heilum smábæ. Um þrjátíu leikarar standa á sviðinu og vissulega er greinilegt að fæstir hafa mikla leikreynslu að baki. Það breytir þó engu um það að sýningin er ágæt skemmtun, sem helgast bæði af frammistöðu leikara í burðarhlutverkum og ferskri sýn leikstjórans á efnið, en hann játar það í leikskránni að hafa aldrei séð Kardemommubæinn á sviði. Fyrir vikið er öllum hefðum í útliti, leiklausnum og túlkun persónanna kastað fyrir borð og staðinn koma óvæntir hlutir sem gleðja áhorfandann. Þetta birtist í ýmsum myndum, oft í allskyns snjöllum smáatriðum. Ætli eftirminnilegast þeirra verði ekki viðbrögð páfagauksins (í afburðaskemmtilegum meðförum Heimis Jóns Bergssonar) við því að hann sé falur fyrir aðeins fjögurhundruð krónur. Mýgrútur slíkra skemmtilegra hugmynda fylla sýninguna, gefa henni stærð og uppskera ófáar hláturrokur.

Af öðrum leikurum er rétt að nefna fyrsta ræningjana, þá Bergstein Ingólfsson, Sölva Rafn Sverrisson og Óskar Ingimar Gunnarsson og þeirra óvenju atkvæðamikla ljón, Margréti Andersdóttur. Þau standa sig öll með mikilli prýði. Þá er Bastían í öruggum höndum hjá Valdimar Mássyni, sem er bestur þegar honum tekst með herkjum að halda virðingu sinni við vandræðalegar aðstæður í ræningjabælinu þegar bjarga á ungfrú Soffíu. Skarexin sú er ágætlega leikin og sungin af Tinnu Hrönn Smáradóttur. Fleiri mætti nefna til sögunnar en einhversstaðar verður að láta staðar numið.

Tónlist er veigamikill hluti verksins, og áttu margir leikaranna í nokkrum erfiðleikum við að fylgja undirleiknum, sem var af bandi og því lítið svigrúm til að stilla saman strengi. Annað sem gerði leikurum erfitt fyrir var sú sviðslausn að láta ræningjana búa í gryfju fremst á sviðinu sem varð til þess að lítið sást af aftari bekkjum til heimilislífsins þar á bæ. Að öðru leyti var sviðið vel nýtt og góð hugmynd að stækka það með palli til hliðar við áhorfendur.

Að lokum er rétt að hvetja Fáskrúðsfirðinga og nágranna þeirra til að bregða sér í bæjarferð í Kardemommu. Þar er ósvikin og smitandi kátína á boðstólum fyrir börn á öllum aldri.