miðvikudagur, október 23, 2002

Blái hnötturinn

Leikfélag Sauðárkróks
Bifröst 23 október 2002

Höfundur: Andri Snær Magnason
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Leikendur: Agnes Skúladóttir, Árni Jónsson, Elva Hlín Harðardóttir, Eva Karlotta Einarsdóttir, Guðbrandur J. Guðbrandsson, Guðdís María Jóhannsdóttir, Guðný Katla Guðmundsdóttir, Gunnar Egill Sævarsson, Inga Margrét Benediktsdóttir, Ragna Dís Einarsdóttir, Sigurður Halldórsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Dýrmætt ævintýri

VITASKULD er það að bera í bakkafullan lækinn að hrósa Bláa hnettinum hans Andra Snæs, en það er bara ekki hægt annað. Ótrúlega efnisríkt ævintýri um gott og illt, æsku og elli, réttlæti og rangindi, stjórnmál, einstaklingshyggju og samhygð, siðleysi, þroska og fórnarlund. Eins og öll góð ævintýri er sagan margræð mjög, og mig grunar jafnvel að hún sé eigi sér fleiri hliðar en höfundur ætlaði sér.

Sagan er sem sagt góð, en leikgerð höfundar er hins vegar ekki sérlega metnaðargjarnt verk. Hún fylgir söguþræðinum afar nákvæmlega og einhvernvegin næst ekki að nýta meðul leikhússins sem skyldi til að skila galdri sögunnar. Ef efnið væri ekki svona magnað er ég hræddur um að athyglin færi fljótt á flakk.

Sýning Leikfélags Sauðárkróks er sú fyrsta sem áhugaleikfélag ræðst í eftir að verkið var frumflutt í Þjóðleikhúsinu, og örugglega ekki sú síðasta. Leikgerðin ber þess samt nokkur merki að vera skrifuð með tæknimöguleika Stóra sviðsins í huga, og í ljósi þess og annarra annmarka hennar í huga hvet ég snjalla leikhúsmenn til að skoða möguleikann á að gera nýja leikgerð sem hentaði betur þeim aðstæðum og möguleikum sem minni svið, minni tækni og meiri nálægð bjóða upp á.

Tæknilausnir Þrastar Guðbjartssonar í sýningunni á Sauðárkróki er einfaldar en nokkuð snjallar; sól og tungl, úlfar og lömb og síðast en ekki síst börn, fljúga á einfaldan hátt og trúverðugan í samhengi sýningarinnar. Örlítið meira nostur við fyrsta flugtak barnanna og innkomu úlfsins hefði þó gert þau andartök að meiri spennupunktum, og á það reyndar við víðar í sýningunni. Stundum eru lykilandartök ekki undirstrikuð nægilega með hlustun og fókus, meira lagt upp úr stuði og fjöri í hópsenunum. Ómarkviss notkun áhrifatónlistar hjálpar síðan ekki.

Þar sem sýningin hins vegar vinnur sigur er í þéttum samleik hópsins og ágætri frammistöðu þeirra þriggja leikara sem mest mæðir á. Sigurður Halldórsson er sannfærandi Gleði-Glaumur, andstyggilegt mannkerti sem engir nema sakleysingjar gætu látið blekkjast af. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Árni Jónsson ná vel að túlka þau Huldu og Brimi, bæði ungæðislegt stjórnleysið og sársaukann sem kviknar þegar afleiðingar gerða þeirra mæta þeim. Í heild nær hópurinn vel að skapa trúverðug börn, og eins að sýna okkur ellimörkin á þeim þegar Gleði-Glaumur hefur klófest æsku þeirra. Framsögn er þó upp og ofan og ekki hjálpar þegar tónlist er spiluð undir samtalsatriðum án sýnilegs tilgangs.

Búningar og gerfi eru ágætlega af hendi leyst, sérstaklega búningar sólskinsbarnanna. Ég er ekki eins sannfærður um að börnin í myrkrinu eigi að vera svartklædd, og eins voru þau meira skítug en föl. Það hefði verið gaman að sjá þau verulega óhugnanleg og augljóst að félagið hefur á að skipa öflugri förðunar- og gerfadeild sem hefði áreiðanlega komist vel frá því verkefni .

Sýning Leikfélags Sauðárkróks á Bláa hnettinum er býsna vel heppnuð sýning, þrátt fyrir fyrrnefnda annmarka. Hún hittir í mark þar sem máli skiptir; í samsömun áhorfenda við hetjurnar tvær og í efniviðnum sjálfum sem er magnaður, tímalaus og á erindi við alla.