laugardagur, október 12, 2002

Kardemommubærinn

Leikfélag Hveragerðis
Völundi, Hveragerði 12. október 2002

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Blöndal

Blíður á manninn

ÞAÐ verður að telja eðlilegt framhald af velgengni Leikfélags Hveragerðis með Dýrin í Hálsaskógi í fyrra að ráðast næst í uppfærslu á Kardemommubænum. Fyrir utan hinn elskulega tón sem gegnsýrir verk Egners eru þetta reyndar ekki sérlega lík leikrit. Í Kardemommubænum er meira lagt upp úr kostulegri samfélagslýsingu meðan Dýrin eru meira afgerandi í boðskap sínum, jafnvel um of. En sagan sem þar er sögð er skýrari, framvindan meira afgerandi og heldur trúlega betur athygli yngri barnanna, sem mörg voru orðin ansi óþreyjufull á frumsýningunni í Völundi á laugardaginn.

Vissulega er boðskapur Kardemommubæjarins samt skýr. Tvær tilraunir eru gerðar til að betrumbæta ræningjana, sem eru það eina sem skyggir á hinn óviðjafnanlega samhljóm sem einkennir mannlífið í bænum. Soffía frænka reynir fyrst með offorsi og “fussumsveii”og hefur ekki erindi sem erfiði. En Bastían og frú, með sínu blíða fasi og hlýlegu leiðbeiningum, ná umsvifalaust að gera góða og gegna borgara úr þessum stjórnlausu og síbernsku bræðrum. Bastían telur hverjum manni skylt að vera “blíður á manninn” og með fordæmi sínu hefur hann áhrif sem skipanir og frenjugangur Soffíu frænku megna ekki.

Það er með miklum ólíkindum hvernig Sigurði Blöndal og liðsmönnum hans hefur tekist að koma þessum fjölskrúðuga bæ fyrir á sviðinu í Völundi. Það var greinilega nokkuð þröngt á þingi en allt gekk þó snurðulítið fyrir sig, enda eindrægni eitt helsta einkenni bæjarbragsins. Það var helst í söngatriðum sem sviðsetningin riðlaðist, þar hefði einbeittari umferðarstjórn skilað betri árangri. Eins fannst mér leikstjóri og leikendur óþarflega feimnir við að syngja beint til áhorfenda, jafnvel þó textarnir gefi tilefni til. Alltof oft stóðu söngvarar með bakið í salinn og sungu til hinna persónanna. Fyrir vikið misstu söngvarnir margir áhrifamátt sinn og texti fór forgörðum.

Að þessum hnökrum frátöldum er sýningin hreint afbragð, og helgast það helst af frábærri frammistöðu helstu leikara. Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson nýtur sín vel í hlutverki Bastíans, og það sama má segja um Ylfu Lind Gylfadóttur, sem er Soffía eins og Soffíur eiga að v era og syngur aukinheldur afar vel. Jóhann Tr. Sigurðsson gaf Tóbíasi sannfærandi hlýlegt gamalmennisyfirbragð. En stærsta hrósið fellur samt ræningjunum í skaut. Þeir Hjörtur Már Benediktsson, Magnús Stefánsson og Steindór Gestson eru óborganlegir Kasper, Jesper og Jónatan, krafturinn, leikgleðin og samleikurinn óaðfinnanlegur, tónninn hárréttur.

Það má óska Leikfélagi Hveragerðis til hamingju með þennan Kardemommubæ. Þar ríkir gleði, og með fordæmi sínu gefur ungum sem gömlum forskrift af því hvernig hægt sé að haga mannlífi þannig að allir uni glaðir við sitt og njóti samvistanna við náungann.