sunnudagur, nóvember 10, 2002

Í bænum okkar er best að vera

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu 10. nóvember 2002

Höfundur: Ómar Jóhannsson
Leikstjóri: Helga Braga Jónsdóttir
Tónlistarstjóri: Baldur Þórir Guðmundsson
Danshöfundur: Josie Zareen.

Reykjanesbæjarrevían

EKKI er mér kunnugt um neitt leikfélag sem leggur jafnmikla rækt við revíugerð og Leikfélag Keflavíkur. Það er merkilegt, því fá viðfangsefni eru þakklátari en mannlífið í næsta nágrenni. Þetta mátti glöggt merkja af hlátrarsköllunum sem glumdu um þétt setið Frumleikhúsið þegar ég sá Í bænum okkar er best að vera, nýjustu revíu félagsins og þá fjórðu sem Ómar Jóhannsson skrifar. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja leikfélög landsins til að leggja rækt við þetta skemmtilega form. Það stælir pennafæra félagsmenn til frekari átaka, leysir úr læðingi dulda hæfileika til leiks, söngs og dans og reynslan sýnir að ef vel tekst til láta áhorfendur sig ekki vanta - fólk er ekki eins forvitið um neitt eins og sjálft sig.

Fyrirfram bjóst ég eiginlega við að skilja hvorki upp né niður í staðbundnum bröndurum og duldum vísunum í Reykjanesbæjarrevíunni. Raunin varð samt sú að ég skemmti mér prýðilega. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi reyndust ýmis atriði ekkert ýkja staðbundin. Þar má nefna skemmtilegt atriði þar sem málsmetandi Keflvíkingar - eða Reykjanessbæingar - koma að máli við góðkunnan borgarstjóraframbjóðanda og Vestmannaeying og biðja hann að sækjast eftir bæjarstjórastólnum í Keflavík - afsakið Reykjanesbæ. Annað slíkt atriði var frábær lýsing á lífinu hjá tollvörðunum á vellinum. Í öðru lagi eru vel útfærð grínatriði fyndin óháð nákvæmum skírskotunum. Þannig varð atriði í bakaríi óborganlega fyndið þó ég skildi hvorki upp né niður í því sem fram fór. Annað slíkt hét “Blámann” og var snarpt og skemmtilegt, en ekki gæti ég unnið mér það til lífs að útskýra af hverju ég hló, en ég hló nú samt.

Vissulega eru atriðin misfyndin og fyrir minn smekk eru þau næstum öll eilítið of löng. Einnig má finna að því að fæst hafa þau það sem ég veit ekki hvort nýja íslenska orðabókin kallar “Pöns”. Þau lýsa ástandi, sem oft er fyndið, teikna persónur, iðullega mjög vel, en taka sjaldnast afgerandi stefnu. Samt ná mörg þeirra að vera mjög skemmtileg og hnyttnir söngtextarnir eru gott krydd.

Uppfærslan er virkilega vel gerð hjá Helgu Brögu Jónsdóttur. Hún nær að virkja hæfileika hvers og eins, viðhalda krafti og leikgleði frá upphafi til enda og gefa sýningunni fágun sem beinir athygli áhorfandans að aðalatriðunum í hvert sinn. Einföld leikmyndin þvælist ekki fyrir og búningar þjóna sínum tilgangi vel. Vonandi á Helga Braga eftir að ráðast til starfa hjá fleiri áhugaleikfélögum eftir þessa vel heppnuðu frumraun.

Leikarahópurinn er stór og trúlega misvanur en allir valda sínum verkefnum vel. Sýning Leikfélags Keflavíkur á Í bænum okkar er best að vera er skýr, kröftug og skemmtileg - jafnvel fyrir utanbæjarmenn.