laugardagur, nóvember 30, 2002

Auga fyrir auga

Leikfélag Vestmannaeyja
Félagsheimili Vestmannaeyja 30.11.2002.

Höfundur: William Mastrosimone
Þýðandi: Jón Sævar Baldvinsson
Leikstjóri: Andrés Sigurvinsson
Leikmynd: Bjarni Ólafur Magnússon
Tónlist: Andri Eyvindsson, Aron Björn Brynjólfsson og Viktor Smári Kristjánsson
Lýsing: Hjálmar Brynjúlfsson
Förðun: Ásta Steinunn Ástþórsdóttir
Búningar: Selma Ragnarsdóttir
Leikendur: Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Júlíus Ingason og Sigríður Diljá Magnúsdóttir.

Úlfakreppa

ÓKUNNUR maður kemur sér inn á heimili konu og reynir að nauðga henni. Með snarræði tekst henni að hindra að hann komi vilja sínum fram, meiðir hann illa og lokar hann inni í arninum. Hvað er til ráða? Hún hefur engar sannanir fyrir því að hann hafi reynt að vinna henni mein, en hann er gangandi sönnun þess að hún hafi ráðist á sig. Sambýliskonur hennar koma heim og upphefst mikil togstreita og rökræður um hvað sé rétt að gera. Þetta eru í stuttu máli þær aðstæður sem William Mastrosimone notar til að varpa fram spurningum um hefnd, réttlæti og miskunn, og sérstaklega þau vandamál sem tengjast því að koma réttlæti yfir nauðgara.

Verkið er að mestu skrifað í þeim raunsæisstíl sem einkennir verk margra amerískra höfunda og útheimtir algera tilfinningalega innlifun. Á sama tíma er verkið tæknilega erfitt í sviðsetningu, í því eru ofbeldisatriði sem útheimta mikla nákvæmni og á sama tíma kraft sem þarf að virðast stjórnlaus. Auga fyrir auga er því ákaflega krefjandi viðfangsefni enda umfjöllunarefnin á mörkum hins þolanlega, og vægast sagt vogað af Leikfélagi Vestmannaeyja að takast á við það.

Það verður að segjast eins og er að leikhópurinn nær ekki fyllilega að uppfylla kröfur verksins. Best gengur þeim þegar höfundur brýtur raunsæisrammann með eintölum, sem urðu afar áhrifamikil í meðförum leikendanna. En í tilfinningaspenntum hápunktum í framvindunni náði hópurinn ekki fyllilega þeim algera trúverðugleika sem verkið gerir ráð fyrir. Hvað varðar ofbeldið þá var nauðgunartilraunin afar vel unnin og illþolandi á að horfa eins og vera ber, en síðara atriðið, þegar Maggy svarar nánast í sömu mynt, varð ekki að þeim dramatíska hápunkti sem því er ætlað.

Að sjálfsögðu var margt vel gert innan þeirra takmarkana sem fyrr var getið. Maggy er skörulega leikin af Sigríði Dilja Magnúsdóttur, staðráðin í að koma fram hefndum á illvirkjanum. Hlutverk hans er í höndum Júlíusar Ingasonar sem dregur upp skýra mynd af einstaklega ógeðfelldum náunga. Ásta Steinunn Ástþórsdóttir var skemmtileg sem hin einfalda Terry, skilaði kómískum hliðum persónunnar vel og náði svo inn að kvikunni í eintalinu um sína sáru nauðgunarreynslu. Guðný Kristjánsdóttir er hin rúðustrikaða rökhyggjukona Patty og komst ágætlega frá þessu vanþakkláta hlutverki. Allir leikendurnir ná að gera skýrar “týpur”, og þegar best lætur að gefa þeim líf. Það vantar síðan herslumuninn upp á að innlifunin verði fullkomlega eðlileg, en stór hluti áhrifamáttar verksins veltur einmitt á því.

Umgjörð; leikmynd, búningar og hljóðmynd var vel unnið. Hin stílfærða leikmynd var að mínu mati ekki sérlega viðeigandi, en lausn hennar á arninum sem allt hverfist um var þó snjöll.

LeikfélagVestmannaeyja er þessi árin að stíga sín fyrstu skref eftir að hafa legið í dvala. Viljinn til góðra verka er greinilega til staðar og með mann eins og Andrés Sigurvinsson í liðinu er framtíðin björt. Hér glíma þau við krefjandi verkefni og hafa ekki fullnaðarsigur, en örugglega áfangasigur í átt að frekari listrænum þroska í takt við hinn augljósa metnað.