mánudagur, janúar 20, 2003

Salka miðill

Leikfélag Hafnarfjarðar
Hafnarfjarðarleikhúsinu 20. janúar 2003.

Höfundar: Ármann Guðmundsson, Gunnar Björn Guðmundsson og hópurinn
Stjórnandi: Ármann Guðmundsson

Leikendur: Ármann Guðmundsson, Gunnar Björn Guðmundsson, Hildur Kristmundsdóttir, Jón Stefán Sigurðsson, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Lárus Húnfjörð, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Pálmi Sigurjónsson, Sara Blandon, Sara Guðmundsdóttir, Snorri Engilberts og Sunna Björk Haraldsdóttir.


Tilraunanna virði

TILRAUNASTARFSEMI og listræn áhætta af öllu tagi nýtur einatt mikillar virðingar meðal áhugamanna um leiklist, þó almennum áhorfendum sé slétt sama um slíkt og heimti umbúðalausa skemmtun öðru fremur. Færa má fyrir því rök að metnaðargjörn áhugaleikfélög séu kjörinn vettvangur fyrir tilraumir, slíkir hópar séu minna háðir efnahagslegum forsendum sem sníða atvinnumönnum þröngan stakk. Engu að síður er starfsemi íslenskra áhugaleikhópa heilt yfir með fremur hefðbundnu sniði, bæði hvað varðar verkefnaval og efnistök. Kannski er það líka eins og við er að búast, það er jú áhugi á (hefðbundinni) leiklist sem öðru fremur knýr fólk til þátttöku í starfinu, en tilraunir og byltingar spretta einmitt af óþoli og vantrú á möguleikum hefðbundins tjáningarmáta og viðteknum formum. Ef áhugamaður verður leiður á rútínunni eru líklegri viðbrögð að snúa sér einfaldlega að einhverju öðru.

Samt örlar á tilraunastarfsemi hjá áhugaleikfélögunum með reglulegu millibili, og nægir að nefna þar frjóa samvinnu Leikfélags Kópavogs og Ágústu Skúladóttur undanfarin leikár. Einnig hefur frumsköpun leikrita verið vaxandi þáttur í starfsemi sífellt fleiri félaga. Nú hefur Leikfélag Hafnarfjarðar sett á svið afar nýstárlega sýningu (allavega á íslenskan áhugaleikhúsmælikvarða), Sölku miðil, þar sem spuni er notaður til að sviðsetja miðilsfund. Útkoman er athyglisverð og gefur leikhúsáhugafólki ágætt tækifæri til að skoða hvers spuni er megnugur og hverjar takmarkanir hans eru.

Aðferð hópsins, og þá ekki síst leikstjórans, Ármanns Guðmundssonar, er að gera áhorfendur í raun að gestum á miðilsfundi. Leikhópurinn er síðan innan um áhorfendur sem fundargestir auk miðils og aðstoðarfólks hennar, og ef íslenskur áhugaleikhúsheimur væri örlítið stærri hefði það vafalaust aukið á áhrifamátt sýningarinnar að vita ekki hverjir voru leikarar og hverjir ekki. Hér er unnið markvisst með samband áhorfenda og viðburðar og tekst þessi þáttur sýningarinnar mjög vel.

Vel útfærð og nostursamleg umgjörð jók mjög á trúverðugleikann, og hjálpar til að setja áhorfendur í spor fundargesta. Það verður til þess að væntingar breytast, við bíðum ekki lengur í ofvæni eftir áhugaverðri atburðarás eða spennandi viðburðum. Og það var í kyrrlátum og tíðindalitlum köflum sýningarinnar sem áhrifamáttur aðferðarinnar var sterkastur. Þegar mikið gekk á komu annmarkar spunans í ljós. Eftir því sem skilaboðin að handan urðu dramatískari gekk leikurum erfiðlegar að tjá viðbrögð sín - eðlilega - en það veldur áhorfenda vonbrigðum. Á þeim stöðum saknaði ég skrifaðs texta fyrir leikarana til að nota sem leið til að túlka líðan sín og viðbrögð. Óvæntur og frábærlega vel útfærður endir sýningarinnar var undantekningin frá þessu, enda töluðu þar atburðirnir sjálfir og skilin milli leiks og raunveruleika hverfa.

Um leikarana gildir það sem að ofan er sagt. Öll áttu þau afbragðs leik í kyrrlátari köflum, en réðu síður við að skila djúpstæðri þjáningu eða flóknum tilfinningamálum til okkar, berskjölduð í þrengslum leikrýmisins og án stuðnings frá texta.

Þó Salka miðill heppnist ekki nema að hluta til sem leiksýming, telst hún í raun fullkomlega vel heppnuð tilraun. Hún er athugun á aðferð, og sem slík leiðir í ljós möguleika og annmarka hennar og fyrir það ber að þakka. Áhugafólk um tjáningarmátt leikhússins ættu að sjá þessa sýningu og kryfja á eftir, sér til gagns og gamans. Þá er auðvitað ótalin sú reynsla og þor sem þátttakendur verkefnisins taka með sér í frekari verkefni, hefðbundin jafnt sem tilraunakennd.