föstudagur, janúar 31, 2003

Leyndarmál rósanna

Leikfélag Akureyrar
Samkomuhúsinu á Akureyri 31. janúar 2003.


Höfundur: Manuel Puig
Leikstjóri og þýðandi: Halldór E. Laxness
Leikmynd og búningar: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Ingvar Björnsson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikendur: Laufey Brá Jónsdóttir og Saga Jónsdóttir.

Sterkur leikur

LEIKRIT það sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir nú á margt sameiginlegt með frægasta leikriti höfundarins, Kossi kóngulóarkonunnar. Bæði verk tefla saman ólíkum einstaklingum í afmörkuðu stofnanarými, í þeim báðum eru samskipti þeirra, valdatafl og möguleikar á vináttu í forgrunni. Bæði fjalla þau að einhverju leyti um ást og svik. Í báðum er matur - hver á hann og hver borðar hann - hreyfiafl atburða, upphaf sambands.

Helsti styrkur Manuels Puigs sem leikskálds felst tvímælalaust í persónusköpuninni og konurnar í Leyndarmáli rósanna eru þar engin undantekning, djúpar og marghliða myndir af einmana einstaklingum með erfiða lífsreynslu að baki. Veikasta hlið hans er á hinn bóginn hve stirðlega skrifuð samtölin eru oft, en Puig var fyrst og fremst skáldsagnahöfundur. Þessa sér nokkuð stað í Leyndarmáli rósanna, en þýðing leikstjórans hefur einnig á sér einkenni fljótaskriftar sem bætir ekki úr skák. Annar galli verksins er frekar veik flétta, tilraun til að skapa spennandi atburðarás sem heppnast ekki allskostar og er auk þess í raun óþarfi, persónurnar, samskipti þeirra og afhjúpun er nægt efni, heldur athyglinni og nær áhrifunum.

Í Leyndarmáli rósanna erum við stödd í sjúkrastofu á einkasjúkrahúsi með tveimur konum, sjúklingi og hjúkrunarkonu. Sjúklingurinn hefur misst alla lífslöngun við dauða dóttursonar síns og búið um sig bak við brynju kaldhæðni og skeytingarleysis. Hjúkrunarkonan glímir líka við fortíðarvanda í sínu lífi. Eftir því sem konurnar kynnast betur fáum við meiri upplýsingar um fortíð þeirra, og hvernig harðneskjulegt og hefðafreðið samfélag hefur mótað þær. Báðar hafa staðið frammi fyrir erfiðu vali í ástamálum og báðar svikið sjálfar sig. Þessum upplýsingum er að hluta til miðlað með draumkenndum innskotssenum þar sem persónurnar ganga inn í hlutverk í fortíð hvor annarrar. Þessi uppbrot á annars raunsæislegu formi verksins eru snjöll, og Puig leikur sér skemmtilega með óljós mörkin milli draums og veruleika, sýndar og reyndar, í sönnum suður-amerískum töfraraunsæisstíl. Þá gefa atriðin leikkonunum tækifæri til að sýna á sér nýjar hliðar, en "aukapersónurnar" sem þær leika kallast einnig á við höfuðpersónurnar, spegla þær og dýpka.

Sýning Leikfélags Akureyrar á Leyndarmáli rósanna er áhrifamikil og sterk. Þar skiptir mestu máli afburðagóð frammistaða leikkvennanna tveggja og skýr og einföld sviðsetning Halldórs E. Laxness.

Túlkun Sögu Jónsdóttur á sjúklingnum er stórbrotin mannlýsing. Í meðförum hennar birtist þessi yfirborðssterka en innviðaveika kona í öllum sínum mótsögnum, hroka og harmi. Þetta er ekki fínlegur leikur, en sterkur og safaríkur, nákvæmlega það sem hlutverkið þarfnast og stíll verksins kallar á. Einhvern tíma hefði svona frammistaða verið kölluð leiksigur.

Laufey Brá Jónsdóttir gerir hjúkrunarkonunni frábær skil. Með hófstilltum en spennuþrungnum leik málar hún skýra mynd af konu sem hefur bælt og nánast brotið á bak aftur drauma sína og lífsþorsta, og við skynjum spennuna sem þetta val hefur skapað. Það er alltaf eitthvað að gerast bak við harða grímu hjúkrunarkonunnar, við vitum ekki alltaf hvað það er, en skynjum ofsann. Þá sjaldan hún missir stjórnina, til að mynda í sterku atriði við dánarbeð móður sinnar, er það óvænt og ógnvekjandi.

Halldór E. Laxness heldur síðan fast utan um allt þetta líf og býr því sterka umgjörð með einföldum hreyfingum þar sem engu er ofgert. Leikmynd Þórarins Blöndal er af sama meiði, stílhrein, einföld og köld, sem myndar mótvægi við hitann í leiknum. Hljóð eru notuð á áhrifamikinn hátt í innskotssenum, en tónlistarnotkun er að mínu mati of bundin við Suður-Ameríku, og þá sérstaklega heimaland höfundar, Argentínu. Það er ekkert sér-latneskt við þetta verk, og þessi ofuráhersla dregur úr almennu gildi þess. Stóra undantekningin frá þessu er áhrifamikil og snjöll notkun leikstjórans á hinu þekkta lagi Violetu Parra, Þökk sé þessu lífi. En það er ekki vegna þess að það er argentínskt sem það virkar, heldur af því að það er frábært og frá hjartanu.

Leyndarmál rósanna er sterkt leikrit þrátt fyrir gallana og sýning Leikfélags Akureyrar er sterk leikhúsupplifun, borin uppi af innlifuðum leik tveggja sterkra leikkvenna. Það er því fyllsta ástæða fyrir Akureyringa og aðra til að sækja Samkomuhúsið heim á næstunni.