laugardagur, febrúar 08, 2003

A fjölum félagsins

Halaleikhópurinn
Halinn 8. febrúar 2003.

Höfundur: Unnur María Sólmundardóttir
Leikstjóri: Edda V. Guðmundsdóttir
Lýsing: Vilhjálmur Hjálmarsson
Búningar Bára Jónsdóttir

Barist um sálir

HINN einstaki Halaleikhópur er tíu ára um þessar mundir, sem er nokkuð hár aldur fyrir áhugaleikhóp í Reykjavík. Starfsemin virðist standa með blóma, Halinn leggur metnað, líf og sál, í hvert einasta verkefni og lætur ekki líkamlegar hindranir sumra félaganna aftra sér að ráðast í þau verkefni sem hugur stendur til, en fyrir þá sem ekki vita er Halaleikhópurinn leikfélag fatlaðra og ófatlaðra og hefur kjörorðin "Leiklist fyrir alla". Á afrekalistanum má sjá verk á borð við Túskildingsóperuna og Gullna hliðið, sem er sú sýning sem er mér eftirminnilegust hjá Halaleikhópnum, ekki síst fyrir ógleymanlega frammistöðu Ómars Walderhaug í hlutverki kerlingar. Þá hefur Halinn í þrígang frumflutt verk sem skrifuð hafa verið fyrir hópinn og bætist nú Unnur María Sólmundardóttir í hóp Þorsteins Guðmundssonar og Eddu V. Guðmundsdóttur sem Halahöfundur með frumraun sinni á sviði leikritunar.

Viðfangsefni Á fjölum félagsins er einkar nærtækt á afmæli leikfélags. Það fjallar um hin aðskiljanlegu vandamál sem mæta fólki sem hefur fengið þá undarlegu flugu í höfuðið að stofna áhugaleikhóp. Rammi sýningarinnar er fyrirlestur sem Frú Þorgerður Kvaran leikhússpekúlant flytur um efnið, en máli sínu til stuðnings og áréttingar sýnir hún atriði úr stofnun slíks félags og viðburði á fyrsta starfsári þess. Þá bresta bæði hún og "leikhópurinn" í söng með reglulegu millibili og leggja út af reynslu sinni í bundnu máli.

Unnur María er lunkinn höfundur og getur greinilega komið efni sínu í leikrænt form. Persónurnar í leikhópnum voru vel mótaðar og fengu örugga meðferð hjá nokkrum helstu sprautum félagsins, þeim Árna Salomonssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Jóni Stefánssyni, Hönnu Margréti Kristleifsdóttur og Ásdísi Úlfarsdóttur. Höfundi hættir dálítið til að festast í aukaatriðum og eyða í þau löngu máli. Dæmi um þetta er mikil áhersla sem hún leggur á smásmyglisleg atriði varðandi fundarsköp og félagslög. Þetta var fyndið í upphafsatriðinu þar sem stofnun félags virðist nánast vonlaus vegna formgalla, en fær á endanum of mikið vægi á kostnað annarra þátta starfsins.

Samdráttur tveggja félagsmanna var skemmtilega kortlagður og dekstur leikstjóra við dyntótta leikara sömuleiðis. Fyrirlestur Frú Þorgerðar þótti mér hins vegar ekki góð hugmynd og bæta litlu við hið eiginlega leikverk. Frábær frammistaða Kolbrúnar D. Kristinsdóttur í hlutverki hennar var samt nokkuð sem ég hefði síður viljað missa af.

Söngtextar eru margir lipurlega gerðir en urðu nokkuð lotulangir og erindin mörg án þess að verið væri að segja eitthvað nýtt. Margar snjallar hugmyndir krydda verkið og skemmtilega er leikið á áhorfendur. Sviðsetning Eddu V. Guðmundsdóttur er ágæt í erfiðu rými Halans, húsnæði leikhópsins.

Það eru hinar leiknu svipmyndir af því hindrunarhlaupi sem stofnun leikhóps og uppsetning leikrits getur verið sem er sterkasti hluti leikritsins og gerir ásamt frammistöðu leikaranna sýninguna að ágætri skemmtun. Unni Maríu hvet ég til að halda áfram við lyklaborðið. Halaleikhópnum óska ég til hamingju með afmælið og langra lífdaga.